2002-12-13 00:56:07# 128. lþ. 56.5 fundur 440. mál: #A húsaleigubætur# (greiðsluþátttaka ríkissjóðs o.fl.) frv. 168/2002, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[24:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið skrifaði ég undir þennan texta með ákveðnum fyrirvara. Fyrirvari minn snýr auðvitað að þeim brtt. sem hér eru lagðar fram og ég hef mælt fyrir. Ég minni á að farið var yfir þessar brtt. á síðasta vetri. Þá komu þessar brtt. fram og þá var fjallað um þær í nefndinni og þær skoðaðar. Menn voru hlynntir því að skoða þessar breytingar þó að þær næðu ekki fram að ganga þá.

Ég er vissulega tilbúin að draga þessar tillögur til baka ef menn eru tilbúnir að taka málið til afgreiðslu en ég gat ekki heyrt á hv. þm., formanni nefndarinnar, að hún væri sérstaklega á þeim buxunum að afgreiða þetta úr nefndinni. Ég hef ekki orðið vör við að það hafi verið vilji fyrir því að taka þetta sérstaklega fyrir.

Reyndar var búið að fjalla um þetta í nefndinni í fyrra þannig að menn vita um hvað málið snýst og ættu nokkurn veginn að vita hvað þetta kostar. Þurfi hins vegar að finna út úr því frekar þá getum við gert það á næsta félagsmálanefndarfundi. Mér sýnist á svipnum á hv. þm. að hún sé til í það.