Íslenskt táknmál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:25:48 (2481)

2002-12-11 15:25:48# 128. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A íslenskt táknmál# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Hinn 11. mars 1999 var samþykkt ályktun á Alþingi um að menntmrh. yrði falið að gera athugun á réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi í samanburði við réttarstöðu heyrnarlausra í nágrannalöndunum með það að markmiði að tryggja sem best stöðu íslenska táknmálsins. Í nál. menntmn. sem fylgdi tillögu hennar til framangreindrar þál. kom m.a. fram að gera yrði athugun á því hvort rétt væri að festa það í lög að táknmálið yrði móðurmál heyrnarlausra eða hvort hægt væri að tryggja réttarstöðu heyrnarlausra á annan hátt. Í samræmi við orðalag ályktunar Alþingis og athugasemda menntmn. sem henni fylgdu leit menntmrn. svo á að verkefni þess væri að taka saman yfirlit yfir réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi eins og hún væri í dag og afla síðan upplýsinga um núverandi réttarstöðu heyrnarlausra annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt yrði réttarstaða heyrnarlausra í þessum löndum borin saman og að endingu yrði bent á leiðir sem mögulegar væru til að tryggja sem best stöðu íslenska táknmálsins. Menntmrn. gerði síðan athugun sem var kynnt í ríkisstjórn í mars 2000 og hún leiddi í ljós að staða táknmálsins er að mörgu leyti sterk hér á landi, sérstaklega í skólakerfinu, auk þess sem ýmis lög og lagaákvæði snerta eða taka á rétti heyrnarlausra til túlkaþjónustu.

Í framhaldi af þessari athugun var skipuð nefnd með fulltrúum menntmrn., félmrn. og heilbrrn. sem skyldi gera tillögu um lögbundinn rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu. Lauk nefndin störfum í lok septembermánaðar 2001 og skilaði af sér drögum að frv. um táknmálsþjónustu þar sem m.a. var lagður til lögbundinn réttur heyrnarlausra til túlkaþjónustu í atvinnulífinu og í daglegu lífi. Nokkur álitamál tengd mögulegri lagasetningu til að styrkja stöðu táknmálsins eru þó enn uppi. Finna þarf lausn þessara álitamála áður en ákvörðun verður tekin um hvort og með hvaða hætti sé mögulegt að auka táknmálsþjónustu og hver skuli standa straum af þeim kostnaði sem slíkri þjónustu fylgir. Um er að ræða álitamál sem tengjast stöðu þessa málaflokks milli ráðuneyta og einnig aðkomu sveitarfélaga að þessari þjónustu. Ég mun beita mér fyrir því á vettvangi ríkisstjórnarinnar að farið verði í þá vinnu því að hún skiptir miklu máli fyrir framhald og framgang þessa mikilvæga máls.

Þegar spurt er: ,,Hefur verið gerður samanburður á réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi og í nágrannalöndum okkar?`` er svarið að í þeirri athugun menntmrn. sem ég minntist á áðan var gerður samanburður á réttarstöðunni hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. Niðurstöður liggja fyrir en því miður er tæplega ráðrúm til þess að tíunda þær hér. Hins vegar má nálgast athugunina í heild á vef menntmrn.

Spurt er: ,,Hvernig er háttað rétti heyrnarlausra til túlkaþjónustu og hvað er gert af hálfu ríkisins til að tryggja þennan rétt?`` Eins og ég nefndi hér á undan er í athugun ráðuneytisins fjallað um ýmis lög og lagagákvæði sem snerta eða taka á rétti heyrnarlausra til túlkaþjónustu. Sem dæmi get ég nefnt lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, lög um málefni fatlaðra, lög um réttindi sjúklinga, lög um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar auk ákvæða í lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Á Íslandi hefur á sviði menntamála verið tekið mikilvægt skref í þá átt að efla stöðu táknmáls heyrnarlausra innan skólakerfisins og efla þannig félagslega stöðu þeirra í samfélaginu. Í aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla er heyrnarlausum tryggður réttur til að öðlast menntun í táknmáli heyrnarlausra. Tekið er tillit til sérþarfa þeirra í því sambandi og með því hefur verið lagður grunnur að því að tryggja heyrnarlausum möguleika á að nota það tjáningarform sem þeir þurfa á að halda til að geta tekið þátt í samfélaginu á sem flestum sviðum. Til að þessi grunnur geti nýst heyrnarlausum sem best er nauðsynlegt að fjölga sérfræðingum sem hafa kunnáttu til að kenna táknmál til að þjónusta slíkra sérfræðinga geti verið sem víðast í skólakerfinu og í sem flestum landshlutum. Í því sambandi hefur að nýju verið tekin upp kennsla í táknmálstúlkun við Háskóla Íslands.

Að lokum er spurt hvort uppi séu áform um að setja sérlög um málefni heyrnarlausra. Þar er svarið --- ég sé að tími minn er búinn svo ég verð að nýta mér tækifærið til að koma aftur inn á þetta í frekari svörum.