Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 599. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 960  —  599. mál.




Frumvarp til laga



um fjarskipti.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. KAFLI

Markmið og gildissvið. Stjórn fjarskiptamála.

1. gr.

Markmið og gildissvið.


    Lög þessi gilda um fjarskipti, fjarskiptaþjónustu og fjarskiptanet.
    Markmið laganna er að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og efla virka samkeppni á fjarskiptamarkaði.
    Íslenska ríkið skal tryggja eftir því sem unnt er að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.
    Fjarskipti sem eingöngu eru boð eða sendingar með þræði innan húsakynna heimilis, fyrirtækis eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum og verksmiðjum, heyra ekki undir lög þessi.
    Lög þessi gilda ekki um efni sem sent er á fjarskiptanetum.

2. gr.
Stjórn fjarskiptamála.

    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn fjarskipta.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa umsjón með fjarskiptum innan lögsögu íslenska ríkisins og hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara.

II. KAFLI
Orðskýringar.
3. gr.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Aðgangur: Að veita öðru fjarskiptafyrirtæki aðgang að fjarskiptaneti, aðstöðu eða fjarskiptaþjónustu samkvæmt fastsettum skilmálum í þeim tilgangi að veita fjarskiptaþjónustu.
     2.      Almenn talsímaþjónusta: Þjónusta opin almenningi sem miðlar innlendum og alþjóðlegum símtölum um notendabúnað sem er tengdur föstum nettengipunkti.
     3.      Almenningssími: Sími sem er opinn almenningi til notkunar gegn greiðslu.
     4.      Almennt talsímanet: Fjarskiptanet sem er notað til að bjóða almenna talsímaþjónustu. Netið gerir flutning milli nettengipunkta mögulegan, bæði á tali og öðrum tegundum boðskipta, svo sem faxi og gögnum.
     5.      Almennt fjarskiptanet: Fjarskiptanet sem er notað að öllu eða mestu leyti til að bjóða almenna fjarskiptaþjónustu.
     6.      Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra.
     7.      Áskrifandi: Einstaklingur eða lögaðili sem er aðili að samningi við seljanda almennrar fjarskiptaþjónustu um afhendingu slíkrar þjónustu.
     8.      Breiðskjársjónvarpsþjónusta: Sjónvarpsþjónusta sem samanstendur að öllu leyti eða hluta til af dagskrárefni sem er framleitt til þess að sýna í breiðskjárformi með mynd í fullri hæð.
     9.      Fast forval: Möguleiki sem áskrifendum í talsímaþjónustu er boðinn og gefur þeim kost á að velja að ákveðnum flokkum símtala sé beint til ákveðins þjónustuveitanda, sem valinn er fyrir fram, án þess að nota þurfi forskeyti viðkomandi þjónustuveitanda.
     10.      Fjarskiptafyrirtæki: Einstaklingur eða lögaðili sem hefur tilkynnt Póst- og fjarskiptastofnun um fyrirhugaðan rekstur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanets.
     11.      Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild: Fjarskiptafyrirtæki sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur skilgreint með umtalsverða markaðshlutdeild.
     12.      Fjarskiptanet: Sendikerfi og þar sem það á við skiptistöðvar, beinar og önnur úrræði sem gera mögulegt að miðla merkjum eftir þræði, þráðlaust, með ljósbylgjum, rafdreifikerfi, háspennulínum eða með öðrum rafsegulaðferðum, þ.m.t. net fyrir hljóð- og sjónvarp og kapalsjónvarp.
     13.      Fjarskiptavirki: Hvers konar tæki, tækjahlutar, leiðslur, búnaður og því um líkt sem sérstaklega er ætlað að koma á fjarskiptum eða reka þau hvort heldur er til sendingar eða móttöku.
     14.      Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet.
     15.      Fjarskipti: Hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum, með þráðlausri útbreiðslu eða öðrum rafsegulkerfum.
     16.      Forritatengsl: Hugbúnaðartengsl milli forrita, sem eru gerð aðgengileg af útvarpsstöðvum eða þjónustuveitendum, og úrræða í þróuðum stafrænum sjónvarpsbúnaði fyrir stafræna sjón- og hljóðvarpsþjónustu.
     17.      Forskeyti: Númer sem notandi verður að velja á undan símanúmeri til að fá aðgang að þjónustuaðila.
     18.      Heimtaug: Koparlína sem tengir nettengipunkt í húsnæði áskrifanda við tengigrind eða samsvarandi aðstöðu í hinu almenna talsímaneti.
     19.      Nettengipunktur: Efnislegur tengipunktur þar sem áskrifanda er veittur aðgangur að almennu fjarskiptaneti.
     20.      Notandi: Einstaklingur eða lögaðili sem notar eða sækir um að nota almenna fjarskiptaþjónustu.
     21.      Númer og vistföng: Röð tákna sem eru notuð til að auðkenna einstaka áskrifendur í fjarskiptavirkjum.
     22.      Samhýsing: Aðgangur að rými og tækniþjónustu sem er nauðsynlegur til að koma viðeigandi búnaði rétthafa fyrir með góðu móti og tengja hann.
     23.      Samruni: Um skilgreiningu á samruna fer eftir samkeppnislögum.
     24.      Samtenging: Efnisleg og rökvís tenging fjarskiptaneta sem gerir notendum kleift að eiga samskipti við aðra notendur eða fá aðgang að þjónustu sem er veitt af öðru fjarskiptafyrirtæki. Ekki skiptir máli hvort þjónustan er veitt af eigendum netsins eða öðrum aðilum sem kunna að hafa aðgang að fjarskiptanetinu.
     25.      Skaðleg truflun: Truflun sem setur í hættu, rýrir alvarlega, hindrar eða truflar endurtekið þráðlausa fjarskiptaþjónustu.
     26.      Skilyrt aðgangskerfi: Sérhver tæknileg ráðstöfun eða fyrirkomulag sem veitir aðgang að lokaðri hljóð- eða sjónvarpsþjónustu.
     27.      Virðisaukandi þjónusta: Þjónusta þar sem virðisaukandi þáttum er bætt við fjarskiptaþjónustu.
     28.      Yfirgjald: Gjald fyrir virðisaukandi þjónustu sem er hærra en almennt símtalagjald.
     29.      Þróaður stafrænn sjónvarpsbúnaður: Aðgangskassi sem tengist sjónvarpstæki eða stafrænt sjónvarpstæki sem getur tekið á móti stafrænni gagnvirkri sjónvarpsþjónustu.

III. KAFLI
Heimild til fjarskiptastarfsemi.
4. gr.
Heimildir.

    Fjarskiptafyrirtæki hafa almenna heimild til reksturs fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu. Heimild þessi nær til einstaklinga og lögaðila sem staðfestu hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins og enn fremur í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, eftir því sem samgönguráðherra ákveður með reglugerð.
    Fjarskiptafyrirtæki sem býður fjarskiptanet, fjarskiptaþjónustu eða aðstöðu sem tengist fjarskiptanetum og þjónustu skal tilkynna það Póst- og fjarskiptastofnun áður en starfsemi hefst og veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna skráningar á viðkomandi fjarskiptafyrirtæki og starfsemi þess.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal halda skrá yfir öll fjarskiptafyrirtæki sem hafa tilkynnt að þau muni starfa á grundvelli almennrar heimildar. Að beiðni fjarskiptafyrirtækis skal Póst- og fjarskiptastofnun innan viku frá því að beiðni barst stofnuninni gefa út staðfestingu þess að fyrirtækið hafi tilkynnt sig til skráningar.

5. gr.
Lágmarksréttindi sem fylgja almennri heimild.

    Fjarskiptafyrirtæki sem hafa almenna heimild skv. 4. gr. eiga rétt á að reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu og að leggja fram umsóknir um heimild til að koma upp aðstöðu skv. 69. gr.
    Almenn heimild veitir fyrirtækjum sem bjóða eða hyggjast bjóða almenna fjarskiptaþjónustu og almenn fjarskiptanet rétt til að semja um samtengingu og þar sem það á við að fá aðgang að eða samtengingu við önnur fjarskiptafyrirtæki.
    Almenn heimild veitir sömuleiðis rétt til þess að koma til greina sem alþjónustuveitandi.

6. gr.
Skilyrði almennrar heimildar.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um almennar heimildir. Skilyrði skulu vera hlutlæg og skýr og jafnræðis gætt við veitingu heimilda.
    Skilyrði geta verið eitt eða fleiri af eftirtöldum:
     a.      að greitt verði í jöfnunarsjóð alþjónustu skv. 22. gr.,
     b.      að tryggð verði gagnkvæm starfræksla þjónustu og samtenging neta í samræmi við 24. gr.,
     c.      að áskrifendum fjarskiptafyrirtækja verði tryggður aðgangur að númerum,
     d.      kröfur varðandi umhverfisvernd og skipulag, kröfur tengdar aðgangi að almenningum eða eignarlöndum, skilyrði tengd samhýsingu og samnýtingu aðstöðu, fjárhagslegar eða tæknilegar ábyrgðir sem nauðsynlegar eru til að tryggja rétta útfærslu framkvæmda,
     e.      um skyldur um dreifingu útvarpsdagskrár, sbr. 55. gr.,
     f.      um verndun persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs,
     g.      um neytendavernd á sviði fjarskiptastarfsemi,
     h.      um takmarkanir að því er varðar sendingu á ólöglegu innihaldi og takmarkanir á skaðlegu innihaldi sjónvarpsefnis,
     i.      að veittar verði nauðsynlegar upplýsingar vegna skráningar og eftirlits,
     j.      að heimila þar til bærum yfirvöldum að hafa afskipti af fjarskiptanetum í samræmi við ákvæði um úrvinnslu og meðferð persónuupplýsinga,
     k.      að tryggja fjarskipti milli björgunarsveita og yfirvalda og útvarpssendingar til almennings þegar stórslys og hamfarir verða,
     l.      um ráðstafanir til að takmarka áhættu almennings af rafsegulsviðum sem stafar frá fjarskiptanetum,
     m.      um aðgangsskyldur aðrar en greint er frá í VII. kafla,
     n.      um að viðhalda heildstæði almennra fjarskiptaneta, þ.m.t. skilyrði um að koma í veg fyrir rafsegultruflanir milli fjarskiptaneta eða þjónustu,
     o.      um öryggi almennra neta gagnvart ólöglegum aðgangi,
     p.      um notkun tíðna þegar slík notkun er ekki háð einstakri úthlutun réttinda til að nota tíðnir,
     q.      um ráðstafanir gerðar til að tryggja að fylgt verði stöðlum eða kröfum skv. 59. gr.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur að auki sett skilyrði sem varða rekstraröryggi neta, tryggingu um samstæði neta og samhæfni mismunandi þjónustu. Til þess að tryggja öryggi fjarskipta landsins við umheiminn getur Póst- og fjarskiptastofnun gert að skilyrði að fjarskiptafyrirtæki sem reka talsíma- eða gagnaflutningssambönd til útlanda noti til þess fleiri en eina leið og að fyrirtækin geri ráðstafanir til þess að flytja talsíma- og gagnaflutningsþjónustu við útlönd af bilaðri eða rofinni leið yfir á aðra nothæfa leið innan tímamarka sem stofnunin setur.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur sett það skilyrði að eigendur fjarskiptafyrirtækis með umtalsverða markaðshlutdeild rýri ekki efnahag fyrirtækisins eða geri aðrar óvenjulegar ráðstafanir sem dragi verulega úr möguleikum fyrirtækisins til að uppfylla skyldur samkvæmt þessum lögum.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja sérstakar kvaðir á fyrirtæki sem reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu, í samræmi við ákvæði laga þessara um aðgang, samtengingu og alþjónustu.

IV. KAFLI
Úthlutun tíðna og númera.
7. gr.
Réttindi til að nota tíðnir og númer.

    Þegar réttindi til notkunar ákveðinna tíðna og númera falla ekki undir p-lið 2. mgr. 6. gr. skal Póst- og fjarskiptastofnun að fenginni umsókn úthluta slíkum réttindum til fjarskiptafyrirtækja sem reka eða nota fjarskiptanet eða þjónustu samkvæmt almennri heimild. Einnig má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til útvarpsstöðva að lokinni opinni og gegnsærri málsmeðferð án mismununar, enda þjóni slík úthlutun markmiðum stjórnvalda. Að auki má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til aðila sem starfrækja þráðlausan fjarskiptabúnað til eigin nota. Réttindi samkvæmt þessari grein eru bundin við nafn og er framsal óheimilt.

8. gr.
Samruni og skipting fyrirtækja.

    Ef fjarskiptafyrirtæki sem hefur réttindi til tíðninotkunar tekur þátt í samruna getur Póst- og fjarskiptastofnun fellt réttindi þess til tíðninotkunar úr gildi að fullu eða að hluta til eða breytt skilyrðum réttinda ef hætta er á því að samkeppni eða hagkvæmri nýtingu tíðnirófsins verði hamlað eða forsendur fyrir veitingu tíðniréttinda eru að öðru leyti verulega breyttar eða brostnar.
    Tilkynna skal Póst- og fjarskiptastofnun um samruna skv. 1. mgr. eigi síðar en einni viku eftir að samningi um hann er lokið eða tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð eða að tiltekinn aðili hafi náð yfirráðum í fyrirtæki. Póst- og fjarskiptastofnun skal tilkynna viðkomandi fyrirtækjum innan þrjátíu daga frá því að fullnægjandi tilkynning berst ef hún telur ástæðu til að taka málið til athugunar. Ákvörðun um niðurfellingu eða breytingu á réttindum skal taka eigi síðar en þremur mánuðum eftir tilkynningu Póst- og fjarskiptastofnunar. Vanræki fyrirtæki tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. getur Póst- og fjarskiptastofnun tekið málið til athugunar og ákvörðunar þegar stofnunin fær vitneskju um viðkomandi samruna. Um málsmeðferð fer samkvæmt þessari málsgrein.
    Ef fyrirtæki sem hefur réttindi til tíðninotkunar er skipt í tvö eða fleiri fyrirtæki getur Póst- og fjarskiptastofnun heimilað að réttindi til tíðninotkunar eða hluti þeirra verði yfirfærð til fyrirtækis sem til verður við skiptinguna. Slík heimild er háð því að ekki sé hætta á því að samkeppni eða hagkvæmri nýtingu tíðnirófsins verði hamlað og að hið nýja fyrirtæki teljist hafa getu til þess að standa við þau skilyrði sem réttindunum fylgja.
    Ákvæði 1.–3. mgr. gilda einnig um réttindi til notkunar á númerum eftir því sem við á.

9. gr.
Takmarkanir á úthlutun réttinda.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur takmarkað fjölda úthlutana á réttindum til að nota ákveðnar tíðnir þegar það er nauðsynlegt til að tryggja skilvirka notkun tíðna. Leggja skal áherslu á hagsmuni notenda og að örva samkeppni. Öllum hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, skal gefið tækifæri til þess að tjá sig um takmarkanir á réttindum áður en Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun sína sem skal birt ásamt rökstuðningi. Kynna skal aðferðina sem notuð verður við úthlutun réttinda og auglýsa eftir umsóknum. Póst- og fjarskiptastofnun skal með reglulegu millibili endurskoða takmarkanir sem settar hafa verið m.a. að beiðni fjarskiptafyrirtækja sem hlut eiga að máli. Ef hægt er að veita frekari réttindi til notkunar tíðna skal auglýst eftir umsóknum.

10. gr.
Skilyrði um notkun tíðna og númera.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur sett eftirfarandi skilyrði fyrir notkun tíðna:
     a.      að úthlutun tíðna taki aðeins til ákveðinnar þjónustu eða tegundar nets eða tækni, þ.m.t., þegar við á, úthlutun einkaréttinda fyrir sendingar með sérstöku innihaldi eða fyrir ákveðna mynd- eða hljóðþjónustu,
     b.      að notkun tíðna sé skilvirk,
     c.      að búnaður og rekstur fjarskiptafyrirtækis geri skaðlegar truflanir og rafsegulgeislun sem almenningur getur orðið fyrir sem minnstar,
     d.      að gildistími skuli takmarkaður með tilliti til þjónustu sem um er að ræða; gildistíminn skal vera með fyrirvara um breytingar á tíðniplani,
     e.      að afnotagjöld skuli ákvörðuð að því marki sem nauðsynlegt er til þess að tryggja hagkvæmustu notkun tíðna,
     f.      að efndar séu skuldbindingar sem gengist er undir í útboði,
     g.      að tekið sé mið af kvöðum samkvæmt alþjóðlegum samþykktum um notkun tíðna.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur enn fremur sett eftirfarandi skilyrði við úthlutun númera:
     a.      að úthlutun réttinda til að nota númer gildi aðeins fyrir ákveðna þjónustu,
     b.      um framboð þjónustunnar,
     c.      að notkun númeranna sé skilvirk og nýtin,
     d.      að boðið sé upp á númeraflutning,
     e.      að veittar séu almennar símaskrárupplýsingar,
     f.      að gildistími réttindanna sé takmarkaður; gildistíminn skal vera með fyrirvara um breytingar á númeraplani,
     g.      að leyfishafi greiði afnotagjöld,
     h.      að efndar séu skuldbindingar sem gengist er undir í útboði,
     i.      að tekið sé mið af kvöðum samkvæmt alþjóðlegum samþykktum um notkun númera.

11. gr.
Málsmeðferð við veitingu réttinda til að nota tíðnir og númer.

    Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun um réttindi til þess að nota tíðnir og númer. Slíka ákvörðun skal taka, tilkynna og birta opinberlega eins fljótt og unnt er eftir móttöku umsóknar. Ákvörðun skal liggja fyrir innan þriggja vikna ef taka á númer frá í númeraplaninu til ákveðinnar notkunar og innan sex vikna ef tíðnir eru ætlaðar til ákveðinnar notkunar í tíðniplaninu.
    Krefjast má þess af umsækjendum um takmörkuð réttindi að þeir leggi fram fullnægjandi upplýsingar um eignaraðild, fjárhagsstöðu og fyrirhugaða starfsemi, svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að leggja mat á umsóknir þeirra. Viðhafa má útboð við úthlutun réttinda til að nota númer og tíðnir. Útboð skal að jafnaði vera opið og skal í útboðsskilmálum, þegar um er að ræða tíðnir, m.a. kveðið á um lágmarksþjónustusvæði.
    Samgönguráðherra getur ákveðið að úthlutun fari fram að loknu uppboði þegar sérstaklega stendur á.
    Ef ákveðið er að halda útboð eða uppboð við úthlutun númera er heimilt að framlengja málsmeðferðarfrestinn skv. 1. mgr. um þrjár vikur. Ef ákveðið er að halda útboð eða uppboð við úthlutun tíðna er heimilt að framlengja málsmeðferðarfrestinn skv. 1. mgr., þó ekki lengur en um átta mánuði.

12. gr.
Breytingar á réttindum.

    Þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna breytinga á löggjöf, er Póst- og fjarskiptastofnun í undantekningartilvikum heimilt að breyta skilyrðum í almennum heimildum og skilyrðum fyrir úthlutun réttinda.
    Breytingar skulu kynntar hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, með hæfilegum fyrirvara sem þó skal ekki vera styttri en einn mánuður.

13. gr.
Upplýsingar um heimildir og réttindi.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal gefa út nauðsynlegar upplýsingar um réttindi, skilyrði, málsmeðferð, gjöld og ákvarðanir um almennar heimildir. Ef hluti þessara upplýsinga er í vörslu annars stjórnvalds skal Póst- og fjarskiptastofnun birta yfirlit yfir slíkar upplýsingar og hvar þær er að finna.

14. gr.
Notkun tíðnirófsins.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal í samræmi við alþjóðlegar samþykktir þar að lútandi stuðla að sem hagkvæmastri nýtingu tíðnirófsins og að skaðlegar truflanir á viðtöku þráðlausra merkja verði sem minnstar. Stofnunin skal skipuleggja notkun mismunandi hluta tíðnirófsins, skrá skipulagið, semja tíðniplan í samræmi við skipulagið og veita upplýsingar um tíðniplanið eftir þörfum.
    Samgönguráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um skipulagningu og úthlutun tíðna, jafnt til fjarskiptafyrirtækja sem notenda.

15. gr.
Skipulag númera og vistfanga.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal viðhalda skipulagi númera sem nota má fyrir hvers konar fjarskiptaþjónustu, þ.m.t. númerakóða fyrir net. Upplýsingar um númeraskipulag og allar breytingar á því skulu birtar opinberlega.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um númer, númeraraðir og vistföng.
    Samgönguráðherra getur sett reglugerð um hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar við útgáfu vistfanga.

V. KAFLI
Markaðir.
16. gr.
Skilgreining markaða.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal skilgreina þjónustu- eða vörumarkaði og landfræðilega markaði í samræmi við meginreglur samkeppnisréttar og skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Haft skal samráð við Samkeppnisstofnun þegar við á.

17. gr.
Framkvæmd markaðsgreiningar.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal með hliðsjón af 16. gr. greina viðkomandi markaði með hliðsjón af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þegar við á skal gera greininguna í samstarfi við Samkeppnisstofnun.
    Markaðsgreiningin skal vera grundvöllur ákvörðunar um hvort Póst- og fjarskiptastofnun skuli leggja á, viðhalda, breyta eða fella niður kvaðir á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild skv. 18. gr. Ef samkeppni telst virk skulu ekki lagðar kvaðir á fyrirtæki á þeim mörkuðum. Ef virk samkeppni ríkir ekki á viðkomandi markaði skal útnefna fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á þeim markaði í samræmi við 18. gr. Leggja má á þau kvaðir samkvæmt lögum þessum eða viðhalda eða breyta kvöðum sem þegar hafa verið lagðar á.

18. gr.
Umtalsverð markaðshlutdeild.

    Fyrirtæki telst hafa umtalsverða markaðshlutdeild ef það eitt sér eða með öðrum hefur þann efnahagslega styrkleika á ákveðnum markaði að geta hindrað virka samkeppni og það getur að verulega leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.
    Þegar fyrirtæki eitt sér eða með öðrum hefur umtalsverða hlutdeild á tilteknum markaði getur það einnig talist hafa umtalsverða hlutdeild á tengdum markaði ef tengsl milli markaðanna eru slík að fyrirtæki getur beitt markaðsstyrk sínum á öðrum markaðinum til að auka markaðsstyrk sinn á hinum.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari sundurliðun markaða skv. 16. gr., um greiningu á stöðu markaða og um mælikvarða sem nota skal við mat á því hvort fyrirtæki eitt eða fleiri saman hafi umtalsverða markaðshlutdeild samkvæmt þessari grein.

VI. KAFLI
Um alþjónustu og sértæka fjarskiptaþjónustu.
19. gr.
Réttur til alþjónustu.

    Allir notendur skulu eiga rétt á alþjónustu, óháð staðsetningu, með þeim undantekningum sem greinir í 2. og 4. mgr.
    Ef nauðsynlegt þykir til að tryggja fullnægjandi fjarskiptaþjónustu á sanngjörnum kjörum og þeirri þjónustu verður ekki við komið ef einungis er tekið mið af viðskiptasjónarmiðum getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt svo fyrir að fjarskiptafyrirtæki sem rekur almennt fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu skuli veita alþjónustu á starfssvæði sínu. Póst- og fjarskiptastofnun getur í sérstökum tilfellum veitt þjónustuveitanda undanþágu frá þessu ákvæði.
    Til alþjónustu teljast m.a. talsímaþjónusta, handvirk þjónusta og þjónusta við öryrkja eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir og gagnaflutningsþjónusta með 128 Kb/s flutningsgetu. Póst- og fjarskiptastofnun skal enn fremur tryggja að notendur hafi aðgang að a.m.k. einni símaskrá með öllum símanúmerum og upplýsingaþjónustu um öll símanúmer. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um að setja upp og starfrækja almenningssíma og getur ákveðið staðsetningu þeirra.
    Sjái fjarskiptafyrirtæki sér ekki fært að veita tilteknum aðila alþjónustu skv. 1. mgr., svo sem vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis, skal ágreiningur um synjun borinn undir Póst- og fjarskiptastofnun til ákvörðunar.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið lágmarksgæði alþjónustu.

20. gr.
Skylda til að veita alþjónustu.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur falið einu eða fleiri fjarskiptafyrirtækjum að bjóða alþjónustu, sbr. 19. gr., á ákveðnum svæðum eða eftir þjónustutegundum.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa eftirlit með gjaldskrá fyrir alþjónustu og getur ákveðið hámarksverð. Sama gjaldskrá skal gilda fyrir alþjónustu alls staðar á landinu.
    Samgönguráðherra setur reglugerð um alþjónustu.

21. gr.
Fjárframlög til alþjónustu.

    Telji fjarskiptafyrirtæki að alþjónusta sem því er gert skylt að veita, sbr. 20. gr., sé rekin með tapi eða sé óarðbær getur það sótt um að því verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Skal slík beiðni send Póst- og fjarskiptastofnun. Reglur um mat á kostnaði við alþjónustu skal birta í reglugerð um alþjónustu, sbr. 20. gr.
    Nú berst Póst- og fjarskiptastofnun beiðni um fjárframlög skv. 1. mgr., og ekki verður talið að þjónustan verði tryggð með öðrum hagkvæmari hætti en jafnframt talið að þjónustan sé óhjákvæmileg og verði ekki aflögð, og skal stofnunin þá ákvarða kostnað vegna alþjónustukvaða.
    Skal Póst- og fjarskiptastofnun krefjast þess að hið útnefnda fjarskiptafyrirtæki upplýsi nákvæmlega hvert rekstrartapið af starfseminni er og hvernig það sundurliðast.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur við mat á fjárframlögum krafist skýrslna löggiltra endurskoðenda eða falið slíkum aðila að gera úttekt á rekstrarafkomu á viðkomandi rekstrarsviði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast aðgangs að bókhaldi fjarskiptafyrirtækisins við mat á kostnaði við alþjónustu.
    Fjárframlög skulu að jafnaði miðuð við eitt ár í senn. Nú telur annar hvor aðila að forsendur fyrir ákvörðun fjárframlaga hafi breyst verulega og getur hvor um sig þá krafist endurskoðunar á framlaginu á gildistíma þess.
    Nú er hluti af starfsemi fjarskiptafyrirtækis háður fjárframlögum samkvæmt ákvæði þessu, og skal sá þáttur starfseminnar þá vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi fjarskiptafyrirtækisins.

22. gr.
Jöfnunargjald.

    Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga samkvæmt þessum kafla skal innheimta jöfnunargjald sem rennur í jöfnunarsjóð í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Skal jöfnunargjaldið lagt á fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja fjarskiptanet eða þjónustu í hlutfalli við bókfærða veltu þessarar starfsemi. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem fjarskiptafyrirtæki hefur af umræddri starfsemi hér á landi.
    Jöfnunargjald samkvæmt lögum þessum skal nema 0,12% af bókfærðri veltu skv. 2. mgr. Skal fjárþörf vegna alþjónustu endurskoðuð árlega af Póst- og fjarskiptastofnun og niðurstaða þeirrar endurskoðunar ásamt tillögu um breytt gjaldhlutfall, ef þörf þykir, lögð fyrir samgönguráðherra. Verði útgjöld hærri en nemur jöfnunargjöldum á árinu skal gjaldfæra þann mismun á skuldbindingar næsta árs. Verði fjárhæð jöfnunargjalda hærri en nemur útgjöldum á gjaldárinu skal afgangur fluttur til næsta árs.
    Jöfnunargjald má draga frá tekjum greiðanda á því rekstrarári þegar stofn þess myndaðist.
    Um álagningu og innheimtu, þ.m.t. fyrirframgreiðslu, jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VII.–XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal árlega birta upplýsingar um útreikning kostnaðar vegna alþjónustukvaða, sundurliðaðan lista yfir einstakar greiðslur fyrirtækja í jöfnunarsjóð og greinargerð um þann ávinning sem stofnunin telur að fjarskiptafyrirtæki sem veita alþjónustu hafi haft.
    Samgönguráðherra setur í reglugerð um alþjónustu nánari fyrirmæli um fjárframlög og jöfnunargjöld í fjarskiptaþjónustu, þar á meðal um útreikning á kostnaði við að reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu og um útreikning rekstrartaps.

23. gr.
Sértæk fjarskiptaþjónusta.

    Nú óskar samgönguráðherra eftir því að lagt sé í framkvæmdir, rekstur eða þjónustu sem er til almannaheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum, og ætla má að skili ekki arði, án þess þó að um alþjónustu sé að ræða, og skal Póst- og fjarskiptastofnun þá falið að gera um slíkt samning við fjarskiptafyrirtæki í kjölfar útboðs.
    Kostnaður sem rekja má til ákvarðana samgönguráðherra skv. 1. mgr. skal að jafnaði greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.

VII. KAFLI
Samtenging neta og þjónustu og aðgangur að þeim.
24. gr.
Samtenging neta.

    Fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja almenn fjarskiptanet eða almenna fjarskiptaþjónustu skulu eiga rétt á og þeim ber skylda til að semja um samtengingu neta og þjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal leitast við að tryggja aðgang og samtengingu og gagnvirkni þjónustu á fullnægjandi og hagkvæman hátt.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir takmarkanir sem hindra fyrirtæki í að gera samtengisamninga sín á milli.
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun að samtenging geti valdið hættu á rekstrartruflunum í hinum samtengdu netum getur stofnunin mælt svo fyrir að netin skuli ekki samtengd.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal birta opinberlega upplýsingar um kvaðir sem lagðar eru á fjarskiptafyrirtæki samkvæmt þessum kafla ásamt upplýsingum um viðkomandi vöru- eða þjónustumarkaði og landfræðilega markaði. Þær upplýsingar skulu vera aðgengilegar öllum sem hagsmuna eiga að gæta, enda teljist þær ekki trúnaðarmál.
    Samninga um samtengingu og aðgang skal senda Póst- og fjarskiptastofnun þegar í stað en eigi síðar en viku eftir undirritun þeirra.

25. gr.
Aðgangur að aðstöðu.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur skyldað fjarskiptafyrirtæki til að semja um samhýsingu eða annars konar samnýtingu, þ.m.t. á kapalrennum eða rörum, byggingum eða möstrum, eftir því sem segir í 2.–4. mgr.
    Þegar fjarskiptafyrirtæki hefur rétt á að setja upp eða grafa niður fjarskiptavirki á afréttum, almenningum eða eignarlöndum, eða getur tekið land eignarnámi, sbr. 70. gr., skal Póst- og fjarskiptastofnun hvetja til samnýtingar á aðstöðu eða landareign, þ.m.t. samhýsingar. Eigi önnur fjarskiptafyrirtæki ekki aðgang að sambærilegri aðstöðu vegna umhverfis-, heilbrigðis- eða öryggissjónarmiða getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt fyrir um samnýtingu aðstöðu eða lands. Slíkar ákvarðanir skal aðeins taka eftir almenna kynningu og að fenginni umsögn hagsmunaaðila.
    Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar getur falið í sér fyrirmæli um skiptingu kostnaðar við aðstöðu eða land.
    Í sérstökum tilfellum, þegar um er að ræða sérstaka landfræðilega aðstöðu eða þegar umhverfissjónarmið réttlæta samnýtingu getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt fyrir um hana þótt ákvæði 2. mgr. eigi ekki við.

26. gr.
Samskipti fjarskiptafyrirtækja.

    Fjarskiptafyrirtæki sem öðlast upplýsingar frá öðru fyrirtæki við gerð samninga um aðgang eða samtengingu eða að loknum samningum skulu eingöngu nota upplýsingarnar í þeim tilgangi sem þær voru veittar og skulu á öllum stigum halda trúnað. Óheimilt er að afhenda upplýsingarnar öðrum, þar á meðal öðrum deildum fyrirtækis, dótturfyrirtækjum eða samstarfsaðilum.

27. gr.
Kvaðir á fjarskiptafyrirtæki.

    Þegar fjarskiptafyrirtæki er talið hafa umtalsverða markaðshlutdeild er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að leggja á það kvaðir um gagnsæi, jafnræði, bókhaldslegan aðskilnað, opinn aðgang að sérstakri netaðstöðu, eftirlit með gjaldskrá og kostnaðarbókhald eins og með þarf í þeim tilgangi að efla virka samkeppni.

28. gr.
Aðgangur að netum og þjónustu.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur mælt fyrir um að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild verði við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um opinn aðgang að almennum fjarskiptanetum, nethlutum og tengdri aðstöðu með ákveðnum skilmálum sem stofnunin setur, sbr. þó 3. mgr.
    Meðal annars má krefjast af fjarskiptafyrirtækjum að þau:
     a.      veiti aðgang að einstökum hlutum neta eða aðstöðu, þ.m.t. aðgreindan aðgang að heimtaugum,
     b.      bjóði ákveðna þjónustu í heildsölu sem þriðji aðili endurselur,
     c.      heimili opinn aðgang að tæknisniðflötum, samskiptareglum eða annarri tækni sem er nauðsynleg til að tryggja gagnvirka þjónustu eða sýndarnetþjónustu,
     d.      bjóði samhýsingu eða samnýtingu, þ.m.t. samnýtingu kapalstokka, bygginga eða mastra,
     e.      bjóði þjónustu sem tryggir samvirkni þjónustu við notendur, þar á meðal greindarnetsþjónustu eða reiki í farsímanetum,
     f.      bjóði aðgang að rekstrarkerfum eða hliðstæðum hugbúnaði til þess að tryggja samkeppni í framboði þjónustu,
     g.      samtengi net eða netaðstöðu,
     h.      veiti aðgang fyrir sýndarnet,
     i.      veiti aðgang að annarri ómissandi aðstöðu.
    Við ákvörðun um að leggja á skyldur skv. 1. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun taka mið af því hvort það sé:
     a.      tæknilega og fjárhagslega raunhæft að nota eða setja upp eigin aðstöðu í samkeppni með hliðsjón af markaðsþróun og eðli og gerð samtengingar og aðgangs sem um ræðir,
     b.      framkvæmanlegt að veita þann aðgang sem tillaga er um,
     c.      forsvaranlegt með hliðsjón af upphaflegri fjárfestingu eiganda aðstöðunnar og áhættu sem tekin var með fjárfestingunni,
     d.      í þágu samkeppni til lengri tíma litið,
     e.      óheppilegt með hliðsjón af vernd hugverkaréttinda,
     f.      til þess fallið að auka framboð þjónustu.

29. gr.
Gagnsæi.

    Til þess að auka gagnsæi samtengingar eða aðgangs að aðstöðu fjarskiptafyrirtækis getur Póst- og fjarskiptastofnun skyldað fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild til að birta opinberlega ákveðnar upplýsingar, t.d. bókhaldsupplýsingar, tæknilýsingar, upplýsingar um einkenni neta, skilmála og skilyrði fyrir afhendingu og notkun og verðskrá. Heimilt er að veita undanþágu frá birtingu upplýsinga ef fjarskiptafyrirtæki getur sýnt fram á að þær varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt og eðlilegt er að fari leynt.
    Þegar fjarskiptafyrirtæki er gert að gæta jafnræðis getur Póst- og fjarskiptastofnun skyldað það til að gefa út viðmiðunartilboð sem innihaldi sundurliðaða lýsingu á samtengingu eða aðgangi, ásamt skilmálum og skilyrðum, þar á meðal gjaldskrám. Stofnunin getur mælt fyrir um breytingar á viðmiðunartilboði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um hvert skuli vera efni samtengingarsamninga og viðmiðunartilboða.

30. gr.
Jafnræði.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt þær kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild að það gæti jafnræðis þegar það samþykkir samtengingu eða aðgang. Slíkar kvaðir skulu einkum tryggja að fjarskiptafyrirtæki setji öðrum félögum sem veita fjarskiptaþjónustu sömu skilmála í sams konar viðskiptum og veiti þjónustu og upplýsingar með sömu skilmálum og sömu gæðum og það veitir eigin þjónustudeildum, dótturfyrirtækjum eða samstarfsaðilum.

31. gr.
Bókhaldslegur aðskilnaður.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt skyldur á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild um bókhaldslegan aðskilnað milli starfsemi sem tengist samtengingu eða aðgangi og annarrar starfsemi þannig að hægt verði að skipta öllum tekjum og kostnaði niður á rekstrareiningar sem tengja má mismunandi þjónustu. Að auki getur stofnunin krafist þess af fyrirtæki sem rekur bæði fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu að heildsöluverð þess og verð innan fyrirtækisins sé gagnsætt, m.a. til að koma í veg fyrir óréttmætar niðurgreiðslur. Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið hvaða bókhaldsaðferðir nota skal.
    Til að tryggja gagnsæi og jafnræði getur Póst- og fjarskiptastofnun krafist þess að fá afhent bókhaldsgögn, þ.m.t. upplýsingar um tekjur frá þriðja aðila.

32. gr.
Eftirlit með gjaldskrá.

    Þegar markaðsgreining gefur til kynna að skortur á virkri samkeppni hafi í för með sér að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild krefjist of hárra gjalda eða að óeðlilega lítill munur sé á heildsölu- og smásöluverði getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár og kvaðir um kostnaðarbókhald á ákveðnum tegundum samtengingar eða aðgangs. Taka skal tillit til fjárfestinga fjarskiptafyrirtækisins og hæfilegrar arðsemi af bundnu fjármagni með hliðsjón af áhættu við fjárfestinguna.
    Þegar lögð er kvöð á fjarskiptafyrirtæki um að gjaldskrá miðist við kostnað ásamt hæfilegum hagnaði hvílir sönnunarbyrðin á fyrirtækinu.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að fjarskiptafyrirtæki geri kostnaðarlíkan til útreiknings á verði.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur við útreikninga á kostnaði tekið mið af rekstri sambærilegrar þjónustu sem telst hagkvæmlega rekin, tekið mið af gjaldskrám á sambærilegum samkeppnismörkuðum og notað kostnaðargreiningaraðferðir sem eru óháðar aðferðum fjarskiptafyrirtækisins.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerð um útfærslu bókhaldslegs aðskilnaðar í rekstri fjarskiptafyrirtækja skv. 31. gr., þ.m.t. skiptingu eftir netum og þjónustu, og um nánara fyrirkomulag kostnaðargreiningar samkvæmt þessari grein, m.a. um aðferðir við eignamat, afskriftir, ávöxtunarkröfu og gerð kostnaðarlíkana.

33. gr.
Aðgangur að leigulínum.

    Ríki ekki virk samkeppni á markaði fyrir leigulínur eða ákveðnar tegundir þeirra skal Póst- og fjarskiptastofnun tryggja að a.m.k. eitt fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild bjóði fram leigulínur í heildsölu eða smásölu af þeirri tegund sem stofnunin telur að þörf sé fyrir á fjarskiptamarkaði.

34. gr.
Aðgangur að heimtaugum.

    Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild í almennum fjarskiptanetum og talsímaþjónustu skulu verða við öllum réttmætum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að heimtaugum og aðstöðu er slíkum aðgangi tengist. Gjöld fyrir aðgang og aðstöðu skulu byggjast á kostnaði, þ.m.t. eðlilegri arðsemi af bundnu fjármagni. Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild skulu birta viðmiðunartilboð um aðgang að heimtaugum og tengdri aðstöðu. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist breytinga á viðmiðunartilboði, þ.m.t. verði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um hvert skuli vera efni viðmiðunartilboðs.
    Beiðnum um aðgang að heimtaugum skal aðeins hafnað á grundvelli hlutlægra viðmiðana, nauðsynjar þess að viðhalda heildstæði neta eða af tæknilegum ástæðum. Náist ekki samkomulag um aðgang getur aðili vísað málinu til Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerð um sundurgreindan aðgang að heimtaugum.

35. gr.
Reikisamningar.

    Þar sem ekki verður ráðist í uppsetningu og rekstur farsímastöðva eða farsímanets, vegna eðlis eða umfangs fjárfestingar, eða þar sem aðstæður til uppsetningar og rekstrar farsímastöðva og farsímanets eru sérstaklega erfiðar, svo sem vegna náttúrulegra aðstæðna, eða þegar nauðsynlegt er að stuðla að virkri samkeppni, skulu farsímafyrirtæki sem veita almenna farsímaþjónustu eiga aðgang að almennum farsímanetum annarra farsímafyrirtækja.
    Fjarskiptafyrirtæki skulu leitast við að semja sín á milli um skilmála aðgangs.
    Náist ekki samkomulag skal Póst- og fjarskiptastofnun ákveða hvort reikisamningur skuli gerður og skilmála hans á milli þess aðila er ræður farsímanetinu skv. 1. mgr. og annarra fjarskiptafyrirtækja, enda hafi þau þegar yfir að ráða eigin almennum farsímanetum þar sem þeim verður við komið að mati Póst- og fjarskiptastofnunar.

36. gr.
Aðskilnaður sérleyfisstarfsemi frá fjarskiptastarfsemi.

    Fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu og njóta einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum skulu halda fjarskiptastarfsemi sinni fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi eins og um óskyld fyrirtæki væri að ræða. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi.
    Ákvæði þetta gildir án tillits til markaðshlutdeildar fyrirtækis.

VIII. KAFLI
Skilmálar og gjaldskrár.
37. gr.
Viðskiptaskilmálar.

    Áskrifendur fjarskiptaþjónustu á einstaklingsmarkaði skulu eiga rétt á að fjarskiptafyrirtæki geri við þá samning sem skal a.m.k. innihalda eftirfarandi atriði:
     a.      nafn og heimilisfang þjónustuveitanda,
     b.      þjónustu sem veita skal, gæðaflokk þjónustu og tímann sem upphafleg tenging mun taka,
     c.      viðhaldsþjónustu sem boðin er,
     d.      nákvæmar upplýsingar um verð og gjaldskrá og hvernig hægt er að nálgast nýjustu upplýsingar um viðeigandi gjöld og viðhaldsgjöld,
     e.      gildistíma samningsins, skilmála fyrir endurnýjun hans og uppsögn,
     f.      skaðabætur og fyrirkomulag endurgreiðslu ef þjónusta er ekki í samræmi við samning,
     g.      hvernig hefja skuli mál til lausnar á deilum milli áskrifenda og fjarskiptafyrirtækis.
    Áskrifendur á einstaklingsmarkaði skulu eiga rétt á því að segja samningum fyrirvaralaust upp án greiðslu skaðabóta þegar þeir fá tilkynningu um fyrirhugaða breytingu á samningsskilmálum. Áskrifendum á einstaklingsmarkaði skal veittur a.m.k. eins mánaðar uppsagnarfrestur áður en breytingar taka gildi og skulu þeir jafnframt upplýstir um rétt sinn til að segja upp samningi að skaðlausu vilji þeir ekki samþykkja hina nýju skilmála.
    Fjarskiptafyrirtæki skal fyrir gildistöku nýrra eða breyttra skilmála eða gjaldskrár senda Póst- og fjarskiptastofnun skilmála eða gjaldskrá til upplýsingar á því formi sem stofnunin ákveður. Stofnuninni er heimilt að krefjast breytinga á skilmálum eða gjaldskrá fyrirtækis ef efni þeirra þykir brjóta í bága við lög þessi.
    Fjarskiptafyrirtæki skulu birta viðskiptaskilmála og gjaldskrá fyrir alla þjónustu sína á aðgengilegan hátt.

38. gr.
Reikningar áskrifenda o.fl.

    Áskrifendur talsímaþjónustu eiga rétt á að fá reikninga fyrir fjarskiptanotkun sína sundurliðaða eftir þjónustu og skulu áskrifendur alþjónustu eiga rétt á slíkum reikningum án þess að greiðsla komi fyrir.
    Fjarskiptafyrirtækjum er heimilt að bjóða áskrifendum ítarlegri reikninga gegn hæfilegu gjaldi.
    Símtöl sem eru gjaldfrjáls, þ.m.t. símtöl vegna ráðgjafar á vegum félagslegrar þjónustu, mega ekki vera sundurliðuð á reikningi, enda hafi þeir sem veita slíka ráðgjöf tilkynnt fjarskiptafyrirtækjum um starfsemi sína fyrir fram. Við gerð sundurliðaðra reikninga skal hafa hliðsjón af löggjöf um persónuvernd.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerð um meðferð upplýsinga sem nauðsynlegar eru fyrir gerð reikninga, sundurliðun þeirra og málsmeðferð vegna kvartana.
    Ef símtöl bera yfirgjald skal þjónustuaðili ávallt geta þess í upphafi símtals hver fjárhæð gjaldsins sé. Áskrifandi skal eiga þess kost að læsa fyrir símtöl í númer þar sem tekið er yfirgjald. Nánar skal kveðið á um símtöl og aðra virðisaukandi þjónustu í talsímanetum með yfirgjaldi í reglugerð.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að veita undanþágu frá upplýsingaskyldu um yfirgjald skv. 5. mgr.

39. gr.
Vanskil áskrifenda.

    Heimilt er að loka fyrir talsímaþjónustu vegna vanskila fyrir símtöl önnur en þau sem bera yfirgjald, enda hafi áskrifanda verið gefin skrifleg aðvörun a.m.k. mánuði fyrir lokun. Fyrsta mánuð eftir lokun skal þó vera mögulegt að hringja í áskrifandann. Einnig skal áskrifandi geta haft samband við neyðarnúmerið 112 í jafnlangan tíma. Ef gerð hefur verið tilraun til að komast hjá gjaldtöku á ólögmætan hátt eða reynt að koma gjaldskyldu yfir á óskyldan aðila er fjarskiptafyrirtæki heimilt að loka viðkomandi þjónustu án viðvörunar.

40. gr.
Ábyrgðartakmarkanir.

    Fjarskiptafyrirtækjum er heimilt í viðskiptaskilmálum sínum að undanþiggja sig bótaábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í stöðvum eða annarra ástæðna. Ábyrgðartakmörkun er þó bundin við að tjónið verði ekki rakið til stórfelldra mistaka starfsmanna fyrirtækisins.

41. gr.
Gæði þjónustu.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur gefið út reglur um gæði fjarskiptaþjónustu og framsetningu upplýsinga sem birtar eru svo að notendur hafi aðgang að ítarlegum, samanburðarhæfum og auðskiljanlegum upplýsingum.

IX. KAFLI
Vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs.
42. gr.
Gögn um fjarskipti.

    Gögnum um fjarskiptaumferð notenda sem geymd eru og fjarskiptafyrirtæki vinnur úr skal eyða eða gera nafnlaus þegar þeirra er ekki lengur þörf við afgreiðslu ákveðinnar fjarskiptasendingar.
    Gögn um fjarskiptanotkun sem nauðsynleg eru til reikningsgerðar fyrir áskrifendur og uppgjörs fyrir samtengingu má geyma þar til ekki er lengur hægt að vefengja reikning eða hann fyrnist.
    Með samþykki áskrifanda er fjarskiptafyrirtæki heimilt að vinna úr gögnum skv. 1. mgr. vegna markaðssetningar fjarskiptaþjónustu eða framboðs á virðisaukandi þjónustu að því leyti sem nauðsynlegt er fyrir slíka þjónustu eða markaðssetningu. Samþykki má afturkalla hvenær sem er.
    Þjónustuveitandi skal upplýsa áskrifendur fyrir fram um hvaða gögn um fjarskiptanotkun eru tekin til úrvinnslu og hversu lengi úrvinnsla mun standa.
    Úrvinnslu gagna samkvæmt þessari grein skulu þeir einir sinna sem eru undir stjórn fjarskiptafyrirtækja og sjá um gerð reikninga eða stjórnun fjarskiptaumferðar, fyrirspurnir notenda, uppljóstrun misferlis, markaðssetningu fjarskiptaþjónustu eða virðisaukandi þjónustu og skal úrvinnslan einskorðast við það sem er nauðsynlegt í þágu slíkrar starfsemi.

43. gr.
Upplýsingar um staðsetningu búnaðar.

    Því aðeins má vinna úr upplýsingum um staðsetningu búnaðar í almennum fjarskiptanetum eða almennri fjarskiptaþjónustu að ekki sé hægt að tengja þær við einstaka notendur eða að fengnu samþykki þeirra.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er fjarskiptafyrirtækjum heimilt án samþykkis notanda að senda upplýsingar samkvæmt þessari grein til félaga og stofnana sem annast neyðarþjónustu og eru opinberlega viðurkennd sem slík, þ.m.t. löggæslu-, sjúkraflutninga- og slökkvilið.
    Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um veitingu upplýsinga og vinnslu þeirra.

44. gr.
Sjálfvirkur hringiflutningur.

    Allir áskrifendur fjarskiptaþjónustu skulu eiga þess kost, á einfaldan hátt og án þess að greiðsla komi fyrir, að stöðva sjálfvirkan hringiflutning frá þriðja aðila í búnað þeirra.

45. gr.
Skrár yfir áskrifendur.

    Áskrifendur í fjarskiptaþjónustu skulu eiga rétt á að vera skráðir í opinberum númera- og vistfangaskrám og skoða upplýsingar sem skráðar eru um þá. Áskrifendur eiga kröfu á að vera óskráðir í gagnagrunni símaskrár og er óheimilt að krefja þá um gjald fyrir það.
    Áður en persónulegar upplýsingar um áskrifendur eru skráðar í prentuðum eða rafrænum skrám yfir áskrifendur skulu þeir eiga aðgang að upplýsingunum. Persónuupplýsingar sem skráðar eru í prentuðum og rafrænum skrám og í upplýsingaþjónustu um símanúmer skulu takmarkast við þær upplýsingar sem þarf til að bera kennsl á áskrifanda nema áskrifandinn hafi veitt ótvíræða heimild til annars. Fjarskiptafyrirtæki ber að verða við kröfu áskrifanda um að gefið sé til kynna í skrá að upplýsingar skráðar um hann megi ekki nota í tilgangi beinnar markaðssetningar eða að heimilisfangi sé sleppt að einhverju eða öllu leyti.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að öllum notendum sé opin a.m.k. ein símaskrá sem hefur upplýsingar um öll símanúmer. Einnig skal Póst- og fjarskiptastofnun tryggja að a.m.k. ein símaupplýsingaþjónusta sé opin öllum notendum með upplýsingum um öll símanúmer með fyrirvara um ákvæði 1. mgr. Póst- og fjarskiptastofnun getur í þessu skyni lagt viðeigandi kvaðir á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur skyldað öll fjarskiptafyrirtæki sem úthluta áskrifendum símanúmerum til að verða við beiðnum um að láta í té viðkomandi upplýsingar í formi sem aðilar koma sér saman um, þ.m.t. tölvutæku formi, og með skilmálum sem eru sanngjarnir og byggðir á kostnaði ásamt hæfilegri álagningu. Óheimilt er að nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi en að gefa út símaskrár eða fyrir upplýsingaþjónustu um símanúmer.

46. gr.
Óumbeðin fjarskipti.

    Notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa eða tölvupósts fyrir beina markaðssetningu er einungis heimil þegar áskrifandi hefur veitt samþykki sitt fyrir fram.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að nota tölvupóstfang við sölu á vörum eða þjónustu fyrir beina markaðssetningu á eigin vörum eða þjónustu ef viðskiptavinum er gefinn kostur á að andmæla slíkri notkun tölvupóstfanga þeim að kostnaðarlausu þegar skráning á sér stað og sömuleiðis í hvert sinn sem skilaboð eru send hafi viðskiptavinurinn ekki þegar í upphafi hafnað slíkri notkun.
    Að öðru leyti en mælt er fyrir í 1. og 2. mgr. eru óumbeðin fjarskipti í formi beinnar markaðssetningar óheimil til þeirra áskrifenda sem óska ekki eftir að taka á móti þeim.
    Óheimilt er að senda tölvupóst sem þátt í beinni markaðssetningu þar sem nafn og heimilisfang þess sem stendur að markaðssetningu kemur ekki skýrt fram.
    Notendur sem nota almenna talsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar hringingar í símanúmer sitt.

47. gr.
Öryggi og þagnarskylda.

    Fjarskiptafyrirtæki sem veita almenna fjarskiptaþjónustu skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja öryggi þjónustunnar í samráði við rekstraraðila fjarskiptaneta ef við á. Ef sérstök hætta er á að leynd fjarskipta á tilteknu neti verði rofin skal þjónustuveitandinn upplýsa áskrifendur um hættuna.
    Öllum sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn fjarskiptafyrirtækja eða aðra, er skylt, bæði meðan þeir gegna starfi og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og á milli hverra.
    Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    Enginn sem starfar við fjarskiptavirki, net eða þjónustu má skjóta undan skeytum, gögnum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til fjarskiptaflutnings eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.
    Sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum og táknum eða hlustar á símtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna sendanda að upplýsingar hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum.

48. gr.
Hljóðritun símtala.

    Sá aðili að símtali sem vill hljóðrita símtal skal í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína.
    Aðili þarf þó ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku símtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er opinberum stofnunum eða fyrirtækjum sem stofnanirnar fela slíkt heimilt að hljóðrita samtöl er þeim berast þegar slík hljóðritun er eðlilegur þáttur í starfsemi stjórnvalds og nauðsynleg vegna þjóðar- og almannaöryggis.
    Um fyrirkomulag hljóðritunar og kynningu hennar fyrir almenningi og starfsmönnum stofnunar skal fara eftir skilyrðum sem Persónuvernd kann að setja.
    Úrvinnsla hljóðritana samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi við lagaákvæði um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

X. KAFLI
Talsímaþjónusta.
49. gr.
Neyðarhringingar.

    Stuttnúmerið 112 skal vera frátekið fyrir neyðar- og öryggisþjónustu og er óheimilt að nota það í öðrum tilgangi. Óheimilt er að gjaldfæra símtöl í neyðarnúmerið 112.

50. gr.
Læsingar á aðgangi.

    Fjarskiptafyrirtæki sem falin hefur verið alþjónusta skulu að beiðni áskrifanda læsa fyrir ákveðnar tegundir símtala eða fyrir símtöl í ákveðnar númeraraðir, honum að kostnaðarlausu.

51. gr.
Númerabirting.

    Fjarskiptafyrirtæki sem reka almenna talsímaþjónustu skulu bjóða notendum númerabirtingu í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd. Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um fyrirkomulag númerabirtingar.

52. gr.
Númeraflutningur.

    Notendum almennrar talsímaþjónustu, að meðtalinni farsímaþjónustu, skal vera unnt að halda símanúmerum sínum óháð því hvaða fjarskiptafyrirtæki veitir þjónustuna. Þetta gildir þó ekki um númeraflutning milli fastaneta og farsímaneta.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að gjöld fyrir númeraflutning taki mið af kostnaði ásamt hæfilegri álagningu.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur sett nánari reglur um númeraflutning og tímasetningar í því sambandi og sker úr ágreiningi um framkvæmd hans.

53. gr.
Forval og fast forval.

    Fyrirtæki sem hafa umtalsverða markaðshlutdeild í tengingum við almenna fasta talsímanetið skulu gera áskrifendum sínum mögulegt að fá aðgang að þjónustu allra samtengdra fyrirtækja sem veita almenna talsímaþjónustu. Fyrirkomulag þessa aðgangs getur verið annaðhvort þannig að notandi velji forskeyti á undan hverju símtali eða með föstu forvali sem hægt er að fara fram hjá í einstökum símtölum með því að velja forskeyti.
    Þörf notenda fyrir forval eða fast forval í öðrum netum eða á annan hátt en skv. 1. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun meta á grundvelli markaðsgreiningar. Ef niðurstaða markaðsgreiningar er sú að samkeppni sé ekki virk getur stofnunin lagt á kvaðir í samræmi við 27. gr.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að gjöld fyrir aðgang og samtengingu sem tengjast framboði á forvali og föstu forvali taki mið af kostnaði ásamt hæfilegri álagningu.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um forval og fast forval.

54. gr.
Verndun talsímanetsins.

    Fyrirtæki sem bjóða almenna talsímaþjónustu skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir sem miða að því að almenna talsímanetið og almenna talsímaþjónustan, þ.m.t. neyðarþjónusta, rofni ekki.
    Óheimilt er notendum að valda truflunum eða ónæði í talsímanetinu.

XI. KAFLI
Stafrænt útvarp.
55. gr.
Skylda til að flytja útvarpsdagskrá.

    Leggja má á aðila, sem bjóða fjarskiptanet til dreifingar hljóð- og sjónvarpssendinga til almennings, skyldur til að flytja ákveðna útvarpsdagskrá þegar umtalsverður hluti notenda nýtir sér netin til að taka á móti hljóð- og sjónvarpssendingum. Slíkar skyldur skulu einungis lagðar á þegar sérstaklega ríkar ástæður mæla með því.

56. gr.
Skilyrt aðgangskerfi.

    Skilyrtur aðgangur að stafrænni hljóð- og sjónvarpsþjónustu skal fullnægja reglum sem Póst- og fjarskiptastofnun setur á grundvelli skuldbindinga samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þær kveði m.a. á um tæknilega eiginleika og skyldur til þess að veita aðgang.

57. gr.
Staðlar í gagnvirkri sjónvarpsþjónustu.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal beina því til fyrirtækja sem starfrækja stafræna gagnvirka sjónvarpsþjónustu fyrir almenning eða selja þróaðan stafrænan sjónvarpsbúnað að þau noti opna staðla fyrir forritatengsl í samræmi við skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

58. gr.
Kröfur vegna stafræns útvarps í almennum fjarskiptanetum.

    Almenn fjarskiptanet sem sett eru upp til þess að dreifa stafrænni sjónvarpsþjónustu skulu vera fær um að dreifa breiðskjársjónvarpsþjónustu og dagskrám. Fjarskiptafyrirtæki sem taka við og dreifa breiðskjárþjónustu eða dagskrám skulu viðhalda breiðskjárforminu.

XII. KAFLI
Fjarskiptabúnaður.
59. gr.
Búnaður fjarskiptaneta.

    Tækjabúnaður almennra fjarskiptaneta skal að jafnaði vera í samræmi við tæknistaðla sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Póst- og fjarskiptastofnun getur í sérstökum tilvikum mælt fyrir um notkun annarra staðla, svo og tilmæla frá Alþjóðafjarskiptasambandinu. Tæknilegir eiginleikar í nettengipunktum skulu ávallt vera í samræmi við staðla. Fjarskiptafyrirtæki sem reka almenn fjarskiptanet skulu birta upplýsingar um tæknilega eiginleika í nettengipunktum. Samgönguráðherra getur sett reglugerð um nánari útfærslu þessara ákvæða. Þráðlaus fjarskiptanet má einungis setja upp og nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar. Stofnuninni er þó heimilt að gefa út almennt leyfi fyrir þráðlaus fjarskiptanet í ákveðnum tíðnisviðum þegar geislað afl senda er undir hámarki sem stofnunin setur.

60. gr.
Innanhússfjarskiptalagnir.

    Fjarskiptalagnir í húsnæði áskrifenda, þ.m.t. húskassar, eru á ábyrgð húseigenda. Staðsetning húskassa og allar lagnir í byggingu skulu vera í samræmi við teikningar af byggingunni sem byggingareftirlit hefur samþykkt. Í fjöleignarhúsum skulu húskassar vera innsiglaðir eða læstir og þannig gengið frá lögnum að óviðkomandi eigi ekki greiða leið að einstökum fjarskiptalínum. Þegar fjarskiptafyrirtæki berst umsókn um þjónustu frá áskrifanda skal fjarskiptafyrirtæki eiga rétt á aðgangi að húskassa í viðkomandi byggingu til að tengja sig inn á hann og að lögnum viðkomandi áskrifanda. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um frágang húskassa og lagna í þeim tilgangi að tryggja vernd fjarskipta og skilgreina aðgangsheimild fjarskiptafyrirtækja.

61. gr.
Notendabúnaður og tæki fyrir þráðlaus fjarskipti.

    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með sölu notendabúnaðar fyrir fjarskipti og tækja fyrir þráðlaus fjarskipti. Eftirfarandi grunnkröfur eiga við um öll slík tæki:
     1.      Um verndun heilsu og öryggis notanda jafnt og annarra manna.
     2.      Um að tæki í notkun hafi ekki truflandi áhrif á rafsegulumhverfið.
    Að auki skal þráðlaus búnaður gerður með tilliti til þess að nýta á sem skilvirkastan hátt tíðnisvið sem ætlað er þráðlausum fjarskiptum á jörðu og í geimnum og stöðu sem þeim er úthlutað á baugum umhverfis jörðu án þess að valda skaðlegum truflunum.
    Setja má skilyrði um að ákveðnir flokkar tækja eða einstök tæki séu þannig gerð að þau:
     a.      megi starfrækja með öðrum tækjum með milligöngu neta og að hægt sé að tengja þau við rétta skilpunkta hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins,
     b.      valdi ekki tjóni á netum, starfsemi þeirra eða virkni og orsaki þannig óviðunandi rýrnun þjónustu,
     c.      hafi innbyggðar varnir til verndar persónuupplýsingum og friðhelgi einkalífs áskrifenda og notenda,
     d.      hafi möguleika á útfærslu sem hindrar svik,
     e.      hafi möguleika á útfærslu sem tryggir aðgang að neyðarþjónustu,
     f.      hafi möguleika sem auðvelda fötluðum notkun þeirra.
    Notendabúnaður fyrir stafrænt sjónvarp skal uppfylla kröfur um samvirkni í samræmi við reglur sem Póst- og fjarskiptastofnun setur um:
     a.      sameiginlegt brenglunaralgrími og gjaldfrjálsa viðtöku,
     b.      samvirkni hliðrænna og stafrænna sjónvarpstækja.

62. gr.
Þráðlaus sendibúnaður.

    Sendibúnað fyrir þráðlaus fjarskipti má aðeins hafa undir höndum, setja upp eða nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar. Þó má starfrækja þráðlausan búnað án sérstaks leyfis þegar hann er eingöngu notaður við almenna fjarskiptaþjónustu í tilteknu tíðnisviði. Póst- og fjarskiptastofnun gefur út leyfisbréf fyrir notkun þráðlauss sendibúnaðar og skal leyfisbréfið vera tímabundið. Binda má leyfið skilyrðum, svo sem um sendiafl, staðsetningu, bandbreidd, útbreiðslusvæði og tengingu við almenn fjarskiptanet. Leyfisbréf skulu gefin út á nafn eiganda búnaðarins og eru þau ekki framseljanleg. Leyfishafi sem selur þráðlausan búnað, sem hann hefur fengið leyfisbréf fyrir, eða afhendir hann öðrum varanlega ber ábyrgð á því að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um nýjan eiganda. Póst- og fjarskiptastofnun skal þegar í stað gera ráðstafanir til að stöðva starfrækslu þráðlausra senda, þ.m.t. útvarpssenda, sem ekki er leyfisbréf fyrir og ekki eru undanþegnir leyfisskyldu. Óheimilt er að hindra eftirlitsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar í slíkum aðgerðum, enda hafi þeir framvísað starfsskírteini sínu. Póst- og fjarskiptastofnun getur veitt undanþágur frá ákvæðum um leyfisbréf fyrir ákveðnar tegundir sendibúnaðar. Ekki þarf leyfisbréf fyrir sendibúnað með útgeislun sem er að hámarki 50 milliwött.
    

63. gr.

Fjarskiptabúnaður í farartækjum.


    Íslensk skip, loftför og önnur farartæki skulu búin fjarskiptabúnaði í samræmi við alþjóðasamþykktir og reglugerðir sem samgönguráðherra setur.
    Fjarskiptabúnað í erlendum skipum, flugvélum eða öðrum farartækjum sem eru innan íslenskrar land- eða lofthelgi má aðeins nota í samræmi við íslensk lög og reglugerðir.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur bannað notkun fjarskiptabúnaðar í erlendum farartækjum í íslenskri lögsögu ef notkunin telst andstæð íslenskum reglum.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur Póst- og fjarskiptastofnun heimilað notkun búnaðar sem viðurkenndur er til notkunar á alþjóðavettvangi.

64. gr.
Takmörkun fjarskipta vegna truflana.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur látið innsigla fjarskiptavirki eða hluta þeirra eða bannað notkun þeirra og eftir atvikum fyrirskipað að fá þau afhent til geymslu undir innsigli ef fjarskiptavirkin trufla önnur fjarskipti eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað.

65. gr.
Viðurkenning búnaðar.

    Óheimilt er að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur skv. 61. gr. og ber CE-merkingu því til staðfestingar.
    Framleiðandi eða umboðsmaður hans hér á landi skal tryggja að öllum búnaði sem settur er á markað hér á landi fylgi upplýsingar fyrir notendur á íslensku um tilætlaða notkun, helstu eiginleika búnaðarins og skyldu kaupenda til að sækja um leyfisbréf fyrir þráðlausan búnað.
    Framleiðandi eða umboðsmaður hans sem hyggst setja á markað þráðlausan búnað í tíðnisviðum þar sem notkun hefur ekki verið samræmd á Evrópska efnahagssvæðinu skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um þessa fyrirætlun með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Einnig skal senda stofnuninni upplýsingar um eiginleika búnaðarins, þ.m.t. tíðnisvið hans, bil milli rása, mótunaraðferð og hátíðniafl. Telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á því að búnaðurinn geti truflað aðra þjónustu í viðkomandi tíðnisviði getur stofnunin bannað sölu og notkun hans.

66. gr.
Markaðseftirlit.

    Póst- og fjarskiptastofnun hefur markaðseftirlit með búnaði skv. 61. gr. Í því skyni skal stofnunin hafa ótakmarkaðan aðgang að sölustöðum slíks búnaðar. Ef búnaður sem uppfyllir ekki grunnkröfur samkvæmt lögum þessum er settur á markað getur stofnunin krafist að sala hans og notkun verði þegar í stað stöðvuð og búnaðurinn kyrrsettur.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur gert kröfu um að framleiðandi eða umboðsmaður hans afhendi stofnuninni sundurliðaðar upplýsingar og teikningar um búnað sem ráðgert er að setja á markað. Með slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.
    Samgönguráðherra setur reglugerð um markaðseftirlit með notendabúnaði og þráðlausum búnaði.

XIII. KAFLI
Réttindi til að starfa við fjarskiptavirki.
67. gr.
Kröfur til starfsmanna fyrirtækja.

    Fjarskiptafyrirtæki skulu tryggja að starfsmenn þeirra sem vinna við uppsetningu og viðhald fjarskiptavirkja hafi fengið nauðsynlega þjálfun. Fjarskiptafyrirtæki skulu upplýsa starfsmenn sína um þær skyldur sem á þeim hvíla samkvæmt lögum þessum. Samgönguráðherra getur sett reglugerð um hæfniskröfur til þeirra sem starfa við almenn fjarskiptavirki.

68. gr.
Heimildir til starfrækslu þráðlauss búnaðar.

    Póst- og fjarskiptastofnun gefur út skírteini sem heimila einstaklingum að starfrækja ákveðnar tegundir þráðlauss búnaðar.
    Ekki er gerð krafa um sérstaka þjálfun þeirra sem starfrækja þráðlausan búnað nema í þeim tilfellum að búnaður gegni öryggishlutverki eða þegar sendiafl er umfram 100 wött. Póst- og fjarskiptastofnun gefur út skírteini talstöðvavarðar sem heimilar handhafa að starfrækja fjarskiptabúnað í skipum og flugvélum. Skírteinin veita alþjóðleg réttindi og skulu vera í samræmi við alþjóðasamþykktir. Í skírteininu sem skal vera tímabundið skal kveða á um hvaða búnað handhafa er heimilt að starfrækja. Umsækjandi skírteinis skal leggja fram gögn sem sýna fram á að hann hafi fengið þjálfun í notkun þráðlauss búnaðar í viðurkenndum skóla.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur veitt útlendingum sem hér dvelja í takmarkaðan tíma undanþágu til að starfrækja fjarskiptabúnað, enda hafi þeir til þess réttindi í sínu heimalandi.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur sett nánari reglur um heimildir einstaklinga til að starfrækja fjarskiptabúnað.
    Póst- og fjarskiptastofnun gefur út leyfi til radíóáhugamanna að fengnum umsóknum þeirra og umsögn hagsmunasamtaka áhugamanna. Erlendir ríkisborgarar geta sótt um leyfi til bráðabirgða eða til lengri tíma. Samgönguráðherra setur reglugerð um starfsemi radíóáhugamanna.

XIV. KAFLI
Uppsetning og vernd fjarskiptavirkja.
69. gr.
Aðgangur að landi.

    Nú er fjarskiptafyrirtæki nauðsynlegt að leggja leiðslur fjarskiptavirkja um land annars manns, yfir það eða í jörðu, yfir hús eða önnur mannvirki á landinu, á þeim, gegnum þau eða undir þeim, og er eiganda viðkomandi fasteignar þá skylt að heimila slíkt, enda komi fullar bætur fyrir. Hafa skal samráð við eigendur eða umráðamenn slíkra fasteigna og mannvirkja um hvar leiðslur eru lagðar og skal þess gætt að sem minnst sé raskað hagsmunum eigandans. Starfsmenn við fjarskiptavirki skulu gæta þess að valda eigendum og íbúum ekki meiri óþægindum en brýnustu nauðsyn ber til.
    Nú verður tjón á landi manna, mannvirkjum eða öðrum eignum við lagningu fjarskiptavirkja eða viðhald þeirra, og ekki verður úr bætt, eða lagning fjarskiptavirkja leiðir til takmörkunar á afnotamöguleikum viðkomandi eignar, og skal eigandi fjarskiptavirkis þá bæta tjónið. Náist ekki samkomulag um bótafjárhæð skal um ákvörðun bóta fara að lögum um framkvæmd eignarnáms.

70. gr.
Eignarnám.

    Ef fjarskiptafyrirtæki er nauðsynlegt að tryggja sér land, lóð eða aðra eign í sambandi við lagningu eða rekstur almennra fjarskiptavirkja og samningum um kaup verður ekki við komið má samgönguráðherra heimila, að fenginni umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar, að eign eða hluti hennar sé tekinn eignarnámi gegn endurgjaldi sem meta skal samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Samþykki ráðherra fyrir eignarnámi skal m.a. háð því að eignarnemi setji tryggingu fyrir greiðslu áætlaðra eignarnámsbóta og kostnaðar við matið. Nú fást eignarnámsbætur ekki greiddar hjá eignarnema og skal ríkissjóður þá ábyrgjast greiðslu þeirra.

71. gr.
Vernd fjarskiptavirkja.

    Þar sem fjarskiptavirki eru má ekki reisa mannvirki, setja upp tæki, leggja pípur, raflagnir, leiðslur og því um líkt, gera jarðrask eða aðrar ráðstafanir er af geta hlotist skemmdir á fjarskiptavirkjum eða truflanir á rekstri þeirra nema áður hafi verið aflað upplýsinga um legu þeirra og samráð verið haft við eiganda fjarskiptavirkisins um tilhögun framkvæmdanna.
    Nú reynist nauðsynlegt vegna verklegra framkvæmda að flytja til eða breyta legu fjarskiptavirkja, og ber þá sá sem slíka framkvæmd annast allan kostnað sem af því kann að leiða, beinan og óbeinan, nema annað hafi orðið að samkomulagi.
    Ef jarðrask eða aðrar framkvæmdir hafa leitt til skemmda á fjarskiptavirkjum eða truflana á rekstri þeirra skal sá sem þeim hefur valdið þegar í stað tilkynna það til eiganda fjarskiptavirkisins. Er tjónvaldi jafnframt skylt að bæta allt tjón sem af skemmdunum leiðir, bæði beint og óbeint, þar á meðal viðskiptatap, nema hann sýni fram á að ekki hafi verið komist hjá tjóni þó að fyllstu aðgæslu hafi verið gætt.
    Nú liggur fyrir að tæki, raflagnir, pípur, leiðslur eða því um líkt valda truflun á rekstri fjarskiptavirkis og er fjarskiptafyrirtæki þá heimilt að krefjast úrbóta frá eiganda án tafar, en ella er fjarskiptafyrirtæki heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir truflun þá sem af þessu hlýst. Nú má truflun að þessu leyti rekja til gáleysis eiganda viðkomandi búnaðar, og ber eiganda þá að greiða allan kostnað sem af úrbótum leiðir.
    Þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó skulu sjófarendur sýna aðgæslu og gæta varúðar. Nú verður tjón á fjarskiptastreng, sem valdið er af ásetningi eða gáleysi, og skal þá sá sem tjóni hefur valdið bæta beint og óbeint fjártjón sem af því hlýst nema hann sýni fram á að hann hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til þess að komast hjá tjóni.
    Þegar skip er innan eða utan landhelgi við lagningu eða viðgerð fjarskiptastrengja og ber til sýnis alþjóðamerki eða önnur merki er gefa það til kynna skulu önnur skip sem sjá eða eiga að geta séð þessi merki halda sig eigi skemmra en mílufjórðung frá sæsímaskipinu. Net og önnur veiðarfæri skal hafa í sömu fjarlægð. Fiskiskip skulu þó hafa tólf stunda frest til þess að fjarlægja veiðarfæri sem liggja í sjó.
    Nú hefur dufl verið lagt út vegna lagningar eða viðgerðar á sæstreng og skulu skip þá halda sig og veiðarfærum sínum eigi skemmra en mílufjórðung frá duflinu.
    Ef skip hefur orðið að sleppa akkeri eða leggja net eða önnur veiðarfæri í sölurnar til þess að komast hjá því að skemma sæstrengi á það kröfu um skaðabætur frá eiganda strengjanna, enda hafi stjórnendur skipsins ekki stofnað til hættunnar af gáleysi.
    Ef unnt er skulu skipverjar þegar færa til bókar skýrslu um tjónið sem staðfest skal af stjórnanda skipsins. Að auki skal eiganda sæstrengsins eða forsvarsmanni eiganda tilkynnt um atburðinn eins fljótt og kostur er.

XV. KAFLI
Fjarskipti á hættutímum.
72. gr.
Stöðvun fjarskipta.

    Á ófriðartímum getur samgönguráðherra samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar mælt fyrir um stöðvun fjarskipta sem teljast hættuleg öryggi ríkisins.
    Í neyðartilvikum, svo sem við eldgos, jarðskjálfta, snjóflóð o.s.frv., getur samgönguráðherra að beiðni almannavarnaráðs mælt fyrir um takmörkun fjarskipta sem truflað geta neyðar- og öryggisfjarskipti. Á sama hátt skal heimilt að mæla fyrir um að tiltekin fjarskiptavirki skuli notuð í þágu björgunaraðgerða og að sett skuli upp ný fjarskiptavirki. Komi endurgjald til greina greiðist það úr ríkissjóði samkvæmt mati Póst- og fjarskiptastofnunar.

XVI. KAFLI
Viðurlög o.fl.
73. gr.
Heimild til rekstrarstöðvunar.

    Fjarskiptafyrirtæki sem reka fjarskiptanet eða þjónustu samkvæmt almennri heimild eða hafa réttindi til að nota tíðnir og númer skulu að beiðni Póst- og fjarskiptastofnunar veita stofnuninni upplýsingar samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun sem nauðsynlegar eru til þess að ganga úr skugga um að farið sé eftir skilyrðum almennra heimilda eða sérstakra kvaða, sbr. 5. mgr. 6. gr.
    Komist Póst- og fjarskiptastofnun að þeirri niðurstöðu að fjarskiptafyrirtæki fari ekki að skilmálum almennra heimilda, skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum skal stofnunin tilkynna fjarskiptafyrirtækinu um þessa niðurstöðu og gefa fyrirtækinu tækifæri að koma skoðun sinni á framfæri eða lagfæra brot sitt innan eins mánaðar frá dagsetningu tilkynningar, skemmri tíma sem fyrirtækið samþykkir eða Póst- og fjarskiptastofnun kveður á um þegar um endurtekið brot er að ræða eða lengri tíma sem Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir.
    Láti fjarskiptafyrirtæki ekki af broti sínu innan settra tímamarka skal Póst- og fjarskiptastofnun grípa til viðeigandi ráðstafana. Stofnuninni er í þessu sambandi heimilt að beita dagsektum, sbr. 74. gr. Tilkynna skal fjarskiptafyrirtæki um ákvörðun stofnunarinnar ásamt rökstuðningi við hana og skal veita því hæfilegan frest til þess að verða við ákvörðun.
    Til viðbótar heimildum 2. og 3. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að beita fjarskiptafyrirtæki dagsektum fyrir að veita ekki upplýsingar sem þeim er skylt að afhenda innan hæfilegs tíma sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður.
    Við alvarleg og endurtekin brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum þegar ráðstafanir til að tryggja að farið verði að lögum hafa mistekist getur Póst- og fjarskiptastofnun stöðvað netrekstur eða þjónustu fjarskiptafyrirtækis eða afturkallað réttindi tímabundið eða varanlega.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur, ef sannanir liggja fyrir um brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum sem leiðir til yfirvofandi hættu fyrir öryggi og heilsu almennings eða getur skapað alvarleg fjárhagsleg eða rekstrarleg vandamál fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki eða notendur fjarskiptaneta eða þjónustu, tekið bráðabirgðaákvarðanir til að bæta úr ástandinu áður en endanleg ákvörðun er tekin. Fjarskiptafyrirtækinu sem í hlut á skal að lokinni bráðabirgðaákvörðun veitt tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og leggja til úrbætur. Þegar við á getur Póst- og fjarskiptastofnun staðfest bráðabirgðaákvörðun sína.

74. gr.
Viðurlög.

    Brot á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum, en fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð.
    Gáleysisbrot skulu eingöngu varða sektum.
    Brot gegn IX. kafla laganna um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs varða refsingu svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. Sé slíkt brot framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum.
    Fjarskiptabúnað sem hefur verið starfræktur í heimildarleysi má gera upptækan, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum.
    Þegar fjarskiptafyrirtæki fer ekki að ákvæðum laga, skilyrðum almennrar heimildar, skilyrðum sérstakra réttinda eða einstökum ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar getur stofnunin ákveðið í samræmi við ákvæði 73. gr. að fella niður skráningu fyrirtækisins, afturkalla réttindi, bæta við skilyrðum eða beita dagsektum sem nemi 50.000–500.000 kr. á dag til að tryggja að eftir fyrirmælum stofnunarinnar sé farið.

XVII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
75. gr.
Almenn reglugerðarheimild.

    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd fjarskiptamála.

76. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 25. júlí 2003. Ákvæði 22. gr. tekur gildi 1. janúar 2004 og kemur fyrst til framkvæmda á árinu 2005 vegna bókfærðrar veltu á árinu 2004. Jafnframt falla úr gildi lög um fjarskipti, nr. 107/1999, utan þess að ákvæði 15. gr. þeirra laga heldur gildi til 1. janúar 2004.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Breyta skal fjarskiptaleyfum og almennum heimildum sem í gildi eru við setningu laga þessara eigi síðar en 25. júlí 2003 til samræmis við lög þessi. Eftir það skulu reglur um almennar heimildir gilda fyrir öll fjarskiptafyrirtæki ásamt skilyrðum sem sett verða um sérstök réttindi til notkunar á tíðnum og númerum þar sem við á.
    Þegar framkvæmd 1. mgr. hefur í för með sér minni réttindi eða auknar kvaðir samanborið við gildandi heimildir getur Póst- og fjarskiptastofnun framlengt gildistíma réttindanna og kvaðanna í allt að níu mánuði frá 25. júlí 2003 með fyrirvara um að réttindi annarra fjarskiptafyrirtækja skerðist ekki við það. Póst- og fjarskiptastofnun skal tilkynna um slíka frestun til Eftirlitsstofnunar EFTA.

II.

    Öllum kvöðum sem í gildi eru á fjarskiptafyrirtæki, sem bjóða almenn fjarskiptanet eða þjónustu, varðandi aðgang og samtengingu skal viðhaldið þangað til endurskoðun kvaðanna hefur farið fram að lokinni markaðsgreiningu. Kvaðir sem þetta á við um eru um réttindi og skyldur til að semja um samtengingu neta og þjónustu, um að bjóða fyrirtækjum samtengingu án mismununar og um upplýsingagjöf í því sambandi, stofn samtengingargjalda og kostnaðarbókhald, aðgreiningu kostnaðar í bókhaldi og fjárhagsskýrslur, samhýsingu og samnýtingu aðstöðu, númeramál, birtingu upplýsinga og aðgang að þeim, sérstakan netaðgang sem er annar en boðinn er í venjulegum nettengipunktum, lágmarksframboð leigulína og eftirlit með leigulínuseljanda. Enn fremur skulu kvaðir er varða smásöluverð fyrir aðgang og notkun á almennu talsímaneti, forval og fast forval halda gildi sínu þar til Póst- og fjarskiptastofnun hefur lokið markaðsgreiningu og tekið ákvörðun um álagningu, niðurfellingu eða áframhaldandi gildi slíkra kvaða.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Miklar breytingar hafa orðið í fjarskiptum í heiminum á undanförnum árum. Tímamót urðu hér á landi er lögbundinn einkaréttur ríkisins til þess að reka almenna talsímaþjónustu og eiga og reka almennt fjarskiptanet var afnuminn 1. janúar 1998 með lögum nr. 143/1996. Samhliða þeim lögum voru sett lög nr. 147/1996, um Póst- og fjarskiptastofnun, sem var ætlað almennt stjórnsýsluhlutverk á sviði póst- og fjarskiptamála.
    Gildandi fjarskiptalög, nr. 107/1999, tóku gildi hinn 1. janúar 2000 ásamt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 110/1999. Með þeirri löggjöf voru gerðar grundvallarbreytingar sem stuðla áttu að aukinni samkeppni í fjarskiptum auk þess sem tryggja átti aðgang allra landsmanna að ákveðinni lágmarksþjónustu, svokallaðri alþjónustu. Opnað var fyrir númeraflutning og notendum gert mögulegt að halda símanúmeri sínu ef þeir vilja skipta um fyrirtæki sem verslað er við, ákvæði um reikisamninga þegar uppbygging eigin nets er talin óraunhæf var innleitt, fjarskiptafyrirtækjum var heimilaður aðgangur að heimtaug fyrirtækis með umtalsverða markaðshlutdeild, stigið var skref í að afnema aðgangshindranir nýrra fjarskiptafyrirtækja inn á markaðinn með því að afnema rekstrarleyfi fyrir ákveðnar tegundir af fjarskiptaþjónustu auk þess sem mælt var fyrir um opinn aðgang að fjarskiptanetum og skyldu til samtengingar fjarskiptaneta. Þrátt fyrir að stutt sé síðan gildandi fjarskiptalög voru lögfest leiða skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum til þess að nauðsynlegt er að endurskoða fjarskiptalöggjöfina.
    Fjarskipta- og upplýsingamál skipta Íslendinga höfuðmáli. Markmiðið er að Ísland verði í fremstu röð tæknivæddra ríkja með ódýra og góða fjarskiptaþjónustu. Alþingi og stjórnvöld bera ábyrgð á því að tryggja réttlátar leikreglur í fjarskiptamálum, leikreglur sem stuðlað geta að aukinni velferð og hagsæld í þjóðfélaginu. Leikreglur fjarskiptanna eru um margt frábrugðnar leikreglum annarrar atvinnustarfsemi, m.a. vegna þeirrar sérstöðu fjarskipta í Evrópu að þau hafa fyrst fyrir fáum árum verið leyst undan vernd einkaréttar og því hefur ekki verið talið tímabært að fella ákveðna þætti fjarskiptaþjónustu, svo sem samtengingu, kostnaðargreiningu fjarskiptafyrirtækja, reglur um opinn aðgang að netum og alþjónustu undir samkeppnislöggjöf. Fleiri dæmi mætti telja, svo sem umsjón með tíðnimálum og úthlutun númera.
    Póst- og fjarskiptastofnun er eftirlitsaðili sem hefur það hlutverk að móta samkeppnismarkað á markaði þar sem ríkisreknar símastjórnir hafa um áratuga skeið átt og rekið eina fullkomna fjarskiptanetið sem til var þar til einkaréttur var afnuminn með lögum. Breytt lagaumhverfi og starfsemi faglegs eftirlitsaðila hefur gert nýjum fyrirtækjum kleift að hefja starfsemi á markaðinum. Langtímamarkmið er að á fjarskiptamarkaðinum gildi almennar leikreglur og að ekki þurfi sértækar aðgerðir og stofnanir til eftirlits með markaðinum.

II. Þróun fjarskiptamála.


    Nokkuð hefur hægt á þeirri hröðu þróun sem varð í fjarskiptum á síðasta áratug. Þegar opnað var fyrir frelsi í fjarskiptum hinn 1. janúar 1998 jókst fjöldi fjarskiptafyrirtækja umtalsvert og neytendum bauðst aukið úrval þjónustu á lægra verði, einkum á útlandasímtölum. Þegar Póst- og fjarskiptastofnun auglýsti eftir umsóknum um leyfi til að reka GSM-farsímaþjónustu í 1800 MHz tíðnisviðinu í byrjun árs 2000 reyndist mikill áhugi og var öllum fjórum umsækjendum úthlutað tíðnisviði og rekstrarleyfum. Þessi gróska ásamt fjölda farsímanotenda hérlendis vakti athygli erlendis. Farsímanotkun jókst víða mjög mikið og fjarskiptafyrirtæki fjárfestu í farsímakerfum og búnaði. Þar að auki var talið að notkun farsíma ætti enn eftir að aukast með tilkomu þriðju kynslóðar farsíma sem bjóða upp á aukinn gagnaflutningshraða og ýmsa nýja notkunarmöguleika sem ekki væru mögulegir með GSM-tækni. Á árunum 2000 og 2001 voru í Evrópu og víðar haldin útboð á tíðnum fyrir þriðju kynslóðar farsíma. Mikil bjartsýni ríkti og greiddu fjarskiptafyrirtæki í mörgum tilvikum verulegar fjárhæðir fyrir tíðniúthlutunina. En í kjölfarið komu erfiðleikar í ljós, mörg fjarskiptafyrirtæki höfðu skuldsett sig um of og tæknileg þróun þriðju kynslóðar farsímatækja og kerfa hefur ekki gengið eins og væntingar stóðu til. Fjárfestar hafa í kjölfar þessa haldið nokkuð að sér höndum við fjárfestingar í fjarskiptastarfsemi og lánastofnanir verið varfærnari.
    Hin neikvæða þróun hefur sett mark sitt á íslensk fjarskiptafyrirtæki sem sum hver hafa orðið að draga saman seglin. Þannig hafa tvö þeirra fyrirtækja sem á árinu 2000 fengu leyfi til að reka GSM-farsímaþjónustu í 1800 MHz tíðnisviðinu ekki hafið slíka starfsemi og önnur fyrirtæki dregið úr fjárfestingum sínum í fjarskiptaþjónustu. Viðhorf til fjarskipta og ávinnings fjárfestinga í þeirri atvinnugrein er orðið raunsærra en áður. Ein afleiðing þessa er fækkun fjarskiptafyrirtækja. Ber þar hæst að nokkrir helstu keppinautar Landssíma Íslands hf., þ.e. Íslandssími hf., Halló – frjáls fjarskipti hf. og Tal hf., hafa sameinast og eru því aðeins tvö fjarskiptafyrirtæki hér á landi sem bjóða alhliða fjarskiptaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja en fjöldi fjarskiptafyrirtækja býður sérhæfðari þjónustu. Því er nauðsynlegt að regluverk fjarskipta sé þannig úr garði gert að möguleikar séu fyrir nýja aðila að koma inn á fjarskiptamarkaðinn og keppa við þá sem fyrir eru.
    Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika frá lögfestingu gildandi laga hefur ýmislegt áunnist og aukinnar bjartsýni er farið að gæta. Mikill vöxtur hefur orðið í háhraða internetnotkun. Reglur sem skylda fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á talsímamarkaði til að leigja fjarskiptafyrirtækjum heimtaugar hafa komið af stað framboði á bandbreiðum tengingum fyrir fyrirtæki og heimili sem byggjast á DSL (Digital Subscriber Line) tækni. Með notkun DSL er hægt að hraða internet-samskiptum og notendur geta betur nýtt sér nýja þjónustu á netinu, svo sem hljóm- og myndflutning. Þá gera reglur um númeraflutning og fast forval notendum auðveldara fyrir að skipta um þjónustuveitanda. Frumkvæði löggjafans á þessu sviði hefur haft í för með sér breytta markaðsstöðu þar sem ný fjarskiptafyrirtæki eiga aukna möguleika á að láta að sér kveða í samkeppninni. Auk þess eru vonir bundnar við stafrænt gagnvirkt sjónvarp og innleiðingu þriðju kynslóðar farsíma.

III. Hin nýja fjarskiptalöggjöf ESB.


    Hin nýja fjarskiptalöggjöf ESB sem er innleidd með þessu frumvarpi er sett fram sem pakki með nokkrum tilskipunum og ákvörðun sem eiga að taka við af flestum fyrri tilskipunum um fjarskipti. Markmiðið var að draga úr flóknu regluverki fjarskipta og færa það jafnframt í átt til samkeppnisréttar. Samtímis er ætlunin að fækka gerðum með því að sameina efni þeirra. Gerðirnar sem um ræðir eru eftirfarandi:
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/19/EB frá 7. mars 2002 um aðgang að, og samtengingu við, fjarskiptanet og aðstöðu sem þeim tengist (Aðgangs- og samtengingartilskipun).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/20/EB frá 7. mars 2002 um veitingu heimilda fyrir fjarskiptanet og þjónustu (Heimildatilskipun).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/21/EB frá 7. mars 2002 um sameiginlegan ramma stjórnsýslu um fjarskiptanet og þjónustu (Rammatilskipun).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/22/EB frá 7. mars 2002 um alþjónustu og réttindi notenda í sambandi við fjarskiptanet og þjónustu (Alþjónustutilskipun).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/58/EB frá 12. júlí 2002 um vinnslu persónuupplýsinga og verndun einkalífs í fjarskiptum (Persónuverndartilskipun).
    Ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 676/2002 frá 7. mars 2002 um afmörkun stjórnsýslu í stefnuramma tíðnirófsmála í Evrópusambandinu (Ákvörðun um tíðnimál).
    Tilskipanirnar fimm falla undir 95. gr. Rómarsáttmálans en að auki hefur framkvæmdastjórn ESB með tilvísun til 86. gr. sáttmálans gefið út tilskipun, 2002/77/EB frá 16. september 2002, um samkeppni á mörkuðum fjarskiptaneta og þjónustu. Þessar gerðir verða hluti af EES-samningnum.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1999/5/EB frá 9. mars 1999 um búnað fyrir þráðlaus fjarskipti og fjarskiptanotendabúnað og gagnkvæma viðurkenningu þeirra mun gilda áfram. Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2887/2000/EB um aðgang að heimtauginni verða einnig áfram í gildi en á að endurskoðast sem fyrst með hliðsjón af markaðsaðstæðum.
    Eins og nafnið gefur til kynna er rammatilskipuninni ætlað að móta sameiginlegan ramma utan um fjarskiptalöggjöfina. Með henni er markmiðið að koma á samræmdri stjórnsýslu á sviði fjarskipta á öllu EES-svæðinu og lagðar eru línur um framkvæmd annarra gerða. Jafnframt eru settar fram meginreglur sem eftirlitsstofnanir ríkjanna eiga að fara eftir og meginreglur sem gilda á fjarskiptamarkaðinum eins og um skilgreiningu á umtalsverðri markaðshlutdeild.
     Rammatilskipunin gerir ráð fyrir að það verði áfram hlutverk eftirlitsstofnana að framfylgja hinni nýju löggjöf og er þeim veitt aukið frjálsræði til þess að velja þær aðgerðir sem best henta hverju sinni. Á móti verður eftirlitsstofnunum gert að skyldu að hafa meira samráð sín á milli og við framkvæmdastjórn ESB og Eftirlitsstofnun EFTA við lausn deilumála og til að ná markmiðum um einsleitni á innri markaðinum.
    Með heimildatilskipuninni er fellt úr gildi núverandi leyfisveitingakerfi. Fyrirtæki sem veita talsímaþjónustu, farsímaþjónustu og starfrækja fjarskiptanet þurfa ekki lengur sérstakt rekstrarleyfi. Tilskipunin gildir einnig um útvarpsnet og úthlutun tíðna og rása fyrir útvarp sem er nýmæli. Samræma á reglur í ríkjum ESB og EFTA sem gilda um heimildir fyrir hvers konar almenn fjarskiptanet og þjónustu og eiga almennar heimildir að nægja óháð því um hvaða tegund neta og þjónustu er að ræða en óheimilt verður að gera kröfu til þess að fyrirtæki sæki um rekstrarleyfi. Hverju ríki verður heimilt að setja skilyrði fyrir almennum heimildum sem og skilyrði fyrir notkun fjarskiptafyrirtækja á tíðnum og númerum. Þegar nauðsynlegt er að takmarka fjölda réttinda sem fjarskiptafyrirtækjum eru veitt fyrir notkun tíðna ber að velja úr hópi umsækjenda eftir hlutlægum reglum.
     Alþjónustutilskipunin staðfestir gildandi ákvæði alþjónustutilskipunar nr. 98/10/EB um rétt almennings til lágmarksfjarskiptaþjónustu auk nýmæla sem lúta að hag notenda og réttindum þeirra. Í tilskipuninni er jafnframt nýmæli sem veitir heimild til að setja reglur sem skylda aðila sem reka fjarskiptanet til þess að flytja ákveðna útvarpsdagskrá, eina eða fleiri samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Slíka skyldu má aðeins leggja á þegar sérstakar ástæður eiga við, t.d. markmið um dreifingu til allra landsmanna.
     Aðgangs- og samtengingartilskipunin fjallar heildsöluviðskipti, þ.e. samband milli þeirra sem selja net og þjónustu. Almenna reglan sem sett er fram í tilskipuninni er að fjarskiptafyrirtækjum ber að semja sín á milli um aðgang en ef samkeppni er ekki virk á ákveðnum markaði hafa eftirlitsstofnanir úrræði sem hægt er að grípa til gagnvart fyrirtækjum sem eru með umtalsverða markaðshlutdeild. Framkvæmdastjórn ESB er falið að birta lista yfir mismunandi fjarskiptamarkaði. Eftirlitsstofnanir geta nýtt sér heimildir þessarar tilskipunar til þess að skylda fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild til að verða við sanngjörnum beiðnum annarra fjarskiptafyrirtækja um aðgang að og notkun ýmissa nethluta og tengdrar aðstöðu, t.d. ef talið er að höfnun á aðgangi eða ósanngjarnir skilmálar eða skilyrði gætu komið í veg fyrir að samkeppni myndaðist til frambúðar í smásölu eða að hagsmunum notenda væri ekki þjónað. Ný ákvæði er að finna í tilskipuninni um aðgang að skilyrtum aðgangskerfum fyrir stafrænt útvarp og er þar að hluta til um að ræða ákvæði sem áður var að finna í tilskipun 95/47/EB um notkun staðla í sjónvarpi. Ákvæði um skilyrt aðgangskerfi eiga að tryggja að þeir sem reka slík kerfi veiti öðrum útvarpsstöðvum þjónustu með sanngjörnum skilmálum og hvílir þessi skylda á öllum þjónustuaðilum. Einnig er í tilskipuninni tekið á ákveðnum atriðum sem tengjast gagnvirku sjónvarpi.
    Markmiðið með persónuverndartilskipuninni er að samræma lög í aðildarríkjum EES til að tryggja sömu vernd alls staðar á grunnréttindum og frelsi, einkum rétt til friðhelgi einkalífsins, að því varðar vinnslu persónuupplýsinga í fjarskiptafyrirtækjum og til að tryggja frjálst flæði slíkra upplýsinga og flutning búnaðar og þjónustu um öll aðildarríkin. Meðal þess sem tekið er fyrir í tilskipuninni er öryggi fjarskiptaþjónustu, leynd fjarskipta, meðferð upplýsinga um leiðaval í fjarskiptakerfinu, sundurliðun reikninga, númerabirting, upplýsingar um staðsetningu notenda, símaskrár og óumbeðnar fjarskiptasendingar.
     Ákvörðun um tíðnimál er ætlað að tryggja samræmingu stefnumótunar og þar sem við á samræmd skilyrði um aðgang að tíðnirófinu og skilvirka notkun þess.

IV. Markmið laganna og helstu breytingar á gildandi lögum.


    Frá því að lögbundinn einkaréttur ríkisins til fjarskiptastarfsemi var afnuminn hafa höfuðmarkmið fjarskiptalaga einkum verið tvenns konar, annars vegar að efla virka samkeppni og hins vegar að tryggja að allir landsmenn eigi kost á ákveðinni lágmarksfjarskiptaþjónustu. Sérstök fjarskiptalöggjöf er talin nauðsynleg til að þeim markmiðum verði náð. Til að stuðla að því að fjarskiptamarkaðurinn þróist í átt til almenns samkeppnismarkaðar og tryggja fjarskiptaþjónustu fyrir alla landsmenn eru eftirfarandi breytingar m.a. lagðar til á gildandi lögum:
     1.      Ekki er lengur krafist rekstrarleyfis til að stunda fjarskiptastarfsemi en í staðinn munu fjarskiptafyrirtæki starfa eftir almennum heimildum.
     2.      Við mat á því hvort fyrirtæki hafi umtalsverða markaðshlutdeild er beitt reglum samkeppnisréttarins um mat á markaðsráðandi stöðu í stað þess að miða við 25% markaðshlutdeild eins og gert er í núgildandi lögum.
     3.      Staðfestur er formlegur samruni fjarskipta og útvarps sem leiðir til þess að reglur um dreifingu útvarps er að finna í frumvarpinu.
     4.      Heimild er veitt til þess að gera dreifingu ákveðinna útvarpsdagskráa að skyldu.
     5.      Ítarlegri ákvæði en áður eru um vernd notenda fjarskiptaþjónustu.
     6.      Tryggður er réttur notenda til lágmarksþjónustu í talsíma- og gagnaflutningi í alþjónustu auk þess sem stefnt er að því að bæta fyrirkomulag jöfnunarsjóðs sem annast greiðslur fyrir alþjónustu sem ekki stendur undir sér.
     7.      Skilmálar um aðgang að netum og þjónustu eru endurskoðaðir.
     8.      Settar eru markvissari reglur um samnýtingu á aðstöðu.

Athugasemdir við einstakar greinar og kafla frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Fyrsti kafli er almenns eðlis og skilgreinir markmið laganna, gildissvið þeirra og hvernig stjórn fjarskiptamála skuli vera háttað. Markmið laganna um að tryggja hagkvæma og örugga fjarskiptaþjónustu á Íslandi og efla virka samkeppni eru óbreytt frá gildandi lögum.

Um 1. gr.


    Í fyrstu grein er mörkuð almenn stefna laganna og hvert er gildissvið þeirra. Tekið er fram að lögin gildi ekki um efni sem sent er á fjarskiptanetum en greinin er að öðru leyti nær óbreytt frá gildandi lögum.

Um 2. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um II. kafla.


    Annar kafli frumvarpsins fjallar um orðskýringar. Það er brýnt að orðskýringar séu í samræmi við hina nýju fjarskiptalöggjöf ESB til að ná markmiðum EES-samningsins um einsleitni.

Um 3. gr.


    Talsverðar breytingar eru gerðar á greininni frá gildandi lögum. Innihald hinna nýju tilskipana ESB gefur tilefni til ýmissa breytinga og auk þess er um að ræða nokkur ný hugtök. Sum þeirra tengjast útvarpsþjónustu, einkum stafrænu sjónvarpi, en eins og komið hefur fram hér að framan er ekki lengur gerður greinarmunur á fjarskiptanetum og þjónustu eftir því hvort um er að ræða útvarpsþjónustu eða aðra fjarskiptaþjónustu.

Um III. kafla.


    Sú grundvallarbreyting er gerð á reglum um heimildir til fjarskiptastarfsemi að ekki er lengur krafist rekstrarleyfis til afmarkaðra þátta fjarskiptastarfsemi heldur er öllum fjarskiptafyrirtækjum heimilt að hefja starfsemi að undangenginni tilkynningu til Póst- og fjarskiptastofnunar. Samkvæmt gildandi lögum eiga fjarskiptafyrirtæki sem óska eftir númerum eða tíðnum fyrir starfsemi sína eða krefjast t.d. aðgangs að almenningum, afréttum og eignarlöndum fyrir fjarskiptavirki sín að sækja um rekstrarleyfi áður en þau hefja starfsemi. Það sama gildir um fyrirtæki sem leggja þarf á alþjónustukvaðir og fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild sem leggja þarf á skyldur til eflingar samkeppni. Önnur fjarskiptafyrirtæki geta skráð sig og starfað eftir almennum heimildum.
    Samkvæmt frumvarpinu verða rekstrarleyfi ekki gefin út en öllum fyrirtækjum mun nægja að skrá sig hjá Póst- og fjarskiptastofnun og starfa eftir almennri heimild. Almennum heimildum fylgja ákveðin lágmarksréttindi og skilyrði sem Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja. Þær breytingar sem hér eru nefndar þjóna þeim tilgangi að einfalda tilkomu nýrra fyrirtækja á fjarskiptamarkaði og einfalda stjórnsýslu á þessu sviði.
    Ákvæði þessa kafla eru samin með hliðsjón af heimildatilskipuninni.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að einstaklingar og fyrirtæki með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins hafi almenna heimild til reksturs fjarskiptaneta og þjónustu. Ákvæðið getur einnig átt við fjarskiptafyrirtæki í öðrum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptaskrifstofunnar samkvæmt nánari ákvörðun samgönguráðherra. Almenn heimild til fjarskiptastarfsemi verður lögbundin og ekki háð sérstakri ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Ákvæðið er efnislega samsvarandi 1. mgr. 5. gr., sbr. síðari málslið 1. mgr. 4. gr. gildandi laga, en verður nú undantekningarlaus regla.
    Áður en fyrirtæki hefur fjarskiptastarfsemi skal það tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um áform sín og veita upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegar til þess að geta skráð fyrirtækið og veitt því tilskilið eftirlit. Tilkynningarskylda er í gildandi lögum, en þar er kveðið á um að tilkynnt sé með fjögurra vikna fyrirvara. Samkvæmt ákvæðinu geta fyrirtæki hafið starfsemi um leið og tilkynning hefur borist Póst- og fjarskiptastofnun.
    Samkvæmt 3. mgr. mun Póst- og fjarskiptastofnun hér eftir sem hingað til halda skrá yfir fjarskiptafyrirtæki. Fjarskiptafyrirtæki sem skrá sig hjá Póst- og fjarskiptastofnun geta óskað eftir að fá skriflega staðfestingu á skráningu. Staðfest skráning getur m.a. verið fyrirtækjum til hægðarauka er þau sækjast eftir viðræðum við önnur fjarskiptafyrirtæki um aðgang að aðstöðu.
    Ákvæði 4. gr. eru byggð á 3. gr. heimildatilskipunarinnar.

Um 5. gr.


    Lágmarksréttindi sem fylgja almennri heimild eru talin upp í þessari grein sem byggð er á 4. gr. heimildatilskipunarinnar. Í 1. mgr. segir að fyrirtæki sem njóta almennrar heimildar eigi rétt til að bjóða fram fjarskiptanet og þjónustu. Sömuleiðis fylgir almennri heimild réttur til þess að fá aðgang að landi til þess að setja upp fjarskiptavirki sem nauðsynleg eru til þess að geta boðið fram net og þjónustu, sbr. 69. gr.
    Í 2. mgr. er ákvæði um að almenn heimild veiti rétt til þess að semja um samtengingu og þegar við á rétt til þess að fá aðgang að eða samtengingu við önnur net eða þjónustu. Þetta er lykilatriði laganna vegna þess að það tryggir ekki eingöngu rétt nýrra fyrirtækja heldur einnig möguleika notenda á að ná sambandi sín á milli. Þessi réttur er þó háður því að um sé að ræða fyrirtæki sem veitir fjarskiptaþjónustu sem stendur almenningi til boða og því geta fyrirtæki sem eingöngu starfrækja fjarskiptanet til eigin nota ekki byggt rétt á ákvæðinu.
    Samkvæmt 3. mgr. geta fjarskiptafyrirtæki sem skráð hafa starfsemi samkvæmt almennri heimild komið til greina sem alþjónustuveitandi þegar Póst- og fjarskiptastofnun útnefnir einn eða fleiri slíka aðila til þess að tryggja landsmönnum lágmarksfjarskiptaþjónustu, sbr. ákvæði VI. kafla.

Um 6. gr.


    Ákvæði 6. gr. eru byggð á 6. gr. og viðauka heimildatilskipunarinnar. Póst- og fjarskiptastofnun er falið að setja reglur um almennar heimildir og setja skilyrði þar að lútandi. Í 1. mgr. eru talin atriði sem skilyrðin mega lúta að. Póst- og fjarskiptastofnun ákveður hver þessara skilyrða skuli setja og kveður nánar á um innihald þeirra í reglunum. Ekki er þörf á að útskýra hvern staflið, en þó er rétt að taka fram að b-liður undirstrikar nauðsyn þess að net og þjónusta fjarskiptafyrirtækja séu aðgengileg öðrum fjarskiptafyrirtækjum og notendum og að net verði samtengd til þess að allir notendur megi án hindrana nálgast þjónustu sem veitt er og geti haft samband hver við annan. Skv. e-lið má setja skilyrði um að dagskrá útvarps sé flutt um ákveðin net til notenda. Þetta er nýmæli og er nánar fjallað um skilyrðið í 55. gr. Skilyrði sem vísað er til í p-lið eiga við um tíðnisvið sem öllum er heimilt að nota án úthlutunar og eru t.d. notuð fyrir ákveðin staðbundin þráðlaus notendanet.
    Í 3. mgr. er fjallað um skilyrði sem setja má til að tryggja rekstraröryggi neta, að samtenging neta raski ekki eðlilegri starfsemi þeirra og að þjónusta sem veitt er á netum samræmist annarri þjónustu. Sérstakt ákvæði er um öryggi fjarskiptaleiða við umheiminn og veitir það Póst- og fjarskiptastofnun heimild til að leggja kvaðir á fyrirtæki sem reka sambönd til útlanda að þau noti til þess fleiri en eina leið og flytji talsíma- og gagnaflutningsþjónustu af bilaðri leið á aðra nothæfa innan ákveðinna tímamarka. Ákvæði þetta er sett með hliðsjón af afdrifaríkum afleiðingum þess að samband landsins við umheiminn rofni um lengri tíma en taki að flytja þjónustu yfir á aðra leið með eðlilegum hætti. Það er því nauðsynlegt til að tryggja heildstæði netsins. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt en ekki skylt að beita þessu ákvæði og ef sýnt þykir að öryggi fjarskiptatenginga við umheiminn er komið í viðunandi ástand og ástæða er til að ætla að samkeppni veiti fjarskiptafyrirtækjum nægilegt aðhald til þess að svo verði til frambúðar getur verið að ekki sé þörf á að leggja á sérstakar kvaðir í þessu sambandi.
    Ákvæði 4. mgr. á sér hliðstæðu í l-lið 8. gr. gildandi laga, sbr. lög nr. 72/2001. Skilyrðið mun framvegis koma fram í reglum um almennar heimildir, en ekki í rekstrarleyfi eins og verið hefur.
    Í 5. mgr. segir að Póst- og fjarskiptastofnun geti lagt sérstakar kvaðir á fjarskiptafyrirtæki í samræmi við ákvæði um aðgang, samtengingu og alþjónustu. Þær skulu vera skýrt aðgreindar frá skilyrðum 1. mgr. enda annars eðlis og lagðar á með stjórnvaldsákvörðun en ekki í almennum reglum.

Um IV. kafla.


    Fjarskiptafyrirtæki sem nota tíðnir og númer vegna starfsemi sinnar geta sótt um réttindi til slíkrar notkunar. Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar réttindum til einstakra fyrirtækja og setur skilyrði fyrir slíkri notkun. Í IV. kafla er að finna ákvæði um númera- og tíðniskipulag og úthlutun réttinda. Að auki er þar að finna tvö ákvæði um breytingar á skilyrðum og birtingu upplýsinga sem eiga bæði við um almennar heimildir skv. III. kafla og sérstök réttindi skv. IV. kafla. Fyrirmynd ákvæða þessa kafla er að finna í heimildatilskipuninni og rammatilskipuninni.

Um 7. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum þurfa fjarskiptafyrirtæki að sækja um rekstrarleyfi til þess að öðlast rétt til úthlutunar númera og tíðna. Með þessu frumvarpi er horfið frá útgáfu rekstrarleyfa en eftir sem áður er nauðsynlegt að fjarskiptafyrirtæki geti fengið heimildir til þess að nota númer og tíðnir eftir því sem þörf er á vegna starfsemi þeirra. Tíðnir eru takmörkuð auðlind og þess vegna kann að vera takmörkum háð hversu margir geta boðið fram ákveðna þjónustu. Fjöldi númera sem hægt er að úthluta getur einnig verið takmarkaður, a.m.k. tímabundið. Samkvæmt ákvæðinu, sem byggt er á 1. og 2. mgr. 5. gr. heimildatilskipunarinnar, er gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun úthluti númerum og tíðnum að fengnum umsóknum. Ef Póst- og fjarskiptastofnun telur að eftirspurn eftir sambærilegum númera- eða tíðniréttindum verði ekki annað getur komið til þess að beita verði ákvæðum 9. og 11. gr. um takmörkun á fjölda réttinda og útboð eða uppboð.Tíðnum er einnig úthlutað fyrir hljóðvarps- og sjónvarpsútsendingar. Það ber að gera með gagnsæjum hætti og þannig að jafnræðis sé gætt. Úthlutun skal vera í samræmi við markmið stjórnvalda í útvarpsmálum. Í því getur t.d. falist að útvarpsrásir verði boðnar út með skilmálum sem stjórnvöld skilgreina varðandi útbreiðslu o.fl. Skilin milli útvarps og fjarskiptaþjónustu eru að verða óskýrari en verið hefur. Sendikerfi fyrir útvarp eru í frumvarpi þessu talin til fjarskiptaneta og fyrirsjáanlegt er að hægt verði að bjóða fjarskiptaþjónustu og útvarp á sama netinu. Það er ekki sjálfgefið að útvarpsstöð í skilningi útvarpslaga sjái sjálf um að senda út sína dagskrá. Allt eins getur verið að tíðnum til útvarpsdreifingar verði úthlutað til fjarskiptafyrirtækis sem eingöngu sér um útsendingu.
    Þriðji hópurinn sem getur þurft á tíðniúthlutun að halda eru einstaklingar eða lögaðilar sem starfrækja þráðlausan fjarskiptabúnað eða -net til eigin nota. T.d. má nefna fyrirtæki sem tengja starfsstöðvar sínar saman með þráðlausum fastasamböndum og bifreiðastöðvar sem starfrækja eigin farstöðvanet.
    Framsal tíðniheimilda verður áfram óheimilt en í 8. gr. eru ákvæði sem leitt geta til þess að tíðniheimildir færist milli aðila í ákveðnum tilvikum.

Um 8. gr.


    Ákvæði núgildandi laga varðandi tíðniheimildir hafa verið túlkuð þannig að öll yfirfærsla á heimildum með hvaða hætti sem er sé bönnuð. Þar með hefur það þótt útilokað að tíðniheimild fylgi með félagi sem er sameinað öðru félagi. Á fjarskiptamarkaðinum er staðan sú að ný fyrirtæki keppa við fyrirtæki sem hefur yfirburðastöðu á flestum sviðum. Ný fyrirtæki geta talið það hagkvæman kost að sameinast og skapa þannig stærri rekstrareiningar sem eru færari um að veita raunhæfa samkeppni. Nú þegar hafa nokkrar sameiningar átt sér stað. Það getur staðið í vegi fyrir sameiningu fyrirtækja ef þau eru í óvissu um áframhaldandi rétt til þess að nýta tíðniheimildir og þurfa e.t.v. að keppa við aðra um réttindin í almennu útboði eftir sameininguna. Þrátt fyrir að almennt sé æskilegt að standa ekki í vegi fyrir sameiningu smærri fyrirtækja á markaðinum þarf að tryggja að með samruna opnist ekki leið til þess að fara í kringum framsalsbann og eins þarf að koma í veg fyrir að tíðniheimildir safnist á fárra hendur. Því er lagt til að yfirfærsla réttinda við samruna komi ekki til framkvæmda nema með sérstöku samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar sem verður veitt ef stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hætta á að samkeppni eða hagkvæmri nýtingu tíðnirófsins verði hamlað. Útvarpsstöðvar geta fallið undir þetta ákvæði ef þær reka sjálfar dreifikerfi og hafa tíðniheimild enda telst slíkt kerfi nú til fjarskiptaneta. Samkvæmt orðskýringu í 3. gr. nær ákvæðið til þeirra tilvika sem falla undir samrunahugtakið eins og það er skilgreint í samkeppnislögum.
    Samkvæmt 2. mgr. ber fyrirtækjum að að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um fyrirhugaðan samruna og skal stofnunin tilkynna innan 30 daga ef hún telur ástæðu til að taka málið til athugunar. Málsmeðferð er hliðstæð meðferð sem kveðið er á um í 3. og 4. mgr. 18. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, með áorðnum breytingum. Ef Póst- og fjarskiptastofnun tekur ekki ákvörðun um niðurfellingu eða breytingu réttinda fylgja þau með við samruna í samræmi við almennar reglur félagaréttar.
    Það er ekki einhlítt að hagkvæmasti kosturinn í rekstri fyrirtækja sé að stækka þau. Til eru þeir sem vilja fara hina leiðina og það þekkist að fjarskiptafyrirtækjum sé skipt niður í smærri fyrirtæki sem hvert um sig sér um ákveðinn þátt starfseminnar. Lagt er til í 3. mgr. að Póst- og fjarskiptastofnun geti einnig í þessum tilvikum samþykkt yfirfærslu réttinda að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Meðal þeirra skilyrða er að fyrirtæki sem verður til við skiptingu hafi getu, þ.m.t. efnahagslegan styrkleika, til þess að standa sjálfstætt að nýtingu tíðniheimilda í samræmi við skilyrði sem þeim fylgja. Þannig á ekki að vera hægt að fara í kringum framsalsbann með því að skipta fyrirtæki þannig að tíðniheimild sé eina eign hins nýja félags. Ákvæði 1.–3. mgr. skulu einnig gilda um réttindi til að nota númer eftir því sem við getur átt. Það gæti einkum verið ástæða til afskipta af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar ef samruni leiddi til þess að stuttnúmer eða netkóðar sem skortur væri á söfnuðust á eina hendi og heftu þannig samkeppnismöguleika á markaðinum.

Um 9. gr.


    Samkvæmt alþjóðasamþykktum er tíðnirófinu skipt í tíðnisvið sem hvert fyrir sig er ætlað fyrir tiltekna fjarskiptaþjónustu. Ef skipta þarf viðkomandi tíðnisviði í margar smáar einingar vegna fjölda fjarskiptafyrirtækja sem vilja veita þjónustu verður notkun viðkomandi tíðnisviðs óskilvirk og getur farið svo að hlutur hvers fyrirtækis verði of lítill til þess að það geti rekið þjónustuna. Til þess að koma í veg fyrir slíkt er Póst- og fjarskiptastofnun veitt heimild til þess að takmarka fjölda úthlutana í ákveðnu tíðnisviði. Þegar stofnunin setur slíkar takmarkanir skal hafa hliðsjón af högum notenda og mikilvægi þess að örva samkeppni. Samsvarandi ákvæði er nú að finna í 10. gr. gildandi laga. Nýmæli er þó að skuldbinda Póst- og fjarskiptastofnun til að kynna hagsmunaaðilum tillögur sínar um takmarkanir áður en stofnunin tekur endanlega ákvörðun. Slík kynning og álitsumleitan gæti farið fram á vefsíðu stofnunarinnar. Hér er einnig lögð skylda á Póst- og fjarskiptastofnun að kynna fyrir fram aðferðir sem stofnunin hyggst nota við úthlutun réttinda og að auglýst sé eftir umsóknum svo að hver og einn eigi þess kost að sækja um réttindin. Ákvarðanir sínar skal Póst- og fjarskiptastofnun endurskoða reglulega en einnig geta fjarskiptafyrirtæki óskað eftir endurskoðun. Niðurstaðan getur verið að auglýsa á ný eftir umsóknum. Ákvæði 9. gr. á stoð í 1.–3. mgr. 7. gr. heimildatilskipunarinnar.

Um 10. gr.


    Þegar veitt eru réttindi til þess að nota tíðnir er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að setja skilyrði þar að lútandi, eitt eða fleiri af þeim sem talin eru upp í stafliðum a–g í 1. mgr. Samkvæmt gildandi lögum hafa verið sett skilyrði fyrir tíðninotkun en þau hafa að mestu verið innifalin í rekstrarleyfi viðkomandi fjarskiptafyrirtækis.
    Það leiðir af eðli rafsegulbylgna að ekki er hægt að blanda saman mismunandi útsendingartækni í ákveðnu tíðnisviði ef forðast á skaðlegar truflanir. Þess vegna má setja það skilyrði að úthlutaðar tíðnir séu aðeins notaðar í ákveðnum tilgangi sem skilgreindur er fyrir fram fyrir hvert tíðnisvið. Setja má skilyrði sem talin eru nauðsynleg um tæknilega og rekstrarlega eiginleika útsendinga til þess að koma í veg fyrir skaðlegar truflanir á öðrum sendingum. Slík skilyrði leiðir oft af alþjóðlegum samþykktum um tíðnimál.
    Önnur skilyrði, sem setja má, lúta m.a. að gildistíma réttinda sem er með fyrirvara um breytingar á tíðniplani sem orsakast af breyttri tækni og nýjum alþjóðasamþykktum, greiðslu afnotagjalda og skuldbindingum sem rétthafi hefur undirgengist, t.d. varðandi útbreiðslu og gæði þjónustu, þegar val milli umsækjenda um tíðnir hefur farið fram með útboði.
    Í stafliðum a–i í 2. mgr. eru talin upp skilyrði sem setja má fyrir úthlutun númeraréttinda en reglur um notkun númera eru að talsverðu leyti alþjóðlegar og miða að því að samræma notkun númera fyrir ákveðna þjónustu. Dæmi um slíkt er neyðarnúmerið 112. Setja má skilyrði um að notkun númera sé skilvirk, þ.e. að fjarskiptafyrirtæki sæki ekki um númeraraðir langt umfram raunþarfir. Afleiðing lélegrar nýtingar geta verið að fjölga verði tölustöfum í símanúmerum en slíkt er mjög kostnaðarsamt fyrir fjarskiptafyrirtæki og notendur. Heimilt er að setja skilyrði um númeraflutning, þ.e. að notendur geti tekið með sér númer þegar þeir skipta um þjónustuveitanda. Krafa laganna um að allir notendur hafi aðgang að a.m.k. einni símaskrá með öllum símanúmerum verður ekki uppfyllt nema öll talsímafyrirtæki sem fengið hafa númer veiti upplýsingar um það hvaða númerum þau hafa úthlutað notendum. Skilyrði má setja um hámarksgildistíma úthlutunar, greiðslu gjalda fyrir númer, skuldbindingar sem rétthafi hefur undirgengist þegar númerum er úthlutað eftir útboð og kvaðir sem hljótast af alþjóðlegum samþykktum. Ákvæðið byggist á 6. gr. heimildatilskipunarinnar ásamt viðauka.

Um 11. gr.


    Grein þessi er byggð á 5. og 7. gr. heimildatilskipunarinnar. Meginregla um afgreiðslutíma Póst- og fjarskiptastofnunar við veitingu réttinda til fjarskiptafyrirtækja til að nota númer og tíðnir er efni 1. mgr. Undir venjulegum kringumstæðum þegar ekki er þörf á að takmarka fjölda úthlutana skal Póst- og fjarskiptastofnun afgreiða umsóknir um númer innan þriggja vikna og um tíðnir innan sex vikna enda séu umsóknir í samræmi við tíðni- eða númeraplan stofnunarinnar. Ef umsóknir eru ekki í samræmi við fyrirliggjandi skipulag og fyrirsjáanlegt er að ekki er unnt að gera breytingar í þá átt að koma til móts við óskir umsækjanda innan settra tímamarka er stofnuninni rétt að hafna umsókn að svo stöddu.
    Í 2. mgr. er gerð grein fyrir málsmeðferð þegar takmarka verður fjölda númera eða tíðna sem hægt er að úthluta. Krefja má umsækjendur um upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að Póst- og fjarskiptastofnun geti lagt mat á umsóknir þeirra, þ.m.t. hvort þeir hafi fjárhagslegt og rekstrarlegt bolmagn til þess að geta tekið viðkomandi númer eða tíðnir í notkun. Telji Póst- og fjarskiptastofnun líkur á að eftirspurn geti orðið meiri en framboð á ákveðnum númerum eða tíðnum getur stofnunin ákveðið að halda útboð sem skal að jafnaði vera opið og skal birta útboðsskilmála opinberlega. Í vissum tilfellum getur uppboð verið besta aðferðin til að úthluta réttindum en ákvörðun um uppboð getur samgönguráðherra einn tekið.
    Verði ákveðið að viðhafa útboð eða uppboð um úthlutun réttinda til að nota númer er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að lengja málsmeðferð um þrjár vikur. Ef hins vegar haldið er útboð eða uppboð um réttindi til að nota tíðnir er stofnuninni heimilt að lengja málsmeðferðarfrestinn eins og talið er nauðsynlegt til þess að umfjöllun um umsóknir geti verið hnökralaus, þó ekki lengur en um átta mánuði.

Um 12. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta hafa breytingar á lögum um fjarskipti verið tíðar á undanförnum árum og fjarskiptamarkaður og tækni í miklum framgangi. Það þykir þess vegna nauðsynlegt að hægt sé að breyta skilyrðum sem fylgja almennum heimildum og úthlutuðum réttindum þegar svo ber undir og réttmætar ástæður eru fyrir hendi. Í einstaka tilfellum kann að vera nauðsynlegt að endurskoða skilyrði vegna verulegra breytinga á forsendum þó að ekki verði gerðar breytingar á lagarammanum. Þetta gæti t.d. komið til ef rannsóknir sýndu fram á nauðsyn þess að gera auknar kröfur varðandi varnir gegn rafsegulgeislun, ef breytingar eru gerðar á skipulagi tíðnirófsins og vegna samruna eða skiptingar fyrirtækja, sbr. 8. gr. Þar sem breytingar á skilyrðum varða atvinnuréttindi verða breytingar sem eru íþyngjandi ekki gerðar nema í algerum undantekningartilvikum þegar mjög ríkar ástæður krefjast. Gerð er krafa um að allar fyrirhugaðar breytingar séu kynntar hagsmunaaðilum með fyrirvara sem skal vera minnst einn mánuður nema í sérstökum tilfellum, með það fyrir augum að þeir geti komið fram með athugasemdir áður en endanleg ákvörðun er tekin.
    Greinin er byggð á 14. gr. heimildatilskipunarinnar.

Um 13. gr.


    Samkvæmt þessari grein sem byggist á 15. gr. heimildatilskipunarinnar skal Póst- og fjarskiptastofnun gefa út og viðhalda upplýsingum um réttindi, skilyrði, málsmeðferð, gjöld og ákvarðanir um almennar heimildir og notkunarréttindi svo að allir sem áhuga hafa geti nálgast þær. Stofnuninni er eftirlátið að ákveða með hvaða hætti útgáfa upplýsinga fer fram en það getur t.d. verið birting á vefsíðu. Tilgangur ákvæðisins er m.a. sá að aðilar sem skoða vilja aðgengi að fjarskiptamarkaði geti nálgast helstu upplýsingar þar að lútandi á einum stað.

Um 14. gr.


    Hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi skipulag tíðnirófsins verður það sama og samkvæmt gildandi lögum. Sérstök áhersla er þó lögð á það nú að lágmarka skaðlegar truflanir.
    Í 2. mgr. er heimild til að setja reglugerð um skipulag og úthlutun tíðna líkt og í gildandi lögum.

Um 15. gr.


    Greinin kemur í stað 32. gr. gildandi laga en er nokkru styttri og einfaldari. Aðalákvæði greinarinnar leggur skyldu á Póst- og fjarskiptastofnun að viðhalda skipulagi númera fyrir fjarskiptaþjónustu. Stofnunin úthlutar fjarskiptafyrirtækjum hvers kyns númerum fyrir notendur og sérstaklega er tekið fram að númerakóðar fyrir auðkenningu stöðva og neta falli undir ákvæðið.
    Í 2. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun veitt heimild til þess að setja reglur um númer, númeraraðir og vistföng. Þar yrði m.a. kveðið á um skiptingu númeraraða eftir þjónustutegundum, málsmeðferð við úthlutun og afturköllun númeraréttinda vegna breytinga á númeraplani. Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett slíkar reglur og endurskoðað þær reglulega. Gildandi reglur eru nr. 832/2000.
    Þar sem hlutverk stofnunarinnar í sambandi við vistföng í tölvusamskiptum hefur ekki verið skilgreint fram að þessu er samgönguráðherra í 3. mgr. veitt heimild til þess að setja reglugerð um það. Samsvarandi ákvæði er í 4. mgr. 32. gr. gildandi laga.

Um V. kafla.


    Í gildandi lögum er fjallað um fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild í 24. gr. og er þar að finna almenna reglu um að 25% markaðshlutdeild teljist umtalsverð og fyrirtæki sem staðfest er að hafi þá stöðu bera tilteknar skyldur samkvæmt ýmsum ákvæðum laganna. Í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í hinum nýju gerðum EES inniheldur V. kafli endurskoðaða skilgreiningu á hugtakinu umtalsverð markaðshlutdeild. Auk þess hafa komið til ný ákvæði um skilgreiningu markaða og framkvæmd markaðsgreiningar. Af þessum ástæðum er nú ákvæðum um fjarskiptamarkaði safnað á einn stað í þessum kafla. Með þessum kafla eru innleidd ákvæði 14.–16. gr. rammatilskipunarinnar.

Um 16. gr.


    Með greininni er Póst- og fjarskiptastofnun falið að skilgreina ákveðna fjarskiptamarkaði eftir þjónustutegundum og landsvæðum eftir því sem við á. Um er að ræða markaði þar sem réttlætanlegt gæti talist að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki. Póst- og fjarskiptastofnun skal við þessa vinnu styðjast við meginreglur samkeppnisréttar og skuldbindingar samkvæmt EES- samningnum en hinar síðarnefndu kveða á um nánari ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB og Eftirlitsstofnunar EFTA. Framkvæmdastjórn ESB hefur þegar lagt grunn að tilmælum þar sem skilgreindir eru þeir þjónustumarkaðir þar sem ástæða gæti verið til þess að hafa afskipti til eflingar samkeppni. Að öllu jöfnu verða ekki höfð afskipti af nýjum mörkuðum í örri þróun, nema í sérstökum tilvikum ef mjög sterk rök liggja að baki. Skv. 16. gr. er gert ráð fyrir því að samgönguráðherra geti sett reglugerð um nánari sundurliðun markaða sem um er að ræða.

Um 17. gr.


    Þegar skilgreining og skipting markaða liggur fyrir í samræmi við 16. gr. þarf að gera greiningu á stöðunni á hverjum markaði fyrir sig. Við þá greiningu skal hafa hliðsjón af skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum, en í þeim felst m.a. að taka skal mið af leiðbeiningum sem framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út um markaðsgreiningu og mat á umtalsverði markaðshlutdeild. Þegar við á skal framkvæma greininguna í samráði við innlend samkeppnisyfirvöld.
    Tilgangur markaðsgreiningar er að skera úr um hvort samkeppni sé virk á þeim mörkuðum sem skilgreindir hafa verið og að taka ákvörðun um að leggja á, viðhalda, breyta eða fella niður kvaðir á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild. Þegar samkeppni telst vera virk skal ekki leggja kvaðir á fyrirtæki á þeim markaði sem um ræðir. Sé samkeppni á markaði hins vegar ekki virk skal Póst- og fjarskiptastofnun útnefna fyrirtæki sem hafa umtalsverða hlutdeild á viðkomandi markaði og leggja á þau kvaðir, viðhalda þeim eða breyta í samræmi við lög þessi.
    Markaðsgreiningu ber að endurskoða með hæfilegu millibili og verður það metið með hliðsjón af aðstæðum innan lands sem og tilmælum sem gefin verða út og endurskoðuð af framkvæmdastjórn ESB og Eftirlitsstofnun EFTA.

Um 18. gr.


    Lýst er þeim aðstæðum á markaði sem geta leitt til þess að fjarskiptafyrirtæki teljist hafa umtalsverða markaðshlutdeild. Ekki er lengur gengið út frá 25% hlutdeild eins og í gildandi lögum heldur er hugtakið umtalsverð markaðshlutdeild skilgreint á nánast sama hátt og markaðsráðandi staða í samkeppnisrétti. Fyrrnefndar leiðbeiningar framkvæmdastjórnar ESB um markaðsgreiningu og mat á umtalsverðri markaðshlutdeild byggjast á dómaframkvæmd EB- dómstólsins í samkeppnismálum. Fram kemur í ákvæðinu að fleiri en eitt fyrirtæki geta haft sameiginlega umtalsverða markaðshlutdeild og á það rætur að rekja til samkeppnisréttar (e. collective dominance). Aðra reglu af sama meiði er að finna í 2. mgr. en hún felur í sér að fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á ákveðnum markaði getur í vissum tilfellum talist hafa umtalsverða markaðshlutdeild á nátengdum markaði.
    Í 3. mgr. er samgönguráðherra veitt heimild til þess að setja reglugerð um nánari sundurliðun markaða en kveðið er á um í 17. gr., um greiningu á stöðu markaða og um reglur sem nota skal við mat á því hvort fyrirtæki eitt eða fleiri saman hafi umtalsverða markaðshlutdeild.

Um VI. kafla.


    Kafli þessi um alþjónustu og sértæka fjarskiptaþjónustu er nokkuð breyttur frá IV. kafla gildandi laga þó að meginákvæði og gildissvið séu efnislega hin sömu. Að vísu er fastar kveðið á en áður um rétt allra landsmanna til þess að njóta alþjónustu og um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að tryggja að a.m.k. eitt fjarskiptafyrirtæki verði við öllum sanngjörnum beiðnum um fastatengingu við almenna talsímanetið. Tegundir þjónustu sem falla undir alþjónustu eru hinar sömu og áður. Kaflinn er saminn með hliðsjón af alþjónustutilskipuninni.

Um 19. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram meginregla um rétt allra notenda til þess að njóta alþjónustu óháð staðsetningu þeirra. Stefnt er að því áfram sem hingað til að öllum landsmönnum verði tryggður jafn aðgangur að ákveðnum grunnþáttum fjarskipta. Þessu verður þó ekki við komið í öllum tilvikum og getur réttur þessi sætt takmörkunum samkvæmt síðari málsgreinum ef aðstæður eru sérstaklega erfiðar.
    Póst- og fjarskiptastofnun er veitt heimild til þess að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki eitt eða fleiri um að veita alþjónustu á starfssvæði sínu ef ástæða þykir til að deila kvöðunum milli fyrirtækja. Við val á alþjónustuveitanda yrði litið til þess hvaða fyrirtæki væri best í stakk búið til þess að veita þjónustuna m.a. með tilliti til útbreiðslu fjarskiptaneta fyrirtækisins og hversu hagkvæm og ódýr þjónusta þess væri. Ef samkeppni er talin tryggja nægilegt framboð á fjarskiptaþjónustu til allra getur verið óþarfi að leggja á sérstakar kvaðir um framboð þjónustu, en slíkt samkeppnisumhverfi mundi að líkindum aldrei ná til allra landsvæða. Póst- og fjarskiptastofnun getur veitt fyrirtækjum undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á. Slík undanþága yrði ávallt bundin við sérstök afmörkuð tilvik þar sem alþjónustukvöð væri talin fyrirtækinu sérstaklega íþyngjandi.
    Upptalning á þjónustu sem fellur undir alþjónustu er í 3. mgr. og felur ekki í sér auknar kvaðir frá gildandi lögum hvað varðar umfang alþjónustu. Ákvæði um símaskrár og upplýsingaþjónustu um símanúmer eru í 3. mgr. en var að hluta til að finna í 35. gr. gildandi laga og í reglugerð um alþjónustu. Líkt og í gildandi lögum geta kvaðir vegna fatlaðra notenda talist til alþjónustu. Kvaðir um almenningssíma eru nú í reglugerð um alþjónustu en eru nú settar í lög vegna þess að þær geta verið íþyngjandi fyrir fjarskiptafyrirtæki sem hefur alþjónustuskyldur og er það jafnframt í samræmi við alþjónustutilskipunina.
    Gert er ráð fyrir því í 4. mgr. að Póst- og fjarskiptastofnun taki ákvörðun um fastatengingu notanda ef alþjónustuveitandi hafnar því að leggja síma til hans og er ákvæðið efnislega óbreytt frá gildandi lögum. Í reglugerð hafa verið útfærð ákveðin viðmið varðandi það hvenær réttlætanlegt er að hafna beiðni um alþjónustu.
    Heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að ákveða lágmarksgæði alþjónustu er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 20. gr.


    Í greininni er tekið fram að alþjónustukvaðir geta verið lagðar á fleiri en eitt fyrirtæki. Það þarf að meta fyrir hverja tegund þjónustu og hvert landsvæði hvaða fyrirtæki er best til þess fallið að veita þjónustuna. Í dag hvíla allar alþjónustuskyldur á Landssíma Íslands, fyrir utan neyðarsímsvörun. Líklegt er að svo verði áfram í nánustu framtíð en opnað er fyrir þá leið að skipta skyldunum milli fyrirtækja ef aðstæður gefa tilefni til. Í 2. mgr. er lögð sú skylda á Póst- og fjarskiptastofnun að hafa eftirlit með gjaldskrám í alþjónustu. Eftirlitið lýtur aðallega að því að tryggja að þjónustan sé veitt á eðlilegu og viðráðanlegu verði. Fylgjast ber með verðþróun alþjónustu með tilliti til almenns verðlags og kaupmáttar launa innan lands, auk þess sem hafa má hliðsjón af verðlagningu í helstu viðmiðunarríkjum. Einnig þarf að hafa eftirlit með því að uppsetning gjaldskrár sé skýr og eðlileg og að öllum landsmönnum sé boðið sama verð fyrir sömu þjónustu.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að sett skuli reglugerð um alþjónustu.

Um 21. gr.


    Efnislega er 1. mgr. samhljóða 1. mgr. 14. gr. gildandi laga en við málsgreinina hefur verið bætt ákvæði úr 5. mgr. 15. gr. gildandi laga. Jafnframt hefur 2. mgr. 14. gr. gildandi laga verið felld niður en þar var lagt fyrir að beita sömu aðferðum við kostnaðarmat fyrir alþjónustu og til þess að finna kostnað við samtengingu neta og þjónustu. Nú er ætlast til að aðferðir við mat á kostnaði verði skilgreindar í reglugerð sem mundi m.a. taka mið af IV. viðauka við alþjónustutilskipunina. Í 2. mgr. er að finna breytt ákvæði 3. mgr. 14. gr. gildandi laga og er fellt niður að Póst- og fjarskiptastofnun skuli tryggja endurgjald fyrir alþjónustu. Í stað þess er skylda stofnunarinnar takmörkuð við að reikna út kostnað vegna alþjónustuskyldu. Um endurgjaldið er fjallað í 22. gr. frumvarpsins. 3. og 4. mgr. eru efnislega samhljóða gildandi lögum.
    5. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum nema hvað tekinn er allur vafi af um það að með endurskoðun er átt við endurskoðun á meðan á gildistímanum stendur.
    6. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 22. gr.


    Gert er áfram ráð fyrir innheimtu jöfnunargjalds til þess að standa straum af fjárframlögum samkvæmt þessum kafla en gerðar eru veigamiklar breytingar frá 15. gr. gildandi laga um framkvæmdina. Í stað þess að jöfnunargjald sem innheimt er til þess að standa undir framlögum til alþjónustu renni til Póst- og fjarskiptastofnunar sem annist greiðslu þeirra til alþjónustuveitenda er gert ráð fyrir að greiðslurnar fari um sérstakan jöfnunarsjóð í vörslu stofnunarinnar. Með þessu er fjárhagur Póst- og fjarskiptastofnunar aðskilinn frá fjármögnun alþjónustu. Í 1. mgr. segir að jöfnunargjald skuli lagt á fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja fjarskiptanet og/eða þjónustu í hlutfalli við bókfærða veltu en samkvæmt gildandi lögum hvílir gjaldskylda á fyrirtækjum sem starfa í talsíma eða gagnaflutningi eingöngu.
    Samkvæmt 3. mgr. skal jöfnunargjald nema 0,12% af bókfærðri veltu sem er sama hlutfall og í gildandi lögum en Póst- og fjarskiptastofnun skal árlega endurskoða fjárþörfina vegna alþjónustu og leggja tillögu um breytt hlutfall ef nauðsynlegt er fyrir samgönguráðherra. Gjaldhlutfallinu yrði þó ekki breytt nema með lögum. Í samræmi við tillöguna um jöfnunarsjóð hefur verið bætt við ákvæðum um flutning vangoldinna skuldbindinga eða afgangs til næsta árs.
    Ákvæði 3. og 4. mgr. eru óbreytt frá gildandi lögum en í 6. mgr. er nýtt ákvæði um birtingu upplýsinga um kostnað við alþjónustu, greiðslur fyrirtækja í jöfnunarsjóð og ávinning þann sem alþjónustuveitandi er talinn hafa haft af stöðu sinni sem alþjónustuveitandi. Tilgangur þessa ákvæðis er að gera fjármögnun alþjónustu gagnsæja. Skv. 7. mgr. skulu nánari reglur um útreikning kostnaðar, fjárframlög og jöfnunargjald vera hluti af alþjónustureglugerð, sbr. 20. gr.

Um 23. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá gildandi lögum.

Um VII. kafla.


    Í þessum kafla eru sameinuð ákvæði um opinn aðgang og samtengingu neta og þjónustu sem eru í V. og VI. kafla gildandi laga og er þessi tilhögun í samræmi við nýja tilskipun um aðgang og samtengingu. Umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar bæði varðandi uppbyggingu og innihald ákvæðanna. Kaflinn skiptist þannig að fyrstu þrjár greinarnar, 24.–26. gr., fjalla um skyldur sem hvíla jafnt á öllum fyrirtækjum án tillits til markaðshlutdeildar, í 27. gr. er almennt ákvæði um kvaðir sem leggja má á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild í kjölfar markaðsgreiningar, 28.–32. gr. fjalla um tilteknar tegundir kvaða sem leggja má á, sbr. 27. gr., 33.–35. gr. eru sérreglur um ákveðnar tegundir aðgangs og 36. gr. gildir um fyrirtæki sem njóta sérleyfis eða verndar.

Um 24. gr.


    Í 1. mgr. er grundvallarregla um að fjarskiptafyrirtæki skulu bæði eiga rétt á að semja um samtengingu við net og þjónustu annarra fjarskiptafyrirtækja og bera skyldu til að verða við sams konar beiðnum annarra fyrirtækja. Þetta ákvæði gildir um öll fjarskiptafyrirtæki sem reka almenn fjarskiptanet eða -þjónustu. Samkvæmt EES-skuldbindingum mun þessi skylda einnig gilda gagnvart fjarskiptafyrirtæki sem er staðsett erlendis og veitir ekki þjónustu hér á landi ef það vill t.d. samtengjast fjarskiptanetum hér á landi til þess að geta sent símaumferð til landsins. Almennt er verðlagning samtenginga samkomulagsatriði aðila, en heimildir eru til þess í öðrum ákvæðum kaflans að Póst- og fjarskiptastofnun leggi kvaðir á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild um að þau bjóði verð sem byggist á kostnaði.
    Skyldur Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi samtengingu eru tíundaðar í 2.–4. mgr. Í 5. mgr. er kveðið á um skyldu Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að birta yfirlit yfir allar kvaðir sem lagðar eru á fyrirtæki samkvæmt kaflanum í heild sinni ásamt upplýsingum um forsendur kvaðanna, þ.e. markaðsskiptingu og greiningu markaðsstöðu. Ákvæði 6. mgr. fjallar um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að senda Póst- og fjarskiptastofnun samninga um aðgang og samtengingu þegar í stað en eigi síðar en viku eftir undirritun þeirra og er með þessu orðalagi hert nokkuð á orðalagi 6. mgr. 23. gr. gildandi laga að gefnu tilefni.

Um 25. gr.


    Póst- og fjarskiptastofnun er í 1. mgr. veitt heimild til þess að skylda rekstraraðila að verða við sanngjörnum beiðnum um samhýsingu eða annars konar samnýtingu á aðstöðu og eru sérstaklega nefnd til sögunnar kapalstokkar eða rör, byggingar og möstur. Um skilyrði fyrir slíkri ákvörðun er fjallað í 2.–4. mgr. Mögulegt er að mæla fyrir um aðgang í öðrum tilvikum en nefnd eru í þessari grein samkvæmt ákvæðum 27. gr. en það á einungis við um fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild. Ákvæði 25. gr. á við um öll fjarskiptafyrirtæki.
    Skilyrði fyrir aðgangi skv. 25. gr. er að fyrirtæki sem býr yfir aðstöðu hafi fengið réttindi varðandi aðgang að landi og að aðstæður hindri önnur fyrirtæki í að koma sér upp samsvarandi aðstöðu.
    Samkvæmt 3. mgr. getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið skiptingu kostnaðar milli aðila.
    Í 4. mgr. er heimild til þess að kveðið sé á um samnýtingu þó að eigandi aðstöðu njóti ekki sérréttinda varðandi aðgang að landi ef mikilsverð sjónarmið réttlæta slíkt. Það geta verið umhverfissjónarmið, t.d. varðandi sjónmengun eða geislunarhættu frá möstrum eða ef sérstaklega erfiðar aðstæður eru til uppsetningar fjarskiptavirkja.

Um 26. gr.


    Með greininni eru settar takmarkanir á meðferð upplýsinga sem fjarskiptafyrirtæki skiptast á þegar samið er um aðgang eða samtengingu. Óumflýjanlegt er í mörgum tilfellum að fyrirtæki þurfi að gefa viðsemjanda sínum einhverjar upplýsingar sem þau mundu að öllu jöfnu kjósa að halda leyndum vegna viðskiptahagsmuna. Sérstaklega er gert ráð fyrir að þessar upplýsingar berist ekki til annarra deilda fjarskiptafyrirtækis en þeirra sem á þeim þurfa að halda í þeim tilgangi að koma á samningi eða efna gerðan samning. Hliðstætt ákvæði er að finna í 2. mgr. 25. gr. gildandi laga en það er einskorðað við samtengisamninga.

Um 27. gr.


    Þegar ljóst er af markaðsgreiningu að fjarskiptafyrirtæki, eitt eða fleiri, hafa umtalsverða markaðshlutdeild, getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á fyrirtækin um að þau veiti aðgang að tiltekinni aðstöðu og kvaðir sem stuðla að því að eðlilega sé staðið að veitingu aðgangs, svo sem skyldur varðandi jafnræði, gagnsæi, bókhaldsaðgreiningu og verðlagningu. Stofnunin getur lagt á eina eða fleiri kvaðir eftir því sem talin er þörf á til þess að efla samkeppni. Áður en ákvarðanir eru teknar sem geta haft veruleg áhrif á markaðinn er ætlast til þess að hagsmunaaðilum verði gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum. Þetta fyrirkomulag felur í sér verulega breytingu frá gildandi lögum varðandi skyldur sem fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild þurfa að bera. Gildandi ákvæði um aðgang fela í sér að fyrir fram ákveðnar skyldur leggjast á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að skyldur verði lagðar á fyrirtæki eða felldar niður með sérstakri ákvörðun í kjölfar markaðsgreiningar. Skyldurnar verða því sniðnar að þörfum markaðarins hverju sinni. Þær verða ekki lengur bundnar við ákveðin form aðgangs og mun Póst- og fjarskiptastofnun hafa meira svigrúm til þess að kveða á um aðgang að ýmiss konar aðstöðu eftir því sem þörf er á til þess að koma á virkri samkeppni. Gert er ráð fyrir að markaðsgreining skv. V. kafla verði endurskoðuð með hæfilegu millibili. Ef niðurstöður slíkrar endurskoðunar gefa tilefni til geta kvaðir á fjarskiptafyrirtækjum einnig verið endurskoðaðar.
    Ákvæðið er byggt á 8. gr. aðgangs- og samtengingartilskipunarinnar.

Um 28. gr.


    Aðgangur að netum og þjónustu er lykilatriði fyrir ný fjarskiptafyrirtæki á markaðinum, enda er í mörgum tilvikum óframkvæmanlegt fyrir ný fyrirtæki að koma sér upp aðstöðu í líkingu við þá sem fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild hefur komið sér upp á löngum tíma. Þörf getur verið á aðgangi að margs konar netum og þjónustu eða annarri tengdri aðstöðu. Skv. 28. gr. sem byggð er á 12. gr. aðgangs- og samtengingartilskipunarinnar getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild til þess að stuðla að eðlilegri samkeppnisstöðu. Í stafliðum a–i í 2. mgr. eru nefnd dæmi um kvaðir sem leggja má á fjarskiptafyrirtæki í þessum tilgangi þótt ekki sé um tæmandi talningu að ræða. Skv. a-lið má krefjast þess að fjarskiptafyrirtæki veiti hvers konar aðgang að netum eða hluta þeirra og/eða aðstöðu og er aðgangur að heimtaugum nefndur sem dæmi. Um leigu á hefðbundnum heimtaugum fer almennt skv. 34. gr. en mögulegt væri að leggja á sérstakar skyldur varðandi heimtaugar og aðstöðu sem þeim tengdist skv. 28. gr. Í b-lið er gert að skyldu að bjóða ákveðna þjónustu í heildsölu sem mun gera það mögulegt fyrir annað fjarskiptafyrirtæki að endurselja þjónustu. Þetta getur m.a. átt við þegar fyrirtæki sem getur ekki boðið alhliða þjónustu í gegnum sitt eigið net vill bjóða viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir í fjarskiptaþjónustu. Þá getur verið réttlætanlegt í þágu virkrar samkeppni að skylda fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild til þess að selja ákveðna þjónustu í heildsölu, t.d. að selja tengingu við talsímanetið í heildsölu til fyrirtækis sem er með viðskiptavini í föstu forvali. Í c-lið eru ákvæði sem tengjast gagnvirkri þjónustu eða sýndarnetþjónustu og eiga t.d. að greiða fyrir stafrænu sjónvarpi. D-liður fjallar um samnýtingu húsnæðis fyrir fjarskiptavirki eða annars konar samnýtingu á byggingum, möstrum og kapalstokkum. 25. gr. fjallar um aðgang að aðstöðu en skv. 27. gr. er hægt að veita aðgang á grundvelli samkeppnissjónarmiða án tillits til landfræði- eða umhverfisaðstæðna. E-liður nær til þjónustu sem þarf til þess að endanlegir notendur geti fengið samband sín á milli en dæmi um slíkt eru greindarnetsþjónusta sem m.a. hefur þýðingu í sambandi við símtöl í númer sem hafa verið flutt milli fjarskiptafyrirtækja og reiki milli farsímaneta sem gerir notendum kleift að fá símtöl afgreidd þó að þeir séu komnir út fyrir þjónustusvæði netsins sem þeir tengjast. Skv. f-lið má krefjast þess að boðinn sé aðgangur að ýmsum rekstrarkerfum og hugbúnaði þegar slíkur aðgangur telst vera nauðsynlegur í þágu samkeppni milli fjarskiptafyrirtækja. Skv. g-lið má gera kröfur um samtengingu neta eða netaðstöðu umfram það sem leiðir af almennum ákvæðum um samtengingu í 24. gr. Í h-lið er ákvæði um aðgang fyrir sýndarnet en það felur í sér að þjónustuveitandi veitir alla þjónustu gegnum net annars fyrirtækis, en stjórnar samt samskiptum við notendur líkt og þeir væru tengdir hans eigin neti. Á síðustu árum hefur áhugi á því að reka sýndarfarsímanet aukist. Ekki ríkir alls staðar samræmi í skilgreiningu á sýndarfarsímanetum en sameiginlegt þeim er að sýndarnet innihalda ekki þráðlausar móðurstöðvar. Þjónustuveitandi sem rekur sýndarnet þarf þess vegna alltaf að fá aðgang að móðurstöðvum í farsímaneti annars aðila og oftar en ekki að miðlægri símstöð hans. Að lokum er i-liður sem felur í sér að veita megi aðgang að annarri aðstöðu en greinir í fyrri stafliðum ef hún er talin ómissandi fyrir viðkomandi starfsemi og ekki er raunhæft fyrir nýtt fyrirtæki að koma sér upp sambærilegri aðstöðu.Við beitingu ákvæða 1.–2. mgr. ber Póst- og fjarskiptastofnun að taka mið af atriðum sem talin eru upp í stafliðum a–f í 3. mgr. Er þar fyrst að geta a-liðar um tæknilega og fjárhagslega möguleika umsækjanda til að nota eigin aðstöðu eða koma henni upp. Skv. b-lið ber að taka mið af möguleikum fjarskiptafyrirtækis á að veita þann aðgang sem beðið er um en ýmsar ástæður geta verið fyrir því að ekki er hægt að veita ákveðna tegund aðgangs. Þá skal skv. c-lið hafa mið af upphaflegri fjárfestingu eiganda aðstöðunnar og áhættu sem tekin var með henni. D-liður tekur til nauðsynjar þess að vernda samkeppni á fjarskiptamarkaði til framtíðar. Hugverkaréttur er annað atriði sem taka skal tillit til skv. e-lið og að lokum skal Póst- og fjarskiptastofnun taka mið af framboði þjónustu. Öll þessi atriði ber Póst- og fjarskiptastofnun að miða við þegar tekin er ákvörðun varðandi skyldu til að veita aðgang. Þetta eru sjónarmið varðandi meðalhóf og vægi hagsmuna þeirra aðila sem málið varðar.

Um 29. gr.


    Skilmálar sem gilda fyrir samtengingu og/eða aðgang að netum og þjónustu skipta nær öll ný fjarskiptafyrirtæki miklu máli því að skilmálarnir geta haft úrslitaáhrif á möguleika þeirra á að skapa sér fótfestu á markaðinum. Það má vera ljóst að samkeppnisstaða þessara fyrirtækja er í hættu ef þau búa við mismunandi skilmála. Það auðveldar fyrirtækjum að koma inn á markað ef fyrirsegjanlegt er hvaða kjör eru í boði varðandi aðgang og þjónustu sem þau þurfa að kaupa af öðrum fyrirtækjum og hver er grundvöllur verðlagningar og annarra skilmála. Þess vegna er Póst- og fjarskiptastofnun í þessari grein, sem byggð er á 9. gr. aðgangs- og samtengingartilskipunarinnar, veitt heimild til þess að leggja á kvaðir um gagnsæi og skylda fjarskiptafyrirtæki til þess að birta opinberlega ýmsar upplýsingar um bókhald, tæknilausnir, einkenni neta, skilmála og skilyrði fyrir afhendingu, svo og um notkun og verð. Ef sýnt þykir að birting upplýsinga geti skaðað mikilsverða fjárhagslega hagsmuni fyrirtækis og sanngjarnt og eðlilegt er að upplýsingar fari leynt getur Póst- og fjarskiptastofnun veitt undanþágu frá birtingu þeirra.
    Þegar fjarskiptafyrirtæki er gert að gæta jafnræðis, sbr. 30. gr., getur Póst- og fjarskiptastofnun skv. 2. mgr. lagt skyldur á fyrirtækið að gefa út sundurliðað viðmiðunartilboð. Viðmiðunartilboðið á að gefa öllum markaðsaðilum kost á því að sjá hvað er í boði í sambandi við aðgang og samtengingu og tryggja að önnur fjarskiptafyrirtæki verði ekki krafin um greiðslu fyrir þjónustu og aðstöðu sem er þeim ekki nauðsynleg. Póst- og fjarskiptastofnun er veitt heimild til þess að krefjast breytinga á viðmiðunartilboðum og sömuleiðis að setja reglur um hvað skuli vera efni samntengingarsamninga og viðmiðunartilboða. Samkvæmt gildandi lögum er fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild skylt að birta viðmiðunartilboð varðandi samtengingu talsímaneta og heimtaugaleigu. Samkvæmt þessari grein getur sú skylda einnig verið lögð á varðandi aðgang að annarri aðstöðu.

Um 30. gr.


    Hliðstæð rök liggja að baki þessari grein og 29. gr. Póst- og fjarskiptastofnun er hér heimilað að leggja á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild skyldur sem koma eiga í veg fyrir mismunun í sambandi við kjör, þ.m.t. gjöld og skilmála, sem boðin eru öðrum fyrirtækjum í sambandi við aðgang og samtengingu. Hið sama á að gilda fyrir þjónustu sem veitt er innan fjarskiptafyrirtækisins eða dótturfyrirtækjum og samstarfsaðilum. Greinin byggist á 10. gr. aðgangs- og samtengingartilskipunarinnar.

Um 31. gr.


    Í 1. mgr. segir að Póst- og fjarskiptastofnun geti lagt á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild skyldur um aðskilnað í bókhaldi að því er snertir starfsemi sem varðar samtengingu og/eða aðgang að netum og þjónustu. Krefjast má þess einnig af fyrirtæki sem rekur bæði net og þjónustu að heildsöluverð og millifært verð milli deilda sé gagnsætt svo að óréttmætar niðurgreiðslur eigi sér ekki stað með ákveðinni þjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið form bókhalds og aðferðir sem nota á við aðskilnað mismunandi starfsemi í bókhaldinu.
    Samkvæmt 2. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun veitt vald til þess að krefjast afhendingar bókhaldsgagna til þess að ganga úr skugga um að fylgt sé reglum um jafnræði og gagnsæi. Fyrirmynd ákvæðis um bókhaldslegan aðskilnað er 11. gr. aðgangs- og samtengingartilskipunarinnar.

Um 32. gr.


    Þessi grein er byggð á 13. gr. aðgangs- og samtengingartilskipunarinnar.
    Það er einn af grundvallarþáttunum sem stuðlað geta að virkri samkeppni að heildsöluverð fjarskiptafyrirtækja með umtalsverða markaðshlutdeild sé sanngjarnt og eðlilegt. Þegar markaðsgreining hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að skortur á samkeppni leiði til þess að fjarskiptafyrirtæki krefjist of hárra gjalda eða að mismunur á heildsölu- og smásöluverði fyrirtækis sé óeðlilega lítill getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt á fyrirtækið ýmsar kvaðir varðandi verðlagningu. Setja má kröfu um að gjaldskrá miðist við kostnað og að haldið verði kostnaðarbókhald.
    Sönnunarbyrði þess að gjaldskrá byggist í raun á kostnaði skal skv. 2. mgr. liggja hjá viðkomandi fjarskiptafyrirtæki.
    Krefjast má þess að fjarskiptafyrirtæki geri kostnaðarlíkan til útreiknings á ákveðnum gjöldum. Nánar verður kveðið á um gerð slíkra líkana í reglugerð, sbr. 5. mgr., með hliðsjón af því hvað teljast viðurkenndar aðferðir meðal EES-ríkja.
    Samkvæmt 4. mgr. getur Póst- og fjarskiptastofnun við útreikninga á kostnaði tekið mið af kostnaði við sams konar þjónustu hjá fyrirtæki sem telst rekið á hagkvæman hátt og sömuleiðis notað bókhaldsaðferðir sem eru frábrugðnar aðferðum fjarskiptafyrirtækisins. Enda getur verið þörf á að koma í veg fyrir að fyrirtæki sem kaupa þurfa þjónustuna beri hallann af óhagkvæmni í rekstri og bókhaldsaðferðum sem þjóna einhliða hagsmunum seljandans.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að samgönguráðherra setji reglugerð um nánari útfærslu kostnaðargreiningar og aðskilnaðar í bókhaldi fjarskiptafyrirtækja og eru tilgreind nokkur atriði sem þar skal gera skil.

Um 33. gr.


    Í 19. gr. gildandi laga er sú skylda lögð á Póst- og fjarskiptastofnun að tryggja að a.m.k. eitt fjarskiptafyrirtæki bjóði fram nauðsynlegar leigulínur. Í 33. gr. frumvarpsins segir að ríki ekki virk samkeppni á leigulínumarkaði skuli útnefna fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á þessu sviði alls staðar á landinu eða á ákveðnum landsvæðum. Þessi fyrirtæki skulu bjóða þær tegundir og fjölda leigulína sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður. Ákvæðið er aðallega hugsað til að tryggja aðgang annarra fjarskiptafyrirtækja að leigulínum í heildsölu, en í samræmi við 18. gr. alþjónustutilskipunarinnar nær ákvæðið nú einnig til leigulína í smásölu eftir því sem við á.

Um 34. gr.


    Ákvæði um heimtaugaleigu sem er að finna í 20. gr. gildandi laga, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 145/2001, er efnislega óbreytt.
                        

Um 35. gr.


    Ákvæði um reiki milli farsímaneta innan lands er nokkuð breytt frá gildandi lögum. Nú er gert ráð fyrir að ekki þurfi í öllum tilvikum að meta þörf fyrir reiki út frá rekstrarforsendum einstakra farsímastöðva heldur geti matið verið miðað við ákveðin svæði og skuli þá veita aðgang að farsímaneti í heild sinni á ákveðnum svæðum ef skilyrði ákvæðisins eru fyrir hendi. Eins er gert ráð fyrir að meta megi þörfina fyrir reikisamning út frá sjónarmiðum um eflingu samkeppni.
    Samkvæmt 2. mgr. skulu fyrirtæki leitast við að semja sín á milli, en ef ekki semst getur Póst- og fjarskiptastofnun tekið ákvörðun um kröfur um aðgang, skilmála og gjöld. Það er skilyrði fyrir reikiaðgangi að fyrirtæki sem krefst reikis hafi sjálft yfir að ráða farsímaneti þar sem því verður við komið. Hafi fyrirtæki sem krefst aðgangs að farsímaneti ekki yfir neinum farsímastöðvum að ráða fellur slík krafa undir almenna aðgangsákvæðið í 27. gr.
    Ákvæði 4. mgr. 20. gr. gildandi laga, sem fastsetur verð fyrir reikiaðgang við gjaldskrá að frádregnum þjónustuliðum sem ekki er þörf á, er fellt niður. Meginreglan verður að aðilar semji um verð. Ef hins vegar er talið að gjöld sem farið er fram á séu samkeppnishamlandi getur Póst- og fjarskiptastofnun beitt almennum reglum 32. gr. um verðlagningu gagnvart fyrirtækjum með umtalsverða markaðshlutdeild.

Um 36. gr.


    Fjárhagslegur aðskilnaður sérleyfisstarfsemi og fjarskiptastarfsemi er efni greinarinnar. Fjarskiptafyrirtæki sem njóta einka- eða sérréttinda á öðrum sviðum en fjarskiptum skulu halda fjarskiptastarfsemi sinni aðskilinni frá annarri starfsemi svo að útiloka megi að tekjur af starfsemi sem nýtur einkaréttar eða verndar verði notaðar til að styrkja fjarskiptastarfsemi fyrirtækisins og rýra með því samkeppnisaðstöðu annarra fyrirtækja. Gæta skal þess sérstaklega að fjarskiptarekstur í samkeppni verði ekki niðurgreiddur af tekjum af starfsemi sem vernduð er af einkaleyfi eða á annan hátt. Ákvæði greinarinnar sem byggjast á 13. gr. rammatilskipunarinnar eiga við um öll fyrirtæki sem njóta einkaréttar eða verndar án tillits til markaðshlutdeildar þeirra. Þau eiga jafnt við hvort sem fjarskiptareksturinn fer fram innan hins verndaða fyrirtækis eða í fyrirtæki sem það hefur yfirráð yfir.

Um VIII. kafla.


    Kafla um viðskiptaskilmála og gjaldskrá er að finna í gildandi lögum. VIII. kafli er að nokkru samsvarandi þeim kafla en þónokkrar breytingar hafa verið gerðar. Nokkru ítarlegra ákvæði er nú um viðskiptaskilmála, ákvæði um bókhald fyrirtækja er ekki lengur að finna í kaflanum, komið er inn nýtt ákvæði um gæði þjónustu og ákvæði um ábyrgðartakmarkanir sem er sjálfstæður kafli í gildandi lögum er nú hluti af þessum kafla.

Um 37. gr.


    Grein þessi er að mestu byggð á 20. gr. alþjónustutilskipunarinnar og mikið breytt frá gildandi lögum. 1. og 2. mgr. ákvæðisins eiga aðeins við um notendur á einstaklingsmarkaði enda er ekki talið að notendur á fyrirtækjamarkaði þarfnist jafnríkrar verndar, m.a. vegna þess að á þeim markaði tíðkast að gera sérsniðna samninga um fjarskiptaþjónustu. Í 1. mgr. er kveðið á um rétt áskrifenda að fjarskiptaþjónustu til þess að fá samning við fjarskiptafyrirtæki sem veitir slíka þjónustu og skulu samningar að lágmarki innihalda þau atriði sem talin eru upp í stafliðum a–g og skýra sig að mestu sjálf. Í 2. mgr. er kveðið á um rétt áskrifenda til þess að segja samningi upp fyrirvaralaust þegar fjarskiptafyrirtæki tilkynnir þeim um breytingu á gildandi skilmálum og skal áskrifendum veittur eigi styttri frestur en einn mánuður áður en breytingar á samningsskilmálum taka gildi. Samtímis því að breytingar eru kynntar skal upplýsa áskrifendur um rétt þeirra til þess segja upp fyrirvaralaust samningi án skaðabótaskyldu ef þeir vilja ekki samþykkja hina nýju skilmála.
    Fjarskiptafyrirtæki skulu skv. 3. mgr. senda Póst- og fjarskiptastofnun nýja og breytta skilmála og/eða gjaldskrá til upplýsingar áður en þeir taka gildi. Þessi upplýsingaskylda nær samkvæmt gildandi lögum aðeins til fyrirtækis með umtalsverða markaðshlutdeild. Ákvæðið er nú látið ná til allra fyrirtækja en framkvæmdin er einfölduð. Ekki þarf nú að senda breytingar inn með fyrirvara og þess er ekki krafist að Póst- og fjarskiptastofnun gefi umsögn áður en breytingar taka gildi. Póst- og fjarskiptastofnun mun einungis taka gjaldskrár og skilmála til athugunar ef sérstök ástæða er til að ætla að efni þeirra samrýmist ekki lögum og reglum. Að auki getur Póst- og fjarskiptastofnun þjónað notendum með því að gera samanburð á verði og auka þannig gagnsæi á markaðinum sem ætti að skila sér í virkari samkeppni. Fjarskiptaeftirlitsstofnanir í EES-ríkjum hafa sumar miðlað slíkum upplýsingum til notenda um nokkurra ára skeið.
    4. mgr. er nær óbreytt frá gildandi lögum.

Um 38. gr.


    Gerð hefur verið breyting á 1. mgr. frá gildandi lögum. Ákvæðið um að áskrifendur skuli eiga rétt á reikningum fyrir fjarskiptaþjónustu sundurliðuðum eftir tegund þjónustu þeim að kostnaðarlausu gildir nú eingöngu um alþjónustu, enda byggist ákvæðið á 10. gr. og I. viðauka alþjónustutilskipunarinnar. Í ákvæðinu felst að óheimilt er að innheimta sérstakt gjald fyrir reikningagerðina sem slíka, en það útilokar ekki að innheimtur sé kostnaður við útsendingu reikninga. Skv. 2. mgr. er heimilt að bjóða áskrifendum nánari sundurliðun á reikningi fyrir hæfilega greiðslu og gildir þetta t.d. þegar sundurliðuð eru mismunandi símtöl á reikningstímabilinu. Slíkir reikningar verða ekki gefnir út nema áskrifandi óski þess og uppfyllt séu skilyrði um vernd persónuupplýsinga. Áskrifandi á alltaf heimtingu á að fá ósundurliðaðan reikning óski hann þess.
    Í 3. mgr. er tekið fram að símtöl sem eru gjaldfrjáls megi ekki koma fram á sundurliðuðum reikningi, enda geta upplýsingar um slík símtöl falið í sér viðkvæmar persónuupplýsingar.
    Samkvæmt 4. mgr. er samgönguráðherra heimilt að setja reglugerð um meðferð upplýsinga sem nauðsynlegar eru í sambandi við reikningagerð, sundurliðun reikninga og málsmeðferð vegna kvartana.
    Ákvæði 5. mgr. eru nær óbreytt frá gildandi lögum, en í 6. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilað að veita undanþágu frá 5. mgr. í tilvikum þar sem ekki er talin þörf á sérstakri tilkynningu um yfirgjald. Þetta gæti t.d. átt við um ýmiss konar upplýsingaþjónustu sem veitt er í stuttnúmerum ef gjaldtaka er ekki úr hófi.

Um 39. gr.


    Grein þessi er aðskilin frá grein um reikninga notenda í gildandi lögum því að betur þótti fara á því að hafa ákvæðið í sérstakri grein en það er að mestu óbreytt.

Um 40 gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá 55. gr. gildandi laga. Með hliðsjón af öðru efni þessa kafla í frumvarpinu þykir ákvæðið eiga heima hér.

Um 41. gr.


    Gæðum þjónustu eru lítil skil gerð í gildandi lögum. Það er hins vegar vaxandi áhersla innan EES á gæði þjónustu við notendur, svo sem stuttan biðtíma eftir þjónustu, viðgerðartíma o.fl., sbr. 11. gr. alþjónustutilskipunarinnar.
    Samkvæmt ákvæðinu getur Póst- og fjarskiptastofnun gefið út reglur um gæði fjarskiptaþjónustu og um framsetningu upplýsinga um gæðin svo að notendur hafi aðgang að þeim. Líta ber á þessi ákvæði sem fyrsta áfanga í að veita notendum betri upplýsingar um gæði þjónustu hjá mismunandi þjónustuveitendum og auðvelda þeim samanburð.

Um IX. kafla.


    Kafli þessi um vernd persónuupplýsinga í fjarskiptum og friðhelgi einkalífsins er nýr og er aðeins hluta af efni hans að finna í gildandi lögum. Kaflinn er saminn með hliðsjón af nýrri tilskipun ESB um sama efni nr. 2002/58/EB. Fyrsti hluti kaflans fjallar um meðhöndlun gagna sem verða til um notkun fjarskiptaþjónustu, til að byrja með í þeim tilgangi að stýra fjarskiptaboðum milli stöðva og notenda og síðar sem undirbúningur fyrir reikningagerð. Um sjálfa reikningagerðina vísast til VIII. kafla.
    Sérstök grein er um ákvörðun á staðsetningu fjarskiptabúnaðar. Með nútímatækni má ekki einungis veita upplýsingar um staðsetningu í fastanetum, það er einnig hægt með nokkurri nákvæmni í farsímakerfum. Vegna augljósrar hættu á misnotkun upplýsinga er talið nauðsynlegt að setja ákvæði um þær í lögin.
    Skráningu áskrifenda í fjarskiptaþjónustu í símaskrá og upplýsingaþjónustu um númer eru gerð skil í ítarlegri grein en sams konar ákvæði eru í VIII. kafla gildandi laga um númer og vistföng.
    Kaflinn inniheldur einnig grein um óumbeðin fjarskipti, þ.e. markaðssetningu í gegnum fjarskiptaleiðir. Ákvæði um leynd og vernd fjarskipta sem eru í sérstökum kafla í gildandi lögum eru nú sameinuð þessum nýja kafla.

Um 42. gr.


    Greinin er byggð á 6. gr. persónuverndartilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er gerð krafa um eyðingu gagna um fjarskiptaumferð áskrifenda og notenda eftir að þeirra er ekki lengur þörf við stýringu og afgreiðslu fjarskiptanna. Við sendingu hvers konar fjarskipta verða til í netum og stoðkerfum ýmsar upplýsingar, t.d. um leiðir sem valdar voru fyrir sambandið hverju sinni, lengd fjarskipta, tímasetningu og magn. Ekki er nauðsynlegt að geyma öll þessi gögn eftir að sambandið hefur verið rofið. Í 2. mgr. er heimild til þess að geyma þann hluta þessara gagna sem nauðsynlegur er fyrir gerð reikninga og gildir heimildin til þess tíma þegar reikningur verður ekki lengur vefengdur eða hann fyrnist. Hið sama gildir um upplýsingar er varða uppgjör fyrir samtengingu neta og þjónustu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er rekstraraðila heimilt að vinna úr gögnum um fjarskiptaumferð í þeim tilgangi að markaðssetja fjarskiptaþjónustu eða vegna framboðs á virðisaukandi þjónustu. Sem dæmi má nefna leiðbeiningar um ódýrustu kosti í þjónustunni, upplýsingar um leiðir, upplýsingar um götu- og vegaumferð, veðurspár og ferðamannaupplýsingar, ef áskrifandi eða notandi sem gögnin eru um hefur veitt samþykki sitt fyrir fram. Samþykkið má afturkalla hvenær sem er.
    Krafa er gerð um það að þjónustuveitandi upplýsi áskrifendur eða notendur fyrir fram um hvaða gögn hann ætlar að taka til vinnslu og hversu lengi unnið verður úr gögnunum í þeim tilgangi sem heimilaður hefur verið.
    Í 5. mgr. eru taldir upp þeir hópar meðal starfsmanna rekstraraðila sem hafa ákveðin verkefni með höndum og mega vinna við úrvinnslu upplýsinga samkvæmt þessari grein. Nauðsynlegt er til að tryggja öryggi gagna að þau fari aðeins um hendur þeirra sem nauðsynlega þurfa að taka þátt í löglegri vinnslu þeirra.

Um 43. gr.


    Greinin er byggð á 9. og 10. gr. persónuverndartilskipunarinnar.
    Samkvæmt 1. mgr. eru settar takmarkanir á úrvinnslu upplýsinga um staðsetningu búnaðar í fjarskiptanetum eða þjónustu. Annað hvort verður að afla samþykkis viðkomandi áskrifenda eða notenda eða úrvinnsla verður að vera með þeim hætti að ekki er hægt að tengja upplýsingar við einstaka áskrifendur eða notendur. Notendur geta í sumum tilvikum haft gagn af þjónustu sem staðsetur fjarskiptabúnað og þar með notanda í flestum tilvikum. Fyrirtæki geta sum hver haft þörf fyrir að staðsetja fjarskiptabúnað í farartækjum sem eru á ferðinni á þeirra vegum. Slíkt er samkvæmt ákvæðinu ekki heimilt nema til komi samþykki vinnuveitanda og starfsmanns. Í 2. mgr. er veitt undanþága frá ákvæði 1. mgr. og er fjarskiptafyrirtækjum heimilt án samþykkis og þrátt fyrir tímabundna höfnun eða án samþykkis áskrifenda eða notenda að setja reglur um vinnslu staðsetningarupplýsinga hjá félögum sem annast almenna neyðarþjónustu á sviði löggæslu, sjúkraflutninga eða slökkvistarfa í þeim tilgangi að bregðast við neyðarköllum, sbr. neyðarþjónustu í síma 112. Það getur haft úrslitaáhrif varðandi björgun mannslífa að hægt sé að staðsetja þann sem hringir í neyðarþjónustu hratt og örugglega, en þeir sem hringja eru ekki alltaf færir um að upplýsa hvar þeir eru staddir. Því er æskilegt að neyðarþjónustuaðilar geti fengið viðkomandi upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum, en setja þarf skýrar reglur um meðferð þeirra til þess að tryggja að notkun sé eingöngu í samræmi við tilganginn og að öryggi gagna sé tryggt.

Um 44. gr.


    Ákvæði greinarinnar er nýtt en er í samræmi við 11. gr. persónuverndartilskipunarinnar. Sjálfvirkur hringiflutningur er þjónusta sem beinir símtölum í símanúmer í annað númer þar sem áskrifandinn er staddur þá stundina. Möguleikar á misnotkun eru greinilega fyrir hendi og ákvæði greinarinnar er ætlað að gera áskrifanda sem fær símtöl með þessum hætti kleift að stöðva slíkar hringingar.

Um 45. gr.


    Ákvæði 45. gr. eru byggð á 12. gr. persónuverndartilskipunarinnar og 5. gr. alþjónustutilskipunarinnar.
    1. mgr. er efnislega óbreytt frá 1. mgr. 34. gr. í gildandi lögum.
    Í 2. mgr. er nýtt ákvæði um rétt áskrifenda til að fá aðgang að upplýsingum sem til stendur að birta um þá í númeraskrám. Áskrifendur fá þá færi á að leiðrétta upplýsingar eða óska eftir að verða teknir úr skránni ef þeir kjósa svo.
    3. mgr. er samhljóða 3. mgr. 34. gr. gildandi laga.
    4. og 5. mgr. eru að mestu efnislega samhljóða 2. mgr. 34. gr. og 35. gr. gildandi laga. Nú er þó sérstaklega tekið fram að Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt viðeigandi kvaðir á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild til þess að tryggja markmið ákvæðisins um heildarsímaskrá yfir alla notendur.

Um 46. gr.


    Greinin er að mestu leyti nýmæli en hún er í samræmi við 13. gr. persónuverndartilskipunarinnar. Tilgangur hennar er að takmarka það ónæði sem notendur fjarskiptaþjónustu geta orðið fyrir vegna beinnar markaðssetningar með hjálp fjarskiptatækni. Í 1. mgr. segir að notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, faxtækja og tölvupósts fyrir beina markaðssetningu sé því einungis heimil að viðkomandi áskrifandi hafi veitt leyfi sitt. Sú undantekning er gerð í 2. mgr. að heimilað er að nota tölvupóstfang viðskiptavinar, sem viðkomandi fær upplýsingar um í sambandi við sölu á afurðum eða þjónustu, til þess að markaðssetja eigin afurðir eða þjónustu en það skilyrði er sett að viðskiptavinir hafi tækifæri til að andmæla slíkri notkun á auðveldan hátt og þeim að kostnaðarlausu. Möguleikar til andmæla skulu vera fyrir hendi bæði þegar skráning tölvupóstfangs fer fram og í hvert sinn sem tölvupóstur er sendur, þ.e. hafi áskrifandinn ekki neitað um samþykki þegar tölvupóstfang hans var skráð.
    Samkvæmt 3. mgr. er óheimilt að senda óumbeðin fjarskipti í formi beinnar markaðssetningar til áskrifenda sem óska ekki eftir að taka á móti slíkum sendingum.
    Í 4. mgr. er tekið fram að óheimilt sé að senda tölvupóst sem hluta af beinni markaðssetningu nema nafn og heimilisfang sendanda komi greinilega fram.
    5. mgr. er óbreytt frá 4. mgr. 34. gr. í gildandi lögum.

Um 47. gr.


    Í 1. mgr., sem byggð er á 4. gr. persónuverndartilskipunarinnar, er fjarskiptafyrirtækjum gert að skyldu að tryggja á viðeigandi hátt öryggi almennrar fjarskiptaþjónustu og hafa samráð við þá aðila sem annast rekstur fjarskiptaneta. Þjónustuveitendur skulu upplýsa áskrifendur þegar hætta er á því að leynd fjarskipta verði rofin. Bætt upplýsingaflæði um öryggi þjónustu og neta kann að verða lykilatriði í sambandi við innleiðingu á rafrænum viðskiptum.
    2.–5. mgr. samsvara 43. gr. og 1. og 2. mgr. 44. gr. gildandi laga og eru ákvæðin óbreytt.

Um 48. gr.


    Greinin er óbreytt frá 3.–6. mgr. 44. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að fyrirtæki sem opinber stofnun felur öryggishlutverk geti hljóðritað símtöl í samræmi við ákvæðið.

Um X. kafla.


    Hér er lagt til að lögfestur verði sérkafli um talsímaþjónustu. Í kaflanum er annars vegar um að ræða ýmis ákvæði um talsímaþjónustu sem eru á víð og dreif í gildandi lögum en hins vegar nýmæli sem er að mestu að finna stoð í alþjónustutilskipuninni auk þess sem ákvæði um númerabirtingu er að finna í 8. gr. persónuverndartilskipunarinnar. Grein um neyðarhringingar er tekin úr kafla gildandi laga um númer og vistföng. Kvartað hefur verið yfir því að engar reglur séu til um læsingar í talsímaþjónustu og er bætt úr því í þessum kafla auk þess sem lagt er til að lögfest verði ákvæði um númerabirtingu. Ákvæði um númeraflutning byggist á 1. mgr. 33. gr. gildandi laga og grein um forval og fast forval á 2. mgr. sömu greinar. Í lok kaflans er síðan ákvæði um verndun talsímanetsins sem snýr bæði að fjarskiptafyrirtækjum og notendum.

Um 49. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá 5. mgr. 32. gr. gildandi laga.

Um 50. gr.


    Í greininni er áskrifanda veitt heimild til að læsa fyrir símtöl í ákveðin númer. Hér er um nýmæli að ræða en það þykir eðlileg krafa að áskrifandi geti læst fyrir fram fyrir hringingar í símanúmer með yfirgjaldi. Í gildandi lögum er ekki ljóst hverjir skulu veita læsingarþjónustu, t.d. þegar áskrifandi hefur valið að nota fast forval. Hér er lagt til að það skuli vera fjarskiptafyrirtæki sem falin hefur verið alþjónusta. Ákvæðið byggist á 10. gr. alþjónustutilskipunarinnar og I. viðauka við þá tilskipun.

Um 51. gr.


    Í greininni er nýmæli sem byggist á 8. gr. persónuverndartilskipunarinnar, um að fjarskiptafyrirtæki sem reka almenna talsímaþjónustu skuli bjóða notendum númerabirtingu. Hér er um nýmæli að ræða en ekki verður séð að greinin hafi mikil áhrif á starfsemi fjarskiptafyrirtækja þar sem þessi þjónusta stendur notendum þegar til boða. Póst- og fjarskiptastofnun er falið að setja reglur um fyrirkomulag númerabirtingar sem skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd.

Um 52. gr.


    Í gildandi fjarskiptalögum er ákvæði um númeraflutning að finna í 1. mgr. 33. gr. Í frumvarpsgreininni er orðalaginu breytt til samræmis við 30. gr. alþjónustutilskipunarinnar en ekki er um eiginlega efnisbreytingu að ræða.

Um 53. gr.


    Ákvæði um forskeyti og forval sem eru í 2. mgr. 33. gr. gildandi laga hafa verið endurskoðuð með hliðsjón af fenginni reynslu og ákvæði 19. gr. alþjónustutilskipunarinnar. Skylda til þess að bjóða áskrifendum aðgang að þjónustu allra samtengdra fjarskiptafyrirtækja hvílir samkvæmt frumvarpinu eingöngu á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild en hvílir samkvæmt gildandi lögum á öllum fjarskiptafyrirtækjum. Póst- og fjarskiptastofnun er hins vegar falið að meta samkeppnisstöðuna á markaðinum og getur í samræmi við 26. gr. lagt skyldur um forval og fast forval á önnur fjarskiptafyrirtæki ef samkeppni telst ekki virk.
    Samkvæmt 3. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun tryggja að gjöld fyrir aðgang og samtengingu sem tengjast framboði á forvali og föstu forvali miðist við kostnað.
    Póst- og fjarskiptastofnun er með 4. mgr. veitt heimild til að setja reglur um forval og fast forval og framkvæmd þessarar þjónustu.

Um 54. gr.


    Ákvæði 54. gr. er samið með hliðsjón af 23. gr. alþjónustutilskipunarinnar. Þar sem viðvarandi örugg fjarskipti skipta miklu máli í nútímasamfélagi þykir sjálfsagt að hafa ákvæði um það að fjarskiptafyrirtæki lágmarki eins og kostur er hættuna á því að fjarskiptasamband í almennri talsímaþjónustu rofni.
    Í 2. mgr. er hins vegar lagt bann við því að notendur viðhafi háttsemi sem er til þess fallin að raska talsímanetinu.

Um XI. kafla.


    Í XI. kafla frumvarpsins er fjallað um stafrænt útvarp sem nær bæði til dreifingar á hljóðvarpi og sjónvarpi. Eins og fram hefur komið hefur sú breyting orðið að ekki er lengur gerður greinarmunur á fjarskiptanetum og þjónustu eftir því hvort um er að ræða útvarpsþjónustu eða aðra fjarskiptaþjónustu. Ákveðið var að setja þau ákvæði sem fjalla um stafrænt útvarp í sérstakan kafla þótt stoð fyrir einstökum ákvæðum sé að finna á víð og dreif í tilskipunum ESB.

Um 55. gr.


    Ákvæði um skyldu til að flytja útvarpsdagskrá byggist annars vegar á 12. gr. aðgangs- og samtengingartilskipunarinnar, sem kveður á um aðgang að fjarskiptanetum, og hins vegar á 31. gr. alþjónustutilskipunarinnar, sem fjallar um skyldu til að flytja ákveðna útvarpsdagskrá. Skylda til að flytja útvarpsdagskrá er nýmæli í lögum um fjarskipti en slíkar skyldur hafa viðgengist í sumum löndum, einkum í sambandi við kapalkerfi sjónvarps. Hér er gert ráð fyrir möguleika þess að leggja slíkar skyldur á aðila sem bjóða fjarskiptanet fyrir dreifingu útvarpsdagskrár þegar umtalsverður fjöldi notenda notfærir sér netið sem helsta möguleika sinn til þess að taka á móti útvarpi. Sú takmörkun er sett á framkvæmd þessa ákvæðis að slíkar skyldur verða einungis lagðar á þegar sérstaklega stendur á, t.d. til að ná markmiðum um útvarpsdreifingu til allra landsmanna. Við beitingu þessa ákvæðis verður haft samráð við menntamálayfirvöld.

Um 56. gr.


    Ákvæði 55. gr. byggist á 6. gr. aðgangs- og samtengingartilskipunarinnar. Í þessari grein eru ákvæði sem snerta stafræna hljóð- og sjónvarpsþjónustu en fram hefur komið áður að vegna samruna útvarpsþjónustu og annarrar fjarskiptaþjónustu inniheldur frumvarpið ýmis nýmæli um útvarpsnet. Samkvæmt ákvæðinu skal Póst- og fjarskiptastofnun setja reglur um skilyrtan aðgang þar sem m.a. skal kveða á um tæknilega eiginleika skilyrtra aðgangskerfa og skyldur fjarskiptafyrirtækja að veita öðrum aðgang að slíkum kerfum.
    Aðgangskerfi fyrir einátta stafræna sjónvarpsþjónustu má skipta í fjóra meginþætti:
     1.      SMS (Subscriber Management System): Gagnagrunnur yfir viðskiptavini og áskriftarleiðir þeirra.
     2.      SAS (Subscriber Authorization System): Grunneining aðgangskerfisins, sem býr til aðgangslykil sem ruglar sjónvarpsmerkið.
     3.      Læsieiningin (Scrambler) sem yfirleitt er staðsett í fjölflettibúnaði móðurstöðvar.
     4.      Myndlykill og aðgangskort viðskiptavinar.

Um 57. gr.


    Greinin fjallar um gagnvirka stafræna sjónvarpsþjónustu og notkun opinna staðla og er byggð á 18. gr. rammatilskipunarinnar. Póst- og fjarskiptastofnun er falið að hvetja til þess að þeir sem annast sölu á þróuðum stafrænum sjónvarpsbúnaði fylgi opnum staðli fyrir forritunartengsl en slík tengsl eru talin munu skipta miklu máli þegar stafrænt sjónvarp verður gert gagnvirkt.

Um 58. gr.


    Um er að ræða nýtt ákvæði um að almenn fjarskiptanet sem hafa að hlutverki að dreifa stafrænu sjónvarpi skuli geta flutt sjónvarpsmerki og dagskrá fyrir breiðskjá. Ef merkið er fært úr einu neti í annað skal viðhalda breiðskjárforminu, eins og fjallað er um í 2. tölul. 4. gr. aðgangs- og samtengingartilskipunarinnar.

Um XII. kafla.


    Kaflinn um fjarskiptabúnað hefur tekið nokkrum breytingum frá gildandi lögum að því er varðar niðurröðun greina. Stuðst er við tilskipun nr. 1999/5/EB um notendabúnað í fjarskiptum auk 17. gr. rammatilskipunarinnar. Ákvæði um tækjabúnað almennra fjarskiptaneta nær nú til fjarskiptabúnaðar í öllum netum, ákvæði um notendabúnað nær nú einnig yfir þráðlausan búnað og ákvæði um þráðlausan sendibúnað hefur verið fært undir þennan kafla en er í gildandi lögum í sérstökum kafla um þráðlaus fjarskipti. Ákvæði um takmörkun fjarskipta vegna truflana hefur verið flutt úr kaflanum um uppsetningu og vernd fjarskiptavirkja í gildandi lögum. Greinar um viðurkenningu búnaðar og markaðseftirlit eru á sínum stað.
    

Um 59. gr.


    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 36. gr. gildandi laga.

Um 60. gr.


    Tvær breytingar eru lagðar til á 38. gr. gildandi laga. Gefinn er kostur á því að húskassi geti verið annaðhvort innsiglaður eins og gilt hefur eða læstur. Talið er að læsing geti verið auðveldari í framkvæmd en innsiglun. Bætt hefur verið við ákvæði sem tryggir fjarskiptafyrirtækjum aðgang að húskassa þegar þeim berst umsókn um þjónustu frá íbúa eða fyrirtæki í viðkomandi byggingu.
    

Um 61. gr.


    Í fyrirsögn hefur verið bætt við tilvísun í tæki fyrir þráðlaus fjarskipti þar eð greinin fjallar einnig um slíkan búnað. Efni greinarinnar er óbreytt miðað við 37. gr. gildandi laga.

Um 62. gr.


    Ákvæði greinarinnar samsvarar efnislega 46. gr. og 2. og 3. mgr. 47. gr. núgildandi laga.
    

Um 63. gr.


    Ákvæðið er óbreytt frá 47. gr. gildandi laga.

Um 64. gr.


    Greinin er óbreytt frá 50. gr. gildandi laga.
    

Um 65. gr.


    Greinin er óbreytt frá 39. gr. gildandi laga að því undanskildu að í 2. mgr. hefur verið bætt við að upplýsa eigi kaupendur þráðlauss búnaðar um skyldu þeirra að sækja um leyfisbréf.

Um 66. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá 40. gr. gildandi laga en lítils háttar breytingar eru gerðar á orðalagi.

Um XIII. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um réttindi til að starfa við fjarskiptavirki. Röð greina hefur verið víxlað frá gildandi lögum og seinni greininni um heimildir til starfrækslu þráðlauss búnaðar hefur verið breytt nokkuð.

Um 67. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá 42. gr. gildandi laga.

Um 68. gr.


    Gerðar hafa verið nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Í 1. mgr. er orðalagið almennara en áður en ekki tengt eingöngu búnaði í farartækjum. Skv. 2. mgr. verður ekki gerð krafa um að þeir sem starfrækja þráðlausan búnað hafi fengið sérstaka þjálfun nema að búnaðurinn gegni öryggishlutverki eða hafi sendiafl meira en 100 vött. Þeir sem ætla að nota fjarskiptabúnað skipa og flugvéla verða að hafa fengið hjá Póst- og fjarskiptastofnun skírteini talstöðvavarðar sem veita alþjóðleg réttindi og skulu þess vegna fylgja alþjóðasamþykktum. Umsækjanda um skírteini ber að leggja fram gögn til sönnunar því að hann hafi fengið þjálfun í notkun þráðlauss búnaðar í skóla sem Póst- og fjarskiptastofnun viðurkennir.
    Í 3. mgr. er nýmæli um að veita megi útlendingum sem hér dvelja um stundarsakir undanþágu til þess að starfrækja fjarskiptabúnað en tilskilið er að þeir hafi réttindi til slíks í heimalandi sínu.
    Í 4. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun veitt heimild til þess að setja nánari reglur um starfrækslu fjarskiptabúnaðar í höndum einstaklinga.
    Í 5. mgr. hafa verið gerðar þær breytingar að gert er ráð fyrir umsögn hagsmunasamtaka áhugamanna áður en leyfi til radíóáhugamanna eru veitt en ekki áskilið hvert heiti samtakanna skuli vera hverju sinni. Rýmkað er um rétt erlendra ríkisborgara til þess að fá leyfi radíóáhugamanna hér á landi.

Um XIV. kafla.


    Kaflinn fjallar um uppsetningu og vernd fjarskiptavirkja og er efnislega nær óbreyttur miðað við XIII. kafla í gildandi lögum. Sú breyting hefur verið gerð að 50. og 51. gr. gildandi laga eru færðar í aðra kafla frumvarpsins og 48. gr. í gildandi lögum hefur verið skipt í tvær greinar í frumvarpinu, 69. og 70. gr.

Um 69. gr.


    Ákvæði 69. gr. samsvarar efnislega 1. og 2. mgr. 48. gr. gildandi laga og hefur heiti ákvæðisins verið breytt. Með þessum breytingum verður að telja framsetningu reglna um aðgang að landi og eignarnám vera skýrari en samkvæmt núgildandi lögum.

Um 70. gr.


    Greinin er óbreytt frá 3. mgr. 48. gr. gildandi laga.

Um 71. gr.


    Í þessari grein eru sameinaðar 49., 52. og 53. gr. gildandi laga án þess að gerðar séu breytingar á efni eða texta. Það er talið rökrétt að fjalla um vernd fjarskiptastrengja í sjó í beinu framhaldi af umfjöllun um vernd fjarskiptavirkja á landi.

Um 72. gr.


    Greinin er óbreytt frá 54. gr. í gildandi lögum nema að lagt er til að komi til endurgjalds, sbr. 2. mgr., skuli það vera samkvæmt mati Póst- og fjarskiptastofnunar.

Um XVI. kafla.


    Í kaflanum er gerð grein fyrir úrræðum Póst- og fjarskiptastofnunar þegar brotið er gegn reglum um almennar heimildir og réttindi fjarskiptafyrirtækja eða gegn ákvæðum laga og reglugerða um fjarskipti. Gerðar eru ýmsar breytingar á efni kaflans í samræmi við breytingar sem orðið hafa á reglum um heimildir fjarskiptafyrirtækja.

Um 73. gr.


    Í 1. mgr. er gerð grein fyrir skyldum fjarskiptafyrirtækja að veita Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar til þess að stofnunin geti gengið úr skugga um að fyrirtækin virði skilyrði almennra heimilda eða sérstakar kvaðir sem á þau eru lagðar.
    Í 2. mgr. segir frá skyldu Póst- og fjarskiptastofnunar til að gefa fyrirtækjum sem talin eru brotleg kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða að lagfæra brot sín innan ákveðinna tímamarka sem að jafnaði eru einn mánuður.
    Í 3. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun fengin heimild til aðgerða ef ekki er látið af broti en þær geta m.a. falist í dagsektum. Allar ákvarðanir stofnunarinnar verður að rökstyðja og tilkynna fjarskiptafyrirtækinu sem í hlut á og veita því frest til þess að verða við ákvörðuninni.
    Samkvæmt 4. mgr. getur Póst- og fjarskiptastofnun beitt fjarskiptafyrirtæki dagsektum ef umbeðnar upplýsingar sem skylt er að veita lögum samkvæmt eru ekki veittar innan hæfilegs tíma.
    Í 5. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun veitt heimild til að stöðva rekstur fjarskiptafyrirtækis eða afturkalla réttindi tímabundið eða varanlega ef um er að ræða alvarlegt og endurtekið brot.
    Í sérstökum alvarlegum tilfellum, þegar sannanir liggja fyrir um brot á skilmálum og skilyrðum almennra heimilda og réttinda sem geta leitt til yfirvofandi hættu fyrir öryggi og heilsu almennings eða til vandamála í rekstri annarra fjarskiptafyrirtækja eða fyrir notendur neta og þjónustu, getur Póst- og fjarskiptastofnun skv. 6. mgr. tekið bráðabirgðaákvarðanir til þess að bæta sem fyrst úr ástandinu. Áður en stofnunin tekur endanlega ákvörðun sem getur verið í formi staðfestingar á bráðabirgðaákvörðun skal viðkomandi fyrirtæki gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hugsanlega leggja til úrbætur.

Um 74. gr.


    Ákvæði 1.–3. mgr. eru óbreytt frá 1.–3. mgr. 57. gr. gildandi laga.
    Í 4. mgr. er gerð breyting frá 4. mgr. 57. gr. gildandi laga sem takmarkar gildi ákvæðisins við fjarskiptabúnað og starfrækslu hans en tilvísanir í tæki og hluti og innflutning og smíði eru felldar niður.
    Í 5. mgr. er texti færður til samræmis við breytingar á III. kafla frumvarpsins.

Um 75. og 76. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um fjarskipti.

    Tilgangur frumvarpsins er m.a. að innleiða í íslensk lög breytingar sem hafa orðið á fjarskiptalöggjöf ESB og EFTA og hafa verið birtar í nýjum tilskipunum ESB. Skv. 22. gr. frumvarpsins er lagt til að jöfnunargjald skuli lagt á fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja fjarskiptanet og/eða fjarskiptaþjónustu, en skv. 15. gr. gildandi laga hvílir gjaldskyldan eingöngu á fyrirtækjum sem starfrækja talsímaþjónustu eða gagnaflutningi. Lagt er til að þessi grein frumvarpsins öðlist gildi 1. janúar 2004 og komi fyrst til framkvæmda árið 2005. Einnig er í frumvarpinu lagt til að jöfnunargjald verði sett í sérstakan jöfnunarsjóð í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar sem verði með því móti aðskilinn fjárhag stofnunarinnar. Jöfnunargjaldið skal standa undir greiðslum til fjarskiptafyrirtækja fyrir alþjónustu. Þegar 22. gr. frumvarpsins tekur gildi 1. janúar 2004 er áætlað að stofn til álagningar jöfnunargjalds verði u.þ.b. 26 milljarðar kr. Samkvæmt því eru áætlaðar tekjur af jöfnunargjaldinu u.þ.b. 31 m.kr. árið 2005. Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög nr. 107/1999, um fjarskipti.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem gert er ráð fyrir tekjum á móti gjöldum.