Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 357. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 394  —  357. mál.




Frumvarp til laga



um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. KAFLI
Markmið.
1. gr.

    Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir hér á landi.

II. KAFLI
Úthlutunarsjóðir.
2. gr.

Rannsóknasjóður og Tækjasjóður.

    Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir á Íslandi. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu. Ákvörðun um styrkveitingu skal bundin hinu faglega mati.
    Hlutverk Tækjasjóðs er að veita rannsóknastofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði vegna rannsókna. Við úthlutun úr Tækjasjóði skal taka mið af úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs á hverjum tíma.
    Rannsóknasjóður tekur við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs sem nú starfa samkvæmt lögum um Rannsóknarráð Íslands, nr. 61/1994, en Tækjasjóður tekur við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs samkvæmt sömu lögum. Eignir og skuldbindingar Vísindasjóðs og Tæknisjóðs falla til Rannsóknasjóðs en eignir og skuldbindingar Bygginga- og tækjasjóðs falla til Tækjasjóðs.

3. gr.
Tekjur Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs.

    Tekjur Rannsóknasjóðs eru:
     1.      Fjárveiting í fjárlögum ár hvert.
     2.      Gjafir frá einstaklingum eða fyrirtækjum.
     3.      Önnur framlög.
    Tekjur Tækjasjóðs eru:
     1.      Einkaleyfisgjald af rekstri peningahappdrætta eða aðrar sambærilegar tekjur.
     2.      Önnur framlög.

4. gr.
Stjórn Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs.

    Menntamálaráðherra skipar fimm manna stjórn Rannsóknasjóðs til þriggja ára í senn. Stjórnina skipa eftirtaldir: Formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs sem jafnframt er formaður sjóðstjórnar, fjórir einstaklingar sem hafa reynslu af eða þekkingu á vísindarannsóknum samkvæmt tilnefningu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og fimm til vara. Formaður velur varaformann sjóðstjórnar úr hópi stjórnarmanna.
    Stjórn Rannsóknasjóðs skal jafnframt fara með stjórn Tækjasjóðs.
    Stjórnin metur umsóknir um styrk úr Rannsóknasjóði að fengnum umsögnum fagráða sem skipuð eru skv. 5. gr. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins geta veitt ef þurfa þykir. Fagráð skipað formönnum fagráða Rannsóknasjóðs metur umsóknir í Tækjasjóð áður en stjórn sjóðsins tekur þær til afgreiðslu.
    Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Rannsóknasjóðs og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
    Ákvarðanir stjórnar Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs um styrkveitingar samkvæmt lögum þessum sæta ekki stjórnsýslukæru.
    Kostnaður við mat á umsóknum og við störf stjórnar Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðanna.
    Stjórn Rannsóknasjóðs er heimilt, að tillögu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs, að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í vísindarannsóknum af ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs.

5. gr.
Fagráð Rannsóknasjóðs.

    Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda sem skulu hafa það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn Rannsóknasjóðs við úthlutanir úr sjóðnum. Vísindanefnd skipar formenn fagráða sérstaklega og eru þeir jafnframt ráðgefandi fyrir stjórn Tækjasjóðs skv. 3. mgr. 4. gr. Jafnframt eru fagráð ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er.
    Fagráð skulu vera skipuð allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum. Skulu þeir hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn Rannsóknasjóðs. Fagráð metur umsóknir út frá færni umsækjenda til að framkvæma verkið og aðstöðu þeirra til þess. Jafnframt skal lagt mat á vísindagildi rannsóknanna á alþjóðlegan mælikvarða eða líkur á skráningu einkaleyfis eða hugverkaréttinda eftir því sem við á.

6. gr.
Rannsóknarnámssjóður.

    Hlutverk Rannsóknarnámssjóðs er að veita styrki til rannsóknartengds framhaldsnáms að loknu grunnnámi við háskóla. Menntamálaráðherra setur reglur um starfsemi sjóðsins.
    Menntamálaráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn. Í sjóðstjórn sitja fulltrúi tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, fulltrúi tilnefndur af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs og fulltrúi skipaður af ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður stjórnar sjóðsins. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.
    Ákvarðanir stjórnar Rannsóknarnámssjóðs sæta ekki stjórnsýslukæru.

7. gr.
Tekjur Rannsóknarnámssjóðs.

    Tekjur Rannsóknarnámssjóðs eru framlög í fjárlögum ár hvert og framlög samstarfsaðila um rannsóknartengt framhaldsnám. Heimilt er stjórn Rannsóknarnámssjóðs að efna til samstarfs við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir um fjármögnun sérstakra styrkja til rannsóknartengds framhaldsnáms á afmörkuðum sviðum rannsókna.

8. gr.
Úthlutunarreglur.

    Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs markar úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs. Stjórn Rannsóknasjóðs gefur út reglur um umsóknir, meðferð þeirra og úthlutun eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests. Þar skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.
    Stjórn Rannsóknarnámssjóðs gefur út úthlutunarreglur fyrir sjóðinn eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests.
    Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr Rannsóknasjóði og Rannsóknarnámssjóði, skulu birtar opinberlega og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið.

9. gr.
Önnur verkefni.

    Menntamálaráðherra getur falið stjórnum Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs úthlutun annarra sjóða samkvæmt frekari ákvörðun þar um.

III. KAFLI
Rannsóknamiðstöð Íslands.
10. gr.
Hlutverk.

    Rannsóknamiðstöð Íslands er ríkisstofnun sem heyrir undir menntamálaráðherra. Hlutverk hennar er að veita faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd vísinda- og tæknistefnu Vísinda- og tækniráðs. Í því felst að:
     1.      Annast umsýslu Rannsóknasjóðs, Tækjasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs sem heyra undir menntamálaráðherra.
     2.      Annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir iðnaðarráðherra.
     3.      Annast umsýslu annarra sjóða samkvæmt nánari ákvörðun menntamálaráðherra.
     4.      Annast þjónustu við fagráð og stjórnir framangreindra sjóða.
     5.      Annast gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir Vísinda- og tækniráð og nefndir þess um vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun í landinu; afla upplýsinga og gagna varðandi þróun vísinda og tækni á alþjóðavettvangi.
     6.      Gangast fyrir mati á árangri rannsókna, þróunar og nýsköpunar í landinu með reglulegum hætti og taka þátt í fjölþjóðlegum samanburðarathugunum á því sviði fyrir hönd Íslands þegar þess er óskað.
     7.      Annast kynningu á rannsóknastarfsemi í landinu fyrir almenning.
     8.      Annast kynningu og ráðgjöf fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki um möguleika á styrkjum og stuðla að samvinnu um rannsóknarverkefni innan lands og utan.
     9.      Hafa samstarf við hliðstæðar erlendar stofnanir eða skrifstofur og fylgjast með þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu vísindastarfi.
     10.      Sinna öðrum verkefnum sem menntamálaráðherra felur stofnuninni. Stofnunin getur átt samstarf við og tekið að sér verkefni á sviði vísinda- og tæknimála fyrir önnur ráðuneyti samkvæmt samkomulagi.

11. gr.
Forstöðumaður.

    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Rannsóknamiðstöðvar Íslands til fimm ára í senn. Hann skal hafa háskólapróf og þekkingu á starfssviði stofnunarinnar. Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunarinnar, er í fyrirsvari fyrir hana út á við og ber ábyrgð á rekstri hennar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Jafnframt annast forstöðumaður ráðningu annarra starfsmanna stofnunarinnar. Menntamálaráðherra setur forstöðumanni erindisbréf.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
12. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands, með síðari breytingum.

13. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Í stað orðanna „Rannsóknarráðs Íslands“ í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 71/1994, um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, kemur: vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laga þessara skal eftirfarandi gilda:
    Þeir sem þegið hafa styrk samkvæmt lögum nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands, halda óbreyttum réttindum og skyldum samkvæmt þeim styrkveitingum.
    Rannsóknarráð Íslands samkvæmt lögum nr. 61/1994 skal vinna að undirbúningi tillagna að úthlutunarreglum skv. 8. gr. laga þessara um styrkveitingar á árinu 2003, þó eigi lengur en til 30. mars 2003. Skipað skal í stjórn Rannsóknasjóðs samkvæmt lögum þessum eigi síðar en 1. apríl 2003.
    Núverandi stjórn Rannsóknarnámssjóðs sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 61/1994 skal halda umboði sínu og starfa í samræmi við ákvæði laga þessara út skipunartímabil sitt.
    Samningar við þá sem ráðnir hafa verið í tímabundnar stöður rannsóknarprófessora samkvæmt lögum nr. 61/1994 halda gildi sínu í samræmi við ákvæði þeirra.
    Starfsmenn á skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands verða starfsmenn Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Embætti framkvæmdastjóra Rannsóknarráðs Íslands skal lagt niður frá og með upphafsdegi skipunar í embætti forstöðumanns Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Skipað skal í embætti forstöðumanns Rannsóknamiðstöðvar Íslands eigi síðar en 1. apríl 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi, 127. löggjafarþingi (549. mál), en varð ekki útrætt. Breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því að það var lagt fram síðast, í framhaldi af umfjöllun sjö manna nefndar menntamálaráðherra, undir forustu prófessors Hafliða Péturs Gíslasonar, formanns Rannsóknarráðs Íslands. Nefndinni var falið að fara yfir þær athugasemdir sem fram komu við meðferð frumvarpsins á síðasta þingi og gera tillögur um hvernig við þeim yrði brugðist. Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu í samræmi við tillögur nefndarinnar: Orðalagi í 2. gr. hefur verið breytt þannig að lögð er áhersla á hið faglega mat sem fram fer við styrkveitingar úr Rannsóknasjóði. Áréttað er að matið skuli byggjast á reynslu og aðstöðu þeirra einstaklinga eða rannsóknahópa sem að rannsókninni standa. Í 3. gr., sem fjallar um tekjur Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs, hefur 2. tölul. verið breytt og fellt út ákvæði sem fjallaði um tekjur af einkaleyfum og endurgreiðslur af styrkjum til verkefna sem notið hafa stuðnings sjóðsins. Ekki er talið eðlilegt að gera ráð fyrir tekjum af einkaleyfum eða endurgreiðslum styrkja. Í flestum tilfellum eru styrkir sjóðanna aðeins hluti af heildarframlögum til verkefnisins og því flókið og erfitt í framkvæmd að fá tekjur til baka. Þá er Tækjasjóði bætt við fyrirsögn greinarinnar sem áður vísaði einungis til tekna Rannsóknasjóðs. Greinin á við um tekjur beggja sjóðanna. Í 4. gr. er kveðið á um að stjórn Rannsóknasjóðs sé heimilt að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í vísindarannsóknum af ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs, en bætt er við ákvæðið að það skuli gert að tillögu vísindanefndar. Vísindanefndinni er jafnframt ætlað að skipa fagráð í stað stjórnar Rannsóknasjóðs, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Slíkt hlutverk vísindanefndar er í góðu samræmi við aðgreiningu stefnumótunar og úthlutunar styrkja. Einnig er lagt til að fagráð geti verið ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er. Í 6. gr. er gerð sú breyting að styrkir Rannsóknarnámssjóðs verða ekki einskorðaðir við rannsóknarnám á Íslandi og í 8. gr. er áréttuð verkaskiptingu vísindanefndar og stjórnar Rannsóknasjóðs undir samheitinu úthlutunarreglur. Að lokum er 10. gr. breytt þannig að heiti þjónustumiðstöðvar vísindarannsókna verður Rannsóknamiðstöð Íslands auk þess sem hlutverk miðstöðvarinnar hefur í nokkur atriðum verið gert skýrara.
    Lög um Rannsóknarráð Íslands tóku gildi 1. júlí 1994. Samkvæmt þeim bar að endurskoða þau innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Á undanförnum missirum hafa starfsmenn menntamálaráðuneytis unnið að endurskoðun laganna. Leiddi sú endurskoðun til þess að lögð eru fram þrjú frumvörp sem taka til vísindarannsókna og tækniþróunar á Íslandi. Í fyrsta lagi er frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð sem lagt er fram af forsætisráðherra, í öðru lagi frumvarp til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir sem lagt er fram af menntamálaráðherra og í þriðja lagi frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins sem lagt er fram af iðnaðarráðherra.
    Í frumvarpi til laga um Vísinda- og tækniráð er gert ráð fyrir að ráðið fjalli bæði um vísindarannsóknir og tækniþróun. Vísindarannsóknir heyri undir menntamálaráðherra en tækniþróun og nýsköpun undir iðnaðarráðherra. Frumvarp þetta fjallar um opinberan stuðning við vísindarannsóknir í samræmi við framangreinda skiptingu og er háð því að frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð verði að lögum.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru:
    Lagt er til að nýr sjóður, Rannsóknasjóður, taki við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs samkvæmt núgildandi lögum um Rannsóknarráð Íslands, nr. 61/1994. Stjórn Rannsóknasjóðs tekur við hlutverki því sem úthlutunarnefndir höfðu áður. Þá er lagt til að Tækjasjóður taki við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs samkvæmt sömu lögum og fer stjórn Rannsóknasjóðs einnig með stjórn hans. Hins vegar er lagt til að Rannsóknarnámssjóður starfi áfram undir sérstakri stjórn.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir heyri áfram undir menntamálaráðuneytið. Rannsóknasjóður mun gegna lykilhlutverki varðandi styrkveitingar til rannsókna. Sjóðurinn mun styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir samkvæmt skýrum kröfum um vísindalegan framgang, birtingu og skil á vísindalegum niðurstöðum. Þessi tilhögun auðveldar samanburð umsókna þrátt fyrir mismunandi uppruna þeirra. Áhersla verður lögð á að rannsóknir séu styrktar eftir gæðum sem metin verða samkvæmt faglegum kröfum á viðkomandi sviði. Með þessu er verið að tryggja að sambærileg viðmið gildi við mat á umsóknum um styrki, hvort sem um er að ræða grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir.
    Gert er ráð fyrir að Tækjasjóður taki við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs. Lagt er til að hlutverk Tækjasjóðs verði að veita háskólum og öðrum rannsóknastofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði vegna rannsókna. Það er nýlunda í þessu frumvarpi að sömu aðilar sitji í stjórnum Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs og úthluti styrkjum á þann hátt sem hér er lagt til. Þannig er leitast við að samþætta úthlutanir þeirra.
    Markmið endurskoðunar á lögum nr. 61/1994 er að draga skýrari mörk á milli stefnumótunar á sviði vísinda og tækni og þjónustu vegna þeirra. Í samræmi við þetta er lagt til í frumvarpinu að stefnumótun fari fram í Vísinda- og tækniráði og undirnefndum þess en úthlutun styrkja verði á vegum stjórna viðkomandi sjóða. Rannsóknamiðstöð Íslands sem leysir núverandi skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands af hólmi mun þó veita báðum aðilum nauðsynlega þjónustu. Þannig mun miðstöðin veita Vísinda- og tækniráði faglega aðstoð við undirbúning stefnumótunar í samráði við viðkomandi ráðuneyti. Hún mun einnig annast umsýslu sjóða og veita stjórnum þeirra og fagráðum nauðsynlega þjónustu. Um er að ræða Rannsóknasjóð, Tækjasjóð, Rannsóknarnámssjóð og aðra sjóði sem menntamálaráðherra felur stjórn Rannsóknasjóðs að fara með. Rannsóknamiðstöðin mun einnig annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir iðnaðarráðherra.
    Að auki miðlar Rannsóknamiðstöð Íslands upplýsingum vegna þátttöku Íslands í rannsóknasamstarfi á Evrópska efnahagssvæðinu, Norðurlandasamstarfi og öðru alþjóðlegu samstarfi. Hún safnar hagtölum um rannsóknir og þróun, sér um úttektir á sviði rannsóknamála og kynnir rannsóknastarfsemi í landinu. Það er ljóst að samtvinnun allra ofangreindra þátta á einum stað hefur veruleg samlegðaráhrif og er hagkvæm.
    Þótt Rannsóknamiðstöð Íslands sinni gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir Vísinda- og tækniráð munu menntamálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið að öðru leyti annast umsýslu fyrir vísindanefnd og tækninefnd. Er þetta í anda þess megintilgangs lagafrumvarps um Vísinda- og tækniráð að greina á milli stefnumótunar stjórnvalda í vísinda- og tæknimálum annars vegar og úthlutunar styrkja og þjónustu við rannsóknaraðila hins vegar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um markmið með opinberum rannsóknasjóðum. Þar er lögð áhersla á vísindarannsóknir og vísindamenntun á sviði grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna. Áhersla er lögð á að tryggja gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir.

Um 2. gr.

    Hér er fjallað um hlutverk Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs. Rannsóknasjóði er ætlað að efla vísindarannsóknir samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreindar rannsóknir einstaklinga, rannsóknarhópa, fyrirtækja og rannsóknastofnana. Rannsóknarhópar geta ýmist verið sjálfstæðir eða starfað undir heildstæðri yfirstjórn í háskólum, fyrirtækjum eða rannsóknastofnunum. Í orðunum „skilgreind rannsóknarverkefni“ felst m.a. að styrkir eiga ekki að renna til almenns rekstrar þegar fyrirtæki og stofnanir eiga í hlut, heldur einvörðungu til hinna skilgreindu rannsóknarverkefna.
    Umsækjendur skulu eiga styrkveitingu undir vönduðu faglegu mati. Þannig er það hæfni rannsóknarhópsins til að leysa verkefnin samkvæmt mati á færni þeirra sem hann skipa, reynslu og fyrri árangri, ásamt gæðum umsókna og aðstöðu umsækjenda til að ná settu marki, sem liggur ávallt til grundvallar mati á umsóknum. Þetta á einnig við þegar rannsóknirnar eru unnar undir heildstæðri yfirstjórn innan einnar eða fleiri opinberra rannsóknastofnana eða fyrirtækja.
    Rannsóknasjóður gerir samning um hverja styrkveitingu við styrkþega og fyrirtæki eða stofnanir sem veita rannsóknaraðstöðuna. Samningurinn byggist á hinu faglega mati viðkomandi fagráðs. Breytingar á forsendum samnings hljóta að leiða til endurskoðunar hans. Samninginn skal endurskoða breytist forsendur hans á styrktímabilinu. Tilkynna skal sjóðnum ef breyting verður á rannsóknarhópnum sem metinn var við umsókn og skal stjórn hans þá meta hvort þörf sé á að gera nýjan samning. Hið sama gildir ef aðstaða styrkþega til rannsóknanna versnar, til dæmis ef einstakir aðilar hætta samstarfi. Þetta gerir þá kröfu til stofnana og fyrirtækja að hlutverk þeirra í viðkomandi rannsóknarverkefni sé skilgreint. Þannig er gert ráð fyrir að samningar séu gerðir á milli vísindamannanna og stofnunar eða fyrirtækis þeirra eða að stofnunin/fyrirtækið samþykki fyrir sitt leyti þátttöku í viðkomandi rannsóknarverkefni og umsamin mótframlög við styrk Rannsóknasjóðs til þess. Sama máli gegnir um verkefni sem byggist á samstarfi fleiri en einnar rannsóknastofnunar eða fyrirtækis. Þegar um samstarf um rannsóknir er að ræða er gert ráð fyrir að þátttakendur geri samninga sín á milli um eignar- og nýtingarrétt á niðurstöðum.
    Sjóðurinn tekur við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs sem starfað hafa samkvæmt lögum nr. 61/1994. Sjóðurinn getur veitt styrki til umfangsmeiri verkefna að undangengnu ítarlegu mati á raunhæfni verk-, kostnaðar- og fjármögnunaráætlunar verkefnisins eða styrki að fastri fjárhæð til annarra umfangsminni verkefna.
    Í greininni er einnig fjallað um hlutverk Tækjasjóðs sem tekur við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs sem starfar samkvæmt lögum nr. 61/1994. Hlutverk Tækjasjóðs er að veita háskólum, opinberum rannsóknastofnunum og sjálfseignarstofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði vegna rannsókna. Við úthlutun úr Tækjasjóði skal áhersla lögð á tækjabúnað sem eflir rannsóknir í landinu. Þá er um að ræða stór rannsóknartæki sem hafa mikla þýðingu fyrir tilteknar rannsóknir eða heilar vísindagreinar. Umsóknir sem fela í sér samstarf rannsóknaraðila og samfjármögnun tækjakaupa skulu að öðru jöfnu hafa forgang ef við á. Með því að hafa sömu stjórn í Tækjasjóði og Rannsóknasjóði er leitast við að samhæfa úthlutanir úr sjóðunum til verkefna sem skara fram úr.

Um 3. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að Rannsóknasjóður njóti áfram árlegrar fjárveitingar í fjárlögum. Tekjur Rannsóknasjóðs byggjast að mestu leyti á fjárveitingum í fjárlögum en jafnframt er heimilað að sjóðurinn þiggi gjafir frá einstaklingum eða fyrirtækjum sem hafa það markmið að styðja við starfsemi sjóðsins.
    Varðandi tekjur Tækjasjóðs er gert ráð fyrir að hann hafi sömu tekjur og Bygginga- og tækjasjóður hafði áður samkvæmt lögum nr. 61/1994 eða sambærilegar tekjur. Nauðsynlegt þykir að Tækjasjóður sé sérstakur sjóður aðgreindur frá öðrum sjóðum vegna mikilvægis hans (og forvera hans) við fjármögnun tækjabúnaðar sem treystir innviði rannsókna í landinu.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er fjallað um stjórn Rannsóknasjóðs en hún skal jafnframt fara með stjórn Tækjasjóðs. Í stjórninni sitja fimm einstaklingar. Þar af eru fjórir sérstaklega tilnefndir af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs en lagt er til að formaður vísindanefndar sé jafnframt formaður sjóðstjórnar Rannsóknasjóðs. Með því að sami einstaklingur sé formaður vísindanefndar og formaður stjórnar Rannsóknasjóðs er leitast við að halda tengslum milli Vísinda- og tækniráðs og vinnunefndar þess um vísindi og stjórnar sjóðsins. Tryggir það að áherslur í stefnumótun komi fram í úthlutun Rannsóknasjóðs.
    Gera ber strangar kröfur um hæfni þeirra sem sitja í stjórn Rannsóknasjóðs. Þeir skulu hafa reynslu af eða þekkingu á vísindarannsóknum sem standast alþjóðlegar kröfur á sviði grunnrannsókna eða hagnýtra rannsókna. Leitast skal við að hafa jafnvægi í stjórninni milli sjónarmiða grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna annars vegar og sjónarmiða háskólastigs, rannsóknastofnana og einkaaðila hins vegar.
    Ákvæði um að ákvörðun stjórnar Rannsóknasjóðs sé endanleg og verði ekki áfrýjað til menntamálaráðuneytis er nýlunda. Í framkvæmd er reyndar litið svo á að ákvarðanir um styrkveitingar samkvæmt lögum nr. 61/1994 séu ekki kæranlegar til menntamálaráðuneytis og var sá skilningur meðal annars staðfestur í áliti umboðsmanns Alþingis sem tók kvörtun vegna styrkveitinga samkvæmt lögunum til meðferðar án þess að málinu hefði áður verið skotið til menntamálaráðuneytisins. Hér er lagt til að lögfest verði með skýrum hætti að ákvarðanir stjórnar Rannsóknasjóðs um styrkveitingar verði ekki kæranlegar. Um kvartanir til stjórnarinnar vegna málsmeðferðar við afgreiðslu einstakra umsókna gilda að venju almenn ákvæði laga.
    Stjórn Rannsóknasjóðs er heimilað að fengnum tillögum frá vísindanefnd að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í vísindarannsóknum af ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn veiti slíkar viðurkenningar árlega.

Um 5. gr.

    Vísindanefnd er ætlað að skipa 5–7 manna fagráð til tveggja ára á helstu sviðum vísinda. Hlutverk vísindanefndar í úthlutunarferlinu takmarkast við að móta ramma úthlutana, sem skipan fagráða á helstu sviðum vísinda fellur undir í samræmi við markmið stjórnvalda um aðgreiningu stefnumótunar og úthlutunar styrkja. Fagráðum er ætlað að veita faglega ráðgjöf og meta umsóknir um styrki. Skipan í fagráð til tveggja ára veitir möguleika á að endurnýja þau reglulega. Þau fagráð sem vænta má að vísindanefnd skipi fjalla um hug- og félagsvísindi, líf- og læknisfræði, raunvísindi og verkfræði.
    Gert er ráð fyrir að stjórn Rannsóknasjóðs hafi almennar áherslur Vísinda- og tækniráðs til viðmiðunar við úthlutun jafnhliða faglegu mati. Þær gætu til dæmis falið í sér tímabundnar áherslur á tiltekin rannsóknasvið, mikilvægi rannsóknanna fyrir íslenskt þjóðlíf, menntun ungra vísindamanna eða ákvæði um mótframlag. Hlutverk fagráða er hins vegar að meta umsóknir samkvæmt færni umsækjenda til að framkvæma verkið og aðstöðu þeirra til þess auk vísindagildis verkefnisins á alþjóðlegan mælikvarða eða skráningar einkaleyfis eða hugverkaréttinda.
    Fagráðum er heimilt að leita umsagnar sérfróðra aðila um einstakar umsóknir. Stjórn Rannsóknasjóðs ber að gera grein fyrir áherslum sínum við úthlutun ef þær fela í sér frávik frá tillögum fagráða. Ákvæði um að sömu menn sitji ekki í fagráðum og Vísinda- og tækniráði eða stjórn Rannsóknasjóðs á að tryggja sjálfstæði fagráða og er hliðstætt þeirri skipan sem gilt hefur um Rannsóknarráð Íslands.
    Gert er ráð fyrir að fagráð geti verið ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er.

Um 6. gr.

    Hér er fjallað um hlutverk Rannsóknarnámssjóðs. Sjóðurinn hefur sérstaka stjórn. Rannsóknarnámssjóður heldur þannig sérstöðu sinni enda er meginmarkmið hans að styrkja nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi en ekki einstök rannsóknarverkefni. Ákvæðið um að vísindanefndin og samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefni hvor sinn fulltrúa er til þess að tryggja ákveðna breidd í stjórn sjóðsins. Menntamálaráðherra setur sjóðnum reglur sem kveða nánar á um skilyrði umsókna. Gert er ráð fyrir að stjórn sjóðsins hafi almennar áherslur Vísinda- og tækniráðs til viðmiðunar.
    Hlutverk Rannsóknarnámssjóðs er að veita styrki til rannsóknartengds framhaldsnáms að loknu grunnnámi við háskóla sem bjóða framhaldsnám og stunda vísindalegar rannsóknir. Styrkir Rannsóknarnámssjóðs eiga sem fyrr að renna til rannsóknartengds framhaldsnáms sem stundað er við háskóla eða á ábyrgð hans í samvinnu við rannsóknastofnanir eða fyrirtæki. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn styrki nemendur í rannsóknarnámi á Íslandi og erlendis. Sé námið stundað við háskóla erlendis skal rannsóknarverkefnið þó lúta að íslensku viðfangsefni og vísindamaður með starfsaðstöðu á Íslandi taka virkan þátt í leiðbeiningu nemandans.

Um 7. gr.

    Tekjur Rannsóknarnámssjóðs eru framlög í fjárlögum ár hvert. Jafnframt er hvatt til þess að sjóðurinn efni til samstarfs við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir eins og tíðkast hefur.

Um 8. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs marki úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs og annarra sjóða í vörslu stjórnar sjóðsins. Stjórn Rannsóknasjóðs gefur hins vegar út reglur um umsóknir, meðferð þeirra og úthlutun. Hér er áréttuð verkaskipting vísindanefndar og stjórnar Rannsóknasjóðs undir samheitinu úthlutunarreglur. Í úthlutunarreglum koma fram skilyrði umsókna, úthlutunarstefna sjóða og áherslur Vísinda- og tækniráðs. Beinn kostnaður við mat umsókna og úthlutun styrkja skal greiðast af árlegu ráðstöfunarfé sjóðanna. Gert er ráð fyrir að viðkomandi ráðuneyti geri samning við Rannsóknamiðstöðina um umsýslu sjóða og rekstrarkostnað vegna hennar. Með þeim hætti verður betur ljóst í hverju slíkur kostnaður felst.

Um 9. gr.

    Gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra geti falið stjórnum sjóða að sjá um úthlutun annarra sjóða sem stofnað er til, t.d. Launasjóðs fræðiritahöfunda sem skrifstofa Rannsóknarráðs hefur nú umsýslu með. Einnig má nefna markáætlanir, öndvegisstyrki og tímabundnar rannsóknarstöður. Þannig geta stjórnvöld boðið tímabundna verkefnastyrki eftir almennum áherslum og markmiðum Vísinda- og tækniráðs hverju sinni. Þeir geta verið af ýmsum toga, til dæmis öndvegisstyrkir markaðir ákveðnum fræðasviðum eða rannsóknastofnunum eða tímabundnar markáætlanir á einstökum fræðasviðum eða þverfaglegum fræðasviðum. Með þessu yrði m.a. stefnt að því að Íslendingar yrðu gjaldgengir í samstarfi á Norðurlöndum og innan rammaáætlunar ESB um öndvegissetur (e. Centres of Excellence) eða öndvegisnet (e. Networks of Excellence). Einnig gæti þetta skapað forsendur til öflugra samstarfs við alþjóðlegar stofnanir á Norðurlöndum, í Evrópu, Norður-Ameríku, Kanada og víðar. Þá er gert ráð fyrir að hægt sé að stofna tímabundnar rannsóknarstöður. Þessum stöðum má líkja við tímabundnar stöður rannsóknarprófessora samkvæmt lögum nr. 61/1994 sem lagðar verða niður samkvæmt frumvarpinu að lokinni samningsbundinni ráðningu þeirra sem nú skipa þessar stöður. Sú leið er valin hér að nefna hvorki markáætlanir, öndvegisstyrki né tímabundnar rannsóknarstöður í lagatextanum sjálfum, en halda þeirri leið opinni að stjórnvöld hverju sinni skilgreini áherslur í þeim efnum.

Um 10. gr.

    Þjónustuhlutverki núverandi skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands fyrir stjórnvöld og vísindasamfélagið verður komið fyrir í sérstakri stofnun, Rannsóknamiðstöð Íslands, sem heyrir stjórnarfarslega undir menntamálaráðuneytið. Hlutverk Rannsóknamiðstöðvarinnar er skilgreint með skýrari hætti en hlutverk skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands í lögum nr. 61/1994. Í almennum athugasemdum frumvarpsins er gerð grein fyrir helstu þáttum í fyrirhugaðri starfsemi Rannsóknamiðstöðvarinnar. Gert er ráð fyrir að stofnunin geri sérstaka samninga við menntamálaráðuneyti um umsýslu sjóða þess. Jafnframt er gert ráð fyrir að stofnunin geri þjónustusamning við menntamálaráðuneyti um önnur verkefni sem ráðuneytið felur henni. Rannsóknamiðstöðin mun einnig annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir iðnaðarráðherra. Iðnaðarráðherra mun staðfesta þann samning. Rannsóknamiðstöðin getur gert þjónustusamninga við önnur ráðuneyti eða aðra aðila um svipuð verkefni sem mikilvægt er og hagkvæmt að hafa á einni hendi.

Um 11. gr.

    Hér er fjallað um skipun forstöðumanns Rannsóknamiðstöðvar Íslands, hæfniskröfur og starfssvið. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.

    Samkvæmt lögum nr. 71/1994, um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, tilnefnir Rannsóknarráð Íslands einn mann í stjórn bókasafnsins, en gert er ráð fyrir að vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs geri það verði frumvarp þetta að lögum.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Með ákvæðinu er ætlað að tryggja að vinna við úthlutun úr þeim sjóðum sem frumvarp þetta fjallar um raskist sem minnst, verði það að lögum. Jafnframt er ákvæðinu ætlað að tryggja eðlilega yfirfærslu starfsemi skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands yfir til Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Að öðru leyti þarfnast ákvæði þetta ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.

    Í frumvarpinu eru gerðar ýmsar breytingar á stjórnsýslu sjóða og stofnana sem fjalla um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Það er flutt samhliða frumvarpi til laga um Vísinda- og tækniráð og frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, en saman mynda þessi þrjú frumvörp eina heild.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að Rannsóknarráð Íslands verði lagt niður sem vettvangur fyrir stefnumörkun í rannsóknarmálum. Í frumvarpi til laga um Vísinda- og tækniráð er lagt til að samnefnt ráð taki við þessu hlutverki og heyri það undir forsætis-ráðuneyti en njóti aðstoðar bæði menntamálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis. Í Rannsóknarráði Íslands sitja ellefu einstaklingar og eru varamenn þeirra jafnmargir, en gert er ráð fyrir að í Vísinda- og tækniráði sitji fjórir ráðherrar auk fjórtán annarra fulltrúa og verði varamenn fjórtán. Áætlað er að útgjöld vegna aðal- og varamanna í Rannsóknarráði Íslands og aðstoð við störf þeirra hafi numið 13–15 m.kr. á síðasta ári. Ekki liggur fyrir hvernig þau útgjöld skiptast milli vinnu við stefnumörkun og við önnur viðfangsefni. Fjármálaráðuneytið telur að frumvarpið feli ekki í sér breytingu á umfangi og þar með útgjöldum ríkisins vegna stefnumörkunar í rannsóknarmálum heldur sé um að ræða tilfærslu innan ríkisins, frá Rannsóknaráði Íslands og til ráðuneyta.
    Í öðru lagi er lagt til að nýr sjóður, Rannsóknasjóður, taki við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs og að nýr sjóður, Tækjasjóður, taki við hlutverki Bygginga- og tækja-sjóðs. Tekjustofnar sjóðanna breytast ekki og ekkert kemur fram um breytingar á framlögum til þeirra úr ríkissjóði í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að í stjórn Rannsóknasjóðs sitji fimm menn sem ákveði styrkveitingar á grundvelli umsagna nokkurra fagráða og sitji allt að sjö manns í hverju þeirra. Samkvæmt gildandi lögum er það hlutverk Rannsóknarráðs Íslands að úthluta styrkjum á grundvelli tillagna fimm manna úthlutunarnefndar fyrir hvorn sjóð, Tæknisjóð og Vísindasjóð. Úthlutunarnefndirnar byggja tillögur sínar á umsögnum ráðgefandi fagráða. Bygginga- og tækjasjóður hefur einnig verið í umsjón Rannsóknarráðs Íslands og menntamálaráðherra staðfest tillögur um úthlutun úr honum. Áætlað er að útgjöld vegna þjónustu skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands við sjóðina hafi numið tæpum 40 m.kr. á síðasta ári. Ætla verður að fækkun þeirra sem koma að úthlutun lækki kostnað við stjórn sjóðanna, en ekki liggja fyrir nægar upplýsingar til að áætla fjárhæðir í þessu sambandi.
    Í þriðja lagi er lagt til að stofnuð verði Rannsóknamiðstöð Íslands er taki við meginhluta þeirrar starfsemi sem nú er unnin af skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands. Sú formbreyting er lögð til í frumvarpinu að forstöðumaður verði skipaður af menntamálaráðherra til fimm ára í senn í stað þess að vera ráðinn af Rannsóknarráði til jafnmargra ára. Hlutverk Rannsóknamiðstöðvarinnar er að veita faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd vísinda- og tæknistefnu Vísinda- og tækniráðs. Verkefni miðstöðvarinnar verða að mestu leyti þau sömu og verkefni skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands þótt áherslur kunni að breytast. Áætlað er að útgjöld Rannsóknarráðs við alþjóðasamstarf, almenna stjórn, upplýsingasöfnun og kynningarstarf hafi numið tæpum 50 m.kr. á síðasta ári. Talið er að breytt fyrirkomulag muni lækka stjórnsýslukostnað eitthvað, en ekki eru forsendur til að áætla fjárhæðir. Menntamálaráðuneytið gerir ráð fyrir að undirbúa almenna stefnumótun í vísinda- og rannsóknarmálum og að ráðuneytið hafi umsjón með og undirbúi fundi Vísinda- og tækniráðs og Vísindanefndar. Talið er að það starf leiði til aukinna umsvifa hjá ráðuneytinu og að starfsmönnum þess fjölgi um allt að þrjá, háð því hvernig verkaskiptingu ráðuneytis og rannsóknarmiðstöðvar verður háttað. Fjárveitingar til rannsóknarmiðstöðvarinnar munu taka mið af þessu, en gert er ráð fyrir að útgjöld aðalaskrifstofu menntamálaráðuneytisins hækki um 18 m.kr.
    Í fjórða lagi er lagt til í bráðabirgðaákvæði að starf framkvæmdastjóra Rannsóknarráðs Íslands verði lagt niður við gildistöku laganna. Önnur störf færast til Rannsóknarmiðstöðvarinnar. Gera má ráð fyrir að af þessum sökum geti hlotist allt að 7 m.kr. biðlaunakostnaður.
    Í fimmta lagi er lagt til í bráðabirgðaákvæði að tímabundnar stöður rannsóknarprófessora samkvæmt gildandi lögum um Rannsóknarráð Íslands verði lagðar niður að lokinni samningsbundinni ráðningu þeirra sem nú skipa þær. Um er að ræða fimm störf hjá Háskóla Íslands og er áætlað að kostnaður við hvert starf hafi numið 5,7 m.kr. á árinu 2001 eða alls 28,5 m.kr. samkvæmt upplýsingum skólans.
    Þegar allt er talið telur fjármálaráðuneytið að frumvarpið muni leiða til lægri stjórnsýslukostnaðar verði það að lögum þótt ekki liggi fyrir nægar upplýsingar til að meta fjárhæðir í því sambandi. Þá mun frumvarpið leiða til 28,5 m.kr. árlegs sparnaðar eftir að stöður rannsóknarprófessora hafa verði lagðar niður. Á móti koma allt að 7 m.kr. tímabundin útgjöld vegna biðlauna.