Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 645. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1401  —  645. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um stöðu nautakjötsframleiðslu.

     1.      Hvenær er ráðgert að vinnuhópur um stöðu nautakjötsframleiðslunnar skili áliti?
    Vinnuhópurinn skilaði áliti sínu til ráðherra í formi minnisblaðs í janúar sl.

     2.      Hvernig mun ráðherra bregðast við þeirri þróun sem orðið hefur á smásöluverði nautakjöts og verði til bænda frá 1998?

    Smásöluverðlagning var gefin frjáls árið 1998 og því getur landbúnaðarráðherra ekki beitt sér í þeim efnum.

     3.      Mun ráðherra beita sér fyrir uppruna- og flokkunarmerkingum á nautakjöti?

    Landbúnaðarráðuneytið hefur sett reglugerð nr. 427/2002, um merkingu búfjár, og tryggir hún rekjanleika búfjár að slátrun. Verksvið landbúnaðarráðherra tekur eingöngu til búfjár og slátrunar þess en eftir það tekur við valdsvið umhverfisráðherra.

     4.      Hvernig er hægt að tryggja neytendum að saman fari verð og flokkun, þ.e. að í hæstu verðflokkum smásölunnar sé eingöngu gæðakjöt í flokki UNI Ú A og UNI Ú B?

    Með reglugerð nr. 484/1998, um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða, er tryggt að sláturafurðir séu merktar með gæðaflokksmerki. Þá tekur við verksvið umhverfisráðherra að tryggja að gæðamerkingarnar skili sér til neytenda. Eins og fram hefur komið er smásöluverðlagning frjáls og því er það ekki á valdi ráðuneytanna að stýra verðlagningu einstakra flokka í smásölu.

     5.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir að landbúnaðarvörur séu seldar undir framleiðslukostnaðarverði?
    Samkvæmt lögum getur ráðherra ekki hindrað eða komið í veg fyrir að landbúnaðarvörur séu seldar undir framleiðslukostnaðarverði þar sem verðlagning í smásölu er frjáls. Aftur á móti er það til athugunar í ráðuneytinu með hvaða hætti hægt er að stýra framleiðslu landbúnaðarvara með sem hagkvæmustum hætti og hagræða í greininni þannig að framleiðslan standi að sem mestu leyti undir framleiðslukostnaði.

     6.      Hverjar telur ráðherra vera framtíðarhorfur þeirra bænda sem stunda nautgriparækt eingöngu til kjötframleiðslu?

    Afurðaverð nautgripakjöts til bænda hefur lækkað mjög mikið undanfarið og greinin hefur ekki notið opinbers stuðnings. Raunar er nautgripakjötsframleiðslan á Íslandi eina nautgripakjötsframleiðslan innan landa EES-svæðisins sem ekki nýtur opinbers stuðnings.
    Framtíðarhorfur greinarinnar eru því ekki góðar nema til komi stuðningur við hana. Því hefur landbúnaðarráðherra velt upp þeim möguleika að veittar verði 45 millj. kr. á þessu ári til stuðningsaðgerða við greinina og einnig að samsvarandi upphæð verði tekin inn á fjárlög fyrir árið 2004.
     7.      Hvenær mega nautakjötsframleiðendur búast við aðgerðum af hálfu ráðherra?
    Málið er til meðferðar hjá ráðuneytinu og innan tíðar mun skýrast hvort stjórnvöld treysta sér til að veita greininni umræddan stuðning.