Byggðamál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:43:40 (2511)

2002-12-11 16:43:40# 128. lþ. 52.8 fundur 416. mál: #A byggðamál# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:43]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ef það er neikvæðni að vilja skilja á hvaða vegferð hæstv. iðnrh. er með byggðamálin þá er ég neikvæð, já. Ég sit í iðnn. Ég tók þátt í umfjöllun og afgreiðslu þessa máls á liðnu vori en ég skil hreint og klárlega ekki hvernig málið getur haft þann framgang sem mér heyrist hæstv. iðnrh. láta það hafa. Hún segir í upphafi ræðu sinnar áðan eða vitnar þar í þáltill. sem Alþingi samþykkti, byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti. Alþingi samþykkti enga byggðaáætlun. Alþingi samþykkti þetta plagg hér, fimm liði með almennum yfirlýsingum. Þar eru engar hugmyndir, engar áætlanir, ekkert sem bitastætt er. Þess vegna hljótum við sem tókum þátt í því að vinna málið í nefndinni og fylgdumst síðan með því hver yrðu afdrif þess í meðförum stjórnarflokkanna, að óska eftir því að það komi fram hvaðan þær hugmyndir eru teknar sem verið er að vinna með og eru núna kallaðar byggðaáætlun ríkisstjórnar eða Alþingis.

Ég vil taka undir með síðasta hv. ræðumanni sem vitnaði í orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í fjárlagaumræðunni sem saknar þess að ekkert virðist gert með meirihlutaálit iðnn. Við erum ekki að biðja um að tekið sé tillit til álits minni hlutans. Það er ekki venjan hér. En það er ekkert mark tekið heldur á meiri hlutanum. Spurningin er líka þessi: Er Sjálfstfl. sáttur við að hæstv. ráðherra velji það út úr pakkanum, út úr athugasemdunum sem ráðherranum hentar eða hvaðan eru hugmyndirnar runnar? Í rauninni, herra forseti: Hverra byggðaáætlun er þetta? Að minnsta kosti virðist hæstv. iðnrh. velta af sér ábyrgðinni því að nú virðist sem svo að hvert ráðuneyti eða hver ráðherra sé orðinn byggðaráðherra því hún varpar ábyrgð á ákveðnum þáttum yfir á aðra ráðherra og önnur ráðuneyti. Hvaða þættir eru það, herra forseti?