Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:47:16 (3566)

2004-01-28 15:47:16# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Frjálsl. mótmælti því harðlega að Ísland styddi árás á Írak. Ísland var meðal þeirra 30 landa sem lýstu því opinberlega yfir að þau vildu taka þátt í afvopnun Íraka. Ákvörðun um beinan stuðning íslensku þjóðarinnar við árásina á Írak var tekin á NATO-fundinum í Prag af hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni og hæstv. utanrrh. Halldóri Ásgrímssyni án nokkurs samráðs við Alþingi. Í Prag hikuðu þessir háu herrar ekki við að lofa 300 millj. kr. framlagi af íslensku skattfé til aðgerða í Írak auk þess að flytja hergögn.

Frú forseti. Það er nauðsynlegt að þeir sem tóku ákvörðun um stuðning Íslands við árásina á Írak rifji upp þann eið íslensku þjóðarinnar að bera aldrei vopn á aðrar þjóðir. Meginforsendur fyrir árásinni, meint eign Íraka á gereyðingarvopnum, eru nú brostnar þar sem sá sem leitt hefur vopnaleitina til skamms tíma hefur gefið út þá yfirlýsingu að mjög ólíklegt sé að efnavopn hafi verið framleidd í stórum stíl eftir 1990. Sjálfur utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur tekið undir þær efasemdir.

Hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa oftsinnis gefið stórkarlalegar yfirlýsingar um réttmæti árásarinnar en þó hefur dregið úr þeim upp á síðkastið eftir að ljóst er orðið að ófriðurinn hefur dregist á langinn og engin gereyðingarvopn finnast í Írak. Réttlæting á stuðningi við árásina hefur lagst æ þyngra á hæstv. utanrrh. og honum er órótt. Þegar fréttir bárust af meintum fundi íslenskrar sveitar á efnavopnum talaði hann sigri hrósandi um heimsviðburð og var greinilega létt. Hæstv. utanrrh. missti þó gleði sína jafnharðan þegar í ljós kom að engin efnavopn var að finna.

Það er orðið löngu tímabært að þessir háu herrar hætti að reyna að réttlæta árásina, komi síðan fram og biðji þjóðina afsökunar í stað þess að verja kröftum sínum í það að byggja upp Írak og stuðla að lýðræði í þessu stríðshrjáða landi.