Friðun rjúpu

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:31:32 (3537)

2004-01-28 14:31:32# 130. lþ. 52.5 fundur 392. mál: #A friðun rjúpu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Á sínum tíma tók ég sem umhvrh. ákaflega umdeilda ákvörðun um að stytta veiðitíma rjúpu. Sú ákvörðun byggðist á vísbendingum sem hæpið var að kalla vísindalegar en voru þó vísbendingar. Mér sýnist sem þær rannsóknir sem sú ákvörðun hratt af stað hafi síðan leitt í ljós mýmargar staðfestingar á því að það sem menn héldu fram, t.d. prófessor Arnór Garðarsson á þeim tíma, hefði við rök að styðjast.

En mig langar, af því að ég held að það sé þarft í þessari umræðu, að spyrja hæstv. umhvrh. hvort það sé ekki rétt að nú liggi fyrir, bæði í Noregi og á Íslandi, næsta ótvíræðar vísbendingar um að veiðar geti haft mjög marktæk áhrif á stofn rjúpu, þar með ef óbreytt veiðiálag er, þegar stofn er í djúpri niðursveiflu, þ.e. haft veruleg áhrif á stofnstærðina.