Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 215. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 218  —  215. mál.




Frumvarp til laga



um fjármálafyrirtæki.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

    Lög þessi gilda um innlend fjármálafyrirtæki og um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi. Með fjármálafyrirtæki er í lögum þessum átt við fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr.

II. KAFLI
Starfsleyfi.
A. Veiting starfsleyfis.
2. gr.
Starfsleyfisveitandi.

    Fjármálaeftirlitið veitir starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Fjármálafyrirtæki er heimilt að hefja starfsemi þegar það hefur fengið starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins.

3. gr.
Leyfisskyld starfsemi.

    Eftirtalin starfsemi er starfsleyfisskyld samkvæmt lögum þessum:
     1.      Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi:
                  a.      Innlán.
                  b.      Skuldaviðurkenningar.
     2.      Veiting útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi.
     3.      Eignaleiga þegar fyrirtæki hefur slíka starfsemi að meginstarfsemi sinni. Með eignaleigu er átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma.
     4.      Útgáfa og umsýsla greiðslukorta.
     5.      Útgáfa og umsýsla rafeyris.
     6.      Viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti:
                  a.      Móttaka og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga og framkvæmd slíkra fyrirmæla fyrir reikning þriðja aðila.
                  b.      Eignastýring, sbr. lög um verðbréfaviðskipti.
                  c.      Sölutrygging í tengslum við útgáfu eins eða fleiri fjármálagerninga eða markaðssetning slíkrar útgáfu.
                  d.      Umsjón með útboði verðbréfa.
     7.      Rekstur verðbréfasjóða.
    Um aðrar starfsheimildir fjármálafyrirtækja fer skv. IV. kafla.

4. gr.
Tegundir starfsleyfa.

    Fjármálafyrirtæki getur fengið starfsleyfi sem:
     1.      Viðskiptabanki skv. 1.–6. tölul. 3. gr. Viðskiptabanki skal þó ætíð hafa starfsleyfi og veita þjónustu skv. 1. og 2. tölul. 3. gr.
     2.      Sparisjóður skv. 1.–6. tölul. 3. gr. Sparisjóður skal þó ætíð hafa starfsleyfi og veita þjónustu skv. 1. og 2. tölul. 3. gr.
     3.      Lánafyrirtæki skv. b-lið 1. tölul. og 2.–6. tölul. 3. gr. Lánafyrirtæki skal ætíð hafa starfsleyfi skv. b-lið 1. tölul. og 2. tölul. 3. gr. Lánafyrirtæki hefur heimild til að kalla sig fjárfestingarbanka.
     4.      Rafeyrisfyrirtæki skv. 5. tölul. 3. gr.
     5.      Verðbréfafyrirtæki skv. 6. tölul. 3. gr.
     6.      Verðbréfamiðlun skv. a-lið 6. tölul. 3. gr. Verðbréfamiðlun getur fengið heimild til viðskipta fyrir eigin reikning skv. 26. gr., sbr. 14. gr.
     7.      Rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. 7. tölul. og b-lið 6. tölul. 3. gr.
    Fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. telst vera lánastofnun í skilningi laga þessara.

5. gr.
    Umsókn.

    Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg og henni skulu fylgja:
     1.      Upplýsingar um tegund starfsleyfis sem sótt er um, sbr. 4. gr., leyfisskylda starfsemi, sbr. 3. gr., og aðra starfsemi sem fyrirhuguð er, sbr. IV. kafla.
     2.      Samþykktir félags.
     3.      Upplýsingar um starfsskipulag þar sem m.a. komi fram upplýsingar um hvernig fyrirhugaðri starfsemi verði sinnt.
     4.      Upplýsingar um innra skipulag fyrirtækisins, þ.m.t. eftirlits- og starfsreglur.
     5.      Viðskipta- og rekstraráætlun þar sem m.a. komi fram fyrirhugaður vöxtur og uppbygging eigin fjár.
     6.      Upplýsingar um stofnendur, hluthafa eða stofnfjáreigendur, sbr. VI. kafla.
     7.      Upplýsingar um stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur.
     8.      Staðfesting endurskoðanda á innborgun hlutafjár eða stofnfjár.
     9.      Upplýsingar um náin tengsl fyrirtækisins við einstaklinga eða lögaðila, sbr. 18. gr.
     10.      Aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

6. gr.
Veiting starfsleyfis.

    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna umsækjanda um það þegar umsókn telst fullnægjandi.
    Í starfsleyfi skal koma fram til hvaða tegundar leyfið tekur, sbr. 4. gr., hvaða starfsleyfisskylda starfsemi heimilt er að stunda á grundvelli þess og aðra starfsemi sem fyrirhugað er að stunda skv. IV. kafla.
    Fjármálafyrirtæki er óheimilt að hefja starfsemi fyrr en hlutafé eða stofnfé hefur verið greitt að fullu í reiðufé.
    Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningar um starfsleyfi fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði.

7. gr.
Synjun starfsleyfis.

    Fullnægi umsókn ekki skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins skal það synja um starfsleyfi.
    Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn skal rökstudd og tilkynnt fyrirtækinu innan þriggja mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar. Synjun skal þó alltaf hafa borist fyrirtækinu tólf mánuðum frá móttöku umsóknar.

8. gr.
Skrá yfir fjármálafyrirtæki.

    Fjármálaeftirlitið skal halda skrá yfir fjármálafyrirtæki og útibú þeirra þar sem fram koma allar helstu upplýsingar um hlutaðeigandi fyrirtæki. Breytingar á áður skráðum upplýsingum, þar á meðal um fjölgun eða fækkun útibúa, skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu fyrir fram.

B. Afturköllun starfsleyfis.
9. gr.
Ástæður afturköllunar.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta:
     1.      hafi fyrirtækið fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
     2.      fullnægi fyrirtækið ekki ákvæðum laga þessara um stofnfé, hlutafé, eigið fé eða fjölda stofnfjáreigenda,
     3.      nýti fyrirtækið ekki starfsleyfið innan tólf mánaða frá því að það var veitt, afsali sér ótvírætt leyfinu eða hætti starfsemi í meira en sex mánuði samfellt,
     4.      fullnægi hluthafar, stjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækis ekki þeim hæfisskilyrðum sem fram koma í 42. og 52. gr.,
     5.      sé um að ræða náin tengsl fjármálafyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila með þeim hætti sem um getur í 18. gr.,
     6.      hafi verið kveðinn upp úrskurður um slit fyrirtækisins skv. XII. kafla,
     7.      brjóti fyrirtækið að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal fyrirtækinu veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að banna fjármálafyrirtæki að stunda tiltekna starfsemi sem því er heimil skv. IV. kafla. Um slíkt bann gilda ákvæði 1. og 2. mgr.

10. gr.
Tilkynning um afturköllun og slit fjármálafyrirtækis.

    Afturköllun á starfsleyfi fjármálafyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Starfræki fyrirtækið útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.
    Ef starfsleyfi fjármálafyrirtækis er afturkallað skal fyrirtækinu slitið og fer um slitin samkvæmt ákvæðum XII. kafla.

III. KAFLI
Stofnun og starfsemi.
11. gr.
Búsetuskilyrði stofnenda.

    Einungis einstaklingar og lögaðilar búsettir hér á landi geta verið stofnendur fjármálafyrirtækja.
    Ríkisborgarar og lögaðilar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eru undanþegnir búsetuskilyrði 1. mgr. Viðskiptaráðherra er heimilt að veita ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.

12. gr.
Heiti.

    Fjármálafyrirtækjum er einum heimilt að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðin „banki“, „viðskiptabanki“, „fjárfestingarbanki“, „sparisjóður“, „rafeyrisfyrirtæki“, „verðbréfafyrirtæki“, „verðbréfamiðlun“ og „rekstrarfélag verðbréfasjóðs“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum, í samræmi við starfsleyfi sitt.
    Sé hætta á að villst verði á nöfnum erlends og innlends fjármálafyrirtækis sem starfa hér á landi getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annað fyrirtækjanna verði auðkennt sérstaklega.
    Fjármálafyrirtæki má ekki auðkenna starfsemi sína á þann hátt að unnt sé að líta svo á að um Seðlabanka Íslands geti verið að ræða.

13. gr.
Rekstrarform.

    Fjármálafyrirtæki skal starfa sem hlutafélag. Um rekstrarform sparisjóða gilda ákvæði VIII. kafla.

14. gr.
Hlutafé og stofnfé.

    Hlutafé viðskiptabanka og lánafyrirtækis og stofnfé sparisjóðs, sbr. þó 77. gr., skal að lágmarki nema 450 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 5 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
    Hlutafé rafeyrisfyrirtækis skal að lágmarki nema 90 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 1 milljónar evra í íslenskum krónum.
    Hlutafé verðbréfafyrirtækis skal að lágmarki nema 65 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 730 þúsunda evra í íslenskum krónum.
    Hlutafé verðbréfamiðlunar með heimild til viðskipta fyrir eigin reikning skal að lágmarki nema 11 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 125 þúsunda evra í íslenskum krónum.
    Hlutafé verðbréfamiðlunar sem ekki hefur heimild til viðskipta fyrir eigin reikning skal að lágmarki nema 4,5 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 50 þúsunda evra í íslenskum krónum.
    Hlutafé rekstrarfélags verðbréfasjóða skal að lágmarki nema 11 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 125 þúsunda evra í íslenskum krónum. Hlutafé skal hækka um sem nemur 0,02% af eignum verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem rekstrarfélagið rekur og eru umfram 25 milljarða króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 250 milljóna evra í íslenskum krónum. Hlutafé skv. 1. og 2. málsl. skal þó ekki nema hærri fjárhæð en 1 milljarði króna eða sem nemur jafnvirði 10 milljóna evra í íslenskum krónum. Með eignum rekstrarfélags samkvæmt þessari málsgrein skal telja eignir verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
    Óski fjármálafyrirtæki eftir nýju starfsleyfi skal bókfært eigið fé í stað hlutafjár eða stofnfjár ekki nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 1.–6. mgr.
    Bókfært eigið fé fjármálafyrirtækis má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 1.–6. mgr.

15. gr.
Höfuðstöðvar.

    Fjármálafyrirtæki, sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., skal hafa höfuðstöðvar sínar hér á landi.

16. gr.
Endurskoðunardeild.

    Við fjármálafyrirtæki skal starfa endurskoðunardeild sem annast innri endurskoðun. Ákvæði þetta nær ekki til verðbréfamiðlana og rafeyrisfyrirtækja. Stjórn fjármálafyrirtækis skal ráða forstöðumann endurskoðunardeildar fyrirtækisins sem fer með innri endurskoðun í umboði hennar. Innri endurskoðun er hluti af skipulagi fjármálafyrirtækja og er þáttur í eftirlitskerfi þeirra. Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af eðli og umfangi rekstrarins, veitt undanþágu frá starfrækslu slíkrar endurskoðunardeildar og sett þeim fyrirtækjum skilyrði sem slíka undanþágu fá.

17. gr.
Eftirlitskerfi með áhættu.

    Fjármálafyrirtæki skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína. Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækis.

18. gr.
Náin tengsl.

    Starfsleyfi skal ekki veitt ef náin tengsl fjármálafyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila hindra eftirlit með fyrirtækinu af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Hið sama á við ef lög eða reglur, sem gilda um slíka tengda aðila, hindra eftirlit.
    Með nánum tengslum er átt við þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast gegnum:
     a.      viðskiptahagsmuni, þ.e. beint eða óbeint eignarhald á minnst 20% hlutafjár eða yfirráð yfir 20% af atkvæðisrétti fyrirtækis; eða
     b.      yfirráð, þ.e. tengsl á milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis eða sambærileg tengsl milli einstaklings eða lögaðila og fyrirtækis; einnig skal litið á dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis sem dótturfyrirtæki móðurfyrirtækisins sem er í forsvari fyrir þessi fyrirtæki.
    Þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar eru varanlega tengdir sömu persónunni með yfirráðatengslum skal einnig litið á það sem náin tengsl milli aðila.

19. gr.
Góðir viðskiptahættir og venjur.

    Fjármálafyrirtæki skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.

IV. KAFLI
Starfsheimildir.
A. Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki.
20. gr.
Starfsheimildir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja.

    Starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða getur tekið til eftirfarandi þátta:
     1.      Móttöku innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi.
     2.      Útlánastarfsemi, m.a.:
                  a.      neytendalána,
                  b.      langtímaveðlána,
                  c.      kröfukaupa og kaupa skuldaskjala og
                  d.      viðskiptalána.
     3.      Fjármögnunarleigu.
     4.      Greiðslumiðlunar.
     5.      Útgáfu og umsýslu greiðslumiðla (t.d. greiðslukorta, rafeyris, ferðatékka og víxla).
     6.      Að veita ábyrgðir og tryggingar.
     7.      Viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:
                  a.      greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
                  b.      erlendan gjaldeyri,
                  c.      framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
                  d.      gengisbundin bréf og vaxtabréf og
                  e.      verðbréf.
     8.      Þátttöku í útboðum verðbréfa og þjónustuviðskipta tengdra slíkum útboðum.
     9.      Ráðgjafar til fyrirtækja um uppbyggingu höfuðstóls, áætlanagerð og skyld mál og ráðgjafar og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
     10.      Peningamiðlunar.
     11.      Stjórnunar og ráðgjafar varðandi samval verðbréfa.
     12.      Vörslu og ávöxtunar verðbréfa.
     13.      Upplýsinga um lánstraust (lánshæfi).
     14.      Útleigu geymsluhólfa.
    Starfsemi lánafyrirtækja getur tekið til 1.–14. tölul. 1. mgr. að því undanskildu að lánafyrirtækjum er óheimilt að taka á móti innlánum.
    Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki hafa heimildir til viðskipta með verðbréf skv. 25. gr.

21. gr
Önnur þjónustustarfsemi og hliðarstarfsemi.

    Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt að sinna annarri þjónustustarfsemi sem er í eðlilegum tengslum við heimildir þeirra skv. 20. gr.
    Auk þjónustu skv. 20. gr. er viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum heimilt að stunda hliðarstarfsemi, enda sé hún í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins. Ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar tekur einnig til þess þegar fjármálafyrirtæki á eignarhlut í eða er þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi. Senda skal tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins ef fyrirhugað er að stunda starfsemi samkvæmt þessari málsgrein. Með slíkri tilkynningu skulu fylgja upplýsingar um hina fyrirhuguðu starfsemi sem Fjármálaeftirlitið metur fullnægjandi. Hafi Fjármálaeftirlitið ekki gert athugasemd við hina fyrirhuguðu starfsemi innan eins mánaðar frá því að fullnægjandi tilkynning berst skal litið svo á að heimilt sé að hefja starfsemina. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að starfsemin sé stunduð í sérstöku félagi, en skal þá tilkynna viðkomandi aðila um þá ákvörðun sína innan fyrrgreinds frests. Sé vanrækt að senda tilkynningu samkvæmt þessari málsgrein getur Fjármálaeftirlitið bannað starfsemina eða krafist þess að hún sé stunduð í sérstöku félagi.
    Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt samkvæmt sérstökum samningi að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins að taka að sér að veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita slíka þjónustu.

22. gr.
Tímabundin starfsemi og yfirtaka eigna.

    Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er því aðeins heimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem um getur í þessum kafla að það sé tímabundið og í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila. Tilkynning hér að lútandi skal send Fjármálaeftirlitinu.
    Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og hagkvæmt er.

23. gr.
Heimildir til vátryggingastarfsemi.

    Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt að reka vátryggingafélag í sérstöku félagi.

B. Önnur fjármálafyrirtæki.
24. gr.
Starfsheimildir rafeyrisfyrirtækis.

    Starfsemi rafeyrisfyrirtækis tekur til útgáfu og umsýslu rafeyris. Önnur starfsemi rafeyrisfyrirtækis en útgáfa rafeyris er takmörkuð við:
     1.      náskylda fjármála- eða aðra þjónustu, svo sem umsýslu rafeyris með því að annast rekstrarþætti og aðra stoðþætti sem tengjast útgáfu hans og útgáfu og umsýslu annarra greiðslumiðla, að undanskilinni hvers konar lánveitingu, og
     2.      geymslu gagna frá fyrirtækjum eða hinu opinbera á hinum rafræna miðli sem rafeyrir er geymdur á.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. og V. kafla er erlendu rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu hér á landi einungis heimilt að gefa út rafeyri. Sama gildir um innlent rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu erlendis.

25. gr.
Starfsheimildir verðbréfafyrirtækis.

    Starfsemi verðbréfafyrirtækis getur tekið til eftirfarandi þátta í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga:
     1.      Þjónustu:
                  a.      Móttöku og miðlunar fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga og framkvæmdar slíkra fyrirmæla fyrir reikning þriðja aðila.
                  b.      Viðskipta með fjármálagerninga fyrir eigin reikning.
                  c.      Eignastýringar, sbr. lög um verðbréfaviðskipti.
                  d.      Sölutryggingar í tengslum við útgáfu eins eða fleiri fjármálagerninga eða markaðssetningar slíkrar útgáfu.
                  e.      Umsjónar með útboði verðbréfa.
     2.      Viðbótarþjónustu:
                  a.      Vörslu og stjórnunar í tengslum við einn eða fleiri fjármálagerninga.
                  b.      Öryggisvörslu fjár.
                  c.      Veitingar lánsheimilda, ábyrgða eða lána til fjárfestis þannig að hann geti átt viðskipti með einn eða fleiri fjármálagerninga ef verðbréfafyrirtæki sem veitir lánsheimildina eða lánið annast viðskiptin.
                  d.      Ráðgjafar til fyrirtækja um uppbyggingu eigin fjár, stefnumótun og skyld mál og ráðgjafar og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
                  e.      Þjónustu í tengslum við sölutryggingu.
                  f.      Fjárfestingarráðgjafar varðandi einn eða fleiri fjármálagerning.
                  g.      Gjaldeyrisþjónustu ef umrædd viðskipti eru liður í fjárfestingarþjónustu.
                  h.      Fræðslu um og kynningar á verðbréfaviðskiptum.

26. gr.
Starfsheimildir verðbréfamiðlunar.

    Starfsemi verðbréfamiðlunar tekur til milligöngu um kaup eða sölu fjármálagerninga og sérfræðiráðgjöf um verðbréfaviðskipti þar sem endurgjald kemur fyrir. Verðbréfamiðlun er einungis heimilt að taka við fjármunum eða verðbréfum viðskiptavina í starfsemi sinni um skamman tíma, enda sé slíkt nauðsynlegt til að ljúka viðskiptum sem fyrirtækið hefur annast milligöngu um.
    Heildarverðmæti þeirra fjármálagerninga sem verðbréfamiðlun skv. 4. mgr. 14. gr. er heimilt að varðveita fyrir eigin reikning skal ekki fara yfir 15% af stofnfé en um starfsheimildir verðbréfamiðlunar samkvæmt þessari grein, svo sem innan hvaða tímamarka slík viðskipti eru heimil, skal setja nánari ákvæði í reglugerð að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.
    Verðbréfamiðlanir skulu setja tryggingu fyrir tjóni sem þær kunna að baka viðskiptavinum sínum í starfsemi sinni. Nánari ákvæði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála að öðru leyti skal setja í reglugerð.

27. gr.
Starfsheimildir rekstrarfélags.

    Starfsheimildir rekstrarfélags taka ávallt til reksturs verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Rekstrarfélagi er einnig heimilt að stunda eftirfarandi starfsemi:
     1.      Eignarstýringu.
     2.      Fjárfestingarráðgjöf.
     3.      Vörslu og stjórnun með fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu.
    Rekstrarfélag með heimildir til eignarstýringar skal leita samþykkis viðskiptavinar áður en fjárfest er í verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu.
    Rekstrarfélagi er óheimilt að eignast verðbréf með atkvæðisrétti sem gerir þeim kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa.

C. Eignarhlutir í fyrirtækjum og stórar áhættur.
28. gr.
Hámark virkra eignarhluta.

    Fjármálafyrirtæki mega ekki eiga virka eignarhluti í einstökum fyrirtækjum sem ekki eru fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði og nema hærri fjárhæð en 15% af eigin fé hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis áður en tekið hefur verið tillit til frádráttar skv. 5. mgr. 85. gr. Með fyrirtæki tengdu fjármálasviði er átt við fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða stundar einhverja þá starfsemi sem um getur í 2.–12. tölul. 1. mgr. 20. gr.
    Samtala virkra eignarhluta skv. 1. mgr. má ekki nema hærri fjárhæð en 60% af eigin fé fjármálafyrirtækis áður en tekið hefur verið tillit til frádráttar skv. 5. mgr. 85. gr. Bókfært virði samanlagðra eignarhluta sem fjármálafyrirtæki hefur eignast má ekki nema hærri fjárhæð en 100% af eigin fé þess. Eignarhlutir sem dregnir skulu frá við útreikning á eigin fé og eignarhlutir í fyrirtækjum, sem mynda samstæðu, skulu ekki teknir með við útreikning hlutfalla skv. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar. Tímabundinn eignarhlutur fjármálafyrirtækis í fyrirtæki skv. 22. gr. og eignarhlutir í veltubók skulu ekki teknir með við útreikning skv. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar.
    Heimilt er að eignarhlutir fjármálafyrirtækja fari fram yfir hlutföll skv. 1. mgr. eða 1. málsl. 2. mgr., enda sé sú fjárhæð sem umfram er dregin frá við útreikning eigin fjár hlutaðeigandi fyrirtækis. Fari eignarhlutir samtímis fram yfir hlutföll skv. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. skal hærri fjárhæðin af þeim sem umfram eru dregin frá við útreikning eigin fjár hlutaðeigandi fyrirtækis.
    Fjármálafyrirtæki skulu gefa Fjármálaeftirlitinu sundurliðað yfirlit yfir eignarhluti í öðrum fjármálafyrirtækjum sem þeir hafa eignast eða tekið að veði, sbr. þó 64. gr.
    Við útreikning á hlutföllum skv. 1.–2. mgr. og 29. gr. skal taka tillit til framvirkra kaup- og sölusamninga og annarra afleiðusamninga sem fjármálafyrirtæki hefur gert um eigin hlutabréf. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um þetta atriði.
    Til veltubókar teljast fjármálagerningar og hrávara sem fjármálafyrirtæki hefur eignast eða heldur eftir með endursölu í huga og/eða í því skyni að hagnast á skammtímabreytingum á markaðsvirði þessara skjala eða öðrum verð- eða vaxtabreytingum. Jafnframt teljast til veltubókar stöður í fjármálagerningum og hrávörum sem verða til við samtímis skipti á höfuðstólsfjárhæðum, svo og fjármálagerningar sem fjármálafyrirtæki er aðili að í því skyni að baktryggja aðra þætti veltubókar. Til veltubókar teljast enn fremur áhættuþættir tengdir óuppgerðum og ófrágengnum viðskiptum og afleiðusamningum sem verslað er með utan verðbréfamarkaðar, svo og áhættuþættir er tengjast skuldbindingum stofnunar sem myndast vegna viðskipta með fjármálagerninga og hrávörur í veltubók.

29. gr.
Eigin hlutir.

    Fjármálafyrirtæki má ekki án samþykkis Fjármálaeftirlitsins eiga eða taka að veði eigin hlutabréf sem nemur hærri fjárhæð að nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins. Eignist fyrirtækið meira af hlutafénu, svo sem með kaupum eða fyrir annað framsal, skal það hafa selt hlutabréf þannig að lögmæltu marki sé náð innan þriggja mánaða. Um heimildir fjármálafyrirtækis til að eignast eigin hluti gilda að öðru leyti ákvæði VIII. kafla hlutafélagalaga.
    Veiti fjármálafyrirtæki í tengslum við hlutafjárútboð lán til kaupa á eigin hlutabréfum eða stofnfjárhlutum fyrir hærri fjárhæð en 5% af nafnverði heildarhlutafjár eða stofnfjár hlutaðeigandi fyrirtækis skulu settar traustar tryggingar fyrir lánum sem eru umfram framangreint hlutfall.

30. gr.
Takmarkanir á stórum áhættum.

    Áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna má ekki fara fram úr 25% af eigin fé fjármálafyrirtækis. Samtala fyrir stórar áhættur má ekki fara yfir 800% af eigin fé en með stórri áhættu er átt við þá áhættu sem nemur 10% eða meira af eigin fé. Með eigin fé er átt við eigið fé skv. 84. gr.
    Með áhættu skv. 1. mgr. er átt við lánveitingar, verðbréfaeign, eignarhluta og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila, svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu.
    Fari áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækis yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Fjármálaeftirlitið getur veitt fyrirtækinu frest til að koma skuldbindingum sínum í lögmætt horf.
    Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um stórar áhættur fjármálafyrirtækja.

V. KAFLI
Starfsemi fjármálafyrirtækja á milli landa.
A. Starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi.
31. gr.
Útibú fjármálafyrirtækja innan EES.

    Erlent fjármálafyrirtæki, sem hefur staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, getur stofnsett útibú hér á landi tveimur mánuðum eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða starfsemi frá lögbæru yfirvaldi í heimaríki fyrirtækisins. Útibúinu er heimilt að stunda hverja þá starfsemi sem lög þessi taka til, enda sé hún fyrirtækinu heimil í heimaríki þess. Svissnesk fjármálafyrirtæki geta stofnað útibú með þeim hætti sem segir í þessari málsgrein, enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og til fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra yfirvalda.
    Með útibúi er átt við starfsstöð sem að lögum er hluti af fjármálafyrirtæki og annast beint, að öllu leyti eða að hluta þá starfsemi sem fram fer hjá fjármálafyrirtækjum.
    Fjármálaeftirlitið gengur úr skugga um eftirlit með hinu erlenda fyrirtæki í heimaríkinu, starfsheimildir þess og starfsemi.
    Ákvæði hlutafélagalaga varðandi útibú erlendra hlutafélaga eiga ekki við um útibú skv. 1. mgr.

32. gr.
Þjónusta fjármálafyrirtækis innan EES án stofnunar útibús.

    Erlendu fjármálafyrirtæki, sem hefur staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi án stofnunar útibús. Ekki er heimilt að hefja slíka þjónustu fyrr en Fjármálaeftirlitið hefur fengið tilkynningu þar að lútandi frá lögbærum yfirvöldum í heimaríki fyrirtækisins. Heimildir til að veita þjónustu hér á landi erlendis frá samkvæmt þessari grein verða þó aldrei víðtækari en starfsheimildir fyrirtækisins í heimaríki þess. Svissnesk fjármálafyrirtæki geta veitt þjónustu samkvæmt þessari grein, enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og til fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra yfirvalda.

33. gr.
Þjónusta eða stofnun útibús hjá fjármálafyrirtæki utan EES.

    Fjármálaeftirlitið getur heimilað fjármálafyrirtæki með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú hér á landi eða veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis er að fyrirtækið hafi leyfi til að stunda starfsemi í heimaríki sínu hliðstæða þeirri sem það hyggst stunda hér á landi og að sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu.

34. gr.
Heimildir til að banna starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að banna erlendu fjármálafyrirtæki að stunda starfsemi hér á landi hafi hlutaðeigandi fyrirtæki brotið gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða samþykktum og reglum settum samkvæmt þeim eða gegn ákvæðum annarra laga um fjármálafyrirtæki, enda hafi ekki tekist að binda enda á framangreind brot samkvæmt tilmælum eða viðurlögum þessara laga.
    Áður en ákvörðun er tekin um bann skv. 1. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að grípa til bráðabirgðaaðgerða ef brýna nauðsyn ber til í því skyni að vernda hagsmuni innlánseigenda, fjárfesta og viðskiptamanna fjármálafyrirtækis.
    Málsmeðferð skv. 1. og 2. mgr. fer að ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið eftir því sem við á.

35. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra skal setja reglugerð um heimildir erlendra fjármálafyrirtækja til starfsemi hér á landi og innlendra fjármálafyrirtækja erlendis. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um eftirlit með og nánari kröfur til útibúa og umboðsskrifstofa erlendra fjármálafyrirtækja, um heimildir fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði og dótturfélaga fjármálafyrirtækja til að stunda fjármálastarfsemi hér á landi og um heimildir innlendra fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði til að stunda fjármálastarfsemi erlendis.

B. Starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis.
36. gr.
Tilkynning um stofnun útibús.

    Innlend fjármálafyrirtæki, sem hyggjast starfrækja útibú í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, skulu tilkynna það Fjármálaeftirlitinu.
    Tilkynningu skv. 1. mgr. skulu fylgja upplýsingar um í hvaða ríki fyrirhugað sé að stofna útibú, lýsing á starfsemi útibúsins, skipulagi þess og fyrirhugaðri starfsemi og upplýsingar um heimilisfang útibúsins og nöfn stjórnenda þess.
    Eigi síðar en þremur mánuðum frá því að Fjármálaeftirlitinu bárust upplýsingar skv. 2. mgr. skal það senda staðfestingu til lögbærra yfirvalda gistiríkis á að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við starfsleyfi fyrirtækisins. Jafnframt skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum gistiríkis upplýsingar um eigið fé fyrirtækisins, gjaldfærni, tryggingar innlána og bótakerfi sem verndar viðskiptavini útibúsins. Hlutaðeigandi fyrirtæki skal samtímis tilkynnt að framangreindar upplýsingar hafi verið sendar.
    Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum frá móttöku fullnægjandi upplýsinga skv. 2. mgr.
    Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu og lögbærum yfirvöldum þess ríkis þar sem það starfrækir útibú um hverjar þær breytingar sem kunna að verða á áður veittum upplýsingum skv. 2. mgr. eigi síðar en einum mánuði áður en fyrirhugaðar breytingar koma til framkvæmda.

37. gr.
Tilkynning um þjónustu án stofnunar útibús.

    Hyggist fjármálafyrirtæki veita þjónustu samkvæmt þessum lögum í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, án stofnunar útibús, skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu. Í tilkynningu skal koma fram hvaða ríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin.
    Eigi síðar en einum mánuði frá móttöku tilkynningar skv. 1. mgr. framsendir Fjármálaeftirlitið tilkynninguna til lögbærra eftirlitsaðila í viðkomandi ríki ásamt staðfestingu á því að starfsleyfi fjármálafyrirtækisins heimili fyrirhugaða starfsemi.
    Fjármálaeftirlitið getur lagt bann við starfsemi samkvæmt þessari grein ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er.
    Breytingar á áður tilkynntum atriðum samkvæmt þessari grein skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu og lögbærum yfirvöldum viðkomandi ríkis eigi síðar en einum mánuði áður en þær koma til framkvæmda.

38. gr.
Starfsemi utan EES.

    Hyggist fjármálafyrirtæki hefja starfsemi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu fyrir fram ásamt lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi og öðrum upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar þar að lútandi.
    Fjármálaeftirlitið getur bannað starfsemi skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er.

39. gr.
Kaup á hlutum í erlendu fjármálafyrirtæki.

    Hyggist fjármálafyrirtæki kaupa eða fara með virkan eignarhlut í erlendu fjármálafyrirtæki skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Fjármálaeftirlitið getur lagt bann við slíku ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að upplýsingagjöf með starfseminni eða samstæðunni verði ekki nægilega traust og eftirlit með henni torveldað. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er og skal hún rökstudd.

VI. KAFLI
Eignarhlutir og meðferð þeirra.
40. gr.
Samþykki Fjármálaeftirlitsins.

    Aðilar sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki skulu leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram. Samþykkis Fjármálaeftirlitsins skal enn fremur aflað þegar einstaklingur eða lögaðili eykur svo við eignarhlut sinn að bein eða óbein hlutdeild hans í eigin fé eða atkvæðisrétti fer yfir 20, 33 eða 50% eða nemur svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfyrirtæki hans.
    Með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild í fyrirtæki sem nemur 10% eða meira af eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétt, eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis.

41. gr.
Umsókn til Fjármálaeftirlitsins.

    Þeir sem hyggjast eignast svo stóran eignarhlut í fjármálafyrirtæki sem um ræðir í 40. gr. skulu beina skriflegri umsókn til Fjármálaeftirlitsins. Umsókn skulu fylgja upplýsingar um eftirfarandi:
     1.      Nafn og heimili umsækjanda.
     2.      Nafn þess fjármálafyrirtækis sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.
     3.      Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.
     4.      Áform um breytingar á verkefnum fjármálafyrirtækis.
     5.      Fjármögnun fjárfestingarinnar.
     6.      Fjárhagsstöðu umsækjanda.
     7.      Fyrirhuguð viðskiptatengsl umsækjanda við fjármálafyrirtæki.
     8.      Reynslu umsækjanda af fjármálastarfsemi.
     9.      Eignarhald, stjórnarsetu eða aðra þátttöku umsækjanda í starfsemi lögaðila.
     10.      Refsingar sem umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta og hvort hann sæti opinberri rannsókn.
     11.      Náin tengsl umsækjanda við aðra lögaðila.
     12.      Aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið fer fram á að umsækjandi veiti og máli skipta við mat á hæfi eigenda virka eignarhluta.
    Sé umsækjandi lögaðili skal upptalning skv. 1. mgr. eiga við um lögaðilann sjálfan, stjórnarmenn hans, framkvæmdastjóra og þá einstaklinga og lögaðila sem eiga virkan eignarhlut í lögaðilanum. Skal þá enn fremur upplýst um endurskoðanda lögaðilans. Skulu upplýsingarnar studdar gögnum eftir því sem það á við.

42. gr.
Mat á hæfi umsækjanda.

    Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort umsækjandi sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Við mat á hæfi umsækjenda skal m.a. höfð hliðsjón af eftirfarandi:
     1.      Fjárhagsstöðu umsækjanda og aðila sem hann er í nánum tengslum við.
     2.      Þekkingu og reynslu umsækjanda.
     3.      Hvort eignarhald umsækjanda skapar hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði.
     4.      Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.
     5.      Hvort ætla megi að eignarhald umsækjanda muni torvelda eftirlit með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Við mat á því skal m.a. horft til fyrri samskipta umsækjanda við Fjármálaeftirlitið eða önnur stjórnvöld, til þess hvort náin tengsl umsækjanda við einstaklinga eða lögaðila geta að mati Fjármálaeftirlitsins hindrað það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum og hvort lög og reglur, sem gilda um umsækjanda, hindra eðlilegt eftirlit.
     6.      Hvort umsækjandi hefur gefið Fjármálaeftirlitinu umbeðnar upplýsingar ásamt fylgigögnum og þær upplýsingar hafa reynst réttar.
     7.      Refsingum sem umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta og hvort hann sæti opinberri rannsókn.
     8.      Ef um virkan eignarhlut í sparisjóði er að ræða skal Fjármálaeftirlitið að auki leggja mat á hvort eignarhaldið samrýmist skilyrðum 2. mgr. 70. gr.

43. gr.
Synjun umsóknar.

    Telji Fjármálaeftirlitið umsækjanda ekki hæfan til þess að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis skal það synja umsækjanda um leyfi til þess. Fjármálaeftirlitinu er þó heimilt að fallast á umsókn, þrátt fyrir að umsækjandi teljist ekki hæfur til að eiga eignarhlutinn, gegn því að umsækjandinn grípi til ráðstafana í því skyni að takmarka skaðleg áhrif af eignarhaldi hans, t.d. að fela eignarhaldið sérstöku eignarhaldsfélagi sem hafi ekki aðra starfsemi með höndum eða tilnefna einstaklinga sem Fjármálaeftirlitið metur hæfa sem fulltrúa sína í félagsstjórn.
    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. skal vera skrifleg og hafa borist umsækjanda innan eins mánaðar frá þeim degi er því bárust fullnægjandi upplýsingar ásamt fylgigögnum. Berist ákvörðun Fjármálaeftirlitsins umsækjanda ekki innan þess tíma telst það hafa samþykkt umsóknina. Rökstuðningur skal fylgja synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn.

44. gr.
Nýting heimildar.

    Heimild til að eignast eða auka við virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki gildir í sex mánuði eftir að samþykki Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir. Nýti umsækjandi ekki heimildina á þeim tíma ber honum að afla samþykkis Fjármálaeftirlitsins á nýjan leik, sbr. 40. og 41. gr.

45. gr.
Úrræði ef ekki er sótt um leyfi.

    Sæki aðili ekki um leyfi Fjármálaeftirlitsins í tilefni af kaupum eða aukningu á virkum eignarhlut, þrátt fyrir að honum sé það skylt skv. 40. gr., fellur niður atkvæðisréttur sem fylgir þeim hlutum sem eru umfram leyfileg mörk. Skulu þeir þá ekki taldir með við útreikning á því hve miklum hluta hlutafjár farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum. Fjármálaeftirlitið tilkynnir viðkomandi fjármálafyrirtæki um brottfall atkvæðisréttarins. Skal Fjármálaeftirlitið gera hlutaðeigandi aðila að leggja fram umsókn ásamt fylgigögnum skv. 41. gr. Berist umbeðin gögn innan tilskilins frests tekur Fjármálaeftirlitið ákvörðun um afgreiðslu umsóknar skv. 43. gr. Berist gögn ekki innan fjögurra vikna frá því að um þau er beðið eða Fjármálaeftirlitið synjar viðkomandi aðila um leyfi til að eiga eða auka við virkan eignarhlut skal honum skylt að selja þann hluta eignarhlutarins sem er umfram leyfileg mörk. Skal Fjármálaeftirlitið setja tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir. Sé hlutur ekki seldur á tilskildum tíma er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita aðila dagsektum samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Heimili Fjármálaeftirlitið viðkomandi aðila að eignast eða auka við virkan eignarhlut fá hlutirnir atkvæðisrétt að nýju.

46. gr.
Úrræði ef umsókn ef hafnað.

    Eignist aðili eða auki við virkan eignarhlut þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi hafnað umsókn hans um það fellur niður atkvæðisréttur sem fylgir þeim hlutum sem eru umfram leyfileg mörk. Skulu þeir þá ekki taldir með við útreikning á því hve miklum hluta hlutafjár farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum. Fjármálaeftirlitið tilkynnir viðkomandi fjármálafyrirtæki um brottfall atkvæðisréttarins. Skal viðkomandi aðila að því búnu skylt að selja þann hluta eignarhlutarins sem er umfram leyfileg mörk. Skal Fjármálaeftirlitið setja tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir. Sé hlutur ekki seldur á tilskildum tíma er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita aðila dagsektum samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

47. gr.
Tilkynning eiganda um sölu á virkum eignarhlut.

    Hyggist eigandi virks eignarhlutar draga svo úr hlutafjáreign sinni að hann eigi ekki virkan eignarhlut eftir það skal hann tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram og einnig hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhluturinn niður fyrir 20, 33 eða 50% eftir því sem við á eða svo mikið að fjármálafyrirtæki hættir að vera dótturfyrirtæki hlutaðeigandi móðurfyrirtækis skal það einnig tilkynnt.

48. gr.
Tilkynning fjármálafyrirtækja um aðilaskipti.

    Þegar tilkynning hefur borist um aðilaskipti að hlutabréfum í fjármálafyrirtæki sem valda því að hlutafjáreign fer yfir eða undir þau mörk sem tilgreind eru í 40. gr. skal stjórn fjármálafyrirtækis tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það án ástæðulauss dráttar.
    Eigi sjaldnar en einu sinni á ári skal fjármálafyrirtæki tilkynna Fjármálaeftirlitinu um þá hluthafa sem eiga virkan eignarhlut í því og um hlutafjáreign hvers þeirra.

49. gr.
Úrræði ef eigandi er ekki hæfur til að fara með virkan eignarhlut.

    Sé aðila, sem á virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, svo farið eða fari hann þannig með hlut sinn að skaði heilbrigðan og traustan rekstur þess getur Fjármálaeftirlitið gripið til eftirfarandi ráðstafana:
     1.      Ákveðið að þeim hlutum fylgi ekki atkvæðisréttur.
     2.      Lagt fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki að grípa til ráðstafana sem draga úr skaðlegum áhrifum hluthafans.
     3.      Lagt fyrir stjórn hlutaðeigandi fyrirtækis að boða til hluthafafundar þar sem háttsemi hluthafans skal tekin fyrir. Skal fulltrúa Fjármálaeftirlitsins heimilt að sækja fundinn og taka þar til máls.
    Við mat á því hvort gripið skuli til ráðstafana skv. 1. mgr. skal m.a. höfð hliðsjón af þeim atriðum sem greinir í 42. gr. Að auki skal höfð sérstök hliðsjón af því hvort staða eða háttsemi viðkomandi aðila væri til þess fallin að rýra traust almennings á hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki væri hún opinber.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að grípa í senn til fleiri en einnar af þeim ráðstöfunum sem tilgreindar eru í 1. mgr. þyki það nauðsynlegt.

VII. KAFLI
Stjórn og starfsmenn.
50. gr.
Almennt ákvæði.

    Um stjórn fjármálafyrirtækis gilda ákvæði laga um hlutafélög, enda sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.

51. gr.
Fjöldi stjórnarmanna.

    Stjórn fjármálafyrirtækis skal skipuð eigi færri en þremur mönnum. Þó skulu stjórnir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja skipaðar eigi færri en fimm mönnum.
    Skipa skal jafnmarga varamenn og aðalmenn í stjórn fjármálafyrirtækis.

52. gr.
Hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra.

    Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækis skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum, eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn og framkvæmdastjóri búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Þeir mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína eða skaði fyrirtækið.

53. gr.
Hæfisskilyrði starfsmanna í verðbréfaviðskiptum.

    Starfsmenn fjármálafyrirtækis, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga skv. 6. tölul. 3. gr., skulu hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum. Í tengslum við veitingu starfsleyfis og jafnskjótt og breytingar verða ber fjármálafyrirtæki að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsmenn samkvæmt þessari málsgrein. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Prófnefnd verðbréfaviðskipta hefur umsjón með prófi í verðbréfaviðskiptum sem að jafnaði skal haldið einu sinni á ári. Viðskiptaráðherra skipar prófnefnd til fjögurra ára í senn. Til að standa straum af kostnaði við framkvæmd prófa skulu próftakar greiða gjald sem ráðherra ákveður. Ákvarðanir prófnefndar eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
    Prófnefnd verðbréfaviðskipta er heimilt að fela óháðum aðilum að gefa einkunn fyrir prófúrlausn. Þá getur prófnefnd verðbréfaviðskipta skipað prófdómara til að endurskoða úrlausn próftaka. Í reglugerð skal kveða nánar á um framkvæmd prófs í verðbréfaviðskiptum, þar á meðal prófkröfur, og heimildir til að veita undanþágur frá einstökum hlutum slíks prófs eða prófi í heild.

54. gr.
Verkaskipting stjórnar og framkvæmdastjóra. Framkvæmd starfa stjórnar.

    Í samþykktum fjármálafyrirtækis skal kveðið á um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra sem skal taka mið af ákvæðum hlutafélagalaga.
    Stjórn skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa stjórnarinnar. Í reglum þessum skal fjallað sérstaklega um framkvæmd reglna um sérstakt hæfi stjórnarmanna, meðferð stjórnar á upplýsingum um einstaka viðskiptamenn, setu stjórnarmanna í stjórnum dótturfyrirtækja og hlutdeildarfélaga, og framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna. Reglur þessar skal senda til Fjármálaeftirlitsins.

55. gr.
Þátttaka stjórnarmanna í meðferð mála.

    Stjórn fjármálafyrirtækis skal ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti, nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð fyrirtækisins. Einstakir stjórnarmenn skulu ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti.
    Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis skulu ekki taka þátt í meðferð máls ef mál varðar:
     1.      viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í; eða
     2.      viðskipti samkeppnisaðila þeirra aðila sem ræðir um í 1. tölul.
Hið sama skal gilda um viðskipti aðila sem eru tengdir stjórnarmönnum persónulega eða fjárhagslega.
    Viðskiptaerindi stjórnarmanna, sem og fyrirtækja sem þeir eru í fyrirsvari fyrir, skulu lögð fyrir stjórn fjármálafyrirtækis, eða stjórnarformann félags, til samþykktar eða synjunar. Stjórn fjármálafyrirtækis er þó heimilt að setja almennar reglur um afgreiðslu slíkra mála, þar sem fyrir fram er ákveðið hvaða viðskiptaerindi þurfi, og þurfi ekki, sérstaka umfjöllun stjórnar áður en til afgreiðslu þeirra kemur, sbr. 54. gr.

56. gr.
Þátttaka starfsmanna í atvinnurekstri.

    Framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækis og taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti. Stjórn fyrirtækis getur veitt heimild til slíks á grundvelli reglna sem hún setur og Fjármálaeftirlitið staðfestir. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri, nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórnun þess. Um stjórnarsetu framkvæmdastjóra í dótturfyrirtæki eða hlutdeildarfélagi fjármálafyrirtækisins, og um heimildir annarra starfsmanna til þátttöku í atvinnurekstri, fer samkvæmt reglum settum samkvæmt ákvæðum 54. gr.

57. gr.
Viðskipti starfsmanna við fjármálafyrirtækið.

    Samningur fjármálafyrirtækis um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við framkvæmdastjóra eru háð samþykki stjórnar fyrirtækisins. Ákvörðun um slíkt skal bókuð. Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um maka framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis.
    Um viðskipti fjármálafyrirtækis og starfsmanna þess fer að öðru leyti eftir reglum sem stjórn fyrirtækisins skal setja.

58. gr.
Þagnarskylda.

    Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.

59. gr.
Undanþága frá þagnarskyldu vegna áhættustýringar og eftirlits á samstæðugrunni.

    Þrátt fyrir ákvæði 58. gr. er heimilt að miðla upplýsingum til móðurfélags fjármálafyrirtækis ef móðurfélagið er einnig fjármálafyrirtæki í skilningi laga þessara eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði, sbr. 4. mgr. 97. gr. Slík upplýsingamiðlun má þó aðeins eiga sér stað að því marki sem nauðsynlegt er vegna áhættustýringar og má ekki ná til einkamálefna einstakra viðskiptamanna. Sama gildir um miðlun upplýsinga vegna eftirlits á samstæðugrunni.
    Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um heimila upplýsingamiðlun skv. 1. mgr.

60. gr.
Samþykki viðskiptamanns til miðlunar trúnaðarupplýsinga.

    Heimilt er að miðla til utanaðkomandi aðila þeim upplýsingum um viðskiptamenn sem um getur í 58. gr. að fengnu skriflegu samþykki þess er í hlut á. Í samþykki skal koma fram til hvaða upplýsinga það tekur, til hvaða aðila er heimilt að miðla upplýsingum á grundvelli þess og í hvaða tilgangi upplýsingunum er miðlað.

VIII. KAFLI
Sparisjóðir.
61. gr.
Stofnun.

    Stofnfjáreigendur í sparisjóði skulu ekki vera færri en 30.
    Á stofnfundi sparisjóðs fer hver stofnandi með eitt atkvæði. Stofnfundur setur sparisjóði samþykktir. Í þeim skulu vera ákvæði sem varða sérstaklega hlutaðeigandi sparisjóð, svo sem:
     1.      heiti sparisjóðs,
     2.      heimili sparisjóðs og varnarþing,
     3.      heildarupphæð stofnfjár, skipting í stofnfjárhluti og atkvæðisréttur,
     4.      reglur um eigendaskipti að stofnfjárhlutum og aukningu stofnfjár,
     5.      kosning sparisjóðsstjórnar og störf hennar,
     6.      breytingar á samþykktum og
     7.      slit á sparisjóði og ráðstöfun eigin fjár í því sambandi.
    Þegar starfsemi sparisjóðs er bundin við ákveðið svæði skulu stofnfjáreigendur vera búsettir eða reka atvinnu eða aðra starfsemi á því svæði, sbr. þó 11. gr.

62. gr.
Stofnfjárbréf.

    Gefin skulu út stofnfjárbréf fyrir skráðum stofnfjárhlutum og skulu þau undirrituð af sparisjóðsstjórn. Þau má ekki afhenda fyrr en hlutur er að fullu greiddur. Stofnfjárbréf skulu hljóða á nafn og verða þau ekki framseld til handhafa þannig að gildi hafi gagnvart sparisjóðnum. Í stofnfjárbréfi skal greina:
     1.      heiti sparisjóðs og heimilisfang,
     2.      númer og fjárhæð hlutar,
     3.      nafn, heimilisfang og kennitölu stofnfjáreiganda,
     4.      útgáfudag stofnfjárbréfs,
     5.      efni 64. og 65. gr. og
     6.      sérstök atriði er varða réttindi og skyldur stofnfjáreigenda.
    Færð skal skrá yfir stofnfjáreigendur og skulu þeir allir eiga aðgang að henni.

63. gr.
Réttindi stofnfjáreigenda.

    Stofnfjáreigendur bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt.
    Stofnfjáreigendur hafa ekki rétt til ágóðahlutar af rekstrarafgangi sparisjóðs umfram það sem mælt er fyrir um í lögum þessum.
    Stofnfjáreigendur skulu einungis njóta arðs af innborguðu stofnfé sínu.
    Stofnfé verður ekki endurgreitt til stofnfjáreigenda nema samkvæmt ákvæðum 65. og 100. gr.

64. gr.
Sala og veðsetning stofnfjárhluta.

    Sala eða annað framsal stofnfjárhlutar í sparisjóði er óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Telji sparisjóðsstjórn að væntanlegur kaupandi stofnfjár falist eftir virkum eignarhlut í sparisjóði skal stjórnin vísa málinu til Fjármálaeftirlitsins, sbr. VI. kafla. Veðsetning stofnfjárhlutar í sparisjóði er óheimil.

65. gr.
Innlausn stofnfjárhluta.

    Stjórn sparisjóðs er heimilt að innleysa stofnfjárhlut í sparisjóði að beiðni stofnfjáreiganda.
    Stjórn sparisjóðs er skylt að innleysa stofnfjárhlut í eftirgreindum tilvikum:
     1.      þegar lögaðila, sem er eigandi að stofnfjárhlut, er slitið eða hann lagður niður,
     2.      við gjaldþrotaskipti á búi stofnfjáreiganda og
     3.      við fjárnám í stofnfjárhlut stofnfjáreiganda.
    Nú synjar sparisjóður um heimild til sölu stofnfjárhlutar, sbr. 64. gr., eða neytir ekki heimildar til innlausnar skv. 1. mgr. og skal hann þá, ef óskað er, hafa milligöngu um sölu hlutarins eða innleysa hann innan árs frá því er skrifleg beiðni kom fram um sölu eða innlausn.
    Fari innlausn stofnfjárhlutar fram skal hlutur innleystur á nafnverði að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 67. gr.

66. gr.
Aukning stofnfjár.

    Fundur stofnfjáreigenda getur ákveðið að auka stofnfé í starfandi sparisjóði og sett reglur um áskrift nýrra stofnfjárhluta í samræmi við ákvæði í samþykktum.
    Það verð, sem nýr stofnfjáreigandi skal greiða fyrir hlut, skal vera nafnverð hans að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 67. gr.

67. gr.
Endurmat stofnfjár.

    Sparisjóðum er heimilt að endurmeta stofnfé sjóðsins og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda. Við endurmat þetta skal hafa hliðsjón af verðlagsbreytingum miðað við vísitölu neysluverðs.
    Nýtt stofnfé nýtur hlutfallslega endurmats miðað við inngreiðslu þess innan ársins.

68. gr.
Ráðstöfun hagnaðar.

    Hagnaði sparisjóðs skal ráðstafað sem hér segir:
     1.      Aðalfundur getur ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að greiða stofnfjáreigendum arð af stofnfé. Öryggissjóður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sem allir sparisjóðir stofna í þessu skyni, ákveður árlega hámarkshlutfall arðgreiðslu. Heimilt er að greiða arð þótt tap sé á rekstri sparisjóðs.
     2.      Til viðbótar arðgreiðslu skv. 1. tölul. getur aðalfundur ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að ráðstafa allt að 10% af hagnaði hvers árs til hækkunar á stofnfé sjóðsins, þó þannig að hækkun stofnfjár samkvæmt þessum tölulið verði aldrei meiri en 5% á ári. Heimild til endurmats samkvæmt þessum tölulið flyst ekki á milli ára. Endurmat samkvæmt þessum tölulið má ekki leiða til þess að bókfært eigið fé að frádregnu stofnfé verði lægra en það var í árslok 2000. Nýtt stofnfé nýtur hlutfallslega endurmats samkvæmt þessum tölulið miðað við inngreiðslu þess innan ársins. Arðurinn skal reiknaður af endurmetnu stofnfé eins og það er í lok reikningsárs.
     3.      Hagnað, sem ekki er ráðstafað skv. 1. og 2. tölul., skal leggja í varasjóð.

69. gr.
Leiðbeinandi tillögur um vexti og þjónustugjöld.

    Sparisjóðabanka Íslands hf. er heimilt að leggja fyrir sparisjóði leiðbeinandi tillögur um vexti og þjónustugjöld, enda brjóti slíkt ekki í bága við ákvæði samkeppnislaga, sbr. IV. kafla þeirra laga.

70. gr.
Skipting eignarhluta og atkvæða.

    Stofnfjáreigendur skulu eiga jafnan hlut nema samþykktir heimili annað.
    Nú leiðir framsal stofnfjárhlutar, eða aukning stofnfjár, til þess að einstakur stofnfjáraðili, eða stofnfjáreigandi og aðili sem hann er í nánum tengslum við í skilningi 18. gr., eignist eða fari með virkan eignarhluta í sparisjóðnum í skilningi laga þessara, og skal þá sparisjóðsstjórn ekki samþykkja framsalið nema að fullnægðu öðru hvoru eftirgreindra skilyrða:
     a.      að um sé að ræða lið í nauðsynlegri fjárhagslegri endurskipulagningu viðkomandi sparisjóðs og sýnt þyki að slíkri fjárhagslegri endurskipulagningu verði ekki komið við nema með því að stofnfjáreigandi eignist virkan eignarhlut,
     b.      að sýnt sé fram á að öflun stofnfjárhlutarins sé liður í eflingu samvinnu milli sparisjóða í landinu.
    Stofnfjáreigendur skulu eiga jafnan atkvæðisrétt nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum sparisjóðs. Þó er einstökum stofnfjáreigendum aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggjast á beinni eða óbeinni hlutdeild í stofnfé sparisjóðs. Um atkvæðisrétt ef sveitarfélag er eini stofnfjáreigandinn fer samkvæmt ákvæðum 71. gr. Óheimilt er að fara með atkvæðisrétt samkvæmt þeim stofnfjárbréfum sem sparisjóður á sjálfur.
    Stofnfjáreiganda er óheimilt að fela öðrum umboð sitt á fundum stofnfjáreigenda nema slíkt sé leyft í samþykktum sparisjóðs.
    Þar sem talað er um heildaratkvæðamagn í sparisjóði í lögum þessum er átt við heildaratkvæðamagn að frádregnum atkvæðum samkvæmt þeim stofnfjárbréfum sem sparisjóður á sjálfur.

71. gr.
Sveitarfélagssparisjóðir.

    Ákvæði 1. mgr. 61. gr. um fjölda stofnfjáreigenda og 3. mgr. 70. gr. um tilhögun atkvæðaréttar í sparisjóði taka hvorki til þeirra sparisjóða þar sem sveitarfélög og héraðsnefndir eru einir stofnfjáreigenda við gildistöku laga þessara né til samruna þeirra, sbr. 101. gr. Sé héraðsnefnd einn stofnfjáreigenda takmarkast atkvæðisréttur hvers aðila við 1/ 5hluta af atkvæðamagni í sparisjóði.

72. gr.
Stjórn.

    Í stjórn sparisjóðs skulu sitja fimm menn. Stofnfjáreigendur kjósa þrjá stjórnarmenn en hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir tilnefna tvo stjórnarmenn samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Í samþykktum er heimilt að kveða á um að stofnfjáreigendur kjósi alla stjórnarmenn sparisjóðs. Stjórnin kýs sér formann úr sínum hópi. Heimilt er að kjósa varamenn, jafnmarga aðalmönnum, eftir sömu reglum og gilda um kosningu aðalmanna. Kosning stjórnar skal vera hlutbundin ef óskað er.

73. gr.
Breyting sparisjóðs í hlutafélag.

    Að tillögu sparisjóðsstjórnar í sparisjóði sem starfandi var 31. desember 2000 getur fundur stofnfjáreigenda ákveðið með 2/ 3 hlutum greiddra atkvæða, svo og samþykki stofnfjáreigenda sem ráða yfir minnst 2/ 3hlutum þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á fundinum, að breyta sparisjóðnum í hlutafélag að fengnu samþykki ráðherra og umsögn Fjármálaeftirlitsins. Skal breyting sparisjóðs í hlutafélag þá framkvæmd þannig að sparisjóðurinn sameinist hlutafélagi sem sparisjóðurinn hefur áður stofnað í því skyni að taka við rekstri sparisjóðsins og öllum eignum hans og skuldum, réttindum og skuldbindingum.
    Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um fjölda stofnenda í hlutafélagi skv. 1. mgr. Ákvæði 1. mgr. 20. gr. sömu laga um lágmarksfjölda hluthafa gilda ekki um hlutafélag skv. 1. mgr. fram að því að breyting sparisjóðs í hlutafélag skv. 1. mgr. á sér stað.
    Við breytingu sparisjóðs í hlutafélag samkvæmt þessari grein heldur starfsleyfi sparisjóðsins gildi sínu.
    Sparisjóði, sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, er auk orðsins „sparisjóður“ skylt að hafa orðið hlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina hf.
    Sparisjóði, sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, er ekki skylt að gefa út innköllun til lánardrottna. Breyting á eignaskráningu í veðmálabókum sem leiðir af breytingu sparisjóðs í hlutafélag er undanþegin stimpilgjöldum.
    Nú fer um eigið fé sparisjóðs sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum 77. gr. og skulu nefnd ákvæði þá gilda áfram um sparisjóðinn eftir breytingu hans í hlutafélag.
    Nú er sparisjóði breytt í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar og skulu þá í stað ákvæða kafla þessa gilda um sparisjóðinn að öðru leyti en kveðið er á um í undanfarandi ákvæðum þessarar greinar og eftir því sem við getur átt ákvæði laga þessara, auk ákvæða laga um hlutafélög.

74. gr.
Skipting hlutafjár í sparisjóði.

    Við breytingu á sparisjóði í hlutafélag skv. 73. gr. skulu stofnfjáreigendur eingöngu fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Skal samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnfé, endurmetið skv. 67. gr., nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Markaðsvirði sparisjóðsins skal metið af óháðum aðila og miðast við sama tímamark og breytingin á rekstrarformi sparisjóðsins. Sá hluti hlutafjár sparisjóðsins eftir breytingu hans í hlutafélag sem ekki gengur til stofnfjáreigenda samkvæmt framansögðu skal verða eign sjálfseignarstofnunar sem sett er á stofn skv. 76. gr.
    Ákvæði 120.–128. gr. og ákvæði 131. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, skulu að öðru leyti og eftir því sem við getur átt gilda um breytingu sparisjóðs í hlutafélag samkvæmt undanfarandi ákvæðum þessarar greinar.

75. gr.
Atkvæðaréttur í sparisjóði sem breytt hefur verið í hlutafélag.

    Í samþykktum sparisjóðs sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skal kveðið á um atkvæðisrétt sem fylgir hlutum í sparisjóðnum og um meðferð hans. Einstökum hluthöfum er aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggjast á beinni eða óbeinni eignarhlutdeild.
    Í samþykktum er þó heimilt að kveða á um að sjálfseignarstofnun skv. 76. gr. geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Á stofnfundi skal sjálfseignarstofnunin fara með atkvæði í samræmi við hlutafjáreign sína.

76. gr.
Sjálfseignarstofnun sem hluthafi í sparisjóði.

    Sé ákveðið að breyta sparisjóði í hlutafélag samkvæmt ákvæðum 73. gr. skal sparisjóðurinn gangast fyrir stofnun sjálfseignarstofnunar sem við breytinguna verður eigandi þess hluta hlutafjár í sparisjóðnum sem kveðið er á um í 74. gr. Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar skal vera að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins.
    Í stjórn sjálfseignarstofnunar skv. 1. mgr. skulu eiga sæti fæst fimm menn úr fulltrúaráði stofnunarinnar.
    Fulltrúaráð sjálfseignarstofnunar, sem í skulu eiga sæti allir stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði er honum var breytt í hlutafélag, skal kjósa stjórnarmenn sjálfseignarstofnunarinnar. Fulltrúaráðið getur valið fleiri til setu í ráðinu. Nú verða fulltrúaráðsmenn færri en þrjátíu og skal þá skylt að fjölga í ráðinu á næsta fundi þess þannig að meðlimir verði eigi færri en þrjátíu.
    Einungis skal heimilt að úthluta af fjármunum sjálfseignarstofnunar skv. 1. mgr. eða ráðstafa eignum, sem eftir verða við slit hennar, til menningar- og líknarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs við breytingu hans í hlutafélag. Ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur skulu að öðru leyti gilda um sjálfseignarstofnun skv. 1. mgr. Sjálfseignarstofnun sem stofnuð er samkvæmt þessari grein er undanþegin tekjuskatti og eignarskatti, enda sé farið eftir skilyrðum 1. málsl. um úthlutun til menningar- og líknarmála.

77. gr.
Lágmark stofnfjár.

    Sparisjóðum, sem starfandi eru við gildistöku laga þessara með eigið fé lægra en það stofnfé sem mælt er fyrir um í 14. gr., er heimilt að halda áfram starfsemi sinni, enda fari eigið fé þeirra ekki niður fyrir þá fjárhæð sem það nam við gildistöku laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Fari eigið fé niður fyrir framangreind mörk er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita hlutaðeigandi sparisjóði hæfilegan frest til úrbóta. Uppfylli sparisjóðurinn ekki skilyrðin um eigið fé að liðnum veittum fresti skal starfsleyfi hans afturkallað samkvæmt ákvæðum II. kafla.
    Yfirtaki nýir aðilar starfsemi sparisjóðs sem starfar skv. 1. mgr. skal eigið fé sparisjóðsins hafa náð því lágmarki sem kveðið er á um í 14. gr. innan þriggja mánaða frá yfirtökunni.

IX. KAFLI
Rafeyrisfyrirtæki.
78. gr.
Rafeyrir.

    Með rafeyri er átt við peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda sem er geymd í rafrænum miðli, gefin út í skiptum fyrir fjárhæð sem er ekki lægri en þau peningalegu verðmæti sem eru gefin út og samþykkt sem greiðslumiðill af öðrum fyrirtækjum en útgefanda.

79. gr.
Endurgreiðanleiki rafeyris.

    Viðtaka fjár í skiptum fyrir rafeyri telst ekki innlán eða annað endurgreiðanlegt fé ef fénu, sem tekið er við, er strax skipt í rafeyri.
    Handhafi rafeyris getur, á þeim tíma sem rafeyririnn er í gildi, beðið útgefanda um að innleysa hann á nafnverði í mynt eða peningaseðlum eða með því að færa hann á reikning án annars endurgjalds en þess sem er nauðsynlegt til að framkvæma þá aðgerð.
    Í samningi á milli rafeyrisfyrirtækis og handhafa rafeyris skal tilgreina skilyrði fyrir innlausn með skýrum hætti.
    Í samningum skv. 3. mgr. er heimilt að setja lágmark fjárhæðar fyrir innlausn. Lágmark fjárhæðar má ekki vera hærra en sem samsvarar 500 krónum.


80. gr.
Eiginfjárkröfur.

    Eigið fé rafeyrisfyrirtækis skal, þrátt fyrir ákvæði 84. gr., ávallt vera að lágmarki 2% af þeirri fjárhæð sem hærri er:
     1.      fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris, eða
     2.      meðalfjárskuldbindingum næstliðinna sex mánaða vegna útistandandi rafeyris.
    Hafi rafeyrisfyrirtæki ekki starfað í sex mánuði skal eigið fé þess vera að minnsta kosti 2% af því sem hærra er:
     1.      fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris, eða
     2.      heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar hennar vegna útistandandi rafeyris. Heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar viðkomandi fyrirtækis vegna útistandandi rafeyris skal koma fram í viðskiptaáætlun fyrirtækisins með fyrirvara um breytingar á áætluninni sem Fjármálaeftirlitið kann að hafa óskað eftir.
    Rafeyrisfyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu tvisvar á ári útreikninga sem sýna að ákvæðum greinar þessarar hafi verið fylgt, ásamt nauðsynlegum fylgigögnum samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.


81. gr.
Takmörkun fjárfestinga.

    Fjárfestingar rafeyrisfyrirtækis skulu að minnsta kosti samsvara fjárskuldbindingum þess vegna útistandandi rafeyris. Rafeyrisfyrirtæki er aðeins heimilt að fjárfesta í auðseljanlegum eignum eða kröfum samkvæmt reglugerð sem viðskiptaráðherra setur um takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja. Í reglugerðinni skal m.a. koma fram hvaða eignum og kröfum rafeyrisfyrirtæki getur fjárfest í, mat á verðmæti eigna, takmarkanir á markaðsáhættu og hámark fjárfestinga.
    Ef verðgildi eigna eða krafna skv. 1. mgr. fer niður fyrir fjárhæð skuldbindinga rafeyrisfyrirtækis vegna útistandandi rafeyris skal viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ráða bót á því ástandi án tafar og gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir ráðstöfunum sínum í því skyni.
    Rafeyrisfyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu tvisvar á ári útreikninga sem sýna að ákvæðum greinar þessarar hafi verið fylgt, ásamt nauðsynlegum fylgigögnum samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.
    Rafeyrisfyrirtæki má ekki eiga hlut í öðrum fyrirtækjum nema þau annist rekstrarþætti sem tengjast rafeyri sem viðkomandi rafeyrisfyrirtæki gefur út eða dreifir.

82. gr.
Takmarkanir á gildissviði.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að undanþiggja rafeyrisfyrirtæki frá einstökum eða öllum ákvæðum laga þessara ef að hámarki er unnt að geyma 6.000 krónur á hinum rafræna miðli og einu af eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
     1.      rafeyrir, sem fyrirtækið gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá dótturfyrirtækjum fyrirtækisins, hjá móðurfyrirtæki fyrirtækisins eða hjá öðrum dótturfyrirtækjum móðurfyrirtækisins eða
     2.      rafeyrir, sem rafeyrisfyrirtækið gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá takmörkuðum fjölda fyrirtækja sem augljóslega má afmarka þar sem þau eru staðsett á sama athafnasvæði eða öðru afmörkuðu svæði á athafnasvæði rafeyrisfyrirtækis eða þau eru í nánum fjárhagslegum eða viðskiptalegum tengslum.
    Rafeyrisfyrirtæki sem fellur undir 1. mgr. skal árlega skila skýrslu um starfsemi sína til Fjármálaeftirlitsins eftir nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur þar sem fram skulu m.a. koma upplýsingar um heildarfjárhæð skuldbindinga vegna óinnleysts rafeyris. Skýrslan skal hafa borist fyrir 1. apríl ár hvert.

X. KAFLI
Laust fé og eigið fé.
83. gr.
Laust fé

    Fjármálafyrirtæki skulu kappkosta að hafa ætíð yfir að ráða nægilegu lausu fé til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar greiðslur sem starfsemi hlutaðeigandi fyrirtækis fylgja.

84. gr.
Skilgreining eigin fjár.

    Eigið fé fjármálafyrirtækja eins og það er skilgreint skv. 4. mgr. skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar til 8% af áhættugrunni.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ákvarða hærra eiginfjárhlutfall en 8% fyrir þau fjármálafyrirtæki sem talin eru hafa ófullnægjandi fjárhagsstöðu með hliðsjón af áhættustigi enda séu aðrar eftirlitsaðgerðir ekki líklegar til að bæta upp misvægi í eiginfjárstöðu og áhættustigi innan hæfilegs frests. Mat Fjármálaeftirlitsins á áhættustigi og ákvörðun um hærra eiginfjárhlutfall skal byggt á nánari reglum sem það setur.
    Áhættugrunnur fyrirtækis skal metinn með tilliti til heildareigna, liða utan efnahagsreiknings, gengisáhættu og áhættu annarra liða með markaðsáhættu samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli fjármálafyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið setur. Eiginfjárkrafan skv. 1. málsl. skal einnig gilda um samstæðureikning.
    Við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 1. mgr. skal eigið fé samsett af þremur þáttum, eiginfjárþætti A, eiginfjárþætti B og eiginfjárþætti C, og frádráttarliðum skv. 85. gr. Séu eiginfjárliðir byggðir á árshlutauppgjöri skal það vera áritað sem endurskoðað eða kannað af endurskoðanda. Eftirfarandi takmarkanir gilda um einstaka eiginfjárþætti:
     1.      Eiginfjárþáttur A skal nema að lágmarki helmingi eigin fjár fyrir frádrátt skv. 85. gr.
     2.      Eiginfjárþáttur B má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A.
     3.      Eiginfjárþáttur C má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A. Jafnframt má eiginfjárþáttur C hæst nema 4,8% af reiknuðum áhættugrunni vegna markaðsáhættu liða í veltubók skv. 28. gr. og gengisáhættu.
    Eiginfjárþáttur A telst vera innborgað hlutafé, varasjóðir, yfirverðsreikningur hlutafjár, endurmatsreikningur samkvæmt verðbólgureikningsskilum og óráðstafað eigið fé en að frádregnu bókfærðu virði eigin hlutabréfa/stofnfjárbréfa, viðskiptavild og öðrum óáþreifanlegum eignum, svo og tapi og samþykktri arðsúthlutun. Enn fremur skal taka tillit til hlutdeildar minni hluta í eign dótturfélaga samkvæmt samstæðureikningsskilum.
    Eiginfjárþáttur B telst vera samtala 1. og 2. tölul.:
     1.      Víkjandi lán sem fjármálafyrirtæki taka gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en fimm ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fjármálafyrirtækinu en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár. Þegar fimm ár eru eftir af lánstímanum skal lánið reiknast niður um 20% fyrir hvert ár eða hlutfallslega fyrir hluta úr ári sem líður af þessum fimm árum. Sé um að ræða lán sem greiðist niður með afborgunum á lánstímanum skal reikna eftirstöðvar hvers árs niður á sambærilegan hátt. Eingöngu er heimilt að telja með innborgaðar fjárhæðir.
     2.      Endurmatsreikningur samkvæmt kostnaðarverðsreikningsskilum.
    Eiginfjárþáttur C telst vera víkjandi lán til skamms tíma sem fjármálafyrirtæki tekur gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en tvö ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fjármálafyrirtækinu en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár. Jafnframt skal kveðið á um að óheimilt sé að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárhlutfall hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis er lægra en 8% eða ef endurgreiðsla höfuðstóls eða greiðsla vaxta veldur því að eiginfjárhlutfallið fer niður fyrir 8%. Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu ef slík greiðsla veldur því að eiginfjárhlutfallið fer niður fyrir 10%. Fjármálaeftirlitið getur heimilað einstökum fjármálafyrirtækjum að til eiginfjárþáttar C teljist hagnaður af veltubókarviðskiptum á tímabilinu að frádreginni fyrirsjáanlegri gjaldfærslu og að frádregnu nettótapi af annarri starfsemi, enda sé engin þessara fjárhæða meðtalin í eiginfjárþætti A.
    Heimilt er að flýta endurgreiðslu víkjandi lána æski lántaki þess enda liggi fyrir samþykki Fjármálaeftirlitsins og slík endurgreiðsla hafi ekki óviðunandi áhrif á eiginfjárstöðu að mati þess.
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–6. mgr. skal eigið fé verðbréfafyrirtækis, verðbréfamiðlunar og rekstrarfélags verðbréfasjóðs aldrei nema lægri fjárhæð en sem svarar til 25% af föstum rekstrarkostnaði síðasta reikningsárs. Fjármálaeftirlitið getur heimilað undanþágu frá þessari kröfu ef grundvallarbreyting hefur orðið á starfsemi félagsins milli ára. Á fyrsta starfsári verðbréfafyrirtækis, verðbréfamiðlunar og rekstrarfélags verðbréfasjóðs skal eigið fé þess ekki nema lægri fjárhæð en sem svarar til 25% af föstum rekstrarkostnaði samkvæmt rekstraráætlun starfsársins. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að gerð sé breyting á rekstraráætluninni ef það telur að hún gefi ekki rétta mynd af þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ákveða í reglum að aðrir liðir en greindir eru í 5. og 6. mgr. teljist með eigin fé fjármálafyrirtækis.

85. gr.
Frádráttur frá eigin fé.

    Frá eigin fé skv. 3. mgr. 84. gr. skal draga bókfært virði á eignarhlutum og víkjandi kröfum í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði. Þegar um er að ræða eignarhluti sem nema allt að 10% af hlutafé í hverju einstöku fjármálafyrirtæki takmarkast frádrátturinn þó við þá heildarfjárhæð eignarhluta og víkjandi krafna sem er umfram 10% af eigin fé eins og það er reiknað skv. 3. mgr. 84. gr. fyrir frádrátt samkvæmt þessari grein. Eignarhlutir sparisjóða í Sparisjóðabanka Íslands hf. sem nema meira en 10% af hlutafé bankans skulu þó reiknast með sama hætti og eignarhlutir sem nema allt að 10%.
    Þegar fjárfesting í hlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum á fjármálasviði er bráðabirgðaráðstöfun og ætluð sem fjárhagsaðstoð við endurskipulagningu eða til bjargar hlutaðeigandi fyrirtæki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 1. málsl.1. mgr.
    Eignarhlutir og víkjandi kröfur í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði, sbr. 1. mgr., sem reiknast með í samstæðureikningi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis, dragast ekki frá eigin fé hlutaðeigandi fyrirtækis.
    Eignarhlutir og víkjandi kröfur í félögum, sem reka vátryggingastarfsemi skv. 23. gr. dragast frá eigin fé við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 3. mgr. 84. gr. Frádrátturinn takmarkast þó við þá fjárhæð sem samsvarar hlutdeild í lágmarksgjaldþoli viðkomandi vátryggingafélags.
    Frá eigin fé dragast enn fremur eignarhlutir í félögum sem eru umfram þau mörk sem greinir í 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 28. gr.

86. gr.
Upphafsaðgerðir vegna ónógs eigin fjár.

    Hafi stjórn eða framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækis ástæðu til að ætla að eigið fé þess sé undir lögbundnu lágmarki ber þeim þegar í stað að tilkynna það Fjármálaeftirlitinu. Sambærileg skylda hvílir á endurskoðanda hlutaðeigandi fyrirtækis hafi hann ástæðu til að ætla að stjórnendur þess hafi ekki rækt skyldu sína skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar.
    Er Fjármálaeftirlitinu berst tilkynning skv. 1. mgr. eða telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að eigið fé fjármálafyrirtækis sé undir því lágmarki sem kveðið er á um í 84. gr. skal það krefja stjórn fyrirtækisins þegar í stað um reikningsuppgjör sem henni ber að afhenda innan hæfilegs frests. Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að slíkt reikningsuppgjör sé áritað af endurskoðanda.
    Komi fram í reikningsuppgjöri að hætti 2. mgr. að eigið fé fjármálafyrirtækis fullnægi ekki ákvæðum 84. gr. skal stjórn þess án tafar boða til fundar hluthafa eða stofnfjáreigenda til ákvörðunar og afhenda síðan Fjármálaeftirlitinu greinargerð þar sem fram kemur til hverra ráðstafana hún hyggst grípa af þessu tilefni. Greinargerð þessi skal afhent innan frests sem Fjármálaeftirlitið tiltekur. Berist greinargerð fjármálafyrirtækis ekki innan tilskilins frests skal fyrirtækinu slitið þegar í stað.
    Þegar Fjármálaeftirlitinu hafa borist gögn skv. 3. mgr. er því heimilt að veita hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki frest í allt að sex mánuði til þess að auka eigið fé að lágmarki skv. 84. gr. Séu til þess ríkar ástæður er Fjármálaeftirlitinu heimilt að framlengja þennan frest í allt að sex mánuði til viðbótar.

XI. KAFLI
Ársreikningur, endurskoðun og samstæðureikningsskil.
87. gr.
Samning ársreiknings og undirritun.

    Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar. Enn fremur skal semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi mynda eina heild. Reikningsár fjármálafyrirtækja er almanaksárið.
    Ársreikningur skal undirritaður af stjórn og framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.

88. gr.
Góð reikningsskilavenja.

    Ársreikningur skal gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fjármálafyrirtækis. Hann skal gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju og innihalda m.a. rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar og upplýsingar um liði utan efnahagsreiknings.
    Fjármálaeftirlitið setur reglur að höfðu samráði við reikningsskilaráð um uppsetningu ársreiknings, innihald einstakra liða rekstrar- og efnahagsreiknings og liða utan efnahagsreiknings og skýringar og mat á einstökum liðum.
    Fjármálaeftirlitið skal sjá til þess í samráði við reikningsskilaráð að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri reikningsskilavenju við gerð ársreiknings og árshlutareiknings fjármálafyrirtækis.

89. gr.
Skýrsla stjórnar.

    Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hlutaðeigandi fyrirtækis og afkomu þess á reikningsárinu er ekki koma fram í ársreikningnum.
    Í skýrslu stjórnar skal enn fremur upplýst um eftirfarandi:
     1.      atburði eftir uppgjörsdag sem hafa verulega þýðingu,
     2.      væntanlega þróun fyrirtækisins og
     3.      aðgerðir sem hafa þýðingu fyrir framtíðarþróun þess.
    Skýrsla stjórnar skal veita upplýsingar um fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsárinu og heildarfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, framkvæmdastjóra, stjórnar og annarra í þjónustu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis. Sé um ágóðahlut að ræða til stjórnar eða framkvæmdastjóra skal hann sérgreindur. Í skýrslu stjórnar skal upplýst um fjölda hluthafa eða stofnfjáreigenda í lok reikningsárs. Að öðru leyti gilda ákvæði hlutafélagalaga eftir því sem við á.
    Stjórnir skulu í skýrslu sinni gera tillögu um ráðstöfun á hagnaði hlutaðeigandi fyrirtækis eða jöfnun taps.

90. gr.
Endurskoðun.

    Ársreikningur fjármálafyrirtækis skal endurskoðaður af endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi.
    Endurskoðandi skv. 1. mgr. skal kjörinn á aðalfundi fjármálafyrirtækis til eins árs í senn.
    Kjósa skal sama aðila sem endurskoðanda í móður-, systur- og dótturfélagi ef þess er nokkur kostur. Í móðurfélagi skal endurskoðandi jafnframt endurskoða samstæðureikninginn.

91. gr.
Hæfi endurskoðanda.

    Endurskoðandi má ekki eiga sæti í stjórn, vera starfsmaður fyrirtækisins eða starfa í þágu þess að öðru en endurskoðun.
    Endurskoðandi má ekki vera skuldugur því fyrirtæki sem hann annast endurskoðun hjá, hvorki sem aðalskuldari né ábyrgðarmaður. Hið sama gildir um maka hans.

92. gr.
Upplýsingaskylda endurskoðanda.

    Verði endurskoðandi var við verulega ágalla í rekstri eða atriði er varða innra eftirlit, greiðslutryggingar útlána, önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu hlutaðeigandi fyrirtækis eða atriði sem leiða til þess að hann mundi synja um áritun eða gera fyrirvara, svo og ef endurskoðandi hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um fyrirtækið hafi verið brotnar, skal endurskoðandi gera stjórn þess og Fjármálaeftirlitinu viðvart. Þetta á einnig við um sambærileg atriði sem endurskoðandi fær vitneskju um og varða fyrirtæki í nánum tengslum við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki, sbr. 2. mgr. 18. gr. Slík tilkynning brýtur ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðanda skv. 58. gr. laga þessara eða ákvæði annarra laga.

93. gr.
Góð endurskoðunarvenja.

    Fjármálaeftirlitið skal sjá til þess í samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og aðra hlutaðeigandi aðila að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri endurskoðunarvenju við endurskoðun hjá fjármálafyrirtækjum. Fjármálaeftirlitið setur reglur um endurskoðun fjármálafyrirtækja .
    Að öðru leyti en fram kemur í lögum þessum gilda um endurskoðun fjármálafyrirtækja ákvæði VII. kafla laga nr. 144/1994, um ársreikninga, með áorðnum breytingum.
    Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um dótturfyrirtæki fjármálafyrirtækis, svo og eignarhaldsfélag á fjármálasviði eða blandað eignarhaldsfélag skv. 97. gr. og dótturfyrirtæki slíkra félaga.

94. gr.
Sérstök endurskoðun.

    Fjármálaeftirlitið getur látið fara fram sérstaka endurskoðun hjá fjármálafyrirtæki telji eftirlitið ástæðu til að ætla að endurskoðað reikningsuppgjör gefi ekki glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta hlutaðeigandi fyrirtæki bera kostnaðinn af slíkri endurskoðun.
    Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um dótturfyrirtæki fjármálafyrirtækis, svo og eignarhaldsfélag á fjármálasviði eða blandað eignarhaldsfélag skv. 97. gr. og dótturfyrirtæki slíkra félaga.

95. gr.
Skil og birting ársreiknings.

    Endurskoðaður og undirritaður ársreikningur fjármálafyrirtækis ásamt skýrslu stjórnar skal sendur Fjármálaeftirlitinu innan tíu daga frá undirritun en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
    Hafi á aðalfundi verið samþykktar breytingar á undirrituðum ársreikningi skal breyttur ársreikningur sendur Fjármálaeftirlitinu innan tíu daga frá aðalfundi og gerð grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið.
    Ársreikningur fjármálafyrirtækis ásamt skýrslu stjórnar skal liggja frammi á afgreiðslustað hlutaðeigandi fyrirtækis og afhentur hverjum viðskiptaaðila sem þess óskar innan tveggja vikna frá samþykkt aðalfundar.

96. gr.
Árshlutauppgjör.

    Fjármálafyrirtæki skulu semja og birta árshlutauppgjör í samræmi við reglur sem Fjármálaeftirlitið setur.
    Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæðum um gerð árshlutauppgjörs.

97. gr.
Samstæðureikningsskil.

    Fyrirtæki telst vera móðurfyrirtæki þegar það:
     1.      ræður yfir meiri hluta atkvæða í öðru fyrirtæki,
     2.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda,
     3.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að hafa ráðandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta fyrirtækisins eða samnings við það,
     4.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og ræður, á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða eignaraðila, meiri hluta atkvæða í fyrirtækinu eða
     5.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur ráðandi stöðu í því.
    Fyrirtæki, sem hafa þau tengsl við fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem lýst er í 1. mgr., teljast vera dótturfyrirtæki. Fyrirtæki sem er dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis, telst einnig vera dótturfyrirtæki móðurfélags.
    Móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki þess mynda samstæðu.
    Með eignarhaldsfélagi á fjármálasviði er átt við fyrirtæki tengt fjármálasviði þar sem dótturfyrirtækin eru annaðhvort eingöngu eða aðallega lánastofnanir eða fyrirtæki tengd fjármálasviði og að minnsta kosti eitt dótturfyrirtækjanna er lánastofnun.
    Með blönduðu eignarhaldsfélagi er átt við móðurfyrirtæki sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði þar sem að minnsta kosti eitt dótturfyrirtækjanna er lánastofnun.     
    Við mat á atkvæðisrétti og réttindum til að tilnefna eða víkja frá stjórnarmönnum eða stjórnendum skal leggja saman réttindi sem bæði móður- og dótturfyrirtæki ráða yfir.
    Við mat á atkvæðisrétti í dótturfyrirtæki skal ekki talinn með atkvæðisréttur sem fylgir eigin hlutum dótturfyrirtækisins eða dótturfyrirtækja þess.
    Ákvæði 87.–92. gr. og 95.–96. gr. gilda eftir því sem við á bæði fyrir samstæðu, þar sem móðurfyrirtæki er fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði, og fyrir einstök fyrirtæki samstæðunnar.
    Fjármálaeftirlitið setur að höfðu samráði við reikningsskilaráð nánari reglur um gerð samstæðureikningsskila fyrir samstæðu fyrirtækja þar sem móðurfyrirtækið er fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
    Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um samstæðuuppgjör fyrir samstæðu fyrirtækja þar sem móðurfyrirtækið er blandað eignarhaldsfélag.

XII. KAFLI
Slit og samruni fjármálafyrirtækja.
A. Slit.
98. gr.
Ákvörðun um slit.

    Bú fjármálafyrirtækis verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum.
    Slíta ber fjármálafyrirtæki í eftirtöldum tilvikum:
     1.      ef Fjármálaeftirlitið afturkallar starfsleyfi fjármálafyrirtækis, sbr. 9. gr., synjar fyrirtækinu um frest að hætti 4. mgr. 86. gr. eða frestur samkvæmt því ákvæði er á enda án þess að fyrirtækið hafi aukið eigið fé fram yfir það lágmark sem kveðið er á um í 84. gr.,
     2.      ef skylt er að slíta fjármálafyrirtæki samkvæmt samþykktum hlutaðeigandi fyrirtækis,
     3.      ef hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda ákveður að slíta fjármálafyrirtæki.
    Í þeim tilvikum, sem getið er í 2. eða 3. tölul. 2. mgr., skal Fjármálaeftirlitið afla reikningsuppgjörs stjórnar hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis á sama hátt og skv. 2. mgr. 86. gr.
    Ákvörðun skv. 3. tölul. 2. mgr. er því aðeins gild að hún hljóti samþykki minnst 2/ 3hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki hluthafa eða stofnfjáreigenda sem ráða yfir minnst 2/ 3hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á fundi stofnfjáreigenda.

99. gr.
Úrskurður héraðsdóms um slit.

    Þegar skylt er að slíta fjármálafyrirtæki skv. 1. tölul. 2. mgr. 98. gr. eða þegar Fjármálaeftirlitið telur, í tilvikum sem eiga undir 2. eða 3. tölul. sama ákvæðis, að óvíst sé að eignir fyrirtækisins hrökkvi til greiðslu skulda þess skal Fjármálaeftirlitið senda héraðsdómara á varnarþingi hlutaðeigandi fyrirtækis kröfu um að bú þess verði tekið til gjaldþrotaskipta.
    Þegar skylt er að slíta fjármálafyrirtæki skv. 2. eða 3. tölul. 2. mgr. 98. gr. og Fjármálaeftirlitið telur sýnt að eignir þess hrökkvi fyrir skuldum skal það senda héraðsdómara á varnarþingi fyrirtækisins kröfu um að bú þess verði tekið til skipta til slita á fjármálafyrirtækinu.
    Þegar héraðsdómari hefur kannað hvort fullnægt sé skilyrðum 98. gr. fyrir kröfunni skal hann kveða upp úrskurð um hvort orðið skuli við henni.
    Í innköllun í bú fjármálafyrirtækis skal tekið fram hvort það hafi verið tekið til skipta að hætti 1. eða 2. mgr.

100. gr.
Framkvæmd skipta á búi fjármálafyrirtækis.

    Leiði ekki annað af ákvæðum þessara laga skulu um skipti á búi fjármálafyrirtækis gilda almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eftir því sem átt getur við að því undanteknu að ákvæði þeirra um riftun ráðstafana gilda ekki um skipti sem komin eru til skv. 2. mgr. 99. gr.
    Þegar ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl. miða réttaráhrif við frestdag skal jafngilda þeim degi við skipti á búi fjármálafyrirtækis sá dagur sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt frest að hætti 4. mgr. 86. gr. en sé slíkur frestur ekki undanfari skipta skal miðað við þann dag sem héraðsdómara berst krafa Fjármálaeftirlitsins skv. 1. eða 2. mgr. 99. gr.
    Þegar allar skuldir sparisjóðs hafa verið greiddar skal greiða stofnfjáreigendum eignarhlut þeirra af eftirstöðvum eigna sjóðsins. Þeim eignum, sem þá kunna að vera eftir, skal ráðstafað í samræmi við ákvæði samþykkta sparisjóðsins. Þó er ekki heimilt að ráðstafa eftirstöðvum eigna til stofnfjáreigenda, sbr. 4. mgr. 63. gr.

B. Samruni.
101. gr.

    Samruni fjármálafyrirtækis við annað fyrirtæki eða einstaka rekstrarhluta þess er aðeins heimill að ákvörðun þar að lútandi hafi hlotið samþykki minnst 2/ 3hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki hluthafa eða stofnfjáreigenda viðkomandi fyrirtækja sem ráða yfir minnst 2/ 3hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum eða fundum stofnfjáreigenda, og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Ef hið yfirtekna fyrirtæki er alfarið í eigu yfirtökufélags þarf ekki að koma til atkvæðagreiðslu skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar í yfirtekna félaginu.
    Samruni sparisjóðs við annað fyrirtæki eða einstaka rekstrarhluta þess er því aðeins heimill að sparisjóðnum hafi áður verið breytt í hlutafélag samkvæmt ákvæðum VIII. kafla, nema þegar um er að ræða samruna tveggja eða fleiri sparisjóða.
    Um samruna fjármálafyrirtækja gilda að öðru leyti ákvæði laga um hlutafélög eftir því sem við getur átt og samningar hlutaðeigandi aðila.
    Fjármálafyrirtæki, sem er slitið vegna samruna, er ekki skylt að gefa út innköllun til lánardrottna eða halda eignum sínum aðgreindum. Breyting á eignaskráningu í veðmálabókum vegna samruna fjármálafyrirtækja er undanþegin stimpilgjöldum.
    Fjármálaeftirlitið skal auglýsa samruna fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði. Í auglýsingu skal tilgreina hvenær samruni tekur gildi, nöfn hlutaðeigandi fyrirtækja, frest til að gera athugasemdir við yfirfærslu innlánsreikninga, hugsanlegar breytingar á greiðslustöðum skuldaskjala og annað sem kunngera þarf viðskiptamönnum sérstaklega.
    Við samruna tveggja eða fleiri fjármálafyrirtækja skal eigið fé, sem verður til við samruna, ekki vera lægra en samanlagt eigið fé hlutaðeigandi fyrirtækja á þeim tíma sem samruni átti sér stað, enda hafi lágmarki skv. 14. gr. ekki verið náð.

XIII. KAFLI
Eftirlit.
A. Almennar eftirlitsheimildir.
102. gr.
Fjármálaeftirlitið.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja og fyrirtækja tengdum fjármálasviði sem fellur undir ákvæði laga þessara, svo og starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Jafnframt fer Fjármálaeftirlitið með eftirlit með dótturfyrirtækjum, hlutdeildarfyrirtækjum og sjóðum sem stunda starfsemi þá sem talin er upp í IV. kafla að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlitsskyldrar starfsemi. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í fjármálafyrirtækjum í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. VI. kafla og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá dótturfyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum eða öðrum aðilum sem teljast í nánum tengslum við fjármálafyrirtæki, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með viðkomandi fjármálafyrirtæki.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá eignarhaldsfélögum á fjármálasviði og blönduðum eignarhaldsfélögum, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með fjármálafyrirtækjum sem eru dótturfélög þessara eignarhaldsfélaga.
    Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum eða hjá eftirlitsskyldum aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
    Heimilt er að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um dagsektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessari grein.

103. gr.
Aðstoð við yfirvöld annarra EES-ríkja.

    Eftirlitsaðilum í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að framkvæma athugun í útibúum þarlendra fyrirtækja hér á landi að undangenginni tilkynningu þess efnis til Fjármálaeftirlitsins.
    Gerist fjármálafyrirtæki, sem hlotið hefur starfsleyfi hér á landi og stundar starfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, brotlegt við lög þess ríkis, og lögbær yfirvöld þess ríkis grípa til ráðstafana sambærilegra þeim sem greinir í 34. gr., skal Fjármálaeftirlitið aðstoða þarlend lögbær yfirvöld við samskipti þeirra við stjórnendur hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis.

B. Eftirlit á samstæðugrundvelli.
104. gr.

    Ákvæði IV. kafla C og X. kafla skulu gilda um samstæðu þar sem móðurfyrirtækið er fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði. Móðurfyrirtækið ber ábyrgð á framkvæmd þessa ákvæðis. Ákvæði 84. og 85. gr. um eigið fé gilda einnig um eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
    Eigi fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði, eitt og sér eða ásamt með öðrum fyrirtækjum í samstæðunni, hlutdeild í hlutdeildarfélagi sem er fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki á fjármálasviði og það fyrirtæki er starfrækt í samstarfi við önnur fyrirtæki sem ekki eru hluti af samstæðunni skal við beitingu ákvæða 1. mgr. um eigin fé nota hlutfallslega samstæðuaðferð með hliðsjón af hlutdeild í viðkomandi fyrirtæki. Sé ábyrgð fjármálafyrirtækisins eða eignarhaldsfélagsins á viðkomandi hlutdeildarfélagi ekki takmörkuð við eignarhlutdeildina eða atkvæðisréttinn eiga ákvæði hefðbundinna samstæðureikningsskila við. Með hlutdeildarfélagi samkvæmt þessari málsgrein er átt við félag, þó ekki dótturfélag, sem annað félag og dótturfélög þess eiga eignarhluta í og hafa veruleg áhrif á eða beinn og óbeinn eignarhlutur nemur 20% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti.
    Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að ákvæði 1. mgr. þessarar greinar og 8. og 9. mgr. 97. gr. gildi einnig fyrir önnur tilvik þegar um er að ræða fjármálafyrirtæki sem eitt og sér eða í samstarfi við annan aðila er í þannig eignatengslum við fyrirtæki að nauðsynlegt teljist að beita þessum ákvæðum.
    Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar og 8. og 9. mgr. 97. gr. gilda ekki um fyrirtæki sem fjármálafyrirtæki hefur eignast tímabundið hlut í, annaðhvort til að tryggja fullnustu kröfu eða vegna endurskipulagningar þess fyrirtækis, né heldur um fyrirtæki sem starfrækja vátryggingastarfsemi. Fjármálaeftirlitið getur þó ákveðið að umrædd ákvæði skuli gilda.
    Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæðum 1. og 2. mgr. þessarar greinar og 8. og 9. mgr. 97. gr.

XIV. KAFLI
Viðurlög.
105. gr.
Sektir.

    Það varðar sektum liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum að brjóta gegn ákvæðum laga þessara um:
     1.      einkarétt fjármálafyrirtækja til að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni heiti þeirrar tegundar fjármálafyrirtækja sem fyrirtækið hefur starfsleyfi fyrir (12. gr.),
     2.      starfsheimildir (IV. kafli A og B),
     3.      skyldu til að setja traustar tryggingar fyrir lánum umfram tiltekið hlutfall heildarfjárhæðar hlutafjár (2. mgr. 29. gr.),
     4.      starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis (1. og 5. mgr. 36. gr., 1. og 4. mgr. 37. gr., 1. mgr. 38. gr. og 39. gr.),
     5.      virka eignarhluti (1. mgr. 40. gr., 47. gr. og 1. mgr. 48. gr.),
     6.      þátttöku stjórnarmanna í meðferð mála (2. og 3. mgr. 55. gr.),
     7.      þátttöku starfsmanna í atvinnurekstri (56. gr.),
     8.      viðskipti starfsmanna við fjármálafyrirtækið (1. mgr. 57. gr.),
     9.      skyldu sparisjóðs sem breytt hefur verið í hlutafélag til að nota orðið hlutafélag í heiti sínu (4. mgr. 73. gr.) og
     10.      ársreikninga og endurskoðun (87. gr., 1. mgr. 88. gr. og 1. og 2. mgr. 95. gr.).

106. gr.
Sektir eða fangelsi.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að einu ári liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum að brjóta gegn ákvæðum laga þessara um:
     1.      að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis (3. gr.),
     2.      hámark lána til einstaks viðskiptavinar (30. gr.),
     3.      starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi (1. mgr. 31. gr., 32. gr. og 33. gr.),
     4.      þagnarskyldu (58. gr.),
     5.      takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja (1., 2. og 4. mgr. 81. gr.),
     6.      upphafsaðgerðir vegna ónógs eigin fjár (1. og 3. mgr. 86. gr.) og
     7.      hæfi endurskoðanda og skyldu hans til að tilkynna um ágalla í rekstri (91. og 92. gr.).
    Hver sá sem vísvitandi gefur rangar eða villandi upplýsingar um hagi fjármálafyrirtækis eða annað er það varðar opinberlega eða til Fjármálaeftirlits, annarra opinberra aðila eða viðskiptamanna sinna skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum.

107. gr.
Refsiábyrgð lögaðila. Tilraun og hlutdeild. Fyrning sakar.

    Nú er brot framið í starfsemi fjármálafyrirtækis eða annars lögaðila og er þá heimilt að gera lögaðilanum fésekt. Um refsiábyrgðina fer eftir II. kafla A almennra hegningarlaga.     
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Brot á lögum þessum varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Sök samkvæmt ákvæðum þessa kafla fyrnist á fimm árum.

XV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
108. gr.
Nafnskráning reikninga.

    Innlánsreikningar, fjárvörslureikningar og geymsluhólf skulu skráð á nafn viðskiptamanns ásamt heimilisfangi hans.

109. gr.
Glatað skilríki.

    Glatist innlánsskilríki eða viðtökuskírteini er fjármálafyrirtæki hafa gefið út fyrir handveði eða geymslufé getur stjórn fjármálafyrirtækis stefnt til sín handhafa nefndra skjala með þriggja mánaða fyrirvara frá síðustu birtingu áskorunar sem birt skal þrisvar sinnum í Lögbirtingablaði.
    Gefi enginn sig fram áður en fyrirvarinn er liðinn falla niður öll réttindi á hendur fjármálafyrirtækinu samkvæmt innlánsskilríkinu eða viðtökuskírteininu. Skal fjármálafyrirtæki þá, að ósk þess sem fengið hafði hið fyrra innlánsskilríki eða viðtökuskírteini afhent úr hlutaðeigandi fyrirtæki, gefa út nýtt honum til handa eða þeim sem sannar að hann leiði rétt sinn löglega frá þessum aðila og skal hið nýja skjal vera með sömu skilmálum og hið fyrra.

110. gr.
Undanþága frá stimpilgjaldi.

    Innlánsskilríki, ávísanir og hvers konar skuldbindingar sem gefnar eru út í nafni fjármálafyrirtækja, skuldbindingar sem veita þeim handveðsrétt, arðmiðar af skuldabréfum þeirra og framsöl skulu undanþegin stimpilgjaldi.

111. gr.
Undanþegnir sjóðir.

    Þrátt fyrir starfsheimildir Hafnabótasjóðs samkvæmt lögum nr. 23/1994, hafnalögum, Íbúðalánasjóðs samkvæmt lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, og Ferðamálasjóðs samkvæmt lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, teljast þessir sjóðir ekki til fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum þessum.

XVI. KAFLI
Gildistaka o.fl.
112. gr.
Innleiðing.

    Með lögum þessum eru tekin upp ákvæði tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2000/ 12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana, 93/6/EBE um eigið fé fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana, 93/22/EBE um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana, 107/2001/EB um breytingu á tilskipun 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, 95/26/EB um breytingar á ýmsum tilskipunum á sviði fjármálaþjónustu með það í huga að efla eftirlit, 2000/28 um breytingu á tilskipun 2000/12/EB er varðar skilgreiningu á lánastofnun og 2000/46 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja.

113. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003. Þá falla úr gildi lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og lög nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki.

114. gr.
Breyting á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.

    Í stað 12. og 13. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Rekstur verðbréfasjóðs skal falinn sérstöku rekstrarfélagi sem hlotið hefur starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Starfandi viðskiptabankar, sparisjóðir, lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlanir skulu halda starfsleyfi sínu við gildistöku laga þessara. Þau skulu innan sex mánaða tilkynna Fjármálaeftirlitinu hvaða starfsemi skv. 3. gr. og IV. kafla þau stunda við gildistöku laganna. Tilkynningin skal vera á því formi sem Fjármálaeftirlitið óskar eftir.
    Lánastofnanir, sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, skulu hafa starfsleyfi sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum þessum.
    Starfandi fjármálafyrirtæki skv. 1. mgr. er óheimilt að hefja síðar nýja starfsemi nema það tilkynni Fjármálaeftirlitinu um slíkt fyrir fram.
    Rekstrarfélög verðbréfasjóða skulu sækja um starfsleyfi samkvæmt lögum þessum innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara.

II.

    Fjármálafyrirtæki skulu senda Fjármálaeftirlitinu reglur skv. VII. kafla innan tólf mánaða frá gildistöku laga þessara.

III.

    Verðbréfamiðlanir sem starfa sem einkahlutafélög skulu hafa komið rekstri sínum í hlutafélagsform innan tólf mánaða frá gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.



1.     Almennt.
    Gildandi löggjöf um fyrirtæki sem hafa starfsleyfi stjórnvalda á fjármálamarkaði á rætur sínar að rekja til þess tíma þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Með aðildinni fengu íslensk fjármálafyrirtæki aðgang að innri markaðnum á sviði fjármálaþjónustu og starfsskilyrði fjármálafyrirtækja voru að verulegu leyti samræmd innan Evrópska efnahagssvæðisins. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Opnun markaða, aukin samkeppni og alþjóðavæðing og aukin áhersla á verðbréfaviðskipti hefur gert það að verkum að skilin á milli einstakra tegunda fjármálafyrirtækja hafa sífellt orðið óskýrari.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóða, lög nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki, og ákvæði um stofnun og starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana í lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, verði sameinuð í ein heildarlög um fjármálafyrirtæki. Jafnframt eru ákvæði um ríkisviðskiptabanka í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði felld niður. Með fjármálafyrirtækjum er átt við viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða.

2.     Þróun löggjafar um fjármálafyrirtæki.
a.     Viðskiptabankar og sparisjóðir.
    Löggjöf um viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi á sér langa sögu hér á landi og hefur tekið miklum breytingum í tímans rás. Allt til ársins 1985 giltu sérstök lög fyrir hvern viðskiptabanka sem fólu hverjum banka um sig að sinna að verulegu leyti tilteknum atvinnugreinum, atvinnurekstri eða hagsmunahópum. Með lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka, varð grundvallarbreyting á löggjöf um starfsemi viðskiptabanka og með þeim var sett fyrsta almenna löggjöfin um viðskiptabankastarfsemi hér á landi.
    Með lögum nr. 87/1985, um sparisjóði, voru starfsheimildir sparisjóða auknar og felld úr gildi öll ákvæði eldri laga sem takmörkuðu starfsemi sparisjóðsins borið saman við viðskiptabanka. Hið ólíka rekstrarform og eignarhald viðskiptabanka og sparisjóða hélst hins vegar óbreytt.
    Með lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, var lagaákvæðum um viðskiptabanka og sparisjóði steypt saman í eina, heildstæða löggjöf. Í lögunum var enn fremur mælt fyrir um ýmis nýmæli auk þess sem aukið var við efnisinntak eldri ákvæða. Þannig voru starfsheimildir viðskiptabanka og sparisjóða auknar með lögunum frá því sem áður hafði verið. Við samningu laganna var þess jafnframt freistað að laga íslenska löggjöf að EES-rétti í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland tók á sig með undirritun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Árið 1996 voru lög um viðskiptabanka og sparisjóði gefin út að nýju sem lög nr. 113 1996. Breytingarnar voru gerðar til að laga gildandi rétt frekar að tilskipunum Evrópusambandsins. Lutu meginbreytingar laganna að breytingum á reglum um eigin fé annars vegar og innstæðutryggingum hins vegar.
    Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á lögum nr. 113/1996:
     1.      Lög nr. 83/1997, um sérákvæði í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Breytingin laut að bankastjórum ríkisviðskiptabanka.
     2.      Lög nr. 84/1998, um sérákvæði í lögum um fjármálaeftirlit. Fjármálaeftirlitið kom í stað bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
     3.      Lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. X. kafli laga um viðskiptabanka og sparisjóði var felldur brott.
     4.      Lög nr. 11/2000, um breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins voru auknar.
     5.      Lög nr. 48/2000, um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Viðskiptabönkum og sparisjóðum var heimilað að veita póstþjónustu með ákveðnum skilyrðum.
     6.      Lög nr. 69/2001, um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Sett voru ítarlegri ákvæði um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta.
     7.      Lög nr. 71/2001, um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Sparisjóðum var veitt heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélög og stofnfjárbréf gerð að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti.
     8.      Lög nr. 82/2001, um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Kveðið var á um að sérstaklega skyldi taka mið af verðtryggingaráhættu í eftirlitskerfum með áhættu.
     9.      Lög nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki. Breytingar voru gerðar á 44. gr. vegna tilskipunar um rafeyrisfyrirtæki.
     10.      Lög nr. 76/2002, um breytingar á ýmsum lögum vegna nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Ákvæði um stofnsetningarrétt var breytt í því skyni að veita Sviss sama rétt hér á landi og ríkjum innan EES.

b.     Aðrar lánastofnanir.
    Árið 1993 voru sett sérstök lög, nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Lánastofnunum var því skipt í tvo flokka samkvæmt þessum lögum. Annars vegar lánastofnanir sem heimild hafa til þess að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar, þ.e. viðskiptabankar, sparisjóðir, innlánsdeildir samvinnufélaga og Póstgíróstofan. Hins vegar lánastofnanir sem ekki fjármagna starfsemi sína með innlánum frá almenningi heldur hafa heimild til útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Helstu dæmi um slíkar lánastofnanir voru sjóðir sem veittu stofnlán eða fjárfestingarlán og eignarleigufyrirtæki.
    Allir fjárfestingarlánasjóðir höfðu verið settir á stofn með sérstökum lögum. Í meginatriðum greindust þeir í tvo flokka. Annars vegar voru það fjárfestingarlánasjóðir sem hið opinbera starfrækti til að sinna sérstökum samfélagslegum verkefnum. Hins vegar var um að ræða fjárfestingarlánasjóði sem tengdust ákveðnum atvinnugreinum.
    Vegna eðlis innlánsstofnana var ákveðið árið 1993 að við aðlögun á gildandi löggjöf að ákvæðum EES-samningsins skyldi fjallað um þær í sérstökum lögum. Um allar aðrar lánastofnanir skyldi fjallað í öðrum lögum.
    Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á lögum nr. 123/1993:
     1.      Lög nr. 20/1996, um breytingu á lögum nr. 123/1993. Ýmsar breytingar voru gerðar vegna aðlögunar að EES-samningnum.
     2.      Lög nr. 84/1998, um sérákvæði í lögum um fjármálaeftirlit. Fjármálaeftirlitið kom í stað bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
     3.      Lög nr. 11/2000, um breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins auknar.
     4.      Lög nr. 69/2001, um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Sett voru ítarlegri ákvæði um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta.
     5.      Lög nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki. Breytingar voru gerðar á 8. gr. vegna tilskipunar um rafeyrisfyrirtæki.
     6.      Lög nr. 76/2002, um breytingar á ýmsum lögum vegna nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Ákvæði um stofnsetningarrétt var breytt í því skyni að veita Sviss sama rétt hér á landi og ríkjum innan EES.

c.     Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu.
    Fyrstu lög um verðbréfaviðskipti voru lög nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun. Þau voru síðar felld úr gildi með lögum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, sem voru mun ítarlegri en lögin frá 1986 og að ýmsu leyti í samræmi við löggjöf nágrannaríkjanna á þessu sviði. Eftir að nokkur reynsla var komin á framkvæmd þeirra laga var talið nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar, en einnig vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Voru þá samþykkt lög nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti.
    Ný heildarlög um verðbréfaviðskipti voru síðan sett með lögum nr. 13/1996. Með þeim voru innleiddar tilskipanir Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta (93/22/EBE) og eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana (93/6/EBE). Í lögunum er kveðið á um starfsleyfi fyrir tvær tegundir fyrirtækja undir samheitinu fyrirtæki í verðbréfaþjónustu. Annars vegar eru það verðbréfafyrirtæki sem hafa starfsheimildir skv. 8. gr. laganna og hins vegar verðbréfamiðlanir sem hafa starfsheimildir skv. 9. gr.
    Breytingar á lögum:
     1.      Lög nr. 35/1998, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar vegna nýrra laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.
     2.      Lög nr. 84/1998, um sérákvæði í lögum um fjármálaeftirlit. Fjármálaeftirlitið kom í stað bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
     3.      Lög nr. 94/1998, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar er lutu að stofnun Fjármálaeftirlitsins.
     4.      Lög nr. 11/2000, um breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins auknar.
     5.      Lög nr. 99/2000, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar vegna aðskilnaðar starfssviða, starfsábyrgðartrygginga, prófkrafna og samningsbundinna uppgjöra afleiðusamninga.
     6.      Lög nr. 163/2000, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar vegna almenns útboðs verðbréfa og meðferðar trúnaðarupplýsinga.
     7.      Lög nr. 164/2000, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar vegna safnskráningar verðbréfa.
     8.      Lög nr. 69/2001, um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Sett voru ítarlegri ákvæði um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta.
     9.      Lög nr. 39/2002, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar á ákvæði um innherjaviðskipti.
     10.      Lög nr. 76/2002, um breytingar á ýmsum lögum vegna nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Ákvæði um stofnsetningarrétt var breytt í því skyni að veita Sviss sama rétt hér á landi og ríkjum innan EES.

d.     Rekstrarfélög verðbréfasjóða.
    Lög um verðbréfasjóði eru nr. 10/1993. Þar er kveðið á um að rekstur verðbréfasjóðs skuli falinn sérstöku rekstrarfélagi sem hlotið hefur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins. Rekstrarfélagið skal vera óháð í störfum sínum og einungis hafa með höndum daglegan rekstur verðbréfasjóða eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.
    Með tilskipun 107/2001/EB um breytingu á tilskipun 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum eru kröfur til rekstrarfélaga auknar til muna. Rekstrarfélög verðbréfasjóða skulu hafa starfsleyfi stjórnvalda, hafa leyfi til markaðssetningar innan Evrópska efnahagssvæðisins og lúta kröfum um stofnfé, ársreikninga, hæfi stjórnenda, eigið fé o.s.frv.

e.     Rafeyrisfyrirtæki.
    Tilskipun 2000/46/EB um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim fjallar um rafeyrisfyrirtæki, þ.e. tilteknar lögpersónur sem hafa með höndum útgáfu og umsýslu með rafeyri. Í tilskipuninni er meðal annars kveðið á um heimildir til útgáfu rafeyris, lágmarkskröfur um eigið fé rafeyrisfyrirtækja, fjárfestingarstefnu þeirra og eftirlit með þeim. Lög um rafeyrisfyrirtæki, nr. 37/2002, voru sett í apríl 2002.

3.     Þróun á fjármálamarkaði.
    Frá því að Ísland gerðist aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa átt sér stað miklar breytingar á íslenskum fjármálamarkaði. Þar má nefna:
          Afnám síðustu gjaldeyrishafta. Þar með tengdist íslenskur fjármálamarkaður erlendum mörkuðum traustari böndum en áður.
          Hlutafélagavæðing ríkisviðskiptabanka, sameining fjárfestingarlánasjóða í eigu ríkisins og sala á eignarhlutum ríkisins í þessum fyrirtækjum.
          Efling hlutabréfamarkaðar og stofnun gjaldeyrismarkaðar.
          Veruleg aukning fjárfestinga í erlendum verðbréfum.
          Lánsfjáröflun ríkissjóðs með markaðsútboðum og samkomulag fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans um að ríkissjóður afli sér lánsfjár á markaði en taki ekki lán hjá Seðlabankanum. Þetta atriði var staðfest í nýjum lögum um Seðlabanka Íslands sem juku sjálfstæði hans.
          Aukin áhersla fyrirtækja og sveitarfélaga á að afla lánsfjár með sölu skuldabréfa á verðbréfamarkaði í stað hefðbundinna bankalána.
          Samruni fjármálafyrirtækja og flóknara eignarhald.
          Ný stofnun, Fjármálaeftirlitið, tók yfir verkefni bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitsins og hefur eftirlit með lánamarkaði, verðbréfamarkaði, vátryggingamarkaði og lífeyrissjóðum.
          Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu hafa skapast auknir möguleikar erlendra fjármálafyrirtækja til að veita þjónustu hér á landi.
          Sókn innlendra fjármálafyrirtækja á erlenda markaði með stofnun útibúa og skrifstofa, stofnun dótturfélaga og með kaupum á erlendum bönkum.
    Fjármálamarkaðnum hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands námu innlend útlán og verðbréfaútgáfa lánakerfisins 1.914,6 milljörðum króna í árslok 2001 en til samanburðar var áætluð landsframleiðsla ársins 2001 um 750 milljarðar króna. Eftirfarandi tafla sýnir skiptingu innlendra útlána og verðbréfaeignar lánakerfisins í milljörðum króna í árslok 2001:

    Innlend útlán og verðbréfaeign       1.914,6
              Bankakerfi          778,3
              Fjárfestingarbankar o.fl.          118,6
              Íbúðalánasjóður          350,2
              Lífeyrissjóðir          499,9
              Tryggingafélög            52,7
              Eignarleigur            49,3
              Verðbréfasjóðir            90,2
              Útlönd               917,9
              Lánasjóðir ríkisins          349,4
    Milli samtala       3.206,6
    Frá dragast innbyrðis viðskipti     –1.292,0

    Bankakerfið hefur vaxið mjög ört á undanförnum árum, sér í lagi frá árinu 1997. Útlán og markaðsverðbréf bankakerfisins á verðlagi í janúar 2002 námu 264 milljörðum króna árið 1991 en höfðu hækkað í 752 milljarða króna í lok árs 2001. Árið 1991 voru útlán og markaðsverðbréf bankakerfisins rétt um helmingur af landsframleiðslu en um 110% af landsframleiðslu árið 2001. Hér verður þó að hafa í huga að nokkrir fjárfestingarlánasjóðir og fjárfestingarbankar urðu hluti af bankakerfinu á tímabilinu. Myndin sýnir útlán og markaðsverðbréf bankakerfisins 1991–2001.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Athyglisvert er jafnframt að skoða fjármögnun bankakerfisins á þessum tíma. Árið 1991 voru um 70% eigna bankakerfisins fjármögnuð með innlánum, 10% með verðbréfaútgáfu og 20% með erlendum lánum. Árið 2000 voru innlán tæplega helmingur af fjármögnun bankakerfisins, verðbréfaútgáfa um fimmtungur og erlend lán um þriðjungur. Innlán jukust lítillega sem hlutfall af landsframleiðslu en hlutur verðbréfaútgáfu og erlendra lána stórjókst, eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


4.     Vinna við gerð frumvarpsins.
    Vinnu við gerð frumvarpsins má rekja aftur til ársins 1998. Í lok þess árs óskaði viðskiptaráðuneytið eftir sjónarmiðum viðskiptabanka og sparisjóða og samtaka þeirra um einstök efnisatriði í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði annars vegar og lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði hins vegar. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir ábendingum um breytingar sem nauðsynlegar eða æskilegar væru taldar af hálfu fyrirtækjanna eða samtaka þeirra.
    Að lokinni yfirferð á athugasemdum og ábendingum fjármálafyrirtækja og samtaka þeirra skipaði viðskiptaráðherra nefnd um endurskoðun á löggjöf um fjármálastofnanir 23. ágúst 1999. Nefndin hefur gengið undir nafninu bankalaganefnd. Nefndinni var í skipunarbréfi ætlað að gera tillögur um breytingar á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Skyldi nefndin í því sambandi sérstaklega skoða hvort æskilegt væri að sameina fyrrgreind lög í ein heildarlög um lánastofnanir eða jafnvel að setja eina heildstæða löggjöf um fjármálastofnanir.
    Bankalaganefnd setti sér eftirfarandi markmið í vinnu sinni:
     1.      Að löggjöf um fjármálamarkaðinn verði einföld og skýr.
     2.      Að tryggt verði öryggi og trúverðugleiki í starfsemi fjármálafyrirtækja.
     3.      Að tryggja jafnræði og virka samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði.
     4.      Að samkeppnishæfni íslensks fjármagnsmarkaðar verði tryggð.
     5.      Að löggjöf verði framsækin en þó verði haldið í þann grunn sem búið er að byggja upp að því leyti sem hann hefur sannað ágæti sitt.
     6.      Tryggja samræmi í löggjöf um fjármálafyrirtæki.
    Bankalaganefnd hélt 56 fundi á tímabilinu frá desember 1999 til september 2002. Auk þess skipaði nefndin nokkra vinnuhópa til að fjalla um einstök mál. Í september 2000 fór nefndin til Noregs, Danmerkur og Lúxemborgar til að kynna sér viðhorf þarlendra samtaka fjármálafyrirtækja og fjármálaeftirlita til þróunar fjármálalöggjafar.
    Bankalaganefnd var þannig skipuð: Aðalsteinn Jónasson, þáverandi lögfræðingur í Íslandsbanka hf., Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, varaformaður, Eiríkur Guðnason, bankastjóri Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Sigmar Ármannsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra tryggingafélaga, Sigurður Hafstein, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, og Þorgeir Örlygsson, ráðuneytisstjóri iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, formaður.
    Aðalsteinn Jónasson tók sæti Bjarna Ármannssonar í nefndinni 11. apríl 2001. Guðjón Rúnarsson tók sæti Finns Sveinbjörnssonar í nefndinni 28. nóvember 2000. Benedikt Árnason var skipaður í nefndina og varaformaður hennar 21. september 2000. Sigmar Ármannsson var skipaður í nefndina 10. maí 2001.
    Starfsmenn nefndarinnar hafa verið Birgir Már Ragnarsson, þáverandi deildarsérfræðingur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, til 28. nóvember 2000, Þóra Margrét Hjaltested, deildarsérfræðingur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, til 1. ágúst 2001, og Hrafnkell Óskarsson, deildarsérfræðingur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, frá 1. ágúst 2001.
    Til viðbótar hafa ýmsir mætt á fundi bankalaganefndar og aðstoðað hana við gerð frumvarpsins. Hér má sérstaklega nefna Jónínu Sigrúnu Lárusdóttur, deildarsérfræðing í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, Hannes J. Hafstein, lögfræðing í Fjármálaeftirlitinu, og Hallgrím Ásgeirsson, lögfræðing í Seðlabanka Íslands.
    Hinn 20. mars 2000 voru skipaðir þrír vinnuhópar undir bankalaganefnd. Sá fyrsti var um eigið fé, laust fé og ársreikninga. Hópurinn skilaði tillögum þann 26. júní 2000. Í hópnum voru Ragnar Hafliðason, formaður, Birgir Már Ragnarsson, Sigurjón Geirsson, Sigurður Jónsson og Yngvi Örn Kristinsson. Hópurinn var skipaður að nýju 31. janúar 2002 og skilaði hann drögum að köflum um eigið fé og ársreikninga og greinargerð með þeim 22. maí 2002. Í stað Birgis Más og Yngva Arnar voru Benedikt Árnason og Hallgrímur Ásgeirsson skipaðir í vinnuhópinn. Jónas Þórðarson var starfsmaður vinnuhópsins.
    Annar vinnuhópurinn fjallaði um hlutverk og stöðu einstakra stjórnareininga. Hópurinn skilaði tillögum sínum 21. ágúst 2000. Í hópnum voru Jóhannes Sigurðsson, formaður, Ásmundur Stefánsson, Birgir Már Ragnarsson og Guðbjörg Bjarnadóttir.
    Þriðji vinnuhópurinn fjallaði um starfsleyfi, starfsheimildir og afturköllun starfsleyfis lánastofnana. Hópurinn skilaði tillögum sínum 1. september 2000. Í hópnum voru Birgir Már Ragnarsson, formaður, Ólafur Haraldsson, Gunnar Viðar, Guðbjörg Bjarnadóttir og Jóhannes Sigurðsson.
    Hinn 10. apríl 2001 var skipaður vinnuhópur til að fara yfir lög um vátryggingastarfsemi með hliðsjón af öðrum lögum um fjármálafyrirtæki og meta hvaða ákvæði séu þess eðlis að þau geti átt heima í sameiginlegri löggjöf um fjármálafyrirtæki. Í hópnum voru Þóra Margrét Hjaltested formaður, Rúnar Guðmundsson og Sigmar Ármannsson. Í framhaldi af störfum vinnuhópsins óskaði viðskiptaráðuneytið eftir því að Samband íslenskra tryggingafélaga tilnefndi fulltrúa sinn í bankalaganefnd.
    Í maí 2002 kom saman vinnuhópur til að fara yfir viðurlagaákvæði laga á fjármálamarkaði. Í hópnum voru Jónína Sigrún Lárusdóttir formaður, Ársæll Hafsteinsson og Hannes J. Hafstein.
    Hinn 19. febrúar 2001 óskaði viðskiptaráðuneytið eftir því við bankalaganefnd að nefndin gerði tillögu að innleiðingu tilskipunar 2000/46/EB um rafeyrisfyrirtæki í íslenskan rétt. Frumvarp til laga um rafeyrisfyrirtæki var lagt fram á Alþingi á 127. löggjafarþingi og varð að lögum nr. 37/2002.
    Í júní 2002 voru drög bankalaganefndar að frumvarpi til laga kynnt á netinu og send til umsagnar til dómsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, Landssamtaka lífeyrissjóða, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, Lögmannafélgsins, Dómarafélagsins, Félags löggiltra endurskoðenda, reikningsskilaráðs, Verslunarráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Neytendasamtakanna, Samtaka fjárfesta, Sambands íslenskra bankamanna, úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, Persónuverndar, ráðgjafarnefndar um opinbert eftirlit, Íbúðalánasjóðs, Íslandspósts og fyrirtækja sem starfa samkvæmt lögum um aðrar lánastofnanir, nr. 123/1993, og lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 113/1996, og eru ekki meðlimir í Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja. Jafnframt fóru drögin í ítarlega skoðun hjá þeim stofnunum og samtökum sem áttu fulltrúa í bankalaganefnd. Bankalaganefnd bárust umsagnir frá dómsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, ríkissaksóknara, Lögmannafélaginu, Félagi löggiltra endurskoðenda, Verslunarráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Persónuvernd og Íbúðalánasjóði.
    Í ágúst 2002 óskaði viðskiptaráðherra eftir því að bankalaganefnd yfirfæri lagaákvæði um sparisjóði með hliðsjón af umræðu um yfirtökutilboð sem borist höfðu í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Bankalaganefnd skipaði undirhóp til að yfirfara lagaákvæðin. Í hópnum voru Benedikt Árnason og Hrafnkell Óskarsson frá viðskiptaráðuneyti, Gunnar Viðar, forstöðumaður lögfræðideildar Landsbanka Íslands hf., f.h. viðskiptabanka, og Sigurður Hafstein, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, f.h. sparisjóða. Tillögur undirhópsins eru í VIII. kafla frumvarpsins en bankalaganefnd tók ekki afstöðu til þeirra. Fulltrúi viðskiptabanka var andvígur tillögum hópsins.

5.     Helstu breytingar í frumvarpinu.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóða, lög nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki, og ákvæði um stofnun og starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana í lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, verði sameinuð í ein heildarlög um fjármálafyrirtæki. Hugtakið fjármálafyrirtæki er nýjung í íslenskum rétti. Það nær yfir starfsemi viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana, rafeyrisfyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana og rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Samheitið fjármálafyrirtæki er notað yfir allar tegundir starfsleyfa að því marki sem það er unnt en í vissum tilfellum er þörf á sérákvæðum um einstakar tegundir starfsleyfa, svo sem um starfsheimildir og stofnfé.
    Með sameiningu löggjafar og samræmingu heimilda einstakra tegunda fjármálafyrirtækja verður löggjöf á fjármálamarkaði einfaldari og skilvirkari. Þannig er í þessu frumvarpi að finna allir heimildir fjármálafyrirtækja til starfsemi en í frumvarpi til laga um verðbréfaviðskipti, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi, er að finna almennar hegðunarreglur á verðbréfamarkaði og réttindi og skyldur fjármálafyrirtækja í verðbréfaviðskiptum. Að mestu leyti byggist þetta frumvarp á sömu starfsheimildum og einstakar tegundir fjármálafyrirtækja hafa í dag, en þær leiða að mestu af EES-samningnum. Gerðar hafa verið ýmsar breytingar til að taka mið af nýjum aðstæðum, greinum bætt við vegna nýrra krafna og ákvæði sem ekki eiga lengur við felld brott. Uppbyggingu laganna og niðurröðun greina hefur verið breytt verulega.
    Af einstökum ákvæðum frumvarpsins sem tekið hafa verulegum breytingum skal helst telja:
          Fjármálaeftirlitið veitir og afturkallar starfsleyfi í stað viðskiptaráðherra. Sú skipan er í samræmi við almenna venju í Evrópu þar sem fjármálaeftirlit annaðhvort veita starfsleyfi eða inna af hendi alla þá undirbúningsvinnu við athugun á umsókn sem nauðsynleg er til að umsækjandi geti hlotið starfsleyfi. Hægt er að veita starfsleyfi til hluta þeirrar þjónustu sem viðkomandi tegund fjármálafyrirtækja er heimil og afturkalla starfsleyfi að hluta.
          Rekstrarfélög verðbréfasjóða fá starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki. Samkvæmt nýlegri breytingu á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum fá rekstrarfélög verðbréfasjóða starfsleyfi og geta stofnað útibú og veitt þjónustu á EES- svæðinu. Starfsheimildir þeirra eru rýmkaðar þannig að þau geta t.d. sinnt eignastýringu auk reksturs sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
          Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ákvarða hærra eiginfjárhlutfall en 8% fyrir þau fjármálafyrirtæki sem talin eru hafa ófullnægjandi fjárhagsstöðu með hliðsjón af áhættustigi enda eru aðrar eftirlitsaðgerðir ekki líklegar til að bæta upp misvægi í eiginfjárstöðu og áhættustigi innan hæfilegs frests. Þessi viðbót er áfangi á þeirri leið sem fyrirsjáanleg er í náinni framtíð varðandi alþjóðlegar kröfur um eiginfjárákvæði fjármálafyrirtækja og heimildir eftirlitsaðila í því sambandi.
          Ákvæðum um sparisjóði er breytt til að treysta yfirtökuvarnir sparisjóða. Þannig er kveðið á um við hvaða aðstæður sparisjóðsstjórn skal heimila framsal á virkum eignarhlut. Þá er tryggilegar búið um að tengdir stofnfjáreigendur geta ekki farið með yfir 5% heildaratkvæðamagns í sparisjóði. Að lokum er kveðið á um að sparisjóður skuli breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag áður en samruni við aðrar tegundir fjármálafyrirtækja getur átt sér stað.
          Ákvæði um ríkisviðskiptabanka eru felld brott. Þá er ekki lengur þörf á ákvæðum um fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem er notað sem samheiti verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana í lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti. Nokkur ákvæði eru felld brott úr gildandi lögum, svo sem ákvæði um hámark eignarhluta í fasteignum og skyldu viðskiptabanka og sparisjóða til að nota þau heiti í nafni sínu.
          Skilgreint er nánar en gert er í gildandi löggjöf hvaða brot eru refsinæm og sérstakir brotaflokkar tilgreindir. Varnaðaráhrif og virkni refsiákvæðanna eru talin mun meiri ef betur er skilgreint í lögunum hvaða háttsemi varðar refsingu og þá hvaða refsingu.
          Ítarlegri ákvæði eru um eftirlit með samstæðugrunni en í gildandi löggjöf, í samræmi við tilskipun um stofnun og rekstur lánastofnana. Meðal annars er bætt við ákvæðum um hlutfallslega samstæðuaðferð við beitingu eiginfjárákvæða laganna. Þá er bætt við skilgreiningu fyrrnefndrar tilskipunar um fyrirtæki tengd fjármálasviði, eignarhaldsfélög á fjármálasviði og blönduð eignarhaldsfélög.

6.     Kaflaskipting frumvarpsins.
    Kaflaskipting frumvarpsins er eftirfarandi:
     1.      Gildissvið.
     2.      Starfsleyfi.
                  a.      Veiting starfsleyfis.
                  b.      Afturköllun starfsleyfis.
     3.      Stofnun og starfsemi.
     4.      Starfsheimildir.
                  a.      Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki.
                  b.      Önnur fjármálafyrirtæki.
                  c.      Eignarhlutir í fyrirtækjum og stórar áhættur.
     5.      Starfsemi fjármálafyrirtækja á milli landa.
                  a.      Starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi.
                  b.      Starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis.
     6.      Eignarhlutir og meðferð þeirra.
     7.      Stjórn og starfsmenn.
     8.      Sparisjóðir.
     9.      Rafeyrisfyrirtæki.
     10.      Laust fé og eigið fé.
     11.      Ársreikningur, endurskoðun og samstæðureikningsskil.
     12.      Slit og samruni fjármálafyrirtækja.
                  a.      Slit.
                  b.      Samruni.
     13.      Eftirlit.
                  a.      Almennar eftirlitsheimildir.
                  b.      Eftirlit á samstæðugrundvelli.
     14.      Viðurlög.
     15.      Ýmis ákvæði.
     16.      Gildistaka o.fl.
     17.      Ákvæði til bráðabirgða.

7.     Verkaskipting stjórnvalda við setningu reglna á fjármálamarkaði.
    Við undirbúning frumvarpsins var hugað að verkaskiptingu viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins við setningu reglna og reglugerða á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki. Í því efni var sérstaklega leitast við að tryggja innbyrðis samræmi í íslenskri löggjöf jafnframt því sem leitað var samanburðar við erlenda framkvæmd.
    Óskað var eftir því að Fjármálaeftirlitið leitaði upplýsinga og tæki saman yfirlit yfir hvernig setningu reglna á grundvelli fjármálalöggjafar væri háttað í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt þeirri athugun er meginreglan sú að fjármálaeftirlit setja flestar eða allar reglur á fjármálamarkaði sem ekki koma fram í lögum viðkomandi landa. Þessi meginregla er í samræmi við alþjóðlegar grunnreglur um árangursríkt fjármálaeftirlit. Í niðurstöðum athugunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslenska fjármálakerfinu („Financial Sector Stability Assessment“), sem birtar voru í maí 2002, er mælst til þess að heimildir til að setja reglur um fjármálafyrirtæki verði í ríkara mæli færð frá ráðuneytum til Fjármálaeftirlitsins.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að setning reglna sem varða fjárhagslegan styrkleika og gegnsæi í starfsemi fjármálafyrirtækja verði í höndum Fjármálaeftirlitsins. Þannig setji Fjármálaeftirlitið reglur um eigið fé og viðbótareiginfjárliði, reglur um ársreikninga, reglur um uppgjör og samstæðureikningsskil, reglur um hámark lána og ábyrgða, reglur um endurskoðun og reglur um eftirlitskerfi með áhættu fjármálafyrirtækja, auk þess sem það setur reglur um skýrslugjöf til eftirlitsins og staðfestir ýmsar innri reglur fjármálafyrirtækja. Reglur sem lúta að ytra starfsumhverfi, tryggingakerfi og öðrum þáttum í starfsumhverfi fjármálafyrirtækja verði hins vegar settar af viðskiptaráðuneytinu sem reglugerðir. Þannig verði kveðið á um starfsemi milli landa, próf í verðbréfaviðskiptum og starfsábyrgð verðbréfamiðlana í reglugerðum. Þá er lagt til að viðskiptaráðherra setji reglur um fjárfestingar rafeyrisfyrirtækja.
    Með hliðsjón af framangreindu er ekki lagt til að Fjármálaeftirlitið fái jafnvíðtækar heimildir til að setja reglur á grundvelli laganna eins og mælst er til í alþjóðlegum grunnreglum og víða er gert í nágrannalöndum. Þó skal bent á að Fjármálaeftirlitinu er heimilt, skv. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, að setja almenn leiðbeinandi tilmæli. Með þeim tilmælum getur Fjármálaeftirlitið miðlað af reynslu úr eftirlitinu, skýrt og túlkað lög og reglur og leitt fram meginreglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á sviði fjármálamarkaðar. Setning slíkra tilmæla takmarkast ekki við þau málefni sem Fjármálaeftirlitinu er ætlað að setja reglur um á grundvelli laga.

8.     EES-samningurinn og fjármálaþjónusta.
a.     Grunnreglur um fjármálaþjónustu í EES-samningnum.
    Fjármálaþjónusta er veigamikill þáttur í efnahagsstarfsemi EES-ríkja. Um hana gilda ákvæði 36. og 37. gr. EES-samningsins um þjónustu og IX. viðauki þar sem nánar er fjallað um fjármálaþjónustu. Um er að ræða starfsemi vátryggingafélaga, lánastofnana, verðbréfasjóða og verðbréfafyrirtækja. Um þessa starfsemi gilda þrjár meginreglur:
          Fjármálafyrirtæki sem hefur fengið starfsleyfi í einu af aðildarríkjunum getur á grundvelli þess opnað útibú í sérhverju hinna ríkjanna án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi stjórnvalda þar eða boðið fram þjónustu sína þar án þess að opna útibú. Þetta þýðir t.d. að íslenskur banki getur opnað útibú í Lúxemborg eða boðið þar fram þjónustu sína án þess að þurfa til þess leyfi þarlendra yfirvalda.
          Eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækis í sérhverju aðildarríkjanna skal vera í höndum eftirlitsaðila í heimaríki fyrirtækisins. Þetta þýðir að starfsemi útibús þýsks banka hér á landi yrði undir eftirliti þarlendra yfirvalda en að sjálfsögðu í samvinnu við Fjármálaeftirlitið. Á sama hátt hefði Fjármálaeftirlitið eftirlit með starfsemi útibús íslensks banka í Þýskalandi.
          Samræma skal reglur um starfsemi fjármálafyrirtækja þannig að starfsskilyrði þeirra verði svipuð hvar sem er innan EES.

b.     Tilskipanir sem innleiddar eru í frumvarpinu.
    Með frumvarpi þessu eru innleidd ákvæði margra tilskipana á sviði fjármálaþjónustu að hluta eða öllu leyti. Flest ákvæða þessara tilskipana hafa þó verið lögfest áður. Í sumum tilvikum er fyrri innleiðingu breytt. Ákvæði tilskipunar 107/2001/EB um breytingu á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum hefur ekki verið innleitt í íslenskan rétt áður.
    Í tilskipun 2000/12 um stofnun og rekstur lánastofnana koma fram helstu ákvæði um lánastofnanir. Tilskipunin er heildarútgáfa sjö tilskipana um lánastofnanir. Þær eru:
     1.      Tilskipun 73/183/EBE um afnám hafta á staðfesturétt og rétti til að veita þjónustu að því er varðar sjálfstæða starfsemi banka og annarra fjármálastofnana.
     2.      Tilskipun 77/780/EBE (fyrsta bankatilskipun) um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um stofnun og rekstur lánastofnana.
     3.      Tilskipun 89/299/EBE um eigið fé lánastofnana.
     4.      Tilskipun 89/646/EBE (önnur bankatilskipun) um samræmingu á ákvæðum og lögum og stjórnsýslufyrirmælum um stofnun og rekstur lánastofnana og breyting á tilskipun 77/780/EBE.
     5.      Tilskipun 89/647/EBE um eiginfjárhlutfall lánastofnana.
     6.      Tilskipun 92/30/EBE um eftirlit með lánastofnunum á samstæðugrundvelli.
     7.      Tilskipun 92/121/EBE um eftirlit með stórum áhættum lánastofnana.
    Að auki eru eftirfarandi tilskipanir innleiddar að hluta eða öllu leyti:
     1.      Tilskipun 93/6/EBE um eigið fé fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana.
     2.      Tilskipun 93/22/EBE um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.
     3.      Tilskipun 107/2001/EB um breytingu á tilskipun 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.
     4.      Tilskipun 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana.
     5.      Tilskipun 95/26/EB (Post-BCCI) um breytingar á ýmsum tilskipunum á sviði fjármálaþjónustu með það í huga að efla eftirlit.
     6.      Tilskipun 2000/28 um breytingu á tilskipun 2000/12 er varðar skilgreiningu á lánastofnun.
     7.      Tilskipun 2000/46 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana.

c.     Aðgerðaáætlun Evrópusambandsins og Basel-reglur.
    Árið 1999 var samþykkt innan ESB sérstök aðgerðaáætlun á sviði fjármagnsmarkaðar, „Financial Services – Implementing the Framework for Financial Markets: Action Plan“. Markmiðið er að skapa skilvirkan sameiginlegan innri markað með fjármálaþjónustu en óhætt er að segja að ekki hafi tekist að byggja upp innri markað á þessu sviði á síðustu 25 árum eins og vonir stóðu til. Heildsölumarkaður er að vísu að verða nokkuð virkur en viðskipti á smásölumarkaði eru lítil á milli landa.
    Í aðgerðaáætluninni er gerð grein fyrir um fimmtíu tilskipunum, tilmælum og athugunum sem talið er nauðsynlegt að ráðast í til að stuðla að aukinni samkeppnishæfni evrópsks fjármagnsmarkaðar. Lögð er áhersla á fljótari viðbragðstíma, skilvirkara eftirlit og öflugri neytendavernd. Þá er og vikið að skattamálum á fjármagnsmarkaði, en þau eru gríðarlega mikilvægur hlekkur fyrir skilvirkan innri markað á þessu sviði.
    Tímasetning þessarar vinnu ESB er ekki tilviljun. Tvennt gerir það að verkum að nú er mun betra tækifæri en áður til að láta drauminn um skilvirkan innri markað verða að veruleika, annars vegar sameiginlegur gjaldmiðill, evran, og hins vegar netið.
    Miðað er við að allar tillögur aðgerðaáætlunarinnar verði komnar í framkvæmd árið 2005. Meira en helmingur tillagnanna hefur nú þegar verið samþykkt og margar eru til umræðu á Evrópuþinginu og í ráðinu. Þær tilskipanir eða tillögur að tilskipunum sem munu koma til með að leiða til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki, verði frumvarp þetta að lögum, eru tilskipun um slit lánastofnana (e. winding-up of credit institutions), tilskipun um fjármálasamsteypur (e. financial comglomorates) og tilskipun um eiginfjárhlutfall (e. CAD)
    Ástæða er til að fjalla hér stuttlega um síðastnefndu tilskipunina, CAD-tilskipunina. Eiginfjárreglur hér á landi byggja á reglum Basel-nefndar um bankaeftirlit frá árinu 1988 (e. Basel Accord). Þær reglur voru færðar inní tilskipanir Evrópusambandsins sem síðar urðu hluti af EES-samningnum. Á árinu 1999 voru síðan innleiddar breytingar á þessum reglum í samræmi við svonefnda CAD-tilskipun en með þeim breytingum var sérstaklega tekið á markaðsáhættum. Í júní 1999 birti Basel-nefnd um bankaeftirlit drög að nýjum alþjóðlegum eiginfjárreglum. Mikil gagnrýni kom fram hjá ýmsum hagsmunaaðilum við drögin og hefur síðan verið unnið að endurbótum. Gert er ráð fyrir að nýjar eiginfjárreglur taki gildi árið 2007.
    Þótt tillögurnar séu enn til umræðu er ljóst að meginrammi hinna nýju reglna liggur fyrir. Rétt er að rekja nokkur grundvallaratriði fyrirhugaðra breytinga.
     a.      Í fyrsta lagi er meginmarkmið breytinganna að auka næmni þeirra. Viðurkennt er að núgildandi reglur, sem samdar voru einvörðungu fyrir stóra alþjóðlega banka, eru ósveigjanlegar og gefa ekki svigrúm til að taka tillit til mismunandi áhættu og aðstæðna lánastofnana. Miðað er að því að stórar lánastofnanir með góða áhættustýringu njóti þeirrar stöðu sinnar við útreikning eiginfjárhlutfalls. Að sama skapi er miðað að því að smærri lánastofnanir og lánastofnanir með einfaldari og/eða slakari áhættustýringu bæti það upp í útreikningi síns eiginfjárhlutfalls.
     b.      Í öðru lagi er gengið út frá því að viðhalda eiginfjárstöðu í lánakerfinu í heild þótt stærri og fullkomnari lánastofnanir fái í raun afslátt frá þeim reglum sem nú gilda. Á móti aukast eiginfjárkröfur hjá smærri og veikari lánastofnunum. Hugsunin er að tryggja þetta með því að skilgreina sérstaklega svokallaða rekstraráhættu sem síðar verður vikið að.
     c.      Í þriðja lagi einskorðast breytingarnar við áhættugrunninn. Ekki verða gerðar breytingar á skilgreiningu á eigin fé og lágmarkseiginfjárhlutfallið verður 8% eins og áður.
     d.      Í fjórða lagi er horfið frá því að leggja að jöfnu kröfur á ríki innan OECD. Kröfur á ríki munu byggjast á mati alþjóðamatsfyrirtækja eins og nánar er vikið að hér á eftir.
    Hinar nýju tillögur skiptast í þrjár meginstoðir:
     a.      Fyrsta stoðin fjallar um eiginfjárkröfuna og útreikning á henni.
     b.      Önnur stoðin fjallar um eftirlitið með reglunum, hlutverk og heimildir eftirlitsaðila samkvæmt reglunum.
     c.      Þriðja stoðin fjallar um aukið markaðsaðhald og kveður á um aukna upplýsingagjöf í ársreikningum, uppgjörum lánastofnana og skýringum með þeim.

9.     Úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslenska fjármálakerfinu.
    Í lok árs 2000 framkvæmdi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn athugun á íslenska fjármálakerfinu sem kallast „Financial Sector Stability Assessment“. Athugunin var liður í sérstöku átaki sjóðsins sem miðar að því að efla yfirsýn yfir veikleika í fjármálakerfum einstakra landa og stuðla að stöðugleika. Farið var m.a. yfir lög og reglur um starfsemi á fjármálamarkaði og fyrirkomulag eftirlits með hliðsjón af grunnreglum sem settar hafa verið í alþjóðasamstarfi bankaeftirlita, verðbréfaeftirlita og vátryggingaeftirlita. Einnig var fjallað um löggjöf og eftirlit með lífeyrissjóðum.
    Meginniðurstöður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru þær að fjármálaeftirlit hér á landi sé í góðri stöðu til að takast á við verkefni sitt. Hins vegar var það einnig mat sjóðsins að í íslensku fjármálakerfi væru veikleikar sem stefnt gætu stöðugleika þess í hættu. Sjóðurinn gerði athugasemdir og benti á ýmislegt sem betur mætti fara og stuðla mundi að frekara öryggi, bæði að því er varðar löggjöf og opinbert eftirlit.
    Veigamestu ábendingar sjóðsins lutu að því að eiginfjárhlutföll íslenskra lánastofnana væru almennt of lág þegar horft er til aðstæðna hér á landi. Sjóðurinn lagði áherslu á að efla þyrfti heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að knýja á um hækkun eiginfjárhlutfalla og krefjast hærri eiginfjárhlutfalla hjá einstökum lánastofnunum þegar sérstök áhætta væri í rekstri þeirra. Mat sjóðsins var jafnframt að eiginfjárhlutföll sem upp eru gefin kynnu að vera ótraust vegna veikleika í lögum og reglum, ekki síst að því er varðar reglur um afskriftir og áhættuflokkun útlána. Sérstök áhersla var lögð á það af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að reglur um afskriftir lánastofnana og áhættuflokkun útlána væru ekki í samræmi við það sem best gerist.
    Í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslensk efnahagsmál vorið 2002 sagði m.a.: „Stjórnvöld hafa náð verulegum árangri við að taka á veikleikum í reglum sem varða starfsemi og eftirlit á fjármálamarkaði sem bent var á í svonefndri FSSA skýrslu (e. Financial Stability Assessment Report) árið 2001. Fjármálaeftirlitið lagði sérstaka áherslu á að bankar ykju eigið fé sitt. Viðleitni stjórnvalda hefur þegar skilað betri rekstrar- og þjóðhagsvísbendingum sem notaðar eru til að meta fjármálastöðugleika og einnig bættri stjórn fjármálastofnana. Sendinefnd sjóðsins fagnar því að regluverk og eftirlit með fjármálastofnunum hefur verið eflt. Einnig fagnar sendinefndin frumkvæði sem gætt hefur í starfi Fjármálaeftirlitsins. Í framhaldi af þessu leggur nefndin til að hert verði ákvæði um lágmarksstaðla fyrir áhættuflokkun útlána, framlög í afskriftareikning og veðmat. Einnig er mælst til að oftar verði framkvæmd athugun á staðnum hjá fjármálastofnunum og fylgst verði náið með ört vaxandi lánum á skuldabréfum og á fjárfestingarbankastarfsemi. Leggja ber áherslu á samþykkt og framkvæmd laga sem eru í undirbúningi. Gera má ráð fyrir að þau geri kleift að hafa betra eftirlit með innbyrðis tengdri fjármálastarfsemi, opni fyrir eftirlit á samstæðugrundvelli með vensluðum fyrirtækjum og leggi til reglur sem miða að því að eiginfjárreglur banka taki mið af áhættu í starfsemi þeirra.“
    Bankalaganefnd fór ítarlega yfir úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lagði til í vinnu sinni að gerðar yrðu nokkrar breytingar á bankalögum, m.a. vegna athugasemda sjóðsins. Þar má nefna:
          Fjármálaeftirlitið veiti og afturkalli starfsleyfi.
          Heimild Fjármálaeftirlitsins til að krefjast hærra eiginfjárhlutfalls í vissum tilfellum.
          Fjármálaeftirlitið getur bannað starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis við tilteknar aðstæður.
          Skýrari ákvæði um eftirlit á samstæðugrunni.
          Skýrari reglur um hæfi stjórnenda.

10.     Listi yfir fjármálafyrirtæki.
    Í júní 2002 voru 53 fjármálafyrirtæki sem heyra undir lög um viðskiptabanka og sparisjóði, lög um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, lög um verðbréfaviðskipti og lög um verðbréfasjóði. Þau skipast þannig að viðskiptabankar voru fimm, sparisjóðir 24, aðrar lánastofnanir tíu, verðbréfafyrirtæki sex, verðbréfamiðlanir þrjár og rekstrarfélög verðbréfasjóða fimm. Fyrirtækin eru:
     Viðskiptabankar:
    Búnaðarbanki Íslands hf., Íslandsbanki hf., Kaupþing banki hf., Landsbanki Íslands hf.,
Sparisjóðabanki Íslands hf.
     Sparisjóðir:
    Nb.is – sparisjóður, Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Hafnarfjarðar, Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis, Sparisjóður Hólahrepps, Sparisjóður Húnaþings og Stranda, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Kaupþings, Sparisjóður Kópavogs, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Norðlendinga, Sparisjóður Ólafsfjarðar, Sparisjóður Ólafsvíkur, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóður Siglfirðinga, Sparisjóður Strandamanna, Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestfirðinga, Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður vélstjóra, Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis, Sparisjóðurinn í Keflavík.
     Aðrar lánastofnanir:
    Byggðastofnun, Ferðamálasjóður, Hafnabótasjóður, Lánasjóður landbúnaðarins, Glitnir hf., SP-fjármögnun hf., Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf., Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., Greiðslumiðlun hf. Visa Ísland, Kreditkort hf. – Europay Ísland.
     Verðbréfafyrirtæki:
    Fjárvernd – Verðbréf hf., Íslensk verðbréf hf., Jöklar – Verðbréf hf., MP Verðbréf hf., Verðbréfastofan hf., Virðing hf.
     Verðbréfamiðlanir:
    Annar hf. verðbréfamiðlun, Íslenskir fjárfestar, Vaxta ehf. verðbréfamiðlun.
     Rekstrarfélög verðbréfasjóða:
    Kaupþing – eignastýring ehf., Landsvaki ehf., Rekstrarfélag Verðbréfasjóðs Búnaðarbankans hf., Rekstrarfélag VÍB ehf., SPH Rekstrarfélag.

11.     Þjóðhagslegt mat á eftirliti.
    Í frumvarpinu er kveðið á um það að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja. Þörfin á eftirliti er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, sbr. 3. gr. laga um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999. Eftirlitsheimildir byggjast á þeim 14 tilskipunum sem nefndar eru í 8. kafla athugasemda þessara og hafa allar að einni undanskilinni verið innleiddar áður í íslenskan rétt. Hér á eftir er stutt greining á þörf fyrir eftirlit, mat á kostnaði við eftirlitið og skipulag eftirlitsins.

a.     Greining á þörf fyrir eftirlit.
    Fjármálamarkaðurinn gegnir lykilhlutverki í hverju hagkerfi. Bankakerfið miðlar greiðslum, veitir lán og tekur á móti innlánum. Verðbréfamarkaðurinn er milliliður á milli útgefanda fjár og fjárfesta. Gjaldþrot fjármálafyrirtækja getur haft keðjuverkandi áhrif og leitt til hruns fjármagnsmarkaðarins eða einstakra hluta hans. Afleiðingarnar geta verið alvarlegar fyrir hagkerfið í heild sinni. Flest ríki heims hafa því sett strangur reglur um starfsemi fyrirtækja á fjármagnsmarkaði og komið á fót opinberu eftirliti með starfseminni.
    Frumvarp þetta byggir að langmestu leyti á gerðum EES-samningsins um fjármálaþjónustu, sbr. kafla 8b hér að framan. Gerðir EES-samningsins á þessu sviði kveða á um grunnþætti í eftirliti á fjármagnsmarkaði. Það er síðan löggjafans í viðkomandi landi að útfæra eftirlitið nánar og í því efni er talsvert svigrúm.
    Að auki byggir frumvarpið á öðrum alþjóðlegum reglum og viðmiðunum um starfsemi fjármálaeftirlita sem hafa að verulegu leyti þróast með alþjóðlegri samvinnu sem leitt hefur til ákveðinnar samræmingar eftirlitsreglna. Alþjóðlegt samstarf fjármálaeftirlita byggir á þremur meginstoðum:
          Baselnefnd um bankaeftirlit (Basel Committee on Banking Supervision) hefur sett ýmsar grundvallarreglur á fjármagnsmarkaði. Nefna má kjarnareglur fyrir árangursríkt bankaeftirlit og eiginfjárreglur fyrir lánastofnanir.
          IOSCO nefnast alþjóðasamtök verðbréfaeftirlita en þar eru mótaðar leiðbeinandi reglur um eftirlit á verðbréfamarkaði.
          IAIS eru alþjóðasamtök vátryggingaeftirlita en þau hafa einnig sett leiðbeinandi reglur.

b.     Mat á kostnaði við eftirlit.
    Eftirlitsskyldir aðilar kosta starfsemi Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Álagt eftirlitsgjald fjármálafyrirtækja nemur um 111 millj. kr. á þessu ári en heildareftirlitsgjald eftirlitsskyldra aðila alls um 211 millj. kr.
    Almennt markmið með starfsemi fjármálaeftirlita er stuðla að heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum, auka öryggi eigna og stuðla að bættri vernd neytenda. Slíkt eftirlit er því talið hafa í för með sér mikinn ávinning fyrir samfélagið. Beinn kostnaður við eftirlitið liggur fyrir en erfitt er að meta hvort opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hefur í för með sér óbeinan kostnað. Óbeinn kostnaður fyrir einstaklinga getur t.d. verið fólgin í hærra verði þjónustu sem til kemur af eftirlitsgjaldi sem eftirlitsskyldir aðilar verða að greiða. Almennt má gera ráð fyrir að slíkur óbeinn kostnaður vegi ekki þungt þegar horft er til ávinnings sem felst í aðhaldi og eftirliti með fjármálafyrirtækjum sem miðar að því að draga úr og koma í veg fyrir áföll. Þannig verður að ætla að eftirlitið leiði ekki til hærra verðs á þjónustu eftirlitsskyldra aðila en vera mundi ef ekkert eftirlit væri með starfsemi þeirra.
    Í frumvarpi þessu er ekki lagt nákvæmt mat á áhrif þess á núverandi rekstrarkostnað eftirlitsins. Ætla má að einhver kostnaðarauki fylgi því að koma ákvæðum laganna í framkvæmd af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Hins vegar er erfitt að meta langtímaáhrif frumvarpsins þar sem kostnaður af framkvæmd laga af þessu tagi ræðst einkum af þróun fjármálamarkaðarins. Því er talið eðlilegt að nánari áhrif frumvarpsins verði fremur metin í tengslum við frumvörp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem lögð eru fram á hverju haustþingi.

c.     Skipulag eftirlits.
    Opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er beint eftirlit framkvæmt af eftirlitsstjórnvaldi. Eftirlit Fjármálaeftirlitsins felst að miklu leyti í öflun upplýsinga um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, vettvangsrannsóknum, sérstökum athugunum og öðrum aðferðum sem gera því kleift að kanna hvort starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir og reglur sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Meginábyrgðin á eftirlitinu er hins vegar á hendi eftirlitsskyldra aðila sjálfra. Það er á ábyrgð stjórnenda fjármálafyrirtækja að skipuleggja starfsemi sína þannig að fyrir hendi sé virk áhættustýring, innra eftirlit og eftirfylgni við lög og reglur.
    Reglur um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eru settar með lögum og reglugerðum. Í vissum tilfellum hefur Fjármálaeftirlitið heimild til setningar reglna um einstaka þætti í starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Framkvæmd eftirlitsins er í höndum Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsskyldra aðila. Fjármálaeftirlitið hefur víðtækar heimildir til að krefjast úrbóta komi í ljós við athuganir þess að eftirlitsskyldir aðilar fylgi ekki lögum eða öðrum reglum sem um starfsemina gilda. Kveðið er á um slíkar heimildir í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins má skjóta til sérstakrar kærunefndar sem tilnefnd er af Hæstarétti.
    Skipulag eftirlitsins byggist að langmestu leyti á erlendum fyrirmyndum og er ætlað að miða að því að opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hér á landi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í gildandi tilskipunum á Evrópska efnahagssvæðinu og alþjóðlegum grunnreglum um árangursríkt fjármálaeftirlit.

d.     Breyting á umfangi eftirlits.
    Frumvarp þetta kallar ekki á mikla breytingu á umfangi opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi. Almennar starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins eru í lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þær heimildir voru styrktar með lögum nr. 11/2000, um breytingu á lögum nr. 87/1998. Sérstakar heimildir er varða einstakar tegundir eftirlitsskyldra aðila er að finna í ýmsum lögum á fjármálamarkaði.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að samræmd verði starfsskilyrði nokkurra tegunda fyrirtækja sem starfa á fjármálamarkaði. Eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins eru að langmestu leyti hinar sömu og í gildi eru í dag og byggjast á EES-samningnum. Þó má reikna með að þrjár nýjungar í frumvarpinu muni leiða til aukins eftirlits. Í fyrsta lagi mun rekstrarfélag verðbréfasjóðs fá starfsleyfi á fjármálamarkaði og getur opnað útibú eða stundað þjónustu án stofnunar útibús á EES-svæðinu í samræmi við breytingu á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að starfsleyfisumsóknir verði ítarlegri en áður og Fjármálaeftirlitið geti veitt og afturkallað leyfi til hluta þeirrar starfsemi sem viðkomandi tegund fjármálafyrirtækis stendur til boða að sækja um. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að ákvarða hærra eiginfjárhlutfall en 8% fyrir fjármálafyrirtæki að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þessi heimild er í samræmi við væntanlegar alþjóðlegar eiginfjárreglur. Gera má ráð fyrir mikilli vinnu Fjármálaeftirlitsins og fjármálafyrirtækja á næstu árum við undirbúning innleiðingar nýrra eiginfjárreglna.
    Við samræmingu og einföldun lagaákvæða um fjármálafyrirtæki má reikna með að eftirlit með þeim geti orðið skilvirkara. Þetta vegur á móti auknu eftirliti vegna nýrra reglna í frumvarpi þessu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Frumvarp þetta fjallar um kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja, svo sem um stofnun, starfsemi, starfsheimildir, stjórn, eigið fé og ársreikninga. Þau fjármálafyrirtæki sem fá starfsleyfi hér á landi lúta lögum um fjármálafyrirtæki. Auk þess geta fjármálafyrirtæki sem hafa fengið starfsleyfi erlendis fengið heimild til að stunda hverja þá starfsemi sem lög þessi taka til að skilyrðum V. kafla frumvarpsins uppfylltum.
    Fjármálafyrirtæki er lykilhugtak í frumvarpi þessu. Fjármálafyrirtæki er samheiti yfir þær sjö tegundir starfsleyfa sem kveðið er á um í 4. gr. Með innleiðingu á hugtakinu fjármálafyrirtæki er búið að sameina í eitt hugtak þær kröfur sem gerðar eru til lánastofnana (e. credit institutions) samkvæmt tilskipun um stofnun og rekstur lánastofnana (2000/12/EB), fjárfestingarfyrirtækja (e. investment firms) samkvæmt tilskipun um fjárfestingarþjónustu (93/ 22/EBE) og tilskipun um eigið fé lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja (93/6/EBE), rafeyrisfyrirtækja samkvæmt tilskipun um rafeyrisstofnanir (2000/46/EB) og rekstrarfélaga verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða samkvæmt breytingu á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (2001/107/EB). Með hugtakinu fjármálafyrirtæki fellur út úr íslenskum lögum hugtakið fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem frá árinu 1996 hefur verið notað sem samheiti verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana.

Um II. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um veitingu og afturköllun starfsleyfa fjármálafyrirtækja.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um breytingu frá gildandi lögum. Í gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, verðbréfaviðskipti, rafeyrisfyrirtæki og verðbréfasjóði veitir viðskiptaráðherra starfsleyfi að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Hér er lagt til að Fjármálaeftirlitið veiti fjármálafyrirtækjum starfsleyfi. Sú skipan er í samræmi við almenna venju í Evrópu þar sem fjármálaeftirlit annaðhvort veita starfsleyfi eða inna af hendi alla þá undirbúningsvinnu við athugun á umsókn sem nauðsynleg er til að umsækjandi geti hlotið starfsleyfi. Veiting starfsleyfis er í raun aðeins einn hluti af opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækis. Þessi breyting hefur það í för með sér að umsækjendur geta kært synjun Fjármálaeftirlitsins um starfsleyfi til kærunefndar sem starfar samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Um 3. gr.

    Í greininni kemur fram hvaða starfsemi er starfsleyfisskyld. Í gildandi lögum um fjármálamarkaðinn er víða að finna ákvæði um einkarétt ákveðinna tegunda stofnana til fjármálastarfsemi. Þar má nefna:
     a.      Lög um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996. Í 2. mgr. 44. gr. segir að viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum stofnunum sem til þess hafa sérstaka lagaheimild er einum heimilt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Sem dæmi um slíka lagaheimild má nefna ákvæði laga nr. 22/1991 um innlánsdeildir samvinnufélaga.
     b.      Lög um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 123/1993. Í 1. mgr. 2. gr. segir að með lánastofnun sé átt við félög eða stofnanir sem hafa það að meginverkefni að veita lán í eigin nafni og afla sér í því skyni fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Í 1. mgr. 9. gr. segir að með eignarleigufyrirtækjum sé átt við lánastofnanir sem hafa eignarleigu að meginstarfsemi sinni, óháð því hvernig sú starfsemi er fjármögnuð. Í 1. mgr. 3. gr. segir að óheimilt sé að hefja starfsemi lánastofnunar nema að fengnu starfsleyfi viðskiptaráðherra.
     c.      Lög um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996. Í 8. og 9. gr. er tilgreind sú starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf sem er fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu heimil. Í 1. mgr. 10. gr. segir að öðrum aðilum en fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu sé óheimilt að annast starfsemi sem um getur í 1. tölul. 8. gr. og 9. gr. nema lög ákveði annað. Í 28. gr. segir að almennt útboð verðbréfa skuli fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja eða annarra aðila sem til þess hafi heimild í lögum.
     d.      Lög um rafeyrisfyrirtæki, nr. 37/2002. Í 1. mgr. 5. gr. segir að rafeyrisfyrirtækjum, viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum sé einum heimilt að gefa út rafeyri.
     e.      Lög um verðbréfasjóði, nr. 10/1993. Skv. 12. gr. skal rekstur verðbréfasjóðs falinn sérstöku rekstrarfélagi sem hlotið hefur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins.
    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir einstökum töluliðum greinarinnar.
     1.      Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi. Í 3. gr. tilskipunar um stofnun og rekstur lánastofnana er kveðið á um að aðildarríki skuli banna einstaklingum eða fyrirtækjum sem ekki eru lánastofnanir að taka við innlánum eða öðru fé frá almenningi til endurgreiðslu. Með orðunum „öðru fé frá almenningi til endurgreiðslu“ er átt við hvers konar skuldaviðurkenningar frá almenningi sem fyrirtækið skal endurgreiða. Við túlkun á tilskipun um stofnun og rekstur lánastofnana er litið svo á að skuldabréfaútgáfur einstakra fyrirtækja sem ekki starfa á fjármálamarkaði falli ekki undir einkarétt fjármálafyrirtækja til að taka við endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi, enda ekki hægt að líta svo á að almenn atvinnufyrirtæki séu í þeirri starfsemi að taka við endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi.
     2.      Veiting útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi. Veiting útlána er ekki starfsleyfisskyld starfsemi nema því aðeins að þau séu fjármögnuð með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi. Þetta er í samræmi við gildandi rétt og skilgreiningu á lánastofnun í tilskipun um stofnun og rekstur lánastofnana.
     3.      Eignaleiga. Eignaleiga er starfsleyfisskyld starfsemi skv. 9. gr. laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 2. gr. þeirra laga. Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 123/1993 er sérákvæði um stofnfé eignaleigufyrirtækja, en þar segir að heimilt sé að stofna eignaleigufyrirtæki með 80 milljóna króna hlutafé hið lægsta. Hér er lagt til að eignaleiga verði áfram starfsleyfisskyld starfsemi en sérákvæði um eignaleigufyrirtæki afnumin. Þannig verði fyrirtæki sem stunda eignaleigu að uppfylla starfsleyfiskröfur um viðskiptabanka, sparisjóði eða lánafyrirtæki, m.a. um að stofnfé verði aldrei lægra en 5 milljónir evra. Útlán eignaleigufyrirtækja eru að jafnaði talin áhættumeiri en útlán banka og sparisjóða. Ástæðan fyrir þessu er að tryggingin fyrir fjármögnun hjá eignaleigufyrirtækjum er oft í tækjum sem hafa skamman líftíma og stundnum óvissan eftirmarkað ef á reynir. Einnig getur fjármögnunarhlutfall verið allt að 100% af kaupverði. Þegar um fasteignir er að ræða er fjármögnunarhlutfallið hátt og öll áhættan vegna fjármögnunarinnar hjá eignaleigufyrirtækinu. Ekki virðast rök fyrir því að gera minni kröfur til fyrirtækja sem stunda eignaleigu en til viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja þegar litið er til áhættunnar af starfseminni.
                  Samkvæmt tilskipun um stofnun og rekstur lánastofnana er fjármögnunarleiga (e. financial leasing) eitt form fjármálaþjónustu sem lýtur gagnkvæmri viðurkenningu á innri markaðnum. Hins vegar er ekki skilyrði að eignaleiga sé starfsleyfisskyld. Algengt er að fyrirtæki sem stunda eignaleigu séu dótturfyrirtæki lánastofnana sem geta notið gagnkvæmrar viðurkenningar á innri markaðnum sem fyrirtæki tengt fjármálasviði.
                  Þrjú fyrirtæki skilgreina sig sem eignaleigufyrirtæki hér á landi. Þau veita einnig hefðbundin lán í miklum mæli. Um er að ræða bílalán og tækjalán með veði í viðkomandi eign. Þessi fyrirtæki skilgreina starfsemi sína nú sem eignafjármögnunarstarfsemi (e. asset based financing).
                  Úr skilgreiningu á eignaleigu er fellt brott ákvæði um skilmála um eignar- og afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum þar sem í sumum formum eignaleigu skal skila hinu leigða skilyrðislaust í lok leigutíma. Eignaleigu er gjarnan skipt í þrennt: fjármögnunarleigu, kaupleigu og rekstrarleigu. Í fjármögnunarleigu helst eignarréttur hjá leigusala. Í kaupleigu er leigutaka veittur réttur til að eignast hið leigða í lok leigutíma. Rekstrarleiga er eignaleiga sem hvorki telst til fjármögnunarleigu eða kaupleigu.
                  Hér er lagt til að starfsemin nefnist eignaleiga í stað eignarleigu. Eignarleiga er ekki réttnefni fyrir þá starfsemi sem orðið á að lýsa. Eignarleiga merkir leigu á einhverju sem leigutaki eignast síðan. Eignaleiga merkir hins vegar leigu á eign, óháð því hvort leigutaki eignast hið leigða í lok samningstíma.
                  Í 3. tölul. 20. gr. er kveðið á um fjármögunarleigu sem eina tegund starfsemi sem viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt að sinna. Með beitingu 21. gr. um þjónustustarfsemi sem er í eðlilegum tengslum við starfsemi skv. 20. gr. er kaupleiga og rekstrarleiga einnig talin starfsemi sem heimil er framangreindum tegundum fjármálafyrirtækja. Eignaleiga er síðan skilgreind sem starfsleyfisskyld starfsemi samkvæmt þessari grein svo fremi sem fyrirtækið hafi slíka starfsemi að meginstarfsemi sinni. Það er með öðrum orðum heimilt fyrir fyrirtæki að stunda eitthvert form eignaleigu, t.d. rekstrarleigu á ljósritunarvélum, án starfsleyfis að því marki að ekki verði talið að um meginstarfsemi þess sé að ræða.
     4.      Útgáfa og umsýsla greiðslukorta. Einn þáttur fjármálaþjónustu viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem háður er gagnkvæmri viðurkenningu á innri markaðnum skv. 1. viðauka í tilskipun um stofnun og rekstur lánastofnana er útgáfa og umsýsla greiðslukorta. Þess er á hinn bóginn ekki krafist að fyrirtæki sem eingöngu sinna þessari starfsemi séu með starfsleyfi. Í nær öllum tilvikum er greiðslukortastarfsemi aðeins ein tegund þjónustu sem viðskiptabankar veita viðskiptavinum sínum. Hér á landi er greiðslukortastarfsemi, eða a.m.k. stór hluti hennar, á hendi tveggja fyrirtækja í eigu viðskiptabanka og sparisjóða. Þau hafa bæði starfsleyfi sem lánastofnanir samkvæmt lögum nr. 123/1993. Telja verður eðlilegt í ljósi áhættunnar í greiðslukortastarfsemi að engir aðrir en þeir sem uppfylla kröfur samkvæmt þessum lögum geti haft með höndum útgáfu og umsýslu greiðslukorta. Það er einnig í samræmi við þær kröfur sem alþjóðagreiðslukortafyrirtæki gera til aðila að sínum viðskiptakerfum. Bent skal á að lánafyrirtæki sem fá starfsleyfi skv. 3. tölul. 4. gr. geta ekki gefið út debetkort þar sem þessar lánastofnanir hafa ekki heimild til að taka á móti innlánum.
     5.      Útgáfa og umsýsla rafeyris. Kveðið er á um einkarétt rafeyrisfyrirtækja og lánastofnana til rafeyrisstarfssemi í tilskipun um rafeyrisfyrirtæki.
     6.      Viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga. Hér eru tilgreind sem starfsleyfisskyld viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga þrír af fjórum þáttum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 13/1996, sbr. A-þátt viðauka við tilskipun um fjárfestingarþjónustu nr. 93/22/EB. Hér er notað hugtakið fjármálagerningur í stað hugtaksins verðbréf og er það í samræmi við hugtakanotkun í frumvarpi til laga um verðbréfaviðskipti. Fjórði þátturinn, viðskipti með eigin reikning, er mikilvægur hluti starfsemi hverrar lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis, en getur ekki talist starfsleyfisskyldur, enda hverjum einstaklingi og lögaðila frjálst að stunda verðbréfaviðskipti fyrir eigin reikning. Í þessum tölulið er einnig kveðið á um að umsjón með útboði verðbréfa sé starfsleyfisskyld starfsemi. Það er í samræmi við 28. gr. laga nr. 13/1996.
     7.      Rekstur verðbréfasjóða. Rekstur verðbréfasjóða er aðeins heimilaður rekstrarfélagi verðbréfasjóða samkvæmt tilskipun um breytingar á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (2001/107/EB).


Um 4. gr.

    Í greininni eru tilgreindar sjö tegundir starfsleyfa sem allar falla undir hugtakið fjármálafyrirtæki. Fyrstu fjórar tegundir starfsleyfanna uppfylla kröfur til að teljast lánastofnanir samkvæmt Evrópurétti.
    Í greininni koma fram allar þær tegundir starfsleyfa sem nauðsynlegar eru til að uppfylla tilskipanir ESB á sviði banka- og verðbréfaviðskipta. Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki falla öll undir hugtakið lánastofnun. Ekki er nauðsynlegt samvæmt Evrópurétti að greina með þessum hætti á milli þessara þriggja tegunda fjármálafyrirtækja, en skiptingin hér á landi byggist á sögulegri hefð. Rafeyrisfyrirtæki er lánastofnun sem lýtur þó takmarkaðri skilyrðum en aðrar tegundir lánastofnana samkvæmt tilskipun um rafeyrisfyrirtæki. Verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlanir eru fjárfestingarfyrirtæki í skilningi tilskipunar um fjárfestingarþjónustu og tilskipunar um eigið fé lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja. Rekstrarfélag verðbréfasjóða lýtur kröfum samkvæmt tilskipun um breytingar á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.
    Farin er sú leið í greininni að vísa til þeirrar starfsleyfisskyldu starfsemi sem fyrirtækið getur fengið heimild til að stunda. Heimildir viðskiptabanka og sparisjóða eru víðtækastar og geta þeir fengið heimild til að stunda alla starfsleyfisskylda starfsemi skv. 4. gr. að undanskildum rekstri verðbréfasjóða. Lánafyrirtæki hafa sömu heimildir og viðskiptabankar að því undanskildu að þau geta ekki tekið á móti innlánum. Ástæða er til að vekja athygli á því að þess er krafist að viðskiptabankar og sparisjóðir hafi bæði starfsleyfi fyrir og veiti þá þjónustu að taka á móti innlánum frá almenningi og veita lán sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi. Sé þessi þjónusta ekki veitt getur hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki ekki talist viðskiptabanki eða sparisjóður. Með sama hætti þarf lánafyrirtæki bæði að hafa starfsleyfi fyrir og veita þá þjónustu að taka á móti skuldaviðurkenningum frá almenningi og veita útlán skv. 2. tölul. Í frumvarpinu er hugtakið lánafyrirtæki notað í stað lánastofnunar annarrar en viðskiptabanka og sparisjóða. Um aðrar starfsheimildir fjármálafyrirtækja en þær sem starfsleyfisskyldar eru er fjallað í IV. kafla.
    Í frumvarpinu er, eins og í gildandi lögum, skilið á milli viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi og starfsemi lánafyrirtækja. Munurinn liggur í því að viðskiptabankar og sparisjóðir hafa heimild til þess að taka á móti innlánum en lánafyrirtæki ekki. Í EES-rétti er þessi aðskilnaður ekki gerður en aðildarríki mega skilgreina hugtakið lánastofnun í landsrétti og hafa gert það hvert á sinn hátt. Í Danmörku er t.d. ekki skilið á milli viðskiptabanka og sparisjóða annars vegar og annarra lánastofnana hins vegar. Í norskum lögum og fyrirliggjandi lagafrumvarpi er gerður greinarmunur þannig að lánastofnanir aðrar en bankar og sparisjóðir taka ekki á móti innlánum. Í Svíþjóð geta fjárfestingarbankar tekið við innlánum eins og viðskiptabankar og sparisjóðir, en aðrar lánastofnanir ekki.
    Sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu að viðskiptabankar og sparisjóðir verði að veita innlánaþjónustu mun koma í veg fyrir að í framtíðinni verði starfsleyfi viðskiptabanka eða sparisjóðs veitt nema umsækjandi hafi í hyggju að veita innlánaþjónustu. Með þessu er viðskiptabönkum og sparisjóðum veitt ákveðin vernd og aðskilnaður milli þeirra og annarra tegunda lánastofnana skýr. Það auðveldar almenningi að gera sér grein fyrir þeim eðlismun sem er að þessu leyti á fjármögnun viðskiptabanka og sparisjóða annars vegar og lánafyrirtækja hins vegar.
    Eðli málsins samkvæmt er nauðsynlegt að gefa lánafyrirtækjum svigrúm til þess að taka á móti fé inn á viðskiptareikninga vegna útlánastarfsemi og annarrar þjónustu sem þeim er heimilt samkvæmt lögum að veita. Þar á meðal verður að telja heimilt að stofna til reikninga í nafni viðskiptamanns án þess að það teljist til innláns. Slíkir reikningar væru að því leyti líkir innlánum að þeir gætu borið vexti, en ólíkir að því leyti að þeir einskorðast við viðskiptamenn lánafyrirtækisins en standa ekki öllum almenningi til boða. Hér á eftir er fjallað frekar um það svigrúm sem lánafyrirtæki hafa til að taka á móti fé inn á viðskiptareikninga.
    Skilyrði þess að viðskiptamaður eigi reikning hjá lánafyrirtæki í eigin nafni er að þjónustan sé í nánum og órjúfanlegum tengslum við hina heimilu starfsemi lánafyrirtækisins. Reikningur sem opnaður er í tengslum við útborgun eða innheimtu veittra lána telst þannig ekki til innláns þar sem hann er í órjúfanlegum tengslum við hið veitta lán. Séu hinar umsömdu innborganir á reikninginn ekki í samræmi við innheimtu lánsins er hins vegar um innlán að ræða. Það sama á við um reikning sem notaður er í tengslum við inn- og útborganir í gjaldeyrisviðskiptum, t.d. í tengslum við viðskipti lántaka, eða aðra milligöngu lánafyrirtækis. Sé um reikninga að ræða, þar sem geymdar eru og ávaxtaðar fjárhæðir sem ekki eru í tengslum við þær millifærslur sem eiga sér stað, er hins vegar um innlán að ræða. Að sama skapi eru safnreikningar sem ekki eru í beinum tengslum við hin heimilu viðskipti lánafyrirtækisins innlán.
    Mikilvægt er samkvæmt framansögðu að skilgreina viðskiptamannahóp þröngt þegar stofnaðir eru reikningar í þeirra nafni. Þannig er til dæmis lánafyrirtæki óheimilt að stofna reikning í nafni einstaklings eða fyrirtækis sem ætlaður er til hreinna gjaldeyrisviðskipta, ef viðkomandi er ekki í hópi viðskiptamanna að öðru leyti.
    Mikilvægt er að lánafyrirtæki sem stofna til reikninga sem heimilir teljast samkvæmt framansögðu kynni þá hvorki né auglýsi sem innlán. Þá þurfa lánafyrirtæki að gæta varfærni við stofnun og notkun reikninga af þessu tagi. Viðskiptin þurfa þannig að tengjast beint inn- og útborgunum vegna sérgreindra viðskipta lánafyrirtækisins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hvaða fjármálafyrirtæki teljast til lánastofnana í skilningi Evrópuréttarins. Lánastofnun er skilgreind í tilskipun 2000/12/EB sem a) fyrirtæki með starfsemi sem felst í að taka á mótum innlánum eða öðru fé frá almenningi til endurgreiðslu og veita lán fyrir eigin reikning; eða b) rafeyrisfyrirtæki í skilningi tilskipunar 2000/46. Í orðskýringunni kemur fram að viðskiptabankar, sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og rafeyrisfyrirtæki eru lánastofnanir samkvæmt lögunum. Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki þurfa skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 4. gr. ætíð að hafa starfsleyfi til og veita þá þjónustu að taka á móti endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi og veita útlán sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi. Hugtakið lánastofnun er lítið notað í frumvarpinu, enda er markmiðið að nota samheitið fjármálafyrirtæki að því marki sem það er unnt yfir lánastofnanir og aðrar tegundir fyrirtækja sem starfa á fjármálamarkaði og lög þessi taka til.

Um 5. gr.

    Í greininni eru talin upp þau gögn sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins. Upptalningin er ekki tæmandi því Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir frekari gögnum eftir því sem við á.
    Upplýsingar sem koma skulu fram í umsókn skulu vera ítarlegar. Markmiðið er að umsækjendur geri fyrir fram grein fyrir þeirri starfsemi sem fyrirhugað er að sinna og sýni fram á að þeir séu hæfir til að sinna henni. Fyrirtæki getur þannig byrjað með þrönga starfsemi en smátt og smátt víkkað út starfsheimildir sínar.
    Umsækjendur þurfa að gera grein fyrir allri fyrirhugaðri starfsemi sinni og hvernig henni verði sinnt. Þannig er ekki fullnægjandi að umsækjandi um leyfi til að starfrækja viðskiptabanka segi í umsókn að hann hyggist sinna allri þeirri starfsemi sem viðskiptabanka er heimil. Hann þarf að gera grein fyrir hverjum einstökum þætti starfseminnar, sbr. starfsleyfisskylda starfsemi skv. 3. gr. og aðra starfsemi skv. 20. gr.
    Athygli skal vakin á að upplýsingar skv. 6. tölul. eiga aðeins við um eigendur virkra eignarhluta, sbr. VI. kafla.

Um 6. gr.

    1. mgr. er efnislega óbreytt frá 5. mgr. 4. gr. gr. laga nr. 113/1996. Í tilskipun um stofnun og rekstur lánastofnunar er gert ráð fyrir að lögbær yfirvöld hafi lengri tíma til að taka ákvörðun, eða sex mánuði frá því að umsækjandi sendir upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna ákvörðunartökunnar. Vakin er athygli á því að það er Fjármálaeftirlitsins að meta hvenær umsókn telst fullbúin. Til að umsækjandi sé ekki í vafa um hversu lengi þurfi að bíða úrlausnar Fjármálaeftirlitsins er til áréttingar tekið fram að tilkynna skuli umsækjandanum um það þegar umsókn telst fullnægjandi með þeim réttaráhrifum að frestur fari að líða.
    Í 2. mgr. er tilgreint hvað skuli koma fram í starfsleyfi. Fjármálafyrirtæki sem hafa fengið sömu tegund starfsleyfis þurfa ekki ætíð að hafa sömu starfsheimildir. Skv. 5. gr. þurfa umsækjendur að greina frá þeirri starfsemi sem fyrirhugað er að stunda, hvort sem hún er starfsleyfisskyld skv. 3. gr. eða önnur starfsemi skv. IV. kafla. Viðskiptabanki eða sparisjóður getur t.d. kosið að bjóða ekki upp á alla þjónustu sem þeim er heimilt að sækja um skv. 1.–6. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 20. gr. Fjármálafyrirtæki geta síðan óskað eftir uppfærslu á starfsleyfi sínu ef þau vilja bjóða upp á frekari starfsemi innan sömu tegundar eða samkvæmt annarri tegund starfsleyfis.
    3. mgr. er efnislega óbreytt frá 3. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1996.
    4. mgr. er efnislega óbreytt frá 6. mgr. 4. gr. laga nr. 113/1996.

Um 7. gr.

    Ákvæði um rökstuðning synjunar og fresti eru í samræmi við 10. gr. tilskipunar um stofnun og rekstur lánastofnana. Ákvæðið gengur lengra að því leyti að frestur Fjármálaeftirlitsins til synjunar er þrír mánuðir í stað sex samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar.

Um 8. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 96. gr. laga nr. 113/1996.

Um 9. gr.

    Í ákvæði þessu eru talin upp helstu tilvik sem leitt geta til afturköllunar starfsleyfis fjármálafyrirtækis. Farin er sú leið í 1. mgr. að kveða á um heimild, fremur en skyldu, Fjármálaeftirlitsins til að afturkalla starfsleyfi. Ástæðan er sú að afturköllun er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem veltur á mati, og er því eðlilegt að Fjármálaeftirlitið hafi svigrúm til að meta hvort beitt skuli afturköllun eða öðrum vægari úrræðum. Þá felur orðalag 1. mgr. í sér að unnt er að afturkalla leyfi fyrir einstaka starfsemisþætti. Fjármálaeftirlitið getur því látið við það sitja að draga til baka heimild fjármálafyrirtækis til að stunda tiltekna starfsemi ef ástæður afturköllunar snerta ekki hæfi fyrirtækisins til að sinna öðrum starfsemisþáttum. Er þetta í samræmi við hina almennu meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.
    Einstakir töluliðir 1. mgr. samsvara að mestu ákvæðum 1. mgr. 90. gr. núgildandi laga nr. 113/1996 og 1. mgr. 60. gr. laga nr. 13/1996, með nokkrum undantekningum.
    4. tölul. samsvarar efnislega 5. tölul. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 113/1996 um hæfi. Tekið skal fram að afturköllun verður því aðeins beitt vegna vanhæfis hluthafa að viðkomandi hafi ekki getað eða viljað selja hluti sína.
    Samkvæmt 5. tölul. geta náin tengsl fjármálafyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila varðað afturköllun starfsleyfis á sama hátt og í núgildandi 6. tölul. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 113/1996. Skilgreiningu á inntaki hugtaksins „náin tengsl“ er hins vegar að finna í 18. gr. frumvarpsins.
    Í 6. tölul. er áréttað að úrskurður um slit fyrirtækis leiði til afturköllunar starfsleyfis. Ákvæði þetta er í samræmi við 1. mgr. 12. gr. tilskipunar 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja.
    Loks er í 7. tölul. tekið fram að afturköllunarástæður eru ekki tæmandi taldar í greininni, enda er ekki unnt að sjá fyrir öll þau tilvik sem kunna að gera afturköllun nauðsynlega vegna þeirra verndarhagsmuna sem lögin byggjast á.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að afturköllunarúrræðinu skuli ekki beitt án þess að fjármálafyrirtæki hafi fyrst gefist færi á að færa starfsemi sína í löglegt horf. Þó kunna að vera fyrir hendi þær aðstæður að frestur gæti leitt til tjóns t.d. fyrir viðskiptamenn fyrirtækisins, auk þess sem frestur til úrbóta á ekki við aðstæður samkvæmt sumum töluliðanna í 1. mgr. Getur því ekki verið um fortakslausan rétt fjármálafyrirtækis að ræða hvað þetta snertir.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að banna starfsemi fjármálafyrirtækja skv. IV. kafla sem ekki er starfsleyfisskyld. Til beitingar ákvæðisins kann einkum að koma vegna heimilda fjármálafyrirtækis til að eiga viðskipti fyrir eigin reikning. Sú starfsemi fjármálafyrirtækja er afar viðkvæm en er ekki starfsleyfisskyld, svo sem áður er rakið. Mikilvægt er í ljósi meðalhófs að unnt sé að grípa til aðgerða vegna fjármálafyrirtækja sem misfer með slíkar heimildir sínar án þess að starfsleyfi sé afturkallað í heild sinni.


Um 10. gr.

    Grein þessi er sama efnis og 92. gr. núgildandi laga nr. 113/1996 og 62. gr. laga nr. 13/1996 og þarfnast ekki skýringa.

Um III. kafla.

    Í III. kafla er að finna sameiginlegar reglur er einkum eiga við þegar fjármálafyrirtæki er stofnað, svo sem ytri umgjörð og afmörkun starfsemi fyrirtækisins. Í IV. kafla er hins vegar að finna nánari afmörkun á heimilli starfsemi hverrar tegundar fjármálafyrirtækis, auk reglna um heimila hliðarstarfsemi.
    Ákvæði kaflans eiga sér flest hliðstæðu í núgildandi löggjöf.

Um 11. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1996.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um einkarétt fjármálafyrirtækja til að kynna sig með heitum sem gefa til kynna starfsemi sem einkaréttur laganna tekur til. Hins vegar er lagt til að felld verði brott skylda viðskiptabanka og sparisjóða til að nota þau heiti, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 113/1996. Þess er þó vænst að innlánsstofnanir auðkenni sig með heiti, enda má ætla að hagsmunir fyrirtækjanna sjálfra leiði til þess að glöggt komi fram í markaðssetningu þeirra að um innlánsstofnanir sé að ræða. Lagaboð um þetta virðist því óþarft, einkum með tilliti til þess að hættu á ruglingi á að vera útrýmt með þeim einkarétti til heitis sem fram kemur í ákvæðinu. Sé nafngift fjármálafyrirtækis villandi gæti Fjármálaeftirlitið haft afskipti af því á grundvelli almennra heimilda sinna til að tryggja eðlilega viðskiptahætti.
    Samkvæmt 15. gr. tilskipunar 2000/12/EB hefur fjármálafyrirtæki rétt til þess að nota hvarvetna á EES-svæðinu sama nafn og það notar í heimaríki sínu, og er sá réttur tryggður í lokamálslið 1. mgr. Í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar er í 2. mgr. jafnframt kveðið á um úrræði Fjármálaeftirlitsins vegna hættu á ruglingi í slíkum tilvikum. Sérstök auðkenning að kröfu Fjármálaeftirlitsins mundi eiga sér stað í samræmi við almennar reglur þar að lútandi, svo sem firmaréttarreglur.
    Ákvæði 3. mgr. er samhljóða 2. mgr. 3. gr. laga nr. 113/1996 og þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.

    Í ákvæði þessu kemur fram sú meginregla að fjármálafyrirtæki skuli starfa sem hlutafélög. Felld er brott heimild verðbréfamiðlana samkvæmt eldri lögum nr. 13/1996 til að starfa sem einkahlutafélög, enda var henni einkum ætlað að auðvelda sjálfstætt starfandi verðbréfamiðlurum að laga sig að nýju rekstrarformi. Verður að ætla að sú þörf sé ekki lengur fyrir hendi og ekki sé ástæða til að gera minni kröfur til verðbréfamiðlana að þessu leyti.

Um 14. gr.

    Í greininni er fjallað um kröfur um hlutafé og stofnfé sem ávallt er skylt að uppfylla. Heimild Fjármálaeftirlitsins til afturköllunar starfsleyfis skv. 2. tölul. 9. gr. á við ef hlutafé eða stofnfé fer einhvern tímann niður fyrir það lágmark sem tiltekið er í ákvæðinu. Þó er vakin athygli á undanþágu samkvæmt ákvæði 77. gr. til handa þeim sparisjóðum sem starfandi eru við gildistöku laganna til að halda áfram starfsemi þrátt fyrir að hlutafé eða stofnfé þeirra sé undir fyrrgreindu lágmarki.
    Allir fjárhæðir í evrum í greininni styðjast við tilskipanir. Farin er sú leið í frumvarpinu að tilgreina fyrst lágmarksfjárhæð hlutafjár og stofnfjár í íslenskum krónum en jafnframt að fjárhæðin skuli aldrei nema lægri fjárhæð en tilgreindri fjárhæð í evrum. Þar sem þróun gengis íslensku krónunnar er óviss getur þetta leitt til þess að 450 milljónir króna dugi ekki til að stofna viðskiptabanka hér á landi.
    Ákvæði fyrstu sex málsgreinanna taka mið af stofnun nýs fyrirtækis. Í 7. mgr. er hins vegar kveðið á um að þegar fjármálafyrirtæki sækir um nýtt starfsleyfi sé ekki þörf á að hlutafé sé yfir þeim mörkum sem tilgreind eru í fyrstu sex málsgreinunum, heldur nægi að bókfært eigið fé sé yfir fyrrgreindum mörkum. Óski t.d. verðbréfafyrirtæki með 75 millj. kr. hlutafé eftir starfsleyfi sem lánafyrirtæki er unnt að veita leyfið svo fremi sem bókfært eigið fé fyrirtækisins sé yfir 450 millj. kr. og 5 millj. evrur.
    8. mgr. þarfnast ekki skýringar.

Um 15. gr.

    Með ákvæði þessu er áréttað að sé fjármálafyrirtæki skráð hér á landi skuli það í raun stýra starfsemi sinni héðan. Ákvæðið er samhljóða 3. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1996 og er í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 2000/12/EB.

Um 16. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 7. mgr. 62. gr. laga nr. 113/1996. Krafa um sérstaka endurskoðunardeild á þó í gildandi lögum aðeins við um viðskiptabanka, sparisjóði og lánafyrirtæki en ekki um aðrar tegundir fjármálafyrirtækja. Hér er lagt til að sérstök endurskoðunardeild verði meginreglan hjá fjármálafyrirtækjum nema Fjármálaeftirlitið veiti undanþágu skv. 4. málsl. Þó er kveðið á um að ákvæðið nái ekki til verðbréfamiðlana og rafeyrisfyrirtækja. Talið er að sakir smæðar þessara tegunda fjármálafyrirtækja sé ekki eðlilegt að áskilið sé í lögum að við þau starfi endurskoðunardeild. Eins og fram kemur í orðalagi ákvæðisins kemur undanþága til álita ef um er að ræða umfangslítinn rekstur eða starfsemi á afmörkuðu sviði. Fjármálaeftirlitið getur sett undanþágu skilyrði, t.d. í þá veru að sett sé upp annars konar innra eftirlit.

Um 17. gr.

    Greinin er að stofni til óbreytt frá 8. mgr. 62. gr. laga nr. 113/1996. Til að fyrirbyggja þann misskilning að reglur Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein séu leiðbeinandi tilmæli skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998 er fellt brott orðið „leiðbeinandi“ í greininni. Þá þykir einnig fara betur á því að fjármálafyrirtækin ráði yfir eftirlitskerfi í tengslum við alla starfsemi sína í stað þess að þau ráði yfir slíku kerfi í tengslum við öll viðskipti sín.
    Ástæða er til að gera nánari grein fyrir áhættu sem um er að ræða samkvæmt þessari grein. Helstu áhættuþætti má flokka á eftirfarandi hátt: Mótaðilaáhætta, markaðsáhætta, vaxta- og verðtryggingaráhætta, lausafjáráhætta og rekstraráhætta. Í tillögum að nýjum eiginfjárreglum sem unnið er að á alþjóðavettvangi er gert ráð fyrir að tekið verði tillit til allra þessara áhættuþátta með einhverjum hætti við mat á eiginfjárþörf viðkomandi fjármálafyrirtækis. Ljóst er að mat á eiginfjárþörf vegna þessara áhættuþátta mun að einhverju leyti verða byggt á því að fyrir hendi sé fullnægjandi eftirlitskerfi með áhættu hjá viðkomandi fyrirtæki. Í þessu sambandi má einnig benda á að Fjármálaeftirlitið gaf í janúar 2002 út leiðbeinandi tilmæli um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum þar sem kveðið er á um almennar lágmarkskröfur sem gerðar eru til innra eftirlits og áhættustýringar hjá fjármálafyrirtækjum og hlutverk stjórnenda fyrirtækjanna í því sambandi.

Um 18. gr.

    Ákvæði þetta er í samræmi við 3. mgr. 7. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB. Í 1. mgr. er efnisregla varðandi svokölluð náin tengsl ( e. close links) fjármálafyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila. Skv. 9. tölul. 5. gr. frumvarpsins skal í umsókn um starfsleyfi upplýsa um náin tengsl til að hægt sé að ganga úr skugga um að skilyrði greinarinnar sé fullnægt, áður en starfsleyfi er gefið út. Jafnframt er Fjármálaeftirlitinu heimilt að afturkalla starfsleyfi komi síðar í ljós að um sé að ræða náin tengsl sem fara í bága við ákvæði greinarinnar., sbr. 5. tölul. 1. mgr. 9. gr.
    Það ræðst af atvikum í hverju tilviki hvort náin tengsl teljist til þess fallin að hindra eftirlit með fyrirtækinu af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Erfitt getur verið að tilgreina nákvæmlega þau tilvik þegar ákvæðið á við en sem dæmi um atvik sem áhrif hafa á mat samkvæmt ákvæðinu má benda á eftirfarandi tilvik: Verið getur að draga megi í efa að Fjármálaeftirlitið geti fengið fullnægjandi upplýsingar frá fyrirtækinu og þeim aðilum sem það er í nánum tengslum við í þeim tilgangi að staðreyna að starfsemi þess sé í samræmi við þau lög og reglur sem um starfsemina gilda og að starfsemin fari að öðru leyti fram í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Einnig getur uppbygging og landfræðileg útbreiðsla fyrirtækisins eða samstæðunnar sem það tilheyrir og annarra aðila sem fyrirtækið er í nánum tengslum við verið með þeim hætti að hindrað geti upplýsingaflæði til Fjármálaeftirlitsins, en sem dæmi um slíkt er þegar um er að ræða útibú eða tengd fyrirtæki á landsvæðum þar sem önnur viðmið gilda við eftirlit eða þar sem lög takmarka upplýsingaflæði. Sæti fyrirtækið eða samstæðan sem það tilheyrir ekki eftirliti á samstæðugrundvelli getur það hindrað eðlilegt eftirlit með fyrirtækinu. Enn fremur má geta þess tilviks þar sem ekki er unnt á hverjum tíma að meta með vissu heildarfjárhagsstöðu samstæðunnar sem fyrirtækið tilheyrir. Atvik sem gætu leitt til erfiðleika í þessu sambandi er ef vöntun er á endurskoðuðum samstæðureikningi, ef fjárhagsár fyrirtækja í sömu samstæðunni er mismunandi og ef endurskoðendur eru ekki þeir sömu fyrir fyrirtæki innan samstæðunnar.Tilvísun 1. mgr. til laga og reglna sem gilda um tengda aðila vísar til þeirrar aðstöðu ef erlendar lagareglur er gilda um tengdan aðila eru til þess fallnar að torvelda eftirlit. Vegna ákvæða EES-samningsins mundi beiting ákvæðisins aðeins koma til álita í þeim tilvikum þar sem um er að ræða lagareglur ríkja utan EES.
    Í 2. mgr. er því lýst hvers konar tengsl koma til álita sem „náin tengsl“ og er þar fylgt þeirri skilgreiningu sem er að finna í 26. tölul. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB. Ekki er um að ræða efnislega breytingu frá núgildandi löggjöf þótt framsetning sé nokkuð breytt.

Um 19. gr.

    Ákvæði þetta er nýmæli, en skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, skal Fjármálaeftirlitið meðal annars fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Við skýringu á því hvað felst í hugtökunum eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur verður bæði litið til fyrirmæla sem leiðir af settum lögum, t.d. 11. gr. tilskipunar 93/22/EB um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, og eins almennari siðareglna og viðtekinna venja í fjármálastarfsemi eða einstökum undirgreinum hennar. Þá geta ákvæði reglugerða og reglur og tilmæli Fjármálaeftirlitsins veitt leiðbeiningu.

Um IV. kafla.

    Í þessum kafla er nánar kveðið á um starfsheimildir einstakra tegunda fjármálafyrirtækja. Vakin er athygli á að ekki er öll starfsemi samkvæmt þessum kafla starfsleyfisskyld.
    Kaflanum er skipt í þrennt. Í fyrsta hluta eru starfsheimildir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja. Þar er kveðið á um starfsemi sem lýtur gagnkvæmri viðurkenningu á EES- svæðinu, aðra þjónustustarfsemi, hliðarstarfsemi og aðra tímabundna starfsemi. Í öðrum hluta eru starfsheimildir annarra tegunda fjármálafyrirtækja. Hjá þessum fyrirtækjum eru starfsheimildir ákveðnar í tilskipunum þannig að ekkert svigrúm er fyrir hendi til að víkka út starfsheimildir. Í þriðja hluta eru þrjár greinar sem lúta að stórum áhættum og heimildum fjármálafyrirtækja til að eiga í fyrirtækjum og fasteignum.

Um 20. gr.

    Tölul. 1.–14. í 1. mgr. eru óbreyttir frá 1. mgr. 44. gr. laga nr. 113/1996. Þessi listi yfir starfsheimildir kemur úr 1. viðauka við tilskipun um stofnun og rekstur lánastofnana. Hann sýnir þá þjónustu sem lýtur gagnkvæmri viðurkenningu á EES-svæðinu. Listinn á að vera víðtækur og til þess gerður að hann taki til allra helstu þjónustuþátta lánastofnana á EES- svæðinu. Honum til fyllingar eru ákvæði 21.–23. gr.
    Vakin er athygli á að upphaf 44. gr. laga nr. 113/1996 er fellt brott en þar var eftirfarandi skilgreining á bankastarfsemi: „Starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða er fólgin í geymslu og ávöxtun fjár, miðlun á peningum, verðbréfaviðskiptum og annarri þjónustustarfsemi sem er í eðlilegum tengslum við slík viðskipti.“ Þessi skilgreining er ekki talin þjóna neinum tilgangi, enda talin leiða af fyrrgreindum lista yfir þjónustuþætti. Hins vegar er nauðsynlegt að viðhalda því að bankar og sparisjóðir geti stundað aðra þjónustustarfsemi, enda sé hún í eðlilegum tengslum við þjónustu sem kveðið er á um í listanum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að lánafyrirtæki hafi sömu heimildir og viðskiptabankar og sparisjóðir að því undanskildu að þeim er óheimilt að taka á móti innlánum. Í 8. gr. laga nr. 123/1993 er kveðið á um starfsheimildir lánastofnana. Þar eru tilgreindir tölul. 2.–14. í 1. mgr. þessarar greinar. Þetta er ekki rétt nálgun í lögum nr. 123/1993 því að aðrar lánastofnanir hafa heimild til að taka á móti endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi öðrum en innlánum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki hafi allar þær heimildir til verðbréfaviðskipta sem verðbréfafyrirtæki hafa skv. 25. gr. Þetta er í samræmi við lokamálslið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 113/1996, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 123/1993.

Um 21. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um starfsemi sem er viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum heimil, þó svo að hún sé ekki sérstaklega tilgreind í 20. gr. Hér er um að ræða aðra þjónustustarfsemi sem er í eðlilegum tengslum við starfsheimildir þessara fyrirtækja að öðru leyti og hliðarstarfsemi sem er í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækis. Heimild Fjármálaeftirlitsins þarf til að stunda hliðarstarfsemi en ekki aðra þjónustustarfsemi. Með því að heimila aðra þjónustustarfsemi og hliðarstarfsemi er leitast við að tryggja að starfsemi lánastofnana geti þróast með eðlilegum hætti án þess að löggjöfin setji henni óeðlilegar skorður. Hins vegar er talið eðlilegt að setja starfsemi lánastofnana ákveðnar skorður. Ástæðan er sú að sérfræðiþekking lánastofnana beinist að fjármálaþjónustu en ekki eðlisólíkum rekstri sem getur, verði tap á þeirri starfsemi, leitt til rekstraráhættu fyrir fyrirtækið og því stefnt heilbrigði þess í hættu. Tilgangurinn er því að tryggja heilbrigði lánastofnana og vernda hagsmuni viðskiptavina þeirra.
    Í 1. mgr. er kveðið á um aðra þjónustustarfsemi. Er þetta í samræmi við núgildandi 44. gr. laga nr. 113/1996 og 8. gr. laga nr. 123/1993. Eins og áður sagði er með þessu ákvæði leitast við að tryggja að starfsemi fjármálafyrirtækja geti þróast með eðlilegum hætti án þess að löggjöfin setji því óeðlilegar skorður. Þannig er óumdeilt samkvæmt núgildandi lögum að útgáfa og umsýsla rafeyris fellur undir útgáfu og umsýslu greiðslumiðla, þótt rafeyrisútgáfa sé ekki sérstaklega nefnd. Einnig hefur lánastofnunum almennt (ekki einungis eignarleigufyrirtækjum) verið talið heimilt að stunda hvers konar form af eignarleigustarfsemi þótt í lögum sé einungis kveðið á um fjármögnunarleigu.
    Álitamál getur verið hvort þjónusta feli í raun í sér sjálfstæða starfsemi. Þjónusta sem veitt er til þess að auðvelda aðgang að fjármálaþjónustu getur fallið undir þetta. Sömuleiðis þjónusta sem lýtur að markaðssetningu afurða. Það að bjóða ókeypis netaðgang verður t.d. ekki talið sjálfstæð starfsemi í skilningi frumvarpsins eða hliðarstarfsemi sem krefjist sérstaks samþykkis Fjármálaeftirlitsins. Þátttaka í rekstri netfyrirtækja umfram þetta getur hins vegar talist til slíkrar starfsemi. Stofnun fyrirtækis sem hefur með höndum rekstur fasteigna viðskiptabanka, sjálfstætt eða í samstarfi við aðra, félli einnig undir 20. gr. og þyrfti almennt ekki sérstakt samþykki Fjármálaeftirlitsins, enda væri starfsemin afmörkuð við rekstrarverkefni sem ella væri óhjákvæmilegur hluti af rekstri viðskiptabanka. Rekstur almennrar fasteignasölu/fasteignamiðlunar eða bílasölu væri hins vegar ekki talin heimil, hvorki með vísan til þess að um aðra þjónustustarfsemi eða hliðarstarfsemi væri að ræða.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að fjármálafyrirtæki sé heimilt að stunda hliðarstarfsemi, enda sé hún í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins. Svipað ákvæði er nú í 4. mgr. 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Með samanburðarskýringu 20. gr. og annarrar þjónustustarfsemi skv. 1. mgr. tekur þetta ákvæði fyrst og fremst til starfsemi sem ekki telst til fjármálaþjónustu samkvæmt lögunum. Engu síður verður starfsemin að vera samþýðanleg fjármálaþjónustu viðkomandi fyrirtækis, þ.e. í eðlilegu framhaldi af henni. Af 3. mgr. má t.d. ráða að póstþjónusta verði ekki talin í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu þar sem slík starfsemi fjármálafyrirtækis er heimiluð sérstaklega. Milliganga um vátryggingaviðskipti gæti hins vegar talist eðlileg hliðarstarfsemi samkvæmt þessari málsgrein. Fjármálafyrirtæki er þó skv. 23. gr. óheimilt að stunda vátryggingastarfsemi nema í sérstöku dótturfélagi. Af því ákvæði leiðir að starfsemi vátryggingafélags sem dótturfyrirtækis viðskiptabanka (fjármálafyrirtækis) yrði ekki talin til hliðarstarfsemi sem Fjármálaeftirlitið þyrfti að samþykkja. Hins vegar hefur verið talið að milliganga um vátryggingaviðskipti sem ekki felur í sér vátryggingaáhættu milligönguaðilans sé viðskiptabönkum heimil án stofnunar dótturfyrirtækis. Eðlilegt er þó að slík starfsemi sé skilgreind sem hliðarstarfsemi.
    Enn fremur verður að skýra 2. mgr. til samræmis við 22. gr. sem heimilar aðra tímabundna starfsemi í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi. Þar er lögð áhersla á að slík starfsemi sé tímabundin og í ákveðnum tilgangi. Það ákvæði næði ekki markmiði sínu ef fjármálafyrirtæki væri unnt að fá samþykki fyrir slíkri starfsemi á grundvelli 2. mgr. þessarar greinar.
    Starfsleyfisskyld starfsemi getur aldrei talist til hliðarstarfsemi fjármálafyrirtækis sem ekki hefur fengið sérstakt starfsleyfi til hennar. Rafeyrisfyrirtæki gæti þannig ekki fengið samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir móttöku innlána á grundvelli ákvæðisins. Það sama ætti almennt við um starfsemi sem tilgreind er í þessum kafla þótt ekki sé um starfsleyfisskylda starfsemi að ræða, nema viðkomandi starfsemi sé forsenda fyrir því að unnt sé að veita þá þjónustu sem viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi til. Samþykki Fjármálaeftirlitsins kæmi til skoðunar í slíkum tilvikum.
    Við mat á því hvað teljist til hliðarstarfsemi ber samkvæmt framangreindu að athuga hvort viðkomandi starfsemi sé í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu viðkomandi fyrirtækis. Eðlilegt framhald af starfsemi þýðir að hliðarstarfsemin sé samþýðanleg þeirri starfsemi sem viðkomandi fyrirtæki er að öðru leyti heimilt að stunda. Við mat á þessu verður fyrst og fremst tekið mið af verndarhagsmunum þeim sem ákvæðið tekur til. Kemur þar einkum þrennt til athugunar:
          Hvort starfsemin feli í sér einhvers konar hagsmunaárekstra. Það leiðir af sjálfu sér að fjármálafyrirtækjum ber að forðast hagsmunaárekstra í starfsemi sinni. Skaðlegt getur t.d. verið að banki tengist tveimur samkeppnisfyrirtækjum þannig að annað þeirra sé í lánaviðskiptum við bankann en hitt að stórum hluta í eigu bankans með langtímasamstarf í huga.
          Hvort starfsemin feli í sér einhvers konar áhættu sem gerir starfsemi viðkomandi fyrirtækis flóknari, dregur úr yfirsýn og áhættustýringu eða torveldar eftirlit með fjármálafyrirtækinu.
          Hvort starfsemin krefjist þekkingar og reynslu sem er óskyld þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi, en sú aðstaða getur leitt til aukinnar áhættu.
    Til viðbótar þessu mati leiðir samræmisskýring á ákvæðinu til afmörkunar á beitingu þess, eins og að framan greinir.
    Í 2. mgr. er bætt við frá núgildandi lögum að hliðarstarfsemi taki einnig til þess þegar fjármálafyrirtæki á eignarhlut í eða er þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi. Þátttaka í atvinnurekstri telst m.a. falla undir ákvæðið ef fjármálafyrirtækið á fulltrúa í stjórn viðkomandi fyrirtækis og 22. gr. á ekki við. Einnig kemur til skoðunar hvort fyrirtækið telst hlutdeildarfyrirtæki fjármálafyrirtækisins og hvort eignarhluturinn sé í veltubók, hversu lengi fjármálafyrirtækið hafi átt hlut í fyrirtækinu og áform um áframhaldandi eignarhald.
    Í 2. mgr. er jafnframt sú breyting frá gildandi lögum að kveðið er á um tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins um hliðarstarfsemi í stað þess að áskilið sé samþykki Fjármálaeftirlitsins. Eðlilegt þykir að gera þá kröfu að viðkomandi fyrirtæki sem hyggjast fara út í hliðarstarfsemi eða kaupa eignarhlut í fyrirtæki í annarri atvinnustarfsemi upplýsi Fjármálaeftirlitið um það með sérstakri tilkynningu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi einn mánuð til að koma með athugasemdir ef það telur starfsemina á einhvern hátt ósamrýmanlega öðrum rekstri fyrirtækisins. Slíkar athugasemdir geta bæði lotið að því að leiðbeina um með hvaða hætti megi útfæra starfsemina þannig að hún samþýðist lögunum eða krefjast þess að slík hliðarstarfsemi sé stunduð í sérstöku félagi. Ef engar athugasemdir hafa borist að liðnum fyrrgreindum fresti er fyrirtækinu heimilt að hefja þá starfsemi sem tilkynnt var um. Hafa ber í huga að ef fyrirtæki færu út í slíka starfsemi án þess að hafa sinnt fyrrgreindri tilkynningarskyldu væri það alfarið á þeirra ábyrgð þar sem verið væri að bjóða þeirri hættu heim að Fjármálaeftirlitið krefðist stöðvunar starfseminnar að viðlögðum dagsektum ef það mæti hana óheimila.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild fjármálafyrirtækis til að taka að sér að veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita slíka þjónustu. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 22. gr.

    Greinin er hliðstæð 45. gr. núgildandi laga. Talsverð reynsla er fengin af beitingu þessa ákvæðis, en núgildandi ákvæði er samkvæmt lögskýringargögnum einskorðað við starfsemi og eignir viðskiptamanna sem ratað hafa í erfiðleika þar sem atbeina viðskiptabanka er þörf til að bæta úr. Með orðunum „að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila“ er hins vegar einnig átt við svokallaða fjárfestingarbankastarfsemi, þ.e. þær heimildir fjármálafyrirtækja til að kaupa verðbréf/hlutabréf í fyrirtækjum í því skyni að sameina annarri starfsemi, skrá viðkomandi verðbréf og selja þau almenningi.

Um 23. gr.


    Greinin er hliðstæð núgildandi 3. mgr. 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði og á rætur að rekja til bankatilskipunar ESB.

Um 24. gr.

    Ákvæði 1. mgr. styðjast við a- og b-lið 5. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim. Það mælir fyrir um þá starfsemi sem rafeyrisfyrirtæki mega hafa með höndum. Sem dæmi um náskylda fjármála- eða aðra þjónustu í 1. tölul. má nefna útgáfu og umsjón með öðrum greiðslumiðlum.
    Ákvæði 2. mgr. er ætlað að tryggja að rafeyrisfyrirtæki komi ekki óbeint að rekstri eða áhættu í tengslum við fyrirtæki sem hefur með höndum starfsemi sem fellur ekki undir 1. mgr.

Um 25. gr.

    Greinin er byggð á A- og C-þætti viðauka við tilskipun um fjárfestingarþjónustu og 8. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Bætt er við þjónustu skv. 1. lið að verðbréfafyrirtæki geti haft umsjón með útboði verðbréfa, en það leiðir af 28. gr. laga nr. 13/1996.

Um 26. gr.

    Greinin byggist á 9. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og 6. tölul. 3. gr. sömu laga.

Um 27. gr.

    1. mgr. á rætur að rekja til 2. og 3. mgr. 5. gr. tilskipunar um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Þar er kveðið á um að rekstrarfélög verðbréfasjóða skuli hafa með höndum rekstur verðbréfasjóða. Til viðbótar er aðildarríkjum heimilt að útvíkka starfsemi rekstrarfélaga þannig að hún nái einnig til eignastýringar, fjárfestingarráðgjafar og vörslu og stjórnun með fjármálagerningum í sameiginlegri fjárfestingu. Lagt er til að sú heimild verði nýtt.
    2. mgr. á rætur að rekja til 2. mgr. 5. gr. f í tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Samþykki í skilningi ákvæðisins má hvort heldur sem er gefa í hvert eitt sinn eða með almennum hætti við gerð eignastýringarsamnings.

Um 28. gr.

    Greinin er efnislega í samræmi við 46. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Að hluta til er greinin enn fremur í samræmi við ákvæði 21. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.
    1. mgr. er efnislega samhljóða 1. málsl. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 113/1996 að því undanskildu að breytt er orðalagi á þann veg að í stað „mega ekki eiga eða taka að veði í gildandi ákvæði er nú orðalagið „mega ekki eiga virka eignarhluti“. Gildandi ákvæði átti sér fyrirmynd í dönsku lögunum um viðskiptabanka og sparisjóði. Hið breytta orðalag frumvarpsins er hins vegar í samræmi við 1. mgr. 51. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB. Þá er sú breyting gerð að í stað „eignarhluta í einstökum fyrirtækjum sem stunda aðra starfsemi en þá sem getið er í 44. gr.“ er nú vísað til „eignarhluta í einstökum fyrirtækjum sem ekki eru fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði“, og bætt er við skilgreiningu á því hvað í síðara hugtakinu felist. Í þessu felst sú efnisbreyting að nú koma til frádráttar eignarhlutir og víkjandi kröfur í félögum sem teljast til fjármálafyrirtækja eða fyrirtækja tengdra fjármálasviði en samkvæmt gildandi lögum getur verið um að ræða eignarhluti og víkjandi kröfur í félögum sem ekki mundu falla undir fyrrnefndu skilgreininguna. Eftir breytinguna er ákvæðið í betra samræmi við ákvæði 12. og 13. tölul. 2. mgr. 34. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB. Þessi breyting er talin hafa óveruleg áhrif á eiginfjárútreikning en er til bóta varðandi afmörkun á þeim félögum sem falla eiga undir þetta ákvæði.
    Skilgreining á fyrirtæki tengdu fjármálasviði í 1. mgr. er nýmæli. Með því er innleitt orðrétt hugtakið „financial institution“ í bankatilskipuninni 2000/12/EB. Hugtakið kom fyrst inn í Evrópurétt árið 1989 í hinni svokölluðu annarri bankatilskipun (2 nd Banking Directive). Hugmyndin var sú að útvíkka gildissvið Evrópupassans, þ.e. möguleika fyrirtækja á að opna útibú eða veita þjónustu án stofnunar útibús hvarvetna á innri markaðnum án starfsleyfis í gistiríkinu án þess að hrófla við skilgreiningu fyrstu bankatilskipunarinnar á lánastofnun. Nauðsynlegt er að árétta að með orðunum „öflun eignarhluta“ er ekki átt við að hlutabréfa- eða áhættufjármagnssjóðir geti verið fyrirtæki tengd fjármálasviði. Hér er ekki átt við fjárfestingar í almennum atvinnufyrirtækjum heldur fyrst og fremst öflun eignarhluta í lánastofnunum og öðrum fyrirtækjum tengdum fjármálasviði. Þetta sést best á því að takmarkanir á kaupum á virkum eignarhlutum, sbr. 51. gr. tilskipunar 2000/12, á einnig við um fyrirtæki tengd fjármálasviði.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 46. gr. laga nr. 113/1996 að því undanskildu að í síðasta málslið málsgreinarinnar er kveðið á um að eignarhlutir í veltubók skuli ekki teknir með við útreikning á takmörkunum skv. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. 2. mgr. Hugtakið veltubók er skilgreint í 16. tölul. 2. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, svo og í 2. gr. reglna nr. 693/2001, um eiginfjárhlutfall lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Hið breytta ákvæði er í samræmi við heimildarákvæði í 4. mgr. 51. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB. Ákvæðið er enn fremur í samræmi við túlkun á gildandi ákvæði varðandi meðferð á eignarhlutum í veltubók. Könnun á útfærslu þessa heimildarákvæðis í tilvitnaðri tilskipun meðal einstakra ríkja Evrópska efnahgssvæðisins sýnir að í tæplega helmingi ríkjanna hefur þetta ákvæði verið innleitt en í rúmlega helmingi ríkjanna gilda umræddar takmarkanir óháð því hvort umræddir eignarhlutir eru flokkaðir sem eign í veltubók eða ekki.
    3. og 4. mgr. eru efnislega samhljóða 3. og 4. mgr. 46. gr. laga nr. 113/1996.
    5. mgr. er nýmæli en með því er kveðið á um að taka skuli tillit til framvirkra kaup- og sölusamninga og annarra afleiðusamninga sem fjármálafyrirtæki hefur gert um eigin hlutabréf og að Fjármálaeftirlitnu sé heimilt að setja nánari reglur í því sambandi. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.
    Í 6. mgr. er að finna skilgreiningu á hugtakinu veltubók, og er hún efnislega óbreytt frá skilgreiningu þeirri er fram kemur í reglum 693/2001 um eiginfjárhlutfall lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.

Um 29. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er hliðstætt núgildandi 13. gr. laga nr. 113/1996. Tilgangur ákvæðisins er að takmarka umfang eigin hlutabréfa og veðtöku í eigin hlutabréfum.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 5. mgr. 46. gr. laga nr. 113/1996 að því undanskildu að bætt er inn orðalaginu „í tengslum við hlutafjárútboð“ sem þykir eðlilegra með hliðsjón af upphaflegum tilgangi ákvæðisins.

Um 30. gr.


    Í ákvæði þessu er mælt fyrir um hámark áhættu vegna einstaks eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna sem hlutfall af eigin fé fjármálafyrirtækis, og eru reglur um þetta að mestu samhljóða gildandi ákvæðum í reglum nr. 34/2002, um hámark lána og ábyrgða lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um tilkynningarskyldu fjármálafyrirtækis í þeim tilvikum þar sem áhættuskuldbindingar fara yfir þau mörk sem um getur í 1. mgr. Ef sérstaklega stendur á getur Fjármálaeftirlitið veitt fyrirtækinu frest til að koma skuldbindingarhlutfallinu niður fyrir lögleg mörk. Ákvæði þetta er í samræmi við 5. mgr. 49. gr. tilskipunar 2000/12/EB.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 113/1996 segir að eignarhlutur viðskiptabanka eða sparisjóðs og heildarskuldbindingar fyrirtækis gagnvart hlutaðeigandi stofnun skuli vera innan þeirra marka sem getur í reglum er ráðherra setur að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins um hámark lána og ábyrgða til einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila. Þessar reglur eru í reglugerð nr. 34/2002, um hámark lána og ábyrgða lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Í reglugerðinni koma fram mikilvægar reglur um starfsemi fjármálafyrirtækja sem æskilegt væri að kveðið væri á um í lögum um fjármálafyrirtæki. Er það því lagt til hér. Þessar reglur leiðir af 3. þætti 2. kafla V. bálks tilskipunar nr. 2000/12. Ekki er um efnisbreytingu að ræða í greininni frá gildandi reglum á þessu sviði. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið setji þessar reglur því að þær lúta beint að áhættustýringu fjármálafyrirtækja. Vísast í því sambandi til 7. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta.

Um V. kafla.


    Í þessum kafla er að finna þær reglur sem gilda um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi og starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis. Ákvæði þessi hafa til hliðsjónar meginreglur EES-samningsins um staðfesturétt fjármálafyrirtækja og gagnkvæma viðurkenningu starfsleyfa og eru byggð á III. bálki tilskipunar 2000/12/EB.
    Helstu breytingar frá gildandi reglum felast í heimildum Fjármálaeftirlitsins til að hlutast til um kaup íslensks fjármálafyrirtækis á virkum eignarhlut í erlendu fjármálafyrirtæki að vissum skilyrðum uppfylltum, auk þess sem lagt er til að sett verði í reglugerð ákvæði um heimildir fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði til að veita þjónustu á milli landa.

Um 31. gr.

    Ákvæði þetta samsvarar að mestu gildandi reglum um stofnsetningu útibúa fjármálafyrirtækja sem hafa staðfestu og starfsleyfi innan EES-svæðisins.
    Í 3. mgr. er Fjármálaeftirlitinu falið að ganga úr skugga um atriði er varða hið erlenda fyrirtæki. Ákvæði þetta kemur í stað núgildandi lagafyrirmæla sem tiltaka hvaða upplýsinga Fjármálaeftirlitið skuli afla hjá eftirlitsaðila í heimaríki fyrirtækisins, en telja verður nægilegt að nánari fyrirmæli um þetta komi fram í reglugerð, sbr. 35. gr. frumvarpsins. Ekki er hins vegar lögð til efnisbreyting varðandi heimildir Fjármálaeftirlitsins að þessu leyti.

Um 32. gr.

    Ákvæði þetta er byggt á 21. gr. tilskipunar 2000/12/EB. Óski erlent fjármálafyrirtæki eftir að bjóða þjónustu hérlendis án stofnunar útibús ber því að tilkynna eftirlitsstjórnvaldi í heimaríki sínu hvaða þjónustu fyrirhugað er að veita. Stjórnvald heimaríkis áframsendir tilkynningu þessa til Fjármálaeftirlitsins, og miðast heimild til að veita þjónustuna við það tímamark þegar Fjármálaeftirlitið hefur móttekið tilkynninguna. Heimildir erlends fyrirtækis til að veita þjónustu hérlendis takmarkast ávallt af umfangi starfsleyfis þess í heimaríkinu.

Um 33. gr.

    Samkvæmt núgildandi lögum, sbr. 2. mgr. 85. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði og 2. mgr. 56. gr. laga um verðbréfaviðskipti, skal viðskiptaráðherra setja reglur um heimildir fjármálafyrirtækja sem starfa utan EES-svæðisins til að stunda starfsemi hérlendis. Lagt er til að kveðið verði á um það almenna skilyrði fyrir leyfisveitingu að fyrirtækið hafi leyfi í heimalandi sínu og sæti sambærilegu eftirliti þar vegna starfsemi sem er hliðstæð þeirri sem fyrirhugað er að stunda hér á landi. Nánari skilyrði um efni umsóknar o.fl. mundu eftir sem áður koma fram í reglugerð, sbr. 37. gr. Ekki er heimilt að setja vægari skilyrði um stofnun og starfrækslu útibúa fjármálafyrirtækja frá löndum utan EES en leiðir af ákvæðum 31.–33. gr., sbr. 1. mgr. 24. gr. tilskipunar 2000/12/EB.

Um 34. gr.

    Með ákvæði 1. mgr. eru tekin af tvímæli um það að Fjármálaeftirlitið geti brugðist við stórfelldum brotum á löggjöf um fjármálafyrirtæki með því að leggja bann við starfsemi erlends fjármálafyrirtækis. Ákvæðið er sama efnis og 1. mgr. 95. gr. núgildandi laga nr. 113/1996.
    Ákvæði 2. mgr. er nýmæli. Með því er Fjármálaeftirlitinu heimilað að grípa til aðgerða ef hætta er á að hagsmunir innlánseigenda eða annarra spillist áður en bann skv. 1. mgr. kemur til framkvæmda. Heimild þessi er í samræmi við 7. mgr. 22. gr. tilskipunar 2000/12/EB.
    Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 35. gr.

    Með ákvæði þessu er mælt fyrir um almenna heimild ráðherra til setningar reglugerðar varðandi starfsemi fjármálafyrirtækja milli landa. Sérstaklega er tekið fram að í reglugerðinni skuli kveða á um heimildir fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði til að stunda fjármálastarfsemi á milli landa. Hér eru höfð í huga ákvæði 19. gr. tilskipunar 2000/12/EB, en sú grein mælir fyrir um rétt fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði til að stunda fjármálastarfsemi, að vissum skilyrðum uppfylltum. Þykir heppilegra að geyma slík skilyrði í reglugerð en í lagatexta, svo sem gert er í núgildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði.

Um 36. gr.

    Hér er fjallað um upphafsaðgerðir vegna stofnunar útibús íslensks fjármálafyrirtækis í öðru EES-ríki. Ákvæðin eru í samræmi við 20. gr. tilskipunar 2000/12/EB og eru að mestu efnislega óbreytt frá gildandi lögum. Þó er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti bannað stofnun útibús ef ástæða er til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða fjármálafyrirtækisins sé ekki nægjanlega traust, fremur en að það neiti einungis að senda fyrirhuguðu gistiríki staðfestingu. Þetta er í samræmi við tillögu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gerði úttekt á íslenska fjármálamarkaðnum á árinu 2001.


Um 37. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um skilyrði þess að íslenskt fjármálafyrirtæki hefji starfsemi án stofnunar útibús í öðru EES-ríki. Er hér um að ræða sambærilegar reglur og fram koma í 36. gr., og eiga athugasemdir við það ákvæði því við að breyttu breytanda.
    

Um 38. gr.

    Nauðsynlegt er, bæði vegna eftirlitssjónarmiða og vegna samskipta við erlend ríki, að eftirlit sé haft með starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja í löndum utan EES. Með sömu rökum og lýst var varðandi 36. gr. ber einnig nauðsyn til að Fjármálaeftirlitið geti lagt bann við slíkri starfsemi ef á þykir skorta að stjórnun og fjárhagsstaða fjármálafyrirtækis sé nægjanlega traust.
    Unnt er að tilgreina í reglugerð, sbr. 35. gr., hvaða gögn skuli að lágmarki fylgja tilkynningu.


Um 39. gr.

    Ákvæði þetta á sér ekki beina hliðstæðu í núgildandi löggjöf. Með því er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að leggja bann við því að íslenskt fjármálafyrirtæki kaupi eða fari með virkan eignarhlut í erlendu fjármálafyrirtæki ef það hefur réttmæta ástæða til að ætla að upplýsingagjöf með starfseminni eða samstæðunni verði ekki nægilega traust og eftirlit með henni torveldað. Þetta ákvæði er til viðbótar 38. og 40. gr. þar sem fram kemur að Fjármálaeftirlitið geti undir ákveðnum kringumstæðum bannað fjármálafyrirtæki að stofna útibú eða veita þjónustu erlendis. Með þessu ákvæði er verið að uppfylla kjarnareglur um árangursríkt bankaeftirlit (Core principles for effective banking supervision) sem Basel-nefndin um bankaeftirlit hefur sett. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til í niðurstöðum sínum um íslenska fjármálamarkaðinn að Fjármálaeftirlitið fengi heimildir til að banna fjárfestingar fjármálafyrirtækja í erlendum fjármálafyrirtækjum. Þar sem beiting heimildarinnar er íþyngjandi og varðar alla jafna mikilsverða hagsmuni fjármálafyrirtækis þykir rétt að mæla fyrir um að rökstuðningur skuli fylgja ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um bann.

Um VI. kafla.

    Í þessum kafla er að finna reglur varðandi eignarhluti og meðferð þeirra. Að uppistöðu til eru efnisreglur kaflans um virka eignarhluti samhljóða núgildandi ákvæðum laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, eins og þeim var breytt með lögum nr. 69/2001 og þykir því að mestu mega vísa til athugasemda er fylgdu því frumvarpi. Til hægðarauka eru athugasemdirnar felldar inn í greinargerð þessa að því marki sem þær skipta máli.
    Þó er gert ráð fyrir að fellt verði brott ákvæði núgildandi 1. mgr. 10. gr. laga nr. 113/1996 er mælir fyrir um að engar hömlur megi leggja á viðskipti með hluti í hlutafélagsbanka. Þykja ekki standa rök til annars en að almennar reglur hlutafélagalöggjafarinnar gildi um þetta.

Um 40. gr.

    Samkvæmt ákvæði þessu er samþykki Fjármálaeftirlitsins áskilið ef fjárfestar hyggjast annaðhvort eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum eða auka svo við virkan eignarhlut sinn að þeir fari yfir nánar tilgreind mörk hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar.
    Eins og fram kemur í ákvæðinu miðast þessi skylda við það þegar aðili eignast „virkan eignarhlut“, ýmist í einum viðskiptum eða fleiri. Sé hluthafi eða stofnfjáreigandi í vafa um hvort hlutdeild teljist virkur eignarhlutur eða óbein hlutdeild í skilningi laganna getur hann beint erindi um það til Fjármálaeftirlitsins, enda er til þess ætlast í 2. mgr. 102. gr. að Fjármálaeftirlitið leggi mat á það. Til þess er ætlast að samþykkis Fjármálaeftirlitsins sé aflað hverju sinni er aðili fer yfir tilgreind mörk. Fari hann niður fyrir þau, þótt aðeins sé í skamman tíma, skal honum eftir sem áður skylt að beina nýrri umsókn til Fjármálaeftirlitsins hyggist hann fara yfir mörkin að nýju.
    Með virkum eignarhlut í sparisjóði er með sama hætti og að framan er lýst átt við beina og óbeina hlutdeild í stofnfé sparisjóðs. Um óbeina hlutdeild í stofnfé má vísa til þess tilviks þegar tveir eða fleiri stofnfjáreigendur kæmu sér saman með formlegu eða óformlegu samkomulagi um samræmda beitingu samanlagðs atkvæðaréttar eða að samkomulag tækist við annan eða aðra slíka hópa um beitingu atkvæðisréttar. Hvers konar samstilltar aðgerðir, hverju nafni sem nefnast, kunna þannig að falla undir virka eignaraðild.
    Óbein hlutdeild aðila nægir til þess að hann verði talinn eigandi virks eignarhlutar í skilningi ákvæðisins. Með „óbeinni“ hlutdeild er átt við að ekki er nauðsynlegt að aðili sé sjálfur eigandi hlutanna eða atkvæðisréttarins, heldur nægir að hann ráði með einhverjum öðrum hætti yfir virka eignarhlutnum. Aðili gæti t.d. öðlast slík yfirráð með því að eignast ráðandi eignarhlut í móðurfélagi ef samanlagður eignarhlutur þess og dótturfélags í fjármálafyrirtæki er yfir þeim mörkum sem ákvarða hvað teljist virkur eignarhlutur. Að öðrum kosti væri fjárfestum hægðarleikur að dreifa eignarhaldi sínu á ýmis félög í sömu félagasamstæðunni og komast þannig hjá reglunum. Sama gildir um það þegar hlutir eru settir að veði og veðhafi fer með atkvæðisréttinn á meðan á veðsetningunni stendur. Þar með á veðhafinn óbeint virkan eignarhlut. Undir óbeina hlutdeild félli einnig það tilvik þegar tveir eða fleiri hluthafar kæmu sér með formlegu eða óformlegu samkomulagi saman um samræmda beitingu samanlagðs atkvæðisréttar. Ljóst er að örðugt kann að vera að færa sönnur á að slíkt samkomulag sé fyrir hendi. Fjármálaeftirlitinu er hins vegar ætlað að nýta rannsóknarheimildir sínar til að grafast fyrir um hvort svo sé.

Um 41. gr.

    Í grein þessari er lögð sú skylda á þá aðila sem falla undir 40. gr. að senda Fjármálaeftirlitinu skriflega umsókn áður en þeir eignast virkan eignarhlut. Til þess er ætlast að umsókninni sé beint til Fjármálaeftirlitsins áður en af viðskiptunum verður. Ekki er ástæða til að ætla að þetta torveldi viðskipti með virka eignarhluti í framkvæmd, þrátt fyrir að af slíkum við skiptum verði iðulega ekki fyrr en ljóst er hvort Fjármálaeftirlitið veitir samþykki fyrir eign arhaldinu. Þannig má eðli máls samkvæmt útfæra samninga um kaup á virkum eignarhlutum þannig að þeir séu háðir samþykki Fjármálaeftirlitsins. Stendur ákvæðið af þeim sökum ekki í vegi fyrir því að menn tryggi sér kauprétt að virkum eignarhlut án þess að samþykkis Fjármálaeftirlitsins hafi verið aflað.
    Í 1. mgr. er talið upp hvaða upplýsingar skuli fylgja umsóknum sem beint er til Fjármálaeftirlitsins. Eins og þar kemur fram ber umsækjendum að láta margvíslegar upplýsingar fylgja slíkum beiðnum. Þessar upplýsingar lúta aðallega að umsækjandanum sjálfum og eiga að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að taka rökstudda afstöðu til þess hvort ástæða sé til að ætla að eignarhald umsækjandans hafi skaðleg áhrif á rekstur viðkomandi fjármálastofnunar.
    Fjármálaeftirlitinu ber að rannsaka til hlítar hæfi umsækjenda í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Því er rétt að æskja frekari upplýsinga telji það ástæðu til þess og er sú heimild áréttuð í 12. tölul. 1. mgr. sem er til fyllingar almennri heimild Fjármálaeftirlitsins til upplýsingaöflunar skv. 2. mgr. 102. gr. frumvarpsins.
    Þegar umsækjandi er einstaklingur skulu umbeðnar upplýsingar lúta að honum sjálfum og eftir atvikum aðilum sem hann tengist. Sé umsækjandi á hinn bóginn lögaðili leiðir af 2. mgr. að upplýst skal um atriði er varða hæfi lögaðilans sjálfs, stjórnarmanna hans, framkvæmdastjóra og þeirra einstaklinga sem eiga virkan eignarhlut í lögaðilanum.

Um 42. gr.


    Í grein þessari er Fjármálaeftirlitinu lögð sú skylda á herðar að leggja mat á hæfi umsækjenda á grundvelli þeirra gagna sem þeir hafa lagt fram og eftir atvikum þeirra gagna sem Fjármálaeftirlitið hefur sjálft aflað. Fjármálaeftirlitinu er ætlað að taka afstöðu til þess hvort umsækjendur séu hæfir til þess að fara með hið fyrirhugaða eignarhald með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs viðkomandi fjármálafyrirtækis. Lagt er til að fellt verði niður orðalag núgildandi 6. mgr. 10. gr. laga nr. 113/1996 þar sem tekið er fram að Fjármálaeftirlitið skuli gæta meðalhófs við mat sitt. Með þessu er ekki lögð til efnisbreyting varðandi skyldur Fjármálaeftirlitsins, heldur leiðir skylduna til að gæta meðalhófs af almennum reglum stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Er árétting á þessu í sérlögum því án sjálfstæðrar þýðingar.
    Við mat sitt skal Fjármálaeftirlitið meðal annars hafa hliðsjón af þeim viðmiðunaratriðum sem rakin eru í ákvæðinu. Þrátt fyrir að þau viðmiðunaratriði eigi að gefa vísbendingu um hversu vel umsækjandinn er til þess fallinn að eiga virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki er hins vegar ekki um að ræða tæmandi upptalningu heldur upptalningu á þeim atriðum sem almennt séð er eðlilegt að hafa hliðsjón af. Vera kann að ástæða sé til að draga hæfi einstakra umsækjenda í efa vegna annarra atvika en þar greinir. Þau viðmiðunaratriði sem rakin eru í greininni eru annars eftirfarandi:
    Samkvæmt 1. tölul. skal horft til fjárhagsstöðu umsækjanda og aðila sem hann er í nánum tengslum við. Algengt er í löggjöf Evrópuríkja að við mat á hæfi stórra hluthafa fjármálafyrirtækja sé við það miðað hvernig fjárhag þeirra er háttað. Slæm fjárhagsstaða eiganda virks eignarhlutar í fjármálafyrirtæki getur haft skaðleg áhrif á rekstur þess og dregið úr trúverðugleika þess. Því er rétt að Fjármálaeftirlitið hafi hliðsjón af því hvort umsækjandi sé í fjárhagslegu jafnvægi eða ekki.
    Samkvæmt 2. tölul. skal hafa hliðsjón af því hver þekking og reynsla umsækjenda er. Æskilegt er að stærstu hluthafar fjármálafyrirtækja hafi til að bera þekkingu á fjármálastarfsemi og geti þannig stuðlað að heilbrigðum og traustum rekstri þeirra. Með þessu er hins vegar ekki að því stefnt að girða fyrir að aðrir en sérfróðir aðilar um fjármálastarfsemi eignist virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Í því sambandi skal á það bent að skv. 43. gr. getur Fjármálaeftirlitið lagt fyrir umsækjendur að tilnefna einstaklinga, sem Fjármálaeftirlitið metur hæfa, sem fulltrúa sína í félagsstjórn.
    Samkvæmt 3. tölul. skal Fjármálaeftirlitið hafa hliðsjón af því hvort eignarhald umsækjanda skapar hættu á hagsmunaárekstrum. Eignarhald aðila á virkum eignarhlut í fjármálafyrirtæki kann að vera óæskilegt ef það veldur alvarlegum hagsmunaárekstrum á milli aðilans og fjármálafyrirtækisins. Sú staða kynni t.d. að koma upp þegar helsti samkeppnisaðili fjármálafyrirtækis öðlast rétt til að tilnefna fulltrúa sinn í félagsstjórn þess.
    Almennt séð eru líkur á því að ef skaðleg áhrif hljótast á annað borð af eignarhaldi aukist hættan á þeim eftir því sem viðkomandi eignarhlutur stækkar. Því skal Fjármálaeftirlitið horfa til stærðar eignarhlutarins við mat á umsóknum, sbr. 4. tölul.
    Samkvæmt 5. tölul. er til þess ætlast að Fjármálaeftirlitið meti hvort eignarhald umsækjanda í fjármálafyrirtæki muni torvelda eftirlit með því. Er Fjármálaeftirlitinu rétt í því sambandi að kanna hvort háttsemi umsækjanda í samskiptum hans við stjórnvöld gefi tilefni til að ætla að svo kunni að fara.
    Við mat á umsóknum er Fjármálaeftirlitinu enn fremur rétt að hafa hliðsjón af því hvort umsækjandi hefur skilað upplýsingum sem það hefur beðið um í umsóknarferlinu og hvort þær hafa reynst villandi eða rangar, sbr. 6. tölul. Það skal þó aðeins hafa áhrif á mat Fjármálaeftirlitsins ef umsækjandi hefur vísvitandi eða vegna hirðuleysis skilað röngum eða villandi upplýsingum. Hafi það hins vegar verið afsakanlegt af einhverjum sökum skal það ekki koma niður á mati Fjármálaeftirlitsins á hæfi umsækjanda.
    Fjármálaeftirlitið skal skv. 7. tölul. hafa hliðsjón af því hvort umsækjendur hafa þurft að sæta refsingu eða hvort opinber rannsókn stendur yfir á högum þeirra. Er eðlilegt að það hafi áhrif á mat á hæfi umsækjanda.
    Samkvæmt 64. gr. er framsal á virkum eignarhluta í sparisjóði háð samþykki sparisjóðsstjórnar. Samþykki skal aðeins veitt í þeim tilvikum þegar fyrir liggja sérstakar aðstæður vegna nauðsynjar á fjárhagslegri endurskipulagningu eða þegar sýnt er fram á að öflun eignarhlutarins sé þáttur í eflingu samvinnu meðal sparisjóða í landinu, sbr. 2. mgr. 70. gr. Í 8. tölul. er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið gangi úr skugga um að skilyrðum 2. mgr. 70. gr. sé raunverulega fullnægt þegar aðili hefur fengið samþykki stjórnar sparisjóðs til þess að eignast virkan eignarhlut.

Um 43. gr.


    Ákvæði þetta fjallar um það, ef niðurstaða Fjármálaeftirlitsins verður á þá leið að umsækjandi sé ekki hæfur til að eiga eignarhlut með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs viðkomandi fjármálafyrirtækis. Er þá meginreglan sú að synja skuli umsókn. Meðalhófs skal þó gætt bæði varðandi mat á hæfi umsækjanda sem og varðandi það til hvaða úrræða skuli gripið. Í samræmi við þetta er í 2. málsl. 1. mgr. ákvæðisins kveðið á um það að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að samþykkja eignarhaldið gegn því að umsækjandinn grípi til tiltekinna ráðstafana sem Fjármálaeftirlitið ákveður. Þær ráðstafanir verða ekki tæmandi taldar upp en tilgangur þeirra er að draga úr hinum skaðlegu áhrifum sem kynnu ella að fylgja eignarhaldinu. Í ákvæðinu sjálfu eru nefnd tvö dæmi. Þannig væri Fjármálaeftirlitinu til dæmis heimilt að samþykkja eignarhaldið gegn því að umsækjandinn tilnefndi sem fulltrúa sína í félagsstjórn einstaklinga sem hefðu reynslu af fjármálastarfsemi en væru án sérstakra viðskiptatengsla við umsækjandann. Á sama hátt gæti Fjármálaeftirlitið lagt fyrir umsækjanda að fela eignarhaldið sérstöku eignarhaldsfélagi sem hefði aðeins þann tilgang að sinna eignarhaldi á fjármálafyrirtækinu. Fjármálaeftirlitið gæti gripið til annarra ráðstafana ef þær þættu til þess fallnar að draga úr skaðlegum áhrifum sem að öðrum kosti mætti búast við að stöfuði af eignarhaldi umsækjanda. Fleiri ráðstafanir koma til álita, t.d. að áskilja að umsækjandi neyti ekki þess atkvæðisréttar sem hlutunum fylgir.
    Samkvæmt 2. mgr. getur Fjármálaeftirlitið ekki dregið úr hömlu að svara umsókn, en gert er ráð fyrir að skriflegt svar liggi fyrir og hafi borist umsækjanda eigi síðar en einum mánuði eftir að umbeðnar upplýsingar hafa borist. Rökstuðningur skal fylgja synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn. Er umsækjendum þar veittur rýmri réttur til rökstuðnings en leiðir af V. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 44. gr.


    Umsækjendur sem fá jákvætt svar Fjármálaeftirlitsins, verða að nýta sér heimildina til að eignast hluti eða atkvæðisrétt innan sex mánaða frá því að samþykki Fjármálaeftirlitsins lá fyrir. Dragist það lengur ber þeim að sækja um að nýju. Rökin að baki þessu ákvæði eru að á því tímabili frá því að fallist hefur verið á umsókn og þar til eignarhaldið flyst til umsækjenda hefur Fjármálaeftirlitið ekki eftirlit með hæfi þeirra. Á þeim tíma kunna aðstæður hjá umsækjendum að breytast og gera þá síður til þess fallna að fara með eignarhaldið. Því þykir rétt að takmarka þann tíma sem aðilar geta dregið að ráðast í kaup á eignarhlut sem fengist hefur leyfi fyrir. Þá gildir heimildin aðeins um fjárfestingu í þeim tilteknu hlutum sem sótt var um leyfi til að fjárfesta í. Þannig getur leyfishafi ekki keypt virkan eignarhlut í öðru fjármálafyrirtæki en því sem getið var um í umsókn eða keypt stærri eða minni hlut en getið var um í umsókn, enda geta slíkar breytingar breytt valdahlutföllum í viðkomandi fyrirtæki og þar með afstöðu Fjármálaeftirlitsins til umsóknarinnar.

Um 45. gr.


    Í ákvæði þessu er tekið á því hvernig fer ef aðili hirðir ekki um að afla samþykkis Fjármálaeftirlitsins vegna kaupa á virkum eignarhlut eða aukningar á honum umfram þau mörk sem tilgreind eru í 40. gr. Í þeim tilvikum fellur niður sá atkvæðisréttur sem ella fylgdi hlutunum. Fjármálaeftirlitinu ber að hafa eftirlit með slíkum fjárfestingum og tilkynna fjármálafyrirtækjum sem svo háttar til um að atkvæðisréttur skuli ekki fylgja viðkomandi hlutum. Tilgangurinn með þeirri tilkynningu er að tryggja að unnt sé að taka tillit til þess á fundum hluthafa. Sé atkvæðisréttur, sem fallið hefur niður, eigi að síður nýttur á fundum hluthafa kunna ákvarðanir sem þar eru teknar að verða ógildanlegar skv. 96. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995.
    Fjármálaeftirlitinu ber jafnframt að skora á viðkomandi fjárfesti að sækja um leyfi fyrir fjárfestingunni. Geri hann það ekki innan fjögurra vikna ber honum að selja þann hluta sem er umfram leyfileg mörk. Með leyfilegum mörkum er átt við að fjárfestinum sé eftir sem áður heimilt að eiga þann hluta hlutafjárins sem gerir hann ekki að eiganda virks eignarhlutar. Sinni viðkomandi hluthafar ekki þeirri skyldu sinni er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita þá lögmæltum viðurlögum í samræmi við heimildir þess skv. 11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Skili fjárfestirinn á hinn bóginn umsókn til Fjármálaeftirlitsins ræðst framhaldið af mati Fjármálaeftirlitsins á henni. Fallist Fjármálaeftirlitið á fjárfestinguna verður atkvæðisrétturinn virkur að nýju. Fallist Fjármálaeftirlitið hins vegar ekki á fjárfestinguna ber fjárfestinum að selja það sem er umfram leyfileg mörk.

Um 46. gr.


    Í ákvæði þessu er kveðið á um hvernig farið skuli með það þegar fjárfestar fjárfesta í virkum eignarhlutum þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi hafnað umsókn þeirra um leyfi til þess. Við þær aðstæður fellur atkvæðisrétturinn niður sjálfkrafa. Ber fjárfestinum að selja þann hlut sem er umfram leyfileg mörk. Gilda sömu sjónarmið og í 45. gr. um lögmælt viðurlög sem Fjármálaeftirlitið getur beitt viðkomandi til að þvinga þá til að selja hluti sína.

Um 47. og 48. gr.


    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.

Um 49. gr.

    Þessi grein lýtur að hinu stöðuga eftirliti sem Fjármálaeftirlitinu ber að hafa með eigendum virkra eignarhluta. Komi í ljós að aðili sem á virkan eignarhlut, með samþykki Fjármálaeftirlitsins, fullnægi ekki lengur þeim hæfisskilyrðum sem leidd verða af 42. gr. frumvarpsins er Fjármálaeftirlitinu heimilt að grípa til ráðstafana til að ráða bót á því ástandi.
Í 1. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti gripið til einnar, tveggja eða allra í senn af þeim ráðstöfunum sem þar eru tilgreindar í þremur töluliðum.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti fellt niður atkvæðisrétt af viðkomandi hlutum á meðan hæfi hluthafans verður dregið í efa.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti lagt fyrir hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki að grípa til tiltekinna ráðstafana í því skyni að lagfæra ástandið.
    Að síðustu getur Fjármálaeftirlitið boðað til hluthafafundar í viðkomandi fjármálafyrirtæki. Á þeim fundi hefur Fjármálaeftirlitið málfrelsi sem það getur nýtt til að greina fundarmönnum frá þeim athugasemdum sem það hefur við hæfi eða háttsemi viðkomandi hluthafa. Athygli skal vakin á því að samhliða þessu úrræði getur Fjármálaeftirlitið fellt niður atkvæðisrétt hluthafans og er því rétt að gera það ef sú ráðstöfun er til þess fallin að draga úr hinum skaðlegu áhrifum sem viðkomandi hluthafi hefur á heilbrigði fjármálafyrirtækisins.
    Af 1. mgr. leiðir að Fjármálaeftirlitið getur ýmist byggt niðurstöðu sína á mati á hæfi hluthafans sem slíku eða háttsemi hans sem kann að hafa verið skaðleg fjármálafyrirtækinu. Þá skal Fjármálaeftirlitið horfa sérstaklega til þess hvort tiltrú almennings á viðkomandi fjármálafyrirtæki sé í hættu vegna stöðu eða háttsemi hluthafans.
    Samkvæmt 2. mgr. ber Fjármálaeftirlitinu meðal annars að horfa til þeirra viðmiða sem upp eru talin í 42. gr. frumvarpsins.
    Fjármálaeftirlitinu ber lögum samkvæmt að gæta meðalhófs og ber því að grípa til eins vægra úrræða og kostur er hverju sinni.
    Nátengd þessu stöðuga eftirliti Fjármálaeftirlitsins með stærri hluthöfum eru þau ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög, sem eiga að draga úr líkunum á að stærri hluthafar hlutafélaga misbeiti áhrifum sínum þar. Nægir þar að nefna ákvæði 95. gr. laganna um ákvarðanir hluthafafundar sem afla tilteknum hluthöfum ótilhlýðilegs ávinnings. Slíkar ákvarðanir eru ógildanlegar skv. 96. gr. laganna.

Um VII. kafla.

    Í þessum kafla laganna er að finna ákvæði er lúta að starfsskyldum stjórnenda, hæfiskröfum sem gerðar eru til stjórnenda eða tiltekinna starfsmanna og reglum um skipti starfsmanna við fjármálafyrirtækið. Í gildandi lögum eru ákvæði um þetta nokkuð á víð og dreif. Þannig er t.d. fjallað um stjórn viðskiptabanka og sparisjóða í IV. kafla laga nr. 113/1996, en kveðið á um lánveitingar til bankastjóra eða sparisjóðsstjóra í V. kafla laganna sem fjallar um starfsemi. Þykir fara betur á því að öll ákvæði er lúta að persónu þeirra sem starfa fyrir fjármálafyrirtæki og skyldum þeirra sé að finna á einum stað. Þó skal á það bent að í VIII. kafla er að finna sérákvæði um stjórn sparisjóða.
    Að mestu leyti má segja að ákvæðin endurspegli núverandi réttarástand. Hins vegar er orðalag í einstaka núgildandi lagabálkum mismunandi, og í ýmsum tilvikum hefur verið leitast við að gera ákvæðin nákvæmari og skýrari. Verður nánar vikið að þessu í athugasemdum með hverju ákvæði fyrir sig.
    Þar sem ekki er lengur um að ræða aðgreiningu milli ríkisviðskiptabanka og hlutafélagabanka eru ákvæðin minni að umfangi en í núgildandi lögum um viðskiptabanka, nr. 113/ 1996.

Um 50. gr.

    Gert er ráð fyrir að ákvæði hlutafélagalöggjafarinnar gildi að meginstefnu til um fjármálafyrirtæki, að því marki sem eðli rekstursins kallar ekki á sérstakar reglur. Þær reglur hlutafélagalöggjafar sem hér eiga við eru einkum í IX. kafla laga um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.

Um 51. gr.

    Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. er í samræmi við lágmarksfjölda stjórnarmanna skv. 1. mgr. 63. gr. hlutafélagalaga.
    Samkvæmt núgildandi lögum skulu stjórnarmenn hlutafélagsbanka eða sparisjóðs vera fimm hið fæsta. Starfsheimildir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja skv. 20. gr. frumvarps þessa eru mun víðfeðmari en annarra fjármálafyrirtækja og má gera ráð fyrir að stærstu og umsvifamestu fyrirtæki á íslenskum fjármálamarkaði fylli þennan flokk. Þykir því rétt að halda því fyrirkomulagi að ríkari kröfur séu gerðar um skipan stjórnar slíkra fyrirtækja.
    Ekki er lengur notast við hugtökin bankaráð og bankastjóri. Þetta girðir þó að sjálfsögðu ekki fyrir það að fjármálafyrirtæki kalli stjórnir sínar slíkum nöfnum sé ákvæðum laga þessara fullnægt.

Um 52. gr.

    Með ákvæði þessu er leitast við að samhæfa ákvæði gildandi fjármálalöggjafar um stjórn og framkvæmdastjóra og færa til samræmis við ákvæði hlutafélagalöggjafar eftir því sem kostur er, sbr. 66. gr. hlutafélagalaga.
    Í 1. mgr. er lagt til að felld verði brott sérákvæði núgildandi laga um búsetu. Skv. 2. mgr. 66. gr. hlutafélagalaga er nægilegt að framkvæmdastjóri og helmingur stjórnarmanna hlutafélags sé búsettur hérlendis. Verður ekki séð að nauðsyn beri til að gera meiri kröfur um fjármálafyrirtæki en önnur hlutafélög hvað þetta snertir. Búsetuskilyrði gildir ekki um ríkisborgara EES-ríkja sem búsettir eru í EES-ríki, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 66. gr. hlutafélagalaga.
    Samkvæmt 38. gr. núgildandi laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, sem gildir einnig um aðrar lánastofnanir skv. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 123/1993, mega stjórnendur aldrei hafa misst forræði á búi sínu. Ýmsar ástæður geta verið þess valdandi að menn missi forræði á búi sínu án þess að slíkt gefi tilefni til að ætla að þeir séu ófærir til að gegna störfum við stjórn fjármálafyrirtækis. Regla núgildandi laga þykir því of ströng, og þess í stað er lagt til að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri megi ekki hafa sætt skiptameðferð síðustu fimm ár áður en hann tók við starfi sínu. Til viðbótar þessu skilyrði koma matskenndar hæfisreglur 2. mgr.
    Þá er lagt til að fellt verði brott skilyrði um óflekkað mannorð sem sérstakt hæfisskilyrði, en hins vegar er tilskilið að menn hafi ekki á síðustu fimm árum gerst sekir um meiri háttar brot er tengjast atvinnurekstri. Telja verður að þetta skilyrði nái til tilvika þar sem menn hafa með lögbrotum rúið sig trausti til að hafa með höndum stjórn fjármálafyrirtækis. Er ákvæðið að þessu leyti fært til samræmis við almennar reglur hlutafélagalöggjafarinnar. Fimm ára tímamarkið gengur lengra en gildandi ákvæði hlutafélagalaga en verður að teljast eðlilegt með tilliti til þeirrar ríku ábyrgðar sem í störfum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra felst.
    Í 2. mgr. er að finna matskennda hæfisreglu sem er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 2000/12/EB. Annars vegar lýtur reglan að því hvort þekking og reynsla stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra sé nægileg til að hann fái valdið starfanum. Eðli máls samkvæmt er ekki unnt að setja fram almenn viðmið um það hvaða þekkingar eða reynslu er þörf til að stjórna fjármálafyrirtæki, heldur verður að meta slíkt hverju sinni með hliðsjón af tegund fjármálafyrirtækis og umfangi rekstursins. Hins vegar má ekki vera um það að ræða að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri hafi með fyrri hegðun sinni rúið sig trausti til að takast á hendur stjórn fjármálafyrirtækis. Er hér um að ræða hliðstætt skilyrði og fram kemur í núgildandi 2. mgr. 38. gr. laga nr. 113/1996 varðandi starfsferil og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1996. Skilyrði þetta er óháð ákvæðum 1. mgr., og getur því t.d. refsiverður verknaður aðila haft áhrif á mat á hæfi hans skv. 2. mgr., enda þótt brotið hafi ekki lotið að atvinnurekstri eða lengra en fimm ár sé liðið frá því dómur gekk. Enn fremur getur fyrri þrotameðferð haft áhrif á mat á hæfi stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra þótt lengri tími hafi liðið frá skiptameðferð en greinir í 1. mgr. Fyrri brot á lögum um starfsemi á fjármálamarkaði hefur sérstaka þýðingu við matið, auk þess sem fyrri afskipti Fjármálaeftirlitsins eða mat þess á fyrri störfum viðkomandi hefur þýðingu við mat á hæfi. Fleiri ástæður geta komið til skoðunar. Mat Fjármálaeftirlitsins verður eðli máls samkvæmt að vera rökstutt með hliðsjón af hagsmunum fyrirtækisins og þar með viðskiptamanns.

Um 53. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er efnislega óbreytt frá núgildandi lögum, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1996 eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 99/2000.
    Í 2.–3. mgr. er að finna nánari ákvæði um prófnefnd verðbréfaviðskipta og framkvæmd prófa. Reglur um þetta hefur hingað til verið að finna í reglugerð, sbr. núgildandi reglugerð nr. 506/2000 um próf í verðbréfaviðskiptum. Rétt þykir að festa í lög helstu ákvæði um skipan prófnefndar, heimild til töku þjónustugjalda o.s.frv. Próf skulu að jafnaði haldin árlega, en kunna þó að vera haldin með lengra millibili, t.d. ef þátttaka nær ekki vissu lágmarki. Áfram er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra mæli fyrir um nánari framkvæmd prófa og undanþáguheimildir í formi reglugerðar, sbr. lokamálslið 3. mgr.

Um 54. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu fjármálafyrirtækis til að hafa í samþykktum sínum ákvæði um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra. Með orðalaginu að tekið skuli mið af ákvæðum hlutafélagalaga er átt við að framkvæmdastjóri skuli að meginstefnu til annast daglegan rekstur fjármálafyrirtækis, en stjórn þess sinna stefnumótun, eftirliti og töku meiri háttar ákvarðana, sbr. 68. gr. hlutafélagalaga. Hér skal sérstaklega bent á þá meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 55. gr. frumvarpsins þess efnis að stjórn fjármálafyrirtækis eða einstakir stjórnarmenn skuli ekki hafa afskipti af einstökum ákvörðunum um viðskipti. Mundi því almennt í samþykktum þurfa að mæla fyrir um atriði eins og skyldu stjórnar til setningar reglna um mörk heimilda framkvæmdastjóra til að veita lán og til að ákveða fjárfestingar. Að því leyti sem ekki væri kveðið á um verkaskiptingu í samþykktum eða slíkum reglum mundi hún ráðast af meginreglum félagaréttar.
    Samkvæmt 2. mgr. skal stjórn fjármálafyrirtækis setja sér reglur um framkvæmd þeirra starfa sem heyra undir hana samkvæmt framangreindri verkaskiptingu. Skyldu til setningar starfsreglna leiðir af ákvæðum 4. mgr. 70. gr. hlutafélagalaga. Hér er hins vegar mælt fyrir um þau atriði sem nauðsyn ber til að komi fram í slíkum reglum vegna séreðlis fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði sent afrit reglnanna og síðari breytinga á þeim. Með því móti gefst Fjármálaeftirlitinu færi á að gera athugasemdir ef það telur reglurnar á einhvern hátt fara í bága við lögin þótt ekki sé áskilin staðfesting Fjármálaeftirlitsins.

Um 55. gr.

    Ákvæði þetta geymir reglur um þátttöku stjórnarmanna í einstökum ákvörðunum í rekstri fjármálafyrirtækis.
    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að ákvarðanataka varðandi einstök viðskipti eigi ekki að vera háð afskiptum stjórnar eða einstakra stjórnarmanna. Í þessu felst m.a., að einstakir stjórnarmenn geta ekki gefið framkvæmdastjóra eða undirmönnum hans fyrirmæli um afgreiðslu einstakra mála. Þó er sleginn sá varnagli að einstakar ákvarðanir, t.d. um lánveitingar, kunna að hafa úrslitaáhrif á rekstur fjármálafyrirtækis í heild sinni. Í slíkum tilvikum væri rétt að fela stjórninni ákvarðanatöku. Nánari afmörkun á heimildum stjórnar í þessa veru mundi ráðast af efni reglna sem stjórn setur, sbr. 54. gr.
    Í 2. mgr. koma fram ófrávíkjanlegar reglur varðandi sérstakt hæfi stjórnarmanna við meðferð einstakra mála. Ákvæði 1. tölul. er sama efnis og 3. mgr. 40. gr. núgildandi laga nr. 113/1996 að því frátöldu að ekki er lengur mælt fyrir um að eignarhlutur í fyrirtæki geri stjórnarmann fortakslaust vanhæfan. Réttara þykir að hagsmunatengsl af þessu tagi séu metin í hverju tilviki eftir því hvort eignarhlutur feli í sér „verulega hagsmuni“ í skilningi ákvæðisins. Ákvæði 2. tölul. er hins vegar nýmæli. Styðst það annars vegar við þau augljósu rök að tengsl stjórnarmanns við t.d. fyrirtæki getur leitt til þess að hann geti ekki litið hlutlausum augum á viðskiptaerindi frá keppinaut þess, og hins vegar kann þátttaka stjórnarmanns í meðferð máls að leiða til þess að hann komist yfir upplýsingar varðandi viðkvæma samkeppnis- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis sem á í samkeppni við aðila sem honum er tengdur. Skv. 2. mgr. 54. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að stjórn fjármálafyrirtækis setji reglur er taki á meðferð upplýsinga um einstaka viðskiptamenn, m.a. með það í huga að þær komi ekki fyrir augu vanhæfra stjórnarmanna. Regla 2. málsl. er sama efnis og 2. málsl. 3. mgr. núgildandi 40. gr. laga nr. 113/1996 og þarfnast ekki skýringa.
    Í 3. mgr. er mælt svo fyrir að viðskiptaerindi stjórnarmanna og aðila sem tengjast þeim skuli ávallt lögð fyrir stjórn fjármálafyrirtækis. Rökin fyrir því að gera að þessu leyti ríkari kröfur um afgreiðslu viðskiptaerinda eru þau að koma í veg fyrir að stjórnarmenn geti í krafti stöðu sinnar komið á viðskiptum sem ella hefðu ekki verið samþykkt. Hins vegar er gert ráð fyrir heimild fyrir stjórn fjármálafyrirtækis að setja sér almennar reglur þess efnis að tiltekin viðskipti stjórnarmanna eða tengdra aðila þurfi ekki að hljóta slíka meðferð. Slíkar undantekningar þurfa að vera vel afmarkaðar í reglum og taka mið af áhættu og umfangi þeirra viðskipta sem um er að tefla.

Um 56. gr.

    Tilgangur ákvæðis þessa er tvíþættur. Í fyrsta lagi er bann við því að framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis taki þátt í atvinnurekstri til þess fallið að minnka líkur á hagsmunaárekstri. Í öðru lagi verður að telja æskilegt að framkvæmdastjóri helgi sig starfanum óskiptur.
    Með öðrum starfsmönnum í lokamálslið ákvæðisins er einkum átt við útibússtjóra, forstöðumenn sviða, sjóðsstjóra og aðra stjórnendur.

Um 57. gr.

    Í grein þessari er mælt fyrir um að tiltekin meiri háttar viðskipti framkvæmdastjóra við fjármálafyrirtæki geti ekki átt sér stað án samþykkis stjórnar. Ákvæðið styðst við svipuð rök og áskilnaður 3. mgr. 55. gr. um að viðskiptaerindi einstakra stjórnarmanna sæti umfjöllun stjórnar, þ.e. að komið sé í veg fyrir að framkvæmdastjóri neyti aðstöðu sinnar til að koma á viðskiptum sem fjármálafyrirtækið hefði ella ekki staðið að. Gera verður ráð fyrir að stjórn fjármálafyrirtækis geti samkvæmt þessu ákvæði samþykkt fyrirkomulag í minni háttar viðskiptum, þannig að ekki þurfi að bóka hvern einstakan gerning þegar þeir skapa ekki einir og sér hættu á hagsmunaárekstrum, hættu á að trúverðugleiki verði dreginn i efa eða aðra áhættu.
    Lagt er til að felldur verði brott áskilnaður núgildandi 1. mgr. 47. gr. laga nr. 113/1996 þess efnis að kjör í viðskiptum framkvæmdastjóra við fjármálafyrirtækið séu á engan hátt frábrugðin því sem aðrir viðskiptamenn njóti. Telja verður eðlilegra að fjármálafyrirtæki sé frjálst að ákveða sérkjör til framkvæmdastjóra ef það svo kýs, t.d. sem hluta launakjara. Áskilnaður um samþykki stjórnar tryggir að ekki sé gengið gegn hagsmunum fyrirtækisins sjálfs við slíka ákvarðanatöku.

Um 58. gr.

    Í ákvæði þessu er að finna almennar reglur um bankaleynd. Til viðbótar ákvæðum þessara laga gilda almenn ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Meginreglan um þagnarskyldu starfsmanna fjármálafyrirtækis kemur fram í 1. mgr., og samsvarar hún efnislega ákvæði núgildandi 43. gr. laga nr. 113/1996. Með breyttu orðalagi er hins vegar hnykkt á því að upplýsingar sem leynt eiga að fara geta bæði verið viðskiptalegs og persónulegs eðlis. Enda þótt beiting ákvæðisins hljóti ávallt að vera háð mati líkt og núgildandi ákvæði yrði í vafatilvikum að telja að upplýsingar sem fjármálafyrirtæki byggi yfir um viðskiptamann sinn félli undir þagnarskyldu, nema atvik bentu til annars. Felld er brott tilvísun í úrskurð dómara, enda fellur slíkt undir það tilvik þegar skylt er að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Hins vegar felur orðalag ákvæðisins í sér að þagnarskylda á við, jafnt þótt ekki sé um að ræða starfsmann fjármálafyrirtækis í skilningi vinnuréttar. Aðili sem kemst á snoðir um trúnaðarupplýsingar vegna starfa sinna fyrir fjármálafyrirtæki sem verktaki er því bundinn þagnarskyldu.
    Ekki er sjálfgefið að ólíkir hópar þagnarskyldra aðila hafi heimild til að skiptast á trúnaðarupplýsingum sín í milli. Upplýsingagjöf milli ólíkra fjármálafyrirtækja innan samstæðu er t.d. óheimil, nema uppfyllt séu skilyrði 62. gr. um undanþágu vegna áhættustýringar og eftirlits á samstæðugrunni.
    Í 1. málsl. 2. mgr. kemur fram meginregla þess efnis, að „trúnaðarskylda fylgi upplýsingum“. Miðlun trúnaðarupplýsinga, hvort sem hún byggist á samþykki, sjónarmiðum um áhættustýringu eða ákvæðum í sérlögum, leiðir ekki til þess að trúnaðinum sé aflétt gagnvart öðrum en mótttakanda upplýsinganna. Í samræmi við þetta er í 2. málsl. 2. mgr. kveðið á um skyldu þess sem veitir trúnaðarupplýsingar til að brýna inntak þagnarskyldunnar fyrir viðtakanda. Í mörgum tilvikum mundi viðtakandinn sjálfur vera bundinn þagnarskyldu samkvæmt lögum, en svo þarf þó ekki að vera í öllum tilvikum.

Um 59. gr.

    Í þessu ákvæði er að finna undanþágu frá þagnarskyldu í þeim tilvikum þar sem upplýsingagjöf er nauðsynleg vegna áhættustýringar og eftirlits á samstæðugrunni. Ljóst er að umfang einstakra viðskipta getur verið slíkt að nauðsyn beri til slíkrar upplýsingagjafar. Hefur verið höfð hliðsjón af ákvæðum danskra laga um þetta efni.
    Tilskilið er að móðurfélagið sé einnig fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði eins og það hugtak er skilgreint í 4. mgr. 97. gr. Um er að ræða undantekningu frá meginreglu um þagnarskyldu, og ber því að túlka heimildina þröngt, enda eru settar tvenns konar takmarkanir á upplýsingamiðlun samkvæmt ákvæðinu. Hið fyrra lýtur að því að upplýsingamiðlun sé nauðsynleg vegna áhættustýringar eða eftirlits á samstæðugrunni. Í þessu sambandi skal bent á að skv. 17. gr. er fjármálafyrirtækjum skylt að hafa yfir að ráða eftirlitskerfi með áhættum. Má því vænta þess að fyrir fram sé ljóst hvers konar upplýsingar fari milli eininga í samstæðu. Síðari takmörkunin er á þá leið að aldrei er heimilt að miðla upplýsingum er varða einkamálefni viðskiptamanna. Ákvörðun um það hvort upplýsingar um viðskiptamann teljist til einkamálefna hans er eðli máls samkvæmt ávallt háð mati. Þó má hafa leiðsögn af almennum lagasjónarmiðum um friðhelgi einkalífs og ákvæðum í settum lögum, t.d. skilgreiningu á viðkvæmum persónuupplýsingum í 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Að því er varðar upplýsingagjöf til stjórnar sama fyrirtækis leiðir af ákvæðum 54. og 55. gr. að stjórn fjármálafyrirtækis á í fyrsta lagi ekki að hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum varðandi einstaka viðskiptavini fram yfir það sem nauðsyn krefur við afgreiðslu þeirra mála sem heyra undir hana samkvæmt samþykktum. Í öðru lagi skulu starfsreglur stjórnar tryggja að trúnaðarupplýsingar um einstaka viðskiptamenn komi ekki fyrir augu vanhæfra stjórnarmanna.

Um 60. gr.

    Ákvæðið er nýmæli. Gert er ráð fyrir að viðskiptamaður geti samþykkt að bankaleynd sé aflétt, svo fremi sem ljóst sé um hvaða upplýsingar er að ræða, hver viðtakandi þeirra er og í hvaða tilgangi miðlun upplýsinganna fer fram. Samþykki sem ekki uppfyllir þessi skilyrði leiðir ekki til brottfalls bankaleyndar skv. 58. gr.

Um VIII. kafla.

    Árið 1915 voru sett fyrstu lögin um sparisjóði. Í þeim var gerð nokkuð nákvæm grein fyrir hinum ýmsu þáttum sem snertu rekstur sparisjóða, t.d. hvaða ákvæði skyldi vera að finna í samþykktum og hvernig stjórn skyldi kosin. Í lögunum var að meginstefnu til gengið út frá því að allur hagnaður rynni í varasjóð en þó voru þröngar heimildir í lögunum til að greiða stofnfjáreigendum vexti af stofnfé sínu.
    Árið 1941 voru sett ný lög um sparisjóði, talsvert breytt frá þeim fyrri. Með lögunum var dregið úr valdi stofnfjáreigenda en forræði þess opinbera á stjórn þeirra aukið. Voru heimildir sparisjóða til útlána takmarkaðar og tengdar eigin fé viðkomandi sjóðs. Voru bæði sett mörk við þeim heildarútlánum sem sjóðum voru heimil og hversu mikið mætti lána einstökum aðilum. Þá var með lögunum komið á stofn tryggingarsjóði sparisjóðanna sem átti að tryggja að útlán kæmu ekki í veg fyrir að sparisjóðirnir gætu jafnan staðið innstæðueigendum skil á fé þeirra þegar þess væri krafist.
    Hin þriðju lög um sparisjóði, sem sett voru árið 1985, fólu í sér veigamiklar breytingar á starfsgrundvelli sparisjóða. Þóttu lögin frá 1941 hafa gengið sér til húðar og ekki fullnægja þeim kröfum sem rekstur sparisjóða gerði. Var almennur vilji löggjafans að rýmka starfsheimildir sparisjóða og leyfa þeim að starfa á sömu forsendum og aðrar innlánsstofnanir. Voru starfsheimildir sparisjóða því auknar og felld úr gildi öll þau ákvæði eldri laga sem takmörkuðu starfsemi sparisjóða borið saman við starfsemi viðskiptabanka. Hið misjafna rekstrarform og eignarhald banka og sparisjóða hélst hins vegar óbreytt. Í lögunum var hagur stofnfjáreigenda þó aukinn, einkum með því að þá varð í fyrsta sinn heimilað að verðtryggja stofnfé sem hafði rýrnað mjög í verðbólgutíð. Þá var í fyrsta sinn kveðið á um heimild stofnfjáreigenda til að framselja stofnfjárhluti sína, að vissum skilyrðum fullnægðum.
    Fram að gildistöku laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 43/1993, hafði löggjöf um sparisjóði annars vegar og viðskiptabanka hins vegar verið í tvennum aðskildum lögum. Með lögum nr. 43/1993 var lagaákvæðum um viðskiptabanka og sparisjóði hins vegar steypt saman í eina heildstæða löggjöf. Í lögunum var enn fremur mælt fyrir um ýmis nýmæli auk þess sem aukið var við efnisinntak eldri ákvæða. Þannig voru starfsheimildir auknar með lögunum frá því sem áður hafði verið.
    Með lögum nr. 71/2001 voru gerðar mikilvægar breytingar á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Með lögunum var starfandi sparisjóðum veitt heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Þá voru gerðar breytingar á ákvæðum um stofnfjárbréf í því skyni að gera bréfin að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti. Að lokum var sú breyting gerð að í stað þess að sveitarfélög eða héraðsnefndir tilnefni tvo stjórnarmenn af fimm í sparisjóði er heimilt að kveða í samþykktum á um að stofnfjáreigendur kjósi alla fimm stjórnarmenn sparisjóðs.
    Í þessum kafla frumvarpsins hefur verið safnað saman sérákvæðum um stofnun, stjórn og ráðstöfun hagnaðar sparisjóða. Þetta eru ákvæði 15.–23. gr., 32.–37. gr., 52. gr. og 59. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Í frumvarpinu er lagt til að ýmis ákvæði um sparisjóði falli úr gildi, vegna þess að þau annaðhvort leiðir af lögum um hlutafélög, sbr. VII. kafla frumvarpsins, eða þau eru ekki lengur talin eiga við um sparisjóði. Þetta eru 2. mgr. 15. gr., 19. gr., 32.–34. gr., 2.–4. mgr. 36. gr. og 37. gr.
    Í þessum kafla er lagt til að að yfirtökuvarnir sparisjóða verði treystar. Helstu breytingum frá gildandi ákvæðum eru gerð skil í athugasemdum við 64. og 70. gr. frumvarpsins.


Um 61. gr.

    Greinin er óbreytt frá 15. gr. laga nr. 113/1996 að því frátöldu að 2. mgr. gildandi laga um að ákvörðun um breytingu á samþykktum sparisjóðs skuli hljóta samþykki 2/ 3hluta greiddra atkvæða hefur verið felld út. Ákvæðið er ekki sérákvæði fyrir sparisjóði þar eð það er tekið upp úr lögum nr. 2/1995 og gildir fyrir öll fjármálafyrirtæki.

Um 62. gr.

    Greinin er óbreytt frá 16. gr. laga nr. 113/1996.

Um 63. gr.

    Greinin er óbreytt frá 17. gr. laga nr. 113/1996 að öðru leyti en því að bætt hefur verið við 4. mgr. að stofnfé geti verið endurgreitt til stofnfjáreigenda samkvæmt ákvæðum 65. gr. Þetta er ekki efnisleg breyting heldur leiðir hana af þeim breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 71/2001.

Um 64. gr.

    Í grein þessari er áskilið að sala eða annað framsal stofnfjárhlutar verði að hljóta samþykki sparisjóðsstjórnar. Ef grunur vaknar um að fyrirhugað framsal sé liður í því að kaupandi eignist virkan eignarhlut skal sparisjóðsstjórn vísa málinu til Fjármálaeftirlitsins. Leiði rannsókn Fjármálaeftirlitsins til þeirrar niðurstöðu að reglur um virkan eignarhlut eigi við tekur það afstöðu í samræmi við ákvæði VI. kafla.

Um 65. gr.

    Greinin er óbreytt frá 20. og 21. gr. laga nr. 113/1996, en 20. gr. var breytt með lögum nr. 71/2001. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 71/2001 sagði um þessa breytingu:
    „Með greininni er ætlunin að auðvelda stofnfjáreigendum að selja stofnfjárbréf sín. Í 1. mgr. 20. gr. laganna segir að stjórn sparisjóðs sé heimilt að innleysa stofnfjárhlut í sparisjóði við þrjár tilteknar aðstæður; í fyrsta lagi við andlát stofnfjáreiganda, í öðru lagi við eigendaskipti á stofnfjárhlut þegar fjárslit fara fram milli hjóna og í þriðja lagi við brottflutning stofnfjáreiganda af starfssvæði sjóðsins. Telja verður að skilyrði þessi séu of þröng og æskilegt sé fyrir stofnfjáreigendur að heimildin sé rýmkuð. Fyrir vikið ættu stofnfjárbréf að verða fýsilegri fjárfestingarkostur.
    Samkvæmt þessari grein er innlausn stofnfjárhluta í sparisjóði að beiðni stofnfjáreigenda sparisjóðum einungis heimil en ekki skyld. Synji sparisjóður um innlausn fer samkvæmt ákvæðum 21. gr. Með þessari breytingu verða stofnfjárbréf ekki að framseljanlegum bréfum sem ganga kaupum og sölum á markaði. Áfram mun gilda ákvæði 18. gr. um bann við sölu eða öðru framsali stofnfjárhlutar í sparisjóði nema með samþykki sparisjóðsstjórnar.“

Um 66. gr.

    Greinin er óbreytt frá 22. gr. laga nr. 113/1996.

Um 67. gr.

    Greinin samsvarar 23. gr. laga nr. 113/1996 að öðru leyti en því að miðað er við vísitölu neysluverðs í stað lánskjaravísitölu og tekin hefur verið út vísun til ártals. Þá er ekki lengur heimilt að hafa hliðsjón af stöðu eigin fjár sparisjóðs við endurmat.

Um 68. gr.

    Greinin er óbreytt frá 59. gr. laga nr. 113/1996 en sú grein laganna tók miklum breytingum með lögum nr. 71/2001. Í athugasemd með frumvarpi sem varð að lögum nr. 71/2001 sagði um þessa grein:
    „Í greininni er kveðið á um ráðstöfun hagnaðar og ákvörðun arðs í sparisjóðum sem ekki breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Markmiðið er að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðari kosti á fjármagnsmarkaði. Breyting í þá átt var síðast gerð árið 1993. Þá var við ákvörðun um greiðslu arðs felld niður viðmiðun við bestu innlánskjör í sparisjóði á hverjum tíma en lagt í vald aðalfundar að ákveða arðgreiðsluna.
    Eina breytingin í 1. tölul. greinarinnar er að lagt er til að heimilt verði að greiða arð þótt tap sé af rekstri sparisjóðs. Arðgreiðslan takmarkast þó af ákvörðun öryggissjóðs. Í 1. tölul. er, eins og í gildandi lögum, kveðið á um að aðalfundur geti ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að greiða stofnfjáreigendum arð og öryggissjóður ákveði hámarkshlutfall arðgreiðslu. Í greininni er kveðið á um öryggissjóð samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta í stað Tryggingasjóðs sparisjóða. Tilvísanir í Tryggingasjóð sparisjóða hafa verið teknar út úr lögum um viðskiptabanka og sparisjóði að frátaldri þessari í 59. gr. Með lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, var X. kafli laga um viðskiptabanka og sparisjóði felldur úr gildi. Tryggingasjóður sparisjóða er enn þá starfandi en nú sem öryggissjóður skv. 19. gr. laga nr. 98/1999. Ákvörðun Tryggingasjóðs sparisjóða um hámarkshlutfall arðgreiðslu er eins konar öryggisventill fyrir sjóðinn, enda hefur hann verulegra hagsmuna að gæta af því að útgreiðsla arðs tefli ekki hag einstakra sparisjóða í tvísýnu.
    Í 2. tölul. er nýmæli. Í því skyni að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðum fjárfestingarkosti er lagt til að heimilt sé að ráðstafa allt að 10% af hagnaði hvers árs til hækkunar á stofnfé sjóðsins, þó þannig að hækkun stofnfjár verði aldrei meiri en 5% á ári. Þessi hækkun á stofnfé kemur til viðbótar endurmati skv. 23. gr. laganna. Þessari breytingu er ætlað að bæta stöðu þeirra sparisjóða sem líklegt má telja að hafi ekki áhuga á að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Markmiðið er að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti með því að auka arðsvon stofnfjáreigenda.“

Um 69. gr.

    Greinin er óbreytt frá 2. málsl. 52. gr. laga nr. 113/1996.

Um 70. gr.

    Í greininni er að finna ákvæði um eignarhluta og meðferð þeirra. Orðalagi ákvæða um atkvæðisrétt hefur verið breytt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að farið sé í kringum reglur um hámark atkvæðisréttar með eignarhaldi fleiri tengdra aðila á eignarhlutum. Hugtakið óbein eignaraðild er hér notað í sömu merkingu og í 2. mgr. 40. gr. frumvarpsins og vísast um nánari skýringar til athugasemda við þá grein.
    Í 2. mgr. er að finna nánari fyrirmæli um samþykki stjórnar, sbr. 64. gr., þegar um er að ræða eigendaskipti að stofnfjárhlutum sem leiða til þess að einn aðili eða tengdir aðilar öðlist virkan eignarhlut í skilningi laga þessara.
    Dreifð eignaraðild að sparisjóðum hefur frá upphafi verið ein af meginstoðum sparisjóðakerfisins hér á landi. Sér þessa stað víða í gildandi löggjöf. Má þar nefna fyrirmæli laga um að stofnfjáreigendur skuli vera minnst 30 og þá meginreglu að stofnfjáreigendur skuli eiga jafnan hlut nema samþykktir heimili annað.
    Í samræmi við þetta voru stofnfjárhlutir lengst af ekki framseljanlegir að íslenskum rétti. Framsal stofnfjárhluta var fyrst heimilað með 9. gr. laga nr. 87/1985, fyrst og fremst í því skyni að auðvelda sparisjóðunum að afla aukins eigin fjár. Framsali voru þó settar ýmsar skorður í lögunum, og studdust þær við þau rök að hin sérstöku einkenni sparisjóðanna og starfsemi þeirra gerðu að verkum að sparisjóðunum væri nauðsynlegt að hafa hönd í bagga varðandi það hverjir væru aðilar að þeim. Ákvæðum um samþykki stjórnar mun einkum hafa verið ætlað að tryggja að stjórn sparisjóðs gæti haft ákvörðunarvald um það hverjir gerðust stofnfjáreigendur, með tilliti til eðlis og tilgangs sparisjóðsins.
    Af athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 87/1985, sem og athugasemdum við síðari breytingar á lagaákvæðum um sparisjóði, má ráða að vilji löggjafans hafi ekki staðið til þess að stofnfjárbréf gengju kaupum og sölum á almennum markaði. Er enda ljóst að grundvallarmunur er á stofnfé í sparisjóði og hlutafé í hlutafélagi þar sem stofnfjáreign jafngildir ekki hlutdeild í eigin fé sparisjóðs með sama hætti og hlutafjáreign felur í sér. Í flestum sparisjóðum er því svo varið að stofnfé nemur einungis litlum hluta heildareiginfjár. Bróðurpartur eigin fjár er í eigu sparisjóðsins sjálfs, og til þeirra fjármuna eiga stofnfjáreigendur ekkert tilkall. Á hinn bóginn er ljóst að yfirráð yfir stjórn sparisjóðs veita völd til að stjórna þessum fjármunum.
    Til viðbótar framangreindum röksemdum til stuðnings dreifðri eignaraðild að sparisjóðum er þess að geta að samkeppnishæfni sparisjóðakerfisins sem slíks byggist ekki síst á samstarfi þar sem hinir stærri og fjársterkari sparisjóðir leggja til mestu stærðarhagkvæmnina. Yfirtaka á einum eða fleiri þessara stærri sparisjóða mundi fyrirsjáanlega leiða til þess að sparisjóðakerfið liði undir lok.
    Sumarið 2002 var gert yfirtökutilboð í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) með það að markmiði að SPRON rynni að lokum saman við annað fjármálafyrirtæki. Var afstaða Fjármálaeftirlitsins sú að ákvæði gildandi laga yrðu ekki túlkuð á þann veg að óheimilt væri að framselja stofnfjárhluti á yfirverði með þeim hætti sem yfirtökutilboðið gerði ráð fyrir. Sú niðurstaða hefur leitt af sér bagalega réttaróvissu fyrir sparisjóðina varðandi það hver staða þeirra er gagnvart hugsanlegum fjandsamlegum yfirtökutilboðum af hendi annarra fjármálafyrirtækja.
    Með ákvæðum 2. mgr. eru treystar varnir sparisjóðanna gegn slíkum yfirtökuboðum með því að skerpa á meginreglunni um dreifða eignaraðild. Er í ákvæðinu skýrt kveðið á um það að stjórn sé heimilt og skylt að synja um framsal stofnfjárhluta sem leiða mundi til myndunar virks eignarhluta í skilningi laganna, nema því aðeins að uppfyllt sé annað hvort tveggja tilgreindra skilyrða.
    Í fyrsta lagi kann myndun virks eignarhluta að réttlætast af sérstökum aðstæðum vegna nauðsynjar á fjárhagslegri endurskipulagningu viðkomandi sparisjóðs. Hér kann að vera um að ræða björgunaraðgerðir, t.d. tímabundna eignaraðild sveitarfélags á starfssvæði sparisjóðsins í því skyni að tryggja stöðugleika í atvinnulífi. Í öðru lagi kann öflun stofnfjárhlutarins að vera liður í eflingu samvinnu milli sparisjóða í landinu, að því marki sem slík samvinna er heimil vegna ákvæða annarra laga, t.d. samkeppnislaga.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að einstakur stofnfjáreigandi geti aldrei farið með meira en 5% heildaratkvæðamagns, og hefur það hlutfall gilt frá gildistöku laga nr. 43/1993. Samkvæmt þeim lögum sem áður giltu var atkvæðisréttur takmarkaður við 20% heildaratkvæðamagns í sparisjóði. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 43/1993 sagði um þessa málsgrein: „Með hliðsjón af breytingum sem lagðar eru til á 5. gr. frumvarpsins og opna stofnfjáreign í sparisjóðum fyrir öllum lögaðilum, þykir rétt að takmarka atkvæðisrétt enn frekar og miða nú við að enginn geti farið með fyrir sjálfs síns hönd eða annarra meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Með því er enn frekar stuðlað að valddreifingu innan sparisjóða og jafnframt má ætla að ákvæðið stuðli frekar að því að einstaklingar eða lögaðilar sjái sér hag í því að festa fjármuni sína í sparisjóðum.“
    Í 4. mgr. er áréttað að stofnfjáreiganda sé óheimilt að fela öðrum umboð sitt á fundum stofnfjáreigenda nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum viðkomandi sparisjóðs.

Um 71. gr.

    Greinin er óbreytt frá 98. gr. laga nr. 113/1996.

Um 72. gr.

    Greinin er óbreytt frá 1. mgr. 36. gr. laga nr. 113/1996. Þessi málsgrein tók breytingum með lögum nr. 71/2001. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 71/2001 sagði um þessa grein: „Í þessari grein er lagt til að fundur stofnfjáreiganda hafi val um hvort sveitarfélög (eða héraðsnefndir) skuli skipa tvo af fimm stjórnarmönnum í sparisjóði. Nokkuð hefur verið um það rætt á undanförnum árum hvort sú skipan að sveitarfélög skipi í stjórn sparisjóðs sé eðlileg. Hefur í því sambandi verið nefnt að það skjóti skökku við að í stjórn sparisjóða skuli sitja fulltrúar aðila sem oft eiga engra beinna hagsmuna að gæta við rekstur þeirra en fara samt sem áður með 40% stjórnarsæta. Sameiningar sparisjóða og sameiningar sveitarfélaga geta einnig leitt til þess að erfiðara er að velja sveitarfélagsmenn til setu í stjórnum sparisjóða. Sé það hins vegar vilji einstakra sparisjóða að hverfa ekki alfarið frá því fyrirkomulagi sem gilt hefur er því farin sú leið í þessu frumvarpi að aðkoma sveitarfélaga sé háð ákvörðun fundar stofnfjáreigenda.“
    Stjórnarmenn, sem eru ekki kosnir af stofnfjáreigendum, sitja aðal- og aukafundi án atkvæðisréttar.

Um 73. gr.

    Þessi grein er óbreytt frá 1.–2. mgr., 5.–8. mgr. og 10. mgr. 37. gr. A. laga nr. 113/1996. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 71/2001 sagði svo um þessar málsgreinar:
    „Í 1. mgr. er kveðið á um með hvaða hætti breytingin í hlutafélag skuli eiga sér stað. Greinin á sér samsvörun í samrunaákvæði 72. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Það skal tekið fram að samþykki ráðherra er fengið að loknum fundi stofnfjáreigenda. Breyting sparisjóðs í hlutafélag er framkvæmd með samruna sparisjóðsins við hlutafélag sem sparisjóðurinn hefur áður stofnað í þessu skyni. Rétt er einnig að taka fram að heimildin til umbreytingar sparisjóðs í hlutafélag takmarkast við þá sparisjóði sem eru starfandi hinn 31. desember 2000. Verði frumvarpið að lögum verður ekki unnt að stofna nýja sparisjóði í formi hlutafélaga eða að breyta sparisjóðum sem stofnaðir verði eftir 31. desember 2000 síðar í hlutafélag. Við stofnun nýrra innlánsstofnana mun valið því standa á milli þess að stofna hlutafélagsbanka eða sparisjóð í rekstrarformi samkvæmt núgildandi lögum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um undanþágu frá ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarksfjölda stofnenda og hluthafa. Þetta er gert til einföldunar þannig að sparisjóðurinn geti stofnað hlutafélagið án þátttöku annarra og verið eini hluthafinn í því þar til breyting sparisjóðs í hlutafélag á sér stað.
    Í 5. mgr. segir að við breytingu sparisjóðs í hlutafélag haldi starfsleyfi sparisjóðsins gildi sínu. Hlutafélagið tekur að sér allan rekstur sparisjóðsins og allar eignir hans og skuldir, réttindi og skuldbindingar. Hér er því ekki um nýja starfsemi að ræða og ekki þörf á að veita starfsleyfi að nýju.
    Í 6. mgr. segir að ekki sé skylt að gefa út innköllun til lánardrottna og breytingin sé undanþegin stimpilgjöldum í veðmálabókum.
    Í 7. mgr. segir að undanþágur 7. gr. laganna frá kröfum um eigið fé gildi áfram eftir breytingu sparisjóðs í hlutafélag.
    Í 8. mgr. er kveðið á um að sparisjóði sem breytt er í hlutafélag sé auk orðsins „sparisjóður“ skylt að hafa orðið hlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina hf.
    Í 10. mgr. er kveðið á um að ákvæði laganna um hlutafélagsbanka auk ákvæða laga um hlutafélög skuli gilda eftir því sem við getur átt um sparisjóði sem breyta sér í hlutafélög.“

Um 74. gr.

    Greinin er óbreytt frá 3.–4. mgr. 37. gr. A laga nr. 113/1996. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 71/2001 sagði svo um þessar málsgreinar:
    „Í 3. mgr. er sagt til um hvernig hlutafé í hlutafélaginu skuli skiptast við breytingu sparisjóðs í hlutafélag. Stofnfjáreigendur í sparisjóði skulu fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Þeir geta einnig, sbr. 4. mgr. (131. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög), krafist þess að stofnfjárbréf þeirra verði innleyst ef þeir hafa greitt atkvæði gegn samruna sparisjóðsins við hlutafélagið og skrifleg krafa um það er gerð innan mánaðar frá því að fundur stofnfjáreigenda var haldinn.
    Í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði segir að stofnfjáreigendur hafi ekki rétt til ágóðahlutar af rekstrarafgangi sparisjóðs um fram það sem mælt er fyrir um í lögunum. Einnig segir að stofnfjáreigendur skuli einungis njóta arðs af innborguðu stofnfé sínu. Stofnfjáreigendur eiga með öðrum orðum ekki tilkall til eigin fjár sparisjóðs nema þess stofnfjár sem þeir sjálfir lögðu til hans, en það er heimilt að endurmeta skv. 23. gr. laganna. 3. mgr. greinarinnar tekur mið af þessu. Þar segir að samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum skuli nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnfé, endurmetið skv. 23. gr., nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Markaðsvirði sparisjóðsins skal metið af óháðum aðila og miðast við sama tímamark og breytingin á rekstrarformi. Þetta er best að útskýra með dæmi. Gerum ráð fyrir að stofnfé í sparisjóði nemi 50 millj. kr. af 500 millj. kr. eigin fé hans, eða 10%. Ef áætlað markaðsvirði sparisjóðsins samkvæmt mati óháðra aðila er tvöfalt eigið fé hans, eða 1.000 milljónir, eiga stofnfjáreigendur rétt á að fá hlutafé í sparisjóðnum sem nemur 5%, þ.e. 50 milljónum af áætluðu markaðsvirði, 1.000 milljónum. Afgangurinn, 95% af hlutafé sparisjóðsins, rennur til sjálfseignarstofnunar samkvæmt lokamálslið 3. mgr.
    Í 3. mgr. kemur einnig fram að óháður aðili skuli meta áætlað markaðsvirði sparisjóðs sem hyggur á breytingar á rekstrarformi sínu. Miðað er við að markaðsvirðið sé áætlað út frá því að sparisjóðurinn haldi áfram rekstri í dreifðri eignaraðild en ekki hvað þriðji aðili sé tilbúinn að greiða fyrir sparisjóðinn. Mikilvægt er að óháður aðili sé fenginn til að meta markaðsvirðið. Ekki er eðlilegt að stjórn sparisjóðsins hafi sjálf þetta mat með höndum. Það kemur til af því að meiri hluti sparisjóðsstjórnar eru fulltrúar stofnfjáreigenda sem hafa hagsmuni af því að markaðsvirðið sé metið sem lægst enda leiðir það til meiri hlutafjáreignar stofnfjáreigenda í sparisjóðnum. Það er síðan sparisjóðsstjórnar, að fengnu mati óháðs aðila, að leggja til við fund stofnfjáreigenda að breyta sparisjóði í hlutafélag.
    Sá aðili, einn eða fleiri, sem sparisjóðsstjórn fær til að meta markaðsvirði sparisjóðsins verður að hafa faglega þekkingu til að bera til að meta virði fyrirtækja. Hér er átt við lánastofnanir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, ráðgjafarfyrirtæki og endurskoðunarfyrirtæki svo dæmi séu nefnd. Með óháðum aðila er átt við að aðilinn hafi ekki beinna viðskiptahagsmuna að gæta við sparisjóðinn, t.d. endurskoði reikninga sparisjóðsins eða hafi sterk viðskiptatengsl við hann að öðru leyti.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að samrunaákvæði 120.–128. gr. hlutafélagalaga gildi um samruna sparisjóðs og hlutafélags þess sem sparisjóður stofnar í því skyni að taka við rekstri sparisjóðsins. Einnig gildir ákvæði 131. gr. en þar er kveðið á um að hluthafar eigi kröfu á því að hlutabréf þeirra verði innleyst ef skrifleg krafa er gerð um það innan mánaðar frá því að hluthafafundurinn var haldinn.
    Eftirfarandi er stutt lýsing á gangi mála við umbreytingu sparisjóðs í hlutafélag:
     1.      Stjórn sparisjóðs tekur ákvörðun um að stefna að breytingu sparisjóðsins í hlutafélag.
     2.      Stjórn sparisjóðs felur óháðum aðila að meta áætlað markaðsvirði sparisjóðsins.
     3.      Sparisjóðurinn stofnar hlutafélag til breytingar á sparisjóðnum með samruna.
     4.      Stjórnir sparisjóðsins og hlutafélagsins gera og undirrita samrunaáætlun og semja greinargerð með henni. Greinargerðinni fylgir sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur og upphafsefnahagsreikningur hlutafélagssparisjóðsins.
     5.      Matsmenn gera skýrslu um samrunaáætlunina.
     6.      Samrunaáætlunin og skýrsla matsmanna eru send til hlutafélagaskrár og tilkynning um móttöku þessara skjala birt í Lögbirtingablaðinu.
     7.      Sparisjóðurinn undirbýr stofnun sjálfseignarstofnunar sem verður eigandi þess hluta hlutafjár sparisjóðsins eftir breytingu hans í hlutafélag sem ekki gengur til stofnfjáreigenda.
     8.      Tillaga um breytingu sparisjóðsins í hlutafélag á grundvelli samrunaáætlunarinnar og niðurstöðu mats óháðs aðila um áætlað markaðsvirði sparisjóðsins (og þar með um hlutdeild stofnfjáreigenda í heildarhlutafé hlutafélagssparisjóðsins) er lögð fyrir fund stofnfjáreigenda. Fund þennan má í fyrsta lagi halda einum mánuði eftir birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaðinu um móttöku samrunaáætlunar og skýrslu matsmanna.
     9.      Stjórn hlutafélagsins tekur ákvörðun um samruna sparisjóðsins við félagið.
     10.      Samþykkis viðskiptaráðherra leitað fyrir breytingu sparisjóðs í hlutafélag.
     11.      Viðskiptaráðherra óskar eftir umsögn Fjármálaeftirlitsins.
     12.      Hlutafélagaskrá tilkynntar ákvarðanir um samrunann.
    Rétt er að taka fram að ákvæði 4. gr. laga nr. 65/1982, um skattskyldu lánastofnana, gilda um samruna sparisjóðsins við hlutafélagið. Slit sparisjóðsins við samrunann hefur því ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir hlutafélagið og heldur ekki fyrir sparisjóðinn. Þá tekur hlutafélagið samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 65/1982 við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum sparisjóðsins.“

Um 75. gr.

    Greinin er óbreytt frá 9. mgr. 37. gr. A laga nr. 113/1996, að því frátöldu að með sama hætti og gert er í 70. gr. er orðalagi ákvæðisins breytt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að farið sé í kringum reglur um hámark atkvæðisréttar með eignarhaldi fleiri tengdra aðila á eignarhlutum. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 71/2001 sagði um samsvarandi ákvæði:
    „Í 9. mgr. er tekið upp það ákvæði 2. mgr. 35. gr. laganna að einstökum hluthöfum sé óheimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Þetta er gert í því skyni að stuðla að dreifðri eignaraðild. Ákvæðið um hámarksatkvæðisrétt einstakra hluthafa girðir ekki fyrir að í samþykktum einstakra hlutafélagssparisjóða verði kveðið á um enn takmarkaðri atkvæðisrétt einstakra hluthafa. Í samþykktum einstakra hlutafélagssparisjóða er unnt að kveða nánar á um framkvæmd takmörkunarinnar, t.d. varðandi það hvort tengdir aðilar samkvæmt nánari skilgreiningu í samþykktunum skuli teljast einn aðili.
    Í þessari málsgrein er einnig kveðið á um að sjálfseignarstofnunin geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Skal kveðið á um slíka undanþágu frá meginreglunni í samþykktum hlutafélagsins. Sjálfseignarstofnunin mun í upphafi eiga mikinn meiri hluta í flestum ef ekki öllum sparisjóðum sem breyta sér í hlutafélag. Þykir óeðlilegt að hluthafi sem á mikinn meiri hluta hlutafjár njóti ekki atkvæðisréttar í samræmi við eign sína. Það er síðan sparisjóðum í sjálfsvald sett hvort þeir nýta þessa heimild. Þar eð sjálfseignarstofnunin sjálf er í flestum tilvikum ráðandi hluthafi er það í raun hún sem tekur ákvörðun um takmörkun á atkvæðisrétti. Hér verður að hafa í huga að megintilgangur hennar er að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins. Telja verður ólíklegt að áhugi fjárfesta á bréfum í sparisjóði verði mikill, eða að það myndist virkur markaður með bréf hans, hafi sjálfseignarstofnunin ekki hug á að draga úr vægi sínu við stjórn sparisjóðsins. Þannig er hvati fyrir sjálfseignarstofnanir að minnka hlut sinn því annars nýtast ekki kostir hlutafélagsformsins til fulls. Á stofnfundi, þar sem atkvæði eru greidd um drög að samþykktum, skal sjálfseignarstofnunin greiða atkvæði í samræmi við hlutafjáreign sína.”

Um 76. gr.

    Greinin er óbreytt frá 37. gr. B laga nr. 113/1996. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 71/2001 sagði m.a. svo um þá grein:
    „Í þessari grein eru ákvæði um sjálfseignarstofnunina sem eignast það hlutafé sparisjóðs sem stofnfjáreigendur geta ekki gert tilkall til. Um hana skulu gilda ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur að öðru leyti en því sem kveðið er á um í þessari grein.
    Í lögum nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, segir í 3. gr. að sjálfseignarstofnun teljist stunda atvinnurekstur ef hún a) hefur tekjur af sölu á vörum og þjónustu og því um líku eða stundar starfsemi sem er í meginatriðum hliðstæð starfsemi annarra félaga eða einstaklinga í atvinnurekstri; b) fer með meiri hluta atkvæða í hlutafélagi eða einkahlutafélagi eða öðrum félögum sem fer með öðrum hætti með sambærileg yfirráð. Ganga má út frá því að sjálfseignarstofnanir þær sem stofnaðar væru við breytingu sparisjóðs í hlutafélag mundu allar eða nær allar uppfylla skilyrði b-liðar við upphaf starfseminnar. Til að taka af allan vafa um það hvort ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnu rekstur eigi við, og til að allar sjálfseignarstofnanir sem stofnaðar eru í þessu skyni lúti sams konar reglum, er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um að þær lúti ætíð ákvæðum téðra laga.
    Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar er að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins. Að lokum renna þó allar eignir hennar til menningar- og líknarmála á starfssvæði sparisjóðsins. Hlutverki sínu sinnir sjálfseignarstofnunin fyrst og fremst með því að annast hlut sinn í viðkomandi sparisjóði og ráðstafa mótteknum arði. Þrátt fyrir þetta er mögulegt að sjálfseignarstofnunin stuðli best að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins með því að selja hluta af eign sinni í sparisjóðnum, sér í lagi ef hlutur hennar í sparisjóðnum er yfirgnæfandi. Sjálfseignarstofnunin gæti einnig aukið hlut sinn í sparisjóði eftir sölu fyrir það söluandvirði bréfa sem ekki var úthlutað strax til menningar- og líknarmála. Við sameiningu sparisjóðs við annað fjármálafyrirtæki er við það miðað að sjálfseignarstofnunin eignist hlut í hinu nýja fyrirtæki og haldi starfsemi sinni áfram nema ákvörðun verði tekin um slit.
    Ekki er hægt að segja til um hver sé eðlilegur hlutur sjálfseignarstofnunar í sparisjóði eða hvort eðlilegt sé að sjálfseignarstofnun muni eiga í sparisjóði til allrar framtíðar. Minnkun eignarhlutar sjálfseignarstofnunar getur gerst með því að sjálfseignarstofnunin taki ekki þátt í útboðum á nýju hlutafé, með samruna eða með sölu á hluta af eignarhlut. Telja verður að í flestum tilvikum verði talið nauðsynlegt að sjálfseignarstofnun minnki eignarhlut sinn í sparisjóðum, enda ekki líklegt að kostir hlutafélagsformsins nýtist til fulls ef sjálfseignarstofnunin hefur í hyggju að viðhalda ráðandi eignarhlut í sparisjóði.
    Af 10.–12. gr. laganna, sbr. 14. gr., leiðir að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með hæfi sjálfseignarstofnunar til að fara með hlut í sparisjóði sé eignarhlutur sjálfseignarstofnunarinnar virkur í skilningi laganna. Um eftirlit með sjálfseignarstofnunum fer að öðru leyti eftir lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
    Í frumvarpinu er ekki gerð tilraun til að kveða með afgerandi hætti á um fjárfestingarstefnu sjálfseignarstofnunarinnar, að öðru leyti en því sem leiðir af megintilgangi hennar. Ástæðan er sú að ekki er líklegt að hægt sé að taka með tæmandi hætti í löggjöf á öllum þeim tilvikum sem upp kunna að koma á starfstíma sjálfseignarstofnunar.
    Sá megintilgangur sjálfseignarstofnunar að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins setur starfsemi hennar ramma. Telja verður að hún sinni þessu hlutverki sínu best með eignarhlut í sparisjóði. Stór hluti efnahagsreiknings sjálfseignarstofnunar hlýtur því ætíð að vera hlutafjáreign hennar í sparisjóði.
    Sjálfseignarstofnunin á ekki að vera fjárfestingarfélag sem fæst við virkar fjárfestingar í mismunandi félögum, enda tilgangur hennar annar. Sá hluti söluandvirðis eða arðgreiðslna sem ekki renna til líknar- og menningarmála samkvæmt ákvörðun stjórnar er þó nauðsynlegt að endurfjárfesta. Sem almenna leiðbeiningu um slíkar fjárfestingar má nefna að eðlilegt er að sjálfseignarstofnun fjárfesti í auðseljanlegum eignum, svo sem sjóðum um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum eða í skuldabréfum og hlutabréfum skráðum á skipulegum verðbréfamarkaði, þó þannig að sjálfseignarstofnunin eignist ekki það stóran hlut að hún hafi með fjárfestingu sinni áhrif á stjórn viðkomandi útgefanda.
    Andvirði greidds arðs til sjálfseignarstofnunar er hægt að ráðstafa með þrennum hætti. Í fyrsta lagi er hægt að endurfjárfesta með kaupum á hlutabréfum í viðkomandi sparisjóði. Í öðru lagi getur sjálfseignarstofnunin ávaxtað laust fé, t.d. í innlánum eða markaðsverðbréf um, sbr. umfjöllun hér á undan. Í þriðja lagi getur hún ráðstafað andvirði móttekins arðs til menningar- og líknarmála.
    Í 2. mgr. segir að í stjórn sjálfseignarstofnunar skuli eiga sæti fæst fimm menn úr fulltrúaráðinu. Þetta er frávik frá lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur þar sem fæst þrír menn skulu sitja í stjórn. Talið er mikilvægt að fleiri en þrír menn komi að stjórnun jafnmikils fjár og sjálfseignarstofnanir sem hér um ræðir hafa umleikis.
    Í 3. mgr. er kveðið á um hvernig kjósa skuli í stjórn sjálfseignarstofnana. Fulltrúaráð sjálfseignarstofnunarinnar skal velja stjórnarmenn úr sínum hópi. Í fulltrúaráði skulu eiga sæti allir stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði er honum var breytt í hlutafélag. Vakin skal athygli á því að af 1. mgr. 16. gr., sbr. 3. mgr. 22. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur leiðir að fulltrúaráðsmaður getur hvenær sem er sagt sig úr fulltrúaráðinu. Fulltrúaráðsmenn mega ekki vera færri en þrjátíu. Talið er að þeir einstaklingar sem hafa lagt sparisjóðnum til fé í gegnum tíðina í formi stofnfjár, og þannig tekið þátt í uppbyggingu hans, séu best til þess fallnir að stýra sjálfseignarstofnun sem hefur þann megintilgang að stuðla að viðgangi sparisjóðsins og og vexti í starfsemi hans. Stofnfjáreigendurnir sem mynda fulltrúaráðið hafa þó engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í sjálfseignarstofnun inni, enda er úthlutun fjárins eingöngu til almannaheilla.
    Í 4. mgr. er kveðið á um hvernig ráðstafa skuli hagnaði og úthlutuðum fjármunum. Í gildandi samþykktum sparisjóða er kveðið á um að eignum sparisjóðsins, sem eftir kunna að vera við slit hans eftir að skuldir hafa verið greiddar og stofnfjáreigendum greiddur eignarhlutur þeirra, skuli ráðstafað til menningar- og líknarmála á starfssvæði sparisjóðsins. Hér er því í reynd verið að kveða á um að þessi skipan skuli haldast þrátt fyrir breytingu sparisjóðs í hlutafélag. Orðalag greinarinnar þýðir þó ekki að sjálfseignarstofnanir geti ekki endurfjárfest arðgreiðslur með kaupum á hlutabréfum í viðkomandi sparisjóði eða fjárfest í öðrum markaðsverðbréfum, sbr. umfjöllun hér að framan, heldur að úthlutun af fjármunum hennar eða ráðstöfun eigna við slit verður að vera til menningar- og líknarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs við breytingu hans í hlutafélag. Með fjármunum sjálfseignarstofnunar er átt við upphafseign hennar, þ.e. hlutafjáreign í sparisjóði, og uppsafnaðan hagnað. Í þessari málsgrein er jafnframt kveðið á um undanþágu sjálfseignarstofnunar frá tekjuskatti og eignarskatti.“

Um 77. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 7. gr. laga nr. 113/1996, sbr. 5. gr. laga nr. 123/1993.

Um IX. kafla.


    Rafræn greiðslumiðlun hefur tekið miklum framförum undanfarin ár. Þetta er víðtækt hugtak og spannar ýmsa greiðslumiðla og greiðslutæki. Sem dæmi veitir debetkort korthafa aðgang að reikningi í banka, meðal annars til að skuldfæra á hann eða færa inn á annan reikning í gegnum hraðbanka eða heimabanka. Engir fjármunir eru í sjálfu debetkortinu. En það veitir heimild til úttektar af reikningum sem kortið er tengt. Síðan hefur komið fram greiðslumiðill sem hægt er að hlaða með ígildi peninga, svonefndur rafeyrir, og nota til greiðslu án frekari tengingar við bankareikning, annaðhvort með því að taka út í útstöð hjá seljanda eða senda hleðsluna um tölvunet.
    Á árinu 2000 voru gefnar út tvær tilskipanir um rafeyri. Tilskipun 2000/46/EB um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim fjallar um rafeyrisfyrirtæki, þ.e. tilteknar lögpersónur sem hafa með höndum útgáfu og umsýslu með rafeyri. Í tilskipuninni er meðal annars kveðið á um heimildir til útgáfu rafeyris, lágmarkskröfur um eigið fé rafeyrisfyrirtækja, fjárfestingarstefnu þeirra og eftirlit með þeim. Tilskipun 2000/28/EB um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana mælir fyrir um að rafeyrisfyrirtæki skuli skilgreind sem lánastofnanir í skilningi síðarnefndrar tilskipunar. Slíkt gerir það að verkum að rafeyrisfyrirtæki getur stundað starfsemi sína hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í janúar 2001 fól viðskiptaráðherra bankalaganefnd að gera tillögu að innleiðingu framangreindra tveggja tilskipana. Frumvarpið var unnið í ráðuneytinu í samráði við bankalaganefnd og samþykkt sem lög frá Alþingi 10. apríl 2002. Nú er hins vegar lagt til að ákvæði laga um rafeyrisfyrirtæki verði hluti af frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki. Stuðst var mjög við gildandi lög á þessu sviði við vinnslu þessa kafla.
    Ákvæði tilskipunarinnar eru flest innleidd án mikilla orðalagsbreytinga. Ekki hefur verið talið að gera þurfi breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti nr. 80/1993 þar sem talið er að þau lög nái yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna.


Um 78. gr.

    Í greininni er rafeyrir skilgreindur. Ákvæðið styðst við b-lið 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Unnt er að líta á rafeyri sem rafrænan staðgengil peningaseðla og myntar sem eru geymd á rafrænum miðli, t.d. smartkorti eða tölvuminni, ætlaðan til rafrænnar greiðslu lágrar fjárhæðar. Það er skilgreiningaratriði að rafeyrir sé samþykktur sem greiðslumiðill hjá öðrum en útgefanda. Því teljast t.d. símakort sem gefin eru út af fjarskiptafyrirtækjum og einungis er unnt að nota í símtækjum á þeirra vegum ekki til rafeyris.

Um 79. gr.

    Ákvæði 1. mgr. um að viðtaka rafeyris teljist ekki innlán að nánari skilyrðum fullnægðum styðst við 3. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Innleiða þarf það ákvæði vegna heimilda viðskiptabanka og sparisjóða til að taka við innlánum, sbr. II. kafla frumvarpsins.
    Ákvæði 2.–4. mgr. styðst við 3. gr. tilskipunarinnar. Í henni er mælt fyrir um að handhafi rafeyris geti innleyst rafeyri sinn á gildistíma hans. Skilyrði innlausnar skulu tilgreind með skýrum hætti í samningi milli rafeyrisfyrirtækis og handhafa rafeyris. Ekki má taka aðra þóknun fyrir innlausn en þá sem styðst við undirliggjandi kostnað.

Um 80. gr.

    Greinin styðst við 2. og 3. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Kröfu um eigið fé er ætlað að tryggja bæði handhafa og viðtakanda rafeyris að rafeyrisfyrirtækið sé nægilega greiðslufært til að uppfylla skyldur sínar á hverjum tíma.
    Ákvæði 3. mgr. styðst við 6. gr. tilskipunarinnar. Það á að tryggja að Fjármálaeftirlitið fái upplýsingar um eigið fé rafeyrisfyrirtækja svo að því sé unnt að fylgjast með hvort rafeyrisfyrirtæki uppfylli ákvæði frumvarpsins um eigið fé.


Um 81. gr.

    Greinin, að undanskilinni 4. mgr., hefur að geyma tillögur að innleiðingu 5. gr. tilskipunarinnar. Henni er ætlað að tryggja að rafeyrisfyrirtæki geti ætíð uppfyllt skyldu sína um innlausn. Ákvæði 5. gr. tilskipunarinnar er nokkuð ítarlegra en frumvarpsgreinin. Lagt er til að hún verði að öðru leyti innleidd með reglugerð.
    Ákvæði 4. mgr. er ætlað að tryggja að rafeyrisfyrirtæki komi ekki óbeint að rekstri eða áhættu í tengslum við fyrirtæki sem hefur með höndum starfsemi sem fellur ekki undir 2. mgr. Ákvæðið styðst við 2. málsl. 5. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.

Um 82. gr.

    Ákvæðið styðst við 1. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar. Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að undanþiggja tiltekin rafeyrisfyrirtæki frá ákvæðum frumvarpsins. Sem dæmi um náin fjárhagsleg eða viðskiptaleg tengsl í 2. tölul. 1. mgr. má nefna sameiginlega markaðssetningu eða dreifingu.
    Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar skulu þau rafeyrisfyrirtæki sem veitt er undanþága frá tilskipuninni og þar með ákvæðum frumvarpsins skila reglubundið skýrslu um starfsemi sína. Ákvæði þetta er innleitt í 2. mgr.

Um X. kafla.

    Þessi kafli frumvarpsins er að stofni til í samræmi við VI. kafla í gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 10. gr. laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði og VII. kafla laga um verðbréfaviðskipti. Búið er að breyta hugtakanotkun til samræmis við önnur ákvæði þessa frumvarps.

Um 83. gr.

    Greinin er í samræmi við 53. gr. laga nr. 113/1996 að því undanskildu að seinni málslið gildandi ákvæðis er sleppt en þar er nánar kveðið á um hvað átt er við með lausu fé. Seðlabanki Íslands hefur heimild á grundvelli 12. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands til að setja reglur um lágmark og meðaltal lauss fjár lánastofnana. Í slíkum reglum er nánar kveðið á um skilgreiningu á lausu fé og þykir því ekki ástæða til að kveða á um það í þessari grein frumvarpsins. Athygli er vakin á að í gildandi lögum um verðbréfaviðskipti er ekki sérstakt ákvæði um laust fé.

Um 84. gr.

    Greinin er í meginatriðum í samræmi við 54. gr. laga nr. 113/1996 og samsvarandi ákvæði í lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði og lög um verðbréfaviðskipti. Helstu frávik eru eftirfarandi.
    Í 2. mgr. er að finna það nýmæli að Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ákvarða hærra eiginfjárhlutfall en 8% fyrir þau fjármálafyrirtæki sem talin eru hafa ófullnægjandi fjárhagsstöðu með hliðsjón af áhættustigi. Eins og orðalag ákvæðisins ber með sér verður ákvörðun um hærra eiginfjárhlutfall ekki tekin nema fyrir liggi að önnur og vægari úrræði komi ekki að haldi. Mat Fjármálaeftirlitsins á áhættustigi og lágmarkseiginfjárþörf skal byggt á nánari reglum sem það setur. Í þeim reglum yrði kveðið nánar á um einstaka þætti matsins og viðmið. Þeir þættir sem einkum koma inn í þetta mat eru eigið fé og aðgangur að eigin fé, gæði eigna, arðsemi eigin fjár, lausafjárstaða, næmni fyrir markaðsáhættu, stjórnun, áhættustýring og innra eftirlit. Þessum þáttum yrði gefin einkunn og á grundvelli heildareinkunnar yrði lágmarkseiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis ákvarðað. Flestir þessara þátta eru mælanlegir, en mat á öðrum þáttum, svo sem stjórnun, yrði huglægt.
    Þetta nýja ákvæði er í samræmi við heimildir sem eftirlitsaðilar í nokkrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu hafa nú þegar. Sem dæmi má nefna að í Bretlandi er löng hefð fyrir slíkum heimildum og í Noregi hefur eftirlitsaðilinn heimild til að takmarka víkjandi lántökur fjármálafyrirtækja með hliðsjón af fjárhagsstöðu viðkomandi fyrirtækis. Samkvæmt drögum að nýjum alþjóðlegum eiginfjárreglum sem jafnframt er verið að vinna að hjá Evrópusambandinu og stefnt er að að muni taka gildi í síðasta lagi á árinu 2007 er gert ráð fyrir að eftirlitsaðilum með fjármálafyrirtækjum verði skylt að leggja árlega mat á fjárhagsstöðu og áhættustig sérhvers fjármálafyrirtækis og ákvarða hærra eiginfjárhlutfall en lágmarksákvæði gera gera ráð fyrir. Nýmælið í frumvarpinu er áfangi á þeirri leið sem fyrirsjáanleg er í náinni framtíð varðandi eiginfjárákvæði fjármálafyrirtækja og heimildir eftirlitsaðila í því sambandi. Þess má geta að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði sérstaka áherslu á að Fjármálaeftirlitið hefði slíka heimild í lokaskýrslu um úttekt á Fjármálaeftirlitinu og fjármálastöðugleika hér á landi á fyrri hluta ársins 2001. Eins og ákvæðið ber með sér þarf mat Fjármálaeftirlitsins á áhættustigi og lágmarkseiginfjárþörf að byggjast á nánari reglum sem það setur. Slíkar reglur eiga að tryggja gegnsæi og jafnræði. Sérhverju fjármálafyrirtæki þarf að vera kunnugt um á hverju slíkt mat er byggt og hafa möguleika á að bregðast við með viðeigandi ráðstöfunum. Um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins ríkir þagnarskylda í samræmi við ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Fjármálafyrirtæki getir skotið ákvörðun Fjármálaeftirlitsins til sérstakrar kærunefndar samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Í 4. mgr. er bætt inn nýjum málslið, sbr. 2. málsl., þar sem kveðið er á um að séu eiginfjárliðir við útreikning á eiginfjárhlutfalli byggðir á árshlutauppgjöri skuli það vera áritað sem endurskoðað eða kannað af endurskoðanda. Þetta ákvæði er efnislega í samræmi við ákvæði í 2. tölul. 2. mgr. 34. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB. Ekki er um að ræða breytingu varðandi framkvæmd á gildandi eiginfjárákvæðum en nauðsynlegt þótti að kveða á um þetta atriði til að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar.
    Í 5. mgr. er sú breyting gerð að fjórir töluliðir málsgreinarinnar samkvæmt gildandi ákvæði eru sameinaðir í eina samfellda málsgrein. Þá eru þær breytingar gerðar að annars vegar er felldur út seinni hluti 4. tölul. málsgreinarinnar í gildandi ákvæði sem hljóðar svo „svo og áfallnar ófærðar skattskuldbindingar sem rýra möguleika viðskiptabankans eða sparisjóðsins til að mæta tapi“. Hins vegar er sú breyting gerð að bætt er inn í lok hinnar breyttu málsgreinar textanum „svo og tapi og samþykktri arðsúthlutun“ og bætt við nýjum málslið þar sem tekið er fram að taka skuli tillit til hlutdeildar minni hluta í eigin fé dótturfélaga samkvæmt samstæðureikningsskilum. Fyrrnefnda breytingin er gerð þar sem ekki þykir nauðsynlegt að kveða á um áfallnar skattskuldbindingar í eiginfjárákvæðum laganna þar sem gildandi reikningsskilareglur kveða á um að reikna skuli áfallnar skattskuldbindingar í ársuppgjöri og árshlutauppgjöri. Síðarnefnda breytingin er gerð til að uppfylla ákvæði í 2. tölul. 2. mgr. 34. gr. og 37. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB. Ekki er um að ræða breytingu varðandi framkvæmd á gildandi eiginfjárákvæðum en nauðsynlegt þótti að kveða á um þetta atriði til að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar.
    Í 6. mgr. eru gerðar nokkrar endurbætur á orðalagi miðað við gildandi ákvæði sem þó hafa ekki breytingar í för með sér miðað við núverandi framkvæmd. Í fyrsta lagi er felld út tilvísun í eigið fé ríkisviðskiptabanka, í öðru lagi er bætt inn í 2. málsl. 1. tölul. „eða hlutfallslega fyrir hluta úr ári“, í þriðja lagi er bætt við eftirfarandi málslið í 1. tölul.: „Eingöngu er heimilt að telja með innborgaðar fjárhæðir“, og í fjórða lagi er í 2. tölul. breytt orðalagi varðandi tegund endurmatsreiknings en ekki er þar um efnisbreytingu að ræða. Þessar breytingar hafa ekki áhrif til breytinga á núverandi framkvæmd gildandi ákvæðis.
    Í 7. mgr. hefur orðalag síðasta málsliðar verið endurbætt en ekki er um efnisbreytingu að ræða.
    Í 8. mgr. hefur orðalag verið endurbætt en auk þess hefur orðinu „lánveitandi“ verið breytt í „lántaki“, enda var um að ræða mistök við gildandi lagasmíð. Ekki er um að ræða efnisbreytingu miðað við framkvæmd á gildandi ákvæði.
    9. mgr. er samhljóða 7. mgr. 42. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og gildir eingöngu fyrir verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir og rafeyrisfyrirtæki.
    10. mgr. er efnislega óbreytt frá 7. mgr. 54. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og samsvarandi ákvæðum í lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði og í lögum um verðbréfaviðskipti. Sú breyting er hins vegar gerð að heimild til reglusetningar um viðbótareiginfjárliði er færð frá viðskiptaráðuneyti til Fjármálaeftirlits í samræmi við þau meginsjónarmið um verkaskiptingu stjórnvalda sem fram koma í 7. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta.


Um 85. gr.

    Greinin er í meginatriðum í samræmi við ákvæði 55. gr. laga nr. 113/1996 og sambærileg ákvæði í lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði og lögum um verðbréfaviðskipti. Tekið skal þó fram að 2.–4. mgr. 55. gr. laga nr. 113/1996 á sér ekki samsvörun í lögum um verðbréfaviðskipti. Í aðalatriðum er um að ræða breytingar á orðalagi, sbr. nánar hér á eftir.
    1. mgr. 55. gr. laga nr. 113/1996 hefur verið skipt upp í tvær málsgreinar þannig að efnisákvæði 2. tölul. 1. mgr. er nú 2. mgr. en efnisákvæði 1. mgr. gildandi ákvæðis að öðru leyti er 1. mgr. í þessari grein frumvarpsins. Ekki er um efnisbreytingu að ræða fyrir utan breytingu á 1. málsl. 1. mgr. Í gildandi lögum er vísað til eignarhluta og víkjandi lána „hjá öðrum þeim félögum sem stunda starfsemi sem talin er upp í 44. gr.“ í núgildandi lögum, en eftir breytinguna er nú vísað til eignarhluta og víkjandi krafna „í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði“. Í þessu felst sú efnisbreyting að nú koma til frádráttar eignarhlutir og víkjandi kröfur í félögum sem falla undir skilgreiningu á hugtökunum „fjármálafyrirtæki“ eða „fyrirtæki tengt fjármálasviði“ en samkvæmt gildandi lögum getur verið um að ræða eignarhluti og víkjandi kröfur í félögum sem ekki mundu falla undir skilgreiningu á fyrrnefnda hugtakinu. Eftir breytinguna er ákvæðið í betra samræmi við ákvæði 12. og 13. tölul. 2. mgr. 34. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB. Þessi breyting er talin hafa óveruleg áhrif á eiginfjárútreikning en er til bóta varðandi afmörkun á þeim félögum sem falla eiga undir þetta ákvæði.
    2. mgr. er eins og fyrr segir í meginatriðum efnislega samhljóða 2. tölul. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 113/1996. Orðalagi hefur þó verið breytt til samræmis við ákvæði 2. mgr. 12. tölul. 2. mgr. 34. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB.
    3. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 55. gr. laga nr. 113/1996.
    4. mgr. hefur að nokkru verið breytt frá ákvæði 3. mgr. 55. gr. laga nr. 113/1996. Annars vegar er um að ræða að í stað „dótturfélaga“ kemur „félög“ og hins vegar takmarkast frádrátturinn nú við þá fjárhæð sem samsvarar hlutdeild í lágmarksgjaldþoli viðkomandi vátryggingafélags en gildandi ákvæði kveður á um að allur eignarhluturinn og víkjandi kröfur dragist frá í eiginfjárútreikningi. Ákvæðið á sér fyrirmynd í dönsku lögunum um banka og sparisjóði. Eftir breytinguna er frádráttur vegna eignarhluta í vátryggingafélögum talinn endurspegla betur en áður þá áhættu sem þeim fylgir í reynd.
    5. mgr. er efnislega samhljóða 4. mgr. 55. gr. laga nr. 113/1996.


Um 86. gr.

    Grein þessi er hliðstæð núgildandi 67. gr. laga nr. 113/1996 að því frátöldu að samkvæmt lokamálslið 2. mgr. er tekið fram að Fjármálaeftirlitið geti gert þá kröfu að reikningsuppgjör samkvæmt ákvæðinu sé áritað af endurskoðanda. Þá skal Fjármálaeftirlitið skv. 3. mgr. setja stjórn fjármálafyrirtækis frest til að gera grein fyrir þeim ráðstöfunum sem hún hyggst grípa til vegna ónógs eigin fjár. Loks er mælt fyrir um að fyrirtækinu skuli slitið þegar í stað ef engin slík greinargerð berst innan frestsins. Þykir nauðsynlegt að kveða skýrt á um skyldur stjórnar fjármálafyrirtækis hvað þetta snertir og eins um heimildir Fjármálaeftirlitsins í tilefni af aðgerðaleysi stjórnar.

Um XI. kafla.

    Þessi kafli frumvarpsins er að stofni til í samræmi við VII. kafla í gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 11. gr. laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði og VIII. kafla laga um verðbréfaviðskipti. Búið er að breyta hugtakanotkun til samræmis við önnur ákvæði þessa frumvarps. Þá hefur greinum í gildandi lögum verið skipt upp til að einfalda lestur laganna.
    Kaflinn tekur mið af uppsetningu VII. kafla í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Sá kafli gildir einnig um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Í flestum tilfellum eru samsvarandi ákvæði í VIII. kafla laga um verðbréfaviðskipti en í nokkrum tilfellum er þó um auknar kröfur um ársreikninga og endurskoðun að ræða hjá verðbréfafyrirtækjum og verðbréfamiðlunum.
    Nokkrar greinar eða hlutar úr greinum hafa verið teknar út úr kafla gildandi laga um ársreikninga, endurskoðun og samstæðureikningsskil. Í fyrsta lagi hefur 59. gr. gildandi laga um ráðstöfun hagnaðar sparisjóða verið færð inn í kafla þar sem fram koma sérákvæði um rekstur sparisjóða. Í öðru lagi hafa 7. og 8. mgr. 62. gr., um endurskoðunardeild annars vegar og eftirlitskerfi með áhættu hins vegar, verið færð inn í III. kafla um stofnun og starfsemi. Í þriðja lagi hafa ákvæði 7. og 9.–11. mgr. 66. gr. um eftirlit á samstæðugrundvelli verið færð í sérstakan kafla um eftirlit í þessu frumvarpi. Auk þessa hafa 4. mgr. 60. gr., 1.–4. mgr. og 6. mgr. 62. gr. verið felldar brott þar sem þær bæta ekki neinu við ákvæði VII. kafla laga nr. 144/1994, um ársreikninga, með áorðnum breytingum.

Um 87. gr.

    Greinin er í samræmi við 56. gr. laga nr. 113/1996. Þá hefur verið fellt brott ákvæði 2. mgr. um að ársreikningur ríkisviðskiptabanka skuli staðfestur af ráðherra.

Um 88. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 57. gr. laga nr. 113/1996.

Um 89. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 58. gr. laga nr. 113/1996.

Um 90. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 60. gr. laga nr. 113/1996, að því undanskildu að 4. mgr. 60. gr. um að skylt sé að veita endurskoðanda aðgang að öllum gögnum er felld brott. Ákvæðið þykir óþarft því að það leiðir af lögum um ársreikninga. Þá hefur verið tekið út ákvæði í 1. mgr. 60. gr. þess efnis að ársreikningur ríkisviðskiptabanka skuli endurskoðaður af Ríkisendurskoðun.

Um 91. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 61. gr. laga nr. 113/1996.

Um 92. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 5. mgr. 62. gr. laga nr. 113/1996 að því frátöldu að tekið er fram að endurskoðandi skuli gera stjórn fyrirtækis og Fjármálaeftirlitinu aðvart um atriði er leiða mundu til þess að hann mundi synja um endurskoðun eða gera fyrirvara. Er þetta í samræmi við a-lið 1. mgr. 31. gr. tilskipunar 2000/12/EB.

Um 93. gr.

    1. mgr. er efnislega óbreytt 9. mgr. 62. gr. laga nr. 113/1996.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að VII. kafli laga nr. 144/1994, um ársreikninga, eigi við um endurskoðun fjármálafyrirtækja að öðru leyti en því sem fram kemur í lögunum. Þessi tilvísun gerir það að verkum að unnt er að fella nokkrar málsgreinar út úr gildandi lögum, eins og áður hefur verið vikið að.
    3. mgr. felur í sér nýtt ákvæði miðað við gildandi lög en með því er verið að innleiða hluta af efnisákvæðum 52. og 55. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB en í umræddum ákvæðum er fjallað um eftirlit á samstæðugrundvelli. Við fyrri lagasmíð voru umrædd tilskipunarákvæði ekki að fullu tekin inn í lög hér á landi.

Um 94. gr.

    1. mgr. er efnislega óbreytt frá 63. gr. laga nr. 113/1996 og 48. gr. laga nr. 13/1996.
    2. mgr. felur í sér nýtt ákvæði miðað við gildandi lög en með því er verið að innleiða hluta af efnisákvæðum 52. og 55. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB en í umræddum ákvæðum er fjallað um eftirlit á samstæðugrundvelli. Við fyrri lagasmíð voru umrædd tilskipunarákvæði ekki að fullu tekin inn í lög hér á landi.

Um 95. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 64. gr. laga nr. 113/1996. 1. mgr. er einnig efnislega óbreytt frá 1. málsl. 46. gr. laga nr. 13/1996.

Um 96. gr.

    Í 65. gr. laga nr. 113/1996 er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli setja reglur um mánaðarleg efnahagsyfirlit, árshlutauppgjör á eiginfjárhlutfalli, árshlutarekstraruppgjör og efnahagsuppgjör og lausafjáruppgjör. Lagt er til að þessi upptalning verði felld brott til einföldunar og þess í stað kveðið á um að fjármálafyrirtæki skuli semja og birta árshlutauppgjör í samræmi við reglur sem Fjármálaeftirlitið setur. Í því felst að felld er brott heimild til að setja reglur um lausafjáruppgjör. Ákvæðið varðandi árshlutauppgjör á eiginfjárhlutfalli er nú þegar til staðar í sérstökum reglum um eiginfjárhlutfall lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og er því ekki þörf á því í þessu lagafrumvarpi. Ákvæðin varðandi mánaðarleg efnahagsyfirlit og lausafjáruppgjör eru ekki nauðsynleg vegna eftirlits Fjármálaeftirlitsins þar sem Seðlabanki Íslands safnar upplýsingum um þessa þætti á grundvelli heimilda í lögum um bankann og miðlar þeim upplýsingum til eftirlitsins.
    1. mgr. þarfnast ekki sérstakra skýringa umfram umfjöllun hér að framan.
    2. mgr. gerir ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti veitt undanþágu frá skyldu til að semja og birta árshlutauppgjör. Ekki þykir rétt að skylda smærri fjármálafyrirtæki til að semja og birta árshlutauppgjör og er því gert ráð fyrir þessu undanþáguákvæði. Sem dæmi má nefna að í gildandi reglum um árshlutauppgjör lánastofnana eru allar lánastofnanir með niðurstöðutölu að fjárhæð 2.000 millj. kr. og lægri undanþegnar frá reglunni um samningu og birtingu hálfsársuppgjörs.

Um 97. gr.

    Greinin er í meginatriðum samhljóða 1.–6. mgr. og 8. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 11. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Sambærileg ákvæði eru ekki í lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, en um samstæðu verðbréfafyrirtækis og dótturfélaga gilda þó almenn ákvæði ársreikningalaga, nr. 144/1994. Það nýmæli er þó að tekið er upp í greinina ákvæði um eignarhaldsfélag á fjármálasviði. Með þessu nýmæli er verið að innleiða hluta af efnisákvæðum 52. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB. Um er að ræða ákvæði um eftirlit á samstæðugrundvelli sem við fyrri lagasmíð voru ekki að fullu tekin inn í lög hér á landi.
    1. mgr. er efnislega óbreytt 2. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996.
    2. mgr. er efnislega óbreytt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996 fyrir utan fyrrnefnt ákvæði um eignarhaldsfélag á fjármálasviði. Þá er áréttuð staða félags, sem er dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis. Er þetta í samræmi við 13. tölul. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB.
    3. mgr. er efnislega óbreytt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996.
    Í 4. og 5. mgr. eru teknar upp skilgreiningar tilskipunar 2000/12/EB um eignarhaldsfélög á fjármálasviði og blönduð eignarhaldsfélög.
    6. og 7. mgr. eru efnislega óbreyttar 4. og 5. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996.
    8. mgr. er efnislega óbreytt 8. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996 fyrir utan fyrrnefnt ákvæði um eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
    9. mgr. er efnislega óbreytt 6. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996 fyrir utan fyrrnefnt ákvæði um eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
    10. mgr. er nýmæli en með henni yrði innleiddur í lög hluti af ákvæði 55. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB en í því ákvæði er fjallað um eftirlit á samstæðugrundvelli þegar í hlut eiga svonefnd blönduð eignarhaldsfélög.

Um XII. kafla.

    Ákvæði þessa kafla eru að verulegu leyti sambærileg við ákvæði núgildandi laga. Helstu breytingar felast í afnámi sérákvæða varðandi einstakar tegundir fjármálafyrirtækja. Þá eru Fjármálaeftirlitinu fengnar þær heimildir sem áður heyrðu undir viðskiptaráðherra í tengslum við slit og samruna fjármálafyrirtækja, í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins.

Um 98. gr.

    Grein þessi er sama efnis og núgildandi 68. gr. laga nr. 113/1996. Í 1. mgr. er hnykkt á því að skiptameðferð á fjármálafyrirtæki getur aðeins átt sér stað samkvæmt þeim reglum er greinir í þessum kafla.

Um 99. gr.

    Grein þessi er sama efnis og núgildandi 69. gr. laga nr. 113/1996.
    Í 1. mgr. er fjallað um þá aðstöðu þegar slitameðferð er hafin vegna þess að líkur eru á að eignir hrökkvi ekki fyrir skuldum. Gilda þá ákvæði gjaldþrotalöggjafar fullum fetum, þar á meðal ákvæði um riftun löggerninga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um kröfu um skipti í öðrum tilvikum en þeim þegar ástæða er til að ætla að eignir hrökkvi ekki fyrir skuldum. Málsmeðferð varðandi skiptin fer þá eftir ákvæðum gjaldþrotalaga að því frátöldu að ákvæðum þeirra laga um riftun löggerninga verður ekki beitt. Með því móti er málsmeðferðin hliðstæð því sem gerist um skuldafrágöngubú, sbr. 59. gr. gildandi laga um verðbréfafyrirtæki, nr. 13/1996.


Um 100. gr.

    Grein þessi er sama efnis og núgildandi 70. gr. laga nr. 113/1996. Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að um meðferð á búi fjármálafyritækis, sem tekið er til slitameðferðar, gildi reglur gjaldþrotalöggjafarinnar eftir því sem við getur átt. Þá eru tilgreindar þær sérreglur sem eiga við um búskipti vegna slita á fjármálafyrirtæki varðandi riftun ráðstafana, sbr. 99. gr., og ákvörðun frestdags. Loks er kveðið á um ráðstöfun eftirstandandi eigna í búi sparisjóðs.

Um 101. gr.

    Grein þessi er að mestu samhljóða núgildandi 72. og 73. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Lagt er til að fellt verði brott skilyrði núgildandi 72. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði um samþykki hluthafafundar í yfirtökufélagi. Skilyrði þetta gengur lengra en ákvæði hlutafélagalaga, en í 2. mgr. 124. gr. hlutafélagalaga kemur fram sú meginregla að félagsstjórn í yfirtökufélagi taki ákvörðun um samruna. Verður ekki séð að ástæða sé til að aðrar reglur gildi um fjármálafyrirtæki að þessu leyti. Þá er veitt undanþága frá því skilyrði að boða þurfi til hluthafafundar í yfirteknu félagi ef yfirtekna félagið er alfarið í eigu yfirtökufélags.
    Vakin skal athygli á því að lagt er til að 2. og 3. mgr. 72. gr. laga nr. 113/1996 verði felldar brott. Ákvæði 2. mgr. 72. gr. kveður á um að við samruna viðskiptabanka og sparisjóða við einstaka rekstrarhluta annarra stofnana skuli fara að hætti 1. mgr. Ekki er talin þörf á þessu ákvæði og því er lagt til að almennar reglur gildi um tilvik af þessu tagi. Þá er talið óþarft að taka fram að hið sameinaða fyrirtæki taki við allri starfsemi, réttindum og skyldum samrunaaðila, svo sem gert er í 3. mgr. 72. gr. núgildandi laga, þar sem slíkt leiðir af almennum reglum félagaréttar um samruna fyrirtækja.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að samruni sparisjóðs við annað fjármálafyrirtæki, sem ekki er einnig sparisjóður, verði aðeins framkvæmdur að undangenginni umbreytingu sparisjóðsins í hlutafélag. Með því móti er tryggt að eigið fé sparisjóðsins renni ávallt til sjálfseignarstofnunar samkvæmt ákvæðum VIII. kafla og umsjá þess þar með aðgreind frá yfirráðum yfir hinu sameinaða fyrirtæki. Þar sem ávallt verður gert að skilyrði að sparisjóði sé breytt í hlutafélag sem undanfara samruna er ekki lengur talað um samþykki stofnfjáreigenda.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að það sé í verkahring Fjármálaeftirlitsins að auglýsa samruna fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði.
    Í 6. mgr. kemur fram að eigið fé sameinaðs fyrirtækis skuli ekki nema lægri fjárhæð en samanlagt eigið fé þeirra fyrirtækja sem renna saman. Þessu til viðbótar þarf hið sameinaða fyrirtæki að uppfylla almenn lágmarksskilyrði laganna um eigið fé. Ekki er gert ráð fyrir að veittar verði undanþágur frá skilyrðum um eigið fé eins og gert er í 58. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti, sbr. einnig 2. mgr. 6. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    

Um XIII. kafla

    Kaflinn er tvískiptur. Annars vegar er kveðið á um almennar eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins og aðstoð við eftirlitsstjórnvöld í öðrum EES-ríkjum og hins vegar er kveðið á um eftirlit á samstæðugrundvelli.

Um 102. gr.

    Ákvæði þetta er með þremur undantekningum samhljóða 93. gr. laga nr. 113/1996, eins og henni var breytt með 10. gr. laga nr. 11/2000, og má almennt vísa til athugasemda með því frumvarpi. Fyrsta breytingin lýtur að því að Fjármálaeftirlitið mun ekki aðeins hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum heldur einnig fyrirtækjum tengdum fjármálasviði. Önnur breytingin felst í því að Fjármálaeftirlitinu er skv. 4. mgr. heimilað að krefja eignarhaldsfélög á fjármálasviði og blönduð eignarhaldsfélög um gögn og upplýsingar vegna eftirlits með dótturfélögum þeirra. Þriðja breytingin er sú að Fjármálaeftirlitið getur skv. 5. mgr. krafist gagna og upplýsinga frá eftirlitsskyldum aðilum þegar það gengur úr skugga um hvort starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa.
    Hér á eftir eru rakin nokkur atriði athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 11/2000 til skýringar.
    Varðandi 1. mgr. skal áréttað að eftirlit Fjármálaeftirlitsins tekur til allrar starfsemi fjármálafyrirtækis, en ekki aðeins þeirrar sem starfsleyfisskyld er. Til dæmis tekur eftirlitið til verðbréfaviðskipta sem fyrirtæki stundar fyrir eigin reikning.
    Í 2. mgr. er kveðið á um rétt Fjármálaeftirlitsins til að krefja um gögn og upplýsingar frá eigendum eða væntanlegum eigendum eignarhluta í fjármálafyrirtæki. Heimildin tekur ekki einungis til þeirra sem fara með virkan eignarhlut heldur allra sem fara með eignarhlut, hversu stór sem hann er. Þannig getur Fjármálaeftirlitið metið hvort minni hluthafar í fjármálafyrirtæki mynda saman aðila sem líta beri á sem einn virkan eiganda. Jafnframt er ákvæðinu ætlað að tryggja að Fjármálaeftirlitið hafi aðgang að upplýsingum til að meta hæfni þeirra sem eiga eða hyggjast eignast eignarhlut í fjármálafyrirtæki, sbr. VI. kafla frumvarps þessa.
    Samkvæmt 3. mgr. er Fjármálaeftirlitinu veittur aðgangur að upplýsingum hjá dóttur- eða hlutdeildarfyrirtækjum eða öðrum aðilum í nánum tengslum, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með viðkomandi viðskiptabanka eða sparisjóði.
    Í 5. mgr. er m.a. kveðið á um opinbera birtingu nafna þeirra sem taldir eru bjóða þjónustu sem lögin taka til án þess að hafa starfsleyfi. Þannig getur Fjármálaeftirlitið gefið út aðvaranir hugsanlegum viðskiptamönnum til hagsbóta.
    Í 6. mgr. er hnykkt á því að beita megi ákvæðum III. kafla laga nr. 87/1998, sem varða dagsektir, stjórnvaldssektir og leit og hald á munum, við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt greininni. Þessi ákvæði taka því einnig til eigenda fjármálafyrirtækis, dóttur- og hlutdeildarfyrirækja þeirra og aðila sem stunda starfsemi án leyfis.

Um 103. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er samhljóða 94. gr. laga nr. 113/1996 og er í samræmi við þá meginreglu EES-réttarins að eftirlit sé á hendi stjórnvalda í heimaríki fjármálafyrirtækis.
    Ákvæði 2. mgr. er samhljóða 3. mgr. 95. gr. laga nr. 113/1996 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.


Um 104. gr.

    Nokkur ákvæða 66. gr. laga nr. 113/1996 lúta að eftirliti á samstæðugrundvelli en ekki að samstæðureikningsskilum. Þykir fara illa á því að þessi ákvæði séu í kafla laganna um ársreikninga, endurskoðun og samstæðureikningsskil. Því er lagt til að ákvæðin verði sett í sérstaka grein í eftirlitskafla laganna.
    Greinin er að stofni til efnislega samhljóða 7. mgr. og 9.–11. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 11. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Sambærileg ákvæði eru ekki í lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Tvenn nýmæli eru þó tekin upp í greinina. Annars vegar er ákvæði um eignarhaldsfélag á fjármálasviði, en með því er verið að innleiða hluta af efnisákvæðum 52. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB. Hins vegar er ákvæði sem lýtur að því að nota svonefnda hlutfallslega samstæðuaðferð við beitingu eiginfjárákvæða laganna, sbr. umfjöllun hér á eftir um 2. mgr. Í báðum tilfellum er um að ræða ákvæði í tilvitnaðri tilskipun varðandi eftirlit á samstæðugrundvelli sem við fyrri lagasmíð voru ekki að fullu lögleidd hér á landi.
    1. mgr. er efnislega óbreytt 7. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996 fyrir utan fyrrnefnt ákvæði um eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
    2. mgr. er nýmæli en um er að ræða að fjármálafyrirtæki og eignarhaldsfélag á fjármálasviði skuli við beitingu eiginfjárákvæða laganna nota hlutfallslega samstæðuaðferð þegar um er að ræða hlutdeild í fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki á fjármálasviði. Með þessari aðferð er átt við að í eiginfjárútreikningi sé bætt við áhættugrunn viðkomandi fyrirtækis hlutdeild í áhættugrunni hlutdeildarfélagsins í samræmi við hlutdeild í eigin fé þess. Hlutdeild í hlutdeildarfélagi í þessu sambandi er nánar skilgreind í niðurlagi þessarar málsgreinar frumvarpsins. Með þessu ákvæði er verið að innleiða 2. mgr. 54. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB sem við fyrri lagasmíð var ekki að fullu lögfest hér á landi eins og fyrr segir.
    3.–5. mgr. eru í meginatriðum samhljóða ákvæðum 9.–11. mgr. laga nr. 113/1996.

Um XIV. kafla.

    Ákvæði þessa kafla kveða á um refsinæmi tiltekinna brota gegn ákvæðum frumvarpsins. Einnig eru í kaflanum ákvæði sem tengjast refsiviðurlögum, svo sem um fyrningu brota. Lagt er til að skilgreint verði með nánari hætti en gert er í gildandi löggjöf hvaða brot eru refsinæm. Í gildandi íslenskri löggjöf á sviði fjármagnsmarkaðar eru yfirleitt almenn viðurlagaákvæði í lok hvers lagabálks. Í lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, segir t.d. í lokaákvæði laganna að fyrir brot á lögunum skuli refsað með sektum eða fangelsi allt að tveimur árum liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Ekki er því gerður greinarmunur á því um hvers konar brot á lögunum er að ræða; refsiramminn er í öllum tilvikum hinn sami. Er þetta ólíkt því sem tíðkast í Danmörku þar sem sérstakir brotaflokkar eru taldir upp og gildir ólíkur refsirammi fyrir mismunandi tegundir brota.
    Hinn 25. ágúst 1994 var skipaður starfshópur á vegum viðskiptaráðuneytisins sem var falið að fara yfir refsiákvæði í lögum um íslenska fjármagnsmarkaðinn. Starfshópnum var jafnframt ætlað að semja tillögur til breytinga á lögunum eftir því sem hann teldi ástæðu til. Starfshópurinn taldi að skynsamlegt væri að skilgreina nánar hvaða háttsemi varðaði refsingu og þá hvaða refsingu. Einnig mælti hann með því að skilgreind yrðu þrenns konar refsimörk og að ekki yrði vikið frá þeirri meginreglu að refsa ætti fyrir brot sem unnið er af ásetningi eða gáleysi, nema annars væri sérstaklega getið. Þá þótti rétt að halda í þann hefðbundna fyrirvara í refsiákvæðum sérlaga að beita bæri þyngri refsingu liggi hún við eftir öðrum lögum. Lagt var til að heimilt yrði að dæma hlutaðeigandi lögaðila í fésektir hefði brot á lögum verið framið í hans þágu. Loks var mælt með að brot fyrndust á fimm árum.
    Eins og fyrr segir eru viðurlagaákvæðin í núgildandi refsilöggjöf á fjármagnsmarkaði aftast í lögunum og engir sérstakir brotaflokkar eru tilgreindir. Nefnd sú sem samdi frumvarpið telur að varnaðaráhrif og virkni refsiákvæðanna yrðu mun meiri ef betur yrði skilgreint í lögunum hvaða háttsemi varði refsingu og þá hvaða refsingu.
    Hins vegar verður að hafa í huga að í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, er kveðið á um í 8. gr. að Fjármálaeftirlitið skuli fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Þá kemur fram í 1. mgr. 11. gr. laganna að Fjármálaeftirlitið geti lagt dagsektir á eftirlitsskyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Einnig er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leggja févíti á eftirlitsskyldan aðila sem brýtur gegn ákvörðunum sem teknar hafa verið af Fjármálaeftirlitinu, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Ákvæði þessi geta haft sérstaka þýðingu þegar fjármálafyrirtæki hafa skirrst við að afhenda Fjármálaeftirlitinu þau gögn sem skylt er að afhenda. Að þessu virtu hefur ekki verið kveðið á um að brot á skyldum um skil á upplýsingum til Fjármálaeftirlitsins varði sektum eða fangelsi.
    Þá hefur ekki verið kveðið á um refsinæmi vegna brota gegn skilyrðum frumvarpsins fyrir starfsleyfi. Talið er nægilegt að Fjármálaeftirlitið kanni hvort skilyrði séu fyrir hendi og synji um starfsleyfi ef svo er ekki.
    Loks hefur ekki verið kveðið á um refsinæmi brota gegn ákvæðum laganna þegar talið hefur verið að önnur ákvæði laganna kveði með fullnægjandi hætti á um réttaráhrif brota.
    Vert er að vekja athygli á þeirri almennu reglu að hvaða starfsmaður sem er hjá fjármálafyrirtæki, hvort sem hann er almennur starfsmaður eða yfirmaður, getur gerst sekur um refsiverð brot, framin af ásetningi eða gáleysi, enda sé skilyrðum refsiákvæða að öðru leyti fullnægt. Mögulegt er að vanræksla á leiðbeiningar- eða eftirlitsskyldu eða ráðning óhæfs starfsmanns verði talið saknæmt brot fyrirsvarsmanns. Í þessum tilvikum er möguleiki að hin ámælisverða vanræksla verði lögð að jöfnu við beinar athafnir (óbeint athafnaleysisbrot). Ekki verður þess fortakslaust krafist, að unnt sé að sýna fram á sök starfsmannsins, en orsakatengsl þurfa að vera fyrir hendi, þannig að fyrirsvarsmaður ber ekki refsiábyrgð á verkum starfsmanns, er koma starfsemi lögaðilans ekkert við. Fræðimenn hafa þó haldið því fram að fara beri varlega í það að teygja slíka gáleysisábyrgð mjög langt þar sem hún geti í reynd orðið hlutlæg ábyrgð. Einnig getur refsiábyrgð fyrirsvarsmanna á saknæmu athafnaleysi byggst á skráðum réttarheimildum um eftirlitsskyldur. Þó svo að kveðið sé á um að brot gegn tilteknum ákvæðum frumvarpsins varði refsingu er það vitanlega undanskilið að skilyrðum refsinæmis sé að öðru leyti fullnægt. Þannig verður brot að vera framið af ásetningi eða gáleysi til þess að það teljist refsinæmt og er gerð ríkari krafa um gáleysi í refsirétti en í skaðabótarétti. Þannig verður hvorki fyrirsvarsmanni né öðrum starfsmönnum fjármálafyrirtækis refsað fyrir meint brot gegn lögunum sem verða vegna utanaðkomandi óviðráðanlegra ástæðna. Þá er einnig vakin athygli á því að Fjármálaeftirlitinu er einungis skylt að greina ríkislögreglustjóra frá brotum séu þau alvarleg og hinn eftirlitsskyldi aðili hefur að mati eftirlitsins með refsiverðum hætti gerst brotlegur við lög, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    

Um 105. gr.


    Í greininni er kveðið á um að tiltekin brot gegn ákvæðum frumvarpsins varði sektum. Lagt er til að brot gegn ákvæðum laganna sem eru mikilvæg og ekki hafa fullnægjandi úrræði í för með sér varði sektum. Hér má taka sem dæmi starfsemi fjármálafyrirtækis með starfsleyfi sem fellur ekki innan starfsleyfis þess og verður ekki réttlætt með öðrum ákvæðum laganna. Þá falla tiltekin ákvæði um stjórn og starfsmenn hér undir, svo og ákvæði um ársreikninga og endurskoðun. Að því er varðar heimildarlausa notkun á starfsheiti sem starfsleyfi þarf fyrir er talið mikilvægt að almenningur geti treyst því að þeir aðilar sem nota viðkomandi starfsheiti starfræki í raun starfsemi fjármálafyrirtækja og að ekki rísi ruglingshætta í því sambandi. Eðlilegt þykir því að kveða sérstaklega á um refsingu við því að aðrir aðilar en fjármálafyrirtæki noti starfsheiti sem fjármálafyrirtæki hafa einkarétt á.


Um 106. gr.

    Í greininni er kveðið á um að tiltekin brot gegn ákvæðum frumvarpsins varði sektum eða fangelsi allt að einu ári. Lagt er til að brot gegn grundvallarákvæðum laganna varði nefndri refsingu, svo sem þau brot sem fela í sér starfsleyfisskylda starfsemi án starfsleyfis. Hið síðastnefnda er og í samræmi við 186. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Einnig er talið að þau ákvæði sem miða að því að tryggja fullnægjandi eigið fé fjármálafyrirtækja séu svo mikilvæg að brot gegn þeim skuli varða sektum eða fangelsi allt að einu ári. Að því er varðar refsinæmi brots gegn þagnarskyldu þykir nauðsynlegt að kveða á um viðurlög ef starfsmenn brjóta þá þagnarskyldu sem þeim ber lögum samkvæmt að halda þar sem ljóst er að á fjármagnsmarkaðinum hafa ýmsir aðilar aðgang að viðkvæmum upplýsingum fyrirtækja og einstaklinga sem geta valdið ómældu tjóni ef opinberar verða. Í 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er kveðið á um að segi opinber starfsmaður frá nokkru er leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða varðar embætti hans eða sýslan skuli hann sæta fangelsi allt að einu ári. Þrátt fyrir að ekki sé sektarheimild í þessu ákvæði þykir rétt að gefa dómstólum möguleika á að dæma mann til sektar í stað fangelsisvistar ef brot gegn þagnarskyldu samkvæmt frumvarpi þessu og afleiðingar þess eru ekki taldar alvarlegar. Er því lagt til að brot gegn þagnarskylduákvæðum frumvarpsins varði sekt eða fangelsi allt að einu ári.
    Í 2. mgr. er kveðið á um refsinæmi þess að gefa rangar eða villandi upplýsingar um hagi fjármálafyrirtækis opinberlega. Telja verður að ákvæði 153. og 154. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995, verndi að einhverju leyti þá hagsmuni sem fyrrgreindu ákvæði var ætlað að vernda, en þar er kveðið á um refsinæmi þess að skýra rangt frá högum hlutafélags. Hins vegar ná þau ekki til allra fjármálafyrirtækja, svo sem ekki allra sparisjóða. Framangreint ákvæði verður að teljast vernda mikilvæga hagsmuni.

Um 107. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um refsiábyrgð fjármálafyrirtækja og annarra lögaðila. Þar sem brot gegn lögum þessum geta bæði verið framin af fjármálafyrirtækjum og öðrum lögaðilum er refsiábyrgðin ekki einskorðuð við fjármálafyrirtæki. Má sem dæmi um brot annarra lögaðila en fjármálafyrirtækja nefna ástundun starfsleyfisskyldrar starfsemi án starfsleyfis, sbr. 4. gr. frumvarpsins.
     Í II. kafla A almennra hegningarlaga er kveðið á um refsiábyrgð lögaðila. Skv. 19. gr. a almennra hegningarlaga verður lögaðila gerð sekt ef lög mæla svo fyrir. Skv. 19. gr. c almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er refsiábyrgð lögaðila bundin því skilyrði, nema annað sé tekið fram í lögum, að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsinæman og ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans. Verður lögaðila gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hver þessara aðila hafi átt í hlut. Ekki er talin þörf á að mæla á annan hátt fyrir í frumvarpi þessu. Í 2. mgr. er ákvæði um tilraun og hlutdeild sem þarfnast ekki skýringa.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að brot gegn frumvarpinu varði refsingu, óháð því hvort þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Ekki er talin ástæða til að víkja frá þeirri meginreglu laga að brot gegn sérlögum varði refsingu, óháð því hvort það er framið af ásetningi eða gáleysi, sbr. gagnályktun frá 18. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Því er gert ráð fyrir að brot gegn ákvæðum frumvarps þessa verði refsiverð, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Saknæmisstigið hafi hins vegar áhrif á refsiákvörðun. Kveðið er á um reglu þessa í frumvarpstextanum til þess að tryggja samræmi við frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.
    Samkvæmt 4. mgr. skal sök samkvæmt ákvæðum kaflans fyrnast á fimm árum. Skv. 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, skal sök fyrnast á tveimur árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi eða refsing sú sem til er unnið fer ekki fram úr sektum. Skv. 4. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga er fyrningarfrestur vegna refsiábyrgðar lögaðila hins vegar fimm ár. Talið er skynsamlegt að mæla fyrir um að refsibrot samkvæmt frumvarpi þessu fyrnist í öllum tilvikum á fimm árum þar sem þau koma oft ekki í ljós fyrr en að nokkrum tíma liðnum og rannsókn þeirra er tímafrek.

Um XV. kafla.

    Í kaflanum eru ýmis ákvæði sem ekki eru talin eiga heima í öðrum köflum frumvarpsins.

Um 108. gr.

    Lagt er til að haldið verði í áskilnað 48. gr. laga nr. 113/1996 um nafnskráningu innlánsreikninga og þess háttar, að því frátöldu að fellt er brott skilyrði um að reikningur skuli skráður á kennitölu. Áskilnaður um kennitölu er til óhagræðis fyrir erlenda viðskiptamenn íslenskra fjármálafyrirtækja sem hyggjast opna innlánsreikninga. Að öðru leyti ræðst það af fyrirmælum II. kafla laga nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, í hvaða mæli fjármálafyrirtæki er skylt að afla upplýsinga um núverandi eða væntanlega viðskiptamenn sína.

Um 109. gr.

    Í grein þessari, sem er samhljóða 49. gr. laga nr. 113/1996, er fjallað um málsmeðferð til ógildingar á innlánsskilríki eða viðtökuskírteini og réttaráhrif ógildingar. Um meðferð ógildingarmáls fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum XVIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Um 110. gr.

    Í greininni er kveðið á um undanþágu fjármálafyrirtæki frá stimpilgjöldum. Hún er byggð á 50. gr. laga nr. 113/1996, sbr. 24. gr. laga nr. 13/1996, og er ekki ætlað að breyta gildandi framkvæmd.

Um 111. gr.


    Opinberum fjárfestingarlánasjóðum hefur fækkað mikið frá gildistöku laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Nú eru einungis eftir Byggðastofnun, Lánasjóður landbúnaðarins, Ferðamálasjóður og Hafnabótasjóður. Sá síðastnefndi er það lítill, og starfsemi hans með þeim hætti, að það þjónar ekki tilgangi að hann lúti opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Breytingar eru fyrirhugaðar á rekstri Ferðamálasjóðs þannig að verulega dragi úr starfsemi hans eða hann hætti alveg sjálfstæðum rekstri. Þessar breytingar gera það að verkum að ekki er þörf á því að sjóðurinn lúti eftirliti og teljist til lánastofnana. Lagt er því til að með beinum hætti verði kveðið á um að þessir sjóðir falli ekki undir lög þessi. Þá er starfsemi Íbúðalánasjóðs samkvæmt lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, undanskilin. Er það í samræmi við 21. gr. laga nr. 123/1993, en Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna runnu inn í Íbúðalánasjóð við stofnun hans.

Um XVI. kafla.

    Í kaflanum eru ákvæði um gildistöku, brottfellingu laga og upplýsingar um innleiðingu tilskipana í íslenskan rétt.

Um 112. gr.

    Í flestum tilskipunum er kveðið á um að við innleiðingu í landsrétt skuli tilgreina hvaða tilskipun verið er að innleiða. Í þessari grein eru nefndar þær átta tilskipanir sem innleiddar eru að hluta eða öllu leyti með lögum þessum.

Um 113. gr.

    Í ákvæði þessu er mælt fyrir um gildistökudag og brottfallin lög. Tekið skal fram að eins og rakið er í almennum athugasemdum er frumvarp þetta lagt fram samhliða frumvarpi til nýrra heildarlaga um verðbréfaviðskipti sem munu leysa af hólmi núgildandi lög, nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti. Þau ákvæði laga nr. 13/1996 er lúta að verðbréfafyrirtækjum og starfsemi þeirra verða hins vegar leyst af hólmi með ákvæðum laga þessara.

Um 114. gr.

    Rekstrarfélög verðbréfasjóða þurfa ekki starfsleyfi viðskiptaráðherra samkvæmt lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði. Tilskipun 107/2001/EB um breytingu á tilskipun 85/611 EBE kveður á um þá breytingu að rekstrarfélög verðbréfasjóði hljóti starfsleyfi. Í frumvarpi þessu er lagt til að rekstrarfélög verðbréfasjóði verði fjármálafyrirtæki og fái starfsleyfi skv. 7. tölul. 4. gr. Af þessum sökum er nauðsynlegt að breyta þeim greinum laga nr. 10/1993 sem snúa að starfsemi rekstrarfélags.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Í frumvarpi þessu er kveðið á um miklar breytingar á veitingu og afturköllun starfsleyfis. Ekki er gert ráð fyrir að starfandi fjármálafyrirtæki sæki um starfsleyfi að nýju. Hins vegar er mikilvægt að þau geri Fjármálaeftirlitinu nánari grein fyrir starfsemi sinni með hliðsjón af heimildum sínum samkvæmt þessum lögum. Starfandi fjármálafyrirtæki þurfa því að fara vel í gegnum starfsheimildir sínar og gera grein fyrir þeirri starfsemi sem þau stunda við gildistöku laganna, með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið óskar eftir. Ekki er litið svo á að fjármálafyrirtæki sæki með þessu um nýtt starfsleyfi vegna þeirrar starfsemi sem þau stunda við gildistöku laganna. Tilkynning fyrirtækisins og yfirferð Fjármálaeftirlitsins vegna þeirrar starfsemi lýtur því ekki ákvæðum II. kafla laganna um starfsleyfi og ekki þarf að láta í té þær upplýsingar sem kveðið er á um í 5. gr. nema upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins.
    Æskileg framkvæmd á þessari grein er sú að Fjármálaeftirlitið óski strax við gildistöku laganna eftir upplýsingum frá starfandi fjármálafyrirtækjum og geri grein fyrir með hvaða hætti það vill að upplýsingarnar séu settar fram. Fjármálafyrirtækin hafa síðan sex mánuði til að tilkynna og gera grein fyrir starfsemi sinni. Starfandi fjármálafyrirtæki í skilningi ákvæðisins kann hins vegar síðar að vilja nýta fleiri heimildir samkvæmt upphaflegu starfsleyfi. Er þá til þess ætlast að Fjármálaeftirlitinu sé tilkynnt um það, áður en starfsemin er hafin.
    Rekstrarfélög verðbréfasjóða hafa ekki starfsleyfi í dag heldur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum um verðbréfasjóði. Þau þurfa því að sækja um starfsleyfi á grundvelli þessara laga en munu halda, að öðru óbreyttu, viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins fram að þeim tíma sem starfsleyfi er fengið.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    VII. kafli frumvarps þessa felur í sér nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lagt er til að fjármálafyrirtækjum verði gefinn tólf mánaða frestur til að skila Fjármálaeftirlitinu reglum samkvæmt þessum kafla.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Samkvæmt 13. gr. frumvarpsins skulu öll fjármálafyrirtæki starfa sem hlutafélög. Verðbréfamiðlanir höfðu samkvæmt eldri löggjöf heimild til að stunda rekstur sem einkahlutafélög, og mun a.m.k. eitt fyrirtæki starfa sem slíkt. Þykja tólf mánuðir hæfilegur frestur til að skipta um félagsform.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki.

     Með frumvarpinu er lagt til að lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr.123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki, og ákvæði um stofnun og starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana í lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, verði sameinuð í eina heildarlöggjöf um fjármálafyrirtæki. Með hugtakinu fjármálafyrirtæki er átt við viðskiptabanka, sparisjóði, aðrar lánastofnanir, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki verðbréfamiðlara og rekstrarfélög verðbréfasjóða. Jafnframt er lagt til að ákvæði um ríkisviðskiptabanka í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði verði felld brott. Í frumvarpinu eru einnig ákvæði sem treysta yfirtökuvarnir sparisjóða.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.