Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 539. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 884  —  539. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     11.      Að annast framkvæmd laga um vaktstöð siglinga.
     12.      Að eiga samstarf við Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA) með það að markmiði að auka öryggi í siglingum, draga úr mengun frá skipum og koma að sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda í starfi stofnunarinnar.

2. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:

Siglingaöryggisstofnun Evrópu.


    Samgönguráðherra skal setja reglugerð, sbr. 12. tölul. 1. mgr. 3. gr., sem felur í sér að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1406/2002 frá 27. júní 2002, um stofnun Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, verði innleidd í íslensk lög.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu í samráði við Siglingastofnun Íslands. Markmið frumvarpsins eru tvíþætt.
    Í fyrsta lagi er Siglingastofnun Íslands falið að annast framkvæmd væntanlegrar vaktstöðvar siglinga í samræmi við frumvarp þar að lútandi sem nú liggur fyrir Alþingi.
    Í öðru lagi miðar frumvarpið að því að veita íslenskum yfirvöldum lagaheimild til að gerast aðilar að væntanlegri Siglingaöryggisstofnun Evrópu.

I. Almennt.
    Frumvarpi þessu er ætlað að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1406/2002 frá 27. júní 2002, um stofnun Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, í íslenskan rétt í samræmi við skuldbindingar vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Á undanförnum árum hefur vaxandi tilhneigingar gætt hjá Evrópusambandinu að koma á fót sérstökum stofnunum er starfi á innri markaðinum án tillits til landamæra aðildarríkjanna. Þótt eðli þeirra og valdheimildir séu með ýmsum hætti er algengt að þessar stofnanir hafi með höndum umsýslu og undirbúning löggjafar fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar á tilteknum sviðum.
    Hinn 8. desember 2000 lagði framkvæmdastjórnin fram tillögu að reglugerð um að koma á fót Siglingaöryggisstofnun Evrópu. Tillagan var hluti af víðtækari löggjöf sem hafði það markmið að auka öryggi í siglingum og gekk undir viðurnefninu ERIKA II pakkinn. Fljótlega eftir að tillagan kom fram var skipaður starfshópur er í sátu fulltrúar samgönguráðuneytis, Siglingastofnunar Íslands og utanríkisráðuneytis sem hafði það markmið að fylgjast með lagasetningu stofnana Evrópusambandsins, einkum með hliðsjón af því hvernig hin nýja reglugerð yrði leidd í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Reglugerðin var samþykkt í mars 2002 og birt í Stjórnartíðindum EB 27. júní sama ár.

II.     Um reglugerð ráðsins og þingsins.
    Á undanförnum árum hefur verið sett ítarleg löggjöf á vettvangi Evrópusambandsins sem hefur haft það að markmiði að efla öryggi og hindra mengun frá skipum. Til þess að slík löggjöf hafi einhverja þýðingu er brýnt að henni sé beitt og hún túlkuð með samsvarandi hætti á öllum innri markaðinum. Af því tilefni hefur sérstakri stofnun verið komið á fót sem mun búa yfir nægri sérfræðiþekkingu til þess að taka að sér hlutverk sem nú eru í höndum framkvæmdastjórnarinnar eða einstakra siglingastofnana aðildarríkjanna.
    Siglingaöryggisstofnun Evrópu er ætlað það hlutverk að veita framkvæmdastjórninni þá sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er til að hægt sé að setja skynsamlega löggjöf um öryggi í siglingum og um mengun frá skipum. Stofnuninni verður einnig falið að sinna nokkrum öðrum verkefnum, svo sem að skipuleggja þjálfun sérfræðinga aðildarríkjanna í þágu hafnarríkiseftirlits og til ýmissa verka í tengslum við málefni er varða fánaríki, einnig að veita aðstoð við tæknilega innleiðingu Evrópulöggjafar. Stofnuninni verður einnig falið að efla samvinnu milli aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnar EB í málefnum er varða tilkynningarskyldu skipa samkvæmt nýrri tilskipun 2002/59/EB frá 27. júní 2002 sem segir fyrir um samræmt eftirlit og upplýsingakerfi um tilkynningarskyldu innan bandalagsins. Stofnuninni verður falið að beita sérfræðiþekkingu sinni í þágu rannsóknar alvarlegra slysa á sjó. Þá mun hún afla gagna um siglingaöryggi og mengun frá skipum.
    Í reglugerðinni er mælt fyrir um að starfsmenn Siglingaöryggisstofnunar Evrópu skuli hafa eftirlit með fyrirkomulagi siglingaöryggis og mengunarverndar með því að heimsækja aðildarríki stofnunarinnar með liðsinni siglingamálastofnana aðildarríkjanna. Stjórn stofnunarinnar skal setja reglur um slíkar heimsóknir.
    Siglingaöryggisstofnun Evrópu mun hafa sérstaka stjórn sem í sitja fulltrúar allra aðildarríkja Evrópusambandsins og fjórir fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar. Auk þess mun framkvæmdastjórnin skipa fjóra óháða sérfræðinga í stjórn, en þeir munu ekki hafa atkvæðisrétt. Fulltrúi íslenskra stjórnvalda mun eiga seturétt í stjórninni en án atkvæðis- og tillöguréttar. Stjórn stofnunarinnar mun fara með fjárstjórnarvald, setja skipurit og reglur um vinnuferla, samþykkja verkefnaskrá, fjalla um kröfur aðildarríkjanna um tæknilega aðstoð, setja vinnureglur um heimsóknir í aðildarríkin og skipa framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Í reglugerðinni er í 16. gr. mælt fyrir um starfsgengisskilyrði framkvæmdastjóra sem þarf að búa yfir faglegri hæfni og geta sýnt fram á stjórnunarhæfileika. Allar ákvarðanir stjórnar þarf að samþykkja með auknum meiri hluta atkvæða, þar á meðal val framkvæmdastjóra.
    Sérstaklega er tekið fram að Siglingaöryggisstofnun Evrópu eigi að standa opin ríkjum utan Evrópusambandsins, svo fremi þau hafi innleitt Evrópulöggjöf í landsrétt sinn.

III. Sérstök álitaefni í tengslum við aðild Íslands að Siglingaöryggisstofnun Evrópu.
    Eins og segir í texta reglugerðarinnar er hlutverk hennar fyrst og fremst fólgið í því að veita framkvæmdastjórn EB aðstoð við undirbúning löggjafar á sviði siglingaöryggis og í tengslum við aðgerðir til að draga úr mengun sjávar. Þannig má líta á stofnunina sem sérstakan ráðgjafa framkvæmdastjórnarinnar með víðtæka sérþekkingu á sviði siglingamála. Afleiðing þess að raunverulegur undirbúningur löggjafar flyst frá framkvæmdastjórninni til stofnunarinnar kann að draga úr þýðingu 1. mgr. 99. gr. og 1. mgr. 100. gr. EES-samningsins er tryggir sérfræðingum aðildarríkja EFTA aðgang að lagasetningarstarfi framkvæmdastjórnarinnar þar sem ekki er víst að þessi ákvæði gildi um undirbúning löggjafar á vegum stofnana sem teljast sjálfstæðir lögaðilar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Um 11. tölul.: Markmið þessa liðar er að fela Siglingastofnun Íslands að annast framkvæmd vaktstöðvar siglinga hér á landi, en frumvarp til laga um stofnun slíkrar stöðvar liggur nú fyrir Alþingi. Þar segir jafnframt að hlutverk og starfsemi vaktstöðvar siglinga sé að vera miðstöð skipaumferðar í íslenskri efnahagslögsögu og halda utan um siglingar erlendra skipa sem koma til landsins. Hún mun fylgjast með og vakta ferðir skipa sem tilkynna sig sjálfvirkt í gegnum sjálfvirka tilkynningarkerfið. Einnig mun hún sinna ýmsum verkefnum fyrir Siglingastofnun Íslands, t.d. móttöku bilanatilkynninga um siglingavita og dufl, siglingar skipa sem falla undir hafnarríkiseftirlit o.fl. Þá mun hún hlusta eftir og taka við neyðarköllum frá skipum og koma á framfæri við stjórnstöð leitar og björgunar.
    Verði frumvarp um vaktstöð siglinga samþykkt er nauðsynlegt að bæta þessum tölulið við 1. mgr. 3. gr. laganna þar sem talin eru upp verkefni Siglingastofnunar Íslands.
     Um 12. tölul.: Mikilvægur þáttur í starfsemi Siglingastofnunar Íslands er undirbúningur laga og reglugerða sem byggðar eru á gerðum stofnana Evrópusambandsins og verða síðar að alþjóðlegum skuldbindingum Íslands vegna aðildar landsins að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Því er óhætt að fullyrða að nú þegar sé það mikilvægt verkefni Siglingastofnunar Íslands að fylgjast með þróun Evrópulöggjafar. Stefnt er að því að hin nýja siglingaöryggisstofnun taki yfir ýmis verkefni tæknilegs eðlis sem áður voru í höndum framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins. Þegar haft er í huga að Siglingaöryggisstofnun Evrópu mun verða sjálfstæður lögaðili sem líklega mun hafa verulega þýðingu fyrir undirbúning og framkvæmd löggjafar þykir eðlilegt að hennar verði getið sérstaklega í lögum um Siglingastofnun Íslands.

Um 2. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er heimildarákvæði fyrir samgönguráðherra til að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins í íslenskan rétt sem er nauðsynlegt vegna tvíeðlis íslensks réttar sem gerir greinarmun á þjóðarétti og landsrétti gagnvart borgurunum. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við lagafrumvarp þetta.

Um 3. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal I.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1406/2002 frá 27. júní 2002
um stofnun Siglingaöryggisstofnunar Evrópu.


    EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

    með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 80. gr.,
    með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar, 1
    með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar, 2
    með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar, 3
    í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 251 gr. í sáttmálanum, 4
    Þar sem:
     1.      Gripið hefur verið til fjölmargra úrræða með lagasetningu í bandalaginu til að auka öryggi og koma í veg fyrir mengun á sviði flutninga á sjó. Til að tryggja skilvirkni þarf að beita slíkri löggjöf með viðeigandi og samræmdum hætti í gervöllu bandalaginu. Það mun tryggja jafna markaðsstöðu, draga úr röskun á samkeppni af völdum efnahagslegs ávinnings útgerða skipa sem fara ekki að settum reglum og umbuna þeim sem keppa á siglingamarkaðnum af einlægni.
     2.      Tiltekin verkefni sem nú eru unnin á vettvangi bandalagsins eða innanlands mætti framkvæma af hálfu sérfræðiaðila. Raunar er þörf á tækni- og vísindalegum stuðningi og öflugri og stöðugri sérfræðiþekkingu við að beita löggjöf bandalagsins með réttum hætti á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun af völdum skipa, fylgjast með framkvæmd hennar og meta skilvirkni þeirra ráðstafana sem eru fyrir hendi. Því er þörf, í núverandi stofnanafyrirkomulagi bandalagsins og valdajafnvægi, að setja á stofn Siglingaöryggisstofnun Evrópu („stofnunina“).
     3.      Almennt ætti stofnunin annast þátt tækniaðilans sem sér bandalaginu fyrir nauðsynlegum úrræðum til að bregðast við með árangursríkum hætti til að efla heildarreglur um siglingaöryggi og mengunarvarnir. Stofnunin ætti að aðstoða framkvæmdastjórnina við hið viðvarandi verkefni að uppfæra löggjöf bandalagsins á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun frá skipum og skal hún veita nauðsynlegan stuðning til að tryggja samleitna og árangursríka beitingu slíkrar löggjafar í gervöllu bandalaginu með því að aðstoða framkvæmdastjórnina við að sinna þeim verkefnum sem henni er falið samkvæmt núverandi og verðandi löggjöf bandalagsins á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun frá skipum.
     4.      Til að ná fram þeim markmiðum sem liggja til grundvallar því að stofnunin var sett á laggirnar er viðeigandi að stofnunin framkvæmi ýmis önnur brýn verkefni sem miða að því að auka siglingaöryggi og varnir gegn mengun af völdum skipa á hafsvæðum aðildarríkjanna. Stofnunin ætti að vinna með aðildarríkjunum í þessu tilliti til að skipuleggja viðeigandi þjálfun á sviði hafnarríkiseftirlits og fánaríkismála og að veita tækniaðstoð tengda beitingu löggjafar bandalagsins. Hún ætti að auðvelda samvinnu milli aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar eins og kveðið er á um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB frá 27. júní 2002 um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis bandalagsins fyrir umferð á sjó og fellir úr gildi tilskipun ráðsins 93/75/EBE 5 , nánar tiltekið með því að starfrækja upplýsingakerfi sem er nauðsynlegt fyrir markmið þeirrar tilskipunar og vegna þeirrar starfsemi sem varðar rannsóknir í tengslum við alvarleg sjóslys. Hún ætti að sjá framkvæmdastjórninni og aðildarríkjunum fyrir hlutlægum, áreiðanlegum og sambærilegum upplýsingum og gögnum um siglingaöryggi og varnir gegn mengun af völdum skipa til að gera þeim kleift að vinna hvers kyns nauðsynleg framtaksverkefni til að efla þær ráðstafanir sem eru fyrir hendi og að meta skilvirkni þeirra. Hún ætti að sjá til þess að þekking í bandalaginu á sviði siglingaöryggis sé aðgengileg þeim ríkjum sem sækja um aðild. Hún ætti að vera opin til þátttöku þessara ríkja og fyrir önnur þriðju ríki sem hafa gert samninga við bandalagið og innleiða og beita samkvæmt þeim löggjöf bandalagsins á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun af völdum skipa.
     5.      Stofnunin ætti að styðja að komið verði á betra samstarfi milli aðildarríkja og ætti að þróa og miðla bestu viðteknu starfsvenjum í bandalaginu. Það ætti á móti að stuðla að því að bæta siglingaöryggiskerfið í bandalaginu auk þess að draga úr hættunni á sjóslysum, sjávarmengun og mannskaða á sjó.
     6.      Svo tryggja megi að störf sem stofnuninni eru falin séu vel af hendi leyst er við hæfi að starfsmenn hennar heimsæki aðildarríkin til að fylgjast með því hvernig kerfi siglingaöryggis og varna gegn mengun af völdum skipa starfar í heild sinni. Heimsóknirnar ættu að fara fram í samræmi við stefnu sem stjórnsýsluráð stofnunarinnar setur og ættu stjórnvöld aðildarríkjanna að greiða fyrir þeim.
     7.      Stofnunin ætti að beita viðeigandi löggjöf bandalagsins um almennan aðgang að skjölum og verndun einstaklinga með tilliti til meðferðar persónuupplýsinga. Hún ætti að veita almenningi og hagsmunaaðilum hlutlægar, áreiðanlegar og auðskildar upplýsingar í tengslum við störf sín.
     8.      Að því er varðar samningsbundna ábyrgð stofnunarinnar, sem fer eftir lögunum sem gilda um samninga gerða af stofnuninni, ætti dómstóllinn að hafa lögsögu til að kveða upp dóma samkvæmt gerðardómsákvæði sem kann að vera í samningnum. Dómstóllinn ætti einnig hafa lögsögu í ágreiningsmálum sem tengjast hugsanlegum bótakröfum vegna tjóns af völdum ósamningsbundinnar ábyrgðar stofnunarinnar.
     9.      Í því skyni að tryggja með skilvirkum hætti að stofnunin sinni verkefnum sínum ættu aðildarríkin og framkvæmdastjórnin að eiga fulltrúa í stjórnsýsluráði sem falin eru nauðsynleg völd til að útbúa fjárhagsáætlun, sannreyna framkvæmd hennar, samþykkja viðeigandi fjárhagsreglur, koma á gagnsæjum verklagsreglum um ákvarðanatöku af hálfu stofnunarinnar, staðfesta vinnuáætlun hennar, leggja mat á beiðnir um tækniaðstoð frá aðildarríkjum, marka stefnu um heimsóknir til aðildarríkjanna og skipa framkvæmdastjóra. Í ljósi hinna afar tæknilegu og vísindalegu markmiða og verkefna stofnunarinnar er viðeigandi að í stjórnsýsluráði sitji einn fulltrúi frá hverju aðildarríki og fjórir fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar og að þeir séu fulltrúar sem búa yfir yfirgripsmikilli sérfræðiþekkingu. Í því skyni að tryggja sem mesta sérfræðiþekkingu og reynslu í stjórnsýsluráðinu og með það að markmiði að tryggja tengsl þeirra atvinnugreina sem tengjast mest viðfangsefnum stofnunarinnar ætti framkvæmdastjórnin að tilnefna óháða fagmenn úr þessum atvinnugreinum í ráðið án atkvæðisréttar á grundvelli persónulegra verðleika þeirra og reynslu á sviði siglingaöryggis og varna geng mengun af völdum skipa og ekki sem fulltrúar tiltekinna fagsamtaka.
     10.      Svo stofnunin geti starfað sem skyldi er nauðsynlegt að framkvæmdastjóri hennar sé tilnefndur á grundvelli verðleika sinna og skjalfestra stjórnsýslu- og stjórnunarhæfileika auk hæfni og reynslu sem tengist siglingaöryggi og vörnum gegn mengun af völdum skipa og að hann/hún sinni skyldum sínum algjörlega óháð og með sveigjanleika hvað varðar skipulag innra starfs stofnunarinnar. Í þessu skyni ætti framkvæmdastjórinn gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja fullnægjandi framkvæmd vinnuáætlunar stofnunarinnar, útbúa árlega drög að almennri skýrslu sem lögð er fyrir stjórnsýsluráðið, gera tekju- og útgjaldaáætlanir stofnunarinnar og hrinda fjárhagsáætluninni í framkvæmd.
     11.      Í því skyni að tryggja fullt sjálfsforræði og sjálfstæði stofnunarinnar er talið nauðsynlegt að hún hafi sjálfstæð fjárlög með tekjur sem koma að mestu leyti frá bandalaginu í formi framlags.
     12.      Eftir því sem fleiri sjálfstæðar stofnanir hafa verið settar á laggirnar á undanförnum árum hefur fjárveitingavaldið hugað að því að auka gagnsæi og eftirlit með umsýslu þess fjár sem veitt er til þeirra af fjárlögum bandalagsins, einkum varðandi vinnu við gerð fjárhagsáætlunar, gjöld, fjármálastjórn, embættisvald, framlag í lífeyrissjóði og innri fjárhagsáætlunargerð (starfsreglur). Með svipuðum hætti ætti reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/1999 frá 25. maí 1999 um rannsóknir gerðar á vegum Evrópuskrifstofu gegn sviksamlegri starfsemi (OLAF) 6 að gilda án takmarkana um stofnunina sem ætti að gerast aðili að samstarfssamningi milli stofnana frá 25. maí 1999 um innri rannsóknir á vegum Evrópuskrifstofu gegn sviksamlegri starfsemi (OLAF) 7 .
     13.      Innan fimm ára frá þeim degi sem stofnunin hóf að sinna skyldustörfum sínum ætti framkvæmdastjórnin að láta fara fram óháð ytra mat á framkvæmd þessarar reglugerðar, stofnuninni og vinnuaðferðum hennar við að koma á háu stigi siglingaöryggis og vörnum gegn mengun af völdum skipa.

    SAMÞYKKT ÞESSA REGLUGERÐ:

I. KAFLI

MARKMIÐ OG VERKEFNI

1. gr.

Markmið.


    1. Með þessari reglugerð er stofnuð Siglingaöryggisstofnun Evrópu (stofnunin) í þeim tilgangi að tryggja hátt og samræmt stig siglingaöryggis og varna gegn mengun frá skipum innan bandalagsins.
    2. Stofnunin skal sjá aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni fyrir nauðsynlegri tækni- og vísindaaðstoð og yfirgripsmikilli sérfræðikunnáttu til að liðsinna þeim við að beita löggjöf bandalagsins á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun frá skipum með viðeigandi hætti, hafa eftirlit með framkvæmd hennar og meta skilvirkni þeirra ráðstafana sem eru fyrir hendi.

2. gr.

Verkefni.


    Til að tryggja að markmiðin sem tilgreind eru í 1. gr. séu haldin með viðeigandi hætti skal stofnunin sinna eftirfarandi verkefnum:
     a.      hún skal aðstoða framkvæmdastjórnina, eftir því sem við á, við að undirbúa uppfærslu og þróun löggjafar bandalagsins á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun frá skipum, einkum í samræmi við þróun alþjóðlegrar löggjafar á því sviði. Það verkefni skal fela í sér greiningu á rannsóknarverkefnum sem framkvæmd eru á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun frá skipum;
     b.      hún skal aðstoða framkvæmdastjórnina við að beita löggjöf bandalagsins um siglingamál og varnir gegn mengun frá skipum í gervöllu bandalaginu. Stofnunin skal einkum:
                  i.      hafa eftirlit með því hvernig hafnarríkiseftirlitskerfi bandalagsins starfar í heild sinni, sem getur falist í að heimsækja aðildarríkin og leggja tillögur fyrir framkvæmdastjórnina um hvers kyns úrbætur á því sviði;
                  ii.      veita framkvæmdastjórninni nauðsynlega tækniaðstoð til að taka þátt í vinnu tæknistofnana Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit;
                  iii.      aðstoða framkvæmdastjórnina við að sinna hvers kyns viðfangsefnum sem framkvæmdastjórninni eru falin samkvæmt gildandi og verðandi löggjöf á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun frá skipum, einkum löggjöf sem gildir um flokkunarfélög, öryggi farþegaskipa sem og þeirri sem gildir um öryggi, menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna skipa;
     c.      hún skal starfa með aðildarríkjunum við að:
                  i.      skipuleggja, ef við á, viðunandi þjálfun á sviðum sem eru á ábyrgð hafnarríkisins og fánaríkisins;
                  ii.      þróa tæknilegar lausnir og veita tækniaðstoð sem tengist framkvæmd löggjafar bandalagsins;
     d.      hún skal auðvelda samvinnu milli aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar á sviði sem fellur undir tilskipun 2002/59/EB. Stofnunin skal einkum:
                  i.      stuðla að samstarfi milli ríkja sem liggja að ám á siglingasvæðum sem í hlut eiga á þeim sviðum sem þessi að tilskipun nær til;
                  ii.      þróa og starfrækja hvers kyns upplýsingakerfi sem er nauðsynlegt til að ná fram markmiðum þeirrar tilskipunar;
     e.      hún skal auðvelda samvinnu aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar við að þróa, að teknu tilliti til hinna mismunandi réttarkerfa aðildarríkjanna, samræmda aðferðarfræði við rannsókn sjóslysa samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum reglum með því að veita aðildarríkjunum stuðning við störf sem varða rannsóknir tengdar alvarlegum sjóslysum og við að greina fyrirliggjandi slysarannsóknaskýrslur;
     f.      hún skal sjá framkvæmdastjórninni og aðildarríkjunum fyrir hlutlægum, áreiðanlegum og sambærilegum upplýsingum og gögnum um siglingaöryggi og mengun frá skipum til að gera þeim kleift að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að auka siglingaöryggi og varnir gegn mengun frá skipum og meta skilvirkni ráðstafana sem eru fyrir hendi. Slík verkefni skulu fela í sér söfnun, skráningu og mat á tækniupplýsingum á sviði siglingaöryggis og umferðar á sjó sem og á sviði sjávarmengunar, bæði slysatengdri og vísvitandi, kerfisbundna nýtingu fyrirliggjandi gagnagrunna, þar með talið víxlnýting þeirra og þróun viðbótargagnagrunna. Á grundvelli safnaðra gagna skal stofnunin aðstoða framkvæmdastjórnina við birtingu upplýsinga á hálfs árs fresti um skip sem meinaður hefur verið aðgangur að höfnum bandalagsins samkvæmt tilskipun ráðsins 95/21/EB frá 19. júní 1995 um hvernig alþjóðlegum stöðlum um öryggi skipa, mengunarvarnir, aðbúnað og vinnuskilyrði um borð í þeim er framfylgt (hafnarríkiseftirlit), að því er varðar skip sem nota hafnir innan bandalagsins og sigla á skipaleiðum, sem heyra undir lögsögu aðildarríkjanna. 8 Stofnunin aðstoðar einnig framkvæmdastjórnina og aðildarríkin við aðgerðir þeirra til að bera kennsl á og veita eftirför skipum sem losa ólöglega;
     g.      meðan samningaviðræður standa yfir við ríki sem sækja að aðild má stofnunin veita tækniaðstoð við framkvæmd löggjafar bandalagsins á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun frá skipum. Samræma skal það verkefni svæðisbundnu samstarfi sem er fyrir hendi og skal fela í sér, eftir því sem við á, skipulag viðeigandi þjálfunarstarfs.

3. gr.

Heimsóknir til aðildarríkjanna.


    1. Í því skyni að sinna þeim verkefnum sem stofnuninni er falið má hún efna til heimsókna til aðildarríkjanna í samræmi við stefnu sem stjórnsýsluráðið markar. Innanlandsyfirvöld aðildarríkjanna skulu auðvelda starfsfólki stofnunarinnar störf sín.
    2. Stofnunin skal upplýsa hlutaðeigandi aðildarríki um fyrirhugaða heimsókn, um nöfn embættismanna í sendinefndinni og um þann dag sem heimsóknin hefst. Embættismenn stofnunarinnar sem útnefndir eru til að takast á hendur slíka heimsókn skulu sinna því gegn framvísun úrskurðar framkvæmdastjóra stofnunarinnar þar sem tilgreindur er tilgangur og markmið erindisins.
    3. Við lok hverrar heimsóknar skal stofnunin semja skýrslu og senda til framkvæmdastjórnarinnar og hlutaðeigandi aðildarríkja.

4. gr.

Gagnsæi og verndun upplýsinga.


    1. Stofnunin skal beita grundvallarreglum í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1049/2001 frá 30. maí 2001 um opinberan aðgang að skjölum Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar 9 , við meðhöndlun umsókna um aðgang að skjölum í fórum þeirra.
    2. Stofnunin má að eigin frumkvæði eiga samskipti við aðila á sínu starfssviði. Hún skal einkum tryggja að almenningi og hagsmunaaðilum séu veittar hlutlægar, áreiðanlegar og auðskildar upplýsingar um störf sín.
    3. Stjórnsýsluráð skal mæla fyrir um nauðsynlegar eigin reglur hvað varðar gildissvið 1. og 2. málsgreinar.
    4. Upplýsingarnar sem framkvæmdastjórnin og stofnunin safna í samræmi við þessa reglugerð skulu vera samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 45/2001 frá 18. desember 2000 um vernd einstaklinga með tilliti til meðferð persónuupplýsinga af hálfu stofnana bandalagsins og um frjálsan flutning slíkra gagna. 10

II. KAFLI

INNRI BYGGING OG STARFSEMI

5. gr.

Réttarstaða, svæðismiðstöðvar.


    1. Stofnunin skal vera bandalagsstofnun. Hún skal hafa réttarstöðu lögpersónu.
    2. Í hverju aðildarríki skal stofnunin njóta ýtrasta löghæfis sem lögpersónum er veitt samkvæmt lögum þeirra. Hún má einkum eignast eða ráðstafa lausafjármunum og fastafjármunum og má vera aðili að málarekstri.
    3. Að beiðni framkvæmdastjórnarinnar má stjórnsýsluráðið ákveða með samþykki hlutaðeigandi aðildarríkja að setja á stofn nauðsynlegar svæðismiðstöðvar í því skyni að sinna verkefnum sem tengjast eftirliti með siglingum og skipaumferð eins og kveðið er á um í tilskipun 2002/59/EB.
    4. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar skal vera í forsvari fyrir hana.

6. gr.

Starfsfólk.


    1. Starfsmannareglur embættismanna Evrópubandalaganna, skilmálar um ráðningu annarra starfsmanna Evrópubandalaganna og reglur stofnana Evrópubandalaganna, sem samþykktar eru sameiginlega til beitingar starfsmannareglna og skilmála um ráðningu, skulu gilda um starfsfólk stofnunarinnar. Stjórnsýsluráðið skal í samráði við framkvæmdastjórnina samþykkja nauðsynlegar og nákvæmar reglur um gildissvið.
    2. Hvað varðar eigið starfsfólk skal stofnunin fara með það umboð sem tilnefningaryfirvaldi er falið samkvæmt starfsmannareglum og skilmálum um ráðningu annarra starfsmanna, með fyrirvara um 16. gr.
    3. Starfsmenn stofnunarinnar skulu vera embættismenn skipaðir eða studdir af framkvæmdastjórninni eða aðildarríkjunum tímabundið eða aðrir starfsmenn sem stofnunin ræður eftir þörfum til að sinna verkefnum hennar.

7. gr.

Sérréttindi og friðhelgi.


    Bókunin um sérréttindi og friðhelgi bandalaganna skal gilda um stofnunina og starfsfólk hennar.

8. gr.

Ábyrgð.


    1. Samningsbundin ábyrgð stofnunarinnar fer eftir gildandi lögum um viðkomandi samning.
    2. Dómstóll Evrópubandalaganna skal hafa lögsögu til að kveða upp dóma samkvæmt gerðardómsákvæði sem kann að vera í samningi sem stofnunin gengur að.
    3. Ef um er að ræða ósamningsbundna ábyrgð skal stofnunin, í samræmi við almennar meginreglur sem hafa samhljóm í lögum aðildarríkjanna, bæta hvert það tjón sem deildir hennar eða starfsmenn í þjónustu hennar valda í tengslum við að rækja skyldur sínar.
    4. Dómstóll Evrópubandalaganna skal hafa lögsögu í ágreiningsmálum sem tengjast bótakröfum sem getið er um í 4. málsgrein.
    5. Persónuleg ábyrgð starfsmanna stofnunarinnar gagnvart henni skulu lúta ákvæðum sem kveðið er á um í starfsmannareglum og skilmálum um ráðningu sem gilda um þá.

9. gr.

Tungumál.


    1. Ákvæðin sem kveðið er á um í reglugerð nr. 1 frá 15. apríl 1958 þar sem ákveðið er hvaða tungumál skulu notuð í Efnahagsbandalagi Evrópu 11 skulu gilda um stofnunina.
    2. Þýðingaþjónustan sem þarf til að stofnunin geti starfað skal veitt af Þýðingamiðstöð stofnana Evrópusambandsins.

10. gr.

Stofnun og valdsvið stjórnsýsluráðsins.


    1. Hér með er sett á stofn stjórnsýsluráð.
    2. Stjórnsýsluráðið skal:
     a.      skipa framkvæmdastjórann samkvæmt 16. gr.;
     b.      samþykkja, fyrir 30. apríl á hverju ári, almenna skýrslu stofnunarinnar fyrir árið á undan og senda aðildarríkjunum, Evrópuþinginu, ráðinu og framkvæmdastjórninni;
     c.      taka til athugunar, á grundvelli undirbúnings að gerð vinnuáætlunarinnar, beiðnir frá aðildarríkjunum um tækniaðstoð, eins og um getur í ii-lið c-liðar 2. gr;
     d.      samþykkja, ekki seinna en 31. október á hverju ári, og að teknu tilliti til álits framkvæmdastjórnarinnar, vinnuáætlun stofnunarinnar fyrir næsta ár og senda hana til aðildarríkjanna, Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar.
                  Þessi vinnuáætlun skal samþykkt með fyrirvara um árlega fjárlagagerð bandalagsins. Ef framkvæmdastjórnin lýsir sig ósamþykka vinnuáætluninni innan 15 daga frá því hún er samþykkt skal stjórnsýsluráðið endurskoða áætlunina og samþykkja hana, hugsanlega með breytingum, innan tveggja mánaða í annarri umræðu annað hvort með tveimur þriðju hluta atkvæða meirihluta, þar með taldir fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar, eða með samhljóða samþykki fulltrúa aðildarríkjanna;
     e.      samþykkja niðurstöður fjárlaga stofnunarinnar fyrir upphaf fjárhagsárs, aðlaga þau ef nauðsyn krefur, með hliðsjón af framlagi bandalagsins og öðrum tekjuliðum stofnunarinnar;
     f.      setja vinnureglur um ákvarðanatöku framkvæmdastjórans;
     g.      marka stefnu um heimsóknirnar sem eiga að fara fram samkvæmt 3. gr.;
     h.      sinna skyldum stofnunarinnar í tengslum við fjárlög hennar samkvæmt 18., 19. og 21. gr.;
     i.      beita framkvæmdastjórann og sviðsstjórum sem um getur í 3. mgr. 15 gr. agavaldi;
     j.      setja sér starfsreglur.

11. gr.

Samsetning stjórnsýsluráðsins.


    1. Stjórnsýsluráð skal skipað einum fulltrúa frá hverju aðildarríki og fjórum fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar svo og fjórum fagmönnum úr geirum sem málið varðar mest, tilnefndir af framkvæmdastjórninni, án atkvæðisréttar.
    Fulltrúa í ráðið skal skipa á grundvelli viðeigandi reynslu og sérfræðiþekkingar á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun af völdum skipa.
    2. Hvert aðildarríki og framkvæmdastjórnin skulu tilnefna fulltrúa sína í stjórnsýsluráðið sem og varamann sem verður staðgengill fulltrúans í fjarveru hans/hennar.
    3. Skipunartími skal vera fimm ár. Skipunartíma má endurnýja einu sinni.
    4. Ef við á skal koma á samstarfi við fulltrúa þriðju landa og setja skilyrði þar að lútandi í tilhöguninni sem vísað er til í 2. mgr. 17. gr.

12. gr.

Formennska í stjórnsýsluráðinu.


    1. Stjórnsýsluráðið skal kjósa formann og varaformann úr sínum röðum. Varaformaður skal sjálfkrafa taka sæti formanns sé honum/henni ekki fært að sinna skyldum sínum.
    2. Skipunartími formanns og varamanns skal vera þrjú ár og skal hann renna út þegar þeir hætta í stjórnsýsluráðinu. Unnt skal vera að endurnýja skipunartíma einu sinni.

13. gr.

Fundir.


    1. Formaður skal boða til funda stjórnsýsluráðs.
    2. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar skal taka þátt í umræðum.
    3. Stjórnsýsluráð skal halda reglubundinn fund tvisvar sinnum á ári. Að auki skal það koma saman að frumkvæði formannsins eða að beiðni framkvæmdastjórnarinnar eða þriðjungs aðildarríkjanna eða Evrópuþingsins.
    4. Ef um er að ræða álitamál um trúnað eða hagsmunaárekstra má stjórnsýsluráðið ákveða að kanna tiltekna liði dagskrár þess án nærveru tilnefndra fulltrúa í hlutverki sínu sem sérfræðingar fyrir hönd þeirra greina sem málið varðar helst. Kveða má nánar á um beitingu þessa ákvæðis í reglum um málsmeðferð.
    5. Stjórnsýsluráðið má bjóða hverjum þeim sem kann að hafa eitthvað til málanna að leggja að sitja fundi þess sem áheyrnarfulltrúi.
    6. Fulltrúar í stjórnsýsluráði mega, með fyrirvara um ákvæði starfsreglna, njóta aðstoðar ráðgjafa eða sérfræðinga.
    7. Stofnunin skal sjá um rekstur aðalskrifstofu stjórnsýsluráðs.

14. gr.

Atkvæðagreiðsla.


    1. Stjórnsýsluráðið skal taka ákvarðanir með tveimur þriðju meirihluta atkvæða.
    2. Hver nefndarmaður skal hafa eitt atkvæði. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar skal ekki greiða atkvæði.
    Í fjarveru fulltrúa skal varamaður hans/hennar hafa atkvæðisrétt hans/hennar.
    3. Í reglum um málsmeðferð skal koma fram nánari tilhögun atkvæðagreiðslu, einkum þau skilyrði sem fulltrúi þarf að uppfylla til að koma fram fyrir hönd annars fulltrúa.

15. gr.

Skyldur og valdsvið framkvæmdastjóra.


    1. Stofnuninni skal stjórnað af framkvæmdastjóra hennar sem skal vera algjörlega óháður í tengslum við að rækja skyldur sínar án þess að brjóta í bága við valdsvið framkvæmdastjórnarinnar og stjórnsýsluráðs.
    2. Skyldur og valdsvið framkvæmdastjórans eru eftirfarandi:
     a.      hann/hún skal semja vinnuáætlun og leggja hana fyrir stjórnsýsluráðið að höfðu samráði við framkvæmdastjórnina. Hann/hún skal gera viðeigandi ráðstafanir um framkvæmd hennar. Hann/hún skal svara öllum beiðnum um aðstoð frá framkvæmdastjórninni eða frá aðildarríki í samræmi við c-lið 2. mgr. 10. gr.;
     b.      hann/hún skal ákveða að fara í þær heimsóknir sem kveðið er á um í 3. gr., að höfðu samráði við framkvæmdastjórnina og í samræmi við stefnuna sem stjórnsýsluráðið markar samkvæmt g-lið 2. mgr. 10. gr.;
     c.      hann/hún skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, þar með talið að samþykkja innri stjórnsýslufyrirmæli og birtingu tilkynninga, til að tryggja starfsemi stofnunarinnar í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar;
     d.      hann/hún skal skipuleggja skilvirkt eftirlitskerfi svo unnt sé að bera saman árangur stofnunarinnar við sett markmið hennar. Í þessu skyni skal framkvæmdastjórinn gera drög að almennri skýrslu á hverju ári og leggja hana fyrir stjórnsýsluráðið. Hann/hún skal koma á fót reglulegu matsferli sem uppfyllir viðurkennda fagstaðla;
     e.      hann/hún skal fara með umboð sitt hvað varðar starfsfólk svo sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr.
     f.      hann/hún skal gera áætlun um tekju- og gjaldaliði stofnunarinnar í samræmi við 18. gr. og skal hrinda fjárhagsáætluninni í framkvæmd á grundvelli 19. gr.
    3. Framkvæmdastjórinn má njóta aðstoðar eins eða fleiri sviðsstjóra. Í fjarveru eða forföllum framkvæmdastjórans skal einn sviðsstjóranna taka við starfi hans.

16. gr.

Tilnefning framkvæmdastjóra.


    1. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar skal tilnefndur á grundvelli verðleika sinna og skjalfestra stjórnsýslu- og stjórnunarhæfileika auk hæfni og reynslu sem tengist siglingaöryggi og vörnum gegn mengun af völdum skipa. Ákvarðanir stjórnsýsluráðsins skulu teknar með fjórum fimmtu hluta allra fulltrúa með atkvæðisrétt. Framkvæmdastjórnin má gera tillögur um framkvæmdastjóraefni.
    Stjórnsýsluráðið skal hafa vald til að segja framkvæmdastjóranum upp samkvæmt sömu málsmeðferð.
    2. Skipunartími framkvæmdastjórans skal vera fimm ár. Endurnýja má skipunartímann einu sinni.

17. gr.

Þátttaka þriðju aðila.


    1. Stofnunin skal vera opin til þátttöku þriðju landa sem hafa gert samninga við Evrópubandalagið og hafa innleitt og beita lögum bandalagsins á sviði siglingaöryggis og varna gegn mengun sjávar af völdum skipa.
    2. Samkvæmt viðeigandi ákvæðum þessara samninga skal koma á tilhögun þar sem meðal annars skal tilgreina umfang og eðli reglna um þátttöku þessara ríkja í störfum stofnunarinnar, þar með talin ákvæði um fjárframlög og starfsfólk.

III. KAFLI

KRÖFUR UM FJÁRFRAMLAG

18. gr.

Fjárhagsáætlun.


    1. Tekjur stofnunarinnar skulu vera í formi:
     a.      framlags frá framkvæmdastjórninni;
     b.      hugsanlegum framlögum frá þriðja landi sem kann að taka þátt í starfi stofnunarinnar í samræmi við 17. gr.;
     c.      gjalda fyrir birtingu, þjálfun og/eða þá þjónustu sem stofnunin veitir.
    2. Meðal útgjalda stofnunarinnar skal telja starfsmannahald, stjórnunar-, skipulags- og rekstrarkostnað.
    3. Framkvæmdastjórinn skal gera tekju- og útgjaldaáætlun fyrir næsta fjárhagsár og leggja fyrir stjórnsýsluráðið ásamt stofnáætlun.
    4. Tekjur og útgjöld skulu vera í jafnvægi.
    5. Stjórnsýsluráð skal, eigi síðar en 30. apríl ár hvert, samþykkja drög að fjárhagsáætlun ásamt bráðabirgðavinnuáætlun og senda hana til framkvæmdastjórnarinnar og til þeirra þriðju landa sem taka þátt í starfi stofnunarinnar í samræmi við 17. gr.
    Á grundvelli þessara draga að fjárhagsáætlun skal framkvæmdastjórnin útbúa viðeigandi mat í bráðabirgðadrögum að almennu fjárlagafrumvarpi Evrópusambandsins sem hún leggur fyrir ráðið og Evrópuþingið í samræmi við 272. gr. sáttmálans. Gildissvið viðurkenndrar fjárhagsáætlunar bandalagsins fyrir næstu ár skal höfð til viðmiðunar.
    6. Eftir samþykki almennrar fjárhagsáætlunar Evrópusambandsins skal stjórnsýsluráðið samþykkja fjárhagsáætlun stofnunarinnar og lokavinnuáætlun og aðlaga þær, ef nauðsyn krefur, að framlagi bandalagsins. Það skal senda þær án tafar til framkvæmdastjórnarinnar, fjárveitingavaldsins og til þriðju landanna sem taka þátt í starfi stofnunarinnar.

19. gr.

Framkvæmd og eftirlit með fjárhagsáætlun.


    1. Framkvæmdastjórinn skal hrinda fjárhagsáætlun stofnunarinnar í framkvæmd.
    2. Eftirlit með skuldbindingum, greiðsla allra útgjalda og eftirlit með öllum tekjum stofnunarinnar og innheimtu skal vera í höndum fjármálastjóra framkvæmdastjórnarinnar.
    3. Ekki seinna en 31. mars á hverju ári skal framkvæmdastjórinn senda framkvæmdastjórninni, stjórnsýsluráðinu og endurskoðunarréttinum nákvæma reikninga yfir alla tekju- og gjaldaliði næstliðins árs.
    Endurskoðunarrétturinn skal skoða þessa reikninga í samræmi við 248. gr. sáttmálans. Þau skulu birta skýrslu um starfsemi stofnunarinnar á hverju ári.
    4. Evrópuþingið skal, að fenginni tillögu frá stjórnsýsluráðinu, gefa skýrslu til framkvæmdastjóra stofnunarinnar um framkvæmd fjárhagsáætlunarinnar.

20. gr.

Barátta gegn svikum.


    1. Í því skyni að berjast gegn svikum, spillingu og annarri ólögmætri starfsemi skulu ákvæði reglugerðar EB nr. 1/1073 gilda án takmarkana um stofnunina.
    2. Stofnunin skal gerast aðili að samstarfssamningi milli stofnana frá 2. maí 1999 um innri rannsóknir á vegum Evrópuskrifstofu gegn sviksamlegri starfsemi (OLAF) og skal án tafar gefa út viðeigandi ákvæði sem gildir um alla starfsmenn hennar.
    3. Ákvarðanir sem varða fjárframlag og þeir framkvæmdasamningar og gerningar sem af þeim leiða skulu kveða á um með skýrum hætti að endurskoðunarrétturinn og OLAF megi, ef nauðsyn krefur, framkvæma skoðanir á staðnum á viðtakendum fjárframlags frá stofnuninni og þeim aðilum sem sjá um að úthluta því.

21. gr.

Fjárhagsákvæði.


    Stjórnsýsluráðið skal samþykkja fjárhagsreglugerð stofnunarinnar að fengnu samþykki framkvæmdastjórnarinnar og áliti endurskoðunarréttarins. Í þessari fjárhagsreglugerð skal einkum tilgreina þá málsmeðferð sem beitt er við að semja og hrinda í framkvæmd fjárhagsáætlun stofnunarinnar, í samræmi við 142. gr. fjárhagsreglugerðarinnar frá 21. desember 1977 og gildir um fjárlög Evrópubandalaganna. 12

IV. KAFLI

LOKAÁKVÆÐI

22. gr.

Mat.


    1. Innan fimm ára frá þeim degi sem stofnunin hóf að sinna skyldustörfum sínum skal framkvæmdastjórnin láta fara fram óháð ytra mat á framkvæmd þessarar reglugerðar. Framkvæmdastjórnin skal koma á framfæri við stofnunina hvers kyns upplýsingum sem stofnunin telur að máli skipti í tengslum við matið.
    2. Matið skal leiða í ljós áhrif þessarar reglugerðar, stofnunarinnar og vinnuaðferða hennar við að koma á háu stigi siglingaöryggis og vörnum gegn mengun af völdum skipa. Stjórnsýsluráðið skal gefa út sértækt skipunarbréf með samþykki framkvæmdastjórnarinnar að höfðu samráði við aðilana sem í hlut eiga.
    3. Stjórnsýsluráðið tekur við niðurstöðum um matið og gefur út tilmæli um breytingar á þessari reglugerð, stofnuninni og vinnuaðferðum hennar til framkvæmdastjórnarinnar. Bæði niðurstöður um mat og tilmæli skulu sendar af hálfu framkvæmdastjórnarinnar til Evrópuþingsins og ráðsins og skulu gerðar opinberar.

23. gr.

Upphaf starfsemi stofnunarinnar.


    Stofnunin skal hafa hafið starfsemi sína innan tólf mánaða frá gildistöku þessarar reglugerðar.

24. gr.

Gildistaka.


    Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

    Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.

Gjört í Lúxemborg 27. júní 2002.




Fyrir hönd Evrópuþingsins,


P. Cox.


Fyrir hönd ráðsins,


M. Arias Cañete.




Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands,
nr. 6/1996, með síðari breytingum.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að veita Siglingastofnun Íslands heimild til að annast framkvæmd væntanlegra laga um vaktstöð siglinga í samræmi við frumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Með frumvarpinu er einnig lagt til að íslenskum stjórnvöldum verði veitt heimild til að gerast aðili að Siglingaöryggisstofnun Evrópu. Gert er ráð fyrir að aðildarframlag Íslands verði 1 m.kr. á ári og verði mætt innan fjárlagaramma samgönguráðuneytisins. Jafnframt er áætlað að fundir stofnunarinnar verði tvisvar til þrisvar á ári og kostnaður vegna þeirra verði u.þ.b. 1 m.kr. á ári. Gert er ráð fyrir að þeim kostnaði verði mætt innan fjárlagaramma Siglingastofnunar og samgönguráðuneytisins. Verði frumvarpið að lögum verður því ekki um kostnaðarauka að ræða fyrir ríkissjóð.
Neðanmálsgrein: 1
    1     Stjtíð. EB C 120 E, 24.4. 2001, bls. 83, og Stjtíð. EB C 103 E, 30.4. 2001, bls. 184.
Neðanmálsgrein: 2
    2     Stjtíð. EB C 221, 7.8.2002, bls. 64.
Neðanmálsgrein: 3
    3     Stjtíð. EB C 357, 14.12.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 4
    4     Álit Evrópuþingsins frá 14. júní 2001 (Stjtíð. EB C 53 E, 28.2.2002, bls. 312), sameiginleg afstaða ráðsins frá 7. mars 2002 (Stjtíð. EB C 119 E, 22.5.2002, bls. 27) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 12. júní 2002 (ekki enn birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun ráðsins frá 25. júní 2002.
Neðanmálsgrein: 5
    5 Sjá bls. 10 í þessum Stjórnartíðindum.
Neðanmálsgrein: 6
    6 Stjtíð. EB L 136, 31.5.1999, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
    7 Stjtíð. EB L 136, 31.5.1999, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 8
    8     Stjtíð. EB L 157, 7.7.1995, bls. 1. Tilskipun eins og henni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/106/EB (Stjtíð. EB L 19, 22.1.2002, bls. 17).
Neðanmálsgrein: 9
    9     Stjtíð. EB L 145, 31.5.2001, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 10
    10 Stjtíð. EB L 8, 12.1.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
    11     Stjtíð. EB 17, 6.10.1958, bls. 385/ 58. Reglugerð eins og henni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
Neðanmálsgrein: 12
    12     Stjtíð. EB L 356, 31.12. 1977, bls. 1. Reglugerð eins og henni var síðast breytt með reglugerð (EB, KSE, KBE) nr. 762/2001 (Stjtíð. EB 111, 20.4. 2001, bls. 1).