Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 388. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 789  —  388. mál.




Svar



ráðherra Hagstofu Íslands við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur um þróun verðlags barnavara.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig hefur verðlag á eftirfarandi barnavörum þróast sl. fimm ár:
                  a.      ungbarnamat (mauki, grautum o.s.frv.),
                  b.      þurrmjólkurdufti,
                  c.      bréfbleium,
                  d.      barnabílstólum,
                  e.      barnavögnum og kerrum,
                  f.      hlutum til slysavarna barna á heimilum (öryggishliðum, eldavélarhlífum o.s.frv.),
                  g.      barnafötum?
     2.      Hvert hefur hlutfall opinberra gjalda verið í verðlagi þessara vara sl. fimm ár, sundurliðað eftir flokkum ef unnt er?
     3.      Hverjar eru tekjur ríkissjóðs af sölu varanna sl. fimm ár, sundurliðað eftir flokkum ef unnt er?


    Enginn liðanna sem spurt er um vegur þungt í vísitölu neysluverðs. Af þessum sökum nær upplýsingasöfnun Hagstofunnar til tiltölulega fárra vara af þessu tagi. Þetta veldur því einnig að megnið af upplýsingunum sem beðið er um er ekki birt þar sem birting færi í bága við reglur um trúnað í hagskýrslugerð.
    Reglurnar sem gilda um birtingu eru á þann veg að undirvísitölur eru ekki birtar ef vægi viðkomandi liðar er minna en 0,1% af heildarútgjöldum vísitölunnar, staðalfrávik frá meðaltali útgjaldaliðarins er meira en 20% eða ef verðmælingin nær aðeins til einnar eða svo fárra vara að unnt er að ráða nákvæmlega af birtum tölum hvaða vörumerki á í hlut.
    Af því sem spurt er um eru það aðeins upplýsingar um bleiur og barnaföt sem uppfylla skilyrðin fyrir birtingu. Barnaföt hafa lækkað í verði um 9,2% frá desember 1997 til desember 2002. Bleiur hafa hækkað í verði um 10,5% á sama tímabili.
    Hagstofan getur ekki veitt svör við 2. og 3. lið fyrirspurnarinnar enda safnar hún ekki upplýsingum um hlutfall opinberra gjalda í vöruverði né um tekjur ríkisins af sölu einstakra neysluvara.