Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 17:46:18 (3869)

2004-02-04 17:46:18# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[17:46]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni er mikið í nöp við stofnfjáreigendur. Það liggur við að hann líti á þá sem óvini sparisjóðanna. Þetta er með ólíkindum. Að undanförnu hafa margir sparisjóðir lent í vandræðum. Þá hafa þeir leitað til fólks, m.a. annarra sparisjóða, sem gerast stofnfjáreigendur í þeim. KB-banki er stærsti stofnfjáreigandi í Sparisjóði Vestfirðinga. Hann á 10%. SPRON er næststærsti stofnfjáreigandi í Sparisjóði Vestfirðinga. Ég veit ekki nákvæmlega hvaða hlut hann á. Þetta er til að bjarga stöðu mála, til að menn ráði við KAT-stöðuna. Og ef menn ætla að fara að líta á stofnfjáreigendur sem einhverja óvini sparisjóðanna, þá líst mér illa á stöðuna.

Hv. þm. gerir mikið úr því að verið sé að flytja eigið fé sparisjóðanna til stofnfjáreigenda. Þetta er alrangt. Hver er það sem borgar 6 þús. millj. inn í sjálfseignarstofnunina? Hver er það sem borgar stofnfjáreigendum 3 þús. millj. í þeirra hlut? Það er ekki SPRON. SPRON á ekki nema 4 þús. millj. í heildareiginfé. Það er KB-bankinn sem borgar þessa peninga inn í sjálfseignarstofnunina. Það er KB-bankinn sem greiðir stofnfjáreigendunum.

Og af hverju fær sjálfseignarstofnunin lægra gengi en stofnfjáreigendur? Ég er búinn að fara í gegnum þetta áður. Það er vegna þess að allar þessar 6 þús. millj. sem KB-bankinn kaupir af sjálfseignarstofnuninni á einu bretti gefa ekki nema 5% atkvæðavægi. Síðan þarf KB-bankinn að vonast til þess að nægilega margir stofnfjáreigendur selji þannig að hann geti einhverju ráðið í fyrirtækinu og til þess þarf hann að bjóða meira. Þetta er afskaplega einfalt. Þetta skilur hver einasti maður. Og það er verið að fjalla um hlutabréfasölu, ekki stofnfé, það er búið að breyta SPRON í hlutafélag.