Fullnusta refsingar

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 12:26:36 (3638)

2004-01-29 12:26:36# 130. lþ. 53.5 fundur 465. mál: #A fullnusta refsingar# frv., GÖg
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[12:26]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um fullnustu refsinga á þskj. 673.

Frv. sem hér liggur fyrir á eftir að skapa mikla umræðu í allshn. og mikil vinna á eftir að fara fram við frv. Bæði á eftir að ræða við gesti, fá álit þeirra og umsagnir sem við sjáum strax í hendi okkar að verða ekki allar með allra jákvæðasta móti. Það er augljóst.

Ég minni á ágreining milli Fangelsismálastofnunar og dómstólaráðs um samfélagsþjónustuna. Það er eitt af því sem nefndin þarf að ræða. Það er náttúrlega afar mikilvægt að þessi nýja allshn. fari t.d. á Litla-Hraun og í fangelsin og skoði þar aðstæður. Ef við skoðum aðeins 3. gr. þá er hún mjög lýsandi fyrir aðstæður á Litla-Hrauni.

Þar stendur:

,,Gæsluvarðhaldsfanga má vista meðal afplánunarfanga ef einangrun telst ekki nauðsynleg.``

Þetta er spurning um aðstæður í tilteknu fangelsi og er kannski verið að lögfesta það sem við vildum helst ekki sjá. Þá er spurning um þetta nýja fangelsi sem er verið að tala um að byggja hér í Reykjavík.

En það eru nokkur atriði og aðallega nýmæli sem mig langar að fara yfir. Við erum bara rétt að byrja vinnslu málsins og alltaf erfitt við 1. umr. að ræða annað en það sem manni finnst augljóst. Annað bíður þess sem kemur út úr umræðunni í nefndinni og frá þeim gestum sem við munum fá.

Mér finnst líka augljóst við lestur þessa frv. að við þurfum að greina fangelsi niður í öryggisfangelsi, aðrar tegundir fangelsa o.s.frv. Ég held að það sé hluti þeirrar vinnu sem við verðum að fara í. Það eiga ekki allir heima í öryggisfangelsi eins og Litla-Hraun er.

Varðandi fangaverðina er verið að sækja fyrirmyndina í störf lögreglunnar og eitt af því sem við þurfum að ræða mjög vel í nefndinni er nám, bæði innihald námsins, endurmenntun og nám fangavarða. Ef það er verið að breyta því starfi í ígildi lögreglustarfs þá verðum við að skoða það heildstætt. Það eru sérstök lög um lögregluna, um nám og annað sem að henni lýtur. Það þurfum við að skoða í samhengi og gera þau ákvæði fyllri og tryggja að endurmenntun geti þá hafist við fyrstu hentugleika fyrir þann hóp.

[12:30]

Ef við byrjum bara á athugasemdunum þá er einmitt vísað dálítið í danskar fyrirmyndir varðandi fangelsin. Danir eru einmitt með svokölluð vistheimilisfangelsi, þ.e. fangelsi með mjög frjálsu sniði þar sem fangar elda sjálfir mat sinn þannig að vinnuframlag þeirra í fangelsinu gengur til heimilisins. Ef við skoðum punkt nr. 2 á bls. 20 í frv. um störf og nám fanga þá þurfum við líka að skoða það að þetta megi ekki vera svona ofboðslega letjandi eins og mér finnst það vera hér. Við þurfum að skoða það.

Ef við lítum á heilbrigðisþjónustuna finnst mér líka afar mikilvægt, og mér finnst að allshn. ætti að skoða það, hvort ekki eigi að hefja meðferð við upphaf fangelsisvistar, hvort það yrði ekki farsælla og sú umræða hefur staðið í þinginu margoft og mál hafa verið flutt m.a. af fyrrv. hv. þm. Katrínu Fjeldsted. Það er eitt af því sem þarf að skoða.

Það er mjög gott að heimildin með túlkana er komin í lögin því það hefur fyrst og fremst verið nýtt í lögum um heilbrigðisþjónustu. Þetta þarf auðvitað að taka til annarra laga líka. Einnig þarf að skoða sérstaklega skráningu persónuupplýsinga og við munum ræða það við Persónuvernd hvort einhverjir hættupunktar séu í þessu.

Ég geri líka verulegar athugasemdir við líkamsleitina. Við þurfum að greina á milli þeirra sem eldri eru og þeirra sem eru yngri en 18 ára varðandi líkamsleit á börnum og ungmennum. Svo er spurning hvort við eigum hreinlega að skoða það að vera með gestaaðstöðu sem yrði þá þannig að hún væri hreinlega með ákveðin skilrúm ef fólk velur svo að vilja ekki láta leita á sér. Það er spurning hvort við verðum ekki að koma okkur upp einhverjum valkostum í slíku. Ég held að þeir sem hafa farið í heimsókn á Litla-Hraun séu kannski dálítið markeraðir af því að hafa verið þarna og setji þetta dálítið fyrir sig. Það er því spurning að bjóða upp á þessa valkosti. Hins vegar þurfum við að hindra það fyrst og fremst að eiturlyf komist í fangelsið. Það er auðvitað númer eitt, tvö og þrjú. En það er líka spurning hvort leita þurfi á öllum eða ekki. Þetta er alltaf spurning um hina hárfínu línu. Þetta er alltaf viðkvæmt mál og mikil inngrip. Við þurfum því að skoða ýmsar lausnir á þessu.

Svo er það haldlagning, eignaupptaka og innri reglur fangelsisins. Það er auðvitað kveðið á um það hér hvað má vera. Viðurlögum hefur t.d. verið beitt og straffi. Ég kann ekki alveg að fara með þessar tölur. Ég held að það séu 40 geisladiskar. Segjum það. En þá eru mjög hert viðurlög ef einhver er með 45 geisladiska, þá eru viðurlög við því. Því þarf að skoða þessar reglur í fangelsunum, þ.e. hvernig þeim er beitt. En það er kannski líka gott við frv. að verið er að taka úr reglugerð og setja í lögin. Það gerir þetta miklu gegnsærra. Það er mikill kostur. Því er mikilvægt að semja handbók eða eitthvað slíkt um agaviðurlög, haldlagningu og annað. Það er mjög mikilvægt því þetta er eilíft deilumál í fangelsunum. Þetta þarf verulega að skoða.

Svo er það spurningin um leyfi til dvalar utan fangelsis. Það er gert örlítið gegnsærra hér. En ef við tengjum þetta við reynslulausnina þá þurfum við í nefndinni að fá kortlagningu hjá Fangelsismálastofnun á því hvernig þeirri vinnu er háttað þegar fólk kemur út og er undir ákveðnu eftirliti, þ.e. hvaða kröfu eigi að setja, hvort ekki eigi að vera ríkari krafa um vinnuna en t.d. áfengisneyslu. Ég vil því gjarnan, og mun gera það í nefndinni, kalla eftir þessu hjá Fangelsismálastofnun. Við höfum rætt við yfirmenn þar um reynslulausnina en ég held að eitthvað þurfi að hnykkja á þessu hér eða alla vega ákveða hvað af slíkum þáttum ætti að fara í reglugerð.

Eins og ég segi þá vakna mjög margar spurningar og varúðarbjöllur hringja dálítið mikið hjá mér. En þetta er ekkert sem við ræðum ekki í nefndinni og við getum alltaf kallað menn fyrir hana þannig að kannski verður meiri umræða hér við 2. umr. eftir því hvernig vinnunni vindur fram í nefndinni. Þó hringir allt of mörgum bjöllum við ákveðna þætti. En við skoðum það bara.