Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 593. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1260  —  593. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um aðgerðir til að bæta þjónustu við sjúk börn og unglinga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða stefnumið ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna, sbr. stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í maí 1999, hafa komið til framkvæmda og hver á eftir að uppfylla, hvað það varðar að auka rétt foreldra til að sinna langveiku barni heima?

    Í yfirgripsmikilli og metnaðarfullri stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir m.a.: „Ráðist verði í aðgerðir til að bæta þjónustu við sjúk börn og ungmenni.“ Þó svo að ekki séu viðhöfð mörg orð í stefnuyfirlýsingunni um þennan málaflokk hafa efndirnar orðið þeim mun meiri. Þar ber hæst nýjan og glæsilegan barnaspítala á Landsspítalalóð sem vígður var í upphafi þessa árs og tekur við af barnadeild Landsspítalans sem tekin var í notkun árið 1965. Tilkoma nýs barnaspítala veldur byltingu hvað varðar alla aðstöðu sjúkra barna og ungmenna og aðstandenda þeirra.
    Í annan stað var barnadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri flutt í nýtt sérhannað húsnæði í október 2001, sem gjörbreytt hefur allri aðstöðu sjúkra barna og ungmenna og aðstandenda þeirra.
    Í þriðja lagi mun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið í byrjun september nk. hefja rekstur heimilis fyrir 12 langveik börn sem þarfnast vistunar án þess að leggjast á sjúkrahús. Landsspítali – háskólasjúkrahús mun leggja til húsnæði og Velferðarsjóður barna greiðir allan kostnað við endurnýjun húsnæðisins, húsbúnað og tækjabúnað fyrir allt að 50 millj. kr. Ríkissjóður mun fjármagna rekstur heimilisins, en sá kostnaður er áætlaður 20 millj. kr. á árinu 2003 og um 84 millj. kr. á ári eftir það.
    Í fjórða lagi samþykkti ríkisstjórnin árið 2000 stefnu í málefnum langveikra barna. Þar kemur fram að langveikum nemendum hefur fjölgað mikið í grunnskólum landsins. Mikilvægt er að skapa þeim ákjósanleg skilyrði til náms og efla m.a. starf skólahjúkrunarfræðinga, sem gegna veigamiklu hlutverki við móttöku og umönnun langveikra barna í skólum. Í samræmi við þessa stefnu ríkisstjórnarinnar hefur verið samþykkt fjárveiting til að efla skólaheilsugæslu fyrir langveik börn. Ákveðið hefur verið að þessir fjármunir verði nýttir til að styrkja sérstök verkefni til uppbyggingar þjónustu fyrir langveik börn í skólum annars vegar og hins vegar til að efla þjónustu vegna tímabundinna aðstæðna sem upp koma í einstökum tilvikum.
    Auk þessa hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið beitt sér fyrir fjölmörgum aðgerðum til að bæta þjónustu við sjúk börn og unglinga eins og fram kemur í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um aðgerðir til að bæta þjónustu við sjúk börn og unglinga (þskj. 1268 í 594. máli). Auðvitað má alltaf bæta þjónustu við sjúk börn og aðstandendur þeirra. Það er hins vegar engum vafa undirorpið að aðgerðir stjórnvalda til að bæta þjónustu við sjúk börn og ungmenni og aðstandendur þeirra á yfirstandandi kjörtímabili eru víðtækari og umfangsmeiri en á nokkru öðru tímabili í sögu þjóðarinnar.