Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 618. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1293  —  618. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2002, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Kristínu Helgu Markúsdóttur frá samgönguráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 168/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/39/EB frá 10. júní 2002, um breytingu á tilskipun 97/67/EB með tilliti til þess að opna póstþjónustu bandalagsins enn frekar fyrir samkeppni.
    Meginmarkmið tilskipunarinnar er að opna póstmarkaðinn í Evrópu enn frekar fyrir samkeppni. Samkvæmt efni hennar verður áfram unnt að veita rekstrarleyfishöfum með svonefndar alþjónustuskyldur einkarétt til að tryggja ákveðna lágmarksþjónstu en einkaréttarþjónusta skal takmarkast við ákveðna þyngdarflokka sendinga. Frá 1. janúar 2003 skulu þyngdarmörkin vera 100 g en lækka í 50 g frá 1. janúar 2006. Þá er kveðið skýrar á um nokkur atriði til hagsbóta fyrir neytendur.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi. Frestur til að innleiða efni hennar var til 1. janúar 2003. Samgönguráðherra lagði fram frumvarp þess efnis á haustþingi og varð það að lögum í lok síðasta árs sem lög nr. 136/2002. Að mati samgönguráðuneytisins felur fyrrnefnd lagabreyting í sér fullnægjandi innleiðingu tilskipunarinnar í landsrétt.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Steingrímur J. Sigfússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2003.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Björn Bjarnason.


Einar K. Guðfinnsson.



Jónína Bjartmarz.


Katrín Fjeldsted.