Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 681. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1104  —  681. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, lögum um innflutning dýra og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist eftirfarandi orðskýring í réttri stafrófsröð:
     Eldisdýr: lagardýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni, og tekin hafa verið úr náttúrulegu umhverfi sínu og eru alin við stýrðar aðstæður, svo og erfðaefni þeirra.

2. gr.

    Við 76. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við inn- og útflutning eldisdýra er heimil notkun erlendra flutningstækja, svo sem brunnbáta, og búnaðar sem tengdur er þeim, enda skal flutningurinn háður skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.

3. gr.

    1. mgr. 78. gr. laganna orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn fisksjúkdómamála. Honum til aðstoðar er fisksjúkdómanefnd, en í henni eiga sæti yfirdýralæknir, sem er formaður nefndarinnar, veiðimálastjóri, fiskistofustjóri og forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum. Ef atkvæði verða jöfn í nefndinni skal atkvæði formanns ráða úrslitum. Fisksjúkdómanefnd skal hafa forgöngu um fisksjúkdómarannsóknir og gera tillögur til ráðherra um aðferðir til varnar gegn útbreiðslu fisksjúkdóma, sem getur um í kafla þessum, og annað er að fisksjúkdómum lýtur.

4. gr.

    Fyrri málsliður 79. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að flytja til landsins lifandi laxfisk eða annan fisk, er lifir í ósöltu vatni, enda skal innflutningurinn háður skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra,
með síðari breytingum.

5. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
    Þrátt fyrir innflutningsbann skv. 1. mgr. er heimilt að flytja til landsins lifandi fisk, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð til eldis í eldisstöð, enda skal innflutningurinn háður skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur. Við innflutning skal framvísa skriflegri staðfestingu yfirdýralæknis á að uppfyllt séu skilyrði samkvæmt þessu ákvæði.

6. gr.

    1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Einangra skal öll innflutt dýr og erfðaefni, að undanskildum eldisdýrum skv. 2. mgr. 2. gr., á sóttvarnastöð svo lengi sem yfirdýralæknir telur þörf á undir stöðugu eftirliti sóttvarnardýralæknis stöðvarinnar.

III. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim,
með síðari breytingum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Við 1. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: bann við innflutningi eða útflutningi.
     b.      Við 2. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: bann við innflutningi eða útflutningi.

8. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Landbúnaðarráðherra er í samráði við embætti yfirdýralæknis jafnframt heimilt að takmarka eða banna inn- og útflutning tiltekinna dýra og afurða þeirra, til lengri eða skemmri tíma, til tiltekins lands eða landsvæðis telji hann að slíkur flutningur valdi eða sé líklegur til að valda útbreiðslu sjúkdóma.

9. gr.

    Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Landbúnaðarráðherra skal setja sérstaka reglugerð um innflutning og útflutning eldisdýra og afurða þeirra til að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma. Reglur varðandi sjávardýr skulu settar í samráði við sjávarútvegsráðherra.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Breytingar sem eru lagðar til með frumvarpi þessu eru vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum). Nánar tiltekið eru framangreindar breytingar lagðar til vegna innleiðingar tilskipunar 91/67/EBE í íslenskan rétt. Þeirri tilskipun hefur verið breytt með tilskipunum 93/54/EBE, 95/22/EB, 97/79/EB og 98/45/EB.
    Almennt má segja að tilskipunin kveði á um nánari skilgreiningu þeirra skilyrða sem þarf að uppfylla til þess að milliríkjaviðskipti geti orðið með lifandi fisk innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Tilskipunin lýsir þannig hvaða skilyrði eru sett með tilliti til dýraheilbrigðis vegna inn- og útflutnings eldisdýra og fiskeldisafurða og notkunar flutningstækja vegna slíks flutnings. Nánar tiltekið er um að ræða inn- og útflutning innan EES og innflutning frá löndum utan EES á lifandi fiski, krabbadýrum og lindýrum frá eldisstöð eða fiski sem verið hefur villtur. Tilskipunin fjallar um lifandi fisk óháð þroskastigi.
    Meginreglan er sú samkvæmt tilskipuninni að inn- og útflutningur framangreindra dýra og afurða innan EES er heimill, enda sé heilbrigði dýra og afurða vottað af opinberum eftirlitsaðilum, hérlendis embætti yfirdýralæknis. Frekari takmarkanir koma til vegna smitnæmis tegunda, tegundar sjúkdóms, staðsetningar eldisstöðva eða ástands eldisstöðva. Utan EES hafa tiltekin lönd, sem uppfylla tilteknar kröfur, heimild til innflutnings til EES-landa með sama hætti og lönd innan EES.
    Íslensk stjórnvöld hafa haft víðtæka undanþágu frá áðurgreindri tilskipun. Innflutningur lifandi fisks, lindýra og krabbadýra, hrogna og svilja þeirra, hefur þannig ekki verið heimill hingað til lands nema í undantekningartilvikum. Þannig hefur innflutningur á hrognum og sviljum laxa, regnbogasilungs og bleikju, ásamt barrahrognum, lúðuseiðum og lifandi humri til manneldis, verið heimill að gefnum ákveðnum heilbrigðisskilyrðum. Þar sem undanþága þessi féll úr gildi 30. júní 2002 er nauðsynlegt að innleiða tilskipunina með áorðnum breytingum.
    Til að tryggja að núverandi heilbrigðisástand haldist hérlendis þegar tekin verður upp ný skipan innflutningsmála hér á landi hafa íslensk yfirvöld óskað eftir svokölluðum „viðbótartryggingum“ sem kveða á um sérstakar heimildir stjórnvalda til að takmarka innflutning með tilliti til tiltekinna sjúkdóma og landsvæða innan EES. Slíkar viðbótartryggingar kveða á um heimildir stjórnvalda til að verjast sjúkdómum með öflugri hætti en ella og takmarka innflutning. Jafnframt hefur verið unnin viðamikil samantekt yfir alla eftirlitsþætti og stöðu fisksjúkdóma á Íslandi. Tilgangurinn er að fá formlega viðurkenningu Evrópusambandsins (ESB) þess efnis að íslensk yfirvöld sinni öflugu eftirlitsstarfi og landið sé sannanlega laust við framantalda smitsjúkdóma. Umsókn Íslands er nú til meðferðar og verður afgreidd eftir innleiðingu tilskipunar 91/67/EBE í íslenskan rétt.
    Í frumvarpi þessu er kveðið á um breytingar á þrennum lögum sem varða innflutning á fiski, hrognum og sviljum. Meginbreytingarnar eru eftirfarandi:
     A.      Í lögum nr. 76/1970, um lax og silungsveiði, er lagt bann við innflutningi lifandi laxfiska eða annarra fiska er lifa í ósöltu vatni. Landbúnaðarráðherra er heimilt að leyfa innflutning lifandi hrogna slíkra fiska. Innflutningsbann þetta stríðir gegn tilskipun 91/67/EBE og er því nauðsynlegt að það verði afnumið. Þar sem bann er lagt við innflutningi á notuðum eldisbúnaði í lögunum verður jafnframt að vera skýr heimild í lögum um notkun erlendra flutningstækja vegna fiskeldis, eins og brunnbáta, þar sem hér er um að ræða sérhönnuð flutningsför sem oft eru ekki til hér á landi en eru nauðsynleg til flutnings eldisdýra. Þá er gert ráð fyrir að fiskistofustjóri taki sæti í fisksjúkdómanefnd en með frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að fisksjúkdómanefnd verði sjávarútvegsráðherra til aðstoðar og ráðuneytis varðandi fisksjúkdóma í sjávardýrum. Valdsvið nefndarinnar hefur því verið aukið á þann veg að það nær að þessu leyti til sjávardýra. Er því talið eðlilegt að fiskistofustjóri eigi sæti í nefndinni. Nefndin verður þá skipuð fjórum aðilum og miðað við að ef atkvæði verða jöfn ráði atkvæði formanns úrslitum.
     B.      Samkvæmt lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, er óheimilt að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Ráðherra hefur þó heimild samkvæmt lögunum til að víkja frá banninu að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Þar sem ákvæði þetta kveður á um almennt innflutningsbann dýra er talið nauðsynlegt með frumvarpinu að kveða á um heimild til innflutnings lifandi eldisdýra með skýrum hætti í samræmi við tilskipunina, enda skal innflutningurinn háður skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.
     C.      Í lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, er með lagabreytingu þessari kveðið á um skyldu landbúnaðarráðherra til setningar reglugerðar vegna innleiðingar tilskipunar 91/67/EBE í íslenskan rétt, þ.e. til að takmarka útbreiðslu sjúkdóma. Reglur um sjávardýr skulu settar í samráði við sjávarútvegsráðherra. Jafnframt er kveðið á um heimildir landbúnaðarráðuneytisins í samráði við embætti yfirdýralæknis til að takmarka eða banna inn- og útflutning tiltekinna dýra og afurða þeirra, til lengri eða skemmri tíma, til tiltekins lands eða landsvæðis telji hann að slíkur flutningur valdi eða sé líklegur til að valda útbreiðslu sjúkdóma.
    Samkvæmt gildandi löggjöf hér á landi koma bæði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti að málum vegna innflutnings á lifandi eldisdýrum og erfðaefni þeirra. Í 13. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, er skýrt kveðið á um heimild landbúnaðarráðherra til að leyfa innflutning fiska og erfðaefnis þeirra. Um er að ræða fisk sem lifir í fersku vatni. Í bráðabirgðaákvæði laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, var ákvæði sem heimilaði sjávarútvegsráðherra að veita leyfi fyrir innflutningi lifandi fiska, skrápdýra, liðdýra og lindýra sem lifa í söltu vatni en það féll úr gildi 31. desember 2002. Tilskipun 91/67/EBE tekur bæði til eldisdýra sem lifa í fersku og söltu vatni. Tilskipunin varðar þannig starfssvið tveggja ráðuneyta. Eitt meginmarkmiða tilskipunar 91/67/EBE er samræming eftirlits með inn- og útflutningi lifandi eldisdýra og erfðaefnis þeirra. Þetta eftirlit mun hérlendis verða í höndum embættis yfirdýralæknis, sem er í samræmi við lög og reglur innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Frumvarp þetta felur í sér að innflutningsbanni lifandi laxfiska og annarra fiska, sem lifa í fersku vatni, er aflétt. Samhliða þessu frumvarpi leggur sjávarútvegsráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, sem hefur að geyma sambærilega heimild til innflutnings á eldisdýrum sjávar. Með frumvörpunum er því verið að samræma innflutningsreglur vegna lifandi fisks í fersku og söltu vatni.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra setji með reglugerð, byggðri á tilskipun 91/67/EBE, með síðari breytingum, ákvæði sem nauðsynleg eru með tilliti til smitsjúkdómahættu vegna innflutnings sem leyfður verður á grundvelli þessara laga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er að finna skilgreiningu á hugtakinu eldisdýr sem ekki hefur áður komið fram í lögunum. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Í þessu ákvæði er gert ráð fyrir að heimil verði notkun erlendra flutningstækja og búnaðar sem tengdur er þeim. Tilskipun 91/67/EBE kveður á um notkun slíkra flutningstækja við inn- og útflutning. Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 76/1970 er innflutningur á notuðum fiskeldisbúnaði óheimill. Þar sem notuð erlend flutningstæki vegna inn- og útflutnings gætu talist notaður eldisbúnaður eru tekin af öll tvímæli um heimild til notkunar slíkra tækja við strendur landsins. Slík lagaheimild fyrir notkun flutningstækja er nauðsynleg forsenda fyrir innflutningi lifandi fisks til Íslands. Gert er ráð fyrir notkun erlendra flutningstækja enda er um að ræða sérhönnuð flutningsför sem ekki eru til hérlendis. Tilskipun 91/67/EBE kveður á um að flutningstæki skuli þrifið og sótthreinsað fyrir fram með sótthreinsiefni sem er opinberlega viðurkennt í útflutningslandi og skal fylgja opinbert vottorð þar um.

Um 3. gr.

    Hér er breytt ákvæði 1. mgr. 78. gr. laganna og fiskistofustjóra fengið sæti í fisksjúkdómanefnd en samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingu á lögum nr. 33/2002 þar sem gert er ráð fyrir að fisksjúkdómanefnd verði sjávarútvegsráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um fisksjúkdóma í sjávardýrum samkvæmt lögunum. Með þeim lögum er jafnframt opnað fyrir innflutning á lifandi sjávarfiski með sama hætti og gert er í þessu frumvarpi um fisk sem lifir í ósöltu vatni en ráðuneytin fara með hvorn málaflokk fyrir sig. Með þessu breytist hlutverk fisksjúkdómanefndar en það hefur hingað til verið bundið við fisk sem lifir í ósöltu vatni, sbr. lög nr. 76/1970. Þykir því nauðsynlegt að gera þessa breytingu. Með því að fiskistofustjóri tekur sæti í fisksjúkdómanefnd verður nefndin skipuð fjórum mönnum og getur því komið til þess að atkvæði um einstök mál verði jöfn. Til að leysa úr því er hér kveðið á um að í slíkum tilvikum ráði atkvæði formanns úrslitum.

Um 4. gr.

    Í þessu ákvæði er gert ráð fyrir að heimilaður verði innflutningur lifandi laxfiska eða annarra fiska sem lifa í ósöltu vatni. Lagabreyting þessi felur í sér að innflutningsbanni lifandi laxfiska og annarra fiska, sem lifa í fersku vatni, er aflétt. Innflutningurinn skal hins vegar háður skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur. Umrædd reglugerð mun byggjast á efni tilskipunar 91/67/EBE og setur ýmis skilyrði um heilbrigði vegna innflutnings. Þannig skal lifandi fiskur ekki sýna nein klínísk sjúkdómseinkenni, vera ætlaður til förgunar eða slátrunar eða koma frá eða komast í snertingu við dýr frá eldisstöð eða svæði sem um gilda opinberar takmarkanir vegna staðfestrar sýkingar eða rökstudds grunar um nánar tilgreinda sjúkdóma. Til viðbótar eru sett skilyrði, allt eftir smitnæmi tegunda, tegund sjúkdóms, staðsetningu eldisstöðva eða ástandi eldisstöðva.

Um 5. gr.

    Í þessu ákvæði er gert ráð fyrir að heimilaður verði innflutningur lifandi fiska, krabbadýra eða lindýra frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð til eldis í eldisstöð. Lagabreyting þessi felur í sér að innflutningsbanni lifandi fiska, krabbadýra og lindýra og erfðaefnis þeirra er aflétt, enda gildir tilskipun 91/67/EBE um þessa dýraflokka. Hvað varðar heilbrigðisskilyrði vegna innflutningsins vísast til athugasemda við 4. gr. Innflutningurinn skal háður skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.

Um 6. gr.

    Samkvæmt 9. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, skulu innflutt dýr sett í einangrun á sóttvarnastöð. Slíkt stangast á við ákvæði tilskipunar 91/67/EBE sem heimilar innflutning eldisdýra án einangrunar í sóttvarnastöð. Vegna þessa er hér kveðið á um breytingu á þessu ákvæði sem felur í sér að ekki verður þörf á að setja innflutt eldisdýr í sóttkví á einangrunarstöð.
    Í 13. gr. laganna er hins vegar að finna efnisákvæði um einangrun dýra í einangrunarstöð. Slík ráðstöfun er í samræmi við tilskipun 91/67/EBE og heldur því gildi sínu.

Um 7. gr.

    Í 8. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum, er kveðið á um heimildir landbúnaðarráðherra, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, til að fyrirskipa hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að útrýma eða hindra útbreiðslu tiltekinna sjúkdóma. Þessar ráðstafanir ráðherra eru taldar upp í ákvæðinu. Hér er bætt við ráðstöfunum sem felast í banni við innflutningi og útflutningi dýra, dýraafurða, fóðurs, húsdýraáburðar og annars sem mengað er og kann að bera smit. Eðlilegt þykir að kveða á um heimild ráðherra til að setja bann við innflutningi þar sem innflutningur verður nú heimill á lifandi eldisdýrum og afurðum þeirra en það getur haft í för með sér hættu á að sjúkdómar berist hingað til lands og breiðist út. Sama gildir um útflutning en hér er miðað við að reglur í þessu efni verði gagnkvæmar og ráðherra veittar heimildir til að koma í veg fyrir útflutning dýra ef sjúkdóma verður vart hér á landi.

Um 8. gr.

     Ákvæðið kveður á um heimildir landbúnaðarráðherra, í samráði við embætti yfirdýralæknis, til að takmarka eða banna inn- og útflutning tiltekinna dýra og afurða þeirra til tiltekins lands eða landsvæðis telji hann að slíkur flutningur valdi eða sé líklegur til að valda útbreiðslu sjúkdóma. Hér er um að ræða eðlilegt öryggisákvæði sem gildir bæði um innflutning til landsins og útflutning frá landinu. Ákvæði þessu skal að sjálfsögðu einungis beitt í undantekningartilvikum. Slíku banni skal aflétta um leið og smithætta er liðin hjá.

Um 9. gr.

    Ákvæði þetta kveður á um skyldu landbúnaðarráðherra til að setja reglugerð byggða á tilskipun 91/67/EBE og samkvæmt heimild í lögum nr. 25/1993. Reglur um sjávardýr skulu settar í samráði við sjávarútvegsráðherra sem er talið eðlilegt þar sem sjávarútvegsráðherra fer með öll málefni er varða sjávardýr og lög sem um þau gilda.

Um 10. gr.

    Frumvarp þetta er samið í þeim tilgangi að innleiða tilskipun 91/67/EBE í íslenskan rétt. Til þess að tryggja megi óbreytt heilbrigðisástand við innleiðingu tilskipunarinnar hafa íslensk fisksjúkdómayfirvöld óskað eftir viðbótartryggingum gagnvart fimm alvarlegustu sjúkdómunum sem upp geta komið í fiski. Tilgangur umsóknarinnar er að fá formlega viðurkenningu ESB þess efnis að íslensk yfirvöld sinni öflugu eftirlitsstarfi og að landið sé sannanlega laust við alvarlega fisksjúkdóma. Slíkar tryggingar kveða á um sérstakar heimildir stjórnvalda til að verjast smitsjúkdómum með öflugri hætti en ella og takmarka innflutning. Gert er ráð fyrir að afgreiðsla viðbótartrygginganna taki um það bil fjóra mánuði eftir að frumvarpið er orðið að lögum en ekki verður unnt að fá viðbótartryggingarnar fyrr en tilskipunin hefur verið innleidd í íslensk lög. Hér er því lagt til að gildistöku laganna verði frestað til 1. ágúst 2003 eða þann tíma sem áætlað er að þurfi til að fá viðbótartryggingarnar í gildi hér á landi. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax og silungsveiði,
lögum um innflutning dýra og lögum um dýrasjúkdóma
og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.

    Markmiðið með frumvarpinu er að innleiða Evróputilskipun nr. 91/67/EBE um inn- og útflutning dýra og dýraafurða.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.