Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 264. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 280  —  264. mál.




Fyrirspurn



til fjármálaráðherra um tekjuskatta einstaklinga.

Frá Rannveigu Guðmundsdóttur.



     1.      Hver var fjárhæð álagðra tekjuskatta (almennur tekjuskattur, sérstakur tekjuskattur, útsvar og fjármagnstekjuskattur), barnabóta og vaxtabóta á hverju áranna 1995–2002, tilgreint á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi?
     2.      Hver var tekjuskattsbyrði einstaklinga á árunum 1995–2002 í heild og eftir tekjum og fjölskyldugerð? Með tekjuskattsbyrði er hér átt við álagða tekjuskatta (almennan tekjuskatt, sérstakan tekjuskatt, útsvar og fjármagnstekjuskatt) alls, að frádregnum barnabótum og vaxtabótum, sem hlutfall af heildartekjum (launum, lífeyri, rekstrartekjum, fjármagnstekjum o.s.frv.) viðkomandi einstaklinga. Í svarinu verði greint á milli einhleypra annars vegar og hjóna og fólks í sambúð hins vegar. Flokkun eftir tekjum miðist við að í hvern flokk komi 10% framteljenda raðað eftir fjárhæð heildartekna þannig að í neðsta flokkinn komi þau 10% sem lægstar heildartekjur hafa á hverju ári, í þann næsta þau 10% sem næst koma o.s.frv. Efsti flokkurinn verði þó sundurgreindur í tvennt þannig að í hvorn hluta komi 5% tekjuhæstu framteljendanna.
     3.      Hver yrðu áhrifin á tekjuskattsbyrðina í sundurliðun 2. liðar ef tekjusköttum væri breytt um 1,5 milljarða kr. og breytingin gerð með:
                  a.      lækkun almenna tekjuskattshlutfallsins,
                  b.      hækkun persónuafsláttar,
                  c.      lækkun sérstaka tekjuskattsins,
                  d.      hækkun fjármagnstekjuskatts?
             Hver yrði niðurstaðan í a- og b-lið ef miðað væri við 5 milljarða kr. breytingu?


Skriflegt svar óskast.