Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 550. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 897  —  550. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    C-liður 2. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.
    

2. gr.

    Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur nánari reglur“ í 7. gr., 2. mgr. 14. gr., 2. mgr. 17. gr., 1. mgr. 34. gr., 38. gr., 47. gr. og 2. mgr. 95. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

3. gr.

    Á eftir orðunum „og þeirra, sem annast heilbrigðisþjónustu“ í 2. mgr. 8. gr. laganna kemur: og heilsuvernd starfsmanna.


4. gr.

    III. kafli laganna fellur brott.

5. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: XI. kafla um áhættumat, heilsuvernd og heilsufarsskoðanir.

6. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nemar og lærlingar teljast einnig til starfsmanna, jafnvel þótt þeir inni af hendi vinnu án endurgjalds, enda sé vinna þeirra liður í skipulögðu námi.


7. gr.

    Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur, þegar sérstaklega stendur á, sett reglur eða tekið ákvarðanir“ í 35. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra getur, þegar sérstaklega stendur á, sett reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

8. gr.

    Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlits ríkisins skal setja nánari reglur“ í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.


9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „eða of mikils álags“ í a-lið kemur: eða hvernig dregið verði úr áhrifum andlega eða líkamlega einhæfra starfa og starfa sem unnin eru með fyrir fram ákveðnum hraða.
     b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: um ráðstafanir til að koma í veg fyrir og uppræta einelti á vinnustöðum en starfsmenn eiga ekki að þurfa að þola áreitni eða aðra ótilhlýðilega háttsemi á vinnustað, þar með talda kynferðislega áreitni eða annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi.

10. gr.

    Í stað orðanna „skal stjórn Vinnueftirlits ríkisins hlutast til um að“ í 1. mgr. 39. gr. laganna kemur: skal Vinnueftirlit ríkisins hlutast til um að.


11. gr.

    Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur reglur“ í 40. og 43. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra setur reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

12. gr.

    Í stað orðanna „setur stjórn Vinnueftirlits ríkisins sérstakar reglur“ í 44. gr. laganna kemur: setur félagsmálaráðherra sérstakar reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

13. gr.

    48. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er að setja á markað eða taka í notkun tegund véla, tækja eða annars búnaðar sem uppfyllir ekki reglur um öryggi og formskilyrði, svo sem um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi eða prófunarskýrslur sem sett eru samkvæmt lögum þessum, sérreglum sem settar eru á grundvelli þeirra eða viðurkenndum stöðlum er gilda á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins.
    Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um kröfur sem tegund véla, tækja eða annars búnaðar verður að uppfylla til þess að teljast örugg og þær aðferðir sem framleiðandi getur beitt til að sýna fram á samræmi tegundar við settar reglur.

14. gr.

    Á eftir 48. gr. laganna kemur ný grein, 48. gr. a, svohljóðandi:
    Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að banna markaðssetningu og notkun á þeim tegundum véla, tækja eða annars búnaðar sem fullnægja ekki ákvæðum laga þessara, annarra sérreglna sem settar eru á grundvelli þeirra eða viðurkenndra staðla er gilda á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Áður en ákvörðun um bann er tekin skal atvinnurekanda, framleiðanda tegundar eða fulltrúa hans, eftir því sem við á, veittur hæfilegur frestur til að bæta úr annmörkum hennar.
    Telji Vinnueftirlit ríkisins tegund véla, tækja eða annars búnaðar sérstaklega hættulega getur það krafist afturköllunar allra eintaka hennar. Framleiðandi eða fulltrúi hans ber allan kostnað af slíkri afturköllun.
    Hafi Vinnueftirlit ríkisins rökstuddan grun um að öryggi og heilsu fólks eða eigna stafi hætta af einhverri tegund véla, tækja eða annars búnaðar er því heimilt að banna markaðssetningu og notkun hennar tímabundið í allt að fjórar vikur eða setja sérstök skilyrði fyrir markaðssetningu og notkun þótt tegundin uppfylli formskilyrði laga þessara og viðkomandi sérreglna. Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu hefja rannsókn á öryggi tegundar án ástæðulauss dráttar. Þá er heimilt að framlengja bannið um allt að fjórar vikur ef sérstakar ástæður vegna rannsóknarinnar krefjast að bannið verði framlengt. Framleiðandi eða fulltrúi hans ber kostnað vegna þeirra sýnishorna tegundar sem eru til rannsóknar. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum.
    Þegar Vinnueftirlit ríkisins hefur bannað tegund skv. 1.–3. mgr. er því heimilt að skylda framleiðendur og dreifingaraðila til að eyðileggja öll eintök tegundar með öruggum hætti eða skylda þá, eftir því sem við getur átt, til að lagfæra tegundina þannig að hún uppfylli settar reglur, afhenda sams konar tegund vélar, tækis eða annars búnaðar eða endurgreiða andvirði hennar.
    Torveldi atvinnurekandi, framleiðandi eða dreifingaraðili sannanlega rannsókn og skoðun Vinnueftirlits ríkisins á viðkomandi tegund eða hefur ekki tiltæk fullnægjandi gögn um öryggi hennar er stofnuninni heimilt að banna markaðssetningu og notkun hennar.
    Þegar tegund er ekki í samræmi við settar reglur skal framleiðandi eða fulltrúi hans bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sem stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur í samráði við forstjóra Vinnueftirlitsins“ í 1. mgr. kemur: sem félagsmálaráðherra setur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, og í samráði við forstjóra.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Félagsmálaráðherra setur gjaldskrá, að fengnum tillögum forstjóra Vinnueftirlits ríkisins og umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um skráningu og skoðun farandvéla, farandvinnuvéla, búvéla, lyftna og lyftubúnaðar, rúllustiga, geyma, þrýstihylkja og katla, þar á meðal um aukaskoðun sem þarf að gera ef vanbúnaður kemur í ljós við reglubundna skoðun og aukaskoðun vegna uppsetningar, breytinga eða viðgerða á framangreindum vélum, tækjum eða öðrum búnaði sem eru með gilda reglubundna skoðun.
     c.      Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlitsins setur reglur“ í 3. mgr. kemur: Félagsmálaráðherra setur reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

16. gr.

    50. gr. laganna orðast svo:
    Á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eða efnavörur, efnaúrgangur eða spilliefni, þar með talin sprengifim efni, eldfim efni og sprengiefni, eru notuð eða kunna að vera notuð skal atvinnurekandi gæta þess að þeim framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðum sé beitt sem tryggja að starfsmenn séu varðir gegn slysum, mengun og sjúkdómum.
    Þegar áhættumat skv. 65. gr. a gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin vegna hættulegs efnis, efnavöru, efnaúrgangs eða spilliefna skal atvinnurekandi sjá til þess að öryggisblöð og skriflegar leiðbeiningar, eftir því sem við á, liggi frammi á vinnustaðnum ásamt því að kynna starfsmönnum efni þeirra. Í leiðbeiningunum skal koma fram hvaða starfsháttum skuli fylgt þegar slys eða óhapp verður í tengslum við hættuleg efni eða efnavörur.
    Atvinnurekandi skal grípa til nauðsynlegra forvarna til að koma í veg fyrir mengun á vinnustað eða, sé þess ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt. Hann skal ávallt leitast við, með tilliti til eðlis starfseminnar, að nota efni eða efnavöru sem teljast hættulaus eða síður hættuleg heilsu starfsmanna við þær aðstæður sem þau eru notuð.
    Mengun á vinnustað skal ekki fara yfir gildandi mengunarmörk efnis. Þegar mengun stafar frá fleiri en einu efni eða efnavöru skal tekið tillit til samverkandi áhrifa.
    Efni eða efnavara sem stofnar eða getur stofnað heilsu og öryggi starfsmanna í hættu skal vera í öruggum umbúðum á vinnustöðum. Hættulegum efnaúrgangi og spilliefnum skal komið fyrir með öruggum hætti á vinnustað.

17. gr.

    51. gr. laganna orðast svo:
    Vinnueftirlit ríkisins gefur út eiturefnaleyfi til einstaklinga og fyrirtækja sem nota eiturefni eða efnavöru sem flokkast sem eiturefni að staðaldri við framkvæmd vinnu að uppfylltum skilyrðum 50. gr. og reglugerðar sem sett er skv. 3. mgr.
    Vinnueftirlit ríkisins skal hafa eftirlit með að merkingar, notkun, geymsla og flutningur efnis og efnavöru á vinnustöðum fullnægi gildandi lögum, reglum og viðurkenndum stöðlum. Vinnueftirlitinu er heimilt að banna framleiðslu, flutning og notkun hættulegra efna og efnavara á vinnustöðum þegar það þykir sýnt að heilsu manna er hætta búin. Sama á við um efni þegar ekki liggja fyrir, að mati stofnunarinnar, fullnægjandi upplýsingar um innihald, samsetningu, meðferð, notkun eða vörslu þeirra.
    Félagsmálaráðherra skal setja nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og umhverfisráðuneytis, um skilyrði eiturefnaleyfis, mengunarmörk, meðferð, umbúðir, áfyllingu, merkingu, geymslu, flutning og notkun efna eða efnavara sem geta stofnað heilsu starfsmanna í hættu eða leitt til lakari aðbúnaðar á vinnustöðum.


18. gr.

    Á eftir 51. gr. laganna kemur ný grein, 51. gr. a, svohljóðandi:
    Á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eða efnavörur eru notuð eða kunna að vera notuð í þeim mæli að við slys geti skapast umfangsmikil hætta fyrir fólk og umhverfi skal atvinnurekandi gera öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir slík slys. Enn fremur skal atvinnurekandi gera ráðstafanir til að unnt sé að bregðast við slíkum slysum svo að tafarlaust megi draga úr afleiðingum þeirra.
    Vinnueftirlit ríkisins skal hafa eftirlit með að viðeigandi skilyrðum sé fullnægt og að nauðsynlegar öryggisráðstafanir vegna hættu á slysi, sbr. 1. mgr., hafi verið gerðar.
    Félagsmálaráðherra skal skipa sérstaka fjögurra manna samráðsnefnd um stórslysavarnir í iðnaði að fengnum tilnefningum frá Brunamálastofnun, Almannavörnum ríkisins, Umhverfisstofnun og Vinnueftirliti ríkisins.
    Hlutverk nefndarinnar er að tryggja samráð og samstarf hlutaðeigandi stofnana í því skyni að tryggja öryggi starfsmanna, almennings og umhverfis þegar stórslys í iðnaði ber að höndum.
    Félagsmálaráðherra setur reglugerð um varnir gegn og viðbrögð við slíkum slysum á vinnustöðum að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og samráðsnefndar um stórslysavarnir í iðnaði.

19. gr.

    IX. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Hvíldartími, frídagar og hámarksvinnutími, orðast svo:
    
    a. (52. gr.)
    Í kafla þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Vinnutími: Sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín eða skyldur.
     2.      Hvíldartími: Sá tími sem ekki telst til vinnutíma.
     3.      Næturvinnutími: Tímabil sem ekki er skemmra en sjö klukkustundir og skal ná yfir tímabilið frá miðnætti til klukkan fimm að morgni. Um nánari afmörkun tímabilsins fer samkvæmt samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins.
     4.      Næturvinnustarfsmaður er:
                  a.      starfsmaður sem venjulega vinnur að minnsta kosti þrjár klukkustundir af daglegum vinnutíma sínum á næturvinnutíma og/eða
                  b.      starfsmaður sem ætlast er til að inni af hendi tiltekinn hluta af ársvinnuframlagi sínu á næturvinnutíma samkvæmt samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins.
     5.      Vaktavinna: Vinna sem skipt er niður samkvæmt fyrir fram ákveðnu fyrirkomulagi þar sem starfsmaður vinnur á mismunandi vöktum á tilteknu tímabili sem mælt er í dögum eða vikum.
     6.      Vaktavinnustarfsmaður: Starfsmaður sem vinnur vaktavinnu.

    b. (52. gr. a.)
    Ákvæði þessa kafla gilda ekki um:
     1.      þá sem starfa við flutning á vegum og falla undir reglugerð dómsmálaráðuneytisins um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins,
     2.      lækna í starfsnámi, sbr. þó 53., 54., 57. og 58. gr.,
     3.      æðstu stjórnendur eða aðra þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir,
     4.      sérstakar aðstæður sem tengjast starfsemi hins opinbera, svo sem nauðsynlegri öryggisstarfsemi og brýnum rannsóknarhagsmunum á sviði löggæslu, vinnu sem tengist starfsemi almannavarna og eftirlitsstörfum vegna snjóflóðavarna.

    c. (53. gr.)
    Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld.
    Með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins er heimilt að stytta samfelldan hvíldartíma í allt að átta klukkustundir ef eðli starfs eða sérstakir atvinnuhættir gera frávik nauðsynleg.
    Heimilt er að víkja frá ákvæði 1. mgr. verði truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna, svo sem vegna veðurs eða annarra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilunar í vélum, tækjum eða öðrum búnaði eða annarra tilsvarandi ófyrirséðra atburða, að því marki sem nauðsynlegt er, til að koma í veg fyrir verulegt tjón, þar til regluleg starfsemi hefur komist á að nýju.
    Sé daglegur hvíldartími styttur skv. 2. eða 3. mgr. skal starfsmaður fá samsvarandi hvíldartíma síðar.

    d. (53. gr. a.)
    Starfsmaður á rétt á hléi ef daglegur vinnutími hans er lengri en sex klukkustundir. Um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem um hve langt hléið skal vera, fer samkvæmt samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins.

    
e. (54. gr.)
    Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma skv. 53. gr.
    Ef sérstök þörf er á vegna eðlis hlutaðeigandi starfa er heimilt með samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins að fresta vikulegum frídegi þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíldartíma síðar og ávallt innan 14 daga. Þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg má þó ákveða með samkomulagi á vinnustað að fresta vikulegum hvíldartíma þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á hverjum tveimur vikum.
    Enn fremur er heimilt að fresta vikulegum frídegi þegar ytri aðstæður, svo sem veður og önnur náttúruöfl, slys, orkuskortur, bilun á vélum, tækjum eða öðrum búnaði, eða aðrir tilsvarandi ófyrirséðir atburðir trufla eða hafa truflað rekstur og nauðsyn er að halda uppi þjónustu eða framleiðslu, enda fái starfsmaður samsvarandi hvíldartíma síðar og eins fljótt og við verður komið.

    f. (55. gr.)
    Hámarksvinnutími starfsmanna á viku að yfirvinnu meðtalinni skal ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili.
    Heimilt er með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins að reikna hámarksvinnutíma starfsmanna út frá viðmiðunartímabili sem má vera allt að sex mánuðir.
    Ef fyrir liggja hlutlægar eða tæknilegar ástæður eða vegna sérstaks eðlis hlutaðeigandi starfa er samtökum aðila vinnumarkaðarins heimilt að ákveða með samningum að hámarksvinnutími starfsmanna skuli reiknaður út frá viðmiðunartímabili sem er allt að 12 mánuðir, að gættum meginreglum laga þessara um öryggis- og heilsuvernd starfsmanna.
    Einungis vinnutími, sbr. 1. tölul. 52. gr., skal talinn við meðaltalsútreikninga skv. 1.–3. mgr. Árlegt launað lágmarksorlof samkvæmt lögum og veikindaforföll skulu ekki talin með við meðaltalsútreikningana.

    g. (56. gr.)
    Vinnutími næturvinnustarfsmanna skal að jafnaði ekki vera lengri en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili.
    Heimilt er með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins að lengja vinnutíma næturvinnustarfsmanna þannig að hann verði að jafnaði allt að 48 vinnustundir á viku. Skal þá skipuleggja vinnuna þannig að vinnutíminn verði sem reglulegastur.
    Um viðmiðunartímabil og viðmið við útreikning á meðalvinnutíma næturvinnustarfsmanna fer skv. 55. gr.
    Næturvinnustarfsmenn sem gegna sérstaklega áhættusömum störfum eða störfum sem fela í sér mikið líkamlegt eða andlegt álag skulu ekki vinna lengur en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili.
    Félagsmálaráðherra skal setja reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um hvað teljist sérstaklega áhættusöm störf eða störf sem fela í sér mikið líkamlegt eða andlegt álag, sbr. 4. mgr.

    h. (57. gr.)
    Næturvinnustarfsmenn sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða sem sannanlega verða rakin til vinnutíma skulu þegar kostur er færðir til í dagvinnustörf sem henta þeim.

    i. (58. gr.)
    Atvinnurekendum er skylt að láta Vinnueftirliti ríkisins í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara um vinnutíma, þar með taldar upplýsingar um fjölda næturvinnustarfsmanna og vinnutíma þeirra.


20. gr.

    Við 1. mgr. 62. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Vinnu þar sem hætta er á ofbeldi eða annarri sérstakri hættu að því undanskildu að ungmennin starfi með fullorðnum.

21. gr.

    Í stað orðanna „að fengnum tillögum“ í 63. gr. f laganna kemur: að fenginni umsögn.

22. gr.

    65. gr. laganna orðast svo:
    Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Áætlunin skal meðal annars fela í sér mat á áhættu, sbr. 65. gr. a, og áætlun um heilsuvernd, sbr. 66. gr. Hafa skal samráð við fulltrúa starfsmanna, sbr. II. kafla.
    Vinnueftirlit ríkisins skal hafa eftirlit með að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Skal áætlunin vera aðgengileg hjá atvinnurekanda fyrir stjórnendur þess, starfsmenn og Vinnueftirlit ríkisins.
    Endurskoða skal áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þegar breytingar á vinnuumhverfi breyta forsendum hennar.
    Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um skipulag eftirlitsins.

23. gr.

    Á eftir 65. gr. laganna kemur ný grein, 65. gr. a, svohljóðandi:
    Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Við gerð áhættumatsins skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum.
    Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess er ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt.
    Félagsmálaráðherra setur nánari reglur um áhættumat að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, þar á meðal um áhættumat fyrir sérstaka áhættuþætti og gerð og frágang skjala sem tengjast því.


24. gr.

    66. gr. laganna orðast svo:
    Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð er á áhættumati, sbr. 65. gr. a, þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir, þar á meðal um aðgerðir sem grípa þarf til í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum.
    Markmið heilsuverndar er að:
     a.      stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,
     b.      stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi,
     c.      draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað,
     d.      stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.
    Í áætlun um forvarnir skal koma fram lýsing á hvernig hættum og þeirri áhættu sem þeim fylgir samkvæmt áhættumati skuli mætt, svo sem með skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, vali á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingum á vinnustað eða öðrum forvörnum. Skal leggja áherslu á almennar ráðstafanir áður en gerðar eru ráðstafanir til verndar einstökum starfsmönnum.
    Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um heilsuvernd, þar á meðal um heilsuvernd sem tekur mið af sérstökum áhættuþáttum, forvarnir með hliðsjón af eðli starfa, stærð vinnustaða og gerð og frágang skjala sem tengjast áætlun um heilsuvernd.

25. gr.

    Á eftir 66. gr. laganna kemur ný grein, 66. gr. a, svohljóðandi:
    Þegar gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd, krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita aðstoðar til þess hæfra þjónustuaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til þeirra starfa. Skal atvinnurekandi upplýsa þjónustuaðila um þá þætti sem vitað er eða grunur leikur á að hafi áhrif á öryggi og heilbrigði starfsmanna. Enda þótt atvinnurekandi njóti þjónustu slíkra aðila ber hann engu að síður ábyrgð á að áætlunin sé gerð og henni fylgt eftir.
    Þjónustuaðili skal hljóta viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins áður en hann hefur starfsemi. Vinnueftirlit ríkisins skal viðurkenna þjónustuaðila sem uppfylla skilyrði ákvæðis þessa og reglugerðar sem sett er skv. 6. mgr. Fullnægi þjónustuaðili ekki settum skilyrðum síðar er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að afturkalla viðurkenninguna í heild eða að hluta þannig að hún takmarkist við ákveðna tegund starfsemi.
    Þjónustuaðili skal vera fær um að veita heildstæða þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Hann eða starfsmenn hans skulu því hafa menntun á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðru sambærilegu sérsviði þannig að þeir séu færir um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra, vistfræðilegra og sálfræðilegra þátta. Að öðrum kosti er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að takmarka viðurkenningu skv. 2. mgr. við ákveðna tegund starfsemi.
    Þjónustuaðila er heimilt að gera samninga við aðra aðila um einstaka þætti vegna þjónustu skv. 3. mgr. Skulu þeir aðilar uppfylla skilyrði þau sem sett eru fyrir viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins. Samningar þessir skulu liggja fyrir þegar óskað er eftir viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins skv. 2. mgr.
    Þjónustuaðili skal gæta trúnaðar í starfi sínu. Hann skal fara með allar upplýsingar sem hann kemst að í starfi sínu og varða persónuleg málefni og einkahagi starfsmanna sem trúnaðarmál. Sama gildir um upplýsingar er tengjast fyrirtækjum er hann starfar fyrir.
    Félagsmálaráðherra skal setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um nánari skilyrði sem þjónustuaðilar skulu fullnægja áður en þeir hefja starfsemi sína og um þá hæfni sem starfsmenn atvinnurekanda er sinna öryggi og heilbrigði á vinnustað skulu fullnægja.

26. gr.

    67. gr. laganna orðast svo:
    Starfsmenn skulu eiga kost á heilsufarsskoðun á kostnað atvinnurekanda áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum, enda séu starfsskilyrði þeirra slík að heilsutjón geti hlotist af og ástæða til þess að ætla að á þann hátt megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma.
    Í reglum sem félagsmálaráðherra setur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og landlæknis, skal nánar kveðið á um í hverju heilsufarsskoðun skuli fólgin, tíðni eftirlits og hvaða mælingar og aðrar rannsóknir skuli gerðar að teknu tilliti til starfsumhverfis. Heimilt er að setja slíkar reglur fyrir einstakar starfsgreinar.


27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Vinnueftirlit ríkisins skal hafa í þjónustu sinni lækni sem hefur sérþekkingu er tengist starfinu.
     b.      Í stað orðsins „stjórnar“ í d-lið 2. mgr. kemur: forstjóra.

28. gr.

    Í stað orðanna „Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur sett sérstakar reglur“ í 70. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra getur sett sérstakar reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.


29. gr.

    Í stað orðanna „skal stjórn Vinnueftirlits“ í 72. gr. laganna kemur: skal Vinnueftirlit ríkisins.


30. gr.

    Fyrirsögn XI. kafla laganna verður: Áhættumat, heilsuvernd og heilsufarsskoðanir.

31. gr.

    73. gr. laganna orðast svo:
    Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.

32. gr.
    

    74. gr. laganna orðast svo:
    Vinnueftirlit ríkisins heyrir undir yfirstjórn félagsmálaráðherra og annast stjórnsýslu og eftirlit á því sviði er lögin ná til.
    Félagsmálaráðherra skipar forstjóra Vinnueftirlits ríkisins til fimm ára í senn. Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar og ber lagalega og rekstrarlega ábyrgð á henni.
    Kostnaður af starfsemi stofnunarinnar skal greiðast með hlutdeild í tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, og af öðrum tekjum stofnunarinnar.
    Vinnueftirlit ríkisins innheimtir gjöld fyrir þrýstiraunir, gas- og súrefnismælingar í lokuðum rýmum, mælingar á hávaða, titringi, mengun í andrúmslofti, lýsingu vinnurýmis og inniloftsþáttum, skoðun á leiktækjum og verkpöllum, átaksprófanir, námskeið og próf, útgáfu skírteina og leyfa og útgáfu- og fræðsluefni samkvæmt gjaldskrá sem félagsmálaráðherra setur að fengnum tillögum forstjóra Vinnueftirlits ríkisins og umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

33. gr.

    75. gr. laganna orðast svo:
    Verkefni sem Vinnueftirliti ríkisins er ætlað að annast eru meðal annars að:
     a.      hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara,
     b.      veita stofnunum, fyrirtækjum, félögum og starfsmönnum ráðgjöf,
     c.      veita þeim starfsmönnum er starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., leiðbeiningar í störfum þeirra,
     d.      afla og viðhalda þekkingu á tæknilegri og félagslegri þróun í þeim tilgangi að stuðla að því að efla öryggi og bæta hollustuhætti í starfsumhverfi,
     e.      fjalla um öryggisþætti í áætlunum um vinnslu- og framleiðsluaðferðir, vinnustaði, tækni- og tækjabúnað,
     f.      veita fræðslu og upplýsingar varðandi hættur á vinnustöðum, svo sem um nýja tækni og þekkingu sem stuðlað getur að umbótum á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum,
     g.      stuðla að forvörnum og heilsuvernd á vinnustöðum,
     h.      vinna að rannsóknum á sviði vinnuverndar,
     i.      sjá um að haldin sé skrá yfir hvers konar sjúkdóma, andlega sem líkamlega, sem ætla má að eigi orsakir í starfsumhverfi, tíðni þeirra og útbreiðslu,
     j.      sjá um að haldin sé skrá yfir tíðni vinnuslysa eftir starfsgreinum,
     k.      annast markaðsgæslu og markaðseftirlit með vélum, tækjum og búnaði sem falla undir lög þessi,
     l.      vinna önnur verkefni í samræmi við markmið og gildissvið laganna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.


34. gr.

    76. gr. laganna orðast svo:
    Félagsmálaráðherra skipar stjórn Vinnueftirlits ríkisins til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann án tilnefningar, tvo stjórnarmenn tilnefnda af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndan af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn tilnefndan af fjármálaráðuneyti, einn tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tvo tilnefnda af Samtökum atvinnulífsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Stjórnin ber ábyrgð gagnvart ráðherra á faglegri stefnumótun Vinnueftirlits ríkisins og er félagsmálaráðherra og forstjóra Vinnueftirlits ríkisins til ráðgjafar í málum er tengjast bættum aðbúnaði, öryggi og hollustuháttum á vinnustöðum. Stjórnin skal gera tillögur til ráðherra um úrbætur á sviði vinnuverndar, þar á meðal um hvort þörf er á lagabreytingum eða setningu reglugerða eða annarra reglna. Ráðherra og forstjóri skulu leita umsagnar stjórnarinnar við undirbúning að setningu laga, reglugerða og annarra reglna um mál er heyra undir lög þessi.

35. gr.

    77. gr. laganna orðast svo:
    Félagsmálaráðherra er heimilt að skipa vinnuverndarráð einstakra starfsgreina, að fenginni rökstuddri tillögu stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, í því skyni að vinna að tillögum um úrbætur í málum er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum innan viðkomandi starfsgreinar.
    Samtök aðila vinnumarkaðarins innan tiltekinnar starfsgreinar tilnefna hvert sinn fulltrúa í ráðið og velja þeir sér sjálfir formann og varaformann. Félagsmálaráðherra ákveður skipunartíma sérhvers ráðs sem þó skal aldrei vara lengur en fjögur ár í senn. Vinnuverndarráð starfsgreina skulu senda tillögur sínar til stjórnar Vinnueftirlits ríkisins sem fjallar sérstaklega um þær og veitir félagsmálaráðherra umsögn um þær.
    Kostnaður af starfsemi vinnuverndarráða starfsgreina skal greiðast af tekjum Vinnueftirlits ríkisins, sbr. 3. mgr. 74. gr.


36. gr.

    78. gr. laganna orðast svo:
    Atvinnurekandi skal skrá öll slys sem eiga sér stað á vinnustaðnum og leiða til andláts eða óvinnufærni starfsmanns í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Hið sama gildir um þá sjúkdóma sem atvinnurekandi hefur rökstuddan grun eða vitneskju um að eigi rætur sínar að rekja til starfsins eða annarra aðstæðna á vinnustaðnum. Einnig skal atvinnurekandi skrá óhöpp sem eiga sér stað á vinnustaðnum og eru til þess fallin að valda slysum.
    Vinnueftirlit ríkisins, þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og þjónustuaðili, sbr. 66. gr. a, skulu hafa aðgang að skránni.
    Atvinnurekandi og þeir aðilar sem taldir eru upp í 2. mgr. skulu fara með persónuupplýsingar úr skránni sem trúnaðarmál.
    Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um skráningu slysa, óhappa og sjúkdóma.

37. gr.

    79. gr. laganna orðast svo:
    Atvinnurekandi skal án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings.
    Atvinnurekandi skal innan viku tilkynna skriflega um slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og þjónustuaðili, sbr. 66. gr. a, skulu fá afhent afrit af tilkynningunni.
    Læknir, sem kemst að því eða fær grun um að starfsmaður eða hópur starfsmanna hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna, skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Vinnueftirlits ríkisins.
    Tryggingastofnun ríkisins skal senda Vinnueftirliti ríkisins afrit af tilkynningum um slys á vinnustöðum sem henni berast.
    Félagsmálaráðherra setur nánari reglur um tilkynningu slysa að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.


38. gr.

    80. gr. laganna orðast svo:
    Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins án ástæðulauss dráttar um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að hvers konar hættuleg efni eða efnavörur geti valdið mengun. Skal atvinnurekandi veita upplýsingar um aðstæður á slysstað, um hvers konar efni er að ræða og hvaða ráðstafana gripið hefur verið til eftir því sem frekast er unnt.
    Atvinnurekandi skal innan viku tilkynna skriflega um slysið eða óhappið til Vinnueftirlits ríkisins. Þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og þjónustuaðili, sbr. 66. gr. a, skulu fá afhent afrit af tilkynningunni.
    Atvinnurekandi skal upplýsa þá starfsmenn sem er hætta búin eða fulltrúa þeirra án tafar um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að hættuleg efni og efnavörur geti valdið mengun.
    Vinnueftirlit ríkisins skal tilkynna Umhverfisstofnun um tilvik þar sem hætta er á að mengunin dreifist út fyrir vinnustaðinn.


39. gr.

    81. gr. laganna orðast svo:
    Vinnueftirlit ríkisins skal rannsaka orsakir slysa, óhappa og mengunar sem tilkynnt er um skv. 79. og 80. gr. í þeim tilgangi að stuðla að því að komið sé í veg fyrir að slíkt endurtaki sig á vinnustöðum.
    Þegar Vinnueftirliti ríkisins hefur borist tilkynning skulu starfsmenn þess fara á staðinn án ástæðulauss dráttar til að hefja vettvangskönnun. Óheimilt er að breyta aðstæðum á slysstað umfram það sem nauðsynlegt er vegna björgunaraðgerða áður en vettvangskönnun hefur farið fram. Telji Vinnueftirlitið ekki þörf á sérstakri vettvangskönnun skal það tilkynna atvinnurekanda þar um án ástæðulauss dráttar.

40. gr.

    82. gr. laganna orðast svo:
    Vinnueftirlit ríkisins skal fylgjast með að atvinnurekendur, er lög þessi taka til, stuðli að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi fyrir starfsmenn sína í starfi. Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu fara í eftirlitsheimsóknir inn í fyrirtækin til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu og skal þeim veittur aðgangur að vinnustöðvum þeirra í þeim tilgangi. Skulu þeir enn fremur sinna markaðsgæslu og markaðseftirliti í eftirlitsheimsóknum sínum. Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu sýna skilríki um starf sitt.
    Í eftirlitsheimsóknum skulu starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins hafa samband við atvinnurekanda eða fulltrúa hans og þá aðila sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og skulu þeir gefa allar nauðsynlegar upplýsingar í tengslum við eftirlitið. Enn fremur er starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins heimilt að krefja aðra starfsmenn sem eru í vinnu eða hafa verið í vinnu einhvern tíma síðustu þrjá mánuði um sömu upplýsingar.
    Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu hafa aðgang að skjölum eða öðrum gögnum sem eiga að vera fyrir hendi innan fyrirtækja samkvæmt lögum þessum.
    Starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins er heimilt að leita aðstoðar lögreglu við eftirlitið þegar slíkt gerist nauðsynlegt.
    Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu halda skrá yfir eftirlitsheimsóknir sínar samkvæmt ákvæði þessu þar sem skráðar eru athugasemdir þeirra, bönn Vinnueftirlits ríkisins og önnur fyrirmæli og tilkynningar er varða vinnuskilyrði. Skal atvinnurekanda afhent afrit af þeim hluta skrárinnar er viðkemur starfsemi hans.
    Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um framkvæmd eftirlitsins. Enn fremur getur félagsmálaráðherra ákveðið að tiltekin eftirlitsverkefni Vinnueftirlits ríkisins verði falin annarri opinberri stofnun eða faggiltum skoðunarstofum.

41. gr.

    Í stað 2. mgr. 86. gr. laganna koma tvær málsgreinar, svohljóðandi:
    Atvinnurekanda ber jafnframt að tryggja að starfsmenn geti sjálfir, ef öryggi þeirra eða annarra er stefnt í bráða hættu, gripið til viðeigandi ráðstafana til að komast hjá afleiðingum hættunnar þegar ekki er unnt að ná sambandi við yfirmann eða starfsmann sem falin hefur verið öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf.
    Aðgerðir skv. 1. eða 2. mgr. gera þá aðila sem þar greinir ekki ábyrga fyrir því tjóni sem fyrirtækið kann að verða fyrir vegna stöðvunar eða fráhvarfa starfsmanna af vinnustað þar sem hið bráða hættuástand var talið ríkja og er óheimilt að láta þá gjalda fyrir ákvörðun sína á nokkurn hátt.

42. gr.

    87. gr. laganna orðast svo:
    Ef ákvæði laga þessara, eða reglna sem settar eru með stoð í þeim, eru brotin og ekki er farið eftir ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins á grundvelli þeirra getur stofnunin ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðun beinist að greiði dagsektir þar til farið verður að henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
    Dagsektir mega nema allt að 100.000 krónum á sólarhring. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta skal meðal annars taka tillit til þess hve aðkallandi umbæturnar eru og hversu stór og umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er.
    Dagsektir skulu renna í ríkissjóð.
    Aðila er heimilt að kæra ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um beitingu dagsekta til félagsmálaráðuneytis innan fjórtán daga frá því honum var tilkynnt um ákvörðunina. Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er og að jafnaði innan mánaðar frá því að kæra barst til úrskurðar.
    Ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins um dagsektir eru aðfararhæfar. Málskot til félagsmálaráðuneytis frestar aðför.

43. gr.

    88. gr. laganna fellur brott.
    

44. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 93. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „reglum, sem Vinnueftirlit ríkisins setur, eða eftir fyrirmælum forstjóra stofnunarinnar“ í 1. mgr. kemur: fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins.
     b.      2. mgr. fellur brott.

45. gr.

    Í stað orðanna „og í samræmi við tillögur, fyrirmæli eða úrskurði forstjóra eða stjórnar Vinnueftirlits ríkisins“ í 94. gr. laganna kemur: gildandi reglum og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins.

46. gr.

    Orðin „eða stjórnar“ í 2. mgr. 96. gr. laganna falla brott.

47. gr.

    XIV. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Kæruheimild, orðast svo:

    (98. gr.)
    Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins til félagsmálaráðuneytis innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist ráðuneytinu eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.
    Félagsmálaráðuneytið skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar.
    Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

48. gr.

    Lög þessi eru meðal annars sett til innleiðingar á tilskipun nr. 89/391/EBE um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, sem vísað er til í 8. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun nr. 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma, sem vísað er til í 28. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 42/96, og tilskipun nr. 94/33/EB um vinnuvernd barna og ungmenna, sem vísað er til í 29. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 43/96.
    

49. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Félagsmálaráðherra skal skipa nýja stjórn Vinnueftirlits ríkisins innan tveggja mánaða frá gildistöku laga þessara og fellur þá niður umboð fyrri stjórnar Vinnueftirlits ríkisins. Hin nýja stjórn tekur við verkefnum fráfarandi stjórnar sem lúta að faglegri stefnumótun Vinnueftirlits ríkisins en stofnunin tekur við öðrum verkefnum hennar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    
Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum. Breytingarnar felast meðal annars í innleiðingu á efni tilskipunar ráðsins nr. 93/104/EB frá 23. nóvember 1993 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma (hér eftir nefnd vinnutímatilskipunin) og tilskipunar ráðsins nr. 89/391/EBE frá 12. júní 1989 um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum. Er lagt til að meginreglur vinnutímatilskipunarinnar um daglegan hvíldartíma, hlé á vinnu, vikulegan frítíma, hámarksvinnutíma á viku, vinnutíma næturvinnustarfsmanna og rétt þeirra til heilsufarsskoðunar verði teknar upp.
    Enn fremur eru lagðar til breytingar á skipulagi Vinnueftirlits ríkisins að því er varðar verkaskiptingu forstjóra og stjórnar í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á skipulagi hinnar íslensku stjórnsýslu frá gildistöku laganna. Með setningu stjórnsýslulaga árið 1993 voru starfshættir stjórnvalda færðir í fastara form og á það ekki síst við um eftirlitsstjórnvöld. Á sama tíma hafa stjórnvöld haft það að markmiði að samræma stöðu og ábyrgð stofnana sem best við sjónarmið ráðherrastjórnsýslu annars vegar og nýjum áherslum um sjálfstæði stofnana, árangur og ábyrgð hins vegar. Í því sambandi hefur meðal annars verið lögð áhersla á að valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna samrýmist ákvæðum laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70/1996 (hér eftir nefnd starfsmannalög). Falla markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til á skipulagi Vinnueftirlits ríkisins að framangreindum áherslum.
    Frá gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið árið 1994 hafa fjölmargar gerðir Evrópusambandsins á sviði aðbúnaðar, hollustuhátta og öryggis á vinnustöðum verið teknar upp í samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hluti þessara gerða gera kröfur um eftirlit af einhverju tagi en færst hefur í vöxt að þær fjalli um samræmingu laga aðildarríkjanna um öryggi og heilsuvernd í tengslum við ýmsar vélar, tæki og annan búnað. Nefnast þær einu nafni nýaðferðargerðir ( New Approach Directives). Þar eru gerðar kröfur um að stjórnvöld standi fyrir markaðsgæslu og markaðseftirliti. Í lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, eru opinber markaðsgæsla og markaðseftirlit sérstaklega skilgreind, sbr. 5. gr. laganna. Markaðsgæsla er skilgreind sem skipulögð viðleitni stjórnvalda til að tryggja að vörur á markaði uppfylli settar reglur um öryggi og heilsu- og umhverfisvernd. Þá merkir markaðseftirlit skipulagt eftirlit með vörum á markaði sem greinist í skoðun vöru annars vegar og skipulagða öflun upplýsinga um vörur á markaði hins vegar. Markaðsgæsla og markaðseftirlit byggjast því á markaðsskoðunum hvort sem um er að ræða úrtaksskoðanir eða skoðanir vegna sérstaks átaks og ábendinga. Vinnueftirliti ríkisins hefur verið falið eftirlit með þeim tegundum tækja, véla og annars búnaðar sem falla undir gildissvið núgildandi vinnuverndarlaga. Slíkt eftirlit verður meðal annars að fela í sér heimild fyrir eftirlitsstjórnvald til að koma í veg fyrir markaðssetningu á tegundum sem fullnægja ekki settum skilyrðum að undangenginni fullnægjandi rannsókn. Er því lagt til að hlutverk Vinnueftirlits ríkisins í markaðsgæslu með tegundunum verði gert skýrara og fært til samræmis við gildandi lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995. Þá er lagt til að félagsmálaráðherra hafi heimild til að fela óháðum faggiltum skoðunarstofum markaðsgæslu á tegundum véla, tækja eða annars búnaðar sem falla undir frumvarp þetta.

II. Tilskipun nr. 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma.
1. Almennt.

    Sameiginlega EES-nefndin samþykkti 28. júní 1996 að fella vinnutímatilskipunina undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvörðun nefndarinnar nr. 42/96. Tilskipunin var birt í EES-viðbæti Stjórnartíðinda Evrópusambandsins 14. nóvember 1996 (51. hefti, bls. 14), og telst hluti af XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Efni vinnutímatilskipunarinnar var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2000/34/EB, frá 22. júní 2000 með breytingu á tilskipun ráðsins nr. 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra starfsgreina og þeirrar starfsemi sem áður féllu utan við gildissvið hennar. Við gildistöku hennar 1. ágúst 2003 falla því þeir sem starfa við flutninga á vegum ásamt þeim sem vinna á sjó og í flugi undir gildissvið vinnutímatilskipunarinnar. Ári síðar mun tilskipunin jafnframt gilda um lækna í starfsnámi. Þó er gert ráð fyrir að margvíslegar undanþáguheimildir frá reglum vinnutímatilskipunarinnar gildi áfram varðandi þessa hópa.
    Sameiginlega EES-nefndin samþykkti 31. maí 2002 að fella tilskipun nr. 2000/34/EB undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvörðun nefndarinnar nr. 58/2002. Innleiða þarf því ákvæði hennar í íslenskan rétt fyrir 1. ágúst 2003 en ári síðar að því er varðar lækna í starfsnámi. Þá er aðildarríkjunum veittur sérstakur aðlögunartími vegna lækna í starfsnámi. Er því heimilt að innleiða meginreglu vinnutímatilskipunarinnar um 48 klukkustunda hámarksvinnutíma að meðaltali á viku í þrepum á allt að átta árum samkvæmt sérstökum skilyrðum og veitt svigrúm með tilliti til viðmiðunartíma vikulegs hámarksvinnutíma, sbr. 6. tölul. 1. gr. tilskipunar nr. 2000/34/EB.
    Vinnutímatilskipunin byggist á a-lið 118. gr. Rómarsáttmálans (nú 138. gr. samkvæmt Amsterdam-sáttmálanum) sem kveður á um að Evrópusambandið skuli með útgáfu tilskipana setja lágmarkskröfur til að stuðla að umbótum, einkum að því er varðar vinnuumhverfi til að tryggja aukna öryggis- og heilsuvernd starfsmanna. Í formála hennar er vísað til þessa ákvæðis og sáttmála Evrópubandalagsins um félagsleg grundvallarréttindi launafólks ( The Community Charter on the Fundamental Social Rights of Workers) sem samþykkt var af hálfu 11 aðildarríkja þess á fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins í Strassborg 9. desember 1989. Í stofnskránni er tekið fram að innri markaður Evrópusambandsins verði að leiða til bættra lífskjara og starfsskilyrða launafólks. Því markmiði eigi meðal annars að ná með umbótum sem varða lengd og skipulag vinnutíma. Enn fremur er vísað til tilskipunar nr. 89/391/EBE, um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum. Sú tilskipun hefur að geyma almennar meginreglur um forvarnir gegn hættum við störf og verndun öryggis og heilsu starfsmanna við vinnu. Þá segir að með fyrirmælum um lágmarkskröfur varðandi skipulag vinnutíma sé stuðlað að bættum starfsskilyrðum launafólks í Evrópusambandinu.


2. Gildissvið og meginreglur vinnutímatilskipunarinnar.

    Vinnutímatilskipunin gildir um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma, árlegt orlof, um hlé og hámarksvinnutíma á viku og tiltekna þætti í tengslum við næturvinnu, vaktavinnu og vinnumynstur. Hún felur í sér lágmarksréttindi til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna.
    Eftir breytinguna með tilskipun nr. 2000/34/EB gildir vinnutímatilskipunin um alla starfsemi í öllum starfsgreinum, hvort sem hún er á vegum opinberra aðila eða einkaaðila, í skilningi 2. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE, sbr. þó 14. og 17. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði vinnutímatilskipunarinnar gilda því ekki um sérstakar aðstæður sem tengjast starfsemi hins opinbera, svo sem her og lögreglu, eða starfsemi almannavarna, sbr. tilvísun í 2. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE. Farmenn samkvæmt skilgreiningu í tilskipun nr. 1999/36/EB, sem byggist á samningnum um skipulag vinnutíma á farskipum sem gerður var af Evrópusamtökum skipaeigenda (ESCA) og Sambandi flutningaverkamanna munu enn fremur falla áfram utan gildissviðs tilskipunarinnar. Í þeirri tilskipun er að finna reglur um vinnutíma farmanna. Auk þess gildir um þetta efni tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 1999/95/EB frá 13. desember 1999 um framkvæmd ákvæða um vinnutíma á skipum sem fara um hafnir innan ríkja Evrópusambandsins. Þá er tekið fram að tilskipunin gildi ekki á þeim sviðum þar sem sérreglur annarra gerða bandalagsins fela í sér sérhæfðari kröfur varðandi skipulag vinnutíma tiltekinna starfsgreina eða atvinnustarfsemi. Í því samhengi má geta tilskipunar nr. 2000/79/ EB frá 27. nóvember 2000 um vinnutíma í flugi sem byggist á samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins á Evrópuvísu í þessari atvinnugrein sem gerðir voru í mars 2000.
    Meginreglur vinnutímatilskipunarinnar eru þær að aðildarríkjum er skylt að tryggja starfsmönnum rétt á:
     a.      11 klukkustunda samfelldum daglegum hvíldartíma,
     b.      hvíldarhléi ef daglegur vinnutími er lengri en 6 klukkustundir,
     c.      samfelldum 24 klukkustunda hvíldartíma í viku hverri sem tengist daglegum hvíldartíma, sbr. a-lið,
     d.      að virkur vikulegur vinnutími sé takmarkaður og að meðalvinnustundafjöldi fari ekki yfir 48 klukkustundir, að yfirvinnu meðtalinni,
     e.      árlegu fjögurra vikna launuðu orlofi,
     f.      að venjulegur vinnutími næturvinnustarfsmanns fari ekki að jafnaði yfir átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili og að þetta viðmið sé hámark ef starfi fylgir mikið andlegt eða líkamlegt álag,
     g.      ókeypis heilsufarsskoðun næturvinnustarfsmanna og, sé þess kostur, tilfærslu í dagvinnustörf ef rekja má heilsufarsvandamál þeirra til næturvinnunnar.
    Tilskipunin hefur enn fremur að geyma nánari ákvæði er varða heilsuvernd og öryggi næturvinnustarfsmanna og vaktavinnustarfsmanna. Þá kveður hún á um að gera skuli viðeigandi ráðstafanir vegna þeirra starfsmanna sem vinna eftir ákveðnu mynstri.
    Heimilt er þó að víkja frá meginreglum vinnutímatilskipunarinnar. Slíkar heimildir byggjast meðal annars á því að skipulag vinnutíma í ákveðnum starfsgreinum er eða kann að vera með þeim hætti að æskilegt sé að heimila tiltekinn sveigjanleika við beitingu framangreindra meginreglna. Ef aðildarríki nýta þessar heimildir ber þeim að gæta að meginreglum tilskipunarinnar um öryggi og heilsuvernd starfsmanna og gæta þess að starfsmenn fái samsvarandi hvíld í staðinn.

3. Starfsstéttir er falla utan gildissviðs laga nr. 46/1980.     

    Með hliðsjón af gildissviði laganna sem taka almennt ekki til starfsemi á sjó og í lofti, er ekki mælt sérstaklega fyrir um frávik varðandi slíka starfsemi í frumvarpi þessu.
    Hvað varðar þá sem starfa við flutninga á vegum er í gildi reglugerð ráðsins nr. 3820/85/ EBE um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum, sem meðal annars fjallar um vinnutíma. Þessar reglur voru teknar upp í íslenskan rétt með reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 136/1995, með síðari breytingum. Dómsmálaráðherra setti reglugerðina með stoð í umferðalögum, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, og tók hún gildi 1. maí 1995. Reglugerð nr. 3820/85/EBE er ekki einvörðungu byggð á sjónarmiðum um heilsuvernd og öryggi ökumanna heldur er markmið hennar jafnframt að stuðla að samræmingu samkeppnisskilyrða í allri flutningastarfsemi sem og bættu umferðaröryggi. Enn fremur stendur til að fella undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið tilskipun þingsins og ráðsins nr. 2002/15/EB, um vinnutíma þeirra er starfa við flutninga á vegum.
    Læknar í starfsnámi hafa ekki verið undanskildir meginreglum gildandi laga um daglega lágmarkshvíld og vikulegan frídag sem tengist daglegum hvíldartíma og er lagt til að þær meginreglur gildi áfram um þá en að ekki verði mælt fyrir um vinnutíma þeirra að öðru leyti í frumvarpinu.


4. Áhrif vinnutímatilskipunarinnar.

    Það hefur reynst vandasamt að meta áhrif vinnutímatilskipunarinnar á íslenskan vinnumarkað. Tilskipunin sjálf mælir ekki fyrir um hvernig vinnutími skuli mældur. Hún kveður þó á um að aðildarríkin skuli á fimm ára fresti gefa skýrslu um framkvæmd hennar. Af því má leiða að nauðsynlegt sé fyrir aðildarríkin að mæla vinnutíma með ákveðnum hætti í samræmi við kröfur tilskipunarinnar. Hér á landi sér Hagstofa Íslands um að mæla vinnutíma en hún styðst við sömu aðferðir og önnur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Þegar Ísland er borið saman við önnur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins kemur í ljós að Íslendingar vinna lengstan vinnutíma en Hollendingar stystan. Athyglisvert er að á síðasta áratug hafa svo til engar breytingar orðið á vinnutíma launafólks hér á landi. Árið 1997 var venjulegur vinnutími á Íslandi 41,3 klukkustundir á viku en meðaltal ríkja Evrópusambandsins var þá 36,8 klukkustundir. Þá vinna yfir 40% launafólks í fullu starfi meira en 48 klukkustundir á viku að jafnaði og rúmlega 52% meira en 46 klukkustundir á viku. Er það talsvert hærra hlutfall en í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ýmislegt bendir því til að vinnutímatilskipunin hafi væntanlega talsverð áhrif á íslenskan vinnumarkað og mun meiri en í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þess ber þó að geta að framangreindar tölur gefa einungis vísbendingu um áhrif tilskipunarinnar.

III. Breytingar frá gildandi löggjöf um vinnutíma.


    Flest ákvæði um vinnutíma hér á landi er að finna í kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins en þó eru nokkur ákvæði um þetta efni í gildandi löggjöf. Byggist löggjöf um vinnutíma einkum á því að vernda starfsmenn gegn óhóflega löngum vinnutíma með því að tryggja þeim lágmarkshvíld. Helstu ákvæði um vinnutíma og hvíldartíma er að finna í IX. kafla laganna. Er þar annars vegar mælt fyrir um lágmarkshvíldartíma á sólarhring og hins vegar um vikulegan frídag en jafnframt veittar ákveðnar heimildir til frávika frá þessum reglum. Með lögum nr. 52/1997 var ákvæði 52. gr. laga nr. 46/1980 breytt til samræmis við ákvæði vinnutímatilskipunarinnar um 11 klukkustunda lágmarkshvíld á sólarhring en ákvæðið mælti áður fyrir um 10 klukkustunda lágmarkshvíld.
    Með þessu frumvarpi er í fyrsta lagi lagt til að reglur IX. kafla laga nr. 46/1980 um lágmarkshvíld og vikulegan frídag verði útfærðar með öðrum hætti en nú með hliðsjón af efni vinnutímatilskipunarinnar. Í öðru lagi er lagt til að fleiri efnisreglum er snerta vinnutíma verði bætt við kaflann. Í þriðja lagi er lagt til að í stað þess að Vinnueftirlit ríkisins veiti undanþágur frá vinnutímaákvæðunum verði nánari útfærsla þeirra, innan ramma laganna, í höndum samtaka aðila vinnumarkaðarins. Gert er ráð fyrir að samtökin hafi verulegt svigrúm til samninga innan þess ramma sem vinnutímatilskipunin mælir fyrir um.

IV. Kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins og aðdragandi frumvarps.

    Í a-lið 1. mgr. 18. gr. vinnutímatilskipunarinnar er kveðið á um að stjórnvöld í aðildarríkjum Evrópusambandsins skuli samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipuninni eigi síðar en 23. nóvember 1996 eða fullvissa sig um í síðasta lagi þann dag að samtök aðila vinnumarkaðarins hafi með samningi gert nauðsynlegar ráðstafanir þeim til framkvæmdar, enda bera aðildarríkin fulla ábyrgð á að ákvæðum þessarar tilskipunar sé ætíð fullnægt.
    Með hliðsjón af efni tilskipunarinnar og venjum hér á landi um samráð stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins fól félagsmálaráðherra með bréfi, dags. 2. júní 1995, samráðsnefnd félagsmálaráðuneytis og samtaka aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd reglna á sviði félagsmála sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu (EES-samráðsnefnd) að gera úttekt á áhrifum þess að tilskipunin tæki gildi hér á landi. Í nefndinni sitja fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna, félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og utanríkisráðuneytis.
    Með bréfi, dags. 2. febrúar 1996, skilaði nefndin ráðherra skýrslu um málið þar sem meðal annars var mælt með því að samtökum aðila vinnumarkaðarins yrði gefið svigrúm til að ná samkomulagi sín á milli og freista þess þannig að aðlaga reglur tilskipunarinnar að aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði. Félagsmálaráðherra féllst á að þessi leið yrði farin hér á landi og sömdu samtök aðila vinnumarkaðarins sín á milli um innleiðingu þessara reglna með kjarasamningum, sbr. auglýsingu félagsmálaráðuneytis nr. 285/1997, um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 93/104/EB frá 23. nóvember 1993 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Í auglýsingunni sem var birt í B-deild Stjórnartíðinda segir að ákveðið hafi verið að höfðu samráði við helstu samtök atvinnurekenda og launafólks að hrinda ákvæðum hennar í framkvæmd hér á landi með kjarasamningum, sbr. 1. mgr. 18. gr. tilskipunar nr. 93/104/EB. Í auglýsingunni er vísað til samninga eftirtalinna aðila um framkvæmd á efni tilskipunarinnar:
     1.      Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands (samningur undirritaður 30. desember 1996).
     2.      Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborg og launanefnd sveitarfélaga annars vegar og Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasamband Íslands hins vegar (samningur undirritaður 23. janúar 1997).
     3.      Alþýðusamband Íslands og Vinnumálasambandið (samningur undirritaður 10. apríl 1997).
    Í auglýsingunni segir jafnframt að í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, séu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, lágmarkskjör. Af því leiði að ákvæði vinnutímatilskipunarinnar hafi tekið gildi með kjarasamningunum og teljist vera lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði.
    Framangreindir kjarasamningar, sem hér á eftir verða nefndir vinnutímasamningarnir, öðluðust gildi hér á landi á fyrri hluta árs 1997. Vinnutímasamningarnir þrír eru í öllum meginatriðum samhljóða. Í þeim er að finna meginreglur tilskipunarinnar um daglegan og vikulegan hvíldartíma, ákvæði um vinnutíma næturvinnustarfsmanna o.fl., auk þess sem kveðið er á um sérstakar fráviksheimildir frá þessum meginreglum.
    Í bréfi EES-samráðsnefndar sem fylgdi með framangreindri skýrslu nefndarinnar til ráðherra kom einnig fram að í framhaldi af samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd á efni vinnutímatilskipunarinnar yrði rétt að huga að breytingum á vinnutímaákvæðum laga nr. 46/1980. Þetta var áréttað með erindi Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands til félagsmálaráðherra í upphafi árs 1998. Þar var lögð fram sú tillaga að ráðherra léti fara fram heildarendurskoðun á þeim ákvæðum laga nr. 46/1980 sem lúta að skipulagi vinnutíma með það fyrir augum að lögfesta meginreglur vinnutímatilskipunarinnar. Jafnframt var þess óskað að með lögum yrðu staðfestar heimildir samtaka aðila vinnumarkaðarins til að semja um frávik frá einstökum ákvæðum laganna að uppfylltum ákveðnum rammaákvæðum. Var meðal annars bent á að ákvæði vinnutímatilskipunarinnar ganga í nokkrum tilvikum lengra en lög nr. 46/1980, svo sem varðandi hvíldartíma og frítíma, auk þess sem kveðið er á um lengd vinnutíma.
    Í framhaldi af framangreindu bréfi Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins var fulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins í EES-samráðsnefnd falið að gera tillögur að lagabreytingum með hliðsjón af ákvæðum vinnutímatilskipunarinnar og gildandi kjarasamningum. Ekki náðist þó samkomulag meðal nefndarmanna en fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fjármálaráðuneytisins lögðu þó fram sameiginlegar tillögur sem meðal annars var höfð hliðsjón af við samningu frumvarps þessa.

V. Tilskipun nr. 89/391/EBE um lögleiðingu ráðstafana er stuðla
að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum.

    Tilskipun ráðsins nr. 89/391/EBE, um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum er frá 12. júní 1989 og er hluti af XVIII. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Tilskipunin felur í sér auknar skyldur atvinnurekenda og starfsmanna sem miða að því að færa eftirlit með vinnuumhverfinu inn í fyrirtækin og gera það að hluta af eðlilegri starfsemi fyrirtækjanna. Markmið tilskipunarinnar er, sbr. 1. mgr. 1. gr., að gera ráðstafanir til að stuðla að því að öryggi og heilsa starfsmanna á vinnustöðum verði bætt. Þau markmið falla að markmiðum laga nr. 46/1980 sem eru, sbr. 1. gr. laganna, að tryggja:
     a.      öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu,
     b.      skilyrði fyrir því að innan vinnustaðanna sjálfra sé unnt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál í samræmi við gildandi lög og reglur og ráðleggingar aðila vinnumarkaðarins og ráðleggingar og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins.
    Tilskipunin er rammatilskipun Evrópusambandsins á sviði vinnuverndar og hafa margar tilskipanir sem vísa til hennar verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þær hafa því verið innleiddar hér á landi og gilda á sérstökum fagsviðum eða miða að vernd ákveðinna áhættuhópa. Þessar reglur eiga það sammerkt að atvinnurekandi skal láta gera áhættumat í samstarfi við þá sem annast öryggismál innan fyrirtækja. Slíkt áhættumat miðar að því að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir áhættuna eða draga úr henni með skipulögðum hætti.
    Þá er gert ráð fyrir að ráðstafanir um forvarnir sem gerðar eru í kjölfar áhættumats verði felldar inn í alla starfsemi fyrirtækja á öllum þrepum og tryggi þannig starfsmönnum betri vernd með tilliti til öryggis og heilsu. Í lögum nr. 46/1980 er gert ráð fyrir að atvinnurekandi og starfsmenn hans vinni sameiginlega að öryggismálum og heilsuvernd. Í II. kafla laganna er þetta útfært með ýmsum hætti í samræmi við stærð fyrirtækja. Tilskipunin gerir þó sérstakar kröfur um hæfni þeirra starfsmanna sem starfa skulu að heilsuvernd innan fyrirtækja. Hafi atvinnurekandi ekki yfir að ráða hæfu starfsfólki til þeirra starfa ber honum að fá til liðs við sig utanaðkomandi þjónustuaðila, sbr. 3. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar.
    Tilskipunin hefur verið innleidd að hluta hér á landi með reglugerðum samgönguráðuneytis. Er þar um að ræða reglugerð um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum, nr. 785/1998, reglugerð um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum, nr. 786/1998, og reglugerð um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu flugverja, nr. 680/1999.

VI. Heilsuvernd starfsmanna.

    Mikilvægt er að atvinnurekendur hugi að öryggi og heilbrigði á vinnustað en ljóst er að bæði andlegt og líkamlegt álag í starfi getur haft áhrif á heilsu starfsmanna. Undanfarin ár hefur íslenskur vinnumarkaður tekið breytingum þar sem fjölbreytni í störfum hefur aukist. Þar á meðal hefur störfum fjölgað þar sem líkamleg áreynsla er lítil en andlegt álag hins vegar meira. Í rannsókn Eurostat frá árinu 1999 kemur fram að veikindi vegna streitu, þunglyndis, kvíða, ofbeldis á vinnustað og áreitni nema um 18% af veikindafjarvistum starfsmanna. Í fjórðungi þeirra voru starfsmenn frá vinnu í tvær vikur eða meira. Þá hafa fleiri rannsóknir sýnt að aukin vellíðan fólks í starfi er hagur allra, hvort sem um er að ræða starfsmanninn, atvinnurekandann eða samfélagið í heild. Því er lagt til í frumvarpi þessu að atvinnurekendur beri ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þar sem tekið er tillit til eðlis og skipulags starfsins ásamt stærð vinnustaðar. Áætlunin skal meðal annars fela í sér mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd.
    Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi beri ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem áhætta í starfi er metin með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Matið felur í sér greiningu á vinnuumhverfi og skal taka til allra þeirra þátta í vinnuumhverfinu sem geta stofnað öryggi og heilsu starfsmanna í hættu. Það felur í sér skoðun á þáttum eins og líkamlegu og andlegu álagi, hávaða og lýsingu, innanhússlofti, öryggismálum, meðferð hættulegra efna, mengun, geislun og aðstæðum fyrir ákveðna starfshópa, svo sem ungmenni, eldri starfsmenn, barnshafandi konur o.fl. Tilgangur áhættumatsins er einkum sá að gera atvinnurekendum og starfsmönnum grein fyrir þeirri áhættu sem kann að felast í viðkomandi störfum. Þannig er þeim gert kleift að koma í veg fyrir hana eða ef þess er ekki kostur að draga úr henni eins og frekast er unnt. Á þetta einkum við þegar sérstakir áhættuþættir koma til álita í störfum, svo sem hættuleg efni og efnavörur. Þess vegna er lagt til að við gerð áhættumatsins verði sérstaklega litið til þeirra starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna er sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum. Í þeim tilvikum þar sem miklir áhættuþættir eiga í hlut gilda jafnframt sérreglur, sbr. til dæmis tilskipun nr. 98/24/EB, um að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna gegn áhættu vegna efnafræðilegra áhrifavalda á vinnustað, sem vísað er til í 16. lið h XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 57/1999.
    Í kjölfar áhættumats er gert ráð fyrir að atvinnurekandi sjái um að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem að hluta til byggist á áhættumatinu. Auk þeirra markmiða sem talin eru upp í frumvarpi þessu má nefna að jafnan er leitast við að fyrirbyggja óþægindi, sjúkdóma og slys sem rekja má til atvinnu fólks en ekki síst að auka þekkingu atvinnurekenda og starfsmanna á áhættuþáttum í umhverfi.
    Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna. Þannig geta forvarnir verið stór hluti heilsuverndar. Gert er ráð fyrir að þegar niðurstöður áhættumats liggja fyrir sé gerð áætlun um forgangsröðun úrbóta. Mikilvægt er að þær forvarnarráðstafanir sem gripið er til í kjölfarið tryggi starfsmönnum betri vernd og séu felldar inn í starfsemi fyrirtækis. Eins og fram kemur í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins um heilsuvernd starfsmanna er unnt að skipta forvörnum niður í þrjú stig. Fyrsta stigs forvörn miðar að því að koma í veg fyrir að fólk verði fyrir heilsutjóni í vinnunni. Annars stigs forvörn er fólgin í aðgerðum sem miða að því að óþægindi eða einkenni, sem komin eru fram, ágerist ekki heldur réni og þriðja stigs forvörn miðar að því að koma í veg fyrir að heilsutjón þróist áfram og leiði til örorku eða dauða. Forvörn á þriðja stigi er að mestu á sviði heilbrigðisþjónustunnar.
    Fræðsla sem hluti af heilsuvernd starfsmanna getur tekið til ýmissa atriða, svo sem streitustjórnunar, álagssjúkdómavarna, mengunarvarna, meðferðar hættulegra efna, hávaðavarna, lýsingar og innanhússlofts, slysavarna, skyndihjálpar auk fleiri þátta. Ráðgjöfin snýr til dæmis að vinnuskipulagi og hönnun vinnuumhverfis, skipulagi og framkvæmd innra starfs í fyrirtækjum, ráðgjöf um aðgerðir og úrbætur í framhaldi af greiningu og mati á vinnuumhverfi og vinnuskipulagi og um leiðir til að virkja starfsmenn, stjórnendur og eigendur til þátttöku í vinnuvernd.
    Þegar áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd, krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita til hæfra þjónustuaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til þeirra starfa. Þjónustuaðilar skulu því hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlitsins um hæfni til að annast þessa þjónustu áður en þeir hefja störf. Það er í samræmi við niðurstöður Evrópudómstólsins í máli C-49/00 ( framkvæmdastjórnin gegn ítalska ríkinu). Samkvæmt ítalskri löggjöf höfðu atvinnurekendur um það val að ráða sér utanaðkomandi þjónustu þegar starfsmenn þeirra höfðu ekki nauðsynlega kunnáttu. Sú skipan var talin ófullnægjandi framkvæmd á 1. og 3. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar. Af túlkun dómstólsins leiðir að atvinnurekendum er skylt að leita aðstoðar utankomandi aðila þegar starfsmenn þeirra búa ekki yfir nauðsynlegri kunnáttu á þessu sviði. Enn fremur komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að það væri á verksviði aðildarríkjanna að skilgreina nauðsynlega færni og hæfni starfsmanna og þjónustuaðila, sbr. 8. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar. Að mati dómsins var það ekki talið samræmast ákvæðum tilskipunarinnar að fela atvinnurekendum sjálfum að skilgreina hæfni þessara aðila heldur væri það skylda aðildarríkjanna að setja lög og reglugerðir þar um. Ber aðildarríkjunum jafnframt að fylgjast með að þessum reglum sé framfylgt.
    Heilsufarsskoðanir þurfa að taka mið af áhættumati sem og þeim reglum sem eru í gildi um þetta efni. Þær eru að jafnaði í höndum heilbrigðisstarfsmanna og skulu taka mið af áhættuþáttum í umhverfi. Þess ber að geta að heilsuvernd starfsmanna á ekki að ná til almennrar heilsugæslu starfsmanna vegna tilfallandi sjúkdóma eða óþæginda.
    Þrátt fyrir að ákvæði laga nr. 46/1980 um heilsuvernd starfsmanna hafi ekki komið til almennrar framkvæmdar hafa ýmis fyrirtæki og stofnanir hér á landi keypt þjónustu sem felur í sér heilsuvernd á vinnustað í einhverju formi. Þannig hafa stór iðnfyrirtæki, svo sem Álverið í Straumsvík, Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, Kísiliðjan við Mývatn, Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki og Áburðarverksmiðjan, öll haft heilsuvernd á vinnustað í einhverju formi. Ýmsir aðilar hafa veitt þessa þjónustu, þ.e. heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og sjálfstætt starfandi aðilar. Eftir því sem best er vitað hafa þó fáar heilsugæslustöðvar séð sér fært að sinna heilsuvernd á vinnustöðum með formlegum hætti. Þó er vitað um undantekningar hjá nokkrum heilsugæslustöðvum sem hafa sinnt heilsuvernd starfsmanna. Ljóst er að gerðar eru aðrar kröfur til þeirra sem annast heilsuvernd starfsmanna en þeirra sem starfa í almennri heilbrigðisþjónustu. Er því eðlilegt að takmarka ekki þessa starfsemi við heilbrigðisstofnanir. Í því sambandi má benda á að fyrirtæki hér á landi hafa ólíkar þarfir fyrir heilsuvernd á vinnustað eftir atvinnugreinum, stærð fyrirtækja, umfangi og viðfangsefnum. Til að mæta þörfum atvinnulífsins mætti þannig sjá fyrir sér mismunandi rekstrarform heilsuverndar á vinnustað. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til geta einka- eða sameignarfyrirtæki annast hana sem og heilsugæslustöðvar og sjúkrahús. Hafi slík fyrirtæki ekki sérfræðinga með þekkingu á öllum fagsviðum heilsuverndar á vinnustað gætu þau haft ákveðið fagnet þannig að stjórnendur þjónustunnar tryggi að öll fagsviðin séu til staðar þegar á þarf að halda.

VII. Einelti á vinnustöðum.

    Skilgreining á því hvað telst einelti á vinnustað er vandasöm. Margs konar skilgreiningar hafa komið fram um hugtakið en þær eiga þó það flestar sammerkt að vísa til neikvæðrar háttsemi sem beint er að aðila á vinnustað hvort sem hún er líkamleg, orðbundin eða táknræn. Þá er áhersla lögð á að um sé að ræða kerfisbundna eða endurtekna háttsemi sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna þeim sem hún beinist að. Orsakir eineltis geta verið margs konar en skipulag vinnu getur spilað stórt hlutverk í að skapa aðstæður fyrir einelti, svo sem óljós verkaskipting og of mikið álag. Skortur á umburðarlyndi gagnvart þáttum sem kunna að aðgreina starfsmann frá starfshópnum getur einnig stuðlað að einelti, einkum í starfshópi þar sem streita og óöryggi er til staðar. Engu að síður er mjög mikilvægt að greina milli eineltis og annars konar deilna eða hagsmunaárekstra milli tveggja jafnsterkra einstaklinga enda vart gert ráð fyrir því að slíkar deilur séu viðvarandi eða endurtaki sig kerfisbundið. Í sambandi við skilgreiningu á kynferðislegri áreitni er vísað til 2. mgr. 17. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þar sem hugtakið er skilgreint sérstaklega.
    Í könnun sem gerð var af Evrópustofnun um bætt kjör og vinnuskilyrði ( European Foundation for the Improvement of Living and Working Conditions) frá árinu 2000 kom fram að 2% launafólks töldu sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni en 9% töldu sig hafa verið lögð í einelti. Könnun þessi var framkvæmd í Finnlandi, Bretlandi, Hollandi, Svíþjóð, Belgíu, á Spáni, Portúgal og Ítalíu. Þá bentu niðurstöður hennar til þess að tíðni eineltis væri mismunandi eftir starfsgreinum en einelti er algengast í þjónustustörfum og sölustörfum. Kom meðal annars fram að 14% opinberra starfsmanna töldu sig hafa orðið fyrir einelti og 13% þeirra sem störfuðu á hótelum og veitingahúsum. Hér á landi hafa verið framkvæmdar rannsóknir á tíðni eineltis í einstökum atvinnugreinum og hafa þær allar sýnt fram á að ákveðinn hluti fólks verður fyrir einelti í starfi.
    Alþjóðavinnumálastofnunin hefur vakið máls á vandamálum er tengjast einelti sem og öðru ofbeldi á vinnustöðum. Enn fremur er kveðið á um rétt til mannlegrar reisnar í starfi í 2. mgr. 26. gr. endurskoðaðs félagsmálasáttmála Evrópu. Þar kemur fram að stuðla skuli að vitund, upplýsingum um og forvörnum gegn endurtekinni ámælisverðri eða ótilhlýðilegri og móðgandi háttsemi sem beinist að einstökum starfsmönnum á vinnustað eða varða starf þeirra. Auk þess er kveðið á um að grípa skuli til hvers konar ráðstafana í því skyni að vernda launafólk gegn slíkri háttsemi. Víða í nágrannalöndum okkar hefur þótt ástæða til þess að setja sérstakar reglur um einelti á vinnustað, svo sem í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.
    Tilgangur slíkra ákvæða er að stuðla að því að starfsmenn njóti velsældar og virðingar í starfi. Er það ekki síst mikilvægt í ljósi þess að rannsóknir á einelti hafa sýnt að langvarandi einelti getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar í för með sér fyrir starfsmanninn. Hafa niðurstöður bent til að þolendur eineltis finni fyrir aukinni streitu sem getur komið fram til dæmis í þunglyndi, einbeitingarleysi, minnistruflunum, grátköstum og lystarleysi. Þetta er meðal annars í samræmi við niðurstöður framangreindrar rannsóknar en þar kom fram að 47% þeirra er töldu sig hafa orðið fyrir einelti upplifðu streitu og 46% þeirra sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Sambærilegar niðurstöður fengust enn fremur í rannsókn sem gerð var á vegum Vinnueftirlits ríkisins á líðan starfsfólks í umönnunargeiranum á árinu 2001. Þar kom fram að 12% starfsfólks taldi sig hafa orðið fyrir áreitni, ofbeldi eða hótunum í vinnunni. Þetta virtist hafa margvísleg neikvæð áhrif á líðan starfsfólks auk þess sem það upplifði meiri óánægju í starfi, minni glaðværð og minni samstöðu í starfshópnum. Sambærilegar niðurstöður má lesa út úr könnunum sem Vinnueftirlitið hefur gert í þó nokkrum starfshópum.

VIII. Skipulagsbreytingar hjá Vinnueftirliti ríkisins.
    

    Á undanförnum árum hafa í ríkara mæli verið sett skilyrði um að ljóst liggi fyrir hver beri ábyrgð á tilteknu málefni og hver hafi vald til að taka ákvarðanir samhliða auknum kröfum um vandaða og gagnsærri stjórnsýslu. Sú þróun að færa stjórnunarheimildir í auknum mæli til undirstofnana skilar því ekki tilætluðum árangri nema að almenningur geti séð hver beri ábyrgð á að þeim sé beitt á árangursríkan hátt og í samræmi við heimildir. Ýmsir þættir eru til þess fallnir að gera valdssvið og stjórnunarumboð forstöðumanna óskýr. Einn þeirra er þegar fleiri en einum aðila er fengið formlegt vald sem tengist stjórnun stofnunar. Þá eykst hættan á að aðilarnir reyni að firra sig ábyrgð með því að benda hver á annan og erfitt getur reynst að greina orsakir og eðli vandamála.
    Í því skyni að koma í veg fyrir slíkt hafa stjórnvöld stefnt að því að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana við töku ákvarðana er varða stjórnun og starfsmannahald á kostnað fjölskipaðra stjórna. Í starfsmannalögum nr. 70/1996, kemur þessi stefna stjórnvalda skýrt fram en í athugasemdum við 38. gr. laganna er tekið fram að viðkomandi ráðherra skuli gera forstöðumanni ljóst í erindisbréfi hvaða markmiðum stefnt skuli að í rekstri stofnunar og hvaða verkefnum sé ætlast til að hún sinni. Þá er lögð lagaleg og rekstrarleg ábyrgð á herðar forstöðumanna stofnana sem felast meðal annars í því að tryggja að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Er með þessu verið að koma í veg fyrir dreifingu ábyrgðar milli fleiri aðila en í staðinn eru gerðar auknar kröfur til forstöðumanna stofnana og ábyrgð þeirra gerð meiri. Á sama hátt verður valdsvið þeirra og ábyrgð skýrari gagnvart viðkomandi ráðuneyti. Þykir þetta stjórnunarfyrirkomulag eðlilegra í ljósi meginreglunnar um ábyrgð ráðherra á starfsemi og ákvörðunum í málaflokkum er undir þá heyra en fræðimenn hafa talið að sjálfstæðar valdheimildir stjórna samrýmist illa þeirri meginreglu. Í þessu sambandi þarf einnig að hafa í huga að þar sem ráðherra hefur takmörkuð áhrif á skipan stjórna bera þær í raun að miklu leyti ábyrgð gagnvart öðrum en ráðherra. Getur þá jafnvel komið upp sú staða að hagsmunir fulltrúa í stjórn fari ekki saman við hagsmuni stofnunar eða ráðherra.
    Framangreindri stefnu stjórnvalda hefur verið fylgt við endurskoðun á skipulagi Vinnueftirlits ríkisins þannig að ekki er gert ráð fyrir sérstakri stjórn yfir stofnuninni í þeirri mynd sem verið hefur. Lagt er til að félagsmálaráðherra skipi forstjóra sem ber lagalega og rekstrarlega ábyrgð á stofnuninni ásamt ábyrgð á árangri af störfum hennar. Hefur sama þróun átt sér stað við endurskoðun á skipulagi annarra undirstofnana ráðuneyta, svo sem Jafnréttisstofu, Brunamálastofnunar, Geislavarna ríkisins og Umhverfisstofnunar.
    Eigi að síður er talið mjög mikilvægt að stjórnvöld hafi áfram náið samráð við aðila vinnumarkaðarins um hvernig haga skuli málum er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Er þýðingarmikið að aðilar vinnumarkaðarins komi að faglegri stefnumótun á sviði vinnuverndar. Þess vegna er lagt til að félagsmálaráðherra skipi áfram stjórn Vinnueftirlits ríkisins en hlutverk og ábyrgð stjórnarinnar er skilgreint með öðrum hætti. Er gert ráð fyrir að stjórnin beri ábyrgð á faglegri stefnumótun Vinnueftirlits ríkisins og sé ráðherra og forstjóra til ráðgjafar í málum er tengjast bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum. Er meðal annars lagt til að hún geri tillögur til ráðherra um úrbætur, þar á meðal um hvort þörf sé á lagabreytingum eða setningu reglugerða eða annarra reglna. Lagt er til að stjórnin hafi ekki lengur vald til að setja reglur heldur að ráðherra setji ekki reglur á þessu sviði nema að fenginni umsögn stjórnarinnar enda mikilvægt að vinna opið að reglusetningu og tryggja með skilvirkum hætti tækifæri hagsmunaaðila til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Stjórnin yrði skipuð fulltrúum heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins en gert er ráð fyrir að ráðherra skipi formann án tilnefningar. Yrði því hin nýja stjórn skipuð með sambærilegum hætti og stjórn Vinnueftirlits ríkisins er skipuð samkvæmt gildandi lögum. Slíkt fyrirkomulag er meðal annars í samræmi við 3. mgr. 3. gr. félagsmálasáttmála Evrópu sem íslensk stjórnvöld hafa fullgilt. Á sama hátt er áhersla lögð á gott samráð milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um vinnuverndarmálefni hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni.
    Í samræmi við framangreint er enn fremur lögð til sú breyting á gildandi lögum að félagsmálaráðherra verði falið að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laganna. Það er viðurkennt sjónarmið að framsali lagasetningarvalds skuli vera þröngar skorður settar enda ýmis rök sem mæla með því að slíkt framsal sé heimilt að vissu marki. Má þar meðal annars nefna að hætta er á að lagabálkar verði óhæfilega langir og flóknir og reynslan hefur sýnt sig að mikilvægt er að lög séu nokkuð stöðug en stjórnsýslan sveigjanleg. Í því sambandi þykir eðlilegra að framsalið nái einvörðungu til ráðherra fremur en sérstakrar stofnunar eða fjölskipaðs stjórnvalds þar sem ráðherra ber ætíð ábyrgð á efni stjórnsýslufyrirmæla í samræmi við áðurnefnda meginreglu íslensks stjórnkerfis um að ráðherra fari með yfirstjórn þeirra stjórnarmálefna er undir hann heyra. Þar með er gert skýrara fyrir hinum almenna borgara hver beri hina endanlegu ábyrgð á setningu reglna. Þá er óneitanlega auðveldara fyrir ráðherra og embættismenn ráðuneyta að hafa raunverulega yfirsýn yfir og þekkingu á efni reglugerða og afleiðingum þeirra þegar ráðherra sjálfum er falið þetta vald. Engu að síður verður áfram gert ráð fyrir að starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins og stjórn stofnunarinnar standi að undirbúningi að reglum á sviði vinnuverndar.
    Eftirlitsstarfsemi hins opinbera hefur mjög verið til umfjöllunar hin síðari ár. Slík starfsemi verður að teljast nauðsynleg á mörgum sviðum í þeim tilgangi að tryggja öryggi fólks, eigna og umhverfis. Með setningu stjórnsýslulaga árið 1993 voru starfshættir eftirlitsstofnana felldir í fastara form. Enda þótt skyldur þessara aðila hafi ekki breyst með tilkomu laganna voru málsmeðferðarreglur lögfestar og gerðar þannig sýnilegri almenningi. Enn fremur var það úrræði að fá ákvörðun lægra setts stjórnvalds endurskoðaða hjá æðra stjórnvaldi komið í fastari skorður svo það mætti vera virkara en fyrir gildistöku laganna.
    Þá samþykktu ráðherrar OECD ríkjanna tveimur árum síðar sérstök tilmæli til aðildarríkja sinna um að taka eftirlitsstarfsemi, reglusetningu og reglustýringu til markvissrar skoðunar. Þar minnti OECD á að reglusetning og reglustýring væru meðal mikilvægustu verkfæra stjórnvalda og vandaðar reglur væru því grundvöllur árangursríkrar stjórnsýslu. Mikilvægt er að stjórnvöld endurskoði reglulega eigin reglusetningu og eftirlitsmál. Eiga þær ábendingar við um mál er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem og önnur mál sem þurfa eftirlits með. Ekki síður er mikilvægt að stjórnvöld hafi vakandi auga fyrir umfangi eftirlitsstarfseminnar hverju sinni en þar skiptir meðal annars máli að þess sé gætt að skörun verði sem minnst á starfssviði eftirlitsstofnana. Við gerð frumvarps þessa var farið yfir verkaskiptingu einstakra eftirlitsstofnana á vegum hins opinbera í sambandi við hættuleg efni og efnavöru. Eru lagðar til breytingar á lagaákvæðum þar sem skörun var varðandi verkefni Vinnueftirlits ríkisins við aðrar eftirlitsstofnanir á þessu sviði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
    

    Lagt er til að ákvæði c-liðar 2. mgr. 2. gr. falli brott. Ákvæði þessu hefur ekki verið beitt í framkvæmd og verður að telja eðlilegt að um afmörkun þess hvort störf í heimahúsum falli undir gildissvið laganna fari eftir hugtakanotkun og markmiðum þeirra að öðru leyti, svo sem um það hverjir teljast starfsmenn og hvað teljist starfsemi í skilningi þeirra.


Um 2. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til orðalagsbreytingar á ýmsum ákvæðum laganna til samræmis við stjórnkerfisbreytingar sem fram koma í frumvarpinu, meðal annars þær að félagsmálaráðherra setji reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, í stað þess að stjórnin setji reglur.

Um 3. gr.
    

    Þessi viðbót er í samræmi við aðrar breytingar sem felast í frumvarpi þessu. Lagt er til að atvinnurekandi stuðli ekki einungis að samstarfi þeirra sem kjörnir eru til að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og þeirra sem annast heilbrigðisþjónustu heldur einnig að haft verði samstarf við þá sem annast heilsuvernd starfsmanna, sbr. 22.–25. gr. frumvarps þessa.


Um 4. gr.
    

    Lagt er til að ákvæði III. kafla laganna verði felld brott þar sem lagt er til í 35. gr. frumvarps þessa að félagsmálaráðherra verði heimilt að skipa vinnuverndarráð einstakra starfsgreina sem kæmu í stað öryggisnefnda sérgreina. Hlutverk þeirra yrði sambærilegt en skipulag þess fært til samræmis við aðrar skipulagsbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu.


Um 5. gr.
    

    Sú breyting sem lögð er til á 13. gr. laganna er í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á efni XI. kafla laganna, sbr. 22.–28. gr. frumvarpsins.


Um 6. gr.
    

    Samkvæmt 24. gr. laganna á orðið starfsmaður í lögunum við um hvern þann sem vinnur launuð störf í þjónustu annarra. Lagt er til að hugtakið nái einnig til nema og lærlinga án tillits til þess hvort þeir gegna launuðum störfum en jafnframt er gert ráð fyrir að starf á vinnustaðnum sé liður í skipulögðu námi viðkomandi nema eða lærlings. Er þá átt við að fyrir liggi með formlegum hætti hvernig hlutaðeigandi nám tengist viðkomandi vinnustað. Hér undir falla því ekki nemendur í starfskynningu eða heimsókn á vegum skóla. Breytingin byggist á ákvæði a-liðar 3. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE. Benda má á að í X. kafla laganna er beinlínis gert ráð fyrir að þau taki til unglinga í starfsnámi, sbr. til dæmis 2. mgr. 62. gr. Mikilvægt þykir að skýrt verði að þessi hópur falli undir lögin en nemar og lærlingar eru oft í sérstakri áhættu gagnvart óhöppum á vinnustað sökum ungs aldurs og reynsluleysis.

Um 7. og 8. gr.
    

    Í ákvæðunum eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við stjórnkerfisbreytingar sem fram koma í frumvarpinu, meðal annars þær að félagsmálaráðherra setji reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, í stað þess að stjórnin setji reglur.

Um 9. gr.
    

    A-liður ákvæðis þessa er í samræmi við 13. gr. vinnutímatilskipunarinnar en þar er kveðið á um að vinnuveitandi sem skipuleggur vinnu eftir ákveðnu mynstri skuli taka tillit til þeirrar meginreglu að aðlaga skuli vinnuna að starfsmanninum. Markmið þessa er einkum að draga úr áhrifum einhæfra starfa og þeirra starfa sem unnin eru með fyrir fram ákveðnum hraða.
    Lagt er til í b-lið að félagsmálaráðherra, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, verði heimilt að setja nánari reglur um ráðstafanir til að koma í veg fyrir og uppræta einelti á vinnustöðum. Hugtakið einelti er skilgreint þannig að um sé að ræða endurtekna áreitni eða aðra ótilhlýðilega háttsemi, þar á meðal kynferðislega áreitni, sem beint er að einum eða fleiri starfsmönnum á vinnustað. Mikilvægt er að starfsmenn njóti verndar gegn andlegri áreitni sem og líkamlegri enda ljóst að hvers kyns neikvæð áreitni í starfi getur valdið vanlíðan hjá fólki. Að öðru leyti er vísað til VII. kafla almennra athugasemda frumvarps þessa.


Um 10.–12. gr.
    

    Í ákvæðinum eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við stjórnkerfisbreytingar sem fram koma í frumvarpinu, meðal annars þær að félagsmálaráðherra setji reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, í stað þess að stjórnin setji reglur.

Um 13. gr.

    Gerðir Evrópusambandsins, sem fjalla um samræmingu laga aðildarríkjanna um öryggi og heilsuvernd í tengslum við ýmsar vélar, tæki og annan búnað, svo sem um færanlegan þrýstibúnað og lyftur, hafa verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Markmið nýaðferðagerða er meðal annars að ná fram einsleitni innan Evrópska efnahagssvæðisins og koma í veg fyrir viðskiptahindranir. Með tilkomu gagnkvæmra viðurkenninga á vottunum og prófunum á Evrópska efnahagssvæðinu hefur eftirlit sem haft hefur verið með gæði vöru í einstökum ríkjum verið fellt niður. Þess í stað hefur komið sérstakt eftirlit á markaði. Tilgangur þess er að ganga úr skugga um að tegund tækja, véla eða annars búnaðar uppfylli sett skilyrði og gildandi öryggiskröfur. Í því skyni að tryggja að reglunum sé fylgt eftir eru sett formskilyrði um að þær vélar, tæki eða annar búnaður sem um er að ræða hafi tilteknar merkingar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi, prófunarskýrslur eða skjöl með tæknilegum upplýsingum. Þegar tegund véla, tækja eða annars búnaðar fullnægir ekki settum skilyrðum er óheimilt að markaðssetja hana í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og notkun hennar er bönnuð enda er markmiðið meðal annars að tryggja að þær tegundir sem seldar eru og notaðar á innri markaði fullnægi settum öryggiskröfum, sbr. til dæmis efni tilskipunar nr. 98/37/EB, um samræmingu laga aðildarríkjanna um vélar sem vísað er til í 1. lið XXIV. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 94/1999, tilskipunar nr. 95/16/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna varðandi lyftur sem vísað er til í 5. lið III. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 29/1997, og tilskipunar nr. 97/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna varðandi þrýstibúnað sem vísað er til í 6. lið a VIII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 82/1998. Er því lagt til að lögin hafi að geyma skýrt ákvæði um að óheimilt sé að markaðssetja eða taka í notkun tegund véla, tækja eða annars búnaðar sem fellur undir gildissvið laganna og fullnægir ekki settum skilyrðum. Hugtakið markaðssetning nær bæði til sölu og auglýsinga á tegundum véla, tækja og annars búnaðar.
    Lagt er til að félagsmálaráðherra, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, verði fengin heimild til að setja reglur um kröfur sem tegund véla, tækja eða annars búnaðar þarf að uppfylla til þess að teljast örugg og um þær aðferðir sem framleiðandi getur beitt til að sýna fram á að tegund sé í samræmi við settar reglur. Er þessi tillaga lögð fram þar sem ætla má að tilskipunum Evrópusambandsins sem teknar eru upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eigi eftir að fjölga enda markmiðið að samræma reglur á sviði öryggis og heilsuverndar á vinnustöðum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Yrði því torveldara í framkvæmd ef breyta þyrfti lögunum í hvert sinn sem ný tilskipun væri tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Enn fremur eru þessar tilskipanir mjög tæknilegar og þarf því að útfæra þær í sérreglum svo að lögin verði ekki óhæfilega löng og flókin.


Um 14. gr.
    

    Mikilvægt er að stjórnvöld geti gripið til viðeigandi aðgerða þegar tegund er á markaði sem fullnægir ekki settum öryggiskröfum eða öðrum skilyrðum. Er því lagt til að Vinnueftirliti ríkisins verði falin heimild til að banna markaðssetningu og notkun tegunda véla, tækja eða annars búnaðar sem heyrir undir lögin og fullnægja ekki ákvæðum þeirra, annarra sérreglna sem settar eru með heimild í þeim eða viðurkenndra staðla er gilda á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Áður en gripið er til slíkra úrræða er gert ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins veiti atvinnurekanda, framleiðanda tegundar tækis, vélar eða annars búnaðar eða fulltrúa hans, eftir því sem við á, tækifæri til að bæta úr annmörkum hennar innan hæfilegs frests í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.
    Ákvæði 2. mgr. er í samræmi við þær öryggiskröfur sem gerðar eru í nokkrum gerðum Evrópusambandsins um vélar, tæki og annan búnað sem teknar hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, til dæmis tilskipun nr. 98/37/EB, um samræmingu laga aðildarríkjanna um vélar sem vísað er til í 1. lið XXIV. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 94/1999, og tilskipun nr. 1999/36/EB, um færanlegan þrýstibúnað, sem vísað er til í 6. lið a VIII. kafla II. viðauka og 17. liðar c XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og þeim var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 3/2000. Er með þessu verið að tryggja virkt eftirlit með tegundum véla, tækja og annars búnaðar enda þótt þær hafi fengið viðurkenningu um að fullnægja þeim reglum sem um þær gilda. Getur til dæmis verið um galla að ræða í fáeinum eintökum. Hér er eingöngu heimilt að banna markaðssetningu og notkun í tiltekinn tíma eða setja sérstök skilyrði fyrir markaðssetningu og notkun þangað til úrbætur eru gerðar. Er gert ráð fyrir að bannið skuli ekki vara lengur en fjórar vikur enda litið svo á að það sé hæfilegur tími til að rannsaka málið og grípa til viðeigandi úrbóta á ástandinu leiði rannsóknin í ljós að viðkomandi tegund ógni öryggi og heilsu fólks. Þó er lagt til að heimilt sé að framlengja bannið um allt að fjórar vikur til viðbótar ef sérstakar ástæður vegna rannsóknarinnar krefjast þess. Ef ábyrgðaraðili torveldar skoðun eða rannsókn tegundar eða hefur ekki tiltæk fullnægjandi gögn um öryggi hennar getur Vinnueftirlit ríkisins bannað markaðssetningu hennar og notkun.
    Þegar Vinnueftirlit ríkisins tekur ákvörðun samkvæmt ákvæði þessu er mikilvægt að gæta ákvæða stjórnsýslulaga við málsmeðferð, rannsókn og ákvörðunartökuna sjálfa. Þegar taka þarf ákvörðun til að koma í veg fyrir bráða og yfirvofandi hættu skal ákvörðun tekin til bráðabirgða. Skal þá málið tekið til meðferðar á ný þar sem tekin er endanleg ákvörðun um málalyktir. Þarf þá að rannsaka málið betur og veita aðilum færi á að tjá sig. Endanlega ákvörðun skal taka eins fljótt og unnt er.

Um 15. gr.


    Ákvæði þetta fjallar meðal annars um innheimtu þjónustugjalda sem ætlað er að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við tiltekna þjónustu sem veitt er gjaldanda. Í ljósi þess að þjónustugjöld eru í eðli sínu íþyngjandi fyrir gjaldandann verða þjónustugjöld almennt ekki innheimt nema fyrir þeim sé skýr lagaheimild. Á þetta sérstaklega við þegar um lögmælta þjónustustarfsemi er að ræða. Er þess vegna lagt til að skýrt verði kveðið á um fyrir hvaða þjónustu Vinnueftirlits ríkisins verði heimilt að innheimta gjöld samkvæmt gjaldskrá sem félagsmálaráðherra setur að fengnum tillögum forstjóra Vinnueftirlits ríkisins. Er enn fremur talið mikilvægt að ráðherra leiti umsagnar stjórnar Vinnueftirlits ríkisins áður en hann setur gjaldskrána. Er í þessari grein ásamt ákvæði 32. gr. frumvarpsins um að ræða tæmandi upptalningu á hvers konar þjónustustarfsemi heimilt er að taka gjald fyrir.
    Lagt er til að Vinnueftirliti ríkisins verði heimilt að innheimta þjónustugjöld vegna skoðunar og skráningar á lyftum og lyftubúnaði, rúllustigum, kötlum, þrýstihylkjum og geymum, sbr. 1. mgr. 46. gr. laganna, en áður hefur sú þjónusta verið talin til aukaþjónustu skv. 2. mgr. 80. gr. laganna. Í 2. mgr. 49. gr. laganna er heimild til að setja í gjaldskrá þjónustugjöld vegna skráningar og skoðunar á farandvélum, farandvinnuvélum og búvélum og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Þá þykir ástæða til að fyrir hendi sé skýr lagaheimild fyrir gjaldtöku vegna aukaskoðana sem þarf að gera ef vanbúnaðar kemur í ljós við reglubundna skoðun og aukaskoðana vegna uppsetningar, breytinga eða viðgerða á umræddum vélum, tækjum eða öðrum búnaði sem eru með gilda reglubundna skoðun.
    Enn fremur eru lagðar til orðalagsbreytingar í 1. og 3. mgr. 49. gr. laganna til samræmis við stjórnkerfisbreytingar sem fram koma í frumvarpinu, meðal annars þær að félagsmálaráðherra setji reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, í stað þess að stjórnin setji reglur.
    

Um 16. og 17. gr.
    

    Eftirlit með notkun hættulegra efna og efnavöru fellur undir verksvið nokkurra opinberra eftirlitsstofnana, svo sem Hollustuverndar ríkisins (nú Umhverfisstofnunar), Vinnueftirlits ríkisins og Lyfjastofnunar. Í ljósi mikilvægi þess að verkaskipting milli eftirlitsstofnana sé sett fram með skýrum hætti og þess gætt að skörun verði sem minnst á starfssviði eftirlitsstofnana eru lagðar til breytingar á ákvæðum VIII. kafla laganna, er fjalla um hættuleg efni og vörur. Í samráði við umhverfisráðuneytið er lagt til að Vinnueftirlit ríkisins sjái áfram um eftirlit með notkun, meðferð, geymslu og flutning efna og efnavara á vinnustöðum í því skyni að tryggja öryggi starfsmanna og koma í veg fyrir að heilsu þeirra sé hætta búin. Þykir eðlilegra að ákvæði um nauðsynlegar og auðskildar leiðbeiningar á íslensku skuli fylgja með þegar hættuleg efni eða efnavörur eru afhent, sbr. 2. mgr. 50. gr. laganna, eigi undir sérlög um efni og efnavöru er fellur undir verksvið umhverfisráðuneytis. Öryggisleiðbeiningar skulu þó vera til staðar þar sem hættuleg efni og efnavörur eru notaðar við atvinnustarfsemi, sbr. reglur um öryggisleiðbeiningar vegna efnanotkunar á vinnustöðum, nr. 602/1999. Færst hefur í vöxt að unnið sé með lítt eða óskilgreindan úrgang sem inniheldur hættuleg efni og flokkast sem spilliefni. Þar sem reglur um öryggisleiðbeiningar ná ekki til slíks úrgangs er atvinnurekanda gert að fyrir liggi skriflegar leiðbeiningar um meðferð slíks úrgangs á vinnustað. Enn fremur er lagt til að almenn heimild til að banna framleiðslu, flutning og notkun hættulegra efna og efnavöru, sbr. 2. mgr. 51. gr. laganna, sé enn fremur í höndum umhverfisráðuneytis. Gert er þó ráð fyrir að Vinnueftirliti ríkisins verði áfram falin slík heimild er varðar bann við framleiðslu, flutning og notkun hættulegra efna og efnavöru á vinnustöðum. Þessar breytingar eru gerðar í samræmi við breytta verkaskiptingu í framkvæmd milli opinberra stofnana sem sjá til þess að fyllstu varúðar sé gætt vegna hvers konar efna sem geta valdið hættu fyrir fólk og umhverfi.
    Gert er ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins gefi út sérstakt eiturefnaleyfi til einstaklinga og fyrirtækja sem nota eiturefni eða efnavöru sem flokkast sem eiturefni að staðaldri við framkvæmd vinnunnar að uppfylltum nauðsynlegum öryggiskröfum. Þá skal Vinnueftirlitið hafa eftirlit með að þeim framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðum sé beitt sem tryggja að starfsmenn séu varðir gegn slysum, mengun og sjúkdómum. Þar á meðal fellur hér undir að gæta skal þess að efnin séu í öruggum umbúðum og að þær séu merktar á viðeigandi hátt á vinnustöðum. Á þetta sérstaklega við þegar hættulegum efnum eða efnavöru hefur verið komið fyrir í öðrum umbúðum til notkunar, geymslu eða sem efnaúrgangur en þeim sem efnin voru upprunalega í. Enn fremur skal tryggja að hættuleg efni, efnavörur og úrgangur séu geymd með öruggum hætti. Um skilgreiningu á eiturefnum, hættulegum efnum, hættulegri efnavöru, sprengifimum efnum og eldfimum efnum vísast til laga um eiturefni og hættuleg efni nr. 52/1988, ásamt reglum umhverfisráðuneytis sem eiga sér stoð í þeim lögum.
    Lagt er til að atvinnurekandi sjái til þess að öryggisblöð og/eða skriflegar leiðbeiningar, eftir því sem við á, liggi frammi á vinnustaðnum ásamt því að kynna starfsmönnum efni þeirra þegar áhættumat gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin vegna efnis, efnavöru eða úrgangs. Þetta ákvæði er meðal annars í samræmi við 10. gr. tilskipunar nr. 2000/54/EB, um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna líffræðilegra áhrifavalda á vinnustöðum, sem vísað er til í 15. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 79/2001 og 7. gr. tilskipunar nr. 98/24/EB, um að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna gegn áhættu vegna efnafræðilegra áhrifavalda á vinnustað, sem vísað er til í 16. lið h XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 57/1999.
    Þá er mælst til þess að atvinnurekanda sé gert að grípa til nauðsynlegra forvarna til að koma í veg fyrir mengun á vinnustað sem ekki skal fara yfir gildandi mengunarmörk efnis, sbr. reglur nr. 154/1999, um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum, sbr. tilskipun nr. 91/322/EBE um að taka saman skrá yfir leiðbeinandi viðmiðunarmörk til framkvæmdar á tilskipun ráðsins nr. 80/1107/EBE um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna efnis-, eðlis- og líffræðilegra áhrifavalda á vinnustöðum, sem vísað er til í 3. lið a XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 34/1997, með síðari breytingum. Sé þess ekki kostur að koma alfarið í veg fyrir mengun skal atvinnurekandi draga úr henni eins og frekast er unnt. Í því sambandi er lagt til að atvinnurekandi leitist ávallt við, með tilliti til eðlis starfseminnar, að nota efni eða efnavöru sem teljast hættulaus eða síður hættuleg heilsu starfsmanna við þær aðstæður sem þau eru notuð. Þetta er liður í forvarnaraðgerðum en þarna er einnig átt við að leitast skuli við að draga úr magni hættulegra efna eða efnavöru eins og frekast er unnt með tilliti til eðlis starfseminnar.
    Þá er lagt til að félagsmálaráðherra geti sett nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og umhverfisráðuneytis, um skilyrði eiturefnaleyfis, mengunarmörk, meðferð, umbúðir, áfyllingu, merkingu, geymslu, flutning og notkun efna og efnavara sem geta stofnað heilsu starfsmanna í hættu eða leitt til lakari aðbúnaðar á vinnustöðum. Ástæða þessa er að misjafnar öryggiskröfur þarf að gera eftir eðli og eiginleikum efna eða efnavara.
    

Um 18. gr.


    Ákvæðið fjallar um skyldur atvinnurekenda sem nota eða kunna að nota hættuleg efni í töluverðum mæli til að viðhafa öryggisráðstafanir svo að koma megi í veg fyrir slys sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir fólk og umhverfi, svo sem slys í efnaverksmiðjum. Í gildi eru reglur um hættumat í iðnaðarstarfsemi sem eiga stoð í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og falla undir verksvið umhverfisráðuneytis. Þykir eðlilegra að slíkar reglur falli undir lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, þar sem um er að ræða skyldur atvinnurekenda við að gæta öryggis og hollustu á vinnustöðum. Umhverfisráðuneytið hefði áfram með að gera reglur um varnir fyrir umhverfið og mat á skemmdum á byggingum og öðrum mannvirkjum sem sigla í kjölfar slíkra slysa.
    Í 1. mgr. er einkum verið að vísa til efnis tilskipunar nr. 96/82/EB, um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna, sem vísað er til í 23. lið a XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar, nr. 97/1997. Þar er meðal annars fjallað um ábyrgð aðildarríkjanna á að tryggja að rekstraraðilum sé skylt að gera grein fyrir áætlunum sínum um stórslysavarnir í sérstöku skjali og sjá til þess að þær verði framkvæmdar á réttan hátt, sbr. 7. gr. tilskipunarinnar. Er rekstraraðila enn fremur gert skylt að leggja fram öryggisskýrslu, sbr. 9. gr. tilskipunarinnar. Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra setji reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og samráðsnefndar um stórslysavarnir í iðnaði, um nánari útlistun á þessum skyldum atvinnurekenda.
    Þá er lagt til að félagsmálaráðherra skipi fjögurra manna samráðsnefnd um stórslysavarnir í iðnaði að fengnum tilnefningum frá Brunamálastofnun, Almannavörnum ríkisins, Umhverfisstofnun og Vinnueftirliti ríkisins. Slík nefnd hefur verið starfandi frá árinu 1995. Í henni sitja fulltrúar tilnefndir af sömu aðilum, sbr. 1. gr. reglugerðar um eftirlit með framkvæmd hættumats í iðnaðarstarfsemi nr. 557/1995. Skipan nefndarinnar er í samræmi við 16. gr. tilskipunar nr. 96/82/EB, um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna.


Um 19. gr.
    

    Fyrirsögn IX. kafla laganna er hvíldartími og frídagar. Til samræmis við efnisinnihald þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpi þessu er lagt til að orðinu hámarksvinnutími verði bætt við fyrirsögnina.
    Um a-lið (52. gr.).
    Í ákvæðinu er að finna upptalningu á þeim meginhugtökum er lúta að efni IX. kafla laganna en skilgreiningar þeirra eru í samræmi við 2. gr. vinnutímatilskipunarinnar.
    Með hugtakinu vinnutími, sbr. 1. tölul., er átt við virkan vinnutíma, þ.e. sá tími sem starfsmaður er við störf, er til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín eða skyldur. Vinnuhlé þar sem ekki er krafist vinnuframlags, neysluhlé, launaður biðtími, ferðir til og frá vinnustað eða reglubundinni starfsstöð og sérstakir frídagar falla ekki undir þessa skilgreiningu á vinnutíma þótt greiðslur komi fyrir, enda er miðað við virkan vinnutíma en ekki greiddan. Sem dæmi um tíma sem ekki telst til virks vinnutíma eru kaffi- og matartímar, jafnvel þótt sá tími sé greiddur, bakvaktir, kallvaktir, gæsluvaktir og þess háttar, svo lengi sem starfsmaður er ekki kallaður til starfa. Sé starfsmaður hins vegar kallaður til starfa skal telja þann tíma sem hann er við vinnu til virks vinnutíma.
    Hugtakið hvíldartími er skv. 2. tölul. sá tími sem ekki telst til vinnutíma. Í því sambandi ber að gæta þess að starfsmenn eiga rétt á samfelldri daglegri hvíld frá störfum og starfsskyldum, sbr. c-lið greinarinnar.
    Hugtakið næturvinnutími er skilgreint í 3. tölul. sem tímabil sem skal ekki vera skemmra en sjö klukkustundir og skal ná yfir tímabilið frá miðnætti til klukkan fimm að morgni, sbr. 3. mgr. 2. gr. vinnutímatilskipunarinnar. Í því felst að næturvinnutími getur til dæmis verið frá klukkan 22.00 til klukkan 05.00 eða frá klukkan 24.00 til klukkan 07.00. Ákvæðið gerir ráð fyrir að um nánari afmörkun tímabilsins fari samkvæmt samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins. Í vinnutímasamningunum hefur næturvinnutími verið skilgreindur sem tímabilið frá klukkan 23.00 til klukkan 06.00.
    Næturvinnustarfsmaður er, sbr. 4. tölul. og í samræmi við 4. mgr. 2. gr. vinnutímatilskipunarinnar, annars vegar starfsmaður sem venjulega vinnur að minnsta kosti þrjár klukkustundir af daglegum vinnutíma sínum á næturvinnutíma og hins vegar starfsmaður sem ætlast er til að inni af hendi tiltekinn hluta af ársvinnuframlagi sínu á næturvinnutíma, samkvæmt nánari útfærslu í samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins. Þannig hefur hugtakið næturvinnustarfsmaður verið skilgreint með þeim hætti í vinnutímasamningunum að um sé að ræða starfsmann sem venjulega vinni að minnsta kosti þrjár klukkustundir af daglegum vinnutíma sínum á næturvinnutímabili eða fastráðinn starfsmann sem unnið hefur reglulega, samkvæmt fyrir fram ákveðnu skipulagi, minnst þrjár klukkustundir á næturvinnutímabili í einn mánuð. Undir þessa skilgreiningu getur þannig fallið árstíðabundin næturvinna og vaktavinna þar sem skipst er á að vinna dag- og næturvinnu.
    Í 5. tölul. er vaktavinna skilgreind í samræmi við 5. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar sem vinna sem einkennist af því að henni er skipt niður samkvæmt fyrir fram ákveðnu fyrirkomulagi þar sem starfsmaður vinnur á mismunandi vöktum á tilteknu tímabili sem mælt er í dögum eða vikum.
    Hugtakið vaktavinnustarfsmaður er í 6. tölul. skilgreint í samræmi við 6. mgr. 2. gr. vinnutímatilskipunarinnar og þarfnast ekki skýringar.
    Um b-lið (52. gr. a).
    Ákvæðið byggist á 3. mgr. 1. gr. vinnutímatilskipunarinnar þar sem mælt er fyrir um frávik frá gildissviði hennar.
    Í 1. tölul. er lagt til að ákvæði IX. kafla laganna taki almennt ekki til þeirra sem starfa við flutninga á vegum þar sem þau falla nú undir ákvæði reglugerðar dóms- og kirkjumálaráðuneytis um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 136/1995.
    Í 2. tölul. eru læknar í starfsnámi undanþegnir gildissviði kaflans, sbr. þó 53., 54., 57. og 58. gr. Til skýringar á því um hvaða lækna er verið að ræða skal sú skilgreining fara eftir ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.
    Ákvæði 3. tölul. er byggt á a-lið 1. mgr. 17. gr. vinnutímatilskipunarinnar. Er þar kveðið á um að aðildarríkjum sé heimilt, með tilhlýðilegu tilliti til almennra meginreglna um öryggis- og heilsuvernd starfsmanna, að víkja frá meginreglum tilskipunarinnar þegar lengd vinnutíma verður ekki mæld og/eða fyrir fram ákveðin. Einnig vegna sérstakra eiginleika umræddra starfa eða ef starfsmenn geta sjálfir ákveðið vinnutímann, einkum þegar um er að ræða starfsmenn sem gegna stjórnunarstörfum eða annað starfsfólk sem ræður sjálft vinnutíma sínum. Á þessum grundvelli er lagt til að ákvæði kaflans taki ekki til æðstu stjórnenda eða annarra þeirra sem ráða vinnutíma sínum sjálfir. Er hér annars vegar átt við forstjóra og/eða framkvæmdastjóra fyrirtækja sem samkvæmt skipuriti fyrirtækis taka sjálfir ákvarðanir um skipulag vinnutíma starfsmanna en eru stöðu sinnar vegna ekki bundnir af þeim reglum. Hins vegar er átt við þá starfsmenn sem stöðu sinnar vegna innan fyrirtækis ráða vinnutíma sínum sjálfir eða hafa verulegt frjálsræði varðandi skipulagningu vinnunnar, svo sem þá sem vinna störf sín heima við. Þá mundi ákvæðið í mörgum tilvikum eiga við um þá sem starfa í fjölskyldufyrirtæki, sbr. b-lið 1. mgr. 17. gr. vinnutímatilskipunarinnar, svo sem við landbúnað.
    Ákvæði 4. tölul. byggist á 2. mgr. 2. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE, sbr. 3. mgr. 1. gr. vinnutímatilskipunarinnar. Hér er lagt til að ákvæði kaflans gildi ekki um sérstakar aðstæður sem tengjast tiltekinni starfsemi hins opinbera. Þar undir falla þau tilvik sem talin eru upp í 2. mgr. 1. gr. vinnutímasamningsins milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga og Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambands Íslands. Í samningnum eru undanskildar sérstakar aðstæður sem tengjast starfsemi hins opinbera, svo sem nauðsynleg öryggisstarfsemi og brýnir rannsóknarhagsmunir á sviði löggæslu, vinna sem tengist starfsemi almannavarna og eftirlitsstörf vegna snjóflóðavarna.
    Til skýringar skal tekið fram að í 4. tölul. felst að ákvæði IX. kafla eiga ekki við þegar hlutaðeigandi starfsmaður er bundinn af þessum tilteknu starfsskyldum en þar fyrir utan gilda lögin um starfsmanninn og vinnuveitanda hans.
    Um c-lið (53. gr.).
    Í 1. mgr. er kveðið á um að vinnutíma skuli haga þannig að á hverju 24 klukkustunda tímabili reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Er það í samræmi við gildandi ákvæði 1. mgr. 52. gr. laganna eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 52/1997. Með byrjun vinnudags í skilningi 1. mgr. er átt við venjulegt upphaf vinnu viðkomandi starfsmanns. Ef reglulegt upphaf vinnudags er til dæmis klukkan 08.00 skal miða við það tímamark. Hafi starfsmaður á hinn bóginn fastan vinnutíma sem hefst til dæmis klukkan 20.00 skal sólarhringurinn miðaður við það tímamark. Eðlileg meginregla er að hvíldin komi að jafnaði í kjölfar vinnulotu og á næturvinnutíma ef því verður við komið.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimilt verði að stytta samfelldan hvíldartíma í allt að átta klukkustundir með samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins, enda byggist það á sérstöku eðli starfs eða atvinnuháttum sem gera slík frávik nauðsynleg. Undir ákvæðið mundu til dæmis geta fallið þau tilvik sem greinir í sambærilegu ákvæði 52. gr. laganna, þ.e. vaktavinna, störf að landbúnaði og björgun verðmæta frá skemmdum, svo sem sjávarafla. Í vinnutímasamningunum er stytting hvíldartímans heimiluð með þessum hætti við vaktaskipti á skipulegum vöktum og við björgun verðmæta frá skemmdum.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að í undantekningartilvikum verði heimilt að fresta samfelldri hvíld að því marki sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir verulegt tjón og þar til regluleg starfsemi hefur komist á að nýju. Undir það falla atvik þar sem truflun verður á starfsemi vegna ytri aðstæðna eða ófyrirséðra atburða. Er það í samræmi við gildandi 1. mgr. 53. gr. laganna og er samsvarandi ákvæði jafnframt að finna í vinnutímasamningunum. Þá er ákvæðið í samræmi við heimildir 2. og 3. mgr. 17. gr. vinnutímatilskipunarinnar, sbr. einnig 4. mgr. 5. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE.
    Til samræmis við skilyrði 17. gr. vinnutímatilskipunarinnar er í 4. mgr. mælt fyrir um að starfsmaður skuli fá samsvarandi hvíld síðar ef heimildir 2. eða 3. mgr. til að stytta daglegan hvíldartíma eru nýttar. Verður að telja eðlilegt að starfsmenn njóti þá hvíldar að jafnaði þegar að lokinni vinnulotu verði því við komið. Gert er ráð fyrir að um nánari útfærslu ákvæðisins fari samkvæmt kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins.
    Um d-lið (53. gr. a).
    Ákvæðið er í samræmi við 4. gr. vinnutímatilskipunarinnar sem segir að aðildarríkin skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að allir starfsmenn eigi rétt á hvíldarhléi ef daglegur vinnutími er lengri en sex klukkustundir. Skv. 4. gr. tilskipunarinnar skal í samkomulagi milli samtaka aðila vinnumarkaðarins eða í innlendri löggjöf kveða nánar á um hléið, svo sem hve langt það skuli vera og við hvaða forsendur skuli miða. Í vinnutímasamningunum er ákvæðið útfært þannig að starfsmenn skuli eiga rétt á 15 mínútna hléi ef daglegur vinnutími er lengri en sex klukkustundir. Er þetta ákvæði almennt uppfyllt með matar- og kaffitímaákvæðum kjarasamninga.
     Um e-lið (54. gr.).
    Í ákvæðinu er lagt til að í 1. mgr. verði lögfest meginregla 5. gr. vinnutímatilskipunarinnar um að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag, þ.e. samfelldar 24 klukkustundir, sem tengist daglegum hvíldartíma sem mælt er fyrir um í 3. gr. tilskipunarinnar, sbr. c-lið 19. gr. frumvarpsins. Er þetta í samræmi við gildandi 1. mgr. 55. gr. laganna.
    Í 2. mgr. er með hliðsjón af 17. gr. tilskipunarinnar mælt fyrir um heimild samtaka aðila vinnumarkaðarins til að semja um að fresta vikulegum frídegi með skipulögðum hætti ef sérstakar aðstæður gera slík frávik nauðsynleg. Þannig er, með hliðsjón af heimildarákvæði 3. mgr. 17. gr. vinnutímatilskipunarinnar, lagt til að í undantekningartilvikum og vegna sérstaks eðlis hlutaðeigandi starfa sé heimilt að ákveða með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins að fresta vikulegum frídegi þannig að starfsmaðurinn fái samsvarandi hvíldartíma sem ávallt skal veittur innan 14 daga. Þurfa þá þau skilyrði tilskipunarinnar um að hlutlægar og tæknilegar ástæður liggi að baki að vera fyrir hendi. Þá þykir einnig nauðsynlegt að kveða á um heimild atvinnurekanda til að fresta töku vikulegs frídags að því tilskildu að fyrir liggi samkomulag á viðkomandi vinnustað. Er með því átt við samkomulag milli atvinnurekanda og hlutaðeigandi starfsmanna. Í þessu sambandi má benda á að þær aðstæður geta komið upp á vinnustað að það henti starfsmanni betur að vinna óslitið lengur en í sjö daga samfleytt og fá síðan að minnsta kosti tvo samfellda frídaga. Eðlilegt er að hann geti þannig átt um það nokkurt val í samkomulagi við vinnuveitanda sinn. Þó er það ávallt skilyrði að starfsmaðurinn fái að minnsta kosti tvo samfellda frídaga á hverjum tveimur vikum í staðinn.
    Enn fremur þykir eðlilegt að heimila frávik í undantekningartilvikum er ytri aðstæður eða aðrir tilsvarandi ófyrirséðir atburðir trufla eða hafa truflað rekstur og nauðsyn er að halda uppi þjónustu eða framleiðslu. Skal atvinnurekandi þá tryggja að starfsmaður fái samsvarandi hvíldartíma síðar og eins fljótt og við verður komist. Er það í samræmi við núgildandi 4. mgr. 55. gr. laganna. Þá er ákvæðið í samræmi við heimildir 2. og 3. mgr. 17. gr. vinnutímatilskipunar, sbr. einnig 4. mgr. 5. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE.
    Um f-lið (55. gr.).
    Í ákvæðinu, sem er nýmæli, er lagt til að lögfest verði meginregla 6. gr. vinnutímatilskipunarinnar um 48 klukkustunda hámarksvinnutíma á viku að yfirvinnu meðtalinni, miðað við fjögurra mánaða tímabil, sbr. 16. gr. tilskipunarinnar.
    Með hliðsjón af heimildarákvæði 4. mgr. 17. gr. tilskipunarinnar er í 2. mgr. lagt til að samtök aðila vinnumarkaðarins hafi heimild til að ákveða með samningum að viðmiðunartímabil við útreikning vikulegs hámarksvinnutíma geti verið allt að sex mánuðir. Þó er að ákveðnum skilyrðum uppfylltum heimilað í 3. mgr. að í samningum sé kveðið á um 12 mánaða viðmiðunartímabil. Ef miðað er við sex mánaða viðmiðunartímabil má þannig skipta árinu upp í tvö tímabil, þ.e. fyrri og seinni árshelming, og skal þá meðalvinnuvika vera að hámarki 48 vinnustundir á hvorum árshelmingi. Skilyrði þess að heimilt verði að reikna hámarksvinnutímann út frá 12 mánaða viðmiðunartímabili er að fyrir liggi hlutlægar eða tæknilegar ástæður eða að um sé að ræða sérstakt eðli viðkomandi starfa. Tilvik sem þarna geta fallið undir eru til dæmis árstíðabundnir toppar eða uppgrip í vinnu og lægðir þess á milli. Einnig sveiflur í starfsemi sem orsakast af aflabrögðum, veðurfarsaðstæðum og ef til vill markaðsaðstæðum. Þá geta atriði svo sem mannfæð í fámennum byggðarlögum og erfiðleikar eða ómöguleiki við mönnun tiltekinna starfa átt undir ákvæðið. Ávallt skal þó gæta meginreglna laga nr. 46/1980 um öryggis- og heilsuvernd starfsmanna. Samningar samtaka aðila vinnumarkaðarins sem gerðir hafa verið á grundvelli hliðstæðs ákvæðis í vinnutímasamningunum eru að minnsta kosti fyrir hendi varðandi bræðslur og virkjanir.
    Til áréttingar er sérstaklega tekið fram að aðeins virkur vinnutími skuli talinn við meðaltalsútreikninga samkvæmt ákvæðinu. Í samræmi við 16. gr. vinnutímatilskipunarinnar er jafnframt mælt fyrir um að árlegt launað lágmarksorlof samkvæmt lögum og veikindaforföll skuli ekki talin með eða vera hlutlaus við meðaltalsútreikningana.
    Um g-lið (56. gr.).
    Ákvæðið, sem er nýmæli, er í samræmi við meginreglu 8. gr. vinnutímatilskipunarinnar um vinnutíma næturvinnustarfsmanna þar sem segir í 1. mgr. að venjulegur vinnutími næturvinnustarfsmanns skuli að jafnaði ekki vera lengri en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimilt verði með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins að lengja venjulegan vinnutíma næturvinnustarfsmanna þannig að hann verði að jafnaði allt að 48 vinnustundir á viku. Skal þá skipuleggja vinnuna þannig að vinnutíminn verði sem reglulegastur. Heimild þessi byggist á ákvæði 3. mgr. 17. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er lagt til að samtök aðila vinnumarkaðarins hafi heimild til að ákveða með samningum sex eða tólf mánaða viðmiðunartímabil við útreikning hámarksvinnutíma næturvinnustarfsmanna með sama hætti og skv. 55. gr., sbr. f-lið 19. gr. frumvarps þessa.
Ákvæði 4. mgr. er í samræmi við 2. mgr. 8. gr. vinnutímatilskipunarinnar þar sem segir að næturvinnustarfsmenn, sem gegni sérstaklega áhættusömum störfum eða störfum sem fylgir mikið líkamlegt eða andlegt álag, skuli að hámarki vinna átta tíma á hverju 24 klukkustunda tímabili sem þeir eru við næturvinnu. Samkvæmt tilskipuninni skulu áhættusöm störf eða störf sem fylgir mikið líkamlegt eða andlegt álag skilgreind í innlendri löggjöf og/eða réttarvenju eða heildarsamningum eða samningum milli samtaka aðila vinnumarkaðarins, að teknu tilliti til hliðarverkana og áhættu sem fylgir næturvinnu. Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að mælt verði fyrir um hvaða störf falli hér undir í reglum sem félagsmálaráðherra setur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins. Sem dæmi um slík störf má nefna erfið umönnunarstörf, vinnu við sprengiefni og önnur hættuleg efni, vinnu í mikilli hæð, stjórn stórvirkra vinnuvéla o.s.frv.
    Um h-lið (57. gr.).
    Í ákvæðinu er lagt til að tekin verði upp regla b-liðar 1. mgr. 9. gr. vinnutímatilskipunarinnar þar sem segir að næturvinnustarfsmenn sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða, sem ljóst er að eiga rætur að rekja til þess að þeir vinna næturvinnu, skuli færðir þegar kostur er í dagvinnustörf sem henta þeim.
    Um i-lið (58. gr.).
    Lagt er til að atvinnurekendum verði skylt að láta Vinnueftirliti ríkisins í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laga nr. 46/1980 um vinnutíma. Er ákvæðið sambærilegt 82. gr. laganna en eðlilegt þykir að viðkomandi atvinnurekandi fái tækifæri á að afla umbeðinna upplýsinga innan sanngjarnra tímamarka. Á meðal þeirra upplýsinga sem atvinnurekanda er skylt að veita starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins eru upplýsingar um fjölda næturvinnustarfsmanna og vinnutíma þeirra. Byggist sú skylda meðal annars á 11. gr. vinnutímatilskipunarinnar sem mælir fyrir um að gerðar skuli nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að atvinnurekandi sem hefur að jafnaði starfsmenn í næturvinnu veiti lögbærum stjórnvöldum upplýsingar um það, sé farið fram á slíkt.

Um 20. gr.

    Með lögum nr. 52/1997 var ákvæðum X. kafla laga nr. 46/1980 breytt til samræmis við tilskipun nr. 94/33/EB um vinnuvernd barna og ungmenna. Í reglugerð um vinnu barna og ungmenna nr. 426/1999, er síðan kveðið nánar á um framkvæmd ákvæða X. kafla laganna. Í 13. gr. reglugerðarinnar segir að ekki megi ráða ungmenni til vinnu þar sem líkamlegum eða andlegum þroska þeirra er sérstök hætta búin nema þau starfi með fullorðnum eða þeim sem náð hefur 18 ára aldri. Eigi þetta sérstaklega við um störf í söluturnum, myndbandaleigum, á skyndibitastöðum, bensínstöðvum og sambærilegum stöðum. Nýjum lið við ákvæði 1. mgr. 62. gr., sem tekur til vinnu þar sem hætta er á ofbeldi eða annarri sérstakri hættu, er ætlað að styrkja lagastoð framangreindrar 13. gr. Er það í samræmi við ákvæði 7. gr. tilskipunar nr. 94/33/EB þar sem segir meðal annars að aðildarríkin skulu sjá til þess að börn og ungmenni séu varin fyrir öllum þeim hættum sem öryggi þeirra, heilsu og þroska er búin og rekja má til ungs aldurs þeirra og reynsluleysis, grandvaraleysis þeirra gangvart þeirri hættu sem er eða kann að vera fyrir hendi eða þess að þau hafa ekki náð fullum þroska. Undanþágur frá þessari reglu eru þó heimilar að því tilskildu að öryggi þeirra og heilbrigði sé tryggt með því að láta vinnuna fara fram undir eftirliti hæfs einstaklings, sbr. 3. tölul. 7. gr. tilskipunarinnar.


Um 21. gr.
    

    Í ákvæðinu eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við stjórnkerfisbreytingar sem fram koma í frumvarpinu.

Um 22. gr.
    

    Lagt er til að atvinnurekendur beri ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. Gert er ráð fyrir að um sé að ræða eina áætlun sem feli meðal annars í sér mat á áhættu, sbr. 23. gr. og áætlun um heilsuvernd, sbr. 24. gr., enda ljóst að þessir þættir leiða hvor af öðrum. Þetta fyrirkomulag er meðal annars til hagræðingar fyrir atvinnurekanda og starfsmenn hans í því skyni að fylgjast með öryggismálum og heilsuvernd innan fyrirtækisins og til að átta sig betur á tengslum áhættumats og heilsuverndar. Þannig er starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins enn fremur gert auðveldara að fylgjast með að þessum þáttum sé sinnt innan fyrirtækja. Þetta fyrirkomulag kemur þó ekki í veg fyrir að tveir eða fleiri þjónustuaðilar komi að gerð áætlunarinnar né heldur að atvinnurekandinn eða starfsmenn hans sjái um þá hluta sem þeir eru færir til.
    Lagt er til að atvinnurekendur hafi samráð við fulltrúa starfsmanna við gerð áætlunarinnar enda gert ráð fyrir að starfsmenn beri ábyrgð á að gæta eigin öryggis og heilsu eftir sem því sem þeir hafa tök á, sbr. 1. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar nr. 89/391/EB.
    Gert er ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins hafi eftirlit með því að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 2. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að starfsmenn hafi aðgang að áætluninni, sbr. a-lið 3. mgr. 10. gr. sömu tilskipunar. Í 4. mgr. er kveðið á um endurskoðun á áætluninni þegar breytingar á vinnuumhverfi breyta forsendum hennar í samræmi við 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar.

Um 23. gr.
    

    Ákvæðið fjallar um gerð áhættumats þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Í a-lið 1. mgr. 9. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE er kveðið á um að vinnuveitandi skuli hafa undir höndum mat á áhættu er varðar öryggi og hollustu á vinnustað, að meðtalinni þeirri áhættu sem sérstökum hópum starfsmanna er búin. Er þess vegna lagt til að við gerð áhættumatsins verði sérstaklega litið til starfsemi atvinnurekanda þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum. Er þetta jafnframt í samræmi við aðrar tilskipanir sem hafa verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fjalla um gerð áhættumats vegna sérstakra áhættuþátta, svo sem tilskipun nr. 98/24/EB, um að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna gegn áhættu vegna efnafræðilegra áhrifavalda á vinnustað, sem vísað er til í 16. lið h XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 57/1999, og tilskipun nr. 2000/54/EB, um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna líffræðilegra áhrifavalda á vinnustöðum, sem vísað er til í 15. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 79/2001. Þá er enn fremur í a-lið 3. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE kveðið á um skyldu vinnuveitanda til að meta áhættu í sambandi við öryggi og heilsu starfsmanna, meðal annars með vali á tækjum, efnum eða efnablöndum sem notaðar eru, sem og innréttingum á vinnustað. Þrátt fyrir sérstaka áherslu á þau störf sem mikil hætta fylgir ber atvinnurekanda að greina vinnuumhverfið og taka til greina alla þá þætti er geta stofnað öryggi og heilsu starfsmanna í hættu. Að öðru leyti vísast til VI. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta.
    Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra verði veitt heimild til að setja nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um gerð áhættumats þar sem sérstaklega er vísað til sérreglna um áhættumat vegna sérstakra áhættuþátta. Verður það að teljast auðveldara að kveða á um slíkt mat í sérreglum þar sem hvert mat þarf að fullnægja sérstökum skilyrðum sem eru einkennandi fyrir hvern áhættuþátt. Að öðrum kosti er hætta á að lögin yrðu óhóflega löng og flókin.

Um 24. gr.
    

    Efni ákvæðis þessa er í samræmi við 6. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE. Þar kemur fram að ábyrgð vinnuveitanda felist í því að hann geri nauðsynlegar ráðstafanir er lúti að öryggi og heilsuvernd starfsmanna, þar með taldar forvarnir gegn áhættu í starfi, fræðsla og þjálfun, svo og að séð sé fyrir nauðsynlegri skipulagningu og viðbúnaði. Lagt er því til að atvinnurekandi beri ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggist á áhættumati skv. 23. gr. frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að áætlun um forvarnir byggi á niðurstöðum áhættumats þar sem lýst sé hvernig mæta skuli þeim hættum sem eru fyrir hendi og þeirri áhættu sem þeim fylgir. Þær aðgerðir eða ráðstafanir sem gripið er til geta meðal annars lotið að skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, vali á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar eða innréttingum á vinnustað, sbr. til dæmis d-lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE. Þá er tekið fram að ávallt skuli leggja áherslu á almennar ráðstafanir áður en gerðar eru ráðstafanir til verndar einstökum starfsmönnum, sbr. h-lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Í g-lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar er enn fremur kveðið á um að atvinnurekendur móti heildstæða stefnu um forvarnir sem tekur til tækni, skipulagningar vinnunnar, vinnuskilyrða, félagslegra tengsla og þátta er tengjast vinnuumhverfinu. Markmið heilsuverndar eru efnislega samhljóða markmiðum 65. gr. laganna.
    Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra verði veitt sambærileg heimild til að setja nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um skipulag heilsuverndar og lagt er til að gildi um gerð áhættumats. Er þar meðal annars verið að vísa til sérreglna um heilsuvernd vegna sérstakra áhættuþátta sem í sumum tilfellum gera sérhæfðari kröfur til verndar öryggi og heilsu starfsmanna en við venjulegar vinnuaðstæður.

Um 25. gr.
    

    Þegar gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd, krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða er gert ráð fyrir að atvinnurekandi leiti til hæfra þjónustuaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til þeirra starfa. Þetta ákvæði er í samræmi við 3. mgr. 7. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE.
    Gert er ráð fyrir að þjónustuaðilar þurfi viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins áður en þeir hefja starfsemi sína. Í því sambandi er enn fremur leitast við að skilgreina þá menntun sem þjónustuaðilar eða starfsmenn þjónustuaðila skuli hafa til þess að teljast færir um að sinna þessu starfi. Í því skyni að veita heildstæða þjónustu á þessu sviði þurfa þjónustuaðilar að vera færir um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra, vistfræðilegra og sálfræðilegra þátta. Hafi þjónustuaðili ekki yfir svo víðtækri þekkingu að ráða er heimilt að viðurkenning hans verði takmörkuð við ákveðna tegund starfsemi. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að þjónustuaðilar sameinist um veitingu þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum í því skyni að veita heildstæða þjónustu og myndi þannig eins konar fagnet. Enn fremur er gert ráð fyrir að þjónustuaðili geti gert samninga við aðra aðila til að vinna ákveðna þætti. Þurfa þessir aðilar þá að uppfylla skilyrði þau sem sett eru fyrir viðurkenningu Vinnueftirlitsins með sama hætti og ef um væri að ræða þjónustuaðila. Gert er ráð fyrir að slíkir samningar liggi fyrir þegar óskað er eftir viðurkenningu frá Vinnueftirliti ríkisins. Að öðrum kosti er veitt takmörkuð viðurkenning. Þessi krafa um sérstaka viðurkenningu er í samræmi við 5. og 8. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar. Þá er gert ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins geti afturkallað viðurkenningu þjónustuaðila sem reynist síðar ekki uppfylla sett skilyrði. Getur þá reynst nauðsynlegt að afturkalla hana í heild eða að hluta þannig að hún takmarkist við sérstaka starfsemi. Að öðru leyti vísast til VI. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta.
    Í samræmi við þá túlkun Evrópudómstólsins í máli C-49/00 ( framkvæmdastjórnin gegn ítalska ríkinu) að það sé hlutverk aðildarríkjanna að skilgreina hæfni starfsmanna innan fyrirtækis sem hafa með þessi störf að gera er lagt til að veita félagsmálaráðherra heimild til að setja nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um þá hæfni sem starfsmenn er sinna öryggi og heilbrigði skulu fullnægja. Ljóst er að skilyrði um þekkingu starfsmanna fara eftir tegund starfsemi og þykir því eðlilegra að mælt sé fyrir um slíkt í reglugerðum til þess að koma í veg fyrir að lögin verði óhóflega löng og flókin.
    Mikilvægt er að þjónustuaðilar fari með þær upplýsingar sem þeir fá í starfi sem trúnaðarmál, hvort sem um er að ræða persónubundnar upplýsingar um starfsmenn eða upplýsingar sem lúta að fyrirtækinu sjálfu. Er kveðið á um slíkan trúnað í 4. mgr.

Um 26. gr.
    

    Ákvæði 1. mgr. er í megindráttum sama efnis og gildandi 1. mgr. 67. gr. laganna. Þar er þó mælt fyrir um að stjórn Vinnueftirlits ríkisins skuli í samráði við heilbrigðisyfirvöld setja reglur um að starfsmenn skuli gangast undir læknisskoðun áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum. Á það við ef starfsskilyrði eru eða hafa verið slík að heilsutjón geti hlotist af, enda sé ástæða til að ætla að á þann hátt megi koma í veg fyrir atvinnusjúkdóma. Ákvæði þetta hefur ekki verið framkvæmt.
    Í 1. mgr. er í stað reglna stjórnar Vinnueftirlits ríkisins lagt til að mælt verði með fortakslausum hætti fyrir um rétt starfsmanna til heilsufarsskoðunar sér að kostnaðarlausu ef starfsskilyrði eru með framangreindum hætti. Þá er lagt til að til viðbótar við atvinnusjúkdóma verði vísað til atvinnutengdra sjúkdóma þar sem fyrrgreinda hugtakið felur í sér of þröngt viðmið. Undir ákvæðið fellur sú skylda sem mælt er fyrir um í a-lið 1. mgr. 9. gr. vinnutímatilskipunarinnar þar sem segir að næturvinnustarfsmenn eigi rétt á heilbrigðiseftirliti sér að kostnaðarlausu áður en ráðning fer fram og með reglulegu millibili þaðan í frá.
    Þess ber að gæta að hér er einungis átt við heilsufarsskoðun sem tengist starfsskilyrðum starfsmanna en ekki almenna heilsugæslu vegna tilfallandi sjúkdóma eða óþæginda. Starfsmenn leita eftir sem áður til heilsugæslustöðva eða til heimilislæknis vegna almennrar heilbrigðisþjónustu.

Um 27. gr.
    

    Lagðar eru til þær breytingar að í stað þess skilyrðis að læknir í þjónustu Vinnueftirlits ríkisins skuli vera sérmenntaður embættislæknir eða hafi jafngilda menntun til starfsins skuli hann hafa sérþekkingu sem tengist starfinu. Með reglugerð um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa, nr. 305/1997, var sérfræðiheitið embættislækningar fellt niður en upp tekið heitið heilbrigðisstjórnun. Í því felst að viðkomandi hafi lokið námi í heilbrigðisfræði, stjórnun heilbrigðisstofnana eða skyldum greinum. Er því eðlilegt að núgildandi krafa um hæfni læknis Vinnueftirlits ríkisins sé tekin út og lögð áhersla á að hann hafi sérþekkingu á þeim sviðum sem stofnunin starfar á.

Um 28. gr.
    

    Í ákvæðinu eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við stjórnkerfisbreytingar sem fram koma í frumvarpinu, meðal annars þær að félagsmálaráðherra setji reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, í stað þess að stjórnin setji reglur.


Um 29. gr.
    

    Í ákvæðinu eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við stjórnkerfisbreytingar sem fram koma í frumvarpinu, meðal annars breytingar á verkefni stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

Um 30. gr.
    

    Lögð er til breyting á heiti XI. kafla til samræmis við efni þeirra breytinga sem lagðar eru til að ákvæðum kaflans, sbr. 22.–27. gr. frumvarps þessa.

Um 31. gr.
    

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 73. gr. laganna, með síðari breytingum.
    

Um 32. gr.
    

    Vinnueftirlit ríkisins er stofnun sem er lægra sett stjórnvald í samræmi við þá meginreglu íslensks stjórnkerfis að ráðherrar fari með yfirstjórn þeirra stjórnarmálefna er undir þá heyra, sbr. 14. gr. stjórnarskrárinnar. Það samrýmist því að fullu íslenskri stjórnsýslu að ráðherra skipi forstöðumann stofnunar sem þessarar enda eðlilegt að skipunarvald, ábyrgðartengsl og boðvald fari saman. Er það enn fremur í samræmi við stefnu stjórnvalda sem meðal annars kemur fram í 5. gr. starfsmannalaga, nr. 70/1996, og nefndaráliti um ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna ríkisstofnana sem fjármálaráðuneyti gaf út í október 2000. Ekki þykir ástæða til að setja sérstakar hæfnis- eða menntunarkröfur í sjálft lagaákvæðið enda gert ráð fyrir að þær kröfur þróist í takt við þróun hugmynda um hlutverk stjórnenda. Engu að síður verður að teljast æskilegt að forstjóri hafi háskólamenntun eða aðra sambærilega menntun á verksviði stofnunarinnar og hafi reynslu af stjórnun.
    Þá er gert ráð fyrir að forstjóri Vinnueftirlits ríkisins ráði til sín starfsfólk, sbr. einnig 2. mgr. 5. gr. starfsmannalaga. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar í samræmi við ákvæði starfsmannalaga auk ákvæða annarra almennra laga sem fjalla um ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana. Þá ber forstjóra að fara að almennum fyrirmælum ráðherra sem setur honum erindisbréf, sbr. 38. gr. starfsmannalaga.
    Í gildandi 77. gr. laganna er mælt fyrir um að fyrirtæki greiði sérstök iðgjöld til að standa straum af framkvæmd laganna sem innheimt skulu ásamt slysatryggingagjaldi, sbr. þágildandi lög um almannatryggingar. Breytingar þær sem lagðar eru til helgast af því að með lögum um tryggingagjald nr. 113/1990, var vinnueftirlitsgjald, sem innheimt hefur verið á grundvelli 77. gr., fellt niður og þess í stað komið á tryggingagjaldi sem launagreiðendur inna af hendi og skiptist í atvinnutryggingagjald og almennt tryggingagjald. Skv. 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 113/1990 skal tekjum af almennu tryggingagjaldi ráðstafað þannig að Vinnueftirlit ríkisins fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,08% af gjaldstofni skv. III. kafla laganna. Hlutfall þetta skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðuneytið setur í samráði við stjórn Vinnueftirlits ríkisins.
    Þá er áfram gert ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins innheimti gjöld fyrir nánar tilgreinda þjónustustarfsemi sína. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við ákvæði 15. gr. frumvarps þessa til frekari skýringa.

Um 33. gr.
    

    Í ákvæðinu eru talin upp helstu verkefni Vinnueftirlits ríkisins en ekki er um tæmandi talningu að ræða. Flest verkefnanna sem talin eru upp eiga sér samsvörun í 78. gr. laganna. Ekki er þó gert ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins gefi út reglur á grundvelli laganna enda þótt gera megi ráð fyrir að starfsmenn þess eigi frumkvæði að og aðstoði við undirbúning að setningu reglna sem félagsmálaráðherra setur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins. Þá er tekið fram að Vinnueftirlitinu er ætlað að stuðla að forvörnum og heilsuvernd á vinnustöðum. Ætla má að þetta teljist þegar til verkefna stofnunarinnar í ljósi þeirrar þróunar sem verið hefur á undanförnum árum í þessum málum. Þótti ástæða til að tilgreina það sérstaklega enda mikilvægur þáttur í starfsemi stofnunarinnar. Áður hefur ekki verið fjallað um markaðsgæslu og markaðseftirlit í lögum nr. 46/1980, en Vinnueftirliti ríkisins var falið það hlutverk með tilkomu nýaðferðatilskipana um vélar, tæki og annan búnað sem falla undir lögin og teknar hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.


Um 34. gr.
    

    Áfram er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi stjórn Vinnueftirlits ríkisins til fjögurra ára í senn. Stjórninni er ætlað að bera ábyrgð gagnvart ráðherra á faglegri stefnumótun á sviði vinnuverndar og er hún félagsmálaráðherra og forstjóra Vinnueftirlits ríkisins til ráðgjafar í málum er tengjast bættum aðbúnaði, öryggi og hollustuháttum á vinnustöðum. Er ekki gert ráð fyrir að stjórnin komi að daglegum rekstri Vinnueftirlits ríkisins enda er forstjóra stofnunarinnar ætlað að bera lagalega og rekstrarlega ábyrgð á störfum hennar. Er gert ráð fyrir að stjórnin geri tillögur til ráðherra um úrbætur á sviði vinnuverndar þar á meðal um hvort þörf er á lagabreytingum eða setningu reglugerða eða annarra reglna. Þá er stjórninni ætlað að verða umsagnaraðili vegna frumvarpa til laga og reglugerða um mál er falla undir gildisvið vinnuverndarlaga. Er ávallt gert ráð fyrir að ráðherra leiti umsagnar stjórnarinnar áður en hann setur reglur. Um rökstuðning vísast að öðru leyti til VIII. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta.
    Þegar hið nýja skipulag tekur gildi, verði frumvarp þetta að lögum, fellur niður umboð sitjandi stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og ný stjórn verður skipuð sem fari með verkefni samkvæmt breyttum lögum, sbr. ákvæði til bráðabirgða.


Um 35. gr.
    

    Markmið heimildar félagsmálaráðherra um að skipa vinnuverndarráð einstakra starfsgreina er það sama og liggur að baki stofnunar öryggisnefnda samkvæmt gildandi lögum. Með breytingu á heiti er hins vegar verið að leggja áherslu á að ráðin skuli fjalla um vinnuvernd í viðkomandi starfsgrein í víðum skilningi en ekki eingöngu um öryggismál. Mikilvægt er að nýta þá sérfræðiþekkingu sem aðilar vinnumarkaðarins hafa yfir að ráða í hverri grein þegar verið er að finna leiðir að bættum aðbúnaði, öryggi og hollustuháttum á vinnustöðum. Það fellur í hlut félagsmálaráðherra að meta hversu mikilvægt það er að skipa vinnuverndarráð einstakra starfsgreina að fenginni rökstuddri tillögu stjórnar Vinnueftirlits ríkisins. Má leiða að því líkum að þar skipti áhætta hverrar starfsgreinar miklu máli en skipun slíkra ráða ætti ekki síst við í þeim atvinnugreinum þar sem vinnuslys eru tíð svo sem í byggingariðnaði, landbúnaði og ýmiss konar vélavinnu. Er þannig gert ráð fyrir að vinnuverndarráð í landbúnaði komi í stað stjórnar Vinnueftirlits ríkisins í landbúnaði sem starfar á grundvelli reglugerðar um framkvæmd vinnueftirlits í landbúnaði nr. 288/1981, sbr. 3. tölul. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 46/1980.
    Ekki er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra eigi fulltrúa í slíkum ráðum heldur eingöngu aðilar vinnumarkaðarins sem koma sér saman um formann og varaformann nefndarinnar. Ráðherra metur hversu langur skipunartími hvers ráðs verði og skal hann taka mið af þeim verkefnum sem stjórn Vinnueftirlits ríkisins mælir með að það starfi að. Þó skal skipunartími fulltrúa ekki vara lengur en fjögur ár í senn.


Um 36. gr.
    

    Lagt er til að vinnuveitendum verði gert að skrá öll slys sem eiga sér stað á vinnustaðnum og leiða til andláts eða óvinnufærni starfsmanns í einn eða fleiri daga auk þess dags sem slysið varð. Sama á við um alla þá sjúkdóma sem atvinnurekandi hefur rökstuddan grun um eða vitneskju um að eigi rætur sínar að rekja til starfsins eða annarra aðstæðna á vinnustaðnum. Enn fremur er gert ráð fyrir að vinnuveitendur skrái öll óhöpp sem eiga sér stað á vinnustaðnum. Með óhöppum er átt við atvik sem eru til þess fallin að valda slysum á fólki svo sem mengun vegna efna sem geta haft skaðvænleg áhrif á heilsu fólks. Er slík skráning enn fremur mikilvæg þar sem áhrif slíkra efna geta komið fram síðar á ævi starfsmanns. Efni ákvæðisins á sér fyrirmynd í 2. mgr. 88. gr. gildandi laga en leitast er við að gera efni þess skýrara, meðal annars að ljóst sé hver beri ábyrgð á að þessi skráning sé innt af hendi. Enn fremur er ákvæðið í samræmi við efni eftirfarandi tilskipana:
     a.      tilskipun nr. 89/391/EBE, um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, sbr. c-lið 1. mgr. 9. gr.,
     b.      tilskipun nr. 90/394/EBE, um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna áhrifa af krabbameinsvöldum á vinnustað, sem vísað er til í 14. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, ásamt breytingatilskipunum nr. 97/42/EB og nr. 99/38/EB,
     c.      tilskipun nr. 2000/54/EB, um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna líffræðilegra áhrifavalda á vinnustöðum, sem vísað er til í 15. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar, nr. 79/2001, sbr. til dæmis 3. mgr. 7. gr. og 11. gr., og
     d.      tilskipun nr. 98/24/EB, um að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna gegn áhættu vegna efnafræðilegra áhrifavalda á vinnustað, sem vísað er til í 16. lið h XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 57/1999, sbr. 2. mgr. 10. gr.
    Tilgangur skráningar sem þessarar er meðal annars að fyrir liggi hjá atvinnurekanda skrá sem unnt er að sækja vitneskju um slys og óhöpp í því skyni að bæta aðstæður starfsmanna og koma í veg fyrir frekari slys á fólki. Getur slík skráning verið atvinnurekanda mikilvæg við að kanna til dæmis hvort tiltekið mynstur óhappa hafi skapast sem unnt væri að minnka hættu á að endurtaki sig.
    Þá er gert ráð fyrir í 3. mgr. að þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr. laganna, og þjónustuaðili, sbr. d-lið 15. gr. frumvarps þessa, hafi aðgang að skránni. Er það gert til samræmis við b-lið 3. mgr. 10. gr. og 4. mgr. 7. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE.
Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra verði veitt heimild til að setja nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um skráningu slysa og sjúkdóma, þar á meðal vegna sérstakra áhættuþátta. Er þar einkum verið að vísa til sérreglna vegna mikilla áhættuþátta sem í sumum tilfellum gera sérhæfðari kröfur til verndar öryggi og heilsu starfsmanna en við venjulegar vinnuaðstæður.

Um 37. gr.
    

    Ákvæði þetta byggist á efni 81. gr. laganna og reglum um tilkynningu vinnuslysa, nr. 612/1989. Mikilvægt er að atvinnurekendur sinni skyldum sínum við tilkynningu á slysum og óhöppum svo að unnt sé að gera viðunandi úrbætur í því skyni að koma megi í veg fyrir að slys endurtaki sig. Með langvinnu eða varanlegu heilsutjóni er meðal annars átt við tilvik þar sem hinn slasaði missir útlim eða hluta af útlim, beinbrotnar, fer úr lið, fær meiri háttar sár, missir meðvitund, hlýtur skemmdir á taugavef, verður fyrir alvarlegu augnslysi, innvortis meiðslum eða mengun. Er lagt til að atvinnurekandi þurfi enn fremur að skila inn skriflegri tilkynningu um slys þar sem fram kemur nánari lýsing á slysinu. Er það meðal annars í samræmi við d-lið 1. mgr. 9. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE. Hefur vinnuveitandinn þá enn fremur tækifæri á að koma á framfæri sjónarmiðum sem hann telur ástæðu til að komi fram vegna rannsóknar á slysinu. Enn fremur er þýðingarmikið að tilkynningaskyldu sé sinnt svo skráning slysa megi vera sem nákvæmust. Er þannig unnt að fylgjast með tíðni slysa í því skyni að sjá hvar sérstakra forvarna er þörf svo unnt sé að draga úr fjölda slysa í einstökum atvinnugreinum. Er það meðal annars í samræmi við skyldur íslenskra stjórnvalda skv. 3. gr. félagsmálasáttmála Evrópu. Þar er lögð áhersla á skráningu vinnuslysa svo unnt sé að fylgjast með vinnuvernd í einstökum atvinnugreinum til að meta hvar úrbóta er þörf. Þá er gert ráð fyrir að þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr. laganna, skuli fá afhent afrit af tilkynningunni í samræmi við b-lið 3. mgr. 10. gr. og 4. mgr. 7. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE.

Um 38. gr.
    

    Lagt er til að sérákvæði verði um tilkynningu um slys eða óhöpp þar sem vera kann að hvers konar hættuleg efni eða efnavörur geti valdið mengun. Mikilvægt er að vinnuveitandi tilkynni um alla hugsanlega mengun svo unnt sé að bregðast við henni á viðeigandi hátt og koma þannig í veg fyrir útbreiðslu hennar sem og hugsanleg skaðleg áhrif. Enn fremur er lögð sú skylda á atvinnurekendur að þeir upplýsi þá starfsmenn sem hætta er búin um öll slys og óhöpp þar sem hættulegir skaðvaldar eru handleiknir eða kunna að valda mengun. Verður að teljast eðlilegt að starfsmenn sem í hlut eiga séu upplýstir um slík slys eða óhöpp enda getur mengun stefnt öryggi þeirra og heilsu í hættu á vinnustað. Ákvæði þetta er í samræmi við skilyrði eftirfarandi tilskipanna:
     1.      tilskipun nr. 89/391/EBE, um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, sbr. a-lið 1. mgr. 10. gr.,
     2.      tilskipun nr. 90/394/EBE, um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna áhrifa af krabbameinsvöldum á vinnustað, sem vísað er til í 14. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, ásamt breytingartilskipunum nr. 97/42/EB og nr. 99/38/EB,
     3.      tilskipun nr. 2000/54/EB, um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna líffræðilegra áhrifavalda á vinnustöðum, sem vísað er til í 15. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar, nr. 79/2001, sbr. 2. mgr. 7. gr., og
     4.      tilskipun nr. 96/82/EB, um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna, sem vísað er til í 23. lið a XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 97/1997, sbr. til dæmis 14. gr.
    Þá er gert ráð fyrir að þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr. laganna, skuli fá afhent afrit af tilkynningunni.

Um 39. gr.
    

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 4. mgr. 81. gr. laganna, með síðari breytingum, og 2. mgr. 1. gr. reglna um tilkynningu vinnuslysa nr. 612/1989. Telji Vinnueftirlitið ekki ástæðu til að gera sérstaka vettvangskönnun, til dæmis vegna þess að orsakir slyss liggja fyrir, skal stofnunin tilkynna atvinnurekanda þar um án ástæðulauss dráttar. Er þá atvinnurekanda heimilt að koma aðstæðum í eðlilegt horf nema að aðrir rannsóknaraðilar svo sem lögregla banni það.

Um 40. gr.
    

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 82. gr. laganna, með síðari breytingum. Þar er kveðið á um eftirlitshlutverk Vinnueftirlits ríkisins. Gert er ráð fyrir að Vinnueftirlitið sinni enn fremur markaðsgæslu og markaðseftirliti þar sem ríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa skuldbundið sig til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að vara sem markaðssett er hér á landi fullnægi settum skilyrðum um öryggi. Slíkt eftirlit felst ekki einungis í að ganga úr skugga um að vélar, tæki og annar búnaður sem nýaðferðargerðir gilda um fullnægi viðeigandi öryggiskröfum heldur einnig að þau fullnægi tilteknum formskilyrðum svo sem séu einkennd með viðeigandi merkjum og/eða að þeim fylgi leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi eða prófunarskýrslur, sbr. 13. gr. frumvarps þessa.
    Lagt er til að starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins haldi skrá yfir heimsóknir sínar samkvæmt ákvæði þessu þar sem skráðar eru athugasemdir þeirra, bönn Vinnueftirlitsins og önnur fyrirmæli og tilkynningar er varða vinnuskilyrði. Þykir eðlilegra að starfsmennirnir haldi þessar skrár sjálfir sem varðveitt er hjá Vinnueftirliti ríkisins en ekki að sérstaka eftirlitsbók sé að finna í hverju fyrirtæki eins og kveðið er á um í 1. mgr. 88. gr. gildandi laga. Ætti slíkt fyrirkomulag að auka á hagræði við skráningu í heild svo unnt sé að fylgjast með hvort skilyrðum laganna sé meira ábótavant í einni starfsgrein en annarri. Ef sú yrði raunin væri unnt að leita skýringa og grípa ef til vill til sérstakra forvarnaraðgerða í formi fræðslu eða annarra úrræða. Hins vegar er gert ráð fyrir að atvinnurekanda sé afhent afrit af þeim hluta eftirlitsskrár er viðkemur starfsemi hans.
    Reglur sem falla undir nýaðferðarkerfið eru í raun íþyngjandi fyrir þegnana þar sem þær banna innflutning á tilteknum vörum fullnægi þær ekki settum öryggiskröfum, sbr. 13. og 14. gr. frumvarps þessa, og gera ráð fyrir sérstöku eftirliti. Af þeim sökum er nauðsynlegt að reglurnar séu skýrar, auðskildar og aðgengilegar. Jafnframt verður eftirlitið að vera gagnsætt gagnvart þolanda þess, þ.e. að þolandinn viti hvað fram fer við eftirlitið, á hvaða forsendum eftirlitið byggist og að jafnræði sé tryggt. Þess vegna er lagt til að félagsmálaráðherra setji nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, og getur þar meðal annars verið fjallað um útgáfu skoðunarhandbóka sem eru hluti af gæðakerfi sem unnt er að nota í þessu samhengi.
    Í 6. mgr. er lagt til að félagsmálaráðherra hafi heimild til að fela tiltekin eftirlitsverkefni Vinnueftirlits ríkisins annarri opinberri stofnun eða faggiltum skoðunarstofum. Sérstaklega er vísað til faggildingar en mikilvægt er að skoðunaraðili sé faglega hæfur. Með faggildingu er tryggt að skoðunarstofa hafi á að skipa faglegri hæfni til að annast eftirlit, svo sem markaðseftirlit. Er gert ráð fyrir að Löggildingarstofa annist slíkar faggildingar í samræmi við 7. gr. laga nr. 134/1995. Við ákvörðunartöku um að fela einkaaðila slík verkefni þarf að meta hvort það teljist þjóðhagslega hagkvæmt að fela öðrum framkvæmd tiltekinna eftirlitsþátta. Þess má vænta að slíkur flutningur verkefna til einkaaðila teljist hagkvæmar á sumum sviðum en ekki öðrum og henti jafnvel engan veginn. Flutningur verkefna til einkaaðila er í samræmi við anda og efni laga um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999, og reglugerð um eftirlitsreglur hins opinbera, nr. 812/1999. Er það meðal annars mat ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur að þjónusta skoðunarstofa sé til þess fallin að auðvelda eftirlit og gera útreikning á kostnað við það greinilegri þeim er sætir því. Kemur þá til greina að félagsmálaráðherra gefi út skoðunarhandbækur sem einkaaðilar er sjá um eftirlitið á tilteknu sviði skulu fara eftir.

Um 41. gr.
    

    Lagðar eru til breytingar á 86. gr. laganna í samræmi við ákvæði 8. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE. Ný 2. mgr. byggist þannig á b-lið 3. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar þar sem fram kemur að vinnuveitandi skuli grípa til aðgerða og gefa fyrirmæli svo að starfsmenn geti samstundis lagt frá sér vinnu og/eða forðað sér af vinnustað á annan öruggari stað ef um bráða og óhjákvæmilega hættu er að ræða. Í gildandi 2. mgr. 86. gr. laganna kemur fram að aðgerðir starfsmanna samkvæmt ákvæðinu skulu ekki gera þá ábyrga vegna tjóns sem fyrirtækið kann að verða fyrir. Því til viðbótar er lagt til í nýrri 3. mgr. að skýrt verði mælt fyrir um að óheimilt sé að láta starfsmennina gjalda á nokkurn hátt fyrir ákvarðanir sínar samkvæmt ákvæðinu. Er það í samræmi við ákvæði 4. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar.


Um 42. gr.
    

    Í 87. gr. laganna er að finna heimild til að leggja dagsektir á fyrirtæki í stað lokunar ef stöðvun starfsemi virðist geta haft þau áhrif að eyðilegging á verðmætum eða þjóðhagslegt tjón geti hlotist af. Ákvæðið hefur reynst haldlítið sem fullnustuúrræði. Þannig eru heimildinni sett mikil takmörk með því að einskorða hana við þau tilvik þar sem ekki er unnt að stöðva starfsemi vegna hættu á eyðileggingu á verðmætum eða þjóðhagslegu tjóni. Þá er framkvæmd dagsektanna ekki nægilega útfærð í lögunum og hefur því ekki haft tilætluð varnaðaráhrif.
    Með hliðsjón af framansögðu er hér lagt til að heimild Vinnueftirlits ríkisins til að leggja á dagsektir verði styrkt þannig að unnt verði að knýja á um úrbætur á grundvelli krafna og tilmæla sem sett hafa verið fram. Skv. 1. mgr. er ákvæðinu ætlað að nýtast sem fullnustuúrræði ef ekki er farið að fyrirmælum Vinnueftirlitsins samkvæmt lögunum.
    Í 2.–5. mgr. er að finna nánari ákvæði um dagsektirnar. Meðal annars er gert ráð fyrir að þær renni í ríkissjóð. Þá er kveðið á um kæruheimild til félagsmálaráðuneytis, fjárhæð og aðfararhæfi dagsektanna. Þá er lagt til að ekki verði sérstaklega kveðið á um lágmarksfjárhæð dagsekta þar sem Vinnueftirliti ríkisins er ætlað að meta sérstaklega í hverju tilviki hver hæfileg fjárhæð dagsekta skuli vera þar sem höfð skal hliðsjón af ákveðnum atriðum. Skal markmiðið ætíð vera að dagsektir hafi tilætluð varnaðaráhrif að teknu tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.


Um 43. gr.
    

    Lagt er til að 88. gr. laganna verði felld brott en leitast er við að setja efni ákvæðisins fram með skýrari hætti í 36. gr. og 6. mgr. 40. gr. frumvarps þessa.


Um 44.–46. gr.
    

    Í ákvæðunum eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við stjórnkerfisbreytingar sem fram koma í frumvarpinu.


Um 47. gr.
    

    Ákvæðið fjallar um heimild til að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins til félagsmálaráðuneytis. Lagðar eru til breytingar á kæruheimildinni til samræmis við aðrar breytingar sem lagðar eru til á skipulagi stofnunarinnar. Er því lagt til að ákvarðanirnar séu einungis kæranlegar til félagsmálaráðuneytis. Þannig verður kærustigið eitt í stað tveggja áður og er sú breyting til þess fallin að flýta fyrir afgreiðslu mála innan stjórnsýslunnar. Þá er gert ráð fyrir þriggja mánaða kærufresti frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun í stað fjögurra vikna áður. Er fresturinn þannig færður til samræmis við þann kærufrest sem veittur er í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með síðari breytingum, en málsmeðferð skal að öðru leyti fara eftir þeim lögum.
    Í 2. mgr. er tilgreindur viðmiðunartími um afgreiðslu mála hjá félagsmálaráðuneytinu sem verður að teljast eðlilegur málshraði þegar litið er til þess að veita skal aðilum kost á tjá sig um málið áður en það er tekið til úrskurðar. Séu mál sérstaklega umfangsmikil og tímafrekt reynist að undirbúa þau og rannsaka með viðunandi hætti er hugsanlegt að afgreiðslutíminn lengist að sama skapi.

Um 48. og 49. gr.
    

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.
    

    Lagt er til að skipuð verði ný stjórn Vinnueftirlits ríkisins innan tveggja mánaða frá gildistöku laganna, verði frumvarp þetta samþykkt. Er gert ráð fyrir að skipun nýrrar stjórnar taki hátt í tvo mánuði í ljósi þess að óska þarf fyrst eftir tilnefningum þeirra sem eiga munu fulltrúa í hinni nýju stjórn. Við skipun nýrrar stjórnar mun umboð fráfarandi stjórnar falla niður.
    Hlutverk hinnar nýju stjórnar er breytt frá því sem nú gildir og er því gert ráð fyrir að hin nýja stjórn taki einungis við þeim verkefnum fráfarandi stjórnar sem lúta að faglegri stefnumótun Vinnueftirlitsins en að stofnunin taki sjálf við öðrum verkefnum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980,
um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að lögfestar verði meginreglur tilskipunar ráðs Evrópusambandsins 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Gert er ráð fyrir að teknar verði upp meginreglur tilskipunarinnar um daglegan hvíldartíma, hlé á vinnu, vikulegan frítíma, hámarksvinnutíma á viku, vinnutíma næturvinnustarfsmanna og rétt þeirra til heilsufarsskoðunar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að lögleiddar verði ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum með hliðsjón af tilskipun ráðsins 89/391/ EBE. Í ákvæðum tilskipunarinnar felst m.a. skylda atvinnurekenda til að meta áhættu í vinnuumhverfi fyrir öryggi og heilsu starfsmanna. Í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuætti og öryggi á vinnustöðum, er m.a. kveðið á um að atvinnurekandi skuli tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað og verður að ætla að forvarnir og heilsuvernd á vinnustöðum sé þegar eitt af verkefnum eftirlitsins, eins og sagt er í athugasemdum við 18. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu eru ítarlegri ákvæði um að atvinnurekandi beri ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Við gerð áhættumatsins skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi starfsmannanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum og skal atvinnurekandi leita aðstoðar til þess hæfra þjónustuaðila krefjist aðstæður færni sem atvinnurekandi eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða. Skal félagsmálaráðherra setja nánari reglur um framkvæmdina þar sem sérstaklega er vísað til sérreglna um áhættumat að teknu tilliti til eðlis starfa, stærðar vinnustaða o.fl. Ljóst er að öll nánari framkvæmd mun að miklu leyti ráðast af reglum sem frumvarpið mælir fyrir um að settar skuli. Í þriðja lagi eru lagðar til smávægilegar breytingar með hliðsjón af tilskipun ráðsins 94/33/EB, um vinnuvernd barna og ungmenna. Í fjórða lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að hlutverk Vinnueftirlits ríkisins í markaðsgæslu og markaðseftirliti með þeim tegundum véla og tækja sem falla undir gildandi vinnuverndarlög verði gert skýrara frá því sem verið hefur. Loks eru lagðar til breytingar á skipulagi Vinnueftirlitsins að því er varðar verkaskiptingu forstjóra og stjórnar. Gert er ráð fyrir að forstjóri beri lagalega og rekstrarlega ábyrgð á eftirlitinu en stjórn þess beri m.a. ábyrgð gagnvart ráðherra á faglegri stefnumótun á sviði vinnuverndar.
    Ekki er gert ráð fyrir að lögleiðing tilskipunar 94/33/EB, um vinnuvernd barna, og ungmenna, og tilskipunar 93/104/EB hafi í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð. Ákvæðum síðartöldu tilskipunarinnar hefur að verulegu leyti verið hrint í framkvæmd með kjarasamningum, sbr. auglýsingu félagsmálaráðuneytis nr. 285/1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins 93/104/EB. Þá er hvorki gert ráð að þær breytingar sem frumvarpið leggur til að gerðar verði á skipulagi Vinnueftirlitsins né breytingar á ákvæðum um markaðseftirlit auki útgjöld ríkissjóðs.
    Í kjölfar lögleiðingar ákvæða í tilskipun 89/391/EBE, um áhættumat er áætlað að umsýslukostnaður Vinnueftirlits ríkisins, sérstaklega við eftirlit vegna heilsuverndar starfsmanna á vinnustað, aukist um 8 m.kr. á fyrsta ári, þar af eru 5 m.kr. vegna fjölgunar um einn sérfræðing ásamt rekstrarkostnaði og um 3 m.kr. vegna kynningar, en af þeim eru 2 m.kr. tímabundnar. Á öðru ári er gert ráð fyrir að annar sérfræðingur verði ráðinn til eftirlits í umdæmum sem eykur útgjöld eftirlitsins um aðrar 5 m.kr. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að Vinnueftirlitið afli sértekna á móti þessum kostnaði. Ef miðað er við að ríkið greiði beint eða óbeint um 17.000 starfsmönnum laun og meðalkostnaður við áhættumat á hvern starfsmann sé á bilinu 5–8.000 kr. eykst kostnaður ríkisins tímabundið um 85–140 m.kr. til að meta áhættu í vinnuumhverfi starfsmanna. Til árlegrar endurskoðunar þessara áætlana og fræðslu eru áætlaðar um 10–15 m.kr. Enn fremur er áætlað að útgjöld ríkisstofnana vegna fræðslu, heilsuverndar og heilsufarsskoðunar starfsmanna á vinnustað geti numið a.m.k. 60–100 m.kr. á ári. Gera má því ráð fyrir að árlegur heildarkostnaður ríkisins við framkvæmd laganna geti numið um 1‰ af launakostnaði ríkisins. Hvorki er tekið mið af hugsanlegum ábata af framangreindum ráðstöfunum né áhrifum þeirra á atvinnulífið í heild. Tekið skal hins vegar fram að aukin útgjöld ríkisstofnana sem og annarra aðila á vinnumarkaði munu að miklu leyti ráðast af reglum sem lagt er til að félagsmálaráðherra setji að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins en drög að þeim reglum fylgja ekki frumvarpinu.
    Ef kostnaður er metinn með sama hætti fyrir almenna vinnumarkaðinn og miðað er við fjölda ársverka getur heildarkostnaður við gerð áhættumats verið á milli 500–900 m.kr. í upphafi auk þess kostnaðar sem fellur til vegna árlegrar endurnýjunar sem má áætla að sé einn tíundi af upphaflegri fjárhæð. Þá fellur til árlegur kostnaður vegna fræðslu, heilsuverndar og heilsufarsskoðunar starfsmanna á vinnustað. Áætlað er að kostnaður almenna vinnumarkaðarins geti verið á bilinu 400–700 m.kr. á ári. Lögð er áhersla á að hluti þessa kostnaðar kann að miklu leyti að vera þegar kominn fram auk þess sem framkvæmd og útgjöld ráðast af þeim reglum sem frumvarpið kveður á um að setja skuli.
    Í fjárlögum fyrir árið 2002 hafa aukin útgjöld Vinnueftirlits ríkisins sem koma til á fyrsta gildisári þegar verið áætluð. Hins vegar hefur ekki verið gert ráð fyrir auknum útgjöldum annarra ríkisstofnana til að mæta kostnaði við áhættumat og viðbrögðum í kjölfar þess.