Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 302. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 481  —  302. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um erfðabreyttar lífverur.

     1.      Hvað líður endurskoðun tilskipunar Evrópusambandsins nr. 90/220/EBE um erfðabreyttar lífverur og hvaða breytinga má vænta hér á landi í kjölfarið?
    Endurskoðun tilskipunar 90/220/EBE um sleppingar og markaðssetningar á erfðabreyttum lífverum er lokið. Tilskipun 2001/18/EB um vísvitandi sleppingar erfðabreyttra lífvera út í náttúruna var samþykkt af Evrópuþinginu og ráðinu 12. mars 2001 og var hún birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins 17. apríl 2001. Samkvæmt 34. gr. tilskipunarinnar skal vera búið að koma ákvæðum hennar til framkvæmda fyrir 17. október 2002 gagnvart þeim laga- og reglugerðarbreytingum sem gera þarf á grundvelli hennar. Frá sama tíma fellur eldri tilskipunin, nr. 90/220/EBE, úr gildi, sbr. 36. gr. tilskipunarinnar. Ólíklegt er að tilskipunin komi inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið alveg á næstunni, enda er gerðin í lagalegri skoðun allra EFTA-ríkjanna sem eru í EES þar sem hún krefst aðlögunar að tveggja stoða kerfi EES.
    Hér á landi hefur verið unnið að nýrri reglugerð um sleppingar og markaðssetningar erfðabreyttra lífvera sem mun koma í stað reglugerðar nr. 463/1997, um erfðabreyttar lífverur. Þeirri vinnu er að mestu lokið en reglugerðarsetning bíður þar til tilskipunin hefur öðlast gildi hér á landi. Reglugerðardrögin voru unnin á grundvelli framangreindrar tilskipunar 2001/18/EB.
    Tilskipun 2001/18/EB er ný heildartilskipun sem fjallar um tilraunasleppingar og markaðssetningu á erfðabreyttum lífverum. Markmið tilskipunarinnar er að gera meðferð umsókna skilvirkari án þess að draga úr varúðarráðstöfunum gagnvart heilsu manna og dýra og gagnvart umhverfinu. Enn fremur á að gera alla umfjöllun um umsóknir opnari og gagnsærri, veita almenningi rétt til andmæla og auka rekjanleika erfðabreyttra lífvera með merkingum. Með tilskipuninni eru gerðar auknar kröfur um upplýsingagjöf til almennings og rétt hans til að koma að athugasemdum. Þá eru gerðar auknar kröfur um hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til að leyfi fáist til markaðssetningar sem felur í sér auknar skyldur á umsækjanda. Umsóknarferli vegna markaðssetningar erfðabreyttra lífvera er breytt og dregið hefur verið úr aðkomu annarra lögbærra yfirvalda en þeirra sem taka við umsókn.
    Að mati ráðuneytisins kallar tilskipunin á breytingar á lögum um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, en þau lög voru sett til að uppfylla tilskipanir nr. 90/219/EBE og 90/220/EBE. Þau atriði sem einkum kalla á lagabreytingar eru eftirfarandi:
    Í 2. tölul. 13. gr. tilskipunarinnar er fjallað um umsóknir um markaðssetningar og það sem fylgja skal umsóknum. Greinin kallar á lagabreytingar þar sem í henni felst takmörkun á tímalengd leyfis vegna markaðssetningar, sem er að hámarki 10 ár, en sú takmörkun er ekki fyrir hendi í dag. Þá er gerð krafa um að umsókn fylgi ítarleg vöktunaráætlun vegna markaðssetningar og sleppingar. Þetta er gert í því skyni að fylgjast með hugsanlegri beinni eða óbeinni hættu sem koma kann fram þegar í stað eða síðar við markaðssetningu og sleppingu. Jafnframt eru gerðar auknar kröfur um merkingar vörunnar. Þannig skal m.a. tilgreina ef vara inniheldur erfðabreyttar lífverur og einnig hverjar þær eru. Þá eru gerðar kröfur um að með umsókn skuli fylgja tillaga um umbúðir.
    Tilskipunin felur í sér ríkari upplýsingaskyldu gagnvart almenningi en verið hefur. Þarf því að styrkja þá lagastoð sem nú er í lögum um erfðabreyttar lífverur. Víða í tilskipuninni eru ákvæði um upplýsingaskyldu, sbr. 8., 9., 16., 4. tölul. 19. gr. og 25. gr. hennar. Samkvæmt 8. gr. er stjórnvaldi skylt að gera upplýsingar sem það fær og geta haft verulegar afleiðingar gagnvart heilsu fólks og umhverfi aðgengilegar almenningi. Þá kveður 9. gr. á um upplýsingagjöf og samráð við almenning vegna sleppinga erfðabreyttra lífvera. Almenningur á rétt á að tjá sig um sleppingar innan tilskilins frests. Þá er í 16. gr. fjallað um upplýsingar sem gera á aðgengilegar almenningi vegna beiðni um frávik frá umsóknarferli, og kveðið á um að almenningi sé gefið færi á að tjá sig. Í 25. gr. er kveðið á um hvaða upplýsingar teljast ekki trúnaðarmál.

     2.      Hvernig hefur fræðslu til almennings um þau áhrif sem erfðabreyttar lífverur geta haft á umhverfið verið háttað hingað til?

    Á vegum stjórnvalda hefur fræðsla um hugsanleg áhrif erfðabreyttra lífvera á umhverfið einkum farið fram á heimasíðu Hollustuverndar ríkisins og í fyrirlestrum sem starfsmenn stofnunarinnar hafa haldið. Þá stofnaði umhverfisráðuneytið til opins fundar um erfðabreytt matvæli í mars árið 2000 og þar voru m.a. flutt erindi um hugsanleg áhrif erfðabreyttra lífvera á umhverfið.

     3.      Eru áformaðar sértækar aðgerðir til að koma í veg fyrir hugsanlega erfðamengun í lífríki Íslands af völdum erfðabreyttra lífvera, t.d. í gróðri og fiski?

    Lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, og reglugerðum, sem settar hafa verið með stoð í þeim, er ætlað að koma í veg fyrir hugsanlega erfðamengun í lífríki Íslands af völdum erfðabreyttra lífvera. Auk þess hefur Ísland undirritað Cartagena-bókunina sem gerð hefur verið við samninginn um líffræðilega fjölbreytni og fjallar um lifandi erfðabreyttar lífverur þar sem fjallað er um innflutning, dreifingu og notkun lifandi erfðabreyttra lífvera. Ráðuneytið vinnur nú að undirbúningi þess að hægt verði að leggja fram þingsályktunartillögu um að Ísland fullgildi bókunina.

     4.      Hvernig eru íslensk lög og reglur varðandi erfðabreyttar lífverur frábrugðin því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum?

    Íslensk lög og reglur varðandi erfðabreyttar lífverur eru í meginatriðum þær sömu og annars staðar á Norðurlöndunum þar sem reglur allra ríkjanna eru byggðar á tilskipunum Evrópusambandsins.