Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 649. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1398  —  649. mál.




Frumvarp til laga



um Ábyrgðasjóð launa.

(Eftir 2. umr., 14. mars.)

    Samhljóða þskj. 1055 með þessum breytingum:

    22. gr. hljóðar svo:
    Varsla Ábyrgðasjóðs launa, dagleg umsýsla og reikningshald eru á ábyrgð stjórnar sjóðsins í umboði félagsmálaráðherra, sbr. 1. mgr. 3. gr.
    Auk þeirra verkefna sem lúta að stjórnsýslulegri meðferð þeirra mála sem berast sjóðnum skal stjórn Ábyrgðasjóðs launa annast fyrirsvar fyrir sjóðinn og sinna öðrum þeim verkefnum sem lúta að framkvæmd laga þessara.
    Stjórn sjóðsins skal fyrir lok september ár hvert gera ráðherra grein fyrir fjárhagsstöðu sjóðsins og áætlun um þróun útgjalda. Jafnframt skal stjórnin fyrir sama tíma gera tillögu til ráðherra um hámarksfjárhæðir skv. 1. mgr. 6. gr.

    23. gr. hljóðar svo:
    Ábyrgðasjóður launa skal fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi, hvaða nafni sem nefnist, sem skattskylt er. Ákvæði laga um tryggingagjald eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu ábyrgðargjalds.
    Ábyrgðargjaldið skal vera 0,04% af gjaldstofni.
    Skorti sjóðinn reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum skal stjórn sjóðsins þegar tilkynna það ráðherra. Ríkissjóður skal þá leggja sjóðnum til þá fjármuni sem til þarf og skoðast það sem lántaka .
    Ábyrgðargjald telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, að því leyti sem það er ákvarðað af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt sömu grein.
    Kostnaður af rekstri Ábyrgðasjóðs launa greiðist af tekjum hans.
    Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af Ríkisendurskoðun.