Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:00:16 (4076)

2004-02-11 14:00:16# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Í sl. viku var samþykkt á Alþingi breyting á lögum um fjármálafyrirtæki sem miðaði að því að koma í veg fyrir að sú samþjöppun færi á fulla ferð í bankakerfinu að sparisjóðirnir yrðu keyptir upp hver af öðrum og sameinaðir hinum þremur stóru viðskiptabönkum. Sjaldan hafa komið fram á Alþingi við afgreiðslu lagafrv. jafnskýr skilaboð til einnar atvinnugreinar um hver vilji Alþingis væri. Yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna úr öllum flokkum lagðist gegn því að bankarnir keyptu upp sparisjóðina og að það samþjöppunarferli færi af stað sem leitt gæti síðan til fákeppni á fjármálamarkaði hérlendis.

Stjórnarmenn bankanna hljóta að lifa í annarri veröld og öðrum veruleika ef þeim er ekki ljóst að sú valdablokk sem þeir boða með stefnu og sameiningu Landsbanka og Íslandsbanka er í andstöðu við vilja þings og þjóðar.

Hvar eru nú áformin um dreifða eignaraðild sem uppi voru á sínum tíma? Til viðbótar má minna á niðurstöðu samkeppnisráðs sem hafnaði þá sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka þar sem það hefði leitt til of mikillar samþjöppunar og markaðsráðandi stöðu, m.a. í innlánum og útlánum. Það varð niðurstaða á þeim tíma að samruni mundi hafa skaðleg áhrif á samkeppni og færi gegn ákvæðum samkeppnislaga. Landsbankinn og skyld fyrirtæki eiga nú þegar virkan eignarhlut í Íslandsbanka án þess að fyrir liggi samþykki Fjármálaeftirlitsins. Hvað veldur því að stjórnarmenn í bönkum og sparisjóðum horfa eingöngu til fjárhagslegs ávinnings, valda og eigin hagsmuna en skeyta lítt um virka samkeppni og dreifingu fjármálavaldsins? Hefur græðgin yfirstigið skynsemi þeirra? Hvar er þjóðarhagur í forgangsröðinni?

Gjafir voru sumum þegnum þessa lands gefnar með kvóta og einkavæðingu sem valdið hafa nýrri stéttaskiptingu þeirra ofurríku andspænis öðrum landsmönnum. Nú er rétt að stoppa við og skoða hvert við erum að stefna með okkar þjóð.