Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 435. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 589  —  435. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, með síðari breytingum.

Flm.: Ágúst Einarsson, Vilhjálmur Egilsson.



1. gr.

    2. tölul. 11. gr. laganna orðast svo: að stuðla að því að skráning, viðskipti og verðmyndun í kauphöllinni, m.a. með erlend verðbréf, verði á skýran og gagnsæjan hátt og kappkosta að jafnræði sé með aðilum að viðskiptum sem þar fara fram og tryggja að starfrækt sé skipulegt viðskipta- og upplýsingakerfi, sbr. 21.–23. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Tilgangur með þessu lagafrumvarpi er að hafa skýr ákvæði í lögum fyrir Kauphöll Íslands um verslun með erlend hlutabréf. Markmiðið er að kauphöllin sýni frumkvæði í því með stuðningi stjórnvalda að á hinu íslenska verðbréfaþingi verði hafin verslun með hlutabréf erlendra sjávarútvegsfyrirtækja og að Kauphöll Íslands geti þar með orðið í fararbroddi í hlutabréfaviðskiptum í sjávarútvegi í heiminum. Ísland hefur allar forsendur til að verða miðstöð fjármálaviðskipta í sjávarútvegi þar sem hér er umtalsverð sérþekking í sjávarútvegi og nær sú sérþekking ekki hvað síst til viðskipta með hlutabréf í þessum geira. Þannig er greining á ársreikningum og mat á horfum þýðingarmikill þáttur í starfi íslenskra fjármálafyrirtækja.
    Mörg fordæmi eru fyrir því að félög skrái sig í kauphöllum sem eru miðstöðvar á sínu sviði. Þannig eru flest stór málmfyrirtæki skráð í kauphöllinni í London og alþjóðleg siglingafyrirtæki eru mörg skráð í norsku kauphöllinni þótt aðsetur fyrirtækjanna sé annars staðar. Íslendingar eru ellefta mesta fiskveiðiþjóð í heimi og sjávarútvegur er eina sviðið þar sem Íslendingar hafa sterka efnahagslega stöðu á alþjóðlegum vettvangi.
    Í ágústbyrjun sl. voru 48 fyrirtæki skráð í Kauphöll Íslands og voru 16 þeirra úr sjávarútvegi. Markaðsvirði þessara 16 fyrirtækja var þá 148 milljarðar kr. Á þessu sést að gífurlegur styrkur er í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og sérþekking á fjármálasviðinu hefur vaxið mjög í kjölfarið. Kauphöll Íslands er því vel fær um að hrinda af stað sókn í þessu efni og hafa ýmsir tekið undir hugmyndina, þar á meðal forstjóri kauphallarinnar, enda er Kauphöll Íslands þegar einn umfangsmesti vettvangur í heimi með hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum.
    Ef pólitískur vilji er fyrir því að hefja slíka sókn, sem yrði íslensku efnahagslífi mjög til framdráttar, þarf að kanna vel öll lagaákvæði sem gætu tengst þessum viðskiptum og má þar nefna lög um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996, lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, og þau lög sem þetta frumvarp á við, þ.e. lög um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998.
    Íslenskur fjármálamarkaður einkennist af vel menntuðu fólki sem hefur margt getið sér góðs orðs erlendis. Mörg lönd hafa einbeitt sér að alþjóðlegri fjármálastarfsemi og mikil verðmætasköpun hefur orðið í kjölfar þess. Má þar nefna Lúxemborg sem dæmi. Íslendingar hafa mikla burði til að vera mun meira áberandi á þessu sviði og ein besta leiðin til þess er að framkvæma það sem hér er lagt til. Óbein áhrif þessa verða mjög mikil og erlend fyrirtæki fengju betri þekkingu á íslensku efnahagslífi og það gæti stuðlað að fjárfestingu erlendra aðila á fjölmörgum sviðum hérlendis. Íslendingar hafa mjög gott orð á sér í sjávarútvegsmálum víða í heiminum og reka fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki erlendis. Því mundu mörg erlend sjávarútvegsfyrirtæki sjá sér hag í því að vera með fyrirtæki sín skráð í íslensku kauphöllinni þar sem sérþekking og virkur markaður er fyrir hendi.