Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 16:05:45 (3574)

2004-01-28 16:05:45# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Fyrst tvær setningar um merkileg innlegg fulltrúa Sjálfstfl. við þessa umræðu. Þeir eru gjörsamlega úti á túni, frú forseti, kaþólskari en páfinn, harðari en haukarnir í Pentagon og blanda síðan orðræðuna með aulafyndni um Samf. Ekki meira um það.

Ég þakka hæstv. utanrrh. þessi orðaskipti. Ég kannski trúði því aldrei innst inni að hann kæmi hér og yrði maður að meiri og viðurkenndi mistök sín, kæmi hingað og sæi ljósið. Það gerði hann ekki þó að auðvitað mætti greina hjá honum ákveðna iðrun þegar hann orðaði það sem svo að sennilega hefði ógnin verið ýkt. En þá brá hann sér í hinn búninginn sem er hinn nýi og fór yfir það að harðstjórann Saddam Hussein hefði þurft að fjarlægja. Ég tek alveg sannarlega undir það. En réttlætir það innrás nokkurra ríkja í annað ríki? Og það dugar ekki, frú forseti, að skáka í skjóli SÞ í þessum efnum því að SÞ lögðu ekki blessun sína yfir þetta innrásarstríð. Höldum því til haga í þessari umræðu. Og rifjum það einnig upp að ríkin eru því miður fleiri, og fleiri harðstjórarnir á þessu svæði og víðar í heiminum.

Af því að ég nefndi Íran til sögunnar hér og hæstv. ráðherra er nýkominn þaðan er rétt að geta þess að Íranir hafa heldur betur fengið á sig samþykktar ályktanir SÞ vegna sannarlegra möguleika þeirra á framleiðslu gereyðingarvopna. Hefði innrás verið réttlætanleg í því tilfelli? Svo ég nefni ekki Gaddafi Líbýuforseta forðum daga, hefði ekki verið rétt undir sömu formerkjum að ráðast þar inn? Hvar ber okkur að stöðva ef svona er í pottinn búið?

Þess vegna höfum við hafnað því að einstök ríki geti tekið sér lögregluvald í heiminum með þessum hætti í blóra og í andstöðu við samfélag SÞ. Það er kjarni þessa máls.

Og ég ítreka og árétta beiðni mína til hæstv. utanrrh. að hann verði nú maður og meiri og segi: Já, þetta voru mistök.