Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 499. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 940  —  499. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um tjónaskuldir (bótasjóði) vátryggingafélaga.

    Viðskiptaráðuneytið óskaði eftir umbeðnum upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu þar sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með vátryggingafélögum og þar á meðal vátryggingaskuldinni, sbr. lög um vátryggingastarfsemi og lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Svör Fjármálaeftirlitsins koma hér á eftir.

     1.      Hver var staða tjónaskuldar (bótasjóða) vátryggingafélaganna árin 2000, 2001 og 2002 og hvernig hefur tjónaskuldin samsvarað óuppgerðum heildarskuldbindingum félaganna árlega frá 1995?
    Svarið við fyrri hluta þessa liðar fyrirspurnarinnar byggist á gögnum frá öllum starfandi vátryggingafélögum. Á þessum árstíma eru vátryggingafélög almennt ekki búin að gera upp tjónaskuld sína við síðustu áramót, og því er tjónaskuldin 2002 miðuð við níu mánaða uppgjör stóru hlutafélaganna þriggja sem skráð eru á verðbréfamarkaði (Sjóvár – Almennra trygginga hf., Vátryggingafélags Íslands hf. og Tryggingamiðstöðvarinnar hf.), auk þess að gert er ráð fyrir að tjónaskuld minni vátryggingafélaganna haldist óbreytt.
    Samtals tjónaskuld vátryggingafélaga er eftirfarandi í árslok 2000 og 2001 og miðað við áætlun 2002 í millj. kr.

Tjónaskuld Eigin tjónaskuld
2000 33.291 28.673
2001 35.683 32.290
2002 37.382 34.010

    Svar við síðari hluta þessa liðar fyrirspurnarinnar byggist á gögnum frá nefndum félögum auk gagna frá Tryggingu hf., sem var fyrir sameiningu við Tryggingamiðstöðina árið 1999 fjórða stærsta vátryggingafélagið. Að mati Fjármálaeftirlitsins var ekki ástæða til að aldursgreina tjón minni félaganna, þar sem þau hefðu haft lítil áhrif á niðurstöðuna.
    Í töflunni hér að neðan sést hvernig mat á óuppgerðum tjónum hefur þróast árlega frá 1995. Til nánari skýringar má til dæmis nefna árið 1995. Tjónaskuldin 20,2 milljarðar kr. í lok þess árs lýsir mati vátryggingafélaga á heildarskuldbindingum vegna óuppgerðra tjóna sem áttu sér stað árið 1995 eða fyrr. Í dálkinum fyrir 1996 sést hvernig matið á sömu tjónum hefur þróast á milli áranna 1995 og 1996. Greitt hefur verið vegna sumra þessara tjóna, en það sem er enn talið óuppgert vegna þessa tímabils er áfram í tjónaskuld. Í árslok 2001 hafa samtals verið greiddir 10,8 milljarðar kr. vegna tjóna sem áttu sér stað fyrir árslok 1995, en tjónaskuldin er 2,3 milljarðar kr. vegna sömu tjóna. Samtals hefur því matið lækkað niður í 13,1 milljarða kr.


Reikningsár 1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001
Tjón fyrir árslok:
1995 20.249 17.578 16.665 15.239 13.686 13.141 13.096
1996 21.964 20.314 18.132 16.558 15.333 15.354
1997 24.281 19.927 18.148 16.896 16.347
1998 25.162 21.820 20.986 20.490
1999 26.793 24.193 24.236
2000 31.388 29.814
2001 32.586

    Í næstu töflu er sama niðurstaða sýnd í hlutfalli af upphaflegu mati.

Reikningsár 1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001
Tjón fyrir árslok:
1995 100% 87% 82% 75% 68% 65% 65%
1996 100% 92% 83% 75% 70% 70%
1997 100% 82% 75% 70% 67%
1998 100% 87% 83% 81%
1999 100% 90% 90%
2000 100% 95%
2001 100%


     2.      Telur Fjármálaeftirlitið að tilefni sé til lækkunar á lögboðnum bifreiðatryggingum í ljósi afkomu tryggingafélaganna og stöðu bótasjóða?
    Hingað til hefur Fjármálaeftirlitið ekki haft forsendur til að gera kröfu um að iðgjöld verði lækkuð í ljósi afkomu eða stöðu vátryggingaskuldar. Iðgjaldaákvarðanir í vátryggingum eru á ábyrgð viðkomandi vátryggingafélaga. Á þeim hvílir skylda til að taka forsendur iðgjaldaákvarðana sinna reglulega til endurskoðunar, til lækkunar eða hækkunar, í ljósi fenginnar reynslu. Jafnframt gerir Fjármálaeftirlitið kröfu til þess að hvert vátryggingafélag rökstyðji verulegar iðgjaldahækkanir fyrir viðskiptamönnum eða almenningi, með vísan til fyrri reynslu af iðgjöldum og tjónakostnaði, auk almennrar fjárhagsstöðu félaganna.
    Iðgjaldagrundvöllur og vátryggingaskuld einstakra vátryggingafélaga í lögboðnum ökutækjatryggingum er til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu og verða niðurstöður þeirra athugana kynntar hverju félagi fyrir sig á næstu vikum og mánuðum.

     3.      Er það mat Fjármálaeftirlitsins að framlög hafi verið eðlileg í bótasjóðina með tilliti til áætlaðra tjónaskuldbindinga?

    Eðlilegt er að vátryggingafélög meti tjónaskuld af varfærni þannig að mat tjóna lækki heldur en hækki frá upphaflegu mati í ljósi reynslunnar. Þess má geta að í greinargerð sinni vegna athugunar á iðgjaldahækkunum í lögboðnum ökutækjatryggingum frá 31. ágúst 1999 komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að búast mætti við að rúmlega 2 milljarðar kr. mundu losna úr tjónaskuld vegna tjóna frá 1996 og eldri þegar öll kurl yrðu komin til grafar. Hins vegar mun Fjármálaeftirlitið ekki tjá sig um hvort tjón hafi almennt verið of- eða vanmetin við mat á óuppgerðum tjónafjárhæðum.
    Vátryggingaskuld einstakra vátryggingafélaga í lögboðnum ökutækjatryggingum og eignatryggingum er til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu og verða niðurstöður þeirra athugana kynntar þeim á næstu vikum og mánuðum.

     4.      Hve mikil framlög í sjóðina hafa losnað úr tjónaskuld árlega sl. fimm ár?
    Hér er upphæðin sem losnar úr tjónaskuld reiknuð þannig að greidd tjón ársins og tjónaskuld í lok ársins, að frádregnum upphæðum vegna tjóna sem áttu sér stað á reikningsárinu, eru dregnar frá tjónaskuld í upphafi ársins. Þannig sést um hve háa upphæð hægt var að lækka tjónaskuld frá árinu áður, í ljósi reynslu reikningsársins af þeim tjónum sem þá voru óuppgerð. Niðurstöður fyrir samtölur Sjóvár – Almennra trygginga hf., Vátryggingafélags Íslands hf., Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og Tryggingar hf. má sjá í eftirfarandi töflu í millj. kr.

Reikningsár Lækkun mats frá árinu áður
1997 2.766
1998 4.139
1999 4.553
2000 2.560
2001 584


     5.      Telur Fjármálaeftirlitið að eðlilega sé staðið að ávöxtun og áhættudreifingu bótasjóðanna? Er ástæða til að breyta þeim reglum sem unnið er eftir um ákvörðun tjónaskuldar, ávöxtun eða áhættudreifingu?

    Í gildi er reglugerð nr. 646 frá árinu 1995 um jöfnun eigna móti vátryggingaskuld vátryggingafélaga og Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að reglugerðinni sé framfylgt. Að mati Fjármálaeftirlitsins gefur reynslan ekki ástæðu til endurskoðunar á henni.
    Samkvæmt 54. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, getur Fjármálaeftirlitið sett almennar reglur um mat á vátryggingaskuldinni. Í gildi eru reglur nr. 85/1999 um hámark útjöfnunarskuldar vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga og útreikning þess. Fjármálaeftirlitið vinnur nú að því að setja sambærilegar reglur um hámark og lágmark tjónaskuldar.