2002-12-13 01:23:52# 128. lþ. 56.9 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv. 130/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[25:23]

Guðjón A. Kristjánsson (frh.):

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði, að séð yrði til þess að þessi mál færu vel inn í nóttina og yrðu hér síðast á dagskránni. Mér er ekkert að vanbúnaði að vaka eina nótt með herra forseta. Kannski er rétt að ég byrji á byrjuninni og tali um kvótakerfið, uppruna þess og fæðingu. Ég byrja á árinu 1984.

Í upphafi ársins 1984 var ákveðið að koma á kvótakerfi hér á landi sem við höfum búið við síðan, herra forseti. Kerfið hefur verið mjög umdeilt alla tíð. Það var upphaflega byggt á veiðireynslu en með tilurð þess árið 1984 má rekja til þess að álitið var af fiskifræðingum að draga þyrfti harkalega saman þorskveiðar. Reyndin var hins vegar sú, eftir að árið var liðið, að við veiddum nánast það sama árið 1984, fyrsta ár kvótakerfisins, eins og á árinu 1983. Af því má sjá að ekki hefði þurft að lenda í hræðslukasti og koma á þessu kvótakerfi. Það varð samt niðurstaðan og við höfum síðan setið uppi með kvótakerfið með ýmsum tilbrigðum. Lengi framan af var sóknarmark við hliðina á aflamarkinu.

Upphaf þessa máls var auðvitað að menn töldu að af náttúrulegum ástæðum þyrfti að draga saman veiðar. Menn töldu sig standa frammi fyrir ákveðnum vanda sem menn treystu sér ekki til að taka á með öðrum hætti en að stofna hér til kvótakerfis, sem var og gert. Hægt er að fara nokkuð fljótt yfir sögu og nefna að á árinum 1985 voru aftur sett lög sem samanstóðu af aflamarks- og sóknarmarki, en sóknarmarkið var hins vegar lagfært verulega þannig að fjöldi skipa valdi sér sóknarmark. Því hélt fram til 1990. Við vorum bæði með aflamark og sóknarmark og staðreyndin var að skipunum í sóknarmarkinu fjölgaði allan þann tíma.

Sífellt fleiri skip völdu sér að vera í sóknarmarkskerfinu. Það þótti einhverjum í þessu þjóðfélagi ekki nógu góður kostur. Þeir vildu snúa þeirri þróun við og koma öllum yfir í aflamarkskerfi. Ég hygg að fjármálafyrirtækin hafi verið með í því, bankar og sjóðir. Menn vildu búa til veð í óveiddum fiski, sem var og gert. Upp úr 1990 var hér tekið upp einhliða kvótakerfi með framseljanlegum heimildum. Síðan höfum við búið við það.

Enginn árangur hefur orðið við uppbyggingu fiskstofnana í þessu kerfi, því miður. Flest hefur farið aftur á bak að því leyti að því er varðar hina almennu botnfiskstofna. Fyrir vikið sitjum við uppi með manngert vandamál. Það er í raun það sem við erum að fást við í þessu litla frv. sem hér er til umræðu. Við erum að fást við vandamál sem við höfum sjálf búið til. Við höfum aukið á þennan vanda með því að færa smábátana inn í kvótakerfið fyrir rúmu ári síðan. Í þessu frv. segir eitthvað á þá leið að hér þurfi að gera eitthvað til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. En sá vandi er manngerður, þ.e. það var tekin ákvörðun um það á vegum ríkisstjórnarinnar að setja kvóta yfir smábátaflotann, þann útveg sem hafði reynst byggðunum happadrýgstur þegar stórgreifarnir voru búnir að safna til sín kvótanum úr byggðunum, þegar hinar frægu sameiningar höfðu átt sér stað sem eru reyndar enn að eiga sér stað og aflakvótinn sífellt að safnast á færri hendur.

Nú er svo komið, herra forseti, að tíu fyrirtæki í sjávarútvegi eiga orðið meira en helminginn af aflaheimildunum. Allir sjá hvert stefnir, þ.e. samþjöppunin verður meiri á næstu vikum og mánuðum. Nú stefnir í slíkt hið sama hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað og Síldarverksmiðjum ríkisins, sem nú eiga orðið talsverðan hlut í útgerð.

Reyndar fór fram mjög umdeild sala á Síldarverksmiðjum ríkisins á sínum tíma. Ríkið seldi þær og margir hafa kallað það gjöf þegar Síldarverksmiðjurnar voru seldar. En þeir sem tóku við þeirri gjöf, þ.e. keyptu, hafa síðan farið í að kaupa sér hlut í mörgum uppsjávarveiðiskipum. Nú er sá hringurinn að lokast og sú blokk stefnir til sameiningar við fyrirtæki austur á Neskaupstað. Samherji sem er eitt af stærstu fyrirtækjum hér á landi á reyndar orðið í báðum þeim fyrirtækjum. Nýlega var Grandi að kaupa í fyrirtæki í Grindavík, Þorbirni Fiskanesi, og þar stefnir í sameiningu.

Þannig ber allt að sama brunni, herra forseti. Áfram munu aflaheimildirnar þjappast og atvinnurétturinn þar með á örfá fyrirtæki. Það fylgir því miður þessum sameiningum að þeir sem fyrirtækin eiga ætla sér að ná út úr þeim miklu hagræði fyrir sig og góðum arði af sínu fé en eins og ævinlega. Í öllu þessu sameiningarferli, hefur fólk orðið fyrir skaða vegna þess að atvinnurétturinn fer. Það er ekki verið að horfa á atvinnu fólks í svona sameiningarferli. Þar er fyrst og fremst verið að horfa á arðsemi þess fjár sem menn hafa bundið í fyrirtækjunum og reyndar einnig í óveiddum fiski í sjónum, sem aldrei skyldi verið hafa.

[25:30]

Frumvarpið er sem sagt um það að taka á ákveðnu vandamáli sem er eins og ég gat um áðan vandamál sem fylgir lagasetningu um að hafa kvótasett allar tegundir í smábátakerfinu og ég spái því, herra forseti, ef svo heldur fram sem horfir að ríkisstjórnarflokkarnir haldi velli eftir kosningar, þá muni á næsta kjörtímabili renna upp sá dagur að þessi kerfi, smábátakerfið og stóra aflamarkskerfið muni renna saman í eitt kerfi og þá vitum við nákvæmlega hvað heldur áfram. Það mun verða áframhaldandi samþjöppun og áframhaldandi uppkaup. Og aftur mun koma að því að þær byggðir sem komu undir sig fótunum í smábátakerfinu og náðu að rétta sig við eftir að hafa misst atvinnuréttinn frá sér af stærri skipunum munu aftur sitja uppi aflaheimildarlausar og þá verður fyrst vandi í byggðarlögum sem þarf að bregðast við vegna samdráttar í sjávarútvegi, herra forseti. Sá sem núna er verður sjálfsagt lítill í samanburði við þann sem þá kemur upp.

En það sem málið snýst um nú er að færa 500 lestir af botnfiski yfir á þetta fiskveiðiár. Þetta var sérstakur pottur sem átti að úthluta á síðasta ári en var ekki gert. Þennan pott á að sameina við aðrar 1.500 lestir þannig að alls verður þá úthlutað í þann sérstaka pott á þessu fiskiveiðiári 2.000 lestum af fiski, aðallega af þorski en einnig af ýsu, ufsa og steinbít. Sjútvrn. hefur nýlega í samráði við Byggðastofnun valið að skipta þessum aflaheimildum í prósentuhlutfalli niður á svæði landsins, mismunandi eftir því hvernig talið hefur verið að vandinn væri á viðkomandi landsvæðum. Síðan vantar enn þá reglurnar sem eiga að koma til þegar úthluta á þessu, þ.e. hvernig á að meta þá sem hæfir teljast til að fá þessar aflaheimildir. Og nú vildi ég biðja hv. formann sjútvn. að hlusta örstutt á mál mitt.

Ég er reyndar kominn að því þegar fara á að deila þessum potti út til þeirra byggðarlaga sem lent hafa í hinum manngerða vanda eins og ég vil kalla hann, þ.e. vanda sem stafar af ákveðinni lagasetningu, þá þarf auðvitað að finna einhverja aðferð til þess að þetta dreifist. Og þar sem ráðuneytið hefur ákveðið að ákveðinn hluti heimildanna fari á viss svæði og aðilum síðan gefinn kostur á að sækja um þær, þá langar mig til að beina þeirri spurningu til hv. formanns sjútvn. sem hér er til andsvara, af því að hæstv. sjútvrh. er alltaf á eilífum ferðalögum úti í heimi og hefur sést frekar lítið hér í þinginu þannig að ekki dugar að spyrja hann, svo ég hlýt að beina spurningum mínum til hv. 1. þm. Vestf. og formanns sjútvn., Einars K. Guðfinnssonar, um hvernig hann álíti eða hvort hann viti hvaða reglum verði beitt þegar fara á að velja þá sem sækja um á hverju svæði fyrir sig. Eru þær reglur til eða mótaðar? Hvað verður þar sérstaklega lagt til grundvallar? Verður sérstaklega lagt til grundvallar að einn staður hafi lent í meiri samdrætti en annar eða verður sérstaklega lagt til grundvallar að sjómenn á einum stað hafi minni aflaheimildir en aðrir eða verður lagt til grundvallar að þeir sjómenn sem áður hafa fengið úr pottum fái ekki úr þessum potti nú, því úthlutað var úr þremur pottum, ef ég man rétt, þegar verið var að breyta lögunum um smábátana? Verður lagt mat á samlegðaráhrif, þ.e. ef útgerð, vinnsla og jafnvel fleiri aðilar koma að pakkanum þannig að úr verði sem mest atvinna í viðkomandi byggðarlagi eða verður sérstaklega litið til þess sem við vitum báðir jafn vel um að nokkrir staðir, m.a. í kjördæmi okkar, hafa talið sig fara sérlega illa út úr þeirri úthlutun sem þegar hefur verið úthlutað? Sérstaklega eru þar nokkrir smábátamenn sem telja sig hafa borið þar mjög skarðan hlut frá borði miðað við aðra og sitja í raun og veru uppi með það að þeir hafi nánast engar úthlutanir fengið úr þeim pottum sem þegar hefur verið úthlutað úr vegna þess að einhverjir aðrir voru þar fyrir á staðnum í aflamarkskerfinu og höfðu á einhverjum tímapunkti fengið aðgang að ákveðnum byggðakvótum sem var ekki einu sinni ákveðið af sjútvrn. að færu á viðkomandi staði eða hefðu slík áhrif heldur voru það bæjarfélögin á viðkomandi svæðum, þ.e. í Vesturbyggð í öðru dæminu og Ísafjarðarbær í hinu dæminu sem ákváðu að setja veiðiheimildir inn á ákveðna staði til að bregðast við þáverandi miklu vandamáli í atvinnuuppbyggingu vegna þess að þá höfðu stóru skipin verið seld burtu með allar sínar aflaheimildir og staðirnir sátu eftir algerlega atvinnulausir. En vegna þeirrar stöðu að bæjarstjórnin hafði tekið þessa ákvörðun á sínum tíma, þá virtist vera litið svo á að þeir sem voru búsettir á þeim stöðum þótt þeir hefðu gert þar út alla sína tíð löngu áður en þeir sem núna reka þar fyrirtæki og njóta aðgangs að þeim byggðakvóta sem áður var úthlutað komu á staðina, þá sátu þeir eftir með allt óbætt í samanburði við aðra.

Ég vona að hv. formaður sjútvn. hafi að meginefni náð þessum spurningum. Ég veit að hann þekkir það vel til þess máls sem ég er að nefna hvað varðar pottana, fortíðina og nútíðina og það í hvaða stöðu menn eru á einstökum svæðum. Síðan kemur auðvitað til viðbótar svæði eins og Húnaflóinn þar sem rækjan hefur algerlega horfið. Vissulega hafa menn fengið þar einhverjar bætur skv. hinum almennu lögum, 9. gr. þeirra, en ég hygg að samt séu mörg byggðarlög sem beri þar skarðan hlut. Frá Blönduósi t.d. hafa nýlega verið seld skip með allar aflaheimildir og þar sitja eftir atvinnulausir sjómenn og ekki er fyrirséð hvernig atvinnuástandið verður á þeim stöðum. Það vakna því margar spurningar þó að búið sé að ákveða núna af sjútvrn. að einhver ákveðin prósent lendi á einhverju ákveðnu svæði, t.d. Ströndum og Húnaflóa annars vegar og norðanverðum Vestfjörðum hins vegar og sunnanverðum Vestfjörðum og síðan svæði á Breiðafirði og sunnan Snæfellsness o.s.frv. og síðan Suðurströndin og svo aftur Norðurlandið, Miðnorðurlandið, Norðausturlandið og Austfirðir og alveg suður á Hornafjörð. Öllum svæðunum hefur verið markaður einhver prósenturammi.

Ég vil því spyrja og fylla út í þær spurningar mínar hvort sama reglan verði notuð alls staðar því það var ekki gert við suma þessa potta áður. Það voru alls konar prósentuviðmiðanir sem voru notaðar og ein prósenta á einum stað og önnur á hinum og það verður auðvitað mjög fróðlegt þegar þessu verður öllu lokið að láta sjútvrh. svara því í skriflegu svari hvernig þetta munstur hefur komið út þannig að menn sjái hvernig manngerð vandamál sem verða til í byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi af manna völdum eru leyst með handgerðum úthlutunum.

Almennt vil ég segja, herra forseti, þó að ég skilji að í þeirri stöðu sem upp er komin sé betra að úthluta þessum tonnum en að gera það ekki, um þær aðferðir að hafa farið þá leið í fyrsta lagi að setja kvótakerfi yfir smábátana í ákveðnum fisktegundum þá voru engin rök fyrir þeim. Við getum tekið ýsuna sem dæmi, undir veiðiálagi smábátanna stækkar ýsustofninn um 82% að mati Hafrannsóknastofnunar, sem jók ýsuaflann strax eftir að búið var að kvótasetja hann um 82% þannig að það veiðiálag sem menn töldu að væri svo stórhættulegt, m.a. forusta LÍÚ, fyrir ýsustofninn því að menn höfðu frelsi í því í smábátunum, varð til þess m.a. að stofninn stækkaði þetta undir veiðiálaginu. Og annar stofn, steinbíturinn, hefur einnig verið að stækka undir þessu veiðiálagi og þar hefur einnig verið bætt við kvótann. Einnig vill svo einkennilega til, herra forseti, að það hefur sennilega aldrei verið jafnmikill ufsi á Íslandsmiðum síðustu fimm, sex árin og nú. Ufsinn er náttúrlega flökkufiskur og gengur inn á miðin við Ísland eins og reyndar miðin við Færeyjar og það hefur svo sem aldrei verið kortlagt hvernig göngur ufsans eru en vitað er að ufsinn flakkar á milli landa og er alveg spurning hvort hann átti nokkurn tíma heima í einhverju kvótakerfi.

Síðan er þriðja útgáfan af þessu öllu saman sem nýlega er komin upp varðandi togveiðiskipin sem eru í uppsjávarveiðinni, bæði í kolmunna og síld, en eru að fá þorsk að einhverjum hluta, ufsa og karfa í flotvörpur sínar, að sá afli er ekki einu sinni kvótareiknaður. Hann er alveg utan við þetta kerfi og þar er náttúrlega enn einn flöturinn kominn upp á þessu kvótastýringarkerfi öllu saman. Minnist ég þá karlsins í Hafnarfirði sem var sviptur veiðileyfinu þegar hann fór 4 kg fram yfir í karfa um árið og fékk sekt fyrir ef ég man rétt, 4 eða 12 kg, ég man ekki hvort heldur var. Öllum þessum reglum hefur því verið beitt með ýmsum hætti en menn sitja uppi með það að framkvæmdin er ekki eins gagnvart öllum í dag.

En fróðlegt væri ef hv. formaður sjútvn. gæti veitt okkur þingmönnum nokkra innsýn í það ef hann veit með hvaða aðferðum þessi kvóti verður nú metinn til úthlutunar til einstakra aðila. Skiptir þar miklu máli staða einstaklinga úr fyrri kvótum, staða svæðanna, staða atvinnustigsins á viðkomandi stað, hvar atvinnuástand hefur breyst nýlega eða þau samlegðaráhrif sem umsækjendur hyggjast ná fram með því að fá til sín aukna kvóta?