Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 18:17:16 (3876)

2004-02-04 18:17:16# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Alþingi fjallar hér um málefni sparisjóðanna í þriðja sinn á tveimur árum. Upphafið var að einhverjir fulltrúar sparisjóðanna, býsna áhrifamiklir, komu því á framfæri að opna þyrfti þeim möguleika til að breyta sparisjóðunum í hlutafélög. Ég hafði á þessu illan bifur allan tímann. Mér fannst og finnst enn að sú eðlisbreyting sem verður á þessum stofnunum með því geti ekki farið saman við upphafið, þ.e. stofnskrá sparisjóðanna.

Það kom fram í umræðum að við vöruðum við því, ég og fleiri, að leið mundi opnast fyrir stofnfjáreigendur til að selja aðgang að sjóðnum sjálfum, þeim peningum eða verðmætum sem verða til við starfsemi sparisjóðanna. Ég ætla ekki að taka tíma í að fara yfir mikilvægi sparisjóðanna en minni á að eftir að fjármálastofnanir fóru að vinna með þeim hætti sem þær hafa gert síðustu árin eða missirin er enn þá mikilvægara að til séu fjármálastofnanir í þessu landi sem vinna fyrst og fremst að hagsmunum sínum og viðskiptamanna sinna á grundvelli einstaklingsviðskipta en séu ekki uppteknir af braski og samkeppni við sína eigin viðskiptamenn alla daga, eins og bankar og fjármálastofnanir eru að gera.

Mér finnst að Alþingi beri mikla ábyrgð í þessu máli. Satt að segja finnst mér að hv. þm. Pétur Blöndal hafi orðið fyrir óþarflega miklum árásum í sölum Alþingis. Hann hefur farið fyrir þeim sem hafa viljað nota smugur á þessari löggjöf og ég ætla ekki að mæla því bót. Ég hef gagnrýnt hv. þm. fyrir þetta. Hins vegar vil ég segja að það er Alþingi sem ber ábyrgð á þessum smugum. Það er ekki þannig að það hafi ekki verið varað við því að þær væru fyrir hendi. Það var gert fyrir tveimur árum af mér og fleirum og líka fyrir ári síðan þegar fjármálastofnanirnar voru til umræðu. Ég tel fulla ástæðu til að minna á þetta af því að frá þessu var sagt alveg skýrt á þessum tíma. Ég bið um að efh.- og viðskn. fari vel ofan í þetta mál til að menn lendi ekki í að leggja frv. fram fjórða sinnið vegna þess að hér hafi verið kastað til höndum.

Að mínu viti hafa stofnfjáreigendur í SPRON setið yfir því í ár að ná samkomulagi um hvað þeir eigi að fá fyrir að selja aðganginn að sjóðnum. Ég minni á orð hv. þm. Péturs Blöndals í umræðum um þetta mál. Ég spurði hann í andsvari hvað mundi gerast og hvaða hættur væru þarna á ferðinni. Þá sagði hv. þm., með leyfi forseta:

,,Síðan er spurning hvað gerist í samningum við stjórn. Ég benti á það áðan að stjórnin verður að samþykkja framsal á hlutum. Þar af leiðandi verður stjórnin á þeim tímapunkti áður en breytt verður í hlutafélag afskaplega valdamikil. Hún hefur þetta allt í hendi sér. Hún gæti t.d. heimilað að einhver stór aðili keypti alla hluthafana út á mjög háu verði og þá er spurningin, ég þori varla að segja það: Hvað borgar hann mikið til stjórnarinnar?``

Þetta, hæstv. forseti, sagði hv. þm. Pétur Blöndal í sölum Alþingis. Ég tel fulla ástæðu til að velta fyrir sér hvað hann var að fara. Hann sagði skýrum orðum að þeir sem færu með völd í þessari stjórn væru í bullandi hættu á að þeim yrði mútað til að taka ákvörðun. Ég held því ekki fram að þeim hafi verið mútað. Ég held því hins vegar fram að þeir hafi staðið í samningaviðræðum til að tryggja hag sinn sem stofnfjáreigendur, til að tryggja hag sinn sem starfsmenn og til að tryggja sér yfirráð í framtíðinni yfir þeim 6 þús. millj. kr. sem samið var um að yrðu eftir í þessari stofnun sem á að verða til.

Þetta er allt saman á ábyrgð Alþingis vegna þess að hér köstuðu menn til höndum við lagasetningu. Það var varað við þessu.

Ég ætla ekki, vegna þess að hér hefur verið óskað eftir því að menn styttu mál sitt, að halda lengri ræðu. Ég vil bara minna á það enn og aftur að það er ekki nóg að berja á einhverjum þingmanni sem hefur tekið að sér vafasamt hlutverk þegar menn bera sjálfir ábyrgðina á að hafa ekki gengið frá málum með þeim hætti að það dugi.