Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 485. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 797  —  485. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Nýr töluliður bætist við 2. mgr. 21. gr., svohljóðandi: Staðfesting á aðild að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf. og á þátttöku í starfsemi tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðvar samkvæmt umferðarlögum sé sótt um leyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 22. gr. Jafnframt skal upplýst um tjónsuppgjörsfulltrúa í sérhverju aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og Fríverslunarsamtaka Evrópu.

2. gr.

    4. tölul. 2. mgr. 64. gr. verður svohljóðandi: Staðfestingar á aðild að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf. og á þátttöku í starfsemi tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðvar samkvæmt umferðarlögum sé sótt um leyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 22. gr. Jafnframt skal upplýst um tjónsuppgjörsfulltrúa í sérhverju aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og Fríverslunarsamtaka Evrópu.

3. gr.

    4. tölul. 2. mgr. 65. gr. verður svohljóðandi: Staðfestingar á aðild að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf. og á þátttöku í starfsemi tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðvar samkvæmt umferðarlögum sé sótt um leyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 22. gr. Jafnframt skal upplýst um tjónsuppgjörsfulltrúa í sérhverju aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og Fríverslunarsamtaka Evrópu og um nafn og aðsetur fulltrúa hér á landi sem hefur með höndum tjónsuppgjör, sbr. 5. mgr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þau vátryggingafélög sem hlotið hafa starfsleyfi skv. 26. gr. laganna við gildistöku laga þessara skulu þegar í stað grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að uppfylla skilyrði laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Megintilgangur frumvarps þessa er að lögfesta ákvæði tilskipunar nr. 2000/26/EB frá 16. maí 2000, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um breytingu á tilskipunum ráðsins nr. 73/239/EBE og nr. 88/357/EBE (fjórða tilskipun um ökutækjatryggingar). Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 4/2001 31. janúar 2001. Auk þess er í frumvarpinu gert ráð fyrir að umsækjandi um starfsleyfi vátryggingafélags leggi fram staðfestingu á aðild að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf. (ABÍ). Þá felur frumvarpið í sér, í samræmi við ákvæði nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), svonefnds Vaduz-samnings, að ákvæði tilskipana um ökutækjatryggingar skuli einnig gilda gagnvart EFTA-ríkjum sem ekki eru aðilar að EES-samningnum og á það þannig við um Sviss.
    Frumvarpið er lagt fram sem fylgifrumvarp með frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á umferðarlögum, nr. 50/1987 (meðferð bótakrafna vegna tjóna erlendis). Við samningu frumvarpsins var haft samráð við Samband íslenskra tryggingafélaga, Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. og Fjármálaeftirlitið.
    Tilskipunin gerir ráð fyrir því að vátryggingafélagi sem tekur að sér ábyrgðartryggingu vélknúinna ökutækja sé skylt að tilnefna tjónsuppgjörsfulltrúa í öllum öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins en því þar sem félagið hefur fengið starfsleyfi. Tilnefning tjónsuppgjörsfulltrúa og stofnun tjónsuppgjörsaðila í öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og EFTA-ríkjunum mun auðvelda tjónþola að reka bótakröfu vegna umferðaslyss í öðru aðildarríki, þar sem hann getur beint kröfu sinni að tjónsuppgjörsfulltrúa vátryggingafélagsins í sínu heimalandi.
    Tilskipunin gerir enn fremur ráð fyrir því að hvert aðildarríki komi á fót eða viðurkenni upplýsingamiðstöð sem á að aðstoða tjónþola við að afla upplýsinga um það ökutæki sem valdið hefur tjóni og hvernig vátryggingu þess er háttað. Einnig er gert ráð fyrir að hvert aðildarríki komi á fót eða viðurkenni tjónsuppgjörsaðila sem ætlað er að annast greiðslur bóta til tjónþola sem fellur undir tilskipunina. Í frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á umferðarlögum er að finna ný ákvæði, sem eiga að verða 94. gr. a og b., þar sem lagt er til að dómsmálaráðherra skuli viðurkenna tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöð hér á landi. Í athugasemdum við það frumvarps kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að nýjum aðilum verði komið á fót í þessu skyni, heldur að ABÍ annist þetta hlutverk.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. er lagt til að nýr töluliður bætist við 2. mgr. 21. gr. laganna sem fjallar um það hvaða gögn skuli fylgja umsókn um starfsleyfi vátryggingafélags. Gerir ákvæðið ráð fyrir að leggja þurfi fram staðfestingu á aðild að ABÍ með umsókn um starfsleyfi vátryggingafélags. Ekki er hér um nýjung að ræða því öll vátryggingafélög sem taka að sér lögmæltar ökutækjatryggingar hafa verið aðilar að ABÍ. Sú aðild byggðist í upphafi á samkomulagi vátryggingafélaganna og þátttöku þeirra í tilhöguninni um græna kortið en byggist nú á 3. gr. reglugerðar nr. 556/1993, um lögmæltar ökutækjatryggingar. Eðlilegt er að áskilnaður þessi komi fram í lögum um vátryggingastarfsemi ásamt öðrum skilyrðum fyrir starfsleyfi vátryggingafélaga.
    Enn fremur er gert ráð fyrir staðfestingu vátryggingafélags á þátttöku í starfsemi tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðvar samkvæmt umferðarlögum, sé sótt um starfsleyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 22. gr., þ.e. í greinaflokknum ábyrgðartryggingar ökutækja. Um tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöð hefur lítillega verið fjallað í almennum athugasemdum við frumvarp þetta og vísast til þess og enn fremur frumvarps til breytinga á umferðarlögum, þar sem hlutverk þessara stofnana er skilgreint.
    Að lokum er gert ráð fyrir að vátryggingafélag tilnefni tjónsuppgjörsfulltrúa í sérhverju aðildarríki EES-samningsins og EFTA. Með tjónsuppgjörsfulltrúa er átt við fulltrúa skv. 4. gr. tilskipunar nr. 2000/26/EB. Hlutverk tjónsuppgjörsfulltrúa er að fara með kröfur og uppgjör vegna tjóna af völdum slysa sem hlotist hafa af notkun ökutækis sem vátryggt er í öðru aðildarríki EES-samningsins en því ríki þar sem tjónþoli er búsettur eða í ríki sem hefur gerst aðili að tilhöguninni um græna kortið ef ökutækið er að öllu jöfnu staðsett í aðildarríki EES- samningsins.
    Tjónsuppgjörsfulltrúi skal vera búsettur eða hafa staðfestu í því aðildarríki sem hefur tilnefnt hann. Val vátryggingafélags á tjónsuppgjörsfulltrúa er ákvörðun vátryggingafélags og er aðildarríki óheimilt að takmarka það val. Tjónsuppgjörsfulltrúi skal hafa umboð til að koma fram fyrir hönd vátryggingafélags gagnvart tjónþolum og er honum heimilt að starfa fyrir fleiri en eitt vátryggingafélag. Hlutverk tjónsuppgjörsfulltrúa er að safna saman öllum nauðsynlegum upplýsingum í tengslum við kröfur vegna slysa og gera viðeigandi ráðstafanir til að gera upp kröfur fyrir hönd vátryggingafélags og á kostnað þess, þar á meðal skaðabætur. Skal hann vera fær um að sinna starfi sínu á tungumáli þess aðildarríkis þar sem tjónþoli er búsettur. Tilnefning tjónsuppgjörsfulltrúa kemur þó ekki í veg fyrir að tjónþoli eða vátryggingafélag hans geti beint kröfum sínum að tjónvaldi eða vátryggingafélagi hans.
    Vátryggingafélag tjónvalds eða tjónsuppgjörsfulltrúi skal eigi síðar en þremur mánuðum eftir að tjónþoli lagði fram bótakröfu sína, leggja fram annaðhvort rökstutt tilboð um bætur (sé bótaábyrgð viðurkennd og hafi tjónið verið metið) eða rökstutt svar við kröfu tjónþola (ef bótaábyrgð er hafnað eða tjónið hefur ekki verið gert endanlega upp). Enn fremur er gert ráð fyrir að vextir reiknist á fjárhæð bóta, hafi tilboð vátryggingafélags ekki verið lagt fram innan þriggja mánaða, sbr. 6. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Um vexti af skaðabótakröfum fer samkvæmt vaxtalögum og skaðabótalögum.
    Tilnefning tjónsuppgjörsfulltrúa felur ekki í sér opnun útibús, í skilningi b-liðar 1. gr. tilskipunar nr. 92/49/EBE, og tjónsuppgjörsfulltrúi verður ekki talinn vera starfsstöð í skilningi c-liðar 2. gr. tilskipunar nr. 88/357/EBE.
    Fjórða tilskipunin um ökutækjatryggingar kveður ítarlega á um starfsemi tjónsuppgjörsfulltrúa, tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðar. Nánar verður kveðið á um starfsemi þessara aðila í reglugerð sem dómsmálaráðherra setur.
    Í almennu athugasemdunum var fjallað nánar um hlutverk tjónsuppgjörsfulltrúans og vísast til þeirrar umfjöllunar að öðru leyti.

Um 2. gr.


    Lagt er til að nýr töluliður komi í stað 4. töluliðar 2. mgr. 64. gr. sem varðar stofnun útibús erlends vátryggingafélags hér á landi. Töluliðurinn er samhljóða nýjum 11. tölul. 21. gr., sbr. 1. gr. frumvarpsins. Í 4. tölul. er nú þegar gert að skilyrði að félagið sé aðili að ABÍ, en lagt er til að því til viðbótar komi skilyrði um staðfestingu á þátttöku í starfsemi tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðvar samkvæmt umferðarlögum, sé sótt um starfsleyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 22. gr. laganna. Enn fremur er gert að skilyrði að upplýst sé um tjónsuppgjörsfulltrúa í sérhverju aðildarríki EES-samningsins og EFTA. Vísast að öðru leyti til almennu athugasemdanna og til umfjöllunar um 1. gr.

Um 3. gr.


    Lagt er til að nýr töluliður komi í stað 4. tölul. 2. mgr. 65. gr. laganna sem fjallar um þjónustu erlends vátryggingafélags hér á landi án starfsstöðvar en með aðalstöðvar á Evrópska efnahagssvæðinu sem hlotið hefur starfsleyfi eftirlitsstjórnvalda. Í 4. tölul. er nú þegar gert að skilyrði að lögð sé fram staðfesting á aðild að ABÍ, þegar fyrirhugað er að reka starfsemi skv. 10. tölul. 1. mgr. 22. gr. laganna. Einnig er gert að skilyrði að lögð sé fram staðfesting á þátttöku félagsins í starfsemi tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðvar með sama hætti og í 11. tölul. 2. mgr. 21. gr. og 4. tölul. 2. mgr. 64. gr. laganna og það sama á við um upplýsingar um tjónsuppgjörsfulltrúa í sérhverju aðildarríki EES-samningsins og EFTA. Tjónsuppgjörsfulltrúi samkvæmt þessum tölulið þarf ekki að vera sá sami og fulltrúi sem vísað er til í lok töluliðarins og hefur með höndum tjónsuppgjör, sbr. og 5. mgr. 65. gr. Vísast að öðru leyti til almennu athugasemdanna og til umfjöllunar um 1. gr.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæðinu er tekinn af allur vafi um það að þau vátryggingafélög sem þegar hafa hlotið starfsleyfi skv. 26. gr. laga um vátryggingastarfsemi verði að grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að uppfylla hin nýju skilyrði frumvarps þessa verði það að lögum, þ.e. staðfesta þátttöku í starfsemi tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöð stundi þau starfsemi skv. 10. tölul. 1. mgr. 22. gr. auk þess að veita upplýsingar um tjónsuppgjörsfulltrúa í öllum aðildarríkjum EES-samningsins og EFTA.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um
vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

    Megintilgangur frumvarpsins er að lögfesta ákvæði tilskipunar nr. 2000/26/EB frá 16. maí 2000, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinni ökutækja og um breytinga á tilskipunum ráðsins nr. 73/239/EBE og nr. 88/357/EBE.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.