Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 371. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 417  —  371. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    Á eftir orðinu „loknu“ í 3. og 4. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: sbr. 7. gr.

2. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um ríkissjóð og ríkisstofnanir sem greiða vexti samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

    3. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Stofn til staðgreiðslu sem arður samkvæmt lögum þessum teljast tekjur, sbr. 4. og 5. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. fjárhæð sú er félög skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 greiða eða úthluta.

4. gr.

    2. tölul. 2. mgr. 17. gr. laganna orðast svo: Álag til viðbótar af upphæð vanskilafjár reiknuð frá og með gjalddaga, hafi ekki verið greitt á 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga. Skal álag þetta vera hið sama og dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á því ári.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á viðurlögum vegna vangreiðslu til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Jafnframt eru lagðar til breytingar þar sem kveðið er skýrar á um skilaskyldu ríkis og ríkisstofnana.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Núgildandi 2. mgr. 2. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur hefur að geyma sérreglu um skattskil og skilagrein þeirra aðila sem almennt eru undanþegnir tekjuskatti og eignarskatti skv. 2.–7. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Lagt er til að aðilar í þessum hópi sem fengið hafa vaxtatekjur vegna eigin innheimtu og því ekki verið innheimtur skattur af í staðgreiðslu skuli skila skattinum að tekjuári loknu á gjalddaga skv. 7. gr. Með þessari breytingu verða skil á fjármagnstekjuskatti á sama tíma hjá öllum, þ.e. 15. janúar ár hvert.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að kveðið verði afdráttarlaust á um að ríkinu og stofnunum þess beri að halda eftir staðgreiðsluskatti af vöxtum sem greiddir eru. Breytingin leiðir til þess að stofnunum eins og, t.d. Ábyrgðasjóði launa og Tryggingastofnun ríkisins, ber skilyrðislaust að halda eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af vöxtum er þær greiða út. Virðast vera nokkur vanhöld á því að staðgreiðsluskattur af vöxtum sem þessar stofnanir greiða út hafi skilað sér í ríkissjóð.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að tekjur skv. 5. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, verði staðgreiðsluskyldar. Hér er um að ræða greiðslur samvinnufélaga og kaupfélaga til félagsaðila af viðskiptum þeirra við félögin sem annað hvort eru lagðar við stofnsjóð þeirra eða greiddar út til þeirra. Tekjur af viðskiptunum eru skattskyldar í hendi félagsaðilanna skv. 5. tölul. C-liðar 7. gr. og voru þær taldar hliðstæðar arði frá hlutafélögum að því er varðar frádrátt frá tekjum áður en skattur á fjármagnstekjur var lögleiddur. Engin ákvæði eru um staðgreiðslu skatts af tekjum skv. 5. tölul. C-liðar 7. gr. Tekjur sem skattskyldar eru skv. 6. tölul. C-liðar 7. gr. sem greiddar eru félagsaðilum ef um er að ræða viðskipti í tengslum við atvinnurekstur félagsaðilana ber að tekjufæra í atvinnurekstri viðkomandi og er hér ekki átt við slíkar tekjur.

Um 4. gr.

    Breytingar þær sem hér eru lagðar til eru tilkomnar vegna flutnings innheimtuþáttar staðgreiðslukerfis ríkisskattstjóra til Fjársýslu ríkisins. Meginbreytingin lýtur að því að lagt er til að dráttarvextir af staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur verði reiknaðir sem dagvextir í stað mánaðarvaxta samkvæmt gildandi lögum. Þá er lagt til að upphafstími vaxtanna verði frá gjalddaga hafi ekki verið greitt á 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 94/1996,
um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til annars vegar að gerð verði breyting á ákvörðun dráttarvaxta samkvæmt lögum um skatt á fjármagnstekjur til samræmis við frumvarp um breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sú breyting felur í sér að reiknaðir verði dráttarvextir á vangoldinn skatt sem dagvextir frá gjalddaga hafi ekki verið greitt á fyrsta degi næsta mánaðar eftir eindaga. Hins vegar er lagt til að kveðið verði skýrar á um skyldu ríkisaðila til að standa skil á fjármagnstekjuskatti. Verði frumvarpið að lögum er ekki ástæða til að ætla að útgjöld eða tekjur ríkissjóðs breyttist svo nokkru nemi.