Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 18:28:25 (2517)

2002-12-11 18:28:25# 128. lþ. 53.1 fundur 444. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla, beingreiðslur) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 128. lþ.

[18:28]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hendir þennan hv. þm. að kalla rangfærslur sínar yfirleitt staðreyndir. Við vitum að hann fer ekki hér með staðreyndir. Hann er fyrst og fremst í pólitík.

Það var nú Alþýðuflokkurinn sálugi --- eða er hann ekki sálaður? --- sem kom á matarskattinum, barðist fyrir honum með kjafti og klóm og fór í þann mikla leiðangur sem hafði auðvitað áhrif á matarverðið.

Landbúnaðurinn skapar mikil verðmæti. Í kringum landbúnaðinn vinnur auðvitað gríðarlega margt fólk bæði beint, ég tala ekki um þá sem koma að honum óbeint. Hann er náttúrlega grunnur að miklum nýjum atvinnuvegum, eins og ferðaþjónustunni o.s.frv. Bændur eru sterkur þáttur í verðmætasköpun og þjóðartekjum landsins.

Ég ætla nú ekki að deila við hv. þm. um þessi atriði enda heyrir hv. þm. ekki allt sem maður segir. Ég sagði að ég mundi auðvitað treysta landbn. til að afgreiða það sem hún treystir sér til og teldi mikilvægast fyrir áramótin. Ég sagði að hún gæti þess vegna tekið hluta þessa máls og skoðað betur ef hún teldi þörf á því. Það liggur alveg skýrt fyrir af minni hálfu.

Eins og ég gat um áðan var endurskoðuninni flýtt. Hún tók samt langan tíma og ég tek undir það með hv. þm. að málið kemur of seint fram og hefði þurft að leggja það fyrr fram á þessu haustþingi.