Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 375. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 427  —  375. mál.




Frumvarp til laga



um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til björgunarsveita og björgunarsveitarmanna sem starfa innan viðurkenndra heildarsamtaka björgunarsveita.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Með björgunarsveit er átt við félag sem á grundvelli sjálfboðaliðastarfs tekur þátt í björgun, leit og gæslu að beiðni stjórnvalda.
    Með björgunarsveitarmanni er átt við skráðan einstakling í björgunarsveit sem tekur þátt í björgun, björgunaræfingum, leit og gæslu.
    Með stjórnvöldum er átt við öll stjórnvöld sem lögum samkvæmt fara með yfirstjórn björgunar- og leitarmála á hverjum tíma.
    Með björgun er átt við björgun manna eða verðmæta frá yfirvofandi hættu eða tjóni.
    Með leit er átt við leit að mönnum eða verðmætum.
    Með gæslu er átt við aðstoð við að gæta manna og verðmæta á svæðum sem lokað hefur verið vegna hættuástands.

II. KAFLI
Hlutverk, réttindi og skyldur
björgunarsveita og björgunarsveitarmanna.
3. gr.
Hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna.

    Hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna er að starfa í þágu almannaheilla með þátttöku við björgun, leit og gæslu á ábyrgð stjórnvalda og í samvinnu við þau.
    Stjórnvöld skulu í samráði við heildarsamtök björgunarsveita gera samkomulag um samskipti og samstarf björgunaraðila þar sem er kveðið á um skipulag björgunarmála, upplýsingaskyldu, útköll og boðskipti.

4. gr.
Skyldur björgunarsveita og björgunarsveitarmanna.

    Björgunarsveitum er skylt að hefja björgun, leit og gæslu ef eftir því er óskað af stjórnvaldi.
    Björgunarsveitarmönnum er skylt að gæta þagmælsku um mál sem þeir fá vitneskju um við störf samkvæmt lögum þessum og leynt skulu fara samkvæmt fyrirmælum stjórnvalda og eðli málsins.

5. gr.
Tryggingar.

    Björgunarsveitum er skylt að kaupa slysatryggingar fyrir félagsmenn sína.
    Björgunarsveitum er skylt að kaupa eignatryggingar fyrir því tjóni sem þær og björgunarsveitarmenn, vegna persónulegra muna, kunna að verða fyrir á eigum sínum við æfingar, björgun, leit og gæslu.
    Björgunarsveitum er skylt að kaupa ábyrgðartryggingar sem ná til tjóns sem athafnir björgunarsveitarmanna kunna að valda mönnum og tjóns á dýrum, munum og umhverfi.

III. KAFLI
Gildistaka.
6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.     Almennar athugasemdir.
    Þann 15. apríl 1997, skipaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið nefnd til þess að semja drög að frumvarpi til laga um hlutverk björgunarsveita, samstarf þeirra við lögreglu, almannavarnir og önnur stjórnvöld, svo og um réttindi og skyldur björgunarsveita og félagsmanna þeirra, þar sem m.a. skyldi kveðið á um ábyrgð á tjóni sem björgunarsveitir eða björgunarsveitarmenn kunna að verða fyrir við störf í þágu almannaheilla og um ábyrgð á tjóni sem kunna að hljótast af störfum þeirra vegna mistaka eða af öðrum ástæðum.
    Nefndin kom saman nokkrum sinnum á árinu 1997 en nefndarstörf lágu síðan niðri um alllangt skeið. Nefndin tók til starfa að nýju í apríl 2001. Inn í nefndina komu Guðmundur Sophusson sýslumaður sem formaður og Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, en fyrir voru Gunnar Tómasson og Ólafur Proppé frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Jón Magnússon, viðskiptafræðingur í fjármálaráðuneytinu. Bogi Hjálmtýsson, lögfræðingur hjá sýslumannsembættinu í Hafnarfirði, aðstoðaði nefndina en ritari var Sandra Baldvinsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Nefndarstörfum lauk í júní 2001 með því að senda dóms- og kirkjumálaráðuneytinu drög að frumvarpi til laga um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, ásamt greinargerð.

II.     Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins.
    Í íslenskri löggjöf er ekki að finna ákvæði um björgunarsveitir eða björgunarsveitarmenn. Heitið björgunarmenn er að finna í siglingalögum, nr. 34/1985. Í lögum nr. 59/1996, um rannsókn flugslysa, er notað heitið björgunar- og hjálparlið. Í lögum nr. 94/1962, um almannavarnir, er talað um hjálparlið. Í lögum nr. 19/1940, almennum hegningarlögum, er talað um björgunarlið og annað hjálparlið.
    Í lögreglulögum, nr. 90/1996, segir í 3. mgr. 6. gr. að lögreglustjórar fari með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða á landi. Um björgun sem heyrir undir skipulag almannavarna gilda sérstök lög. Ráðherra setur reglur um samstarf lögreglu og björgunarsveita. Í 7. mgr. 9. gr. sömu laga er kveðið á um að þeir sem kvaddir séu til aðstoðar lögreglu lögum samkvæmt fari með lögregluvald meðan þeir gegna starfanum og er sambærilegt ákvæði í 2. mgr. 20. gr. sömu laga.
    Lengi hafa fjölmargir einstaklingar starfað í félögum og samtökum sem sjálfboðaliðar við slysavarna- og björgunarstörf. Enginn efast um mikilvægi þessa óeigingjarna og mikla starfs í þágu almannaheilla. Hins vegar hefur réttarstaða þeirra einstaklinga sem vinna við björgunarstörf verið afar óljós en markmiðið með lagasetningu um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn er að draga úr óvissu. Hér er kveðið á um hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna við björgunar- og leitaræfingar, við björgun, leit og gæslu manna og verðmæta og skyldu þeirra við stjórnvöld og almenning auk þess að kveða á um réttindi þessara sömu aðila, sérstaklega varðandi ábyrgð og tryggingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Starfandi eru ein viðurkennd heildarsamtök björgunarsveita, Slysavarnafélagið Landsbjörg. Félagið var stofnað 2. október 1999 með sameiningu Slysavarnafélags Íslands og Landsbjargar, landssambands björgunarsveita. Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur innan sinna vébanda 5.000 björgunarsveitarmenn. Björgunarsveitarmenn innan samtakanna starfa í yfir 100 björgunarsveitum sem dreifðar eru um allt land. Sveitir þessar eru misstórar og öflugar eftir stærð og gerð byggðalaga sem þær starfa í. Innan björgunarsveita starfa sérhæfðir hópar á ýmsum sviðum, svo sem í sjóbjörgun, fjallabjörgun, rústabjörgun, fyrstu hjálp, köfun og svo framvegis. Félagar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg hljóta þjálfun samkvæmt samhæfðu námskerfi sem Björgunarskóli Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefur skipulagt fyrir félaga sveitanna. Árlega eru haldin um 300 námskeið fyrir björgunarsveitarmenn um land allt á vegum skólans.
    Starf björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar er skipulagt á landsvísu á þann hátt að starfað er á 18 svæðum með skipulagðri svæðisstjórn. Svæðisstjórnir stjórna björgunaraðgerðum innan hvers svæðis í umboði sveitanna. Til að samræma störf svæðisstjórna á landsvísu er starfandi Landsstjórn björgunarsveita sem hefur það hlutverk að samhæfa störf svæðisstjórna og getur tekið við stjórnun aðgerða á einstökum svæðum ef ástæða er til. Sjá enn fremur fylgiskjal með umfjöllun um Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Um 2. gr.


    Hvað varðar skilgreiningu á stjórnvöldum í 3. mgr. skal tekið fram að þau stjórnvöld sem núna eiga hlut að björgunarmálum eru dómsmálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, almannavarnaráð, almannavarnanefndir, flugmálastjórn, rannsóknarnefnd flugslysa, landhelgisgæslan, ríkislögreglustjóri, lögreglustjórinn í Reykjavík og sýslumenn sem lögreglustjórar.
    Hvað hugtakið gæslu snertir ber að hafa í huga að víða erlendis styðjast stjórnvöld við her eða heimarvarnarlið til þess að loka svæðum vegna hættuástands, svo sem vegna stórslysa eða náttúruhamfara. Hér á landi hafa björgunarsveitir meðal annarra sinnt þessu hlutverki. Hér er lagt til að notað verði orðið „gæsla“ yfir það hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna að koma í veg fyrir almenna óviðkomandi umferð manna, dýra og farartækja á svæðum sem lýst hafa verið hættusvæði af stjórnvöldum vegna stórslysa eða náttúruhamfara. Með gæslu í lögum þessum er ekki átt við öryggisgæslu, svo sem við heimsóknir erlendra þjóðhöfðingja. Hér er gert ráð fyrir því að almannahagsmunir séu í hættu og að gæsla standi ekki yfir í lengri tíma. Telja verður of íþyngjandi fyrir björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn að sinna gæslu svo dögum skiptir þar sem björgunarsveitarmenn eru sjálfboðaliðar og þiggja ekki laun fyrir störf sín. Þegar gæsla er nauðsynleg til lengri tíma er rétt að gera sérstakt samkomulag um þátttöku björgunarsveita. Þá mundi ákvæði þetta ekki ná til einkaréttarlegra hagsmunam, svo sem smölunar búfjár af afrétti vegna yfirvofandi ofsaveðurs.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna sem starfa í þágu almannaheilla með þátttöku við björgun, leit og gæslu á ábyrgð og í samvinnu við stjórnvöld. Ljóst er að björgunarsveitir sem skipulagðar eru og kostaðar af frjálsum félagasamtökum gegna oft lykilhlutverki við leitir og björgunaraðgerðir. Hlutverk stjórnvalda er að hafa yfirstjórn með aðgerðum en ekki að hafa afskipti af innra skipulagi björgunarsveita. Í því að viðkomandi stjórnvald fer með yfirstjórn aðgerða felst að björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn starfa jafnframt á ábyrgð stjórnvalda.
    Ekki er gert ráð fyrir því í 2. mgr. að gera þurfi samkomulag milli allra stjórnvalda og björgunarsveita sem starfa að björgunarmálum heldur einungis milli heildarsamtaka björgunarsveita og æðri stjórnvalda. Þannig hefur þegar verið gengið frá samkomulagi milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og almannavarnaráðs auk þess sem ríkislögreglustjóri og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa þegar hafið vinnu við reglur um samskipti lögreglu og björgunarsveita. Ekkert ætti þó að vera því til fyrirstöðu að sérstakt samkomulag verði gert við staðbundin stjórnvöld, t.d. vegna sérstakra staðhátta eða aðstæðna er snúa að mannafla og búnaði. Í 132. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, segir að samgöngumálaráðherra sé heimilt að setja reglur um leit og björgun er viðhafa skal þegar loftfars er saknað eða því hefur hlekkst á eða það hefur farist, þar á meðal um aðstoð þá sem einstaklingum og fyrirtækjum er skylt að veita við leit og björgunarstörf og um þóknun fyrir slíka aðstoð. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, að dómsmálaráðherra setji reglur um samstarf lögreglu og björgunarsveita.
    Markmið slíks samkomulags yrði að skýra hlutverk og reglur sem gilda um útköll á þá leið að ákvarða hvaða aðilar innan stjórnsýslunnar eru bærir til þess að kalla út björgunarsveitir, um samhæfingu og fjölda björgunarsveitarmanna og tækja sem kalla þarf út hverju sinni, samkipti og boðleiðir við útköll og á vettvangi, um faglega stjórnun á vettvangi o.s.frv.

Um 4. gr.


    Ákvæði 1. mgr. kveður skýrt á um skyldur björgunarsveita til að bregðast við beiðni réttmætra stjórnvalda um leit, björgun eða gæslu.
    Hér má benda á að í 1. mgr. 20. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, er kveðið á um skyldu fulltíða manna til að aðstoða lögreglu, m.a. við að afstýra óreglu og óspektum á almannfæri, og í 10. og 11. gr. almannavarnalaga, nr. 94/1962, er kveðið á um borgaralega skyldu fulltíða manna til að sinna störfum í þágu almannavarna.
    Við samningu ákvæðis 2. mgr. um þagnarskyldu var stuðst við 18. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70/1996.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir því að björgunarsveitum eða heildarsamtökum björgunarsveita sé skylt að slysatryggja félagsmenn sína gegn öllu því tjóni sem þeir kunna að verða fyrir eða valda. Með þessu ákvæði eru björgunarsveitum tryggð mikilsverð réttindi.
    Í ákvæði um slysatryggingar björgunarsveita skal tryggt að komi ákvæði sem tryggi bótastöðu þeirra í tilfellum sem leiða til veikinda björgunasveitarmanna vegna utanaðkomandi aðstæðna, svo sem við ofkælingu, kal, ofhitnun og eitrun.
    Í 2. mgr er gert ráð fyrir að skylt sá að kaupa eignatryggingu fyrir tjóni sem björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn verða fyrir á eignum sínum við æfingar, björgun, leit og gæslu. Með tjóni sem björgunarsveitarmenn kunna að verða fyrir er átt við tryggingar á persónulegum búnaði björgunarsveitarmanna sem þeir leggja til starfa sinna fyrir björgunarsveit. Þó er ekki átt við vélknúin farartæki eins og bíla og vélsleða í eigu björgunarsveitamanna.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Þróttmikið starf í þágu þjóðar.


    Slysavarnafélagið Landsbjörg eru ein stærstu sjálfboðaliðasamtök landsins en innan þeirra raða starfa ríflega 18.000 félagar í björgunarsveitum, slysavarna- og unglingadeildum. Sameiginlegt baráttumál þeirra er að bjarga mannslífum og verðmætum og koma í veg fyrir slys.
    Slysavarnafélagið Landsbjörg á rætur sínar að rekja allt aftur til fullveldisársins, 1918, þegar björgunarsveit var stofnuð í Vestmannaeyjum, fjöldi björgunarsveita fylgdi í kjölfar þess og í dag mynda þær þéttriðið net um allt land.
    Hlutverk félagsins og aðildareininga þess í björgunar- og slysavarnastarfi landsins er mjög mikið og nýtur félagið trausts og velvild þjóðarinnar og ráðamanna hennar.

Björgunarsveitir.
    Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru ríflega eitt hundrað talsins og í þeirra röðum eru á fimmta þúsund manns sem eru til taks að nóttu sem degi allan ársins hring. Sú fagmennska sem einkennir starf íslenskar björgunarsveita á sér fáar hliðstæður og hefur vakið eftirtekt víða um heim.
    Við sérhæfingu einstakra björgunarhópa á undanförnum árum hefur orðið til mikil sérþekking á hinum margvíslegu aðstæðum sem upp kunna að koma bæði til sjós og lands. Félagsmenn sækja þá sérþekkingu víða að, jafnt innan lands sem utan.
    Björgunarsveitirnar hafa yfir að ráða gríðaröflugum tækjakosti og má þar nefna um 200 breytta björgunarbíla, 100 fólksflutningabíla, 200 vélsleða, 35 snjóbíla, 9 stór björgunarskip, 25 harðbotna hraðbáta, 100 slöngubáta. Búnaður björgunarsveitanna er bæði sérhæfður og fjölbreyttur, þar má nefna búnað til að sinna: hópslysum, rústabjörgun, snjóflóðaleit og -björgun, fjalla- og jöklabjörgun, köfun og víðavangsleit.
    Ísland er harðbýlt land sem sést glöggt á þeim náttúruöflum sem móta landið, á sama tíma býr þar fámenn en dugmikil þjóð. Þar af leiðandi er það hlutfallslega afl sem björgunarsveitir félagsins leggja til samfélagsins við stóráföll mjög mikið. Þannig koma að jafnaði um 75% þeirra viðbragðsaðila sem sinna björgunar- og öryggisstörfum á vettvangi stóráfalla úr röðum björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar. (Aftast í þessu skjali er að finna lista yfir heiti og staðsetningu björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar.)

Slysavarnadeildir.
    Innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru starfandi um 80 slysavarnadeildir sem hafa það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir slys og óhöpp. Öflugt fræðslu- og útgáfustarf einkennir starf þeirra ásamt átaksverkefnum af ýmsum toga, svæðisbundnum eða samstarfsverkefnum á landsvísu. Hér er oft um umfangsmikla málaflokka að ræða, svo sem umferðaröryggi og öryggi barna. Víða um land styðja slysavarnadeildirnar einnig við bakið á björgunarsveitunum, aðstoða þær við fjáröflun og veita þeim margháttaðan stuðning vegna útkalla og aðgerða.

Unglingadeildir.
    Innan unglingadeilda félagsins hefur mikill fjöldi ungs fólks fundið athafnaþrá sinni farveg til heilbrigðra og uppbyggjandi starfa. Unglingadeildirnar eru 35 talsins og starfa í tengslum við björgunarsveitir félagsins víða um land. Þar kynnast unglingarnir starfi björgunar- og slysavarnasveita. Gildi unglingadeildastarfsins er í meginatriðum tvíþætt, annars vegar að skapa unglingum spennandi og jákvæðan vettvang í frítímum og hins vegar mótast þar framtíðar björgunar- og slysavarnafólk.

Framfaraspor í öryggismálum.
    Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur allt frá upphafi lagt grunninn að ýmsu því sem í dag mótar öryggi þjóðarinnar, jafnt í starfi sem leik. Má þar nefna: kaup og rekstur á fyrstu björgunarþyrlu landsins, uppbygging og rekstur Tilkynningarskyldu íslenskra skipa, uppbygging og rekstur Slysavarnaskóla sjómanna, einn af stofnaðilum Umferðarráðs í framhaldi af áratuga farsælu umferðaöryggisstarfi.
    Slysavarnafélagið Landsbjörg er og mun halda áfram að vera leiðandi afl í björgunar- og slysavarnamálum íslensku þjóðarinnar.

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Björgunarfélag Akraness, Akranesi.
Björgunarfélag Árborgar, Selfossi.
Björgunarfélagið Blanda, Blönduósi.
Björgunarfélagið Eyvindur, Flúðum.
Björgunarfélag Hornafjarðar, Höfn í Hornafirði.
Björgunarfélag Ísafjarðar.
Björgunarfélag Vestmannaeyja.
Björgunarhundasveit Íslands, Reykjavík.
Björgunarsveit Árskógsstrandar.
Björgunarsveitin Ársól, Reyðarfirði.
Björgunarsveitin Ársæll, Reykjavík.
Björgunarsveitin Bára, Djúpavogi.
Björgunarsveitin Berserkir, Stykkishólmi.
Björgunarsveit Biskupstungna.
Björgunarsveitin Björg (Drangsnesi).
Björgunarsveitin Björg (Eyrarbakka).
Björgunarsveitin Björg (Hellissandi).
Björgunarsveitin Björg (Suðureyri).
Björgunarsveitin Björgólfur, Stöðvarfirði.
Björgunarsveitin Blakkur, Patreksfirði.
Björgunarsveitin Brák, Borgarnesi.
Björgunarsveitin Brimrún, Eskifirði.
Björgunarsveitin Bræðrabandið, Patreksfirði.
Björgunarsveitin Bróðurhöndin, Eyjafjöllum.
Björgunarsveitin Dagrenning (Hólmavík).
Björgunarsveitin Dagrenning (Hvolsvelli).
Björgunarsveitin Dalvík.
Björgunarsveitin Dýri, Þingeyri.
Björgunarsveitin Eining (Breiðdalsvík).
Björgunarsveitin Eining (Þykkvabæ).
Björgunarsveitin Elliði, sunnanverðu Snæfellsnesi.
Björgunarsveitin Ernir, Bolungavík.
Björgunarsveitin Garðar, Húsavík.
Björgunarsveitin Geisli, Fáskrúðsfirði.
Björgunarsveitin Gerpir, Neskaupsstað.
Björgunarsveitin Grettir, Hofsósi.
Björgunarsveitin Hafliði, Þórshöfn.
Björgunarsveit Hafnarfjarðar.
Björgunarsveitin Heiðar, Varmalandi.
Björgunarsveitin Heimamenn, Reykhólum.
Björgunarsveitin Hérað, Egilstöðum.
Björgunarsveitin Ingunn, Laugarvatni.
Björgunarsveitin Ísólfur, Seyðisfirði.
Björgunarsveitin Jökull, Jökuldal.
Björgunarsveitin Jörundur, Hrísey.
Björgunarsveitin Káraborg, Hvammstanga.
Björgunarsveitin Kári, Öræfum.
Björgunarsveitin Kjölur, Kjalarnesi.
Björgunarsveitin Klakkur, Grundarfirði.
Björgunarsveitin Kofri, Súðavík.
Björgunarsveitin Kópur, Bíldudal.
Björgunarsveitin Kyndill (Kirkjubæjarklaustri).
Björgunarsveitin Kyndill (Mosfellsbæ).
Björgunarsveit Landeyja.
Björgunarsveitin Lífgjöf, Álftaveri.
Björgunarsveitin Mannbjörg, Þorlákshöfn.
Björgunarsveit Mýrarhrepps.
Björgunarsveitin Núpur, Kópaskeri.
Björgunarsveitin Ok, Borgarfirði.
Björgunarsveitin Ósk, Búðardal.
Björgunarsveitin Pólstjarnan, Raufarhöfn.
Björgunarsveitin Sigurgeir, Gnúpverjahreppi.
Björgunarsveitin Sigurvon, Sandgerði.
Björgunarsveitin Skagfirðingasveit.
Björgunarsveitin Skyggnir, Vogum.
Björgunarsveitin Stefán, Mývatnssveit.
Björgunarsveitin Stjarnan, Meðallandi.
Björgunarsveitin Strandasól, Árneshreppi.
Björgunarsveitin Strákar, Siglufirði.
Björgunarsveitin Sveinungi, Borgarfirði eystri.
Björgunarsveitin Skagaströnd.
Björgunarsveitin Sæbjörg (Flateyri).
Björgunarsveitin Sæbjörg (Ólafsvík).
Björgunarsveitin Sæþór, Grímsey.
Björgunarsveitin Suðurnes.
Björgunarsveitin Tálkni, Tálknafirði.
Björgunarsveitin Tindur, Ólafsfirði.
Björgunarsveitin Tindar, Hnífsdal.
Björgunarsveitin Týr, Svalbarðsströnd.
Björgunarsveitin Víkverji, Vík.
Björgunarsveitin Vopni – Örn, Vopnafirði og Bakkafirði.
Björgunarsveitin Þingey, Ljósavatnshreppi.
Björgunarsveitin Þorbjörn, Grindavík.
Björgunarsveitin Ægir (Garði).
Björgunarsveitin Ægir (Grenivík).
Flugbjörgunarsveitin, A-Eyjafjöllum.
Flugbjörgunarsveitin, Hellu.
Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík.
Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð.
Flugbjörgunarsveitin, V-Húnavatnssýslu.
Hjálparsveit skáta, Aðaldal.
Hjálparsveit skáta, Fjöllum.
Hjálparsveit skáta, Garðabæ.
Hjálparsveit skáta, Hveragerði.
Hjálparsveit skáta, Kópavogi.
Hjálparsveit skáta, Reykjadal.
Hjálparsveit skáta, Reykjavík.
Hjálparsveitin Dalbjörg, Eyjafirði.
Hjálparsveitin Lómfell, Barðaströnd.
Hjálparsveitin Tintron, Grímsnesi.
Leitarhundar Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Reykjavík.
Súlur, björgunarsveitin á Akureyri.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn.

    Í frumvarpi þessu eru ákvæði um hlutverk, réttindi og skyldur björgunarsveita og björgunarsveitamanna. Þá er í frumvarpinu lagt til að björgunarsveitum eða heildarsamtökum þeirra verði skylt að slysatryggja félagsmenn sína gegn öllu tjóni sem þeir kunna að verða fyrir eða verða valdir að. Ákvæði frumvarpsins fela ekki í sér skuldbindingar um útgjöld ríkissjóðs verði þau lögfest.