Förgun úreltra og ónýtra skipa

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:02:47 (3526)

2004-01-28 14:02:47# 130. lþ. 52.3 fundur 357. mál: #A förgun úreltra og ónýtra skipa# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér tóku til máls og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hafi ég tekið of djúpt í árinni hefur það kannski verið vegna þess að aðilar hafa gefið sig fram sem reka slippstöðvar á Íslandi og verið tilbúnir til þess að taka skip í slipp og höggva þau upp. Ég held að það sé bæði atvinnu- og tekjuskapandi og væri þar af leiðandi hægt að vinna þessu máli farveg með þeim hætti.

Hins vegar tek ég alveg undir það sem hér kom fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, við höfum oft séð myndir frá ýmsum löndum, teknar neðan sjávar af skipum sem liggja á hafsbotni. Þetta virkar eins og uppeldisstöðvar fyrir fisk. Ég er þess vegna að því leyti ekki ósammála hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að það eigi að draga þessi skip á haf út, finna þeim ákveðinn kirkjugarð með ströndum fram þar sem þau gætu nýst til þessa.

Það sem ég átti einfaldlega við þegar ég sagði að mér fyndist lítið hafa verið gert er það, eins og ég sagði áðan, að ég tel óeðlilegt að ekki skuli vera haft samband við þessar slippstöðvar. Við höfum séð dæmi um það að skip hafi verið hoggið niður. Ég nefni t.d. Sandey, sanddæluskipið, það var hoggið niður og selt í brotajárn. Það sem ég einfaldlega bendi á er að það er allt of dýrt fyrir þjóðfélagið að þessi skip sem eru 161 og 37 þús. tonna skuli taka upp svo mörg viðlegupláss sem kallar jafnvel á meiri og óarðbæra fjárfestingu í höfnum en til þarf. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að tekið sé á þessu máli. Vissulega eru skýrslugerðir allar af hinu góða en ég tel bara tímabært að nú verði verkin látin tala í þessu máli.