Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 627. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1011  —  627. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2002.

1.     Inngangur.
    Málefni Atlantshafsbandalagsins (NATO) voru ofarlega á baugi í alþjóðamálum á árinu 2002. Segja má að þrjú meginmálefni hafi sett mark sitt á bandalagið, stækkun þess til austurs, breytingar á bandalaginu svo að það verði færara um að mæta hryðjuverkaógninni og nýr samstarfsvettvangur Atlantshafsbandalagsríkjanna og Rússlands. Efnt var til sögulegs leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Prag í nóvember þar sem m.a. var ákveðið að bjóða sjö Mið- og Austur-Evrópuríkjum, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Slóveníu, Slóvakíu, Rúmeníu og Búlgaríu til aðildarviðræðna við NATO. Markar ákvörðun leiðtoga NATO mikil tímamót, ekki síst fyrir Eystrasaltsþjóðirnar sem íslensk stjórnvöld hafa stutt eindregið í málflutningi sínum og lagt hafa mikið á sig til að ná fram leiðréttingu á því sögulega ranglæti sem þær voru beittar undir járnhæl Sovétríkjanna í kalda stríðinu.
    Í 54 ára sögu Atlantshafsbandalagsins hefur aðeins verið efnt til 16 leiðtogafunda og hefur tíðni þeirra aukist mjög eftir lok kalda stríðsins og er það til marks um örar breytingar alþjóðamála og ríka þörf á ákvörðunartöku á æðsta vettvangi stjórnmála. Ekki er efnt til slíkra funda nema mikilvæg ákvörðunarefni liggi fyrir og átti það við um leiðtogafundinn í Prag líkt og fyrri fundi. Helstu niðurstöðum leiðtogafundarins má skipta í fimm hluta. Í fyrsta lagi var það hin sögulega ákvörðun að bjóða ríkjunum sjö til aðildarviðræðna. Fyrirhugað er að af formlegri aðild ríkjanna geti orðið vorið 2004 og með því mun Evrópa færast nær því marki að vera eitt og órofa öryggissvæði. Jafnhliða ákvörðun um stækkun nú liggur fyrir ríkur vilji til aðildar annarra Evrópuríkja sem sótt hafa um aðild, í fyllingu tímans. Í öðru lagi létu leiðtogar aðildarríkja NATO skýrt í ljós að nauðsynlegt væri að lagfæra það misræmi sem ríkir í hernaðargetu Bandaríkjanna og Evrópuríkjanna í NATO. Bandalagsríkin skuldbundu sig til þess að bæta veigamikla hernaðarþætti eins og loft- og sjóflutninga, eldsneytistöku í lofti og leysistýrð skotfæri. Þá studdu leiðtogar aðildarríkjanna 19 tillögur Bandaríkjastjórnar um að koma á fót sérstöku hraðliði NATO sem beita mætti í hernaðaraðgerðum með afar skömmum fyrirvara. Í þriðja lagi voru teknar ákvarðanir um ákveðnar aðgerðir til að gera NATO færara um að kljást við hryðjuverkaógnina. Hefur bandalagið skilgreint hryðjuverkaógnina hernaðarlega með þeim hætti að yfirherstjórn NATO verði unnt að beita skilvirkum varnaraðgerðum gegn hryðjuverkaárásum. Milliríkjasamstarf á sviði trúnaðarupplýsinga mun aukast og þróaðar verða leiðir til að hrinda árásum hryðjuverkamanna. Þá var ákveðið að finna baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi vettvang meðal allra samstarfsríkja NATO. Í fjórða lagi var ákveðið að auka varnir gegn gereyðingarvopnum. Útbreiðsla gereyðingarvopna er einn brýnasti vandi sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir um þessar mundir og hefur Atlantshafsbandalagið ákveðið að bæta tæknilega getu sameiginlegs herafla síns til að bregðast við ef gereyðingarvopnum er beitt í hernaði og mun sá viðbúnaður einnig nýtast til almannavarna í aðildarríkjunum, en í aðildarríkjunum er fyrir hendi mikil þekking og sérhæfing í þessum málaflokki. Þá munu bandalagsríkin beita sér fyrir bættum gagneldflaugavörnum. Í fimmta lagi ákváðu leiðtogar bandalagsins að auka vægi tengslanna við samstarfsríki NATO í Mið-Asíu og á Miðjarðarhafssvæðinu. Atlantshafsbandalagið hefur um árabil átt farsæla samvinnu við samstarfsríkin í gegnum Samstarf í þágu friðar (PfP), Evró-Atlantshafssamstarfsráðið (EAPC) og Miðjarðarhafssamstarfið. Á Prag-fundinum var því ákveðið að auka samstarf þetta til muna. Þá er ónefndur sá sögulegi áfangi er gengið var frá samningi um nýjan samstarfsvettvang NATO-ríkjanna og Rússlands á fundi utanríkisráðherra bandalagsins í Reykjavík í maí. Með undirritun samningsins urðu Rússar þar með sérlegir bandamenn Atlantshafsbandalagsins.
    Starfsemi NATO-þingsins og umræður á þess vegum á árinu tóku einnig mið af þessum veigamiklu breytingum á starfi Atlantshafsbandalagsins. Málefni stækkunar NATO hafa verið fyrirferðarmikil í störfum þingsins á undanförnum árum og hafa fulltrúar þess verið einarðir stuðningsmenn metnaðarfullrar stækkunar bandalagsins. Stjórnarnefnd þingsins birti efnismikla yfirlýsingu þess efnis fyrir leiðtogafundinn í Prag sem tók enn fremur til flestra þeirra efnisþátta sem um var rætt á fundinum. Þá hélt NATO-þingið og málefnanefndir þess áfram gagngerri umfjöllun sinni um allar hliðar hryðjuverkastarfsemi og baráttu alþjóðasamfélagsins til mæta hryðjuverkaógninni. Þá stofnaði NATO-þingið til sérlegrar samstarfsnefndar stjórnarnefndarinnar og rússneska þingsins til samræmis við samstarfsvettvang NATO og Rússlands. Af öðrum málefnum sem hátt bar á dagskrá NATO-þingsins má nefna umfjöllun um stofnanalegar breytingar NATO og öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins, hömlur gegn útbreiðslu gereyðingarvopna, stöðu mála í Írak og Miðausturlöndum og öryggissamstarf á Evró-Atlantshafssvæðinu.

2.     Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar NATO-þingsins í upphafi ársins 2002 voru Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, formaður, Guðmundur Árni Stefánsson, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformaður, og Jónína Bjartmarz, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Árni R. Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Í kjölfar þess að Tómas Ingi Olrich tók við menntamálaráðuneytinu 1. mars tók Árni R. Árnason sæti hans sem formaður Íslandsdeildar 8. mars. Gunnar Birgisson tók þá sæti sem varamaður.
    Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildarinnar.
    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fulltrúar aðildarríkja tekið þátt í öllum nefndum þess. Smæð Íslands takmarkar atkvæðisrétt ríkisins við þrjár nefndir, auk stjórnarnefndar. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2001 var þannig:

Stjórnarnefnd: Árni R. Árnason.
    Til vara: Jónína Bjartmarz.
Stjórnmálanefnd: Árni R. Árnason.
    Til vara: Gunnar Birgisson.
Varnar- og öryggismálanefnd: Jónína Bjartmarz.
    Til vara: Magnús Stefánsson.
Félagsmálanefnd: Guðmundur Árni Stefánsson.
    Til vara: Ásta R. Jóhannesdóttir.
Efnahagsnefnd: Jónína Bjartmarz.
    Til vara: Magnús Stefánsson.
Vísinda- og tækninefnd: Guðmundur Árni Stefánsson.
    Til vara: Ásta R. Jóhannesdóttir.
Miðjarðarhafshópur: Árni R. Árnason og
Guðmundur Árni Stefánsson.

3.     Fundir sem Íslandsdeildin sótti á árinu.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Auk þess fundar stjórnarnefnd sérstaklega ár hvert, ýmist í lok mars eða byrjun apríl. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður- Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Nefndir og undirnefndir þingsins halda reglulega námsstefnur og fundi á milli þingfunda. Jafnframt stendur varnar- og öryggismálanefnd árlega fyrir kynnisferð til eins eða fleiri aðildarríkja bandalagsins til að skoða ýmis hernaðarmannvirki og búnað. Á árinu voru haldnar tvær Rose-Roth námsstefnur (sjá fskj. II, b-lið).
    Árið 2002 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel og fundi stjórnarnefndar sem haldinn var í Granada, vor- og ársfundum þingsins í Sofíu og Istanbúl, auk sjö nefndafunda utan þingfunda. Utan reglulegra funda var efnt til sérlegs stjórnarnefndarfundar í Brussel í október.

a.    Febrúarfundir.
    Dagana 17.–18. febrúar voru febrúarfundir NATO-þingsins haldnir í Brussel. Að venju var um að ræða sameiginlegan fund stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar annars vegar, og fund stjórnarnefndar með Norður-Atlantshafsráðinu og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins hins vegar. Auk funda með fulltrúum NATO áttu fulltrúar NATO-þingsins fundi með fulltrúum ráðherraráðs Evrópusambandsins, tímabundinnar herstjórnar Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Aukaaðilar NATO-þingsins hafa ekki seturétt á fundum og hefur mikilvægi þeirra aukist mjög á undanförnum árum, ekki síst í ljósi þess að þar gefst fulltrúum aðildarríkja bandalagsins færi til að ræða einir saman. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Tómas Ingi Olrich formaður og Jónína Bjartmarz fundina, auk ritara. Helstu umræðuefni voru hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi, stríðið í Afganistan, þróun Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum og ástand mála á Balkanskaga. Þess utan var rætt um samskipti Evrópu og Bandaríkjanna á fundi með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB.
    Fund stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar NATO- þingsins ávarpaði einn yfirmanna stjórnmáladeildar Atlantshafsbandalagsins, Michael Rühle. Þá héldu erind i dr. Edgar Buckley, aðstoðarforstöðumaður varnarmáladeildarinnar, Chris Donnely, sérlegur ráðgjafi framkvæmdastjóra NATO í málefnum Mið- og Austur-Evrópuríkja, Christoph Heusgen, yfirmaður stefnumótunardeildar ráðherraráðs ESB, og Gustav Hägglund, formaður varnarmálanefndar ESB. Svöruðu þeir og spurningum fundarmanna. Þriðjudaginn 19. febrúar var efnt til funda í húsakynnum ESB þar sem erindi héldu Mogens Peter Carl, yfirmaður skrifstofu viðskiptamála hjá framkvæmdastjórn ESB, Chris Patten, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB, og Günther Verheugen, sem fer með stækkunarmál ESB í framkvæmdastjórninni.
    Rafael Estrella, forseti NATO-þingsins, hóf almennar umræður og lagði áherslu á að tryggja samvinnu og samstöðu innan NATO þegar hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi og Evrópusamstarfið í öryggis- og varnarmálum bæri á góma. Michael Rühle rakti í máli sínu hvernig samskiptum Bandaríkjanna og Evrópuríkjanna væri háttað um þessar mundir og hvernig hann sæi fyrir sér Atlantshafsbandalagið eftir 10–15 ár. Sagði Rühle að þrátt fyrir að aukins vilja gætti hjá Bandaríkjamönnum til einhliða aðgerða yrðu menn að gæta sín á að festast ekki um of í viðfangsefnum dagsins í dag. NATO stæði á afar sterkum grunni og menn mundu átta sig á að hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi tæki tíma og útheimti fjármuni og ríkan pólitískan vilja. ESB væri að þróast hratt um þessar mundir og væri það farsælt með tilliti til framtíðar NATO. Sagðist hann jafnframt sjá fyrir sér að skilningur manna á stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins mundi breytast og taka aukið mið af tilkomu baráttunnar gegn hryðjuverkastarfsemi.
    Dr. Edgar Buckley vék að hryðjuverkamálum í erindi sínu og rakti hversu litla athygli þau mál hefðu fengið fyrir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin þrátt fyrir varnaðarorð ýmissa sérfræðinga. Sagði hann að NATO hefði brugðist afar skjótt við og tekið mikilvægar ákvarðanir sem hefðu áhrif til framtíðar. Mikil endurskoðun ætti sér nú stað innan NATO, bæði á tæknilegum málum sem og hvað stefnumótun varðaði og sagðist Buckley sjá fyrir sér að viðlíka breyting yrði á starfsemi NATO nú í nánustu framtíð og varð strax eftir lok kalda stríðsins. Sagðist hann auk þess sjá fyrir sér að hömlur gegn útbreiðslu gereyðingarvopna og samstarf á sviði trúnaðarupplýsinga mundi bera hærra á vettvangi NATO í nánustu framtíð. Buckley ræddi einnig um stækkunarferli NATO og sagði að enn væri óljóst hve mörgum ríkjum yrði boðið til aðildarviðræðna á leiðtogafundinum í Prag sem haldinn yrði í nóvember. Sagði hann að mikill munur væri á milli umsóknarríkjanna hvernig undirbúningi samkvæmt aðildaráætluninni miðaði. Þá vék Buckley að samskiptum NATO og Rússlands og greindi fundarmönnum stuttlega frá fyrirætlunum um að efna til nánara samstarfsráðs NATO og Rússlands þar sem ríkin 20 kæmu saman á jafningjagrundvelli. Sagði hann að áætlunum í þessa veru yrði komið á legg á fundi utanríkisráðherra NATO sem haldinn yrði í Reykjavík í maí.
    Chris Donnely, sérlegur ráðgjafi framkvæmdastjóra NATO í málefnum Mið- og Austur- Evrópuríkja, hélt áhugavert erindi á fundinum þar sem hann vék að framtíð Atlantshafsbandalagsins og alþjóðamálum í víðu samhengi. Sagði hann að heimsbyggðin stæði á miklum tímamótum um þessar mundir og að það gerði NATO einnig. NATO mundi að öllum líkindum takast það viðfangsefni að endurskilgreina hlutverk sitt til lengri tíma en ef það tækist ekki þá mundi hlutverk bandalagsins að engu verða innan skamms. Taldi hann fjóra meginþætti varða veginn til nánustu framtíðar. Í fyrsta lagi ræddi Donnely um útbreiðslu gereyðingarvopna og tækni þeim tengda og sagði tilkomu þeirra og það hversu auðvelt er að nálgast búnað til smíði þeirra gerði það að verkum að stríð og ógnanir framtíðarinnar væru mun hættulegri en ella. Í öðru lagi rakti Donnely aukna skiptingu heimsbyggðarinnar samkvæmt trúar- og menningarlínum. Sagði hann að varnaðarorð um árekstur menningarheima væru fráleitt hjóm eitt og að rétttrúnaðarstefna Íslam væri í eðli sínu gegn vestrænu samfélagi. Sagði hann að þetta kynni að móta mjög alþjóðasamskipti á næstunni. Í þriðja lagi ræddi Donnely um upplýsingasamfélagið og hversu örðugt væri að stjórna upplýsingum í nútímanum og hversu mikinn aðgang almenningur hefur að viðkvæmum upplýsingum sem skapaði ákveðin vandræði fyrir samtök og stofnanir. Og í fjórða lagi nefndi Donnely endalok tvípóla alþjóðakerfis sem hefðu gert það að verkum að hugtök líkt og varnir og öryggi – sem á tímum kalda stríðsins voru eitt og hið sama – hefðu gerbreyst. NATO hefði verið að þróast úr varnarbandalagi yfir í öryggisbandalag og afleiðingar þessa væru fjárfestingar í öryggi en ekki vörnum. Í auknum mæli hefur ábyrgðin færst frá varnarmálaráðuneytum aðildarríkja NATO til utanríkis-, innanríkis- og fjármálaráðuneytanna. Spurningin sem kviknaði væri hvað NATO mundi gera til að koma til móts við þessa þróun því enn sem komið væri miðaðist stofnanaskipulag bandalagsins að stærstum hluta við varnir samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu þess hugtaks. Í umræðum sem á eftir fóru sagði Tómas Ingi Olrich að ljóst væri að grundvallarbreytinga væri þörf og að þær yrði að gera í ríkjunum sjálfum, stofnanir líkt og ESB gætu ekki gert slíkar breytingar. Þá vék hann að samskiptum Bandaríkjanna og Evrópuríkjanna og varaði við skaðanum af þeirri orðræðu sem ætti sér stað í höfuðborgum Evrópuríkja um einangrunarstefnu Bandaríkjastjórnar. Sagði Tómas Ingi að menn yrðu að horfa á hluti í sögulega ljósi. Bandaríkin hefðu t.a.m. ekki beitt sér í heimsstyrjöldinni síðari fyrr en eftir að miklar hörmungar hefðu orðið í Evrópu. Að sama skapi ættu Bandaríkjamenn, sem nú ættu um sárt að binda, að geta gengið að stuðningi Evrópubúa vísum. Þá ræddi hann um að menn yrðu að forðast að breyta eðli Atlantshafsbandalagsins um of og ætla sér hlutverk í öllum viðsjám sem upp kynnu að koma. Leggja beri líka áherslu á að nýta allar þær stofnanir sem fyrir hendi væru.
    Á fundi fulltrúa NATO-þingsins með Christoph Heusgen, yfirmanni stefnumótunardeildar ráðherraráðs ESB, var rætt um helstu forsendur Evrópusamstarfsins í öryggis- og varnarmálum og vék hann að þeim öru stofnanalegu breytingum sem nú hefðu átt sér stað innan ESB, og þá sérstaklega stjórnmála- og öryggismálanefndinni. Ræddi hann um verkefni friðargæslusveita á Balkanskaga og hlutverk ESB hvað það varðaði. Þá gerði Heusgen samskiptin við NATO að umtalsefni og lagði áherslu á að öryggis- og varnarmálastefna ESB hefði það að meginforsendu að grípa eingöngu til aðgerða þegar fyrirséð væri að aðgerð yrði ekki í verkahring NATO. Sagði hann mikilvægt að menn gerðu sér grein fyrir að ESB hygðist ekki byggja upp aðskildan hernaðarmátt.
    Á fundi stjórnarnefndar með Norður-Atlantshafsráðinu var að mestu fjallað um þátt NATO í hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi, samskiptin við Rússland, hernaðaraðgerðir í Afganistan og fyrirhugaða stækkun NATO.
    Mogens Peter Carl, yfirmaður skrifstofu viðskiptamála hjá framkvæmdastjórn ESB, ræddi við fundarmenn um stöðu viðskipta Bandaríkjanna og Evrópusambandsríkjanna, einkum með tilliti til viðskipta með stál, réttar á sýningu kvikmynda og annarra mála sem deilur hafa staðið um milli Bandaríkjastjórnar og ESB. Sagði Carl að í ljósi þess hve mikil viðskipti væru yfir hafið þá væri öllu öðru mikilvægara að finna lausnir á viðkvæmum deilumálum í stað þess að efna til viðskiptastríða með tiltekna vöruflokka. Með tilkomu gerðardóms Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar væri áherslan lögð á að leysa mál áður en þau væru komin í hnút og sagði Carl að úrræðum hefði fjölgað mikið að undanförnu og hvatti Bandaríkjamenn til að sýna meiri samningsvilja.
    Chris Patten, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB, ræddi um stöðu ESB í alþjóðakerfinu nú um stundir og í sögulegu ljósi. Greindi hann fundarmönnum frá því að hvað öryggis- og varnarmálastefnu sambandsins varðaði hafi stríðið í Bosníu og Hersegóvínu gert mönnum ljóst að Evrópumenn þyrftu að hafa aukna getu til að leysa hættuástand sem upp kæmi innan álfunnar og að í kjölfar þess stríðs hefði þróunin orðið afar hröð. Sagðist hann vera þeirrar skoðunar að ESB hefði ekki beitt sér nægilega mikið í þessum málaflokki. Að lokum vék Patten að stækkunarferli ESB og samskiptunum við Rússland.

b.    Fundur stjórnarnefndar.
    Laugardaginn 6. apríl kom stjórnarnefnd NATO-þingsins saman til fundar í Granada. Fundinn sat af hálfu Íslandsdeildar Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður, auk Andra Lútherssonar ritara. Á fundinum var m.a. rætt um skipulag starfsemi þingsins, samskiptin við aukaaðildarríki og aðdraganda leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins síðar á árinu. Þá var nokkrum tíma varið í að ræða málefni Ísraels og Palestínu auk þess sem samþykkt var yfirlýsing stjórnarnefndar um stöðu mála í Miðausturlöndum.
    Fyrsta málefni fundarins var umfjöllun um skýrslu framkvæmdastjóra þingsins, Simons Lunn, sem sagði í framsögu sinni að NATO-þingið hefði á undangengnum missirum tekist á hendur fjölmörg ný verkefni í takt við þau nýju málefni sem Atlantshafsbandalagið sjálft hefði beitt sér í að undanförnu. Nefndi hann þar samráðsvettvang NATO-þingsins við Rússland og Úkraínu, auk nokkurra undirnefnda sem beita sér í tilteknum efnum. Sagði Lunn að nú væri svo komið að kraftar skrifstofu NATO-þingsins nægðu ekki til þess að bæta við fleiri verkefnum að sinni og lagði áherslu á að NATO-þingið einbeitti sér að þeim verkefnum sem þegar væru í gangi. Í almennum umræðum um skýrslu framkvæmdastjórans var nokkrum tíma varið í að ræða aðdraganda leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins sem ráðgert var að halda í Prag í nóvember og hlutverk NATO-þingsins, og þá sér í lagi hvernig þingið beitti pólitískum þunga sínum hvað næstu lotu stækkunar bandalagsins varðaði. Fram kom að leiðtogafundurinn væri afar mikilvægur áfangi í þróun NATO, ekki aðeins með tilliti til stækkunarferlisins heldur einnig með tilliti til starfsemi bandalagsins á næstunni. Auk stækkunar NATO nefndi framkvæmdastjórinn sérstaklega þau málefni sem yrðu efst á baugi á starfsárinu og á fyrrgreindum leiðtogafundi NATO í Prag, þ.e. samskiptin við Rússland, hina alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi, endurskipulagningu herstjórnar NATO, umræðuna um útgjöld til varnarmála, samskiptin við Evrópusambandið og samskiptin við Miðjarðarhafsríkin. Greindi Lunn frá því að allar málefnanefndir NATO-þingsins tækju alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi til gagngerrar og heildrænnar skoðunar í störfum sínum á yfirstandandi ári líkt og boðað hefði verið á síðasta ársfundi í Ottawa.
    Í almennum umræðum um skýrslu framkvæmdastjórans kom fram að ríkur vilji væri til þess að fjalla um stækkunarmál NATO á vorfundinum í Sofíu og ársfundinum sem haldinn yrði í Istanbúl í nóvember. Douglas Bereuter, formaður bandarísku sendinefndarinnar, vék í máli sínu að stækkunarferlinu og framlagi NATO-þingsins og spurði hvort gerlegt yrði fyrir þingið að álykta um næstu lotu stækkunar NATO fyrir leiðtogafundinn í Prag þar eð aðeins nokkrir dagar liðu á milli ársfundar þingsins í Istanbúl og leiðtogafundarins. Rafael Estrella, forseti NATO-þingsins, sagði að ákveðið hefði verið að efna til sérlegs stjórnarnefndarfundar í Brussel snemma hausts, að öllum líkindum í byrjun október, þar sem fjallað yrði um ályktunardrög um stækkun NATO sem unnið yrði að um sumarið. Áður en að stjórnarfundinum kæmi hefði landsdeildum NATO-þingsins verið gefinn kostur á að leggja fram breytingartillögur sem afstaða yrði tekin til á fundinum. Með þessu móti væri unnt að hraða afgreiðslu ályktunar NATO-þingsins á ársfundinum með það fyrir augum að hún yrði birt fyrir leiðtogafundinn. Jafnframt þessu yrðu stækkunarmál tekin fyrir á vorfundinum í Sofíu í maílok. Var þessi skipan mála samþykkt af stjórnarnefndinni. Þá varð nokkur umræða um hvort NATO-þinginu bæri að nefna í yfirlýsingunni heiti þeirra umsóknarríkja sem veita ætti aðild. Markus Meckel, formaður þýsku landsdeildarinnar, sagðist vera afar fylgjandi því að í yfirlýsingunni yrðu þau sjö ríki sem fremst stæðu nefnd á nafn. Afar misjafnar skoðanir voru uppi um þetta og sagði t.a.m. Jan Hoekema, formaður varnar- og öryggismálanefndar, að það væri alls ekki hlutverk stjórnarnefndar NATO-þingsins að taka ákvarðanir um jafnveigamikil atriði og þetta. Þá var vikið að samskiptum NATO og Rússlands, og þá sérstaklega samskiptum NATO-þingsins og rússnesku landsdeildarinnar. Ljóst væri að NATO stefndi að því á fundi utanríkisráðherra í Reykjavík í maí að formfesta fastaráð NATO-ríkja og Rússlands í skýrt skilgreindum málaflokkum, svo sem varðandi útbreiðslu gereyðingarvopna og alþjóðleg friðargæsluverkefni. Fram kom að rússneska landsdeildin hefði farið fram á, í samræmi við aukið formlegt tvíhliða samstarf Atlantshafsbandalagsins og Rússlands, að hún fengi fullan atkvæðisrétt á vettvangi NATO-þingsins. Rafael Estrella sagði að á fundi sínum með formanni rússnesku landsdeildarinnar hefði hann hafnað þessari ósk en jafnframt sagt að eðlilegt yrði, eftir fund utanríkisráðherranna í Reykjavík, að rússneska Dúman og NATO- þingið hefðu nánara samstarf en hingað til. Estrella sagðist hafa haft samráð við Robertson lávarð, framkvæmdastjóra NATO, um þetta málefni og sagði jafnframt að allar líkur væru á að fyrir fund stjórnarnefndarinnar í Sofíu í maí yrði lögð tillaga um að koma á sérlegum vettvangi stjórnarnefndar NATO-þingsins og rússnesku Dúmunnar sem fjalla mundi um áþekk málefni og NATO-Rússlandsráðið hjá Atlantshafsbandalaginu. Færi þetta þó eftir niðurstöðum fundarins í Reykjavík. Ef stjórnarnefndin samþykkti fyrirhugaðar tillögur mundi fyrsti fundur slíkrar „stjórnarnefndar tuttugu ríkja“ verða haldinn á ársfundinum í Istanbúl.
    Fyrir stjórnarnefndarfundinum lá skýrsla forseta NATO-þingsins um samskipti þingsins og Aserbaídsjan og Armeníu. Rafael Estrella hafði nokkru fyrir stjórnarnefndarfundinn haldið í opinbera heimsókn til Aserbaídsjan, m.a. til að meta aukaaðildarumsókn þings Aserbaídsjan . Aserbaídsjan sótti um aukaaðild að NATO-þinginu árið 1999 en umsókninni var hafnað af stjórnarnefnd. Þingi landsins var hins vegar veitt áheyrnaraðild. Umsókn Aserbaídsjan var yfirfarin aftur árið 2000 en hafnað vegna afar hægfara lýðræðisumbóta í landinu og þess að þingkosningar sama ár höfðu brotið í bága við alþjóðlega staðla um frjálsar og lýðræðislegar kosningar. Aukaaðildarumsóknin kom aftur til kasta stjórnarnefndarinnar á vorfundinum í Vilníus 2001 þar sem fulltrúar lýstu almennt yfir efasemdum um ágæti þess að fallast á aukaaðild landsins. Var þó ákveðið að fresta ákvörðun þar til forseti þingsins hefði þekkst heimboð þings Aserbaídsjan . Í skýrslu forsetans var bent á að Armenía hafði enn ekki sótt um aukaaðild að NATO-þinginu og jafnframt bent á að Georgíu hefði verið veitt aukaaðild árið 1999. Færði forsetinn fyrir því rök að hagsmunir NATO á Kákasus-svæðinu hefðu aukist stórlega á undanförnum missirum, ekki síst í ljósi hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin, og jafnframt benti hann á að bæði Aserbaídsjan og Armenía væru aðilar að Evrópuráðinu. Sagðist forsetinn hafa sannfærst um það í ferð sinni til landsins að það uppfyllti skilyrði fyrir aukaaðild og lagði því til að stjórnarnefndin samþykkti aukaaðildarumsókn Aserbaídsjan og að Armeníu yrði veitt áheyrnaraðild hið fyrsta. Miklar umræður urðu um málið á fundinum þar sem ýmis sjónarmið voru höfð uppi. Nokkrir fulltrúar, þar á meðal formaður bandarísku landsdeildarinnar, sögðu að vissulega væru mörg brýn vandamál í lýðræðisþróun landsins en hins vegar styddu þeir tillögur forsetans. Aðrir voru á þeirri skoðun að NATO-þingið færi of geyst ef aukaaðildarumsóknin væri samþykkt miðað við gefnar forsendur og bentu á stöðu pólitískra fanga, framkvæmd kosninga og reynslu Evrópuráðsins af aðild Aserbaídsjan máli sínu til stuðnings. Breið samstaða var þó við að auka samskiptin við Aserbaídsjan og Armeníu. Guðmundur Árni Stefánsson tók til máls og sagðist vera fullur efasemda um aukaaðild landsins en á hinn bóginn hefði forseti NATO-þingsins með yfirlýsingum í heimsókn sinni til landsins þrengt verulega kosti stjórnarnefndarinnar. Carolyn Parrish, formaður kanadísku landsdeildarinnar, tók undir orð Guðmundar Árna og sagði að stjórnarnefndinni væri nokkuð þröngur stakkur skorinn hvað ákvarðanatöku varðar. Simon Lunn, framkvæmdastjóri þingsins, sagði í innleggi sínu að þessi umræða vaknaði iðulega þegar kæmi að því að fallast á aukaaðildarumsóknir ríkja og erfitt væri að leggja til heildrænar forsendur fyrir veitingu aukaaðildar. Oftlega væri um ófullkomið stjórnarfar í viðkomandi ríkjum að ræða og yrði pólitísk ákvörðun því að liggja til grundvallar þegar dæmt væri um aðildarhæfni hvers nýs umsóknarríkis. Niðurstaða fundarins varð því sú að í ljósi þess að tilskilinn fjöldi atkvæða til stuðnings aukaaðild Aserbaídsjan lægi ekki fyrir yrði ákvörðun um málið frestað þar til á vorfundinum í Sofíu. Jafnframt var samþykkt að veita bæri Armeníu áheyrnaraðild ef farið yrði fram á það.
    Á fundinum lagði þýski þingmaðurinn Lothar Ibrügger, gjaldkeri þingsins, fram endurskoðaða fjárhagsáætlun fyrir árið 2001 og áætlun ársins 2002. Í máli Ibrüggers kom fram að fjárhagsstaða NATO-þingsins væri í afar góðu horfi og að afgangur hefði orðið á fjárhagsáætlun liðins árs. Samþykkti stjórnarfundurinn að afgangi liðins árs og fyrirsjáanlegum afgangi næsta árs yrði veitt í að endurbæta húsakynni skrifstofu NATO-þingsins en nokkur kostnaður mun hljótast af nauðsynlegum endurbótum á öryggiskerfi hússins í kjölfar aukins viðbúnaðar vegna hryðjuverka. Þá voru tekin til umræðu málefni er vörðuðu stjórnarnefndarfundi, vorfundi og ársfundi NATO-þingsins á næstu árum. Fyrir fundinum lá boð Alþingis um að halda stjórnarnefndarfund NATO-þingsins snemma árs árið 2005 og var því fagnað á fundinum.
    Lokamál fundarins voru drög að ályktun stjórnarnefndar um stöðu mála í Miðausturlöndum sem þeir Tahir Köse, formaður tyrknesku landsdeildarinnar og formaður Miðjarðarhóps NATO-þingsins, og Douglas Bereuter, formaður bandarísku sendinefndarinnar, höfðu undirbúið. Nokkrar umræður urðu um ástand mála fyrir botni Miðjarðarhafs og hlutverk Evrópusambandsins og Bandaríkjanna við úrlausn deilumála Ísraelsstjórnar og heimastjórnar Palestínu. Var það almennt álit fundarmanna að í yfirlýsingardrögunum gætti nauðsynlegs jafnvægis þótt nokkrum fulltrúum þætti nauðsyn á að skerpa orðalag. Guðmundur Árni Stefánsson tók til máls í umræðunum og sagðist styðja yfirlýsingardrög tvímenninganna þótt hann teldi að auka mætti þunga orðalagsins. Þá gerði hann athugasemd þess efnis að hvergi væri minnst á þátt Atlantshafsbandalagsins sjálfs í yfirlýsingunni og vekti það fleiri spurningar en svör. Lagðar voru fram nokkrar munnlegar breytingartillögur hvað orðalag varðaði og voru þær allar samþykktar. Yfirlýsing stjórnarnefndarinnar um stöðu mála í Miðausturlöndum var samþykkt samhljóða.

c.    Vorfundur.
    Dagana 23.–27. maí sl. var vorfundur NATO-þingsins haldinn í Sofíu. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður og Jónína Bjartmarz, auk Andra Lútherssonar ritara. Að vanda var vorfundurinn skipulagður sem eins konar undirbúningsfundur fyrir ársfund þingsins sem haldinn verður í Istanbúl dagana 15.–19. nóvember nk. Í málefnanefndum voru til umræðu skýrslu- og ályktunardrög sem samþykkja á í Istanbúl, auk þess sem ýmsir gestir ávörpuðu fundi nefndanna og svöruðu spurningum þingmanna. Það sem hæst bar á fundinum í Sofíu var næsta lota stækkunar Atlantshafsbandalagsins (NATO) í austurátt, hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi og samband Evrópusambandsins við NATO.
    Á fundi stjórnmálanefndar voru til umræðu skýrslur um viðsjár eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 og áhrif þeirra á öryggis- og varnarsamstarf NATO-ríkja, stækkunarferli Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríki bandalagsins, og afvopnunarsamninga og tengsl Evrópu og Bandaríkjanna eftir 11. september 2001. Fund nefndarinnar ávarpaði Bruce P. Jackson, formaður bandarísku NATO-nefndarinnar, og fjallaði hann um hið nýja NATO, Janusz Onyszkiewicz, fulltrúi pólsku alþjóðamálastofnunarinnar, sem fjallaði um hlutverk Evrópu í samskiptum Atlantshafsríkja, og Jan Petersen, utanríkisráðherra Noregs og fyrrum formaður norsku sendinefndarinnar við NATO-þingið, sem fjallaði um bætt samskipti NATO og Rússlands. Í ávarpi Jacksons var megináherslan lögð á að eftirmál hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin mundu, í sögulegu samhengi, verða til þess að samstaða Evrópu og Bandaríkjanna yrði ríkari en ella. Þá ræddi hann talsvert um pólitíska ólgu þá er einkenndi svæðið við Miðjarðarhaf, hvort sem litið væri til Miðausturlanda eða norðurhluta Afríku, og sagðist telja að staða öryggismála í Evrópu væri afar háð aðstæðum á þessu svæði. Þá vék hann máli sínu að samhliða stækkunarferli NATO og Evrópusambandsins og lýsti yfir áhyggjum sínum af því ef sumum Mið- og Austur-Evrópuríkjanna sem eru í hópi umsækjenda skyldi verða hafnað af báðum stofnunum. Hvatti hann jafnframt til þess að ESB og NATO hefðu aukið samráð sín í milli hvað stækkunarferlin varðar. Taldi hann að á næstu 20 árum mundu pólitískar áherslur og hernaðarlegur viðbúnaður Atlantshafsbandalagsríkja í auknum mæli beinast að Suður-Evrópu og Svartahafssvæðinu. Lagði hann ríka áherslu á að bandalagsríkin yrðu að móta öryggisstefnu í málefnum síðarnefnda svæðisins sem væri ríkt af náttúruauðlindum en hefði jafnframt verið gróðrarstía skipulegrar alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Onyszkiewicz ræddi í ávarpi sínu um nánara samband NATO og Rússlands sem staðfest hefði verið á fundi utanríkisráðherra NATO-ríkja í Reykjavík fyrr í mánuðinum. Fagnaði hann formfestingu þess samstarfs og sagðist vænta mikils af því á komandi árum. Í kjölfar ávarps Onyszkiewicz varð nokkur umræða um baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi og var ræðumaður spurður hvert hann teldi hlutverk NATO vera á þeim vettvangi. Taldi hann að NATO yrði að breyta hernaðarstjórnskipulagi sínu með hliðsjón af hinum nýju vám sem skapast höfðu á undanförnum mánuðum og endurskipuleggja herstjórn með það að markmiði að koma sér upp smáum sveitum sem unnt væri að beita með afar skömmum fyrirvara áður en hættuástand kynni að verða. Þá taldi hann afar mikilvægt að innan NATO færi fram umræða um V. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans, sem þarfnaðist endurskilgreiningar nú eftir að samstarfsráð Rússlands og NATO-ríkja hefði verið sett á laggirnar. Í ávarpi sínu vék Jan Petersen máli sínu að samstarfsráði NATO og Rússlands og sagði að í Reykjavík hefði sögulegt skref verið stigið og hvatti aðila ráðsins til að halda umræðu um sameiginleg hagsmunamál á breiðum grundvelli. Nefndi hann fimm grunnmálefni sem einkenna mundu samstarfsráðið: aukna samvinnu í baráttunni við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi, hættuástandsstjórnun og friðargæsluverkefni, aukið samráð til að hamla útbreiðslu gereyðingarvopna, afvopnunarmál og traustvekjandi aðgerðir, og tvíhliða samstarf herja. Taldi Petersen að prófsteinn á skilvirkni samstarfsráðsins yrði hvernig daglegu samstarfi Rússlands og NATO yrði háttað á næstu missirum.
    Í umræðum um viðsjár eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 og áhrif þeirra á öryggis- og varnarsamstarf NATO-ríkja sagði Markus Meckel, almennur skýrsluhöfundur stjórnmálanefndarinnar, að nýjar hættur hefðu skapast með nýrri aðferðafræði hryðjuverkahópa á borð við al Qaeda samtökin. Þessi nýja aðferðafræði öfgahópa kallaði á breyttar starfsaðferðir Atlantshafsbandalagsins sem fælust m.a. í nýjum aðferðum í landvörnum, samstarfi á sviði trúnaðarupplýsinga og samstarfi lögreglu og dómsmálayfirvalda. Þá lagði Meckel áherslu á að er hugað væri að upprætingu alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi mætti ekki líta fram hjá þeim jarðvegi sem slík starfsemi sprytti úr – fátækt og þekkingarskorti. Í umræðum um skýrslu hollenska þingmannsins Bert Koenders, um stækkun NATO og samstarfsríki bandalagsins, kom fram að áhyggjur manna af því að NATO færðist á hliðarlínuna í hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi hefðu reynst óþarfar. Bandalagsríkin og samstarfsríki NATO hefðu heitið miklum stuðningi við baráttuna og hefði það oftar en ekki verið gert á vettvangi NATO, sbr. hernaðarlegan og pólitískan stuðning samstarfsríkja við aðgerðir bandamanna í Asíu að ógleymdu samstarfi á sviði trúnaðarupplýsinga. Koenders sagði að í þessu ljósi væri afar mikilvægt að næsta lota stækkunar NATO mundi verða umfangsmikil. Þá lagði Koenders áherslu á að mikilvægt væri að NATO gerði allt sem í þess valdi stæði til að forða því að þau ríki sem ekki yrði boðin aðild á leiðtogafundi NATO í Prag litu á það sem höfnun. Ef sú yrði raunin kynni það að hafa slæmar afleiðingar bæði hvað varðar almenningsálit í ríkjunum og svo hernaðarlegt aðlögunarferli. Nokkur umræða varð um skýrsludrög Koenders og lögðu fulltrúar aukaaðildarríkja fram gögn um þróun mála í löndum sínum á síðustu missirum. Þá var rætt um hvort NATO-þinginu bæri í ályktunum og yfirlýsingum sínum að nefna nöfn þeirra ríkja sem hefja ætti aðildarviðræður við og sagðist Koenders vera á þeirri skoðun að þinginu bæri að forðast að nefna nöfn jafnvel þótt sjö ríkjanna níu uppfylltu skilyrði aðildarviðræðna. Í umræðum um afvopnunarmál og samskipti Atlantshafsríkja komu fram miklar áhyggjur þingmanna af útbreiðslu gereyðingarvopna og aðgengi hryðjuverkasamtaka að slíkum vopn. Fyrir lægi að meðlimir al Qaeda hefðu ásælst gereyðingarvopn, einkum efna- og lífefnavopn, og að hætta væri á að nokkur útlagaríki sæju sér hag í að aðstoða hryðjuverkaöflin við að verða sér úti um slíkan búnað. Skýrsluhöfundurinn, Karl Lamers, sagðist hafa nokkrar áhyggjur af mismunandi stefnumiðum Bandaríkjanna og Evrópuríkja NATO hvað þennan málaflokk varðar, þar sem ljóst væri að Bandaríkin hefðu hug á fyrirvaralausum hernaðaraðgerðum til að sporna við útbreiðslu slíkra vopna en Evrópuríkin væru hallari undir að beita diplómatískum leiðum.
    Í varnar- og öryggismálanefnd voru til umræðu skýrslur um hina alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi, hernaðarlegt samræmingarferli þeirra ríkja sem óska aðildar að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamstarf Atlantshafsríkja eftir 11. september, og að lokum skýrsla nefndarinnar um landvarnir, hömlur gegn útbreiðslu gereyðingarvopna og öryggi Evró-Atlantshafssvæðisins. Fundi nefndarinnar ávörpuðu þeir Nikolay Svinarov, varnarmálaráðherra Búlgaríu, Sabi Sabev, hershöfðingi og yfirmaður áætlanagerðar búlgarska heraflans, og Jens Rotböll, forseti Euromil-samtakanna. Þeir Svinarov og Sabev fjölluðu að mestu um árangur Búlgaríu við samræmingaraðgerðir herafla landsins samkvæmt aðildaráætlun NATO og almenningsálitið í Búlgaríu hvað aðild að NATO varðar. Taldi Sabev að Búlgaría mundi hafa náð markmiðum aðildaráætlunarinnar árið 2004.
    Í félagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur um horfur í innanríkismálum Rússlands, hina alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi, og áhrif atburðanna 11. september á stöðugleika og sættir í ríkjum Balkanskaga og Austur-Evrópu. Nefndina ávörpuðu þeir Jean-Louis Bruguiére, fyrsti varaforseti hæstaréttar Frakklands, sem ræddi um úrkosti í baráttunni gegn hryðjuverkum, dr. Ognyan Minchev, framkvæmdastjóri búlgörsku alþjóðamálastofnunarinnar, sem ræddi um samskipti og sáttaumleitanir milli þjóðarbrota í Búlgaríu, og að lokum Georgi Petkanov, innanríkisráðherra Búlgaríu, sem hélt erindi um viðbúnað og aðgerðir búlgarskra löggæsluyfirvalda til að sporna við skipulegri glæpastarfsemi.
    Í efnahagsnefnd voru til umræðu skýrslur nefndarinnar um efnahagslegar afleiðingar hryðjuverkaárásanna 11. september og efnahagslega hlið baráttunnar gegn hryðjuverkastarfsemi, um stöðu mála í fríverslunarviðræðum Evrópu og Bandaríkjanna, og um efnahagslegt og pólitískt umrót í Mið-Asíu. Fund efnahagsnefndarinnar ávörpuðu þeir Nikolay Vassilev, varaforsætisráðherra og efnahagsmálaráðherra búlgörsku ríkisstjórnarinnar, og Patrick Hardouin, yfirmaður efnahagsmáladeildar Atlantshafsbandalagsins.
    Í vísinda- og tækninefnd voru til umræðu skýrslur um álitamál milli Evrópuríkja og Bandaríkjanna vegna Kyoto-bókunar loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna, og samspil vísinda og tækni við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi. Fundi nefndarinnar ávörpuðu þeir Milko Kovachev, orkumálaráðherra Búlgaríu, og Axel Angely, aðstoðaryfirmaður stjórnmáladeildar Atlantshafsbandalagsins, sem ræddi um hættuna af því ef gereyðingarvopn lentu í höndum öfgahópa á borð við al Qaeda.
    Meginmál stjórnarnefndarfundarins að þessu sinni voru ályktunardrög stjórnmálanefndar NATO-þingsins um stækkun bandalagsins sem ákveðin yrði á leiðtogafundinum í Prag í nóvember. Fyrir stjórnarnefndarfundinn hafði Peter Viggers, formaður stjórnmálanefndar, gert drög að ályktun NATO-þingsins um stækkunarferli bandalagsins, sem ráðgert var að kæmi til samþykktar á þingfundinum sem haldinn var lokadaginn. Alls höfðu 19 breytingartillögur verið lagðar fram fyrir fundinn og varð nokkur umræða um þær enda höfðu forseti NATO-þingsins, Rafael Estrella, og formaður stjórnmálanefndarinnar, Peter Viggers, mælst til þess í aðdraganda vorfundarins að breytingartillögum yrði stillt í hóf og þannig tryggt að yfirlýsingin endurspeglaði samstöðu NATO-ríkja í aðdraganda leiðtogafundarins í Prag. Viggers sagði í upphafi fundar að hann legðist gegn því að þau aðildarríki sem lengst væru komin í aðlögunarferlinu yrðu nefnd á nafn í ályktuninni. Máli sínu til stuðnings nefndi hann sérstaklega að nokkur áhöld væru um lýðræðisþróunina í einu umsóknarríkjanna, Slóvakíu, þrátt fyrir ágætan árangur á hernaðarsviðinu. Lagði hann og ofuráherslu á að reyna yrði að koma í veg fyrir að kosið yrði um ályktunina á þingfundinum. Ljóst var á fundinum að fulltrúar aðildarríkjanna 19 skiptust í þrjá hópa með tilliti til þess hvort nefna bæri ríki á nafn eða ekki, hvort nefna bæri fjölda fyrirsjáanlegra aðildarríkja eða hvorugt. Í ljósi þessa fór Jan Tore Sanner, formaður norsku sendinefndarinnar, fram á það að fulltrúar stjórnarnefndar gæfu til kynna á fundinum hverjar áherslur þeirra voru og skiptust fulltrúar nokkurn veginn í þrjá jafnstóra hópa hvað þetta varðar. Að endingu var ákveðið að formaður stjórnmálanefndar fengi það vandasama verkefni að breyta ályktunardrögunum þannig að sættir tækjust um þau.
    Þá var tekin til umræðu tillaga forseta NATO-þingsins um að stofnuð yrði sérleg samstarfsnefnd NATO-þingsins og rússnesku Dúmunnar, í samræmi við nýstofnað samstarfsráð Norður-Atlantshafsráðsins og Rússlandsstjórnar. Fram kom í máli forsetans að rússneska sendinefndin hefði farið fram á að hljóta fullan atkvæðisrétt í öllum nefndum NATO-þingsins en að Rússum hefði verið tjáð að af því gæti ekki orðið. Tillagan kvað því á um að árlega, í tengslum við ársfund NATO-þingsins að hausti, yrði haldinn fundur í fyrrgreindri samstarfsnefnd sem samanstæði af stjórnarnefndinni, sem í eiga sæti fulltrúar þjóðþinga hinna 19 NATO-ríkja, og fulltrúi rússneska þingsins og að allir 20 fulltrúar hefðu atkvæðisrétt. Að öðru leyti mundi nefndin lúta almennum fundarsköpum NATO-þingsins. Nokkur umræða varð um efni og eðli fyrirhugaðrar nefndar. Tillaga forsetans var samþykkt og mun fyrsti fundur samstarfsnefndarinnar fara fram á ársfundinum í Istanbúl í nóvember.
    Á fundinum varð áframhald á umræðu um óskir Aserbaídsjan um að hljóta aukaaðild að NATO-þinginu. Forsetinn tjáði nefndarmönnum að Armenía hefði þekkst boð um að gerast áheyrnaraðili að þinginu og væri því komið jafnræði með ríkjunum tveimur hvað stöðu innan NATO-þingsins varðaði. Nokkrir nefndarmenn mæltu gegn því að Aserbaídsjan yrði veitt aukaaðild á meðan lýðræðisþróun þar í landi væri jafnskammt á veg komin og raun bæri vitni og nefndu reynslu Evrópuráðsins af aðild ríkjanna tveggja máli sínu til stuðnings. Nokkrir þingmenn, þar á meðal Douglas Bereuter, lýstu því yfir að ankannalegt væri að styðjast við forsendur Evrópuráðsins í málefnum NATO, þar sem hlutverk og landfræðileg skilgreining stofnananna væru ólík. Var ákvörðun um aukaaðildarumsókn Aserbaídsjan frestað til ársfundarins í nóvember en jafnframt var Simon Lunn, framkvæmdastjóra NATO-þingsins, falið að leggja drög að skilmálum sem gilda skyldu ef stjórnarnefnd tæki þá ákvörðun að víkja aukaaðildarríki úr NATO-þinginu.
    Þá skýrði forseti þingsins frá því að samskipti Atlantshafsbandalagsins og Júgóslavíu hefðu tekið afar miklum framförum á liðnum missirum og væri nú svo komið að Júgóslavía hefði sótt um að gerast samstarfsríki NATO í Samstarfi í þágu friðar (PfP) og að júgóslavneska þingið hefði sótt um áheyrnaraðild að NATO-þinginu. Forsetinn sagði jafnframt að sér hefði borist staðfesting þess efnis að stjórnvöld í Svartfjallalandi væru ekki andvíg áheyrnaraðildarumsókninni og lagði hann því til að stjórnarnefnd veitti samþykki sitt, sem og var gert.
    Fyrir þingfundinn voru lögð ályktunardrög Peters Viggers, formanns stjórnmálanefndar, um stækkun Atlantshafsbandalagsins. Alls höfðu 20 breytingartillögur verið lagðar fram. Markus Meckel, formaður þýsku sendinefndarinnar, var höfundur einnar þeirrar sem í stóð m.a. að umsóknarríkin sjö, Eistland, Lettland, Litháen, Búlgaría, Rúmenía, Slóvenía og Slóvakía, hefðu sýnt fram á árangur sinn hvað NATO aðild varðar. Var breytingartillagan samþykkt með 67 atkvæðum gegn 13. Bandaríska sendinefndin tók ekki þátt í atkvæðagreiðslu um ályktunina. Þingfundinn ávörpuðu þeir Rafael Estrella, forseti NATO-þingsins, Ognian Gherzhikov, forseti búlgarska þingsins, Georgi Parvanov, forseti Búlgaríu, Simeon de Saxe-Coburg-Gotha, forsætisráðherra Búlgaríu, Solomon Passy, utanríkisráðherra Búlgaríu. Svöruðu þeir allir spurningum þingmanna. Þar sem leiðtogafundur NATO var samdægurs í Rómaborg var ávarp Georges Robertsons lávarðar, framkvæmdastjóra NATO og formanns Norður-Atlantshafsráðsins, sjónvarpað en það hafði verið tekið upp á myndband fyrir fundinn.

d.    Sérlegur stjórnarnefndarfundur.
    Laugardaginn 6. október var efnt til sérlegs stjórnarnefndarfundar NATO-þingsins í Brussel. Fundinn sat af hálfu Íslandsdeildar Jónína Bjartmarz, auk Andra Lútherssonar ritara. Efnt var til fundarins í þeim tilgangi að afgreiða framkomnar breytingartillögur við yfirlýsingu NATO-þingsins um stækkun og breytingar Atlantshafsbandalagsins. Á fundi stjórnarnefndar í Granada í apríl var boðað að vilji væri til þess að NATO-þingið sendi frá sér efnismikla yfirlýsingu um þær veigamiklu breytingar sem bandalagið stæði frammi fyrir og að sú yfirlýsing yrði gerð opinber áður en að ársfundi NATO-þingsins í Istanbúl kæmi. Formenn málefnanefnda NATO-þingsins og forseti þess vörpuðu hugmyndum um efnistök yfirlýsingarinnar sín á milli sumarið 2002 og í septembermánuði voru landsdeildum send drög að yfirlýsingum og þær beðnar um að leggja fram breytingartillögur. Íslandsdeild NATO- þingsins hélt fund þar sem fjallað var um yfirlýsingardrögin og varð niðurstaða þess fundar að Árni R. Árnason formaður lagði fram sex breytingartillögur við textann í umboði Íslandsdeildarinnar.
    Alls voru 68 breytingartillögur lagðar fram við yfirlýsingardrögin og tóku flestar þeirra til annars, þriðja og fjórða kafla sem fjölluðu um breytingar á hlutverki og verkefnum NATO og breytingar á herstjórn bandalagsins. Talsverðar umræður urðu um breytingartillögurnar. Málefni Íraks og hinnar alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkum bar hátt á fundinum og skarst nokkuð í odda með fulltrúum Bandaríkjanna annars vegar og Frakklands og Þýskalands hins vegar, er þau mál voru til umfjöllunar. Höfðu fulltrúar þó gert ráð fyrir mun meiri óeiningu en raun varð á og eftir innihaldsríkar efnislegar umræður um hin brýnu málefni ríkti mikil sátt um afgreiðslu breytingartillagnanna. Í yfirlýsingunni var fast kveðið að orði um ríkin sjö sem bjóða bæri aðild, þ.e. Eistland, Lettland, Litháen, Slóveníu, Slóvakíu, Búlgaríu og Rúmeníu. Fram að fundinum í Brussel hafa ávallt verið nokkur áhöld um hvernig NATO- þinginu bæri að afgreiða þá texta sem innihéldu stækkunaráform NATO og þá sérstaklega hvort nefna bæri þau ríki sem veita ætti aðild eða ekki. Yfirlýsingar og ályktanir NATO- þingsins í þessa veru höfðu því verið mun varfærnari en sú yfirlýsing sem samþykkt var einróma á fundinum í Brussel í október. Um orðalagið ríkti fullkominn einhugur á fundinum enda höfðu aðstæður í alþjóðamálum með tilliti til stækkunar NATO breyst mikið frá því t.a.m. á vorfundinum í Sofíu í maí. Nokkrum vikum fyrir stjórnarnefndarfundinn í Brussel höfðu margir þjóðarleiðtogar aðildarríkja NATO gefið frá sér yfirlýsingar þar sem litlum vafa var undirorpið að NATO mundi bjóða ríkjunum sjö til aðildarviðræðna á leiðtogafundinum í Prag. Þá var og athyglisvert að fulltrúar Bandaríkjaþings og franska þingsins náðu, eftir talsverða orðræðu, samstöðu um orðalag er varðaði rétt Atlantshafsbandalagsins og einstakra ríkja þess til að grípa til aðgerða einhliða eða í bandalagi við önnur viljug ríki. Í þessu samhengi er einnig vert að benda á að allir fulltrúar stjórnarnefndarinnar voru samstíga í því að til slíkra aðgerða yrði ekki gripið nema ef brotið hefði verið á stofnskrá Sameinuðu þjóðanna.
    Af sex breytingartillögum Íslandsdeildarinnar voru þrjár samþykktar athugasemdalaust. Tvær tillagnanna voru sameinaðar breytingartillögum annarra landsdeilda og einni var hafnað.
    Meginniðurstöður fundarins er unnt að draga saman í eftirfarandi: Stjórnarnefnd NATO- þingsins samþykkti einróma yfirlýsingu þar sem m.a. var mælst til þess að á leiðtogafundi bandalagsins í Prag í nóvember byði NATO þeim sjö ríkjum Mið- og Austur-Evrópu sem fremst stæðu í aðlögunarferli bandalagsins til formlegra aðildarviðræðna. Í yfirlýsingunni segir að næsta lota stækkunar bandalagsins verði hreyfiafl til umbreytingar NATO á nýrri öld og að aðild nýrra ríkja í Mið- og Austur-Evrópu – þ.e. Eistlands, Lettlands, Litháen, Slóvakíu, Slóveníu, Búlgaríu og Rúmeníu – mundi efla bandalagið, auka öryggi og stöðugleika í Evrópu og auka frumkvæði að frekari endurskipulagningu Atlantshafsbandalagsins. Þá kom og fram í yfirlýsingunni að NATO bæri að halda dyrum sínum opnum fyrir öðrum Evrópuríkjum sem óskuðu aðildar og að búist yrði við því að þau ríki sem ekki yrði boðin aðild á leiðtogafundinum í Prag gerðust aðildarríki í náinni framtíð.
    Í yfirlýsingu stjórnarnefndarinnar, sem er yfirgripsmikil og nær til allra þeirra þátta sem hæst ber í starfsemi bandalagsins á þessum tímamótum, var enn fremur vikið að hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi og hlutverki bandalagsins í þeirri baráttu. Þar kom fram að bandalagið hefði þegar sýnt pólitískan og hernaðarlegan vilja sinn í verki er Norður-Atlantshafsráðið beitti V. gr. stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins í fyrsta sinn í farsælli sögu NATO og með samstarfi aðildarríkja NATO og bandamanna þeirra í hernaðaraðgerðunum í Afganistan. Mæltist stjórnarnefndin til þess að NATO hlúði frekar að þessu samstarfi í þeim aðgerðum sem fram undan kunni að vera. Í yfirlýsingunni kemur enn fremur fram að NATO væri einstakur vettvangur til samstarfs á sviði hinna fjölmörgu félagslegu, efnahagslegu, pólitísku og hernaðarlegu þátta er lúta að hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi – hinni nýju ógn sem svo mjög mundi móta starfsemi bandalagsins til framtíðar. Hinar nýju vár mundu hafa áhrif á hlutverk, verkefni og getu herja aðildarríkja NATO og vegna þessa yrðu þeir að vera í stakk búnir að grípa til aðgerða hvenær sem öryggi aðildarríkjanna væri ógnað, á grundvelli stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í yfirlýsingunni kom jafnframt fram að yfirlýstur vilji bandalagsríkja til að grípa til aðgerða mundi styrkja fælingarmátt NATO, þar sem bæði þeim sem ógnuðu vestrænum samfélögum og þeim sem skytu skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn væri gert það ljóst að þeir gætu hvergi leitað skjóls. Þá sagði að þörfin á hernaðaraðgerðum bandalagsins yrði ákveðin hér eftir sem hingað til með samstöðu Norður-Atlantshafsráðsins, á grundvelli ótvíræðra sannana, og að þegar aðgerðir væru ekki á vegum Atlantshafsbandalagsins sjálfs, þá yrði þeim aðildarríkjum sem fyrir aðgerðunum standa gert kleift að nýta búnað bandalagsins.
    Yfirlýsing stjórnarnefndar NATO-þingsins skiptist í tólf kafla sem tóku til: grundvallarmarkmiða NATO, þarfarinnar fyrir aðlögun bandalagsins, stækkunar NATO, endurskilgreiningar á hlutverki og verkefnum NATO, úrbóta á hernaðarskipulagi NATO, samskipta við Evrópusambandið, íhlutunar bandalagsins, samstarfs NATO og Rússlands, samstarfs NATO og Úkraínu, samstarfsvettvangs NATO, innra skipulags NATO, og samstarfs NATO og NATO-þingsins.

e.    Ársfundur.
    Dagana 15.–19. nóvember var vorfundur NATO-þingsins haldinn í Istanbúl. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Árni R. Árnason formaður, Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður og Jónína Bjartmarz, auk Andra Lútherssonar ritara. Tvennt setti mark sitt á ársfundinn að þessu sinni. Annars vegar var fundurinn haldinn einungis nokkrum dögum áður en efnt var til sextánda leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Prag þar sem sjö ríkjum Mið- og Austur-Evrópu var boðið til aðildarviðræðna við bandalagið. Hins vegar höfðu almennar þingkosningar farið fram í Tyrklandi tveimur vikum fyrir fundinn og stjórnmálalíf í landinu því í nokkru uppnámi í ljósi mikils og óvænts kosningasigurs fylkingar stjórnmálaafla sem kenna sig við kennisetningu Íslam og yfirburðastöðu þeirra á tyrkneska þinginu. Þá bar hugsanlegar hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra gegn Írak og alþjóðlegar hömlur á útbreiðslu gereyðingarvopna afar hátt á fundinum. Í málefnanefndum voru til umræðu skýrslu- og ályktunardrög sem samþykkt voru á þingfundi, auk þess sem ýmsir gestir ávörpuðu fundi nefndanna og svöruðu spurningum þingmanna. Bandaríkjamaðurinn Douglas Bereuter tók við embætti forseta NATO-þingsins á fundinum úr hendi Spánverjans Rafaels Estrella sem gegnt hafði embættinu í tvö ár.
    Á fundi stjórnmálanefndar voru til umræðu skýrslur og ályktanir um viðsjár eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 og áhrif þeirra á öryggis- og varnarsamstarf NATO-ríkja; stækkunarferli Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríki bandalagsins; aukið öryggissamstarf Atlantshafsríkja og afvopnunarsamningar og tengsl Evrópu og Bandaríkjanna eftir 11. september 2001. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Turan Moralý, skrifstofustjóri alþjóðadeildar tyrkneska utanríkisráðuneytisins, Mehmet Ali Birand, yfirmaður CNN TURK, Klaus Naumann, hershöfðingi og fyrrverandi formaður hermálanefndar NATO, og Stephen Szabo, prófessor í Evrópufræðum við John Hopkins háskólann í Bandaríkjunum.
    Turan Moralý, sem tók fram í upphafi fundar að erindi hans væri byggt á persónulegum skoðunum, greindi fundarmönnum frá því í hversu mikilvægri stöðu Tyrkir væru með tilliti til þeirrar óvissu sem nú væri í alþjóðamálum og stöðu mála á vettvangi tyrkneskra stjórnmála eftir þingkosningarnar í nóvember. Sagði hann að þrátt fyrir að úrslit kosninganna gætu bent til annars þá væri tyrkneska þjóðin afar samstíga um næstu skref. Grundvallarsátt væri í samfélaginu um lýðræðisleg gildi og hvergi yrði hvikað frá þeim umbótaáætlunum á sviði efnahags, lýðræðis og réttarríkis sem fyrri valdhafar höfðu lagt fyrir þingið og þegar hrint í framkvæmd. Hefðu þær hrundið af stað afar jákvæðum breytingum sem fullkomin sátt ríkti um. Fyrir nokkrum árum hefðu róttæk öfl vissulega verið að verki í tyrkneskum stjórnmálum en þeir dagar væru að baki. Hvatti hann menn jafnframt til að breyta afstöðu sinni til nýrra valdhafa, þar væru á ferðinni hófsamir aðilar og nefndi máli sínu til stuðnings að á meginlandi Evrópu væri rík hefð fyrir kristilegum demókrataflokkum. Að sama skapi væru sigurvegarar þingkosninganna íslamskir demókrataflokkar sem væru hófsamir í eðli sínu. Þá nefndi Moralý að jákvæð þróun hefði enn fremur orðið í baráttunni gegn hryðjuverkasveitum Kúrda sem nú nytu ekki lengur stuðnings Sýrlendinga og Írana. Sagði hann að flest deiluefni Tyrkja við Grikki yrðu til lykta leidd á næstu árum og að samskipti ríkjanna væru nú með þeim hætti að milliríkjaátök, sem áður vofðu yfir, væru nú óhugsandi með öllu. Þá vék Moralý að grannríkjum Tyrklands og einkum þeim sem mest hætta stafaði af. Sagði hann að af 23 hugsanlegum átakasvæðum sem höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins hefðu auðkennt sem hættusvæði í eða á jöðrum Evrópu lægju 19 innan seilingar Tyrklands. Sagði hann mestu hættuna stafa af viðvarandi vígvæðingu einræðisríkja þeirra sem liggja að landamærum Tyrklands og að valdhafar í Írak sköpuðu þar mesta ógn. Taldi hann nokkrar líkur á að hernaður bandamanna gegn Írak mundi valda svæðisbundnum óstöðugleika og lagði áherslu á mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið skuldbyndi sig til að stuðla að uppbyggingu í Írak eftir að valdhafaskipti ættu sér stað. Að endingu vék Moralý að stöðu mála í Íran og varaði menn við að fjalla um valdhafa þar í landi með of mikilli einföldun þegar ógnir frá því ríki væru til umræðu. Valdaskipting væri virk þar í landi og hverfandi líkur á því að her eða pólitískir valdhafar gripu til bráðræðisaðgerða. Nokkrar umræður urðu eftir erindi Moralýs og beindust þær einkum að hugsanlegum hernaði gegn Írak og hlutverki Tyrklands. Svaraði Moralý því til að mestar líkur væru á því að Tyrkir mundu, ef til stríðs kæmi, veita bandamönnum rétt til að nýta herflugvelli í suðurhluta landsins og aðra óbeina aðstoð en afar ólíklegt væri að þeir mundu beita sér með beinni hætti.
    Mehmet Ali Birand, yfirmaður CNN TURK, hélt afar áhugavert erindi þar sem hann velti upp ýmsum afleiðingum þess ef stjórnvöldum í Bagdað yrði komið frá völdum með hernaðaraðgerðum. Sagði hann að Tyrkir mundu vissulega horfa fram á bjartari tíð ef svo kynni að fara en jafnframt bæri að hafa í huga að til skamms tíma mundi mikið óvissuástand skapast í Kúrdabyggðum í suðurhluta landsins þar sem íbúar væru enn mjög áfram um að stofna sjálfstætt ríki Kúrda. Sagði hann að það kynni jafnframt að hafa afar neikvæðar afleiðingar ef hernaður drægist á langinn og ef bandamenn mundu mæta nokkurri mótspyrnu. Tyrkneskur almenningur hefði miklar áhyggjur af neikvæðum skammtímaáhrifum hernaðar á efnahagslífið í Tyrklandi, sem væri hægt og bítandi að ná sér eftir afar mikla kreppu. Í erindi Klaus Naumanns hershöfðingja var vikið að leiðtogafundinum í Prag og þeirri stefnu sem þar yrði mörkuð. Taldi hann að ein mikilvægasta niðurstaða leiðtogafundarins yrði að þar yrðu auðkenndar nýjar leiðir til að sporna við útbreiðslu gereyðingarvopna. Sagði hann að í hinu nýja öryggisumhverfi Atlantshafsbandalagsins yrði að taka mið af því að hugsanlega þyrfti að beita hernaðaraðgerðum til að koma í veg fyrir meira hættuástand síðar meir, án þess þó að hvika frá grundvallarforsendum NATO um skilvirkt varnarsamstarf. Slíkar forvarnaaðgerðir yrðu þó aldrei meginstefnan heldur fremur einn valkostur sem unnt væri að grípa til ef allt annað þrýtur. Stephen Szabo, prófessor við John Hopkins háskólann, lagði út af mismunandi áhersluatriðum í hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi beggja vegna Atlantsála. Sagði hann að Bandaríkin mætu hættuna á annan hátt en Evrópuríkin og að sú barátta sem Bandaríkjastjórn ætti nú í gegn hryðjuverkastarfsemi væri mun víðtækari og sveigjanlegri en barátta Evrópuríkjanna í NATO. Bandaríkin legðu mun meiri áherslu á hernaðarlausnir en Evrópuríkin og Bandaríkjastjórn mundi nýta mátt NATO ef það þjónaði hagsmunum þeirra betur en að hrinda einhliða aðgerðum í framkvæmd. Þrátt fyrir þetta sagði Szabo að Bandaríkjamenn mætu NATO-samstarfið mikils um þessar mundir og að áætlanir um stofnun hraðliðs NATO, sem upp hefðu komið fyrr um haustið og mundu verða að veruleika eftir Prag-fundinn, væru sönnun þess.
    Í umræðum um viðsjár eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 og áhrif þeirra á öryggis- og varnarsamstarf NATO-ríkja sagði Markus Meckel, almennur skýrsluhöfundur stjórnmálanefndarinnar, að atburðirnir örlagaríku 11. september hefðu markað upphaf að nýjum tímum í alþjóðasamskiptum sem kölluðu á breytt vinnubrögð. Aukið samstarf í upplýsingagjöf og á sviði löggæslu og dómsmálayfirvalda væru atriði sem ekki mætti líta fram hjá við nýtt hættumat. Ræddi Meckel jafnframt um hlutverk NATO í hinu nýja öryggisumhverfi, þ.m.t. hraðlið bandalagsins og afstöðu aðildarríkja NATO til fyrirvaralausra hernaðaraðgerða. Þá sagði hann það vera afar mikilvægt að styrkja alþjóðasáttmála með tilliti til baráttunnar gegn hryðjuverkastarfsemi. Þýski þingmaðurinn Karl A. Lamers fylgdi skýrslu sinni um afvopnunarsamninga og samskipti Evrópu og Bandaríkjanna eftir 11. september 2001 úr hlaði og sagði í ávarpi sínu að í umræðum um hættuna af útbreiðslu gereyðingarvopna mættu menn ekki einskorða sig við Írak, mikil hætta stafaði af öðrum ríkjum sem væru fjandsamleg vestrænu gildismati, svo sem Norður-Kóreu. Þá nefndi hann að sú stefna Bandaríkjastjórnar að falla frá ABM-gagnflaugasáttmálanum hefði ekki valdið aukinni vígvæðingu, þrátt fyrir spár margra evrópskra stjórnmálamanna um hið gagnstæða. Lamers gerði einnig alþjóðasáttmála um bann við framleiðslu efnavopna og lífefnavopna að umtalsefni og sagði ríka þörf á því að styrkja þá sáttmála og eftirlitsstofnanir þeirra. Kanadíski þingmaðurinn Raynell Andreychuk fylgdi skýrslu hollenska þingmannsins Bert Koenders úr hlaði í fjarveru hins síðarnefnda og sagði í ávarpi sínu mikið hafa breyst á undanförnum missirum hvað stækkun NATO varðaði. Leiðtogafundurinn í Prag væri á næsta leiti og nær tryggt væri að sjö nýjum aðildarríkjum yrðu boðnar aðildarviðræður. Væri það í anda vilja NATO-þingsins og því mikið fagnaðarefni. Þá ítrekaði hún að aðildarríkin nýju, sem senn mundu gerast fullir aðilar, mættu ekki slá slöku við í úrbótum á herafla sínum í takt við aðgerðaráætlun NATO (e. Membership Action Plan) og að þau þrjú ríki sem sóst hafa eftir aðild en yrði ekki boðið að þessu sinni mættu ekki örvænta, stækkun NATO væri stöðugt ferli.
    Í varnar- og öryggismálanefnd voru til umræðu skýrslur og ályktanir um hina alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi, Írak, hernaðarlegt samræmingarferli þeirra ríkja sem óska aðildar að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamstarf Atlantshafsríkja eftir 11. september, landvarnir, hömlur á útbreiðslu gereyðingarvopna og öryggi Evró-Atlantshafssvæðisins, og skipulagsbreytingar NATO og Evrópustefna í öryggis- og varnarmálum. Fundi nefndarinnar ávörpuðu þeir Sabahattin Cakmakoglu, varnarmálaráðherra Tyrklands, Cihangir Dumanli, yfirmaður áætlanagerðar í tyrkneska varnarmálaráðuneytinu, og ræddu þeir um framlag Tyrklands til Atlantshafsbandalagsins og stöðu landsins í hinu nýja öryggisumhverfi. Þá hélt Paul Latawski, fræðimaður við Royal Military Academy í Sandhurst á Bretlandi, erindi um stækkun NATO og framtíðarhlutverk bandalagsins og Terence Taylor, yfirmaður International Institute for Strategic Studies, hélt erindi um gereyðingarvopnaáætlun Íraksstjórnar og eftirlitshlutverk Sameinuðu þjóðanna.
    Í félagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur og ályktanir um horfur í innanríkismálum Rússlands, hina alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi, áhrif atburðanna 11. september á stöðugleika og sættir í ríkjum Balkanskaga og Austur-Evrópu, og stöðu mála í Kalíníngrad-héraði. Nefndina ávörpuðu eftirfarandi: Peter Herby, yfirmaður lögfræðisviðs Alþjóðaráðs Rauða krossins, sem ræddi um áhrif jarðsprengna á stríðshrjáð samfélög, Marie Cécile Barthet, læknir og yfirmaður heilbrigðismála hjá almannavörnum í Toulouse í Frakklandi, sem ræddi um stjórn og framkvæmd almannavarna við mannskæðar hörmungar eða árásir með óhefðbundnum vopnum, Mithat Rende, skrifstofustjóri hjá tyrkneska utanríkisráðuneytinu, sem ræddi um aðgang að vatni í Miðausturlöndum, og Claude Jorda, forseti alþjóðastríðsglæpadómstólsins í ríkjum fyrrum Júgóslavíu, sem ræddi um þróun og framtíðarhorfur alþjóðlegrar löggjafar sem beitt yrði gegn stríðsglæpum. Guðmundur Árni Stefánsson tók þátt í umræðum eftir erindi Marie-Cécile Barthet og sagði meðal annars frá virkum viðbúnaði almannavarna á Íslandi.
    Í efnahagsnefnd voru til umræðu skýrslur og ályktanir nefndarinnar um efnahagslegar afleiðingar hryðjuverkaárásanna 11. september og efnahagslega hlið baráttunnar gegn hryðjuverkastarfsemi, stöðu mála í fríverslunarviðræðum Evrópu og Bandaríkjanna, efnahagslegt og pólitískt umrót í Mið-Asíu, og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Ersen Ekren, deildarstjóri utanlandsviðskipta hjá tyrkneska fjármálaráðuneytinu, sem ræddi um viðsnúning tyrknesks efnahagslífs eftir þrengingar undanfarinna ára, Maja Wessels, formaður Evrópusambandsdeildar bandaríska verslunarráðsins, sem ræddi um horfur í viðskiptum Bandaríkjanna og Evrópuríkja, og dr. Bhavna Dave, sérfræðingur í málefnum Mið-Asíu við SOAS-háskólann í Lundúnum, sem ræddi stöðu innanríkismála í ríkjum Mið-Asíu og svæðisbundna baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi.
    Í vísinda- og tækninefnd voru til umræðu skýrslur um samspil vísinda og tækni við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi, hryðjuverkastarfsemi sem háð væri með kjarna-, efna- og lífefnavopnum, og álitamál milli Evrópuríkja og Bandaríkjanna vegna Kyoto-bókunar loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fundi nefndarinnar ávörpuðu þeir Dursun Ali Ercan, aðstoðarvarnarmálaráðherra Tyrklands, sem ræddi um tyrkneska hergagnaiðnaðinn og þátttöku Tyrkja í fjölþjóðlegum hergagnaverkefnum, dr. Malcolm Dando, prófessor í alþjóðasamskiptum við háskólann í Bradford á Bretlandi, sem ræddi um líkur og viðbrögð við lífefnavopnahryðjuverkum, og Mehmet Tomak, yfirmaður kjarnorkumálastofnunar Tyrklands, sem ræddi um leiðir til að sporna við smygli á kjarnakleyfum efnum og búnaði til vinnslu þeirra.
    Á Istanbúl-fundinum var í fyrsta sinn efnt til fundar nýstofnaðrar samstarfsnefndar NATO-þingsins og rússneska þingsins. Ákvörðun um stofnun nefndarinnar hafði verið tekin á fundi stjórnarnefndar í Sofíu fyrr um árið og var þar ákveðið að nýja samstarfsnefndin, þar sem sæti áttu fulltrúar þjóðþinga aðildarríkjanna nítján og rússnesku Dúmunnar, mundi endurspegla náinn samstarfsvettvang NATO-ríkjanna og Rússlands sem lagður var grunnur að á utanríkisráðherrafundi NATO í Reykjavík í maí og átti sinn fyrsta fund í Róm stuttu síðar. Formenn landsdeilda áttu sæti í samstarfsnefndinni og á fundinum var því fagnað að þessum sögulega áfanga í samskiptum NATO og Rússlands hefði verið náð. Fulltrúar ríkjanna sem fundi þessa sátu mundu ræða sín í milli á jafningjagrundvelli um helstu sameiginlegu málefni NATO og Rússlands og hvert ríki hefði eitt atkvæði. Fundurinn var á almennum nótum og rætt var um hver yrðu helstu umfjöllunarefni nefndarinnar á næstunni. Almenn samstaða var um að baráttan gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, hættuástandsstjórnun og endurbætur í varnarmálum yrðu ofarlega á baugi í störfum nefndarinnar.
    Mánudaginn 18. nóvember fór fram fundur stjórnarnefndarinnar. Helstu dagskráratriði voru skýrsla framkvæmdastjóra NATO-þingsins, staða aukaaðildarríkja og aðildarferli nýrra ríkja. Simon Lunn, framkvæmdastjóri NATO-þingsins, sagði í erindi sínu á fundinum að augljóst væri að starfsemi þingsins hefði aukist afar mikið á síðustu tíu árum og þótt það væri vísir að farsælu starfi þingsins þá hefði þessi þróun valdið þrenns konar áþreifanlegum erfiðleikum. Í fyrsta lagi væru nokkur brögð að því að þingmenn mættu illa á nefndarfundi. Þá skapaði þéttskipuð dagskrá nefndanna mikið álag á skrifstofu þingsins og í þriðja lagi hefði orðið mikill kostnaðarauki af starfinu, sérstaklega hvað túlkunarkostnað varðaði. Sagði Lunn að vissulega væri engin töfralausn á ástandi þessu en mæltist þó til þess að formenn nefnda takmörkuðu starfsemi þeirra við t.a.m. fimm atburði á ári fyrir stærri nefndir og einn til þrjá fyrir smærri nefndir og undirnefndir. Þónokkrar umræður urðu um þetta og voru nefndarmenn almennt andsnúnir því að setja svo miklar takmarkanir á starfsemi nefndanna. Gjaldkeri þingsins, Þjóðverjinn Lothar Ibrügger, vakti athygli á því að stjórnarnefndin sjálf hefði ákveðið að hækka ekki árgjöld aðildarríkjanna og að á sama tíma hefði kostnaður við túlkun aukist um 30%. Var samþykkt að fulltrúar stjórnarnefndar færu nánar yfir þessi mál á næsta fundi sínum. Því næst voru málefni aukaaðildarríkja tekin til umræðu en Aserbaídsjan hafði sótt það fast að fá aukaaðild að NATO-þinginu og hafði stjórnarnefndin haft málið til umræðu um allnokkurt skeið án niðurstöðu. Eðlilegt hafði þótt að fengi Aserbaídsjan aukaaðild þá gilti hið sama um Armeníu. Fulltrúar stjórnarnefndar voru almennt á því máli að auka bæri aðstoð við lýðræðisumbætur í Aserbaídsjan og Armeníu en sem fyrr greindi menn mjög á um hvort rétt væri að veita aukaaðild að NATO-þinginu á þessu stigi. Greinilegt var að Rafael Estrella, forseti þingsins, var mjög áfram um að stjórnarnefndin veitti ríkjunum aukaaðild og hélt langt erindi um efnislegan mun á aukaaðild og áheyrnaraðild þeirri sem Aserar og Armenar nutu. Sagði hann t.a.m. að aukaaðild Georgíumanna, sem veitt hefði verið árið 1999, styddi þá viðleitni að veita ríkjunum slíka aðild. Fór svo að flestir fulltrúa í stjórnarnefndinni gerðu grein fyrir því hvernig þeir mundu greiða atkvæði um umsóknina ef til atkvæðagreiðslu kæmi. Var ljóst að eftir umræðurnar höfðu margir þeirra sem kosið höfðu að stíga varlega til jarðar snúist á sveif með forsetanum og þeim sem litu aukaaðild Asera og Armena jákvæðum augum. Enn aðrir hugðust sitja hjá ef til atkvæðagreiðslu kæmi. Estrella áréttaði að til að veita aukaaðild þyrftu þrír fjórðu hlutar þeirra fulltrúa sem stjórnarfundinn sætu að greiða tillögunni atkvæði sitt. Þótti sýnt að miðað við þann fjölda fulltrúa sem væri á fundinum og þann fjölda sem hygðist sitja hjá við atkvæðagreiðsluna þá mundi tillagan niður falla. Í þessari stöðu mála lagði Carolyn Parrish, formaður kanadísku landsdeildarinnar, fram þá fordæmalausu tillögu að þeir fulltrúar sem hygðust sitja hjá við atkvæðagreiðsluna vikju af fundi. Að lokum fór svo að fimm fulltrúar viku af fundinum á meðan á atkvæðagreiðslunni stóð. Fulltrúi Alþingis var einn þeirra. Armeníu og Aserbaídsjan var veitt aukaaðild að NATO-þinginu með þrettán samhljóða atkvæðum. Fá þjóðþing ríkjanna formlega aukaaðild á vorfundi NATO-þingsins 2003.
    Douglas Bereuter, formaður bandarísku landsdeildarinnar, vakti athygli á stöðu sendinefndar Evrópuþingsins og rifjaði upp að hann hefði verið einn þeirra sem hefðu verið andsnúnir því að veita sendinefndinni rétt til að leggja fram breytingartillögur. Sagði hann að flestir í sendinefnd Evrópuþingsins væru vandaðir einstaklingar en þó hefðu verið brögð að því á fundum málefnanefnda að afar róttækir og illa upplýstir fulltrúar Evrópuþingsins tækju til máls og að það skaðaði NATO-þingið sem heild því áhorfendur gerðu ekki greinarmun á því hvaðan fulltrúar kæmu. Sagði hann þetta afar bagalegt og samsinnti forsetinn því og sagðist mundu ræða þessi mál við formann sendinefndar Evrópuþingsins á febrúar-fundunum í Brussel. Þá var vikið að aðildarferli nýrra ríkja í NATO. Estrella sagði að þegar síðustu stækkun NATO bar að hefðu fulltrúar Póllands, Tékklands og Ungverjalands orðið áheyrnarfulltrúar að stjórnarnefndinni um leið og þeim hefði verið boðið formlega til aðildarviðræðna. Sýnt þætti því að fulltrúar nýju ríkjanna sjö fengju áheyrnaraðild að fyrsta stjórnarnefndarfundi NATO-þingsins á árinu 2003, en hann færi fram í París í apríl. Ríkin fengju svo fullan rétt er aðildarríkin 19 hefðu staðfest aðild umsóknarríkjanna sjö. Fyrirséð væri að það yrði vorið 2004.
    Í lok fundarins fjallaði gjaldkeri NATO-þingsins um fjárhagsstöðu þingsins. Þá var vikið að dagskrá funda á árinu 2003 og kjöri í embætti málefnanefnda.
    Þau nýmæli urðu við ársfund NATO-þingsins í Istanbúl að efnt var til tveggja þingfunda. Opnunarfundurinn var haldinn föstudaginn 15. nóvember til þess að gefa Robertson lávarði, framkvæmdastjóra NATO, færi á að ávarpa þingheim fyrir leiðtogafundinn í Prag. Auk Robertsons héldu þeir Rafael Estrella, forseti NATO-þingsins, Sukru Elekdag, bráðabirgðaforseti tyrkneska þingsins, og Ahmet Necdet Sezer, forseti Tyrklands, ávörp á opnunarfundinum. Í ávarpi sínu lagði Robertson lávarður megináherslu á þá stækkun sem Atlantshafsbandalagið stæði frammi fyrir og þær umfangsmiklu breytingar á öryggis- og varnarmálum álfunnar sem aðildarríkin hefðu sammælst um að takast á hendur. Sagði hann að atburðirnir 11. september 2001 hefðu breytt öryggisumhverfi vestrænna ríkja í öllum grundvallaratriðum. Þetta hefði kallað á gagngerar breytingar á NATO með það fyrir augum að unnt yrði að bregðast við þeim ógnum sem að Vesturlöndum steðjuðu. Sagði hann að atburðirnir hefðu valdið því að NATO mundi ekki einskorða athafnasvæði sitt við landfræðileg mörk Evró-Atlantshafssvæðisins eins og fyrr, og nefndi yfirlýsinguna frá Reykjavíkurfundinum máli sínu til stuðnings. Þá nefndi framkvæmdastjórinn mikilvægi hins nýja samráðsvettvangs NATO og Rússlands og mikilvægi þess að Evrópuríkin í NATO öxluðu auknar byrðar hvað herbúnað varðaði. Sagði hann að þessi málefni auk baráttunnar gegn útbreiðslu gereyðingarvopna mundu varða veginn að hinu nýja NATO sem væri við sjóndeildarhringinn. Þá fagnaði hann framlagi NATO-þingsins til umræðunnar um hið breytta öryggisumhverfi og sagði að það gegndi einkar mikilvægu hlutverki í orðræðunni við almenna kjósendur.
    Þriðjudaginn 19. nóvember fór síðari hluti þingfundarins fram. Fundinn ávörpuðu þeir Klaus Bühler, forseti VES-þingsins, Bruce George, forseti ÖSE-þingsins, og Abdullah Gül, nýskipaður forsætisráðherra Tyrklands. Í ávarpi forsætisráðherrans, sem til skamms tíma var í landsdeild Tyrklands við NATO-þingið, kom fram að hann fagnaði þeim breytingum sem væru fram undan hjá NATO. Lagði hann áherslu á að ESB og NATO kæmu í veg fyrir tvíverknað á öryggis- og varnarmálasviðinu sem yrði kostnaðarsamur. Þá ræddi hann um stöðu Tyrklands í hinu breytta öryggisumhverfi og benti á þær hættur sem væru í Miðausturlöndum. Sagði hann að Tyrkland hefði afar mikilvægu hlutverki að gegna á svæðinu og taldi það eina ástæðu þess að ESB yrði að finna skjóta lausn á stöðu þeirra Evrópuríkja í NATO sem stæðu utan ESB hvað öryggis- og varnarmálastefnu ESB varðaði. Eftir umræður um erindi forsætisráðherrans staðfesti þingheimur ákvörðun stjórnarnefndarinnar um aukaaðild Armeníu og Aserbaídsjan. Árni R. Árnason tók til máls undir liðnum almennar umræður og sagðist fagna þeim tímamótum sem NATO stæði frammi fyrir með stækkun sinni. Sagði hann að Ísland hefði veitt Eystrasaltsríkjunum hvað ríkastan stuðning að aðild að NATO og að ákvörðun sú sem leiðtogar NATO-ríkjanna mundu taka í Prag leiðrétti það sögulega ranglæti sem Eistar, Lettar og Litháar og aðrar þjóðir Mið- og Austur-Evrópu hefðu verið beittar. Þá ræddi hann um baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi og árangurinn sem hefði náðst. Að vestrænum lýðræðisríkjum steðjuðu nýjar ógnir og margt væri enn óleyst í því tilliti, einkanlega þó sókn vissra ríkja í gereyðingarvopn. Fagnaði Árni Ragnar því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna væri við stjórnvölinn í viðbrögðum alþjóðasamfélagsins við ráðagerðum stjórnvalda í Írak. Þá ræddi Árni Ragnar um þá gjá sem á stundum mátti greina milli viðhorfa Bandaríkjanna og Evrópuríkjanna í NATO. Brýndi hann fyrir þingmönnum að þjóðir Atlantshafsbandalagsins mættu ekki missa sjónar á því mikilvæga verki sem þær hefðu hafið, að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi, og sagði að þingmenn NATO-þingsins hefðu einkar mikilvægu hlutverki að gegna í þeirri baráttu.
    Douglas Bereuter, formaður bandarísku landsdeildarinnar, var einróma kjörinn forseti NATO-þingsins og í kjöri til embætta varaforseta þingsins hlutu þingmennirnir John Tanner, Longin Pastusiak, Mario Palombo og Pierre Lellouche flest atkvæði. Alls voru fimm í kjöri.
Síðasti dagskrárliðurinn var afgreiðsla ályktana forseta og málefnanefnda NATO-þingsins. Alls voru sjö eftirfarandi ályktanir samþykktar: stækkun og breyting Atlantshafsbandalagsins; hryðjuverkastarfsemi sem háð væri með kjarna-, efna- og lífefnavopnum; staða mála í Kalíníngrad-héraði; fjármögnun hryðjuverkastarfsemi; Írak; aukið öryggissamstarf Atlantshafsríkja; og skipulagsbreytingar NATO og öryggis- og varnarmálastefna Evrópusambandsins.

f.    Nefndafundir.
    Alls tóku fulltrúar Íslandsdeildarinnar þátt í sjö nefndafundum utan venjubundinna þingfunda NATO-þingsins og febrúarfundanna svonefndu. Jónína Bjartmarz hélt á fund efnahagsnefndarinnar í París í kjölfar febrúarfundanna í Brussel en þar átti nefndin fundi með embættismönnum OECD. Þá héldu Guðmundur Árni Stefánsson, Jónína Bjartmarz og Gunnar Birgisson, í fjarveru formanns, á sameiginlegan nefndarfund stjórnmálanefndar, varnar- og öryggismálanefndar og félagsmálanefndar í Moskvu í mars. Í kjölfar þess fundar fór Guðmundur Árni Stefánsson í ferð félagsmálanefndarinnar til Kalíníngrad-héraðs. Þá hélt Guðmundur Árni Stefánsson á fund Miðjarðarhafshópsins sem haldinn var í Túnis í júní og tók þátt í ferð félagsmálanefndarinnar til Aserbaídsjan um miðjan september. Þá tók Jónína Bjartmarz þátt í ársferð NATO-þingsins í byrjun september en að þessu sinni var haldið til Slóveníu, Bosníu og Hersegóvínu og Kosovo-héraðs. Að lokum héldu Árni R. Árnason og Guðmundur Árni Stefánsson, auk Andra Lútherssonar ritara Íslandsdeildar, á árlega ráðstefnu NATO-þingsins og Atlantshafsráðs Bandaríkjanna (Transatlantic Forum) í Washington D.C. í byrjun desember.

Alþingi, 3. febr. 2003.



Árni R. Árnason,


form.


Guðmundur Árni Stefánsson,


varaform.


Jónína Bjartmarz.




Fylgiskjal I.


Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 2002.


Stjórnarnefndarfundur í Granada, 6. apríl:
          yfirlýsing um stöðu mála í Miðausturlöndum samþykkt.

Vorfundur í Sofíu, 23.–27. maí:
          yfirlýsing um stækkun Atlantshafsbandalagsins samþykkt.

Sérlegur stjórnarnefndarfundur í Brussel, 6. október:
          yfirlýsing um stækkun og breytingar Atlantshafsbandalagsins samþykkt.

Ársfundur í Istanbúl, 15.–19. nóvember:
     1.      yfirlýsing um stækkun og breytingar Atlantshafsbandalagsins samþykkt,
     2.      ályktun nr. 316, um stöðu mála í Kalíníngrad-héraði,
     3.      ályktun nr. 317, um stofnanalegar breytingar NATO og öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins,
     4.      ályktun nr. 318, um stöðu mála í Írak,
     5.      ályktun nr. 319, um fjármögnun hryðjuverkastarfsemi,
     6.      ályktun nr. 320, um aukið öryggissamstarf Atlantshafsríkja, og
     7.      ályktun nr. 321, um hryðjuverkastarfsemi sem háð er með kjarna-, efna- og lífefnavopnum.



Fylgiskjal II.

Almennt um NATO-þingið.


    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áhyggjuefni. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Undanfarin ár hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum fjölgað á þinginu og starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Fjórtán ný lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna þriggja, Austurríkis, Sviss og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu sem beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild og efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í þessum ríkjum (sjá nánar í b-lið).

a.    Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu, en með tímanum jókst skilningur manna á því að nauðsyn væri á einhvers konar skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þingið hefur því enga formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að upplýsa þingmenn og efla samstöðu þjóðþinga á milli. Þingið gerir þingmönnum aðildarríkja bandalagsins, og nú einnig þingmönnum ríkja Mið- og Austur-Evrópu, kleift að koma á framfæri áhuga- og áhyggjuefnum ríkja sinna og skiptast á viðhorfum í ýmsum löndum og svæðum til mikilvægra sameiginlegra hagsmunamála. Fulltrúar á þingið eru kjörnir af þjóðþingum með aðferðum sem þjóðþingin ákveða. Þar endurspeglast því afar breitt svið pólitískra skoðana. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti. Fundir eru haldnir í aðildarríkjunum til skiptis í boði þjóðþinganna.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, félagsmálanefnd, efnahagsnefnd, og vísinda- og tækninefnd. Þessar nefndir eru bæði vinnuhópar og meginvettvangur umræðna. Þær rannsaka og fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra. Óski nefnd þess að gera ítarlega rannsókn á tilteknu máli getur hún kosið undirnefnd eða komið á fót vinnuhópi til að afla um það upplýsinga. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tillagna, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tillögum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða en ályktunum þingsins er beint til ríkisstjórna aðildarríkja.
    Þótt þingið sé óháð Atlantshafsbandalaginu hafa samskipti þingsins við bandalagið, sem fyrr segir, smám saman tekið á sig fastara form og meðal formlegra samskipta má nefna formlegt svar við tillögum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Atlantshafsráðsins, ávarp framkvæmdastjóra bandalagsins á vorfundum og ársfundum þingsins, aukafundi nefnda í Brussel í febrúarmánuði ár hvert, til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe C, æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og einnig Evrópusambandsins og loks fundi forustumanna í þinginu og Atlantshafsráðsins til gagnkvæmra skoðanaskipta.

b.    Samskiptin við ríki Mið- og Austur-Evrópu.
    Eins og Atlantshafsbandalagið sjálft hefur þingið endurskoðað hlutverk sitt í ljósi mikilla breytinga á alþjóðavettvangi. Þótt enginn vafi leiki á þörf fyrir bandalagið og hið einstæða samband sem það felur í sér milli þjóða beggja vegna Atlantsála er þörf breytinga til aðlögunar að nýjum aðstæðum sem skapast hafa. Umfram allt kallar þetta á þróun fyrirkomulags í öryggismálum sem byggist á samvinnu og umræðum fremur en árekstrum. NATO- þingið (þá Norður-Atlantshafsþingið) hóf tilraunir til að koma á samskiptum við þjóðir Mið- og Austur-Evrópu árið 1987. Það var þó ekki fyrr en í nóvember 1990, á ársfundi í Lundúnum, að samskiptum þessum var komið í fastara form er þjóðþing Búlgaríu, Tékkóslóvakíu (nú Tékklands og Slóvakíu), Ungverjalands, Póllands og fyrrverandi Sovétríkjanna (nú Rússlands) fengu aukaaðild að þinginu. Síðan þá hafa þjóðþing Albaníu, Georgíu, Hvíta-Rússlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Moldavíu, Rúmeníu, Slóveníu, Sviss, Úkraínu, Króatíu, Armeníu og Aserbaídsjan fengið aukaaðild að þinginu. Mikilvægi aukaaðildarinnar felst í því að hún veitir löggjöfum nýju lýðræðisríkjanna tækifæri til að taka virkan þátt í störfum þingsins.
    Þingið hefur einnig átt frumkvæði að öðrum áætlunum er varða Mið- og Austur-Evrópu. Í samræmi við áætlun sem sett var fram árið 1991 af tveimur bandarískum þingmönnum og nú fyrrverandi forsetum Norður-Atlantshafsþingsins, þeim Charlie Rose og William V. Roth Jr., beinir NATO-þingið nú kröftum sínum í ríkum mæli að því að efla þróun þingræðis í Mið- og Austur-Evrópu. Meginþátturinn í Rose-Roth áætluninni er röð námsstefna og ráðstefna þar sem fjallað er um sérstök vandamál Mið- og Austur-Evrópulanda þar sem reynsla og þekking þingfulltrúa kemur að gagni og þingið getur lagt mikið af mörkum vegna sérstöðu sinnar sem fjölþjóðlegur umræðuvettvangur. Margar þessara námsstefna fjalla beint eða óbeint um samskipti hers og borgaralegra stjórnvalda, einkum um lýðræðisleg yfirráð yfir herafla. Þeim er ætlað að miðla upplýsingum og sérþekkingu sem nauðsynleg er til þess að tryggja virka þátttöku þjóðþinga í gerð varnaráætlana og taka ákvörðun um fjárveitingar til varnarmála og herafla. NATO-þingið býður einnig starfsmönnum frá löndum Mið- og Austur-Evrópu til stuttrar rannsóknardvalar (í þrjá til sex mánuði) á skrifstofu þingsins í Brussel. Einnig hefur verið komið á laggirnar þjálfunaráætlun til að starfslið þjóðþinganna geti öðlast beina reynslu af starfsemi alþjóðlegra stofnana.
    Af margvíslegri starfsemi NATO-þingsins sem að framan er lýst má vera ljóst að þingið hefur bætt nýrri vídd við hefðbundið hlutverk sitt að hlúa að Atlantshafstengslunum.

c.    Fulltrúar á NATO-þinginu og embættismenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 214 þingmenn frá aðildarríkjunum 19. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn frá öldungadeild og fulltrúadeild bandaríska þingsins. Sendinefndir Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Bretlands eru skipaðar 18 þingmönnum hver. Kanada, Pólland, Spánn og Tyrkland senda 12 fulltrúa hvert ríki. Frá Belgíu, Grikklandi, Hollandi, Portúgal, Tékklandi og Ungverjalandi koma sjö frá hverju ríki. Danmörk og Noregur senda fimm fulltrúa hvort ríki og Ísland og Lúxemborg þrjá. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í öllum störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 73 þingmenn frá aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndafundum, utan stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Hafa þeir þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Embættismenn þingsins eru sex og eru fimm þeirra kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi (forseti og fjórir varaforsetar). Sjötti embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti formenn allra landsdeilda aðildarríkja NATO, forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn.

d.     Fjármögnun.
    Starfsemi þingsins er fjármögnuð með framlögum þjóðþinga eða ríkisstjórna aðildarríkja. Framlög eru reiknuð á grundvelli þeirra viðmiða sem notuð eru við gerð fjárhagsáætlunar NATO um kostnað annan en herkostnað. Til að standa straum af hluta kostnaðar við árlegt þinghald greiðir NATO einnig framlag til þingsins ár hvert.

Fylgiskjal III.



NATO-ÞINGIÐ

Kemur saman á þingfundi tvisvar á ári, á vorfundi og ársfundi


Sendinefndir aðildarríkja

19 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins
214 þingmenn

Fjöldi þingsæta er í hlutfalli
við fólksfjölda


Aukaaðilar

Frá Albaníu, Austurríki, Búlgaríu, Króatíu, Eistlandi, Finnlandi, Makedóníu, Georgíu, Lettlandi, Litháen, Moldavíu, Rúmeníu, Rússlandi, Slóvakíu, Slóveníu, Sviss og Úkraínu

Hafa ekki atkvæðisrétt

(Hvíta-Rússland var svipt aukaaðild eftir að forseti landsins vék lýðræðislega kjörnu þingi Hvíta- Rússlands frá árið 1997)


Framkvæmdastjórn


Kosin árlega

Forseti, fjórir varaforsetar,
gjaldkeri, framkvæmdastjóri


Stjórnarnefnd


Formenn sendinefnda
Formenn nefnda

Hvert land hefur eitt atkvæði

Kemur saman þrisvar á ári


Samstarfsnefnd NATO-þingsins
og rússneska þingsins


Formenn sendinefnda

Hvert land hefur eitt atkvæði

Kemur saman tvisvar á ári


Nefndafundir

Fimm nefndir:
Félagsmálanefnd
Varnar- og öryggismálanefnd
Efnahagsnefnd
Stjórnmálanefnd
Vísinda- og tækninefnd

Taka saman, ræða og greiða atkvæði um skýrslur og ályktanir

Mynda undirnefndir
til að rannsaka afmörkuð mál
og afla upplýsinga


Þingfundir

Greiða atkvæði um tillögur
nefndanna fimm og
um fjárhagsáætlun

Ræða afmörkuð málefni
sem ofarlega eru á baugi

Hlýða á ávörp gesta

Með þátttöku auka- og áheyrnaraðila


Önnur starfsemi

Árleg kynnisferð til að skoða hernaðarmannvirki og búnað

Námsstefnur og hringborðsumræður innan Rose-Roth áætlunarinnar