Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:52:01 (3568)

2004-01-28 15:52:01# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Jónína Bjartmarz:

Frú forseti. Saddam Hussein harðstjóri hafði árum og áratugum saman sent SÞ og alþjóðasamfélaginu langt nef, og ég spyr: Hversu lengi átti hann að halda áfram að gera það og viðhalda ógn í heiminum? Margir þeir sömu og voru afdráttarlausustu andstæðingar hernaðaríhlutunar í Írak voru líka áköfustu gagnrýnendur viðskiptaþvingananna sem írakska þjóðin varð fyrir vegna þessa sama harðstjóra.

Hvað vildu þessir menn gera? Það komu aldrei neinar raunhæfar tillögur frá þessum aðilum. Ég minni líka á að þau ríki sem hvað ákafast lögðust gegn hernaðaríhlutuninni voru meðal bestu viðskiptaaðila þessa sama harðstjóra.

En við vorum ekki, frú forseti, aðilar að þessari hernaðaríhlutun eins og látið hefur verið að liggja, og látið er að liggja. Við studdum það að lögum yrði komið yfir einn alræmdasta harðstjóra mannkynssögunnar, sem beitt hafði eigin þjóð svívirðilegri kúgun og ofbeldi áratugum saman, og við studdum og skuldbundum okkur til að styðja uppbygginguna í Írak að hernaðaríhlutuninni lokinni. Og sífellt eru fleiri þjóðir að bætast í þann hóp og það er að nást um það efld alþjóðleg samstaða.

Það hefur jú komið í ljós að upplýsingarnar sem stuðst var við í margra ára löngum aðdraganda þessara hernaðaríhlutana, upplýsingar um gereyðingarvopn Íraka, virðast ekki hafa verið reistar á traustum heimildum en þetta voru upplýsingar, ekki bara frá leyniþjónustum Breta og Bandaríkjamanna heldur frá fjölmörgum öðrum þjóðum, og skýrslur vopnaeftirlitsmanna studdu þær ávallt. Þær studdu ávallt þær upplýsingar að það væri sterk ástæða til að ætla að Írakar réðu yfir gereyðingarvopnum.

Við þurfum, þessi litla þjóð, áfram að reiða okkur á upplýsingar frá leyniþjónustum þessara ríkja og annarra helstu bandalagsríkja okkar en stjórnvöld þar þurfa augljóslega að endurskoða vinnubrögð sín, öflun og úrvinnslu upplýsinga. En ég held þrátt fyrir allt, frú forseti, að það horfi núna bjartar fyrir íröksku þjóðinni en hefur gert áratugum saman.