Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:55:26 (3951)

2004-02-09 15:55:26# 130. lþ. 60.1 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Formanni Samf. er ekki gaman í hug þegar hann talar um hæstv. landbrh. og hans ágæta ráðuneyti. Ég tek það alveg skýrt fram, út af fyrri ræðu hv. þingmanns, að ég er með engu móti að sneiða að hæstv. landbrh. Að vísu hefur það hent mig að orða það að lausn á ýmsum vanda ráðuneytisins fælist kannski í því að skipta um ráðherra. Ég er ekki að halda því fram í dag.

Hins vegar hef ég sjálfur reynslu af því að stunda rannsóknir, bæði á sjávarfiskum og fiskum úr fersku vatni. Það var gert á stórri rannsóknastöð í Bretlandi þar sem ég var um fjögurra ára skeið og þar unnu menn jöfnum höndum að þessu. Þær rannsóknir sem við stunduðum á eldi fiska beindust jöfnum höndum að sandhverfu, þorski --- sem við höfðum í vörslu okkar og náðum að koma upp hrygningu á og ala upp seiði og skilgreina ákveðin vandamál sem væntanlega hafa síðar verið leyst, eftir að minni þátttöku í þessu slotaði --- en jöfnum höndum unnum við að nokkuð mikilvægum rannsóknum á eldi laxfiska. Það var mín skoðun að rannsóknaratgervi þeirra merku fræðimanna sem ég var með nýttist ákaflega vel með þessum hætti. Ég er líka þeirrar skoðunar að eins og Hafrannsóknastofnunin er að þróast mundi það styrkja laxeldi mjög að eiga kost á að þroskast undir handarjaðri þeirra ágætu manna sem þar eru.

Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort Veiðimálastofnun eigi að fylgja eða ekki en ég hef verið þeirrar skoðunar að það væri ekki slæmt fyrir þá stofnun, sem mætti vera burðugri, ef hún kæmist undir styrkari stjórn og betra rannsóknarumhverfi sem væri öflugra og víðfeðmara. Það er mín skoðun.

Ég læt þessu svo lokið að þessu sinni, virðulegi forseti.