Loðnurannsóknir og loðnuveiðar

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:31:02 (3941)

2004-02-09 15:31:02# 130. lþ. 60.94 fundur 310#B loðnurannsóknir og loðnuveiðar# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Við getum öll verið sammála um nauðsyn á traustum og góðum rannsóknum á okkar helstu fiskstofnum og ekki síst á loðnu. Við byggjum nýtingu okkar á auðlindinni á vísindarannsóknum. Því er mikilvægt að almenn sátt sé um að efla rannsóknir á hafinu og á auðlindum þess. Við hljótum líka að spyrja okkur hvort ekki sé ástæða til þess að stærri hluti þess fjármagns sem gengur til vísindarannsókna í landinu fari til þeirra rannsókna.

Eitt meginverkefni Hafrannsóknastofnunarinnar er að veita ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu veiðistofna. Ráðgjöfin byggir í fyrsta lagi á ákvörðun stofnstærðar, í öðru lagi á spá um þróun stofnstærðar og afraksturs næsta árs og í þriðja lagi nýtingarstefnu til lengri tíma. Að henni er unnið fyrir alla helstu nytjastofna á Íslandsmiðum og það er í samræmi við yfirlýsingar um sjálfbæra nýtingu fiskstofna og beitingu varúðarreglu við stjórn fiskveiða.

Úthald á Árna Friðrikssyni verður líklega 220--230 dagar á þessu ári samkvæmt upplýsingum Jóhanns Sigurjónssonar í sjútvn. í morgun og 20% þess tíma fer til loðnurannsókna. Spurningar hljóta að vakna í því samhengi um heimahöfn skipsins til að úthaldstíminn nýtist sem best. Skipið þarf að bregðast fljótt við eins og nú árar. Ekki er endilega víst að Reykjavík sé heppilegasta höfnin þegar svo horfir.

Hæstv. forseti. Það er ekki vilji útgerðarmanna og sjómanna að tekin sé óþarfa áhætta varðandi veiðarnar á loðnunni. Það hafa hins vegar heyrst háværar raddir um að halda beri rannsóknaskipunum betur og lengur úti til rannsókna á loðnu.

Þá hafa einnig komið fram tillögur um að með rannsóknaskipunum verði sendir vanir loðnustýrimenn. Það er auðvitað tillaga sem er allrar athygli verð því að reynsla sjómanna hlýtur að vera sérstaklega mikils virði þegar horft er til svo dyntótts fisks sem loðnan er.

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að Árni Friðriksson hefur nú verið sendur aftur af stað til mælinga sem sýnir að það er brugðist við þegar kallið kemur.