Siglingastofnun Íslands

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 16:12:58 (3667)

2004-01-29 16:12:58# 130. lþ. 53.7 fundur 467. mál: #A Siglingastofnun Íslands# (siglingavernd, kóðar, gjaldtaka) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum ekki að fjalla um réttindamálefni skipasmiða eða annarra iðngreina þannig að það er erfitt að fara inn í þessa umræðu núna.

Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði hér áður, lögin um eftirlit með skipum og það frv. sem hér er til umfjöllunar og svo framkvæmdin, það að verið er að fela skoðunarstofum eftirlit með skipum, felur ekki í sér að það sé verið að draga úr kröfum eða tefla öryggi á tæpt vað. Það er fjarri öllu lagi.

Ég sagði hér fyrr að sú kerfisbreyting sem felur það í sér að skoðunarstofunum verði heimilt að hafa eftirlit með skipum felur í sér þær kröfur til skoðunarfyrirtækjanna að þau hafi yfir að ráða fólki með þekkingu á þessum hlutum. Það er gerð sérstök krafa til þess að þar sé um að ræða háskólapróf, hjá þeim aðilum sem bera ábyrgð á eftirlitinu. Ég tel að þarna sé vel fyrir öllu séð.

Hitt er annað mál að það kann vel að vera að það þurfi að fara yfir þá hluti hvort það eigi að gera meiri kröfur til þeirra sem sjá um byggingu skipa, ég vil ekki hafna því á þessu stigi út af fyrir sig. En aðalatriðið er að það sé tryggt að þeir sem smíða skip skili verki sem er fullnægjandi að mati manna sem hafa til þess bæra þekkingu að meta það. Út á það gengur það eftirlitskerfi sem við höfum verið að byggja upp og munum byggja upp.