Vatnsréttindi á Þjórsársvæðinu

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:08:10 (2473)

2002-12-11 15:08:10# 128. lþ. 52.1 fundur 147. mál: #A vatnsréttindi á Þjórsársvæðinu# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma með þetta mál inn í þingsali og sömuleiðis hæstv. forsrh. fyrir svörin. Það er laukrétt sem sagt er að með þessum úrskurði hefur skapast viss réttaróvissa miðað við þá samninga sem áður voru í gildi. Hæstv. forsrh. upplýsti um að það væri verið að vinna að frumvörpum til að taka af öll tvímæli um þann samning sem var gerður fyrr á árum. Ég held að það sé rétt stefna að taka á þessu máli en það þarf samt, herra forseti, og ég vil vekja athygli á því, að ræða betur málefni Landsvirkjunar, m.a. í ljósi umræðna um hugsanlega sölu Reykjavíkurborgar og umræðu í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Það er orðin óvissa mjög víða í sambandi við Landsvirkjun þessa dagana og ég tel því brýnt, þó að það verði ekki gert í þessum fyrirspurnatíma, að Alþingi gefist ráðrúm til að fara betur yfir þau mál sem tengjast Landsvirkjun, ekki endilega í kjölfar þessa dóms heldur með heildstæðari hætti eins og hér er opnað á.