Aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 18:58:18 (3817)

2004-02-03 18:58:18# 130. lþ. 55.5 fundur 28. mál: #A aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu# þál., BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé mig knúinn, vegna orða hv. þm. Jóns Bjarnasonar um þá ríkisstjórn sem hér er við völd, að minna á að við erum að ræða till. til þál. um aðgang allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu. Og þegar hv. þm. segist sakna nærveru hæstv. fjmrh. í umræðunni til að ræða fjármál Símans, þá erum við ekki að ræða fjármál Símans. Við erum að ræða um það ágæta mál sem er um aðgang allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu.

Á þingi geta menn beint fyrirspurnum til ráðherra og mönnum er það í lófa lagið, en ég get ekki ætlað hæstv. fjmrh. það að hann hafi átt að eiga von á því að undir umræðunni um aðgang allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu færu menn að ræða sérstaklega fjármál Landssímans.

Mönnum hefur jafnframt verið tíðrætt um fjárfestingarstefnu Landssímans og annað slíkt. Ég tel það vera þannig að Síminn heyri undir stjórn, það er skipuð stjórn yfir Landssíma Íslands, og sú stjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri sjóðsins og þeirri stefnu sem þar er framkvæmd. Ég tel að það sé ekki þannig að framkvæmdastjóri Símans sé á fundum með fjmrh. um einhverjar einstakar aðgerðir í rekstri Landssímans. Þannig er það ekki, heldur lýtur framkvæmdastjóri Landssímans stjórn og hún ber ábyrgð á rekstri Símans. Ég hef enga trú á því að hæstv. fjmrh. hafi nokkuð vélað um einhverjar sérstakar fjárfestingar Símans hingað til.