Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:05:07 (4078)

2004-02-11 14:05:07# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), DJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Dagný Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð hæstv. viðskrh. að sú umræða sem nú fer fram í þjóðfélaginu bendir til þess að viðskiptalífið fari of geyst og höggvi nærri íslenskri þjóðarsál. Vitaskuld er það rétt hjá hæstv. ráðherra að æskilegast sé að viðskiptalífið taki sér sjálft taki og leggi áherslu á að njóta trausts og trúnaðar fólksins í landinu. Með leyfi forseta:

,,Núverandi stjórnendum Landsbankans er ljóst, að vöxt atvinnulífs og aukna velferð er ekki að finna í garði nágrannanna heima á Íslandi. Tækifærin eru á erlendri grundu.``

Þessi orð lét aðaleigandi Landsbankans falla í ræðu sem hann flutti í Lúxemborg hinn 26. september sl. Í ljósi þeirra orða er framganga bankans í íslensku viðskiptalífi undanfarna mánuði illskiljanleg en hún nær nú hámarki með fréttum af því að Landsbankinn sækist eftir áhrifum í Íslandsbanka og stefni jafnvel að samruna fyrirtækjanna tveggja.

Virðulegur forseti. Ég lýsi eftir efndum hjá þeim aðaleiganda Landsbankans sem ég vitnaði til áðan. Það er tímabært að valdabaráttu og hjaðningavígum í viðskiptalífinu linni.