2002-12-13 00:52:28# 128. lþ. 56.5 fundur 440. mál: #A húsaleigubætur# (greiðsluþátttaka ríkissjóðs o.fl.) frv. 168/2002, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[24:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt hjá hv. formanni félmn., hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, að ekki hafi verið fjallað um þessar breytingar í félmn. Við lögðum þessar brtt. fram í fyrra. Þær voru reyndar í tveimur frumvörpum þá. Þau frumvörp voru sent til umsagnar og fjallað um málið í félmn. þannig að það er búið að fjalla um þetta mál.

Það getur vel verið að hv. þm. finnist þetta ekki smámál en þetta er mikið réttlætismál sem snýr að einstæðum foreldrum með börn á framfæri sínu með sameiginlega forsjá. Þeim er mismunað í dag.

Þetta snýr jafnframt að námsmönnum sem ekki hafa komist inn á stúdentagarða en félagar þeirra á stúdentagörðum eiga rétt á húsaleigubótum þó að þeir deili þar bæði eldhúsaðstöðu og salernisaðstöðu. Námsmenn eiga ekki sama rétt ef þeir leigja úti í bæ og greiða mun hærri leigu fyrir sambærilega aðstöðu, eins og við vitum að er. Þetta er þannig stórt og mikið réttlætismál.

En ef hv. þm. er tilbúinn að gefa vilyrði um að þetta verði samþykkt sem sérstakt þingmál síðar á vetrinum þá er ég tilbúin að draga þessar brtt. til baka, þ.e. telji hv. þm. meiri líkur á því að tillögur okkar verði samþykktar sem sérstakt þingmál en sem brtt. hér.

Ég tel það mjög brýnt að þessi breyting verði gerð á lögunum um húsaleigubætur. Þess erum við að leggja þessar tillögur fram.