Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:31:27 (3758)

2004-02-03 14:31:27# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í þessa verndun. Mér finnst óljóst hvað hún felur í sér, hvaða takmörk þessi verndun setur t.d. landnýtingu. Það þarf að koma skýrt fram. Við erum ekki bara að merkja svæði á kort til þess að merkja þau heldur hlýtur það að hafa einhverja merkingu að taka svæði frá og vernda þau. Mér finnst þetta ákaflega óljóst.

Ég held að við verðum að hafa fleira í huga þegar við tökum svæði og verndum þau, merkjum þau sem friðland. Það þarf náttúrlega að hugsa fyrir því hvernig verndunin takmarkar landnotkun. Þar þarf líka að forgangsraða. Ákveðin svæði eru mikilvægari en önnur náttúrufarslega, mér detta strax í hug t.d. Surtsey, Þjórsárver og Mývatn. Ég veit ekki betur en að það sé beit í Þjórsárverum. Kannski er ekkert við það að athuga en það er verra að enn er óljóst um virkjun á þessu svæði. Það er sagt að það eigi ekki að skaða þetta svæði en menn eru enn að deila um hvernig virkjunum eigi að vera háttað í kringum Þjórsárver.

Ég tel mjög mikilvægt að forgangsraða þessum verkefnum og að lagaleg vernd verði í samræmi við náttúrufarslegt gildi svæðanna.