Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 464. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1085  —  464. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannavarnir, lögreglulögum, lögum um Viðlagatryggingu Íslands, lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og lögum um fjarskipti (stjórnsýsla almannavarna).

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Markmið frumvarpsins er að leggja niður Almannavarnir ríkisins sem sérstaka stofnun og færa starfsemina til deildar sem heyrir undir embætti ríkislögreglustjóra. Þessar hugmyndir ganga þvert á áætlanir Almannavarna ríkisins um uppbyggingu almannavarna í landinu. Þar sem frumvarpið hvorki eflir né eykur öryggi almennings í landinu, en er líklegt til að hafa gagnstæð áhrif, er mikilvægt að Alþingi hafni því.
    Komið hefur fram að ekkert samráð var haft við framkvæmdastjóra Almannavarna áður en frumvarpið var samið og á meðan það var í smíðum. Einnig kom fram á fundi allsherjarnefndar að upphafið að því að leggja stofnunina niður var leit ráðuneytisins að leið til að spara í rekstrinum. Minni hlutinn gagnrýnir ekki þann vilja dómsmálaráðherra að spara í ríkisrekstrinum en svo virðist sem í óðagotinu við undirbúning fjárlaga hafi þessi ákvörðun verið tekin án þess að skoðað hafi verið hvaða áhrif það kynni að hafa á almannavarnir í landinu.
    Almannavarnir hafa það hlutverk fyrst og fremst að samhæfa aðgerðir viðbragðsaðila þegar áföll verða. Þar koma við sögu ríkisstofnanir, sveitarfélög, sjúkrastofnanir, björgunarsveitir, vísindamenn, fjölmiðlar, einkaaðilar og aðrir þeir sem hönd geta lagt á plóg þegar hætta steðjar að. Almannavarnir eru því fyrst og fremst vettvangur aðila sem koma saman og samhæfa björgunaraðgerðir.
    Í athugasemdum við frumvarpið er nefnt að það feli í sér aukið öryggi og eflingu almannavarna. Telja verður harla ólíklegt að verði sérhæfðum starfsmönnum á þessu sviði fækkað um þriðjung og framlög til málflokksins dregin saman um helming muni það leiða til aukins öryggis og eflingar almannavarna.
    Þá er nefnt að breytingin feli í sér styttingu boðleiða í almannavarnaástandi og einföldun á stjórnskipulagi almannavarna. Hvað varðar styttingu á boðleiðum er aðeins eitt um það að segja, en samkvæmt núverandi skipulagi geta boðleiðir ekki verið styttri af því að allir sem koma að almannavarnaástandi eiga sæti í almannavarnaráði.
    Því verður að halda til haga að almannavarnir snúast ekki fyrst og fremst um lögreglu og löggæslumál. Það er aðeins einn þáttur starfseminnar. Aðrir sem koma að henni eru t.d. slökkvilið, læknar, hjúkrunarfólk o.fl.
    Því er mat minni hlutans að frumvarpið, verði það að lögum, muni ekki leiða til aukins öryggis landsmanna ef og þegar til almannavarnaástands kemur. Minni hlutinn óttast að málið sé ekki nægilega undirbúið og því skynsamlegt að fresta því og vinna frekar hafi menn raunverulegan áhuga á því að efla almannavarnir í landinu.
    Margir sem komu fyrir nefndina gerðu athugasemdir við það fyrirkomulag sem stefnt er að með frumvarpinu. Mat minni hlutans er að breytingartillögur meiri hluta allsherjarnefndar við frumvarpið séu til bóta en það breyti ekki þeirri staðreynd, út frá almannavarnasjónarmiðum, að ekki sé hægt að bjarga frumvarpinu vegna þess hversu illa ígrundað það er í upphafi.
    Ögmundur Jónasson áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 4. mars 2003.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.