Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 20:57:41 (69)

2003-05-27 20:57:41# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, DrH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[20:57]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er vor í lofti og bjart yfir íslenskri þjóð þegar þing kemur nú saman að afloknum kosningum. Vorverk eru alls staðar í fullum gangi og sáð er fræjum í frjóan jarðveg. Það gerir einnig ríkisstjórnin en fjórða kjörtímabil ríkisstjórnar undir forustu Davíðs Oddssonar er nú að hefjast.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar liggur fyrir og mikilvægustu kosningaloforðum flokkanna er þar haldið til haga, sem er afar mikilvægt því að við orð skal standa. Almenningur í landinu getur treyst því að skattar verði lækkaðir, að eignarskattur verði felldur niður, að erfðafjárskattur verði samræmdur og lækkaður og að virðisaukaskattskerfið verði tekið til endurskoðunar með það í huga að bæta kjör almennings.

Herra forseti. Mikilvægum markmiðum er náð eins og beinum stuðningi við barnafjölskyldur með hækkun barnabóta og frítekjumarks til þeirra og að dregið verði enn frekar úr tekjutengingum barnabóta. Afar mikilvægur kafli er um að endurskoða skuli almannatryggingakerfið, það einfaldað og þá verði sérstaklega skoðað samspil þess við skattakerfið og lífeyrissjóðina. Dregið verði úr skerðingum á bótum öryrkja vegna atvinnutekna og öryrkjalífeyrir yngri öryrkja verði hækkaður sérstaklega. Heimaþjónusta við aldraða verður aukin og unnið að því að allir geti búið sem lengst á eigin heimili.

Herra forseti. Sú staðreynd blasir við að íslenska þjóðin er að eldast og hlutfallslega færri verða á vinnumarkaði í framtíðinni en nú er. Árið 2000 voru rúmlega 10% þjóðarinnar 67 ára eða eldri en verða samkvæmt spá Hagstofunnar 20% árið 2050. Við þessu þarf að bregðast í tíma, læra af reynslu annarra þjóða og nýta okkur þá sérstöðu sem við höfum hér á landi og lýtur að atvinnuþátttöku eldra fólks. Það er því mikilvægt að almannatryggingalögunum verði breytt á þann veg að fólk hafi skýran ávinning af því að fresta töku lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, eigi það þess kost og kjósi það.

[21:00]

Heilbrigðiskerfið okkar er með því besta í heimi og framlög ríkissjóðs til heilbrigðismála nema 100 milljörðum kr. á ári og eru hlutfallslega hæst á Íslandi meðal ríkja OECD.

Herra forseti. Mikil áhersla er lögð á samheldni þjóðarinnar í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og á að víðtækt samráð verði haft við aðila vinnumarkaðarins. Samvinna dreifbýlis og þéttbýlis er nauðsynleg. Hún verður styrkt enn betur með því að halda áfram stuðningi við atvinnuþróun á landsbyggðinni. Áhersla er lögð á að hagsmunir landsins felast í markvissu samstarfi höfuðborgar og landsbyggðar. Bætt lífsgæði eru liður í eflingu atvinnuþróunar. Það sem ræður búsetu fólks er örugg atvinna, góðar samgöngur, möguleikar til menntunar, góð heilsugæsla og gott umhverfi. Við ætlum að treysta undirstöðu byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu, menntunar og menningar. Sérstök áhersla verður lögð áfram á fjarnám og símenntun til að sem flestir geti stundað nám í heimabyggð sinni og bætt við sig menntun meðfram vinnu.

Herra forseti. Gífurlegt átak stendur fyrir dyrum í samgöngumálum landsins með þeirri ákvörðun að veita 4,6 milljarða aukalega til vegamála á næstu missirum. Með þeirri ákvörðun sem tekin hefur verið um að flýta vegaframkvæmdum má segja að í það minnsta þrjár flugur hafi verið slegnar í einu höggi, vegir landsins verða bættir mun fyrr en ella hefði orðið, atvinna efld á réttum tíma og búið í haginn til að síðar verði unnt að beita ríkisfjármálum til mótvægis þegar mestu framkvæmdir sem Íslendingar hafa farið út í standa yfir.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að íslenskum landbúnaði verði skapað það starfsumhverfi að hann geti séð neytendum fyrir hollum og öruggum búvörum á hagstæðum kjörum. Mikilvægt er að hafa í huga að landbúnaður, þjónusta við landbúnað og úrvinnsla landbúnaðarafurða hafa verið mikilvægir þættir í atvinnu landsmanna. Flestir þéttbýliskjarnar á landinu byggja á þjónustu við landbúnað og matvælaiðnaði. Við eigum að nýta til fulls þá möguleika sem felast í íslenskum landbúnaði til bættra lífskjara fyrir það fólk sem við greinina starfar, bæði þá sem framleiða vöruna og þá sem eru í matvælaiðnaði. Hagsmunir beggja fara saman. Það er því nauðsynlegt að skilyrði verði sköpuð til að landbúnaðurinn geti nýtt styrkleika sinn til að takast á við aukna samkeppni.

Góðir áheyrendur. Við höfum heyrt úrtöluraddir stjórnarandstöðunnar hér í kvöld. Bölsýnistal sem er með ólíkindum hjá þjóð sem býr við einhver bestu lífskjör í víðri veröld. Það má að sjálfsögðu gera betur en gert hefur verið og það ætlar þessi ríkisstjórn sér að gera. Það er holur hljómur í málflutningi stjórnarandstöðunnar. Og við að hlusta á ræður hér í kvöld þá kom mér í hug vísukorn eftir Jónas Hallgrímsson:

  • Feikna þvaður fram hann bar, --
  • fallega þó hann vefur.
  • Lagamaður víst hann var,
  • varði tófu refur.
  • Góðir áheyrendur. Sóknarfærin eru mörg og fjölbreytt og blasa við okkur á öllum sviðum. Framtíðin er björt. Nýtum tækifærin saman. --- Góðar stundir.