Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 357. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 802  —  357. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.

Frá 2. minni hluta menntamálanefndar.



    Í annað sinn hafa þrjár þingnefndir fjallað um þrjú frumvörp um vísinda- og tæknirannsóknir, tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins og opinberan stuðning við þessa mikilvægu þætti atvinnulífs og vísinda. Öll miða frumvörpin að því að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu. Þau voru til umfjöllunar á 127. löggjafarþingi en umfjöllun um þau var ekki lokið, enda voru mjög deildar meiningar um efni þeirra í vísinda- og fræðasamfélaginu. Eftir vinnu sjö manna nefndar menntamálaráðherra, sem sett var á stofn og falið að yfirfara viðamiklar umsagnir sem nefndir þingsins höfðu fengið frá fjölmörgum stofnunum og einstaklingum, voru frumvörpin lögð fram í breyttri mynd og hafði þá verið tekið tillit til ýmissa atriða í athugasemdunum. 2. minni hluti tekur undir það að frumvörpin hafi haft gott af vinnu nefndarinnar, en vill þó vekja athygli á ýmsu sem enn er ábótavant hvað varðar málið í heild.
    Það sem vekur mesta athygli við alla umfjöllun um málið er sú alvarlega staðreynd að stjórnvöld sýna lítil sem engin merki um að þessi formbreyting málaflokksins muni leiða af sér auknar fjárveitingar til vísinda- og tæknirannsókna. Þvert á móti kemur fram í umsögnum fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis að jafnvel verði um samlegðar- og sparnaðaráhrif sem leiði til lækkunar útgjalda hvað varðar ákveðna þætti málsins. Þetta stríðir gegn þeim fullyrðingum ríkisstjórnarinnar að nú skuli fetað í fótspor Finna sem hafa eflt vísindarannsóknir til muna sl. 10–15 ár, en það hefur verið gert m.a. með því að hækka umtalsvert fjárveitingar til rannsóknastarfa. Það kom fram í máli gesta sem komu á fund nefndanna að formbreyting ein væri til lítils ef ekki fylgdu auknar fjárveitingar. Það sem hefur verið helsta umkvörtunarefni vísinda- og fræðasamfélagsins hingað til hefur einmitt verið skortur á fjármunum og hefur verið bent á hróplegt ósamræmi milli fjölda og umfangs umsókna í vísindasjóðina og þeirra fjármuna sem ríkisstjórnin hefur ætlað málaflokknum. Því er eðlilegt að spyrja: Hvers vegna var ekki lögð fram áætlun um auknar fjárveitingar samhliða þessum frumvörpum? Og fyrst Finnar eru nefndir má gagnrýna það að enginn rökstuðningur hefur verið settur fram fyrir því vali á fyrirmynd. Hefði ekki alveg eins mátt leita til annarra landa sem einnig hafa ákveðið á seinni árum að efla stuðning við vísinda- og tæknirannsóknir?
    Þótt haldið sé fram að mál þetta sé vel ígrundað er það mat 2. minni hluta að samhliða undirbúningi þessara breytinga hefði verið full þörf á að gera óháða athugun á stöðu rannsókna á Íslandi þar sem beitt væri viðurkenndum aðferðum á sviði vísindastjórnunar. Á þann hátt hefði legið fyrir trúverðug greining á ástandinu sem hefði getað orðið örugg vísbending fyrir þá sem nú fá það verkefni að vinna stefnumótun fyrir málaflokkinn. Þar sem engin slík rannsókn eða greining liggur fyrir má ætla að stefnumótunarstarfið skorti viðmiðanir og verði því ekki eins markvisst og ella hefði orðið, sérstaklega þegar á það er litið að heildarsamræming en ein höfuðröksemdin sem stjórnvöld nota fyrir breytingunum.
    Í athugasemdum með frumvarpi til laga um Vísinda- og tækniráð Íslands sem lagt var fram og afgreitt á Alþingi 1993–94 er vitnað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var 21. september 1993. Við endurskoðun málaflokksins er eðlilegt að litið sé til fyrri stefnumörkunar og skoðað hvort þau markmið sem sett voru 1994 hafi náðst. Ekkert slíkt liggur fyrir um það og verður að telja það til vansa í undirbúningi málsins. Einnig má nefna skýrslu um rannsókna- og vísindastefnu ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram á 116. löggjafarþingi. Það verður að telja miður að sá staðall sem þar var kynntur varðandi vinnubrögð í þessum málaflokki skuli ekki hafa verið notaður áfram sem viðmiðun við gerð þeirra frumvarpa sem nú liggja fyrir.
    Þegar skoðuð er sú grundvallarbreyting sem fylgir aukinni þátttöku stjórnvalda í stefnumörkun, eða eins og segir í greinargerð með frumvarpi til laga um Vísinda- og tækniráð að málefni vísinda og tækni verði með þessum breytingum færð á efsta stig stjórnsýslunnar, má benda á gagnrýni sem er hávær í alþjóðasamfélaginu nú um stundir. Þar er varað við miklum pólitískum afskiptum af vísindasamfélaginu þar sem slíkt er talið geta takmarkað frelsi vísindamanna. Við þurfum auðvitað að viðurkenna nauðsyn þess að vísindin sjálf megi ekki færa í pólitískar viðjar valdhafanna. Í því sambandi má taka undir það sem segir í umsögn Háskóla Íslands (dags. 5. des. 2002) þar sem fjallað er um þann ramma sem frumvörpin setja vísinda- og tæknistarfsemi á Íslandi, en þar segir: „sá rammi hlýtur ætíð að byggjast á óskráðum meginreglum vísindasamfélagsins, fyrst og fremst þeim:
          að vísindamenn hafi frelsi til þess að einbeita sér að þeim rannsóknum sem þeir telja mestu skipta,
          að opinber stuðningur við verkefni grundvallist ávallt á gæðum verkefna og faglegu mati á hæfni þeirra sem stunda rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun og
          að þekking og sjónarmið innan vísindasamfélagsins séu ráðandi þáttur við þróun þess.“
    Í almennri umræðu hefur einnig verið varað við auknum áhrifum fjársterkra og fjölþjóðlegra fyrirtækja í iðnaðarrannsóknum. Slíkar rannsóknir eru nú í auknum mæli framkvæmdar í leyni og niðurstöður þeirra ekki gefnar upp í krafti eignarréttar fyrirtækjanna. Umræða um þessa þætti hefur verið í lágmarki í vinnunni við þessi frumvörp og er það miður.
    Í meðferð frumvarpanna hefur verið gagnrýnt það fyrirkomulag að stjórnsýslu- og stofnanaþáttur frumvarpanna skuli aðskilinn á þann hátt sem frumvörpin gera ráð fyrir. Um það atriði hefur ekki farið fram næg umræða. Þá vill 2. minni hluti taka undir með Háskóla Íslands, en rektor segir í umsögn sinni: „Háskóli Íslands er ein af undirstöðustofnunum íslensks samfélags og gegnir lykilhlutverki í menntun ungra vísindamanna. Háskólinn sinnir rannsóknum á fjölmörgum fræðasviðum í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir og í fjölþjóðlegu samstarfi. Leiðandi framlag hans til vísinda og fræða á Íslandi er óumdeilt og forsenda þess að ná megi markmiðum frumvarpanna þriggja. Því verður að telja í hæsta máta eðlilegt að skipan Vísinda- og tækniráðs taki mið af þessu, með því að háskólarektor eigi fast sæti í ráðinu. Enn fremur að háskólastigið eigi fimm fulltrúa í ráðinu, þar af a.m.k. þrjá frá Háskóla Íslands. Með þessu móti er tryggt að skipan ráðsins endurspegli meginþætti í íslensku háskólasamfélagi.“
    Annar minni hluti gagnrýnir að ekki skuli hafa verið fjallað á formlegan hátt um breytingartillögur Háskóla Íslands í nefndunum. Þá ber að harma að frestunin á afgreiðslu frumvarpanna í fyrravor skyldi ekki hafa skilað sér í aukinni vinnu í nefndum Alþingis. Þannig var lokaspretturinn í afgreiðslu þessara mikilvægu mála allt of flausturslegur og gerði það þingmönnum beinlínis erfitt fyrir að ljúka umfjöllun um alla þætti málsins.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur 2. minni hluti sér ekki fært að styðja frumvarp til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, né heldur frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð eða frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins þótt tvö þau síðarnefndu séu formlega ekki á sviði menntamálanefndar.

Alþingi, 21. jan. 2003.



Kolbrún Halldórsdóttir.