Aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 18:39:06 (3814)

2004-02-03 18:39:06# 130. lþ. 55.5 fundur 28. mál: #A aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[18:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þegar upp er staðið skiptir fyrst og fremst máli hvað menn gera en ekki hvað menn segja. Ég held að þessi umræða færi mér enn frekar heim sanninn fyrir því að það er óhjákvæmilegt að við fáum á þingi rækilega umræðu um hvernig ríkisstjórnin hyggst standa að þessu á næstu mánuðum. Annað er óþolandi.

Eru menn t.d. með það í huga, verði Síminn seldur, að einhver hluti söluandvirðisins verði tekinn frá og settur sem styrkur í fjárfestingar sem stjórnvöld hafa áhuga á að í verði ráðist? Það er ein möguleg leið að segja sem svo: Við ætlum að taka þessa peninga til hliðar og þeim verður varið í að ljúka uppbyggingu GSM-kerfisins, styrkja dreifikerfið þar sem það er of veikt, koma á ljósleiðaratengingum o.s.frv. En sporin hræða hins vegar mjög í þessum efnum.

Ég hef árlega, líklega undanfarin þrjú ár, spurt hæstv. samgrh. hvort ráðist verði í þær úrbætur í fjarskiptamálum á norðausturhorni landsins sem sárlega vantar, sérstaklega að tengja Kópasker og Raufarhöfn betur við grunnnetið. Í fyrra voru gefin góð fyrirheit um að sennilega yrði ráðist í þetta í ár. En þegar ég spurði samgrh. rétt fyrir jólin, eina ferðina enn, brá allt í einu svo við að engu var lofað. Þetta stendur svona rosalega í mönnum, þetta 30--40 millj. kr. verkefni. En það er hægt að fara með 300 millj. kr. til Búlgaríu. Skrifar ríkisstjórnin upp á þetta? Skrifar Framsfl. upp á þetta? Það er von að spurt sé.

Ég held að það verði ekki of oft lögð á það áhersla að menn eru hræddir við þetta í sambandi við einkavæðingu Landssímans, að þjónustan versni á svæðum þar sem viðskiptin eru ekki eins ábatasöm og annars staðar. Hver er reynslan frá Nýja-Sjálandi þegar þeir einkavæddu fjarskipti sín þar? Hún er hörmuleg fyrir landsbyggðina á Nýja-Sjálandi. Öll áherslan er á stóru borgirnar og samkeppnina þar. Dreifikerfið út til sveita mætir afgangi.