Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 16:09:10 (3861)

2004-02-04 16:09:10# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get lýst því að það er mín skoðun að varast beri að fara með sparisjóðina yfir í hlutafélagsformið vegna þess að ég tel að í lagarammanum, eins og hann er í pottinn búinn, sé ekkert sem komi í veg fyrir samrunann eftir að sparisjóði hefur verið breytt í hlutafélag. Þess vegna lögðum við fram þetta frv. um frestunina svo að tími gæfist þá til þess að fara þannig í löggjöfina og fá fram í henni þann vilja mikils meiri hluta alþingismanna, tel ég vera, að menn vildu ekki að sparisjóðirnir hyrfu af vettvangi og rynnu inn í hinar stærri peningastofnanir. Það tel ég að hafi verið vilji Alþingis á sínum tíma þegar verið var að ræða hér lagabreytingar um varnir vegna yfirtöku sparisjóðanna.

Ég deili því þeim áhyggjum með hv. þm., eins og mér fannst koma fram í máli hans, að ég tel að það sé misfarið í okkar þjóðfélagi, það stefni til verri möguleika fólks í landinu, verði sparisjóðirnir lagðir niður og renni inn í stærri viðskiptastofnanir.

Það hefur verið sagt í þessum ræðustóli, virðulegi forseti, síðast í dag af hv. þm. Pétri Blöndal, að það væri yfirfljótandi lánsfé í landinu og menn gætu fengið lánað allt það fé sem þeir þyrftu. Þannig er málum ekki háttað, virðulegi forseti, alla vega ekki víða úti á landsbyggðinni. Það er alveg ljóst að bankastofnanir sem hafa höfuðstöðvar sínar í Reykjavík eru ekki tilbúnar að lána fé út á land, m.a. til íbúðakaupa, vegna þess að þeir telja ekki veð í íbúðum úti á landi þess virði að menn vilji lána þangað. Þetta liggur fyrir, virðulegi forseti, og sýnir auðvitað hversu mikil þörf er fyrir sparisjóðina.