Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:04:42 (3577)

2004-01-28 18:04:42# 130. lþ. 52.9 fundur 426. mál: #A þjóðgarðar og friðlýst svæði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:04]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt: ,,Hvernig er stjórn þjóðgarða og friðlýstra svæða háttað?``

Því er til að svara að skv. 28. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, hefur Umhverfisstofnun umsjón með náttúruverndarsvæðum nema annað sé tekið fram í lögum. Náttúruverndarsvæði eru í fyrsta lagi friðlýst svæði, þ.e. þjóðgarðar, friðlönd, fólkvangar og náttúruvætti. Í öðru lagi svæði á náttúruminjaskrá. Og í þriðja lagi svæði sem njóta verndunar samkvæmt sérlögum vegna náttúru og landslags. Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn og er hlutverk þeirra m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.

Umhverfisstofnun getur falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða að þjóðgörðunum undanskildum. Er þá gerður sérstakur samningur um umsjón og rekstur svæðanna sem umhvrh. staðfestir. Umhverfisstofnun hefur síðan eftirlit með því að umsjónar- og rekstraraðili uppfylli samningsskuldbindingar. Samningur sem þessi hefur til að mynda verið gerður milli Umhverfisstofnunar og Ísafjarðarbæjar um umsjón og rekstur friðlandsins á Hornströndum.

Sveitarfélög geta óskað eftir því að tiltekin landsvæði sem ætlað er til útivistar og almenningsnota verði lýst fólkvangur og er rekstur hans þá í þeirra höndum. Sveitarfélög sem standa að rekstri fólkvangs skulu gera með sér samvinnusamning og stofna samvinnunefnd sem starfar í samráði við Umhverfisstofnun.

Í náttúruverndarlögum er gert ráð fyrir að stjórnun þjóðgarða sé ávallt í höndum ríkisins og verði ekki framseld til annarra. Hins vegar er ráðherra heimilt að stofna ráðgjafarnefnd með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórnar til að fjalla um rekstur og skipulag þjóðgarða. Hlutverk ráðgjafarnefndar er m.a. að veita Umhverfisstofnun ráðgjöf og vera til samráðs um skipulag og uppbyggingu og rekstur þjóðgarða og skapa tengsl við skipulag utan þjóðgarðsins.

Ráðgjafarnefndir í þjóðgörðum eru skipaðar fulltrúum sveitarfélaga og ferðamálasamtaka landshlutanna. Ráðgjafarnefndir hafa einnig starfað við nokkur friðlönd og þar sitja fulltrúar landeigenda og hagsmunaaðila ásamt fulltrúum sveitarfélaga.

Í hverjum þjóðgarði starfar þjóðgarðsvörður sem forstjóri Umhverfisstofnunar ræður. Þjóðgarðsverðir annast daglegan rekstur þjóðgarða og gera tillögur til Umhverfisstofnunar um rekstur þeirra.

Í öðru lagi er spurt, virðulegur forseti: ,,Eru á döfinni breytingar á stjórn þjóðgarða og friðlýstra svæða?``

Því er til að svara að engar formlegar ákvarðanir hafa verið teknar um að leggja til breytingar á reglum um stjórn þjóðgarða og friðlýstra svæða. Undanfarin missiri hefur hins vegar verið vaxandi umræða um að ábyrgð heimamanna á rekstri og stjórn þessara svæða verði aukin, m.a. af hálfu þeirrar er hér stendur. Heimamenn hafa líka haft áhuga á að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi og taka þátt í ákvarðanatöku.

Mér er kunnugt um að þessi mál hafa verið talsvert mikið til umræðu í starfi tveggja nefnda sem ég hef skipað og eru nú að störfum, þ.e. annars vegar nefndar sem skipuð var til að aðstoða okkur að undirbúa stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og hins vegar nefndar sem á að kanna möguleika á stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls. Ég tel þessi sjónarmið mjög skiljanleg og vil taka þau til nánari skoðunar og styð þau af því ég hef alltaf talið að heimamenn ættu að koma meira að stjórn þessara svæða en nú er.

Vegna stærðar fyrirhugaðs Vatnajökulsþjóðgarðs og umfangs þess verkefnis tel ég líklegt að tekið verði að einhverju leyti tillit til þessara sjónarmiða í framhaldinu við stofnun þjóðgarðsins, þó ekki hafi verið teknar neinar ákvarðanir um það enn þá.

Í starfi mínu sem umhverfisráðherra hef ég lagt áherslu á að Umhverfisstofnun sé í mjög góðu samráði og samstarfi við heimamenn. Borið hefur svolítið á því í gegnum tíðina að heimamenn hafi verið ósáttir við stjórn þjóðgarða og friðlýstra svæða en mér finnst eins og það sé að taka breytingum og það sé meiri sátt um þjóðgarðana í dag en verið hefur um langt skeið. Ég tel því, virðulegur forseti, líklegt t.d. varðandi nýjan Vatnajökulsþjóðgarð og tengd svæði, sem yrði mjög stór þjóðgarður eins og við höfum rætt fyrr í dag, að sett yrðu sérlög um þann þjóðgarð og stjórn heimamanna, þannig að það yrði stjórn með öðru fyrirkomulagi en við sjáum í dag á þeim þjóðgörðum sem við rekum. M.a. af þeim sökum, ef kemur til lagafrumvarps, er ljóst að það tekur nokkurn tíma að undirbúa slíkt mál og það mundi þá kannski vera ár eða lengri tími í það að slík lög kæmu inn af því að málið er þannig vaxið, það er það flókið og kemur ekki hér inn á næstu dögum.