Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 506. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 955  —  506. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um verðtryggða skuldabréfavexti.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig hafa óverðtryggðir skuldabréfavextir og óverðtryggðir útlánsvextir banka þróast í framhaldi af vaxtalækkunum Seðlabanka á sl. ári?
     2.      Hvaða áhrif hafa vaxtalækkanir Seðlabankans haft á verðtryggða skuldabréfavexti?
     3.      Hafa verðtryggðir útlánsvextir bankanna fylgt lækkun verðtryggðra skuldabréfavaxta? Ef ekki, hvaða skýringar eru taldar vera á því?
     4.      Hver eru viðbrögð ráðherra við því mati Seðlabankans að frekara svigrúm sé til að lækka verðtryggða vexti? Telur ráðherra rétt að beina tilmælum til bankanna um frekari lækkun á verðtryggðum skuldabréfavöxtum?


    Viðskiptaráðuneytið leitaði til Seðlabanka Íslands um svör við fyrstu þremur liðum fyrirspurnarinnar. Valin var ávöxtun fimm ára skuldabréfa ríkissjóðs á markaði til þess að lýsa þróun óverðtryggðra skuldabréfavaxta en ávöxtun 25 ára húsbréfa til þess að lýsa þróun verðtryggðra skuldabréfavaxta. Hvað útlánsvexti varðar voru valdir skuldabréfavextir banka og sparisjóða til þess að lýsa þróun útlánsvaxta banka en það er álit Seðlabankans að aðrir útlánsvextir banka og sparisjóða hafi þróast líkt og skuldabréfavextirnir.
    Óverðtryggðir skuldabréfavextir og óverðtryggðir vextir banka og sparisjóða hafa breyst í góðu samræmi við vaxtalækkanir Seðlabankans að undanförnu, eins og sést á töflunni.
                   

Óverðtryggðir vextir og stýrivextir Seðlabankans.

Meðalvextir óverðtryggðra skuldabréfalána viðskiptabanka og sparisjóða
Ávöxtunarkrafa 5 ára ríkisbréfa


Stýrivextir SÍ
3. jan. 2002 17,40 9,06 10,10
1. feb. 2002 17,40 9,26 10,10
1. mars 2002 17,40 9,02 10,10
1. apríl 2002 16,70 9,00 10,10
1. maí 2002 16,60 8,42 9,60
3. júní 2002 15,80 8,39 8,80
1. júlí 2002 15,20 8,31 8,50
1. ágúst 2002 15,10 8,19 8,50
2. sept. 2002 14,50 7,63 7,90
1. okt. 2002 13,80 7,40 7,10
1. nóv. 2002 13,50 7,05 6,80
2. des. 2002 13,00 6,84 6,30
1. jan. 2003 12,48 6,94 5,80
28. jan. 2003 12,48 7,15 5,80
    
    Áhrif vaxtabreytinga Seðlabankans á langtímavexti eru ekki eins ljós og á skammtímavexti og þau geta verið mismunandi. Ávöxtun verðtryggðra skuldabréfa á markaði ræðst af framboði og eftirspurn hverju sinni og væntingum fjárfesta. Fjallað hefur verið um áhrif vaxtabreytinga Seðlabankans í ársfjórðungsriti bankans Peningamálum (sjá t.d. grein Þórarins G. Péturssonar um miðlunarkerfi peningastefnunnar í Peningamálum 2001/4). Ávöxtun 25 ára húsbréfa hefur lækkað undanfarna mánuði, úr nálega 6% fyrir ári í tæp 5% nú. Á sama tíma lækkuðu verðtryggðir vextir skuldabréfalána banka og sparisjóða úr um 10,2% í um 9,45% eða um 0,75 prósentur (sjá eftirfarandi töflu). Verðtryggðir skuldabréfavextir hafa lækkað annars vegar vegna lækkunar raunstýrivaxta Seðlabankans og hins vegar af því að þeir höfðu haldist óeðlilega háir m.a. vegna sérstakra aðstæðna á húsnæðismarkaði.
    Eins og fram kemur hér á undan hafa meðalvextir verðtryggðra lána banka og sparisjóða og ávöxtun 25 ára húsbréfa lækkað að undanförnu, bankavextir þó heldur minna. Frá árslokum 2001 hefur munur meðalvaxta verðtryggðra lána banka og sparisjóða annars vegar og ávöxtunar 25 ára húsbréfa hins vegar verið á bilinu frá liðlega 4 prósentum upp í u.þ.b. 4,8 prósentur. Hann hefur heldur aukist undanfarnar vikur og er nú liðlega 4,6 prósentur. Ýmislegt getur valdið því að breytingar fylgjast ekki nákvæmleg að til skamms tíma litið en yfir lengri tíma er eðlilegt að samhengi sé á milli þessara vaxta.

Verðtryggðir vextir og stýrivextir Seðlabankans.


Meðalkjörvextir verðtryggðra skuldabréfalána


Meðalvextir verðtryggðra skuldabréfalána




Stýrivextir SÍ



Ávöxtunarkrafa 25 ára húsbréfa

Mismunur á stýrivöxtum SÍ og ávöxtun 25 ára húsbréfa
Mismunur á meðalvöxtum verðtryggðra skuldabréfalána og ávöxtun 25 ára húsbréfa
3. jan. 2002 7,70 10,20 10,10 5,87 4,23 4,33
1. feb. 2002 7,70 10,20 10,10 5,93 4,17 4,27
1. mars 2002 7,70 10,20 10,10 6,05 4,05 4,15
1. apríl 2002 7,70 10,20 10,10 6,00 4,10 4,20
1. maí 2002 7,70 10,20 9,60 5,97 3,63 4,23
3. júní 2002 7,70 10,10 8,80 5,84 2,96 4,26
1. júlí 2002 7,70 10,10 8,50 5,83 2,67 4,27
1. ágúst 2002 7,70 10,10 8,50 5,69 2,81 4,41
2. sept. 2002 7,70 10,10 7,90 5,55 2,35 4,55
1. okt. 2002 7,70 10,10 7,10 5,47 1,63 4,63
1. nóv. 2002 7,40 10,00 6,80 5,34 1,46 4,66
2. des. 2002 7,20 9,70 6,30 5,31 0,99 4,39
1. jan. 2003 7,00 9,55 5,80 5,18 0,62 4,37
28. jan. 2003 6,92 9,45 5,80 4,89 0,91 4,55

    Seðlabankinn hefur bent á að mikið framboð húsbréfa hefur haldið aftur af vaxtalækkunum verðtryggðra skuldabréfa. Verðtryggðir vextir hafa lækkað nokkuð að undanförnu en búast má við að það sé að skapast frekara svigrúm til lækkunar verðtryggðra vaxta. Fylgst verður grannt með því að verðtryggðir vextir banka og sparisjóða fylgi eftir lækkun verðtryggðra skuldabréfavaxta. Hvað óverðtryggða vexti varðar hafa bankar og sparisjóðir fylgt eftir vaxtalækkunum Seðlabankans sl. 12 mánuði en engu að síður hefur mismunur óverðtryggðra vaxta banka og sparisjóða og stýrivaxta Seðlabankans aukist umtalsvert ef litið er til lengri tíma.