Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 19:32:58 (12)

2003-05-26 19:32:58# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[19:32]

Frsm. meiri hluta kjörbn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður tala af mikilli lítilsvirðingu um yfirkjörstjórnirnar í landinu. Þetta eru ekki ,,skýrslur úti í bæ``, þetta eru skýrslur frá því stjórnvaldi sem yfirkjörstjórnirnar eru. Og þetta eru ekki skýrslur sem eru skrifaðar eitthvað út í loftið, þetta eru skýrslur sem yfirkjörstjórnirnar í landinu senda frá sér til landskjörstjórnar til þess að landskjörstjórn geti tekið efnislega afstöðu til útgáfu kjörbréfanna.

Þannig að, virðulegi forseti, mér finnst að menn verði a.m.k. að átta sig á hvað hér er um að ræða. Hér er ekkert um að ræða einhverjar skýrslur eða ritgerðir sem eru skrifaðar eitthvað út í loftið, hér er um að ræða álit stjórnvaldsins, yfirkjörstjórnanna, um það hvernig staðið var að kosningum, hvort verið sé að uppfylla lögformlegar kröfur sem gerðar eru um kosningar í landinu, sem gerðar eru á grundvelli laga um kosningar til Alþingis, og vitaskuld er það það sem þetta mál snýst um. Erum við hér með kosningar sem hafa verið framkvæmdar eins og á að gera samkvæmt lögum? Yfirkjörstjórnirnar eru að senda frá sér álit, og hv. þm. segir einfaldlega að hann vilji fá annað álit þar sem svarað sé tilteknum spurningum sem allar hljóta nú í eðli sínu að lúta að þessu sama, sem sagt því að fá úr því skorið hvort eðlilega hafi verið að málum staðið, og því máli hefur verið svarað í rauninni. Alþingi er síðan á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir að taka sína afstöðu. En hv. þm. skautaði mjög fram hjá því sem er auðvitað praktískt úrlausnarefni en líka grundvallaratriði og það er það hvernig á að standa að málum varðandi þessar uppkosningar eða endurtalningar. Til hvers eiga þær að leiða og hvernig ætla menn að vinna þetta mál á grundvelli þeirra laga sem núna eru í gildi í landinu? Ég vek athygli á því að í t.d. Danmörku, sem menn hafa verið að vitna hér til, eftir að menn fóru af stað með þessa endurtalningu sem þar var, að ég hygg á árinu 1984, varð mönnum það ljóst að þeir höfðu ekki fastara land undir fótum en svo að það var talið nauðsynlegt að setja ný lög til þess að undirbyggja, til að búa til pósitíft ákvæði um það hvernig ætti að fara með ef endurtalningar væri þörf og hennar væri krafist.