Loðnurannsóknir og loðnuveiðar

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:19:46 (3936)

2004-02-09 15:19:46# 130. lþ. 60.94 fundur 310#B loðnurannsóknir og loðnuveiðar# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Loðnuveiðar hafa gengið brösuglega undanfarna mánuði og er ekki laust við að margir hafi þungar áhyggjur af vexti og viðgangi þessa fiskstofns sem er sá stærsti innan íslenskrar lögsögu þegar mælt er í lífþyngd eða tonnatölu. Aðeins hafa veiðst tæplega 100 þús. tonn frá áramótum og það er langt síðan loðnuveiðar hafa gengið jafnilla hér við land.

Ég get tekið undir þá skoðun að blikur geti verið á lofti hvað varðar stöðu loðnustofnsins og okkur beri að fara varlega í nýtingu hans því að færa má mörg rök fyrir því að þessi litli laxfiskur gegni lykilhlutverki í vistkerfi Íslandsmiða.

Á hverju sumri á sér stað mikið ævintýri í hafinu djúpt norður af landinu. Þar fer fram gríðarleg frumframleiðsla í næringarríkum sjó. Bjart er allan sólarhringinn. Mergð krabbadýra nærist á svifi. Þessi krabbadýr eru svo aftur fæða fyrir loðnuna sem liggur í æti, stækkar og fitnar fyrir hrygningargöngu sína sem hefst að haustlagi suður á bóginn í átt að landgrunni Íslands.

Þessi næringarmikli smáfiskur kemur upp að austurströndinni, syndir vestur með suðurströndinni og oftast inn í Faxaflóa og Breiðafjörð, sum árin koma göngur suður yfir Vestfjarðamið og áfram suður inn á firði og flóa vestan lands. Á leið sinni yfir landgrunnið hrygnir loðnan og deyr og hún er mjög mikilvæg fæða fyrir verðmæta nytjastofna eins og þorsk og steinbít. Við megum ekki gleyma því.

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að færa megi rök fyrir því að loðnan sé mjög mikilvæg fæða fyrir ýmsa nytjastofna þá er sorglega lítið í hendi sem sannar þetta, því miður, og ég tel að þarna skorti verulega á rannsóknir. Það er skoðun okkar í Frjálsl. að gera verði stórátak í loðnurannsóknum hér við land og veita miklu meiri pening í þessar rannsóknir en hingað til, kannski allt að 100 milljónum árlega næstu fimm árin svo að vel megi vera, til að rannsaka vistkerfi hafsvæðisins norður af Íslandi og hlutverk loðnunnar í íslensku vistkerfi og fyrir nytjastofna við Ísland. Það er ekki einleikið hve illa gengur að byggja upp marga botnfiskstofna hér við land þó að náttúruskilyrði hafi verið hagstæð mörg undanfarin ár. Ég tel að full ástæða sé til að spyrja sig að því hvort hluti af þeirri skýringu geti ekki einmitt legið í því að við erum að taka allt of mikið af loðnu út úr vistkerfinu á hverju ári.